146. löggjafarþing — 73. fundur
 29. maí 2017.
heimagisting.
fsp. KJak, 500. mál. — Þskj. 699.

[12:31]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Á síðasta þingi var lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald breytt þannig að skilgreind var svokölluð heimagisting, þ.e. gisting sem maður býður í íbúðarhúsnæði, sem ekki er þá skilgreint sem atvinnuhúsnæði, gegn endurgjaldi. Voru þar sett ákveðin ákvæði, annars vegar skráningarskylda, sem gerir það að verkum að þeir sem vilja leigja fasteignir í eigin eigu til þess að bjóða til að mynda erlendum ferðamönnum þurfa að skrá slíka notkun. Sett er ákveðið hámark um að fjöldi útleigðra daga skuli ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári og samanlagðar tekjur af leigu skuli ekki fara yfir hærri tiltekna fjárhæð. Það á við um fasteign sem maður býr í sjálfur eða eina aðra fasteign sem maður á til eigin nota, ekki atvinnuhúsnæði, í báðum eignum.

Síðan voru sett inn í lögin ákvæði um skráningarskyldu hjá sýslumanni og hvað þyrfti til þess að slíkar eignir væru afskráðar. Það væri til að mynda ef viðkomandi aðili færi yfir þessa 90 daga eða fjárhæðin væri hærri eða eitthvað slíkt.

Þessi lög voru sett og samþykkt í tiltölulega góðri sátt á Alþingi, enda mjög mikilvægt að það sem við köllum í daglegu tali, Airbnb, sem er þá tilvísun í tiltekið fyrirtæki sem hefur verið þekkt fyrir slíka miðlun — þau eru auðvitað fleiri — og aðrar skráningar kæmu upp á yfirborðið til þess að af því væri þá greiddur eðlilegur skattur. Við erum nú með annað frumvarp í þinginu um skattheimtuna af slíkum rekstri. En um leið hefur maður orðið var við, og ég þykist vita að hæstv. ráðherra hafi heyrt í allmörgum í sambandi við það, að fólk hefur áhyggjur af því hvernig eftirlitinu er háttað með því að þessi ákvæði séu virk, hver nákvæmlega fylgist með því að maður fari ekki yfir 90 daga eða að fjárhæðin fari yfir tiltekin mörk.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hefur þessu eftirliti verið háttað og hvaða fjármagni hefur verið varið til slíks eftirlits? Telur hæstv. ráðherra að nægjanlega vel sé búið um þetta fyrirkomulag heimagistingar í núverandi lögum? Það sem við hv. þingmenn heyrum á fundum okkar víða um land er annars vegar að heimagisting, sem er að mörgu leyti frábær kostur og ég hef sjálf nýtt mér á ferðum mínum erlendis með mína stóru fjölskyldu, getur auðvitað valdið ónæði, til að mynda í fjölbýlishúsum, svo dæmi sé tekið. En auðvitað er þetta líka samkeppni við þá sem eru í gistihúsarekstri, þannig að það er mjög mikilvægt að mörkin séu virt.

Að lokum langar mig að spyrja ráðherra: Hvernig hefur þróunin verið í þeirri skráningu á heimagistingu, þ.e. urðu raunverulegar breytingar á þessum skráningum með þessum lögum?



[12:35]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn um málefni sem er full þörf á að ræða. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annast skráningu á og eftirlit með heimagistingu samkvæmt 38. gr. reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Frá áramótum hefur átt sér stað töluverð vinna við stefnumótun og innleiðingu eftirlitsins. Það hefur fyrst og fremst farið fram með því að móttaka og að bregðast við ábendingum um skráningarskylda starfsemi frá almennum borgurum og eftirlitsaðilum. Vinna stendur yfir við að innleiða virkt frumkvæðiseftirlit á landsvísu sem fer nær alfarið fram með rafrænum hætti.

Til að sinna umræddu verkefni er stefnt að því að kortleggja skammtímaleigu til ferðamanna á landinu öllu. Í því skyni mun sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu útbúa og viðhalda gagnasafni með upplýsingum um skráningar- og leyfisskylda starfsemi. Hann mun m.a. geyma upplýsingar um staðsetningu umræddrar starfsemi, nöfn rekstraraðila, netföng, fjölda gistirýma og fleira. Upplýsingar verða m.a. sóttar á bókunarvefjum á borð við, með leyfi forseta, þetta er víst allt á ensku: Airbnb, Home to Go, Booking, Bungalow, Rental Homes og rentinreykjavik.com. Líkt og hv. þingmaður kom inn á eru þetta fleiri aðilar en Airbnb sem við fjöllum hvað mest um.

Í mörgum tilvikum hafa þessar síður að geyma ónákvæmar og ófullkomnar eða villandi upplýsingar um staðsetningu og starfsemi eða rekstraraðila. Af þeim sökum kann að vera nauðsynlegt að afla frekari gagna, m.a. með könnun á markaðsefni og uppflettingum í opinberum og almennum gagnagrunnum og öðrum miðlum. Þá getur upplýsingaöflun kallað á lestur korta og yfirlitsmynda og auk þess verður unnið með upplýsingar sem berast frá almennum borgurum og eftirlitsaðilum.

Umrætt eftirlit á fyrst og fremst að eiga sér stað með rafrænum hætti. Þegar nægjanlegar upplýsingar liggja fyrir um skammtímaleigu á landsvísu verður unnt að samkeyra gögnin við áður birtar upplýsingar um útgefin rekstrarleyfi og skráða heimagistingu. Þá verður skorað á aðila sem standa að óskráðum rekstri að skrá starfsemi sína í samræmi við ákvæði laga áður en gripið verður til beitingar stjórnvaldssekta. Í einhverjum tilvikum mun sýslumaður síðan fylgja málum eftir með stjórnvaldssektum. Þær geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr.

Í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er að finna lagaheimild til að miðla upplýsingum úr nýtingaryfirlitum til skattyfirvalda. Hv. þingmaður spyr hvaða fjármagni hafi verið varið til þessa eftirlits. Ekki liggur fyrir nákvæm sundurliðun kostnaðar vegna hinna nýju verkefna en samkvæmt kostnaðarmati frumvarpsins sem gert var á sínum tíma var árlegur kostnaður metinn 30 millj. kr.

Varðandi spurninguna um hvort ráðherra telji að nægilega vel sé búið að fyrirkomulagi heimagistingar í núverandi lögum er stutta svarið að ég tel svo ekki vera. Það var meginmarkmið hinna nýju laga að einfalda meint flækjustig leyfisferlisins samhliða eflingu eftirlits í því skyni að fá leyfis- og skráningarskylda starfsemi upp á yfirborðið. Í breytingunum felst meðal annars að einstaklingar, hjón eða sambúðarfólk, sem ætla að bjóða upp á heimagistingu samkvæmt nýrri skilgreiningu þurfi aðeins að skrá sig rafrænt hjá sýslumanni en þurfi ekki lengur að fá rekstrarleyfi útgefið og fara í gegnum umsóknarferli samkvæmt lögunum. Þrátt fyrir breytingu á flokkun gististaða samkvæmt nýju lögunum hafa breytingar enn ekki verið gerðar er varða starfsleyfisskyldu gististaða hjá heilbrigðisnefndum. Gististaðir, þar með talin heimagisting, eru þannig áfram starfsleyfisskyldir. Í mínum huga blasir við að þetta kemur í veg fyrir að markmið með breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, um einföldunina, nái fyllilega fram að ganga.

Eins og við vitum liggur nú fyrir þinginu frumvarp um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir frá umhverfisráðherra, m.a. til að bregðast við þessu. Ég vænti þess og mér skilst að það frumvarp verði að lögum á yfirstandandi þingi til að einfalda skráningarferli og stýra rekstraraðilum inn í hinn rafræna skráningarvettvang. Þetta er mjög mikilvægt.

Það þarf auðvitað að meta hvort ekki þurfi að efla eftirlit enn frekar, t.d. hjá sýslumanni. Mér finnst það satt að segja blasa við að ekki sé nægilegt afl þar. Við þurfum þá að gera eitthvað í því. Það þarf að leggja aukinn kraft í að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi, t.d. þeim sem bjóða upp á gistingu í gegnum Airbnb eða sambærilegar síður en hafa ekki skráð eignir sínar eins og lög gera ráð fyrir. Slíkt er auðvitað óþolandi. Það skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja. Ég held að það sé mikilvægt að við lögum til í þessu.

Varðandi síðustu spurninguna, hver þróunin hafi verið, hefur skráningum í heimagistingu fjölgað samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar breytinga á lögum. Nákvæmar tölur fékk ég ekki en samkvæmt vef sýslumanns hafa verið staðfestar 389 skráningar það sem af er árinu 2017.

Ég bind vonir við (Forseti hringir.) að frumvarp umhverfisráðherra verði að lögum. Einungis þannig er hægt að ná fram markmiðum með fyrri lögum sem hafa verið samþykkt.



[12:40]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og ráðherra svörin. Ég ræddi þetta töluvert þegar málið kom fram á sínum tíma hjá þáverandi hæstv. ráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Það var akkúrat þessi eftirlitsþáttur sem við höfðum töluverðar áhyggjur af. Ég heyri ekki betur en að ráðherrann ætlist til þess að það sé frumkvæðiseftirlit hjá sveitarfélögunum en þau segja að þetta sé mjög erfitt, þau fái ekki tilkynningar um nýskráningar þannig að eitthvað er brogað gagnvart sveitarfélögunum. Síðan var lagt upp með 8 þús. kr. gjald sem einstaklingar áttu að borga, sem sagt að skrá sig og borga. Núna virðist það vera þannig að innheimtir eru hærri fasteignaskattar og annað slíkt sem var aldrei til umræðu þegar við fjölluðum um málið. Það hefur kannski m.a. orðið til þess að fólk kemur ekki upp á yfirborðið eins og lagt var upp með. Og svo er auðvitað bagalegt að sveitarfélög sem nánast höfðu lagt bann við að um skammtímaleigu yrði að ræða í íbúðakjörnum eru óvarin gagnvart þessu. Nú sitja þau uppi með að geta ekki gert neitt. Fyrir utan svo fyrirtæki sem eru í hinum (Forseti hringir.) dreifðu byggðum og eru jafnvel bara með rúmlega 90 daga leigurétt en borga samt full gistileyfagjöld.



[12:42]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og tek undir með hv. þingmanni sem talaði á undan. Ég held að mikilvægt sé að skoða samspilið við sveitarfélögin. Þróunin sem við sjáum er að verið er að nýta íbúðir í íbúðahverfum í slíka heimagistingu, vafalítið á einhverjum stöðum í mun lengri tíma en ætlast er til samkvæmt lögum. Það hefur mjög mikil áhrif á húsnæðismarkaðinn, ekki síst fyrir þá sem eru að reyna að brjóta sér leið inn á þennan erfiða húsnæðismarkað. Þess vegna held ég að við þurfum að huga að því líka hvaða tól og tæki sveitarstjórnir eiga að hafa til að geta haft stjórn á því hvernig íbúðaþróun verður innan þeirra marka. Við sjáum mjög víða í erlendum borgum að þar eru mjög ríkar heimildir til handa sveitarfélögum til að setja slíkar reglur.

Hæstv. ráðherra nefndi eftirlitsþáttinn sem ég spurði sérstaklega um. Það er auðvitað svo, en hún nefndi ábendingar frá almennum borgurum, að þessi mál eru eðlisólík því þegar um er að ræða atvinnustarfsemi. Það er annað, held ég, fyrir okkur flest að koma með ábendingar sem lúta að heimili fólks, nágranna okkar, en að gera athugasemdir við atvinnustarfsemi. Ég held að það sé mjög mikilvægt sem hæstv. ráðherra nefndi, þetta rafræna eftirlit, þ.e. samkeyrsla gagna af öllum þessum síðum með skráningargagnagrunni sýslumannsembættisins. Það hlýtur að vera framtíðin. Það er erfitt að leggja eftirlit í hendur fólks sem býr í næsta nágrenni og öll viljum við virða mörk einkalífs hver annars, eða vonandi flest.

Ég held að miklu skipti að eftirlitið verði í gegnum þessa skráningu. Hæstv. ráðherra nefndi frumvarp um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ég tel mig þekkja það að ætlunin er að ljúka þeim hluta þess sem lýtur að Airbnb. Það er mikilvægt ef það hefst. Hæstv. ráðherra nefndi að það yrði síðan að skoða þetta heildarumhverfi. Ég held að það sé mikilvægt (Forseti hringir.) sem hér hefur komið fram, að þáttur sveitarstjórna og sveitarfélaga í því verði skoðaður sérstaklega.



[12:44]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þeirra orð. Ég tek undir þau varðandi samspil við sveitarfélögin og tól og tæki þeirra. Það snýr nefnilega líka að eftirlitinu. Þess vegna hef ég velt því fyrir mér hvort það að eftirlitið sé hjá einu sýslumannsembætti sem er á höfuðborgarsvæðinu henti fyrir landið allt. Úti á landi eru tiltölulega lítil sveitarfélög og kannski á eftirlitið betur heima þar, þar er auðveldara að hafa yfirsýn yfir rekstur í bænum. En auðvitað er svarið og framtíðin að þetta þarf að vera rafrænt og um sé að ræða samkeyrslu gagna. Það er eina vitið.

Það er alveg rétt og þess vegna er þetta líka stórt mál að þetta snertir ekki bara samkeppnisstöðu í þessum atvinnurekstri heldur líka húsnæðismarkaðinn. Það er ekki hægt að taka þetta í sundur. Þetta hefur mikil áhrif, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Við sjáum að það virðist vera hagkvæmara fyrir fólk að leigja húsnæði í svona útleigu og þá, sérstaklega ef við búum ekki rétt um embættið sem á að vera með eftirlitið, fyllast auðvitað mörg pláss af ferðamönnum frekar en Íslendingum sem eru að reyna að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Það að hafa þessa hluti í lagi mun hjálpa á öðrum sviðum líka.

Rétt í lokin varðandi frumvarpið sem ég er ánægð að heyra að verði væntanlega að lögum er þetta önnur hliðin á peningnum. Það er erfitt að vera búin að samþykkja þessar reglur sem urðu að lögum á síðasta ári, en ekki undanþáguna sem umhverfisráðherra leggur fram því við náum ekki markmiðum (Forseti hringir.) hinna laganna nema þetta fylgist að. Það er alla vega gott að það sé komið. En ég tek undir að þetta kallar á mikla umræðu og við þurfum að gera betur.