146. löggjafarþing — 73. fundur
 29. maí 2017.
aðkoma Stjórnstöðvar ferðamála að ákvörðun um virðisaukaskattsbreytingu.
fsp. SSv, 508. mál. — Þskj. 718.

[12:46]
Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Það var töluvert haft fyrir því þegar Stjórnstöð ferðamála var sett á laggirnar með miklum myndatökum og skrautsýningum og var látið að því liggja að þar með væri þessi málaflokkur kominn í verðuga umgjörð, þ.e. þarna horfðist þáverandi ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir, í augu við það að þetta væri ekki bara mál eins ráðherra heldur margra, að málaflokkurinn væri þeirrar gerðar að hann kæmi inn á verksvið margra ráðherra og margra ráðuneyta. Það var auðvitað full ástæða til að fagna þeirri nálgun, enda er það svo að því miður hefur Stjórnarráð Íslands einkennst af því að það eru býsna þykkir veggir milli ráðuneyta og full ástæða til að innleiða meiri samþættingu milli ráðherra og ráðuneyta þegar um er að ræða mál af þessu tagi.

Síðan gerist það í tíð núverandi ríkisstjórnar að það er látið vita af þeim áformum að til standi að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Þetta er raunar í tillögu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að ríkisfjármálaáætlun til fimm ára. Kemur síðan í ljós, nánast um leið og hæstv. ráðherra gerir grein fyrir þessum áformum, að um þau er ekki sátt í ríkisstjórnarflokkunum og mjög mikil ósátt í ferðaþjónustunni sjálfri, bæði um innihald tillögunnar að hluta til og ekki síður um aðdragandann, og var meira að segja látið að því liggja að þetta hefði verið gert algjörlega án samráðs.

Maður myndi halda að Stjórnstöð ferðamála væri akkúrat vettvangurinn til að fara með svona áform í gegnum og fjalla um þau þar við alla þá ráðherra sem koma að málaflokknum en ekki síður með geiranum sjálfum, þ.e. ferðaþjónustunni. Því spyr ég ráðherrann: Hver var aðkoma Stjórnstöðvar ferðamála að ákvörðun stjórnvalda um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu? Ef hún var einhver, þá hversu mikil? Ef hún var engin, þá hvers vegna?



[12:49]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svarið er nokkuð skýrt: Aðkoma Stjórnstöðvar ferðamála að ákvörðun stjórnvalda um hækkun virðisaukaskatts var engin. Ég ætla að bæta við nokkrum orðum þrátt fyrir það. Með öðrum orðum kom málið aldrei til umræðu á fundum Stjórnstöðvar ferðamála áður en fjármálaáætlun var birt og kynnt. Forsvarsmönnum Samtaka ferðaþjónustunnar var hins vegar gerð grein fyrir því hvað til stæði stuttu — mjög stuttu — áður en þau áform um að færa hluta ferðaþjónustunnar í almennt virðisaukaskattsþrep voru kynnt opinberlega af forsætisráðherra. Eins og allir vita hafa samtökin verið afar gagnrýnin á ákvörðunina og m.a. gagnrýnt samráðsleysi við sig og greinina í aðdraganda ákvörðunarinnar, líkt og hv. þingmaður kom inn á.

Svo ég setji málið aðeins í samhengi er gott að rifja upp að þegar Stjórnstöð ferðamála var sett á laggirnar, tímabundið til ársins 2020, með samkomulagi stjórnvalda, sveitarfélaga og samtaka ferðaþjónustunnar haustið 2015 var hlutverk hennar hugsað til samhæfingar á aðgerðum og útfærslu leiða til að leggja þann trausta grunn sem kallað var eftir í ferðaþjónustu, sem hafði á undraskömmum tíma orðið ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Þetta skyldi gert í samvinnu við stjórnsýslu, sveitarfélög, stoðkerfi greinarinnar vítt og breitt um landið, greinina sjálfa og aðra hagsmunaaðila.

Að mínu mati hefur verkefnið tekist vel og umtalsverður árangur náðst á þeim skamma tíma sem í raun er liðinn frá því að stjórnstöðin var sett á fót.

Ég get vel skilið þá gagnrýni sem fram hefur komið um að greinin hefði viljað hafa aðkomu að þessari ákvörðun, en af hálfu stjórnvalda má segja að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að Stjórnstöð ferðamála hefði aðkomu að stefnumótun ríkisstjórnarinnar um eðlilega og áframhaldandi þróun og einföldun skattkerfisins.

Það er rétt að halda því til haga að til viðbótar við fyrirhugaða færslu á helstu flokkum ferðaþjónustu í almennt þrep virðisaukaskatts stendur til að lækka almenna þrepið, sem kemur íslenskum neytendum mjög til góða og er til þess fallið að lækka verðlag í landinu.

Rétt er að árétta að ákvörðun um þetta mál verður ekki tekin af Alþingi fyrr en með tekjufrumvarpi fjárlaga næsta vetur. Hér er um að ræða eina af forsendunum í fjármálaáætlun sem er til umfjöllunar hér á Alþingi. Málið fær sína þinglegu meðferð, hefur fengið umsagnir frá fjölmörgum aðilum, ekki síst aðilum í ferðaþjónustu, og sem kunnugt er hefur fjárlaganefnd komið á framfæri ýmsum sjónarmiðum sem ríkisstjórnin tekur til athugunar.

Þetta er hinn eðlilegi gangur og að sjálfsögðu verða þessi sjónarmið tekin til athugunar.

En svo ég árétti svar við spurningunni var aðkoma Stjórnstöðvar ferðamála að aðkomu stjórnvalda um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu engin. Það kom ekki til umræðu á fundum stjórnstöðvarinnar. Ég skil vel gagnrýni á skort á samráði. Eins og ég segi er þetta ein forsendna fjármálaáætlunar og öll útfærsla er eftir. Þetta mál hefur verið til meðferðar í þinginu og samtökin og aðrir hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Fjárlaganefnd hefur síðan beint því til ríkisstjórnar að taka þetta til nánari skoðunar og við gerum það að sjálfsögðu. Ég læt þetta duga.



[12:53]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Breytingar á virðisaukaskatti hafa eflaust áhrif á afkomu ferðaþjónustunnar. Ég ætla ekki að eyða þessum fáeinu sekúndum í að ræða það, heldur annað mál sem ég held að hafi mjög mikil áhrif á ferðaþjónustuna, þ.e. verðlagningu almennt á því sem að ferðaþjónustu lýtur; mat, drykk, gistingu, afþreyingu, bílaleigum og öðru slíku. Ég hef lengi haldið því fram að verðlag væri óeðlilega hátt á Íslandi á flestu af því sem ég hef nefnt. Ég held að það hafi í sjálfu sér jafn alvarleg eða mikil áhrif á framtíð ferðaþjónustunnar ef fram heldur sem horfir, að við höfum áfram þetta mjög svo háa og óeðlilega verðlag, einkum á sumrin þar sem menn eru að reyna að taka inn hagnað eða tekjur vegna þess hversu fáir ferðamenn hafa verið hér á veturna. Ég tel að þetta sé óeðlileg staða. Ég vil gjarnan heyra skoðun hæstv. ferðamálaráðherra á því.



[12:54]
Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það liggur sem sagt fyrir að ekkert samráð var haft við Stjórnstöð ferðamála, sem er þó samkvæmt lögum í grunninn samráðsvettvangur og þar á að vera heildstæð nálgun á þróun greinarinnar. Í raun og veru hefur Stjórnstöð ferðamála ekki nýst sem skyldi og er sniðgengin í þessari tilteknu ákvörðun stjórnvalda, enda skilur ráðherra gagnrýnina vel, eins og fram kemur í máli hennar.

Mig langar þá að spyrja í hið síðara sinn spurningar sem er bara blátt áfram. Hún er þessi: Er Stjórnstöð ferðamála til einhvers? Væri þá ekki heiðarlegast að leggja hana niður ef hún fjallar ekki um svona stór og mikil mál? Um hvað ætti hún þá að fjalla, á bara að taka myndir af henni? Er þetta bara skrautsýning eða er þetta til einhvers?

Hins vegar vil ég spyrja ráðherrann, það er kannski spurning sem brennur meira á þinginu akkúrat hér og nú. Ráðherrann tekur undir gagnrýni á að breytinguna varðandi virðisaukaskattinn á greinina hafi borið fullbratt að o.s.frv. og að samráðið hafi ekki verið nægilegt og því um líkt: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það sem út af stendur í fjármálaáætlun verði fjármagnað? Telur hún að niðurstaðan gæti orðið sú sama en bara með meira samráði við greinina, lengri aðdraganda o.s.frv., eða hefur hún aðrar hugmyndir um tekjuöflun fyrir ríkissjóð til þess að fjármálaáætlun sé í raun afgreidd í jafnvægi þegar allt kemur til alls?



[12:56]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Rétt varðandi spurningu hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar um verðlag. Það er erfitt fyrir mig að leggja dóm á það en auðvitað hef ég séð og heyrt um ýmis atriði hvað þetta varðar. Ferðaþjónustan verður að hafa í huga að verð og gæði verða að fara saman. Ef við ætlum að byggja upp ferðaþjónustu til framtíðar sem á að vera sjálfbær skiptir máli að hugað sé að því.

Hvað varðar hvort Stjórnstöð ferðamála sé til einhvers þá finnst mér blasa við að svo sé. Ég hef enga mynd tekið af Stjórnstöð ferðamála né öðrum viðburðum sem við höfum verið á. Við höldum vinnufundi og tökum ákvarðanir. Ég tók ákvörðun um að það væri fundur fyrsta þriðjudag hvers mánaðar. Þeir fundir eru ákvarðana- og vinnufundir. Það hefur margt áunnist þar þrátt fyrir þetta allt saman.

Varðandi það hvort ég sjái fyrir mér aðrar leiðir til að uppfylla það sem fjármálaáætlun þarf að uppfylla, eins og það sem vaskurinn ætti annars að skila, þá held ég að af þessari ákvörðun verði á endanum. Ég vinn a.m.k. samkvæmt því. Eins og ég segi beindi meiri hluti fjárlaganefndar ákveðnum atriðum til ríkisstjórnarinnar sem við skoðum. Það að þessu seinki til 2019 finnst mér bara gott. Það er ekki mjög heppileg tímasetning að taka inn í svona mitt tímabil breytingu sem síðan lækkar nokkrum mánuðum síðar. Ef forsendur fjárlaga leyfa það finnst mér jákvætt að við gerum það. Aðrar útfærslur og mögulegar mótvægisaðgerðir fyrir þau svæði sem þola verr þessa ákvörðun eru líka í vinnslu.