146. löggjafarþing — 74. fundur
 29. maí 2017.
almennar stjórnmálaumræður.

[19:36]
Forseti (Unnur Brá Konráðsdóttir):

Umræðurnar skiptast í þrjár umferðir og hefur hver þingflokkur tíu mínútur í fyrstu umferð, fimm mínútur í annarri og fimm mínútur í síðustu umferð.

Röð flokkanna verður þessi í öllum umferðum: Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Sjálfstæðisflokkur, Píratar, Framsóknarflokkur, Viðreisn, Samfylkingin og Björt framtíð.

Ræðumenn flokkanna verða:

Fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð tala Katrín Jakobsdóttir, 2. þm. Reykv. n., í fyrstu umferð, Svandís Svavarsdóttir, 2. þm. Reykv. s., í annarri en í þriðju umferð Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, 6. þm. Norðaust.

Ræðumenn Sjálfstæðisflokksins eru Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í fyrstu umferð, Hildur Sverrisdóttir, 8. þm. Reykv. s., í annarri umferð en í þriðju umferð Brynjar Níelsson, 1. þm. Reykv. s.

Ræðumenn Pírata eru Birgitta Jónsdóttir, 3. þm. Reykv. n., í fyrstu umferð, Gunnar Ingiberg Guðmundsson, 5. þm. Norðvest., í annarri en í þriðju umferð Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, 10. þm. Suðvest.

Ræðumenn Framsóknarflokksins eru í fyrstu umferð Sigurður Ingi Jóhannsson, 2. þm. Suðurk., Þórunn Egilsdóttir, 5. þm. Norðaust., í annarri og Elsa Lára Arnardóttir, 6. þm. Norðvest., í þriðju umferð.

Ræðumenn Viðreisnar eru í fyrstu umferð Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, Pawel Bartoszek, 11. þm. Reykv. s., í annarri og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, 13. þm. Suðvest., í þriðju umferð.

Fyrir Samfylkinguna tala Logi Einarsson, 9. þm. Norðaust., í fyrstu umferð, í annarri Guðjón S. Brjánsson, 8. þm. Norðvest., og í þeirri þriðju Logi Einarsson, 9. þm. Norðaust.

Fyrir Bjarta framtíð tala í fyrstu umferð Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, í annarri Theodóra S. Þorsteinsdóttir, 12. þm. Suðvest., en í þriðju umferð Nichole Leigh Mosty, 10. þm. Reykv. s.



[19:39]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það skal viðurkennt að þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð í janúar sl. eftir langar og strangar stjórnarmyndunarviðræður var það dálítið eins og kvöld á barnum þar sem menn hafa kannski vakað heldur lengi í von um enn meiri skemmtun seinna. En svo fóru ríkisstjórnarflokkarnir saman heim í eftirpartí sem hefur verið í ætt við önnur slík. Þegar partíið loksins hefst hefur þreytan náð yfirhöndinni, enginn man lengur væntingarnar frá því fyrr um kvöldið, fólk syngur, kannski þreytulega, ekki í takti, sumir eru svolítið fúlir með að hafa lent í þessu partíi en ekki einhverju öðru partíi. Og húsráðandinn er ekki heima, a.m.k. ekki í kvöld.

Er þetta nú sanngjarnt? hugsa einhverjir, a.m.k. hæstv. ráðherrar. En við verðum að meta þetta fyrsta misseri ríkisstjórnarinnar af verkum hennar og líka orðum forsvarsmanna hennar. Það voru stór mál á dagskrá fyrir kosningar. Viðreisn kom fram sem nýtt afl sem talaði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið, róttækum breytingum á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Einhvern veginn tókst húsráðandanum að tala Viðreisnarfólk inn á að geyma sitt stærsta mál þangað til seinna — líklega þangað til tími verður kominn til að hringja á leigubíl og fara heim.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talar af alkunnugum töffaraskap sem við kunnum mörg að meta en hefur enn ekki náð neinu fram nema því að færa skrifstofu sína vítt og breitt um landið sem er mikið tekið hjá nýrri stjórnmálaflokkum — hér áður fyrr hétu þetta heimsóknir.

Og umhverfisráðherra Bjartrar framtíðar talar djarfmannlega um loftslagsmál. Ég er sammála flestu af því sem hún segir um þau mál en enn höfum við ekkert í höndum — annað en blaðamannafund þar sem hálf ríkisstjórnin tilkynnti að hún hygðist vinna saman að aðgerðum um loftslagsmál — og við sem héldum að þau væru búin að segja það í stjórnarsáttmálanum. Nema að núna er það ekki öll ríkisstjórnin sem vinnur saman að loftslagsmálum heldur aðeins hálf.

Loftslagsmál þola enga bið, þar þarf skýra sýn um kolefnishlutlaust Ísland.

Gjaldmiðilsmálin sem voru aðalmál Viðreisnar og formanns hennar voru skyndilega færð yfir í hendur húsráðanda, enn og aftur, sem færði Seðlabankann og endurskoðun peningastefnunnar yfir til sín, skrifaði í erindisbréfið til nefndarinnar sem á að endurskoða þá stefnu að öll yrði sú endurskoðun að vera innan ramma krónunnar, svolítið eins og maðurinn sem alltaf setur leiðinlegt lag á fóninn til að ganga frá eftirpartíinu. Og hvað gerir maður þá annað en að draga fram djörfustu flíkina sem maður finnur í fataskápnum og bjóða sig fram í næsta lausa embætti, í þessu tilviki embætti formanns Hollvinafélags Menntaskólans í Reykjavík? Verst að hæstv. fjármálaráðherra sem leggur fram meiri niðurskurðaráætlun en við höfum áður séð gagnvart framhaldsskólum skyldi ekki átta sig á því hversu óviðeigandi þetta framboð var fyrr en framboðsfrestur var útrunninn.

Væntingarnar voru líklega ekki miklar en af meira en 100 málum á málalista ríkisstjórnarinnar eru heimturnar ekki miklar heldur. Innleiðingar á EES-málum hafa verið áberandi í störfum þingsins og fá stórpólitísk mál hafa komið til þingsins sjálfs fyrir utan fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Félags- og jafnréttismálaráðherrann byrjaði reyndar á því að kynna jafnlaunavottun í Ameríku. Hann átti sínar 15 mínútur af heimsfrægð og lét taka víkingaklappið fyrir sig. Talsvert seinna lagði svo ráðherrann málið fram í þinginu og hefur svo þrýst mjög á um að það verði klárað — enda væri annað frekar vandræðalegt — og það verður tekið til 2. umr. í þinginu ásamt mjög nauðsynlegum lágmarkslagfæringum því að þetta grundvallarmál Viðreisnar var undarlega illa undirbúið þegar það kom í þingið.

Ýmis mjög góð mál komu hins vegar seint inn í þingið sem útskýrir af hverju þurfti að fresta frekari vinnu við þau til haustsins. Má þar nefna ný lög um málefni fatlaðra og innleiðingu tilskipunar um keðjuábyrgð sem gengur reyndar mun skemmra en við Vinstri græn teljum rétt og eðlilegt. Nýr forseti þingsins hefur hins vegar með verkum sínum sýnt að ekki dugir að vera of seinn. Hún hefur ákveðið að starfsáætlun þingsins verði fylgt og setur þar með mikilvægt fordæmi til næstu ára.

Stærsta mál ríkisstjórnarinnar hefur hins vegar verið fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Og svo ég skilji ekki alveg við hina ágætu myndlíkingu frá í upphafi hefur umræðan um hana einmitt verið eins og partí þar sem reykingamennirnir norpa súrir úti á svölum, einhverjir eru inni í stofu að dansa við sænskt teknó og enn aðrir eru á trúnó inni í eldhúsi. Í þessu tilviki segir einn: Áætlunin? Þetta er nú bara lærdómsferli, þetta snýst ekki um niðurstöðu því að það á allt eftir að breytast. Annar segir: Áætlunin? Hún stendur, en henni verður ekki breytt nema í því sem ég er sammála. Og sá þriðji segir: Áætluninni verður ekki breytt.

Þetta lítur ekki gæfulega út, frú forseti.

Auðvitað er kannski ódýrt að henda gaman að því að enginn sé sammála í ríkisstjórninni. Við skulum vera sanngjörn, það er ekki eins og þeir sjö flokkar sem nú skipa Alþingi Íslendinga séu endilega sammála um allt en kannski er það einmitt vegna stóru átakalínanna sem eru að verða æ skýrari í íslenskum stjórnmálum og birtast svo ljóslega í fjármálaáætluninni. Þó að deilt sé um fjármálaáætlunina í partíinu virðast gestirnir sammála um eitt og það er sú mikla hægri stefna sem áætlunin boðar. Því að hverjar eru stóru línurnar í fjármálaáætluninni? Jú, hún er römmuð inn í strangar fjármálareglur sem eiga rætur að rekja til nýfrjálshyggju þar sem öll áherslan er á lækkandi hlutfall samneyslunnar. Það þýðir á mannamáli að draga úr þjónustu við almenning án sýnilegra markmiða eða ávinnings fyrir okkur sem myndum samfélagið á Íslandi.

Þingmenn og ráðherrar meiri hlutans tala um að fleiri krónur renni til ýmissa málaflokka en þegar hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu er skoðað er í þessari áætlun gert ráð fyrir að hún dragist saman. Hún er fjarri því að mæta þeim væntingum sem voru gefnar fyrir síðustu kosningar, ekki bara af forsvarsmönnum þeirra sem nú skipa minni hlutann á Alþingi heldur ekki síður af forsvarsmönnum meirihlutaflokkana á Alþingi. Það kemur ekki á óvart þar sem áætlunin boðar enn frekari skattalækkanir ofan á allar þær aðgerðir sem síðasta ríkisstjórn réðst í til að veikja tekjustofna ríkisins, allt í anda sömu frjálshyggjukredduhugsunarinnar sem ber mikla ábyrgð á vaxandi ójöfnuði um heim allan.

Hvað þyrfti að gera? Við þurfum að endurskipuleggja skattkerfið frá grunni. Hin raunverulega misskipting birtist í því hvernig auðæfin dreifast. Á Íslandi eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs. Kannski vill einhver hafa það þannig. Kannski vill ríkisstjórnin hafa það þannig. Ef við viljum það ekki þarf að endurskoða hvernig við skattleggjum fjármagnstekjur, skattleggja auð yfir ákveðnum mörkum og Ísland þyrfti að vera fremst í flokki í alþjóðlegu samstarfi ríkja um slíka skattlagningu. Að sjálfsögðu þarf að tryggja að arðurinn af auðlindum þessa lands renni af sanngirni til þjóðarinnar.

Við vitum alveg um hvað síðustu kosningar snerust. Þær snerust um endurreisn velferðarkerfisins eftir kreppu undanfarinna ára. Það er okkar sameiginlega verkefni, að reka hér öflugt heilbrigðiskerfi þar sem sjúklingar þurfa ekki að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á veikindi vegna of mikillar greiðsluþátttöku. Því miður gengur fjármálaáætlun út á að þetta greiðsluþak verður hærra en var boðað í því frumvarpi sem var samþykkt á sínum tíma á Alþingi, heilbrigðiskerfi sem er félagslega rekið því að við þurfum ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi. Fólkið í landinu vill ekki slíkt kerfi, ítrekað hefur það komið fram í skoðanakönnunum að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna vill félagslega rekið heilbrigðiskerfi, vel fjármagnað heilbrigðiskerfi. Um þetta fengu stjórnmálaflokkarnir allir skýr skilaboð fyrir kosningar, t.d. með undirskriftum 86.500 Íslendinga.

Við eigum að standa undir þeim væntingum að efla menntakerfið okkar, tryggja að það geti tekist á við þær miklu breytingar sem eru fram undan og gera öllum kleift að sækja sér menntun óháð aldri. Við eigum að fjölga nemendum en ekki fækka þeim eins og stefna ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir sem er því miður algjörlega metnaðarlaus, nánast eins og menntamálin hafi gleymst á leiðinni í partíið. Það eina sem virðist skipta máli er að stytta tímann sem tekur að veita menntunina en ekki menntunin sjálf. Auðvitað hljótum við að spyrja: Hvað hefur breyst frá síðustu samþykktu fjármálaáætlun þar sem menntamálaráðherrann var líka Sjálfstæðismaður, þar sem gert var ráð fyrir að þeir fjármunir sem spöruðust við styttingu námsins skiluðu sér inn í kerfið? En frá síðustu samþykktu áætlun eru fjármunir til framhaldsskóla skertir svo um munar, um 1.400 milljónir miðað við árið 2021. Hvað hefur breyst síðan í ágúst í fyrra? Er það tilkoma nýrra meðreiðarsveina Sjálfstæðisflokksins eða gafst menntamálaráðherrann bara upp?

Og framfærsla þeirra hópa sem veikast standa í samfélaginu? Ekki var nú lítið rætt um hana fyrir síðustu kosningar. Við eigum að tryggja öllum sem búa í þessu landi viðunandi og mannsæmandi framfærslu, hvort sem við tölum um laun öryrkja og aldraðra, lágmarkslaun eða atvinnuleysisbætur. Það er algjörlega óviðunandi að á tímum þar sem um fátt annað er talað en efnahagslegan uppgang sitji stórir hópar eftir, langt undir þeim viðmiðum sem stjórnvöld telja eðlileg til að standa undir framfærslu. Miðað við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hefur Öryrkjabandalag Íslands lagt á það mat að öryrkjar muni fá 288.000 kr., heilar, í mánaðarlaun árið 2022. Á ég að trúa því að þetta sé sýn þessarar ríkisstjórnar á kjör þessa hóps? Og ekki hyggst ríkisstjórnin bæta kjör þessara hópa með auknum húsnæðisstuðningi sem skerðist ár frá ári í fjármálaáætluninni.

Eftirpartí eru eðli máls samkvæmt þreytt þegar þau hefjast. Og þetta sem nú stendur yfir hófst mæðulega og ekki mun það batna, aðallega vegna þess að sameiningarþátturinn, límið sem heldur ríkisstjórninni saman, er sú hugmynd að árangur verði mældur í því ef samneyslan minnkar og minnkar og minnkar.

Það er aðkallandi að við breytum því hvernig við hugsum um samfélag. Samfélag er ekki bara bókhald sem þarf að stemma. Samfélag er undirstaða þeirrar velferðar sem við viljum búa fólkinu okkar. Samfélag er sáttmáli, grundvallaður á réttlæti og sanngirni þannig að þeir sem hafa mest leggi hlutfallslega meira af mörkum en þeir sem hafa minna á milli handa. Samfélag snýst um að tryggja öllum mannsæmandi kjör, tryggja öllum jöfn tækifæri. Baráttunni fyrir réttlátu samfélagi lýkur aldrei, en við getum gert svo miklu betur. — Gleðilegt sumar.



[19:49]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Kæru Íslendingar. Það eru miklar væntingar meðal landsmanna um aukna hagsæld og bætta afkomu íslensks almennings og eru þær væntingar endurómur af almennt góðri stöðu í íslensku efnahagslífi. Við finnum það sem betur fer langflest að eftir mögur ár er árangur ötuls starfs við endurreisn íslensks efnahagslífs að skila sér í hús af fullum krafti. Árangur okkar er eftirtektarverður og vekur athygli víða um heim. Styrk stjórn ríkisfjármála á undanförnum árum hefur lagt grunninn að árangrinum ásamt því að ytri skilyrði hafa verið okkur hagfelld. Með bættum efnahag þjóðarbúsins fylgja væntingar um aukin útgjöld til hinna ýmsu málaflokka.

Þessa mátti sjá stað við afgreiðslu síðustu fjárlaga þar sem útgjöld ríkisins voru aukin um 55 milljarða kr. frá árinu áður, en slík útgjaldaaukning á milli ára er einstök og óvarlegt að búast við henni á næstu árum. Í þeirri fjármálaáætlun sem rædd hefur verið á Alþingi undanfarið er til að mynda gert ráð fyrir u.þ.b. 20 milljarða árlegri útgjaldaaukningu.

Það er enginn vafi á því að okkur hefur miðað vel síðastliðin ár. Við Íslendingar upplifum nú lengsta stöðugleikatímabil í sögu þjóðarinnar sem sést m.a. á því að í 40 mánuði samfleytt hefur verðbólga í landinu verið undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Við höfum jafnframt orðið vitni að mestu kaupmáttaraukningu sem sögur fara af á umliðnum árum. Þessi góða staða er ekki sjálfsögð. Við sjáum það best á því að við í þessu tilliti skerum okkur úr miðað við þær þjóðir sem við berum okkur gjarnan saman við. Þrátt fyrir þetta er okkur fullljóst að við eigum enn nokkuð í land á ýmsum sviðum og það bíða okkar ýmis krefjandi verkefni við að svara kröfum samfélagsins um úrbætur.

Það er skýrt kveðið á um það í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að meginverkefni hennar er að stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, í samgöngum, í heilbrigðis- og menntakerfi og kraftmiklu samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um allt land. Ríkisstjórnin er staðföst að fylgja eftir ábyrgri stefnu sinni sem mun skapa grunn að enn frekari hagsæld en við búum við í dag.

Þrátt fyrir hagstæð skilyrði og styrka stjórn landsmála þá er alveg ljóst að aðstæðurnar í þjóðfélaginu eru mjög krefjandi og ríkisstjórnarinnar bíða mörg erfið verkefni. Við þessar aðstæður er nauðsynlegt að sýna ábyrgð og ráðdeild í opinberum fjármálum og við verðum að temja okkur öguð og gagnsæ vinnubrögð í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu. Ef okkur tekst þetta munum við uppskera blómlega tíma, skapa samfélag sem býður þeim kynslóðum sem nú eru að vaxa úr grasi fjölbreytt tækifæri, bæði til menntunar og til fjölbreyttrar atvinnuþátttöku.

Það er alltaf gott að minnast uppruna síns. Ef við lítum um öxl er ekki annað hægt en heillast af því hverju þessi fámenna þjóð í stóru harðbýlu landi hefur áorkað. Árangurinn er engin tilviljun. Íslendingar eru dugmikið fólk sem unnið hefur ötullega að markmiðum sínum, en einnig vegna þess að sú meginstefna og framtíðarsýn um þjóðfélagsskipanina sem hér hefur verið rekin á síðustu áratugum hefur borið árangur. Leiðarljósið í þeirri vegferð hefur verið frelsi einstaklingsins til orða og athafna sem leyst hefur úr læðingi krafta sem hafa smitað út frá sér.

Að hafa þá framtíðarsýn að sem flestir hafi tækifæri til atvinnu hefur leitt það af sér að atvinnuþátttaka fólks á Íslandi á sér vart nokkra hliðstæðu meðal annarra þjóða. Lykilatriðið í þessari vegferð er stefna sem mörkuð var fyrir nærri hálfri öld um skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda okkar. Sú stefna hefur lagt grunninn að öflugu samfélagi, samfélagi sem er traustara en nokkru sinni áður. Þetta höfum við gert á okkar eigin forsendum. Í samstarfi við erlenda aðila eftir því sem við hefur átt að við byggjum á einhæfu atvinnulífi í verðmætasköpun í landinu. Nú eru stoðirnar fleiri og sterkari.

Sú skynsamlega ákvörðun sem tekin var fyrir meira en hálfri öld um að virkja fallvötnin og fá til liðs við okkur stóra kaupendur að orkunni olli straumhvörfum í íslensku samfélagi. Okkur hefði verið nánast ómögulegt að svara kalli nútímans um orkuskipti með rafvæðingu landsins án þess að til þessa hefði komið. Nú hálfri öld síðar borgum við lægsta raforkuverð sem þekkist meðal þjóða sem við berum okkur saman við.

Það má líka líta á þetta í öðru samhengi, öðru ljósi. Ef við horfum til frænda okkar í Danmörku þar sem búa tæplega 6 milljónir manna, eða 17 sinnum fleira fólk en við Íslendingar erum, þá gerum við okkur betur grein fyrir því hvílíku grettistaki hefur verið lyft hér á landi á umliðnum árum og áratugum. Við verðum að hafa þetta í huga og vera með þessar staðreyndir að leiðarljósi þegar við hugum að framtíðinni. Við eigum að láta framsýni forvera okkar verða okkur sjálfum að hvatningu til góðra verka íslensku samfélagi til hagsbóta.

Það þarf enginn að efast um að sú stefna sem hér hefur verið rekin í fiskveiðistjórnarmálum hefur reynst þjóðinni happadrjúg. Allt frá því einkaframtakið var leyst úr læðingi fyrir áratugum hefur þróunin verið í rétta átt. Með tækniframförum bæði til lands og sjávar hefur verðmætasköpun stórvaxið og er nú með því besta sem þekkist á alþjóðavettvangi. Við höfum um árabil deilt um það hvernig haga skuli gjaldtöku af þessari atvinnugrein umfram aðrar. En sjávarútvegurinn greiðir nú þegar hæstu gjöldin sem nokkur atvinnugrein greiðir í opinbera sjóði. Nú á að fara af stað með tilraun til að leita sátta um það hve mikið greininni er ætlað að greiða til samneyslunnar. Við skulum öll leggjast á eitt um það að ná þeirri sátt, það á ekki síst við greinina sjálfa, en á sama tíma á að forðast að leika okkur með eitt helsta fjöregg okkar til þess að þjóna óljósum tilfinningalegum markmiðum.

Bæði sjávarútvegur og landbúnaður hafa verið grundvöllurinn að byggðafestu hér á landi um aldir, en nú eru breyttir tímar. Við verðum að horfa til nýrra tækifæra. Byggðastefna hefur verið grunnstef í stefnu Sjálfstæðisflokksins sem og að skapa landsmönnum jöfn tækifæri til athafna. Við Sjálfstæðismenn erum þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið svo nýta megi krafta einstaklinganna til fulls. Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða öflugs velferðarkerfis.

Það er stefna ríkisstjórnar á hverjum tíma sem ræður því hvert þjóðinni er stefnt. Treystir hún eingöngu á forsjá sína og heftir þegnana við að bjarga sér eftir því sem þeir best geta, eða treystir hún fyrst og fremst á frumkvæði og kraft borgaranna til að skapa sjálfum sér tækifæri í stað þess að leggja fyrir þá hömlur og hindranir? Um þetta hefur verið tekist á í íslenskum stjórnvöldum í gegnum tíðina. Það er gæfa þessarar þjóðar að sú stefna varð ofan á sem raun ber vitni. Það er sú stefna sem hvetur einstaklingana til dáða.

Við horfum þessa dagana á ákveðna umbyltingu í íslenskri verslun. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að erlent stórfyrirtæki opnaði nýlega verslun í Garðabæ og annað er á leiðinni hingað til lands. Hér á ég við Costco og H&M. Jafnvel þó að heyrist gagnrýnisraddir hér úr þinginu sem og annars staðar í samfélaginu þá er engum vafa undirorpið að aukin samkeppni á smásölumarkaði ætti að verða íslenskum neytendum veruleg kjarabót. Því ber að fagna og undrast í raun um leið þau forpokuðu sjónarmið sem frá gagnrýnendum koma. Það er engin tilviljun að þessi fyrirtæki horfa nú til Íslands og ákveði að hefja hér starfsemi. Hér hefur niðurfelling tolla og vörugjalda, sem síðasta ríkisstjórn stóð fyrir og var reyndar gagnrýnd hér á Alþingi af þáverandi minni hluta, haft úrslitaáhrif. Þessi fyrirtæki væru ekki að koma nema þau skref hefðu verið stigin á síðasta kjörtímabili. Þetta sýnir okkur það að við þurfum að skapa vettvang til þess að verslun og atvinnustarfsemi almennt geti blómgast í okkar landi. Við þurfum að skapa það umhverfi sem er samkeppnishæft gagnvart öðrum löndum.

Annað dæmi um furðulega skammsýni og pólitískt trúarofstæki er andúð vinstri manna á einkarekstri ýmsum eða sjálfstætt starfandi rekstri. Þetta á til að mynda við um ýmsa starfsemi á heilbrigðissviði. Hvaða vit er t.d. í því að senda fólk utan í liðskiptaaðgerðir á einkasjúkrahúsum, svo því sé haldið til haga, með ærnum tilkostnaði fyrir samfélagið, þegar hægt er að gera þessar aðgerðir ódýrari á Íslandi? Við berum þá ábyrgð að setja hagsmuni sjúklinga í forgang. Er það að setja hagsmuni sjúklinga í forgang að þeir þurfi að leita til útlanda eftir þjónustu sem er í boði hér út af forpokuðum sjónarmiðum? Fólkið í landinu vill öfluga þjónustu þar sem farið er vel og fengið sem mest fyrir það fjármagn sem skattborgararnir leggja til þessa málaflokks.

Ábyrgð okkar alþingismanna er að sönnu mikil og væntingar sem gefnar eru á Alþingi stundum meiri en við blasir að raunhæft sé að standa við. Samþykkt samgönguáætlunar sl. haust er ágætis dæmi um þetta. Þar berum við alþingismenn mikla ábyrgð.

Það er mikið rætt um að auka þurfi virðingu Alþingis. Það er ekki vanþörf á. Góð byrjun væri held ég að þingmenn temdu sér að gæta hófs og samkvæmni í málflutningi. Það er borin von að þingið nái að endurvinna traust á meðan talað er út og suður í sumum málum. Sem dæmi um það kemur það fram í einu virtasta tímariti í heimi á vettvangi heilbrigðismála að íslenskt heilbrigðiskerfi sé í 2. sæti á heimsvísu. Gefur þetta okkur ekki tilefni til að staldra við í umræðunni um stöðu heilbrigðismála á Íslandi? Ef marka má umræður og umsagnir margra um heilbrigðismál mætti ætla að hér væri allt í kaldakoli. Það er tímabært að við hættum að tala okkur niður þó við vitum að við eigum enn óloknum verkefnum á svo mörgum sviðum. Það er allt í lagi að gagnrýna, en það er ástæðulaust að tala allt niður í svaðið. Það eykur sannarlega ekki virðingu Alþingis þegar slíkar raddir heyrast úr þessum ræðustól.

Í umræðum á Alþingi síðustu daga hefur verið kallað eftir því að ríkisstjórnin segi af sér og boðað verði til kosninga. Skyldi það nú reynast heilladrjúgt fyrir þjóðina? Allir flokkar reyndu fyrir sér um stjórnarmyndun með einum eða öðrum hætti með árangri sem þarf ekki að rifja upp. Núverandi stjórnarflokkar náðu saman um stefnu þar sem fylgt er eftir góðum árangri fyrri ríkisstjórnar af ábyrgð.

Um kröfu stjórnarandstöðunnar er það að segja að það hefur aldrei þótt hyggilegt að hafa hestaskipti í miðri á, hvað þá að reyna það þegar enginn annar hestur er tiltækur. — Góðar stundir.



[20:02]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Kæru landsmenn. Margir gleyma því að lögin sem Alþingi samþykkir og hefur samþykkt sí og æ, ár eftir ár, geta haft verulegar áhrif á veruleika manna, á hið daglega amstur. Lög ráða því hvernig nánast allt sem við gerum í lífinu er framkvæmt, hvað má, hvað má ekki, hvaða réttindi við eigum og hvaða réttindi eru afnumin. Öllu nýju er umsvifalaust markaður staður í litla lagaboxinu.

Gleymum svo ekki öllum þessum óskráðu séríslensku meginreglum, eins og með samráð og samkeppni. Verðlagssamráð er meðal þessara óskráðu reglna í fákeppnissamfélagi og ekkert við því að gera, er mér sagt af sama fólkinu og er alltaf að tala um að samkeppni sé smurningin í hinni kapítalísku vél. Þetta fólk vill einkavæða allar okkar sameignir fyrir skammtímagróða. Þetta fólk vill líka einkavæða grunnstoðirnar til að samkeppnin geti nú boðið upp á betri þjónustu, vandlega studda af skattpeningum ykkar.

Ég hef ekkert orðið vör við að hér sé nein alvörusamkeppni. Raðsmáskilaboð með nákvæmlega sömu tilboðunum á nákvæmlega sama tíma sýna svo ekki verður um villst að þetta er og hefur verið blekking frá upphafi til enda. Ég hef fylgst grannt með umræðunni og sér í lagi upplifuninni af Costco meðal almennings. Í Facebook-grúppu með yfir 63.000 eru allir að hjálpast að, deila verði og myndum frá Costco og samkeppnisaðilum þeirra, fyrir og eftir.

Það er stórmerkilegt að sjá þessa skyndilegu og auknu neytendavitund og meðvitundina um þann mátt samstöðu sem fólk er að fatta. Næsta bylgja samstöðu og hjálpsemi af þessu tagi gæti auðveldlega orðið um laun og launatengd réttindi, nú þegar margir samningar eru að fara að losna. Þó má ekki gleyma því að mikil samstaða myndaðist um að verja heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Á fjölmennasta undirskriftalista lýðveldisins var krafa um endurreisn heilbrigðiskerfisins korteri fyrir kosningar. Flokkarnir allir lofuðu að gera slíkt og samt lætur ríkisstjórnin eins og það skipti engu máli eftir kosningar. Þjóðin hefur nefnilega ítrekað hafnað einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.

Samstöðuna og samvinnuna sem við sjáum örla á er mjög mikilvægt að halda áfram að þroska og þróa, sér í lagi vegna þess að mörg teikn eru á lofti um að við séum á hættulegum stað í hagsældarbólu, bólu sem hafði mjög jákvæð áhrif rétt eftir hrun, en neikvæð áhrif þenslunnar eru farin að láta á sér kræla. Það er eðli bóluhagkerfis að það hjaðnar yfirleitt annaðhvort með hagstjórnarverkfærum eða, eins og við þekkjum það, með hvelli. Bólur eru líka stundum graftarkýli og graftarkýli þarf stundum að stinga á og hreinsa vel og vandlega með sótthreinsandi efnum. Bólur hafa líka tilhneigingu til að koma aftur og aftur ef engu er breytt og nú erum við stödd á þeim stað að það sem hafði frábær áhrif til skamms tíma er farið að valda verulegu tjóni til framtíðar og eiginlega ekkert hægt að gera nema búa sig undir að hún springi og hvað við getum gert ef það gerist.

Mig langar svo að gera eitthvað magnað með ykkur, vera tilbúin fyrir þessa bólu sem springur með kistu hugmynda og útfærslna að betra samfélagi ef allt hrynur saman aftur eins og gerist oft á Íslandi. Lýðræðið krefst nefnilega hugsjóna, alúðar og bíræfni, enginn hefur nokkru sinni fengið réttindi án fyrirhafnar. Alvörumannréttindi kröfðust baráttu og samstöðu sem tók oft áratugi að ná fram. Ný lýðræðisverkfæri sem nú þegar hafa verið mótuð bíða eftir að við tökum þau upp. Við þurfum bara að byrja aftur og upp á nýtt og vita að æfingin skapar meistarann. Við fundum moldina, iðandi af lífi og nýja Ísland var þarna handan við hornið og bíður enn.

Það er þannig að við Píratar viljum nýjan jarðveg því að það er ekki hægt að uppræta spillingarrótina með því að krafsa bara í yfirborðið. En ég skil og virði djúpstæðan óttann við breytingar. Breytingar eru nefnilega óvissa og óvissa er stundum lamandi og óþægileg. Það lærði enginn að synda með því að æfa sundtökin á árbakkanum. Það er bara hægt að læra að synda almennilega ofan í vatninu sem er aldrei eins djúpt nema þetta staðnaða og fúla.

Við Píratar boðuðum kerfisbreytingar í aðdraganda kosninga, við sýndum í verki að við þorðum að fara út fyrir hefðirnar, kölluðum eftir bindandi samkomulagi flokka fyrir kosningar um að hverju þeir gætu unnið saman eftir kosningar. Því miður svöruðu ekki kallinu allir þeir flokkar sem boðið var til samráðs. Það kallar nefnilega á hugrekki að sýna hvernig veruleikinn er þegar málamiðlanir eru einu valkostirnir í fjölflokkastjórn. Málamiðlanir sem kjósendur eiga rétt á að vita fyrir fram.

Ég held að við værum með betri ríkisstjórn ef það hefði gengið eftir og hinir hefðu þorað. Þá væru ekki svona margir vonsviknir eins og gerist alltaf eftir kosningar.

En Píratar vildu þá og vilja enn gjaldfrjálsa og örugga heilbrigðisþjónustu fyrir alla, óháð búsetu, þeir vilja stöðva fjársvelti heilbrigðis- og menntakerfis, færa tannlækna- og sálfræðiþjónustu inn í almannatryggingakerfið, hætta að refsa veiku fólki, vilja gera tilraunir með borgaralaun og stytta vinnuvikuna.

Píratar vildu og vilja enn lögfesta málskots- og frumkvæðisrétt þjóðarinnar með nýrri stjórnarskrá, auka aðkomu borgaranna að ákvarðanatöku samfélagsins með virku lýðræði, efna loforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB, styrkja borgararéttindi með sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga og styrkja nýsköpun í lýðræði með stafrænum lausnum og öðrum verkfærum upplýsingasamfélagsins.

Píratar vildu og vilja enn stórefla upplýsingarétt borgaranna með gagnsærri stjórnsýslu, opna bókhald hins opinbera fyrir almenningi og styrkja þær stofnanir er standa vörð um hagsmuni almennings.

Píratar vildu og vilja enn uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá af því að hún svarar kalli þjóðarinnar um nýjan samfélagssáttmála, hún færir auðlindir í þjóðareign, hún tryggir mikilvæg réttindi eins og réttinn til bestu mögulegu heilsu, hún færir almenningi aukið vald og stuðlar þannig að virkara lýðræði af því að hún tryggir ábyrgð stjórnvalda gagnvart kjósendum.

En það breytist ekkert nema að það sé alvöruþrýstingur á þingið utan frá. Rétt eins og Costco er að þrýsta verðinu niður í öðrum búðum sem utanaðkomandi aðili er þrýstingur frá almenningi það sem þarf til að búa til réttlátara samfélag, þrýstingur frá ykkur á okkur hér á þingi.

Við Píratar ætlum að nýta sumarið til að hlusta á ykkur, fólkið í landinu, og finna hvað það er sem brennur á ykkur og sameinar ykkur. Við viljum hjálpa til við að búa til farveg fyrir hugsjónir ykkar og vonum að aðrir flokkar taki höndum saman með okkur á þeirri vegferð. Framtíðin er óskrifað blað sem þarf á rödd ykkar og hugsjón að halda til að geta orðið alvöruvegvísir fyrir okkur, fulltrúana ykkar.

Látið endilega í ykkur heyra því að við þurfum aðhald og við þurfum ykkur.



[20:11]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Þegar farið er yfir það í fljótheitum hvert við stefnum sem þjóðfélag er ekki alveg augljóst hver niðurstaðan verður. Það kann að vera að stjórnarmeirihlutinn sé með það á hreinu en ég stórefast um að svo sé. Mig langar að nefna nokkur dæmi:

Á að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og taka gjald af ferðamönnum — eða ekki? Er verið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna — eða ekki? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að fjármagna uppbyggingu samgangna, veggjöld eða ekki? Hversu mikið ætlar ríkisstjórnin að einkavæða í skólakerfinu? Gjaldmiðilsmál; króna eða ekki króna? Hvernig á fjármálakerfið að vera?

Þetta eru bara nokkur dæmi um það sem ríkisstjórnin hefur verið að fást við á undanförnum mánuðum en enginn virðist vita hvert beri að stefna. Og reyndar er það ekki bara svo, heldur virðist sem einstaka ráðherra virðist ekki hafa hugmynd um hvert hann stefnir.

Ég leyfi mér sérstaklega að nefna hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann kemur af fjöllum þegar rætt er um að verið sé að einkavæða í heilbrigðisþjónustunni, segir lögin óskýr og þar fram eftir götunum. En hver er hans pólitíski vilji? Hvert telur hann heppilegt að stefna? Mér vitanlega hefur það ekki komið fram með skýrum hætti. Það sem hann hefur þó sagt um þetta kom fram í viðtali við ráðherra á dögunum. Þar sagði hann að það væri ekki endilega plottað um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þar höfum við það. Hann aftekur ekki með öllu að sú sé raunin.

Ég held að það gæti verið ágætt fyrir ráðherra að reyna að átta sig á því fyrr en síðar hvort eitthvað sé að gerast á hans vakt sem hann kærir sig ekki um. Það getur varla talist ofrausn af hálfu manns sem talar um ný vinnubrögð að samtal um aukið einkaframtak í heilbrigðisþjónustu sé tekið við þjóðina, þótt í litlu væri.

Frú forseti. Sé gengið til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn þarf að hafa afl til að standa í lappirnar. Slíkt afl hefur mér sýnst að viðhengin tvö, Björt framtíð og Viðreisn, hafi ekki. Viðreisn er útibú frá Sjálfstæðisflokknum, Björt framtíð virðist svo vera orðin útibú frá Viðreisn. Og í 11 manna ríkisstjórn sitja sex Sjálfstæðismenn, sem sagt meiri hluti við ríkisstjórnarborðið. Fyrir ekki svo löngu síðan voru níu af þeim sem eru ráðherrar nú í Sjálfstæðisflokknum.

Þótt ekki sé langt liðið á kjörtímabilið virðist ljóst að hver stefnir í sína átt og það leiðir hugann að gjaldmiðilsmálum, eða öllu heldur því stefnuleysi sem virðist ríkja. Krónan er framtíðargjaldmiðill Íslands, segir forsætisráðherra. Fjármálaráðherrann talar krónuna hins vegar niður hvenær sem færi gefst. Það er merkilegt að upplifa það að fjármálaráðherra landsins skuli vera svo taktlaus að tala niður gjaldmiðil þjóðarinnar á erlendum sem innlendum vettvangi. Það má vera að ófyndin framsetning hans í ástarjátningu til evrunnar sé fyndin í þröngum hópi Viðreisnar, en ég hygg þó að fleiri séu undrandi á þessari framkomu.

Frú forseti. Það er eitthvað bogið við það, í fullri alvöru, að fjármálaráðherra skuli reyna eftir fremsta megni að koma hér á myntráði sem líklega á að ljúka með upptöku evru. Hann segist áhyggjufullur vegna styrkingar krónunnar en gerir ekkert, hreint ekki neitt, enda veit hann sem er að liður í því að koma hér á myntráði og svipta íslensk stjórnvöld ráðum á eigin mynt verður auðveldara því minna sem hann aðhefst.

Það verður að segjast alveg eins og er, frú forseti, að það virðist vera lítill dugur í hæstv. forsætisráðherra þegar kemur að þessum efnum eða það væri gaman að fá svar við því frá hæstv. ráðherra, þótt ekki verði það í kvöld, hvort hann sé sammála fjármálaráðherra um að best sé að gera ekki neitt, taka upp myntráð og fórna forræði á eigin mynt. Ætlar ríkisstjórnin að marka sér einhverja stefnu í þessum málum? Jú, sett er á laggirnar nefnd um endurskoðun peningastefnu. Hvort mun hún fylgja stefnu forsætisráðherra eða fjármálaráðherra?

Á meðan stjórnarherrar fljóta sofandi að feigðarósi boðar Seðlabankinn að hann sé hættur reglulegum kaupum á gjaldeyri. Hafi verið þörf á að kaupa gjaldeyri fram til þessa er alveg augljóst að þörfin er meiri nú en nokkru sinni.

Fram hefur komið í fréttum að svo virðist sem vaxtamunarviðskipti séu að ná sér á strik á ný og ég veit fyrir víst að það setur hroll að mörgum við þær fréttir, enda höfðu þau viðskipti örugglega mikið um það að segja hversu illa fór haustið 2008. Síðasta ríkisstjórn var með ákveðin úrræði til að bregðast við þess háttar viðskiptum.

Frú forseti. Ég tel að hér verði að gera mun meira og reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að fjármagn flæði óhindrað til landsins með tilheyrandi áhættu fyrir þjóðarbúið. Ef það er eitthvað sem læra má af bankahruninu 2008 er það það að mikið innstreymi af erlendu fé til vaxtamunarviðskipta mun alltaf koma okkur í koll. Enn og aftur eru það allt of háir vextir sem virðast vera undirrót vandans.

Á hvaða vegferð er fjármálakerfið á vakt núverandi ríkisstjórnar? Engri sérstakri, held ég að lýsi því best.

Á dögunum komu hingað áhugasamir erlendir kaupmenn og sögðust hafa keypt Arion banka. Úr herbúðum ríkisstjórnarinnar heyrðust fagnaðaróp og hér sagðir alvörufjárfestar á ferð sem væru að veðja með Íslandi en ekki á móti, þetta væru tímamót, mikil tímamót. Í hvaða skilningi eru það tímamót að erlendir vogunarsjóðir, sumir með vafasama og glæpsamlega fortíð, skuli vilja eignast hér banka og reka? Er mönnum ekki sjálfrátt? Og hefur ríkisstjórnin sett það niður fyrir sér hvernig fjármálakerfið á Íslandi á að vera? Hefur ríkisstjórnin einhverja hugmynd um það eða á að láta „markaðinn“ um þetta eins og fleira?

Það er í raun merkilegt til þess að hugsa að almenningur og ríkið skuli hafa verið nógu góð til að taka á sig stóran skell við hrun bankanna en svo virðist ríkisstjórninni standa á sama hvernig fjármálakerfið eigi að líta út.

Og meira af afrekum ríkisstjórnarinnar. Menntamálaráðherra er að einkavæða framhaldsskóla án umræðu á Alþingi. Þegar upp komst harmaði hann ótímabæra umræðu um breytingarnar fyrirhuguðu, það voru hans viðbrögð, sem sagt að einhver skyldi vilja ræða hvort færa skyldi Fjölbrautaskólann við Ármúla inn í einkarekstur. Það voru alveg ótrúlega furðuleg viðbrögð. Hvenær átti að ræða og hverjir máttu ræða breytinguna? Allt gerist þetta á vakt ríkisstjórnar sem boðað hefur ný og vandaðri vinnubrögð og minna fúsk.

Hér er rétt að staldra við og spyrja: Hvert ætlar ríkisstjórnin með menntakerfið? Eigum við að ræða það eða er bannað að ræða það? Ótímabært?

Frú forseti. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er eins og hún er. Eins og á öllum tímum vantar sífellt meira fé. En ríkisstjórnin virðist ekki ætla að bregðast við vegna skorts á uppbyggingu innviða. Enn vantar milljarða króna í heilbrigðiskerfið, samgöngur og menntamálin, svo aðeins sé minnst á það sem hæst ber. Helst er að skilja að ríkisstjórnin vilji hraða einkavæðingu í þessum geirum. Hennar áætlun virðist vera að láta fólkið bara greiða meira fyrir þjónustuna fyrst það endilega þarf á henni að halda.

Málflutningur samgönguráðherra er náttúrlega sá sem best passar í þessum efnum þegar hann segir: Ef þið viljið meira skuluð þið borga meira, og það fyrir þjónustu sem ég hygg að flestir séu sammála um að ríkið eigi að greiða og að menn séu með sköttum og gjöldum af eldsneyti búnir að greiða í ríkissjóð nú þegar.

Góðir landsmenn. Það er til önnur leið, leiðin sem er kennd við blandað hagkerfi. Stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í dag er að lækka vexti og stuðla að mjúkri lendingu hagkerfisins. Til þess eru til úrræði, til að mynda stofnun stöðugleikasjóðs sem myndi nýtast sem eitt hagstjórnartækið til viðbótar þeim sem fyrir eru, endurskoðun peningastefnu sem hafi það m.a. að markmiði að gengið sé stöðugt, vextir sambærilegir við önnur lönd. Það er hægt að setja á gjaldtöku í ferðaþjónustu, komu- eða brottfarargjöld og breyta gistináttagjaldi. Það er skynsamlegt að fjárfesta í innviðum víða um land þar sem engin þensla er án þess að blása í þenslubóluna.

Okkur ber að varðveita og byggja upp velferðarkerfi í landinu sem ríkisvaldið ber ábyrgð á sem byggir á traustum atvinnugreinum, nýjum sem gömlum. Við eigum að tryggja að samfélagið reki sams konar heilbrigðiskerfi fyrir alla. Heilsufar er ekki markaðsvara. Sama gildir um menntun. Jafnrétti til náms þarf að ríkja. Við eigum að nýta allar okkar auðlindir með sjálfbærum hætti og m.a. þannig koma að liði við loftslagsmálin. Það er til önnur leið en ríkisstjórnin er að fara, það er leið skynseminnar. Þá leið viljum við Framsóknarmenn fara. — Þakka þeim sem á hlýddu. Gleðilegt sumar.



[20:21]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Undanfarna daga höfum við Íslendingar verið minntir rækilega á gildi frjálsrar samkeppni og alþjóðavæðingar til þess að bæta lífskjör okkar. Samt sjáum við á hverjum degi fjölmarga berjast gegn tímans þunga nið, þeir ríghalda í allt gamalt og formæla breytingum þó að þær horfi til heilla.

Íslendingar voru svo heppnir á árum áður að framsæknir foringjar voru í stjórnmálum, menn sem þorðu að leiða þjóðina til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi með vinaþjóðum, samstarfi sem hefur orðið öllum til góðs. Þar nægir að nefna aðildina að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en AGS leiddi okkur út úr hruninu, og NATO sem hefur tryggt frið í Vestur-Evrópu allt frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Ekki má gleyma aukaaðildinni að Evrópusambandinu í gegnum Evrópska efnahagssvæðið en með henni höfum við bæði náð hagstæðum viðskiptum við 500 milljóna samfélag og þiggjum þaðan stóran hluta af okkar löggjöf.

Ég tel lítinn vafa á því að myntsamstarf þar sem gengi krónunnar væri bundið við evru myndi leiða til þess að útflutningsatvinnugreinar okkar, t.d. hugbúnaðargerð, tæknifyrirtæki, sjávarútvegur og ferðaþjónusta, stæðu miklu betur en raun ber vitni.

Stundum virðist náttúrulögmál að engu megi breyta í samfélaginu. Vilmundur heitinn Gylfason talaði á sínum tíma um varðhunda valdsins.

Þorgeir heitinn Kjartansson, vinur minn, skrifaði örsöguna Menn:

„Menn skiptast í tvennt: harmavalda og gæfusmiði. Harmavaldarnir eru ágengir, metnaðarfullir og stjórnsamir. Gæfusmiðirnir eru fjölbreytilegir og hógværir. Nánar þarf ekki að lýsa þeim. Ljósti af einhverri ástæðu saman harmavaldi og gæfusmiði þá hugsar gæfusmiðurinn sem svo: Eins og Platón lít ég svo á að illskárra sé að vera kúgaður en að kúga. Íslendingar orðuðu þetta fyrrum svofelldlega: Sá vægir sem vitið hefur meira.“

Núna segjum við: Freki karlinn ræður, freki karlinn sem engu vill breyta og allt þykist vita. Hann segir: Þó að allt stefni í óefni skulum við aldrei, aldrei víkja frá þeirri stefnu sem ég hef ákveðið að sé rétt.

En nú eru nýir tímar og ég segi: Köstum af okkur fjötrum fortíðarinnar, verum óhrædd við að hugsa málin upp á nýtt.

Frú forseti. Sagt er að glöggt sé gests augað. Mér finnst að sumu leyti eins og ég hafi komið hingað sem gestur á Alþingi sl. haust. Þó að ég hafi í áratugi horft á Alþingi utan frá hefur mér gefist tækifæri til þess að fylgjast með og taka þátt í störfum þess í hálft ár. Smám saman verður maður samdauna því sem fyrir er og fyrstu kynni verða bara einu sinni. Margt er prýðilegt í störfum þingsins, ekki síst það sem ekki sést. Það kann að koma mörgum áhorfendum á óvart en hér er í raun og veru ágætur andi oftast nær. Í nefndum þingsins eru mál oftast vandlega skoðuð, leitað utanaðkomandi álits, sérfræðingar og hagsmunaaðilar kallaðir fyrir, og eftir vandlega rýni eru gerðar breytingar, oftast til batnaðar. Þar vinna meiri og minni hluti saman að því að ná sem vandaðastri útkomu. Auðvitað eru deilur um sumt, eðli málsins samkvæmt, en ég fullyrði að í meðförum nefnda sé reynt að sníða vankanta af málum og að um það náist að jafnaði góð samvinna. Sem ráðherra hef ég þurft að vinna með þeim nefndum þar sem mín frumvörp eru til meðferðar og ég hef náð afar góðri samvinnu við fulltrúa bæði úr meiri og minni hluta.

Stundum eru umræður í þingsal fróðlegar og þingmenn greinilega vel undirbúnir og hafa margt til málanna að leggja. Það spillir ekki fyrir þegar umræður eru skipulagðar með ákveðnum hætti. Ég get nefnt fyrri umræðuna um fjármálaáætlun þegar annar dagurinn fór í að ræða áætlunina almennt og þann seinni svöruðu ráðherrar hver fyrir sinn málaflokk.

Enn meira gagn væri að umræðum á Alþingi, ef þingmenn temdu sér þá vinnureglu að tala ekki nema þeir teldu sig eitthvað hafa til málanna að leggja, nýttu ekki alltaf þann tíma sem þeir hafa lengstan heldur einbeittu sér að því að koma sínum skoðunum og ábendingum á framfæri á hnitmiðaðan hátt. Með skipulegum vinnubrögðum má gera umræðuna í þessum sal miklu markvissari en hún er nú.

Engin ástæða er til að gera lítið úr því að ríkisstjórnir, bæði sú sem nú starfar og margar fyrri, leggja mörg mál fram seint. Í ár átti ríkisstjórnin þá afsökun að hafa tekið við á óvenjulegum tíma, en í framtíðinni verðum við að kappkosta að koma frumvörpum tímanlega til þingsins. Þá á ég ekki við 31. mars sem er síðasti dagur til framlagningar frumvarpa án afbrigða samkvæmt þingsköpum. Alþingi þarf að fá góðan tíma til að fara yfir málin. Þannig mætti fastsetja meðferðartíma og áætlaða afgreiðslu þannig að mál dreifðust jafnar yfir veturinn. Forseti Alþingis og formenn nefnda myndu í sameiningu skipuleggja starfið þannig að vinnuálag dreifðist og ekki væri verið að afgreiða öll frumvörp í hönk á síðustu dögum þingsins. Okkur þingmönnum væri sómi að því að taka upp vinnubrögð af þessu tagi.

Góðir landsmenn. Viðreisn boðaði fyrir kosningar nokkur meginmál sem við leggjum þunga áherslu á innan stjórnarsamstarfsins. Við viljum að á Íslandi sé sanngjarnt landbúnaðarkerfi þar sem bæði er tekið tillit til hagsmuna bænda og neytenda. Við viljum ná sátt um markaðsleið í sjávarútvegi. Við viljum stöðva ofris krónunnar og festa gengi hennar í gegnum myntráð. Fátt rímar betur saman en krafan um almennar skattareglur og stöðugan gjaldmiðil. Rauður þráður í gegnum allan okkar málflutning er: Almannahagsmunir framar sérhagsmunum. Allir þeir sem aðhyllast frjálsa samkeppni hljóta að taka undir þetta. Oftar en einu sinni hefur reynt á þetta slagorð okkar. Í sjómannaverkfallinu stóð Viðreisn gegn sérstökum skattaívilnunum til sjómanna. Við berum mikla virðingu fyrir sjómönnum og störfum þeirra en allir eiga að sitja við sama borð í skattamálum. Við viljum líka hætta skattaívilnunum til ferðaþjónustunnar. Auðvitað er það sanngjarnt að stærsta greinin sé í sama rekstrarumhverfi og aðrar greinar. En sanngirni er ekki einu rökin því að breyting á virðisaukaskatti mun bæði gefa færi á að lækka almennt þrep skattsins, almenningi til hagsbóta, og hægja á vextinum á fjölda ferðamanna til landsins. Þessi hraði vöxtur veldur því að krónan hefur styrkst svo mjög að hún ógnar hag allra útflutningsgreina í landinu.

Samkeppnishæfni greina verður aldrei tryggð með mismunandi skattareglum heldur með því að skapa heilbrigt rekstrarumhverfi fyrir allar greinar. Allir gleðjast yfir því þegar vel gengur í ferðaþjónustu en ef Viðreisn vill vera sjálfri sér samkvæm berst hún gegn sérhagsmunum allra, líka sérhagsmunum vina sinna.

Góðir landsmenn. Nú eru blikur á lofti í alþjóðamálum. Merkel Þýskalandskanslari boðar að Evrópulönd geti ekki lengur reitt sig á Bandaríkin. Íslendingar kynntust því árið 2008 þegar við þurftum á hjálparhönd að halda að Bandaríkjamenn ýttu okkur frá sér. Þeir líta greinilega svo á að ef á móti blæs eigi Íslendingar að leita til Evrópu. Evrópuþjóðirnar töldu aftur á móti að við værum ekki í þeirra liði.

Nú hefur bilið milli austurs og vesturs aukist enn. Augljóst er að hinn nýkjörni Bandaríkjaforseti hefur ekki skilning á mikilvægi þess að viðhalda góðum samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu vestan Rússlands. Varnarlaus smáþjóð þarf traustan bandamann. Þegar Bandaríkin segja pass verðum við að efla tengslin við bræðraþjóðir í Evrópu. Það er ekki um aðra bandamenn að ræða.

Við Íslendingar höfum borið gæfu til þess að hafna öfgaöflum sem hafa víða náð miklum styrk, öfgaöflum sem vilja loka landamærum og hafna frjálsum viðskiptum. Í heimi lýðskrumaranna þurfa frelsi, jafnrétti og bræðralag að víkja fyrir höftum, forréttindum og hatri.

Á Íslandi er meiri jöfnuður en í nágrannalöndunum, heilbrigðiskerfið er í fremstu röð í heiminum og í framhaldsskólum aukum við framlag á nemanda um 300.000 kr. í fjármálaáætlun sem hér liggur fyrir.

Góðir landsmenn. Munum að þó að margt sé gott á Íslandi getum við gert enn betur. Göngum því glöð út í sumarið, óhrædd við breytingar til framfara.



[20:31]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það er forvitnilegt fyrir nýjan þingmann að horfa nú um öxl. Það var súrt að ekki skyldi hafa tekist að mynda stjórn um kerfisbreytingar, réttláta meðferð auðlinda, nýja stjórnarskrá og framtíðartilhögun peningamála sem tryggði jafnari lífskjör og stöðugra efnahagslíf. Og það var skúffandi og um leið ótrúlegt að sjá flokka sem fyrir kosningar töluðu fyrir slíkum málum henda loforðum sínum í ruslið í skiptum fyrir fáein misseri í ríkisstjórn.

Stærstu vonbrigðin eru þó að horfa upp á fullkomið skilningsleysi stjórnarinnar gagnvart þeim sem minnst hafa á milli handanna, svik á stórfelldri uppbyggingu innviða og algert metnaðarleysi þegar kemur að því að búa okkur undir þær stórkostlegu breytingar sem eru handan við hornið. Við megum ekki festast í viðbragðsstjórnmálum þar sem metnaðurinn snýst aðeins um að lágmarka tjónið þegar skaðinn er skeður.

Samfélag okkar stendur frammi fyrir gríðarlegri tæknibyltingu sem mun gerbreyta þjóðfélaginu. Nýja iðnbyltingin er að þessu leyti frábrugðin þeim fyrri, nú mun tæknin ekki einungis leysa vöðvaafl af hólmi heldur hugaraflið að einhverju leyti. Gervigreindin gefur vélum áður óþekkta hæfni. Þær eru farnar að tala, hlusta og skilja. Þurfa ekki daglega stjórn frá mönnum til að leysa flókin og margbreytileg verkefni og störf sem bæði háskólamenntaðir og minna menntaðir sinna í dag, munu að einhverju leyti hverfa.

Þótt tæknin hafi verið í stöðugri þróun er ýmislegt sem bendir til að í hinum stafræna, vel tengda heimi muni þessar breytingar gerast á ógnarhraða, hraðar en nokkru sinni fyrr. Þessi nýi veruleiki gefur okkur vissulega tækifæri til meiri samskipta við fjölskyldu, vini og auknar frístundir. Þá felast í honum miklir möguleikar fyrir mannkynið allt. Skipting gæða milli ríkari og fátækari hluta heimsins getur orðið jafnari, vistvænni framleiðsla og mikilvæg viðbrögð við loftslagsvánni. Sem sagt: Friðsæll og betri heimur.

En af honum geta líka stafað ógnir. Það þarf að kortleggja hvaða störf breytast, tapast og hvaða ný störf verða til. Hindra þarf að hagnaður slíkrar hagræðingar lendi allur hjá eigendum fyrirtækja. Slíkt myndi aðeins leiða til enn meiri misskiptingar og gera okkur vanmáttug til að standa undir almannaþjónustu. Menntun er langmikilvægasti undirbúningur okkar fyrir slíka framtíð. Skapandi hugsun og tölvufærni munu verða lykilþættir í þróun atvinnulífsins.

En ekkert í stefnu ríkisstjórnarinnar mætir þessu. Framlag til framhaldsskóla, háskóla og nýsköpunar eru í engu samræmi við það sem þurft hefði að vera. Áfram verða íslenskir háskólar hálfdrættingar á við systurskóla á Norðurlöndunum. Loforð um að framhaldsskólarnir njóti hagræðingar vegna styttingar þeirra var svikið. Fleiri hundruð milljónir verða nú hrifsaðar úr skólunum á næstu árum og komið hefur í ljós að hér var um sparnaðaraðgerð að ræða, engin áform um að bæta skólastarf.

Þegar rætt er hins vegar um styttingu náms má líka spyrja hvort við séum að sníða fólki of þröngan stakk. Er rétt að herða svo á kröfum um námsframvindu að ekki gefist tími til að njóta lífsins, sinna tómstundum eða prófa sig áfram á þessu mikilvæga þroskaskeiði?

Frú forseti. Ríkisstjórnin hlustar heldur ekki á þjóðina þegar kemur að heilbrigðismálum. Hún hunsar vilja 92% sem vilja aukna fjármuni í málaflokkinn og skellir skollaeyrum við þeim 86% sem telja að heilbrigðiskerfið eigi að vera félagslega rekið. Opinberu heilbrigðiskerfi er haldið við sultarmörk meðan fjármunir renna ljúflegar í einkarekstur án þess að sýnt sé fram á hagkvæmni slíks. Þar er kraninn opinn. Ríkisstjórnin er tilbúin til að borga eftir hendinni þegar læknar sinna einkarekstri og senda reikning, en opinberum stofnunum er gert að hagræða. Landspítalinn er orðinn svo heit kartafla að stjórnin getur ekki haldið á henni lengur. Hún ræður ekki við reksturinn og sér þá einu lausn að setja pólitíska agenta yfir stjórn spítalans til að fela vandræðaganginn.

Þrátt fyrir þá staðreynd að margt sé vel gert í heilbrigðismálum þjóðarinnar er æpandi sú staðreynd að það fjölgar enn þeim sem ekki hafa efni á að leita sér læknisþjónustu.

Góðar samgöngur og fjarskipti eru ekki bara spurning um öryggi. Í þeim felst jöfnun búsetuskilyrða og mikilvægur stuðningur við atvinnuuppbyggingu. Það er ótækt að ekki sé staðið við þau loforð sem allir flokkar gáfu fyrir kosningar. Sú uppbygging er nefnilega fyrirtaksleið til að huga að hinu smáa í atvinnulífinu. Hún gagnast alls staðar, ekki síst litlum fyrirtækjum. Þannig erum við líklegust til að styrkja byggðir landsins, reisa þeim öflugar, traustar stoðir og glæða lífi. Örvun lítilla fyrirtækja hefur ótvíræða kosti. Uppbyggingin er ódýr, áhættulítil, þarfnast lítillar yfirbyggingar, fólk getur starfað við það sem hugurinn girnist og byggt fyrirtækin upp hratt, hægt, allt eftir smekk.

Þessi fyrirtæki fylla líf fólks af ánægju, sem er gott fyrir fjölskyldulífið, sem smitar út í samfélagið og styrkir byggðirnar. Það þarf að ráðast strax í þessar framkvæmdir og renna stoðum undir ferðaþjónustu um allt land. En eina ráð ríkisstjórnarinnar er að selja mikilvægar og vel reknar einingar, svo sem Keflavíkurflugvöll, til að fjármagna uppbygginguna. Sama vitleysan birtist reyndar líka í áformum um einkavæðingu Fjölbrautaskólans við Ármúla. Stjórnin ræður illa við ríkisreksturinn, hún er föst í gömlum hægri tuggum sem hafa afsannað sig allar. Því að sífellt fleiri alþjóðlegar rannsóknir sýna að aukinn jöfnuður er farsælasta leiðin til að skapa kraftmikið samfélag velsældar og friðar. Það er því óþolandi að ríkisstjórnin noti ekki skattkerfið og markaðstengd auðlindagjöld til að auka jöfnuð og gefa öllum færi á jafnri þátttöku.

Í fjármálaáætlun er meira að segja fullyrt að skattlagning sé andstæða frelsis. Hvaðan kemur sú furðulega hugmynd? Samneysla skapar þvert á móti flestum landsmönnum frelsi. Hún tryggir stærstum hluta almennings áhyggjulítið og innihaldsríkt líf. Við gætum þó með sanngjarnara skattkerfi gert enn betur. Hægt væri að tryggja öllum betri skólagöngu, ódýrari heilbrigðisþjónustu, áhyggjulaust ævikvöld og svo margt annað. Án samneyslunnar værum við líka mjög illa varin þegar óhöpp henda, eins og því miður hendir flesta á ævinni. Í henni birtist líka það fallegasta í mannlífinu: Samkennd og samhjálp.

Þess vegna fullyrði ég á móti: Skattgreiðslur eru skynsamlegasta fjárfesting langflestra Íslendinga.

Með aukinni velsæld landsins hafa viðmið fyrir það sem er nauðsynlegt breyst. Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman og við sættum okkur ekki lengur við að eiga eingöngu til hnífs og skeiðar og öruggt húsaskjól. Við þurfum líka fóður fyrir andann. Því verða stjórnvöld líka að hafa metnað fyrir hönd íþrótta, menningar og lista. Ekki líta á það sem einhvern lúxusvarning eða afgangsstærð. Öll börn og unglingar eiga að hafa jafnan aðgang án tillits til efnahags foreldra.

Frú forseti. Saman komumst við á lappir eftir hrunið á undraskömmum tíma. En það er ekki síst að þakka stórkostlegum fórnum almennings. Enn súpa allt of margir seyðið af því. Við erum á leið upp úr öldudal en allt of margir eru enn í lágbárunni og eiga langt í land. Við þurfum nú öll að hjálpast að. Það má enginn vera skilinn eftir. En það er aumt til þess að vita að á einu lengsta samfellda hagvaxtarskeiði landsins telji ríkisstjórnin að það sé ekki svigrúm til þess.

Umfram allt þurfum við að haga efnahagsstjórn okkar með þeim hætti að við siglum lygnari sjó. Við þurfum að viðurkenna að félagslegur stöðugleiki er ekki andstæða efnahagslegs stöðugleika heldur hvort tveggja forsenda þess að hér verði ró á vinnumarkaði. Þá þurfum við að ræða gjaldmiðlastefnu landsins af yfirvegun og með rökum en ekki úr gömlum skotgröfum. Við þurfum stjórnvöld sem trúa á mátt samhjálparinnar og þora að afla tekna hjá þeim sem auðveldlega geta lagt meira af mörkum í þágu þeirra sem höllum fæti standa og samfélagsins alls. Við þurfum stjórnvöld sem nýta hinn frjálsa markað þar sem það á við en standa þéttan vörð um mikilvæga almannaþjónustu.

En að lokum, frú forseti: Við þurfum nýja ríkisstjórn sem hefur meiri framsýni, meiri kjark, fleiri gæfusmiði.



[20:40]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ástkæra Alþingi. Þið sem heima sitjið. Við nálgumst nú lok þingvetrar sem hefur verið einn sá óvenjulegasti í seinni tíð. Niðurstöður kosninga í október voru óljósar. Upp úr kössunum bárust miklar vendingar í fylgi. Sögulegur fjöldi sjö flokka hlaut kosningu. Niðurstöðurnar skiluðu engri skýrri mynd af sjálfsögðum meiri hluta eins og við eigum að venjast, enda tók við langt tímabil stjórnarmyndunarviðræðna fram og til baka þangað til ný ríkisstjórn var loks mynduð í upphafi janúar. Í millitíðinni hafði Alþingi samþykkt fjárlög fyrir árið 2017 án skýrs meiri hluta.

Við í Bjartri framtíð hlutum ágæta kosningu í október miðað við nýjan flokk sem var að fara í gegnum sínar aðrar kosningar og rysjótt gengi í skoðanakönnunum. Við áttum kannski ekki von á því fyrir fram, en það kom í ljós að við áttum lykilhlutverki að gegna við að mynda meiri hluta fyrir ríkisstjórn. Kannski eðlileg staða fyrir frjálslyndan miðjuflokk annars staðar, en splunkuný staða fyrir Bjarta framtíð.

Við ákváðum að taka þessa ábyrgð alvarlega. Við tókum þátt í formlegum viðræðum við nær alla flokka á þingi, enda trúum við á það að við höfum verið kosin til þess að hafa áhrif, að við höfum verið kosin til þess að axla ábyrgð. Við í Bjartri framtíð erum ánægð með þær áherslur sem koma fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Við gerum okkur ljósa grein fyrir því að við erum að starfa með ólíkum flokkum, að við ráðum ekki öllu ein, að við þurfum að gera málamiðlanir hægri/vinstri, bæði milli ríkisstjórnarflokka, en líka við aðra þingmenn og flokka á Alþingi. Samstarf ríkisstjórnarinnar hefur gengið vel og það sama á almennt við um samstarf á þinginu.

Það eru mörg þjóðþrifamál sem lítill ágreiningur er um í íslenskum stjórnmálum. Alþingi hefur sýnt það trekk í trekk síðastliðinn vetur að við berum gæfu til þess að geta hafið okkur yfir flokkadrætti í þágu góðra mála. Það er gott og það er alls ekki sjálfsagt. Þrátt fyrir það sem stundum heyrist er íslenskum stjórnmálum ekki alls varnað. Við eigum að vera stolt af þessu. Við eigum að nýta þetta sem hvatningu til þess að gera betur. Það er oft sagt að það þurfi tvo í tangó. Á þessu þingi þarf fleiri en það til að mynda meiri hluta og dansa. Það er vissulega flækjustig en það er vel þess virði þegar vel tekst til.

Á dögunum sat ég árlegt þing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO í fyrsta skipti sem heilbrigðisráðherra Íslands. Það var stór stund og merkileg upplifun að hluta til, því það er langt í frá sjálfsagt að vera fulltrúi Íslands á alþjóðavettvangi en ekki síður er merkilegt að spegla sig í alþjóðlegu samhengi. Íslenska sendinefndin sat við hlið Indverja, næstfjölmennustu þjóðar heims með allar sínar áskoranir. Fyrir framan okkur sátu fulltrúar hinnar lokuðu og dularfullu Norður-Kóreu og lýðveldisins Kongó, sem hefur undanfarið glímt við enn einn ebólu-faraldurinn með góðum árangri í þetta skiptið.

Það var fróðlegt að bera saman bækur okkar við kollega nær og fjær. Þótt við glímum við stórar og alvarlegar áskoranir hér á Íslandi bæði í heilbrigðismálum sem og í öðru, þá er ljóst að okkar staða er að mörgu leyti góð, vandamálin oft yfirstíganleg í samhenginu og tiltöluleg samstaða eða a.m.k. nokkur friður um ansi mörg grundvallarmál.

Eftir að hafa heyrt sjónarmið fulltrúa 190 ríkja varð mér enn og aftur ljóst að enginn er eyland í heilbrigðismálum, faraldrar virða ekki landamæri, það gera loftslagsmálin heldur ekki. Í æ ríkari mæli gera efnahagsmál og aðrar hliðar mannlífsins það ekki heldur. Ríkt og friðsælt land eins og Ísland ber ekki bara ábyrgð gagnvart sjálfu sér. Okkar frjálslynda, sköpunarglaða og jafnréttissinnaða þjóðfélag býr yfir miklum styrk og í mjög mörgu erum við fyrirmynd annarra. Við eigum að byggja á því sem er gott og gera betur. Í þessu felst heilmikil ábyrgð. Björt framtíð vill bera ábyrgð. Við erum ekki í keppni hver hefur réttast fyrir sér. Við erum ekki í stjórnmálum til þess að keppast um vinsældir eða völd í þágu sérhagsmuna. Þess vegna sóttumst við eftir því að vinna að heilbrigðismálum og umhverfismálum og erum stolt af því að stýra þeim ráðuneytum.

Heilbrigðismálin eru augljóslega sá málaflokkur sem íslenskur almenningur ber helst fyrir brjósti enda augljóst að þar er verk að vinna. Ég hef lagt áherslu á að vinna heildstæða stefnu um heilbrigðisþjónustuna þvert á stofnanir og þjónustustigin. Áherslan á mönnun heilbrigðisstétta, eflingu heilsugæslunnar, þróun fjarheilbrigðisþjónustu og geðheilbrigðismálin eru mikilvæg. Lýðheilsa fléttast inn í ólík málefni. Hún kemur við skipulagsmál, matvælaframleiðslu, umhverfismál, almenningssamgöngur, skóla o.s.frv.

Það er ekki á annað hallað þótt bygging nýs Landspítala sé sett á oddinn. Ríkisstjórnin hefur einsett sér að ljúka byggingu fyrstu áfanga á næstu árum. Það verður eitthvert mesta grettistak í íslenskum heilbrigðismálum í marga áratugi. Það er verk að vinna og gott að vita af breiðum stuðningi við þessa uppbyggingu.

Umhverfismálin eru mál framtíðarinnar. Það sem við gerum eða trössum í dag mun gagnast eða koma í hausinn á komandi kynslóðum. Loftslagsmálin eru í deiglunni vegna mikilvægis en líka vegna þess að þau þarf að vinna á mjög breiðum grundvelli. Þau snerta marga ef ekki flesta málaflokka. Umhverfismálin eru risastór og þau eru líka smá. Það er ánægjulegt að sjá fleiri og fleiri setja þau á oddinn þvert á aldur, búsetu og stjórnmálaflokka. Umhverfismálin og íslensk náttúra eru enda ekki eign eða séráhugamál neins eins eða neinna einna. Það er leitun að skýrari almannahag þegar við horfum á málaflokkana.

Það er stundum haft á orði að stjórnmálamenn hljóti völd og ríkisstjórnir sitji að völdum. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að völd og ábyrgð er að mörgu leyti tvær hliðar á sama peninga. Völd eru til lítils eins og sér. Völd eru fyrst og fremst tæki til þess að axla ábyrgð.

Við kjörnir fulltrúar erum í þjónustustarfi fyrir almenning. Vissulega erum við kosin til að fylgja ákveðinni stefnu, til að framfylgja okkar áherslum. En gleymum því aldrei að okkar hlutverk er að þjóna almannahagsmunum, líka hagsmunum þeirra sem ekki kusu okkur. Þetta á bæði við okkur sem stöndum að ríkisstjórninni eins og þingmenn annarra flokka. Við vorum kosin hingað á Alþingi Íslendinga til ábyrgðar, kosin til að gera gagn og koma í veg fyrir ógagn.

Ég er bjartsýnn maður. Við vinnum oft vel hérna á þinginu. Við vinnum saman að hlutunum. Við getum gert enn þá meira af því. Það stendur ekki á mér. Ég hlakka bókstaflega til að vinna meira með ykkur. Gangi okkur öllum vel í að láta gott af okkur leiða. — Góðar stundir og góða ferð.



[20:48]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það er enn þá stjórnarkreppa á Íslandi. Stuðningsflokkar Sjálfstæðisflokksins eru í kreppu. Kjósendum þeirra og jafnvel þeim sjálfum er ljóst að þeir koma engu í gegn af stefnumálum sínum — engu. Þeir kusu að fara með Sjálfstæðisflokknum í stjórn frekar en að standa að myndun félagshyggjustjórnar sem hefði snúist um jöfnuð og réttlæti. Þeir lofuðu betra heilbrigðiskerfi, betra skólakerfi, að allt yrði betra. Ekkert fúsk, sagði Björt framtíð. En stjórnarhættirnir endurspegla allt annað, lítið fer fyrir forystu og samráði, vinnubrögðin eru fálmkennd og ákvarðanir illa rökstuddar. Átakanlegast var það þegar fjármálaráðherrann, formaður Viðreisnar, mælti fyrir tillögu að fjármálastefnu til nokkurra ára. Þá hlupust þingmenn Sjálfstæðisflokksins einn af öðrum undan merkjum og loks varð sjálfur forsætisráðherrann, formaður Sjálfstæðisflokksins, efins. Fjármálaráðherra sem ekki nýtur fulls stuðnings forsætisráðherra er ekki fjármálaráðherra, hann er eitthvað allt annað og minnir helst á strandaglóp.

Það er því enn þá stjórnarkreppa. Það höfum við fengið staðfest aftur og aftur allt þetta þing sem svo litlu skilar. Stuðningsflokkarnir fengu ekkert nema ráðherrastólana. Sjálfstæðisflokkurinn ræður því sem hann vill í þessu gæfulausa föruneyti, hann þurfti engu að fórna í samningum.

Þingflokkur Vinstri grænna hefur í vetur eins og á síðasta kjörtímabili lagt áherslu á samstöðu og samvinnu allra stjórnarandstöðuflokkanna. Um leið höfum við haldið til haga stefnu flokksins í öllum málaflokkum. Við höfum gert kröfur um brýnar úrbætur í heilbrigðismálum og sýnt fram á hvernig unnt er að fjármagna þær. Við höfum lagt til lengingu fæðingarorlofs og hvernig hægt væri að fjármagna það. Við höfum flett ofan af skipulagðri aðför Sjálfstæðisflokksins að skólum og menningarstarfsemi og bent á leiðir til að hlúa að hvoru tveggja. Háskólastarf þarf að efla, rannsóknir og nýsköpun þarf að efla svo atvinnulífið fái blómstrað, og við höfum lagt fram tillögur um úrbætur í samgöngumálum til að bregðast við stríðum og ört vaxandi straumi ferðamanna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú setið í ríkisstjórn landsins í fimm ár án þess að ná nokkrum tökum á þeim vanda. Sjálfstæðismenn ráða nefnilega ekki við að stýra samfélagi, innviðum og áskorunum í atvinnumálum svo vel fari. Náttúrupassinn var þeirra uppgjafarfáni og verður viðvarandi áminning um getuleysi þeirra á breytingatímum. Sanngjarnir skattar, lykillinn að siðuðu samfélagi, eru verkefni sem þeir ráða ekki við og geta ekki leyst. Ójöfnuður eykst og brýnustu úrlausnarefnin bíða. Við getum talið upp hvern málaflokkinn á fætur öðrum, við getum nefnt þá alla, hvarvetna blasir við kjarkleysi og aðgerðaleysi. Jafnvel í utanríkismálum eru framlög til þróunaraðstoðar til háborinnar skammar og ríkisstjórninni til háðungar.

Tillögur okkar Vinstri grænna eru skýrar, málefnalegar, ábyrgar — og fjármagnaðar. Það er vegna þess að það eru til peningar í þjóðfélaginu hjá þeim efnuðustu í samfélaginu og við höfum sýnt fram á leiðir til að sækja þá. Vinstri græn eru í sókn vegna þess að okkar sýn er skýr og vegna þess að okkar sýn er trúverðug. Við leggjum líka mikla áherslu á öflugt og málefnalegt aðhald í þinginu. Við viljum berjast gegn sveltistefnu ríkisstjórnarinnar, hættulegum einkavæðingartilburðum og auknum ójöfnuði. Við viljum halda því til haga að ríkisstjórnin byggir á minni hluta atkvæða, er veik og hefur ekkert umboð til að standa fyrir grundvallarbreytingum á samfélaginu þvert á vilja almennings í landinu.

Björt framtíð og Viðreisn kusu að afhenda Sjálfstæðisflokknum miklu meira vald en hann á innstæðu fyrir. Eins og standa sakir er ljóst að Viðreisn fær engu sinna stefnumála framgengt, hún fær ekkert, ekki breytingar í landbúnaði, ekki sjávarútvegi, ekki í gjaldmiðilsmálum — ekkert. Allt stefnir í söguleg viðvarandi kosningasvik. Björt framtíð flaut svo inn á þing á síðustu stundu á fyrirheitunum um annan búvörusamning, en hvað er orðið af því máli? Mér er spurn.

Björt framtíð vill líka vel í umhverfismálum og notar eins og unnt er þau stjórntæki í umhverfismálum og náttúruvernd sem urðu til í vinstri stjórninni 2009–2013. Það er gott. En umhverfismálin snúast um meira en orð og stefnu. Áhersla á málaflokkinn ætti að endurspeglast myndarlega í fjármálaáætlun en gerir það ekki, hvorki að því er varðar umhverfismálin almennt né mál málanna, loftslagsmálin.

Það er stjórnarkreppa. Best væri að kjósa aftur. Það eru reyndar kosningar eftir eitt ár. Þá er tækifæri til að safna liði um meginmál stjórnmálanna. Undirbúningur kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 er hafinn og þar þurfum við öll sem viljum sjá félagshyggju í verki að leggjast á eitt. Við þurfum að koma sterk út úr kosningunum að ári um land allt til að tryggja sveitarfélögunum öfluga forystu og til að losa þjóðina út úr stjórnarkreppunni sem stendur enn.

Stjórnarflokkarnir verða að fá rækilega áminningu í sveitarstjórnarkosningunum, allir með tölu ef einhver í þeirra röðum sér ekki að sér fyrr. Það þarf nefnilega ekki nema einn til að velta þessari stjórn. Það er hægt. — Góðar stundir.



[20:53]
Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Við Íslendingar erum orðin vön því að slá heimsmet, a.m.k. miðað við höfðatölu, svo vön því að ætli orðin „per capita“ séu ekki fyrsta latínan sem við lærum flest í lífinu. Þessa dagana erum við t.d. að slá heimsmet í að versla í Costco. Heimsmetin geta verið misjafnlega jákvæð og stundum neikvæð. Að skora hátt í ofþyngd barna er t.d. met sem við viljum ekki eiga og verðum að breyta.

En annað næstum-því-heimsmet og talsvert jákvæðara var í úttekt eins virtasta læknatímarits heims á dögunum sem sagði íslenska heilbrigðiskerfið það næstbesta á heimsvísu. Margir hváðu við, skiljanlega kannski. Það rímar auðvitað alls ekki við umræðuna svokölluðu og rímar eflaust ekki við upplifun margra. Hvað er þá rétt, úttektin, umræðan eða upplifunin? Eflaust hefur allt þetta eitthvað til síns máls.

Heilbrigðiskerfið okkar er nefnilega svo margt. Það felur í sér frábært ungbarnaeftirlit og eitthvert mesta langlífi í heimi. Heilbrigðiskerfið er líka hækkun launa lækna, bygging nýs spítala, þak á lyfjakostnað og jafnari greiðsluþátttaka sjúklinga. Við getum verið stolt af þeim þáttum og mörgum öðrum.

En heilbrigðiskerfið okkar er líka of mikið álag á starfsfólk Landspítalans, of langir biðlistar eftir aðgerðum og fleira má vissulega tína til.

Þegar mögulegar lausnir á vandamálunum eru ræddar virðist loða við umræðuna ótti og óöryggi fólks yfir að hér eigi að einkavæða allt, eins og það er oft orðað. Samt ríkir á Íslandi þverpólitísk samstaða um þau sjálfsögðu réttindi að allir búi við góða heilbrigðisþjónustu, burt séð frá efnahag. Ég held að þarna líði umræðan mikið til fyrir hugtakarugling á milli einkavæðingar og einkareksturs. Við þurfum að nota hugtök alveg skýrt í þágu þessarar mikilvægu umræðu. Einkarekstur hefur verið mikilvægur hluti okkar heilbrigðiskerfis í áratugi þótt þjónustan sé greidd úr sameiginlegum sjóðum. Verkefnið núna er að tryggja að einkarekstur vinni sem best með opinberum rekstri og styðji við hann til framtíðar.

Í ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2022 er forgangsraðað í þágu heilbrigðis- og velferðarmála en það er vissulega hlutverk okkar hér að vera á tánum og passa að þeim peningum sé varið á sem bestan hátt.

Í fréttaumfjöllun um næstum-því-heimsmet í besta heilbrigðiskerfinu sagði landlæknir að það ætti að fara varlega í að halda að þar með væri allt gott. Það er alveg rétt. Landlæknir sagði jafnframt að þær þjóðir sem væru ofarlega á blaði samkvæmt úttekt læknatímaritsins væru líka að ræða einhver vandamál í sínu heilbrigðiskerfi þar sem enginn sé enn búinn að finna hið fullkomna kerfi. Og það er líka yfirstandandi verkefni okkar hér.

Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey tók nýlega saman skýrslu um íslenska heilbrigðiskerfið þar sem rauði þráðurinn er að það skorti heildarstefnu og að kerfið okkar sé um margt óskilvirkt þótt það sé um margt gott. Þar er minnst á að tengsl á milli gæða og kostnaðar eru ekki algild. Þannig getur ódýrt skilvirkt kerfi náð betri árangri en dýrara, óskilvirka kerfið. Þar segir einnig að það þurfi að vera skýrara hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum og hvað eigi að gera annars staðar með ódýrari hætti, t.d. á heilsugæslu og einkastofum sérfræðilækna.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er einmitt eyrnamerkt sérstakt fjárframlag til að fara ofan í saumana á heilbrigðiskerfinu okkar að þessu leyti, að horfa heildstætt á kerfið og taka ákvarðanir sem stuðla að því að allir nauðsynlegir þættir þess, hvort sem eru heilsugæslan, spítalarnir eða sérfræðingar á einkastofum, vinni sem best saman.

Í þessari vinnu má opinber rekstur ekki vera kredda þar sem ekki má minnast á einkarekstur en einkarekstur má heldur ekki vera kredda þar sem opinbera rekstrinum er fundið allt til foráttu. Staðreyndin er sú að bestu heilbrigðiskerfi vestrænna landa eru einhvers konar blanda af þessu tvennu, það þarf bara að finna réttu samræminguna. Við eigum að geta fundið taktinn í því hvernig þessir þættir vinni sem best saman svo hver og einn fái að njóta sín á skilvirkan og hagkvæman hátt, en fyrst og fremst í þágu framúrskarandi þjónustu við sjúklinga. Við eigum að geta staðið að því að reyna að finna þann takt. Hví ekki að rifja upp þegar þjóðin náði í sameiningu ótrúlegum takti í víkingaklappinu sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom einmitt inn á í hressandi ræðu sinni að er löngu orðið heimsfrægt. Við munum að þetta var flókinn taktur í byrjun og okkur vantaði smávegis samhljóminn en við náðum þessu flest að lokum — nema auðvitað Magnús Magnús Magnússon.

Það væri frábært ef við gætum náð þannig takti og samstöðu um heilbrigðiskerfið og um fótboltalandsliðið þá. Og þá er kannski ákveðið lykilatriði að leyfa öllum leikmönnunum að njóta sín, nota krafta allra þeirra sem hafa sérþekkingu og hugmyndaauðgi í heilbrigðismálum til að búa til besta liðið fyrir enn betri árangur. — Ég þakka þeim sem hlýddu.



[21:00]
Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Hvert stefnum við nú? Hvert er ferðinni heitið? Ekki stóð á innihaldslýsingu ríkisstjórnarinnar að örlagafen einkavæðingarinnar væri kappsmál. Raunin er nú samt sú að af miklum mætti er stefnt að því að fá forgang á heilbrigðiskerfið á grundvelli auðs og valds. Sama auðvald mænir síðan á Leifsstöð og sleikir út um. Þetta er ekki það sem stóð á pakkanum sem ríkisstjórnarflokkarnir buðu með miklum tilþrifum í nýliðnum kosningum. Almannahagsmunir framar sérhagsmunum var mantra bitlaus og snauð. Formaður Viðreisnar ætlar engum að gefa brauð. Með fjármunina í pyngju og glott í frænda stað, hann Benedikt Jóhannesson ætti að hugleiða það.

Þó að áhöfn ríkisstjórnarinnar sé ný að hluta eru vinnubrögðin gömul. Háttar þannig til sjós að kallinn í brúnni er sá sem leggur línurnar. Í stjórn sem nýlega hefur náð sér eftir skipbrot er furðulegt að litlu sem engu eigi að breyta í stjórnarháttum. Það er þó eðlismunur á stjórn á sjó og svo hér á landi. Til sjós stjórnar kallinn í brúnni bara einu sinni. Hvert stefnum við? Hvert er ferðinni heitið?

Virðulegi forseti. Verkamenn fortíðarinnar bíða nú á göngum sjúkrastofnana vegna þess að ekki finnst fjármagn til þess að reisa þeim heimili. Öryrkjum nútímans er svo naumt skammtað af köku allsnægta að vonlaust er fyrir þá að finna sér þak yfir höfuðið. Fullfrísku ungu fólki finnst það ekki að finna sér verustað. Stefnan sem Alþingi hefur markað er séreignarstefna. Meginforsendur þeirrar stefnu eru brostnar og það bókfært og skjalfest fyrir allra augum. En hvar er viðbragðið? Hvar er framtíðin, virðulegi forseti?

Píratar boðuðu nýja sýn, nýja stefnu, nýja ferð. Við viljum að þjóðin fái að ráða för. Við viljum aftengja auðvaldið frá Alþingi. Við viljum færa stjórn landsins inn í baðstofu almennings öllum til heilla. Við ætlum að veita þjóðinni aðgengi að auðlindinni. Við ætlum að innheimta fyrir þær fullt gjald. Við ætlum að fá nýtt heilbrigðiskerfi, gjaldfrjálst og fjármagnað.

Ég hóf feril minn í stjórnmálum til þess að berjast fyrir réttlátu fiskveiðistjórnarkerfi. Eitt af því sem ég hef lagt höfuðáherslu á er að fá auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Ég vil færa eignarhaldið til fólksins, til þjóðarinnar. Allt er þetta í nýrri stjórnarskrá, stjórnarskrá fólksins sem stjórnmálamenn stálu, hrifsuðu frá þér, kæri Íslendingur.

Góðir Íslendingar. Þjóðarskútunni okkar er stýrt af sama fólkinu með sömu glæfralegu stefnu og sigldi henni í strand fyrir hartnær áratug síðan. Þau hafa ekkert lært. Blinduð af hvalreka ferðamennskunnar og sömu gömlu vinnubrögðunum þar sem þjóðin fær ekki að vera með. En sagan segir okkur að það sem fer upp kemur að lokum niður. Því ætla ég að ljúka ræðu minni á ljóði eftir Stein Steinar, með leyfi forseta:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil

með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði

er gjarna sett að veði.)

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið.



[21:03]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ágætu landsmenn. Það er rétt á þessum tímapunkti að líta um öxl og horfa yfir farinn veg. Að mörgu leyti er ástandið bærilegt, en höfum við gengið götuna til góðs, höfum við nýtt okkur tækifærin með forsvaranlegum hætti?

Ný ríkisstjórn boðaði ný vinnubrögð, aukið samstarf meiri hluta við minni hluta, stórfellt átak í heilbrigðismálum, skólamálum, samgöngum og ég veit ekki hvað. Reyndar gekk formaður Viðreisnar svo langt í umbótahjalinu að hann vildi setja á stofn starfshóp um bætt vinnubrögð á Alþingi. Í ljósi reynslunnar verður það að skoðast eins og hvert annað gamanmál sem frá hæstv. ráðherra kemur.

Stjórnarsáttmáli einnar mestu hægri stjórnar lýðveldissögunnar var síðan kynntur um miðjan janúar á þessu ári. Hvað er þar að finna? Heldur lítið. Þar hafa frasasmiðir fengið að valsa um lyklaborðið, það á að skoða hitt og þetta. Loforð virðast vera orðin að áherslum. Af þeirri ástæðu er áhugavert við lok þessa þings að skoða hvar stjórnarflokkarnir ganga í takt. Misræmi í málflutningi ráðherra og þingmanna er slíkt að ímynda má sér að ekki sé neitt gaman í þeirra bekk, eins og pilturinn sagði.

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra deila í erlendum fjölmiðlum. Formaður utanríkismálanefndar og utanríkisráðherra deila ítrekað um stefnu Íslands í utanríkismálum sem trauðla er til þess fallið að auka traust á alþjóðlegum vettvangi. Nefnd um peningastefnu hefur verið sett á laggirnar og þar er lagt upp með krónuna sem framtíðargjaldmiðil landsins, en því er fjármálaráðherra ósammála eins og alkunna er.

Sáttanefnd í sjávarútvegsmálum var sett á laggirnar og enginn veit hvað út úr því kemur. Í stuttu máli þýðir þetta að engar afgerandi kerfisbreytingar verða líkt og Viðreisn lofaði fyrir kosningar.

Hæstv. samgönguráðherra virðist svo á leiðinni fram einhverja einstefnugötu. Hann fór vægast sagt sérstökum höndum um samgönguáætlun þar sem hann virtist ætla að sniðganga þingið með því að forgangsraða verkefnum bara sisona einn og óstuddur. Duglegur að vanda, hæstv. ráðherra, en þetta þurfum við að vinna saman.

Um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu hér á landi ríkir engin sátt, ekki hér inni, ekki innan stjórnarinnar og ekki innan atvinnugreinarinnar. Ástæðan er að hækkun á þessum tímapunkti kemur verst út fyrir landsbyggðina. Halda menn virkilega að hið sama gildi um stórar hótelkeðjur í höfuðborginni og lítið gistiheimili á landsbyggðinni? Ég hlýt að spyrja: Hvert er þessi ríkisstjórn að fara?

Frú forseti. Almannahagsmunir ofar sérhagsmunum, skrifar fjármálaráðherra í nýrri grein. Þetta hljómar fallega og um þetta held ég að allir séu sammála. Veruleikinn er hins vegar ekki alltaf svona einfaldur. Eru það ekki almannahagsmunir að halda landinu í byggð? Við Framsóknarmenn höfum bent á leiðir til þess með því að nota t.d. skattkerfið til að jafna aðstöðumun. Þetta létum við kanna við gerð síðustu byggðaáætlunar sem var svo gott sem klár í janúar en hefur ekki enn sést í þinginu. Eru það sérhagsmunir í Noregi og Svíþjóð þar sem stjórnvöld beita ýmsum hvötum í því verkefni að halda löndum sínum í byggð, m.a. skattalegum hvötum, þ.e. að þeir sem búa á köldum svæðum, dreifbýli, borga lægri skatta en þeir sem búa nær höfuðborginni?

Til að matvælaframleiðsla á Íslandi blómstri er mikilvægt að halda landinu í byggð. Það gerist svo sannarlega ekki af sjálfu sér. Við þurfum að hugsa lengra en núverandi ríkisstjórn gerir. Þess vegna höfum við Framsóknarmenn m.a. lagt fram þingsályktunartillögu um stefnu vegna ríkisjarða. Meðferð þeirra og nýting er atvinnugreininni mikilvæg og er liður í byggðafestu.

Þá höfum við líka lagt fram tillögur að auknum tekjum til sveitarfélaga en þau kalla stíft eftir sterkari tekjugrunni. Á síðasta kjörtímabili var lögfest að ríkið, sveitarfélög og höfuðborg skuli í sameiningu vinna að mótun byggðastefnu og sóknaráætlana. Ég er sannfærð um að lögin muni stuðla að markvissari uppbyggingu landsins en þá þarf áætlunin að koma fram og við bíðum eftir því.

Í ljósi þess hve illa gengur að setja mál fram hjá hæstv. ríkisstjórn höfum við Framsóknarmenn lagt fram fjöldamargar prýðisgóðar hugmyndir og leiðir til úrbóta. Strax í upphafi lögðum við fram heilbrigðisáætlun því að ákall eftir henni var og er mikið. Heilbrigðisþjónusta og menntamál eru mikilvægir þættir í jafnrétti til búsetu. Að þessum þáttum hefur ekki verið hugað nægilega vel. — Gleðilegt sumar og góðar stundir.



[21:09]
Pawel Bartoszek (V):

Frú forseti. Ég velti oft fyrir mér hvernig aðrir sjái starf þingmanns. Hvað halda börn að þingmaður geri? Slökkviliðsmenn eru með hjálm og slöngu og slökkva elda. Lögreglumenn elta bófa. En hvað gera þingmenn?

Eins konar svar við þessari spurningu má finna í þekktri, norrænni barnabókaseríu. Ég er að tala um Múmínálfana eftir Tove Jansson. Í þeim ágætu bókum er nefnilega einn stjórnmálamaður, meira að segja þingmaður, þó að það sé ekki augljóst við fyrstu sýn.

Þessi persóna er augljóslega þingmaður fyrir Múmíndal. Af hverju? Því að hann segist vera frá Múmíndal en hann er samt í raun aldrei í Múmíndal.

Þetta er Snúður, þessi með græna hattinn.

Snúður er oft í Múmíndal á sumrin. Hann hittir fólk og talar á háfleygan hátt um hugmyndafræði, eignarréttinn, valdmörk hins opinbera en hann framkvæmir ekki mikið. Og síðan þegar dagarnir styttast hverfur hann.

Persóna Snúðs er raunar byggð á alvöruþingmanni. Sá hét Atos Wirtanen, var finnskur sósíalisti og vinur Tove Jansson. Þegar ég las Múmínálfabækurnar sem barn, þá enn á pólsku, dáðist ég að persónu Snúðs. Snúður var dulrænn og svalur — og nú eigum við Snúður meira sameiginlegt en mig hefði grunað. [Hlátur í þingsal.] Ég geri mér þó grein fyrir því við Snúður værum ólíklega samflokksmenn. Snúður er vinstri anarkisti. [Hlátur í þingsal.] Þessi stjórn hér myndi ólíklega sitja í hans umboði. Samkvæmt prófi sem ég tók á opinberri heimasíðu Múmínálfanna, og ekki ljúga netprófin, frú forseti, er sú persóna sem ég líkist mest Múmínpabbinn. Þetta var auðvitað rothögg fyrir sjálfsmynd ungs manns, frú forseti, en líklegast hárrétt.

En þótt við Snúður hefðum að öllum líkindum ekki verið í sama flokki deilum við þó ákveðinni sýn á það að landamæri eigi ekki að vera fólki til trafala. Fólk á að ferðast milli landa, geta sest að, unnið, stundað nám eða bara upplifað eitthvað.

Ein af grunnáherslum Viðreisnar fyrir síðustu kosningar var einmitt að Ísland skyldi vera opið fyrir fólki alls staðar að úr heiminum. Ég játa alveg að mér hefur þótt þeim málum ekki hafa miðað nægilega hratt áfram á þessu þingi. Við höfum aðallega verið að laga augljósa galla á nýsettum útlendingalögum. Reyndar voru lögð fram þrjú frumvörp sem öll hefðu falið í sér ákveðnar réttarbætur í þessum málaflokki, frumvörp um bann við mismunun innan vinnumarkaðar sem utan og frumvarp um ríkisfangsleysi. Ekkert þeirra varð þó að lögum, því miður.

Raunar var frumvarpi þingmanna Viðreisnar um aukinn kosningarrétt erlendra ríkisborgara vel tekið og því vísað til ríkisstjórnar til frekari vinnslu. Ég treysti því að ríkisstjórnin vinni málið áfram og klári það fyrr en síðar. En áfram er landið lokað fyrir fólki frá löndum á sunnanverðum Balkanskaga eða öðrum löndum utan Evrópu. Áfram þurfa þeir sem hyggjast flytja til Íslands að reiða sig á kerfi sem ekki er hugsað fyrir hefðbundna fólksflutninga. Þessu þarf að kippa í liðinn og við ætlum að sjá til þess að það verði gert.

Frú forseti. Þó að Viðreisn hafi náð ágætum árangri í seinustu þingkosningum verður auðvitað að viðurkenna að sá árangur er hluti af stærri þróun sem á sér stað á Vesturlöndum. Víða gengur svipuðum flokkum vel, markaðssinnuðum, alþjóðasinnuðum og frjálslyndum flokkum. Macron vann góðan sigur í Frakklandi. Meira að segja berast fréttir af því að Frjálsir demókratar séu orðnir valkostur fyrir þýska hipstera. Þá er eitthvað mikið að gerast því að allir vita að þýskir hipsterar vita hvað þeir vilja.

Það sem er að gerast er að fólk er að senda kurteisleg en ákveðin skilaboð gegn uppgangi öfgaflokka og einangrunarhyggju. Þar getur fólk treyst á okkur í Viðreisn, fólk getur treyst því að þegar þjóðernispopúlisminn bankar upp á með sinn boðskap munum við mæta honum og segja: „Nei, takk“ og: „Bless“, kurteislega en ákveðið.



[21:13]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Það vorar á Íslandi, birtir um allt. Gróandinn er í algleymingi hvert sem litið er. Það árar líka vel í samfélaginu. Tekjur hins opinbera jafnt sem fyrirtækja eru í hámarki. Atvinnuástand er gott. Við þessar uppörvandi aðstæður er þó glímt við ýmis hagræn vandamál.

Upp í hugann kemur fyrst hinn óstöðugi litli gjaldmiðill sem feykist um, upp og niður, líkt og fiðrildi í frísklegum sunnanþyt. Hátt gengi íslensku krónunnar þessi dægrin er áhyggjuefni stjórnvalda. Afstaða þeirra til krónunnar er svipuð og hjá Don Kíkóta í baráttunni við vindmyllurnar: Afneitun og veruleikafirring. Það er ekki annað að sjá en að stjórnvöld skorti einfaldlega þekkingu, framsýni eða dirfsku til að taka á þeim vanda sem liggur áfram óleystur, vanda sem einn og sér veldur landsmönnum ómældum útgjöldum.

Jafnaðarmenn boða hins vegar raunhæfa leið til hagsbóta fyrir almenning frá þeirri nauðung sem krónan veldur. Í efnahagslegu góðviðri eins og nú ríkir fer fiðringur um peningaöflin í landinu, öflin sem sitja við völd í íslensku samfélagi. Við minnumst með hryggð þeirra stóru áfalla og niðurlægingar sem þjóðin upplifði fyrir nokkrum árum þegar þjóðarskútunni var siglt í strand. Þeim leiðangri stýrði Sjálfstæðisflokkurinn með sína ógæfulegu áhöfn. Og enn berja þeir sér á brjóst eins og enginn sé morgundagurinn. Loks þegar búið er að losa skútuna af strandstað og farsæl sigling hafin á ný taka þeir upp gömlu sjókortin aftur og ætla að vísa leiðina.

Það má ekki viðgangast. Því verður aðeins afstýrt með því að þessi ríkisstjórn valdastólanna víki og við taki velferðarstjórn fyrir almennilegt fólk í landinu.

Virðulegur forseti. Ágætu landsmenn. Ráðandi öfl telja nú hæfilegan tíma liðinn frá hruni. Að þeir peningar Íslendinga sem enn liggja í skjólum úti um veröldina fái nú vinnu, peningar sem hurfu sporlaust um nótt af landi brott með hjálp grímuklæddra manna. Nú er flest til sölu, áfengisbúðir til einkaaðila, bankarnir, Keflavíkurflugvöllur — upplögð söluvara, góð hugmynd að selja vegabúta og gera þá gjaldskylda og framhaldsskólana líka og svo auðvitað bestu bitana úr heilbrigðisþjónustunni, nema hvað. Allt er þetta gulltryggður bisness. Það er búið að rúlla út rauða dreglinum fyrir kaupahéðna sem bíða í röðum.

Þjóðin er ekki búin að gleyma sölunni á Símanum sem flýta átti byggingu nýs Landspítala. Muna menn ekki enn hvernig fór fyrir þeim sveitarfélögum sem létu undan frjálshyggjupésum og seldu frá sér flestar fasteignirnar til að leigja þær síðan aftur? Það átti að vera miklu hagstæðara að nýta féð til uppbyggingar en ekki vera með það „bundið í eignum“, eins og það var orðað. Það væri gamaldags. Þessi sveitarfélög lentu flest hver í fjárhagslegum háska. Nú er sama mantran kyrjuð upp á nýtt.

Um leið og við horfum til uppbyggingar og framfara skulum við vera á varðbergi gagnvart lýðskrumi og prettum, minnug þess að enginn flokkur hefur kostað íslenska þjóð jafn mikið með efnahagslegum afglöpum og Sjálfstæðisflokkur.

Ég nefndi hér að framan að það væri uppgangur í íslensku samfélagi. Brúnin virðist létt á landsmönnum nú í sumarbyrjun, að minnsta kosti er kaupgleðin umtalsverð, það er galsi í verslun og viðskiptum. Samfélagið nýtur allt góðs af, ríkissjóður eflist og það er borð fyrir báru. Það styrkir okkur til að standa vel saman um að veita öllum þegnum brautargengi. Hefur ekki ríkisstjórnin skilning á því? Á kjörum þeirra sem skildir hafa verið eftir árum saman af því að það voru svo erfiðir tímar?

Nei, því miður. Og það er smán hvernig við förum að ráði okkar. Jafnaðarmenn geta ekki unað við óbreytt ástand, við heimtum að blaðinu verði snúið við strax.

Það hefur stöðugt hallað á ungar barnafjölskyldur á undanförnum árum og þeim gert erfiðara um vik að búa í haginn og ala upp börn sín, sprota framtíðarinnar, við öruggar aðstæður. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar munu útgjöld til barnabóta halda áfram að dragast saman eins og í tíð fyrri ríkisstjórnar. Tólf þúsund barnafjölskyldur urðu af barnabótum á því tímabili. Þeim fjölgar enn sem búa munu áfram við þrengri kost og fátækt. Við erum hálfdrættingar á við hin Norðurlöndin að þessu leyti.

Sömu sögu er að segja um fæðingarorlof. Stjórnarliðar hafa engan skilning á þörf fyrir átak, hvorki með hækkun á hámarksgreiðslum eða lengingu fæðingarorlofs. Aldraðir sitja enn óbættir hjá garði og tekjulægstu hóparnir búa við kjör sem eru hrein vanvirða. Óljós vilyrði eru gefin um bragarbætur á hagsmunum öryrkja, í fyrsta lagi árið 2019. Á meðan búa þeir við flókin, ógegnsæ réttindi, hópur sem stendur mjög höllum fæti.

Það geta allir í samfélaginu lifað við fjárhagslegt öryggi og það eiga allir okkar þegnar að fá þetta tækifæri. Þetta er ekki draumsýn, við höfum efni á því. Þetta er spurning um áherslur og forgangsröðun.

Góðir landsmenn. Það skiptir máli hverjir stýra. Það skiptir máli hverjir eru við stjórnvölinn. Þeir sem nú stýra skynja því miður hvorki daginn né veginn, við hvaða kjör barnafjölskyldur, leigjendur, aldraðir, öryrkjar búa, skynja ekki ákall og kröfu þjóðarinnar um breytingar, aukinn jöfnuð, réttlæti og sanngirni.

Virðulegur forseti. Ég trúi því að þjóðin, allir landsmenn, eigi betri ríkisstjórn skilið en við búum við núna, ríkisstjórn sem stendur við fyrirheit um átak í velferðarmálum en svíkur þau ekki. Í þeirri von að birtutíðin fram undan og útiveran geri stjórnarliðum gott, að þeir nái áttum og það renni upp fyrir þeim ljósið óska ég þeim og landsmönnum öllum farsældar og gleði í sumar. — Góðar stundir.



[21:20]
Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Nú líður að lokum þessa þings, þings þar sem Björt framtíð hefur starfað í ríkisstjórn með Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum. Við í Bjartri framtíð gerum okkur grein fyrir því að þeir málaflokkar sem við berum ábyrgð á, sem eru heilbrigðismál og umhverfismál, eru ekki auðveldir, en þeir eru mikilvægir. Við tökum þeirri áskorun af fullri alvöru og af mikilli ábyrgð.

Heilbrigðismálin eru forgangsmál. Landsmenn vilja efla heilbrigðiskerfið, þeir vilja minnka álögur á sjúklinga og auka fjárframlög. Við erum á þeirri leið. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn á að við náum að standa saman að uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar, að innan fárra ára verðum við komin með Landspítalann undir eitt þak, að við fjölgum hér hjúkrunarheimilum, eflum heilsugæsluna, bætum geðheilbrigðisþjónustuna og að til verði skýr og skilvirk heilbrigðisstefna sem inniheldur vilja og kröfu þjóðarinnar um gott heilbrigðiskerfi. Í þeirri vinnu minnum við okkur á að það krefst hugrekkis að fylgja sannfæringu sinni, boða sýn, treysta fólki, hlýða á rök og upplýsingar, standa í fæturna og axla ábyrgð. Það ætlum við í Bjartri framtíð að gera.

Annað sem mig langar til að ræða hér og á bæði við um heilbrigðismál og umhverfismál er lýðheilsa. Það hljómar kannski ekki mikilvægt, en að mínu mati er það eitt hið mikilvægasta efnahagsmál framtíðarinnar. Það varðar börnin okkar, það varðar eldri borgara, það varðar tækifærin okkar til þess að vera virk í samfélaginu og það varðar lífsgæði okkar allra.

Stundum er fjallað um eldri borgara með þeim hætti að það sé vandamál hvað þeim fjölgar. Ég lít ekki svo á. Áskorunin er góð lýðheilsa og lífsgæði eldri borgara, að eldri borgarar hafi val um þá þjónustu sem hentar hverjum og einum. Lýðheilsa er ekki einkamál ríkis og sveitarfélaganna. Það verður að vera samvinnuverkefni okkar allra.

Í lýðheilsulegu samhengi langar mig líka til þess að nefna sérstaklega geðheilbrigðismál. Allt of stór hópur ungs fólks glímir við geðræna erfiðleika sem valda skerðingu á lífsgæðum þeirra, tekur líf þeirra sumra. Því þarf að breyta. Það er fullkomlega óásættanlegt að tapa lífi ungs fólks sem á framtíðina fyrir sér. Nú þegar hefur verið ráðist í aðgerðir af hálfu heilbrigðisráðherra til aukinnar geðræktar, m.a. með fjölgun sálfræðinga á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Heilsugæslan hefur brugðist við með því að mennta hjúkrunarfræðinga og efla þverfaglegt starf innan heilsugæslunnar.

Í lýðheilsulegu samhengi langar mig líka til þess að tala um umhverfismál. Loftslagsmálin eru einmitt einhver sú stærsta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir. Fyrir utan þann sjálfstæða rétt að við fáum að draga að okkur hreint loft, hvort sem það er á Suðurnesjum eða á höfuðborgarsvæðinu, þá þurfum við að gera miklu betur í loftslagsmálum. Við þurfum að bregðast hraðar við og eigum að setja okkur það markmið um að vera í fararbroddi á alþjóðavettvangi hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda, vera í fararbroddi í náttúruvernd og í því að aðlaga okkur að lágkolefnishagkerfi framtíðarinnar. Við eigum að vera landið sem aðrar þjóðir horfa til. Eins og við höfum áður sagt eru ívilnanir fyrir mengandi stóriðju ekki lengur í boði. Þeim kafla Íslandssögunnar er lokið.

Við höfum nú lagt af stað með mörg mikilvæg verkefni, eins og samstarfsáætlun ríkisstjórnarinnar um gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Málefni miðhálendis hefur verið sett á oddinn, svo dæmi sé tekið. Við gerum okkur grein fyrir því að ef eitthvað á að gerast í loftslagsmálum á Íslandi þá þurfum við að vera umhverfissinnar í öllum flokkum. Í loftslagsmálum þurfum við breiðfylkingu sem setja vill umhverfismálin á oddinn.

Hér á landi hafa virkjanir og bygging stóriðju verið réttlættar með því að það sé skárra að nýta sjálfbæra orku okkar Íslendinga til að reisa slíka verksmiðju hér á landi því að annars væri um að ræða kolaknúnar verksmiðjur í útlöndum eða verksmiðjur sem nýttu meiri mengandi orku. Af hverju tökum við Íslendingar þann svartapétur sjálfviljug? Við höfum líka heyrt rökin um að við séum svo fá að það muni ekkert um okkur í stóra samhenginu, þess vegna getum við verið umhverfissóðar. Auðvitað eigum við að ganga á undan með góðu fordæmi fyrir aðrar þjóðir. Við höfum alla burði til þess.

Góðir Íslendingar. Björt framtíð mun ganga á undan með góðu fordæmi og leggja sitt af mörkum til að treysta samstarf og samvinnu af því saman erum við sterkari en hvert og eitt okkar. Það á ekki bara við í hjálparsveitum og innan fjölskyldna, það á við í samfélaginu öllu. — Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars.



[21:26]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Er hægt að verðleggja hamingju og vellíðan? Þessi spurning leitar á hugann eftir langa umræðu um ríkisfjármálaáætlun hægri stjórnarinnar undanfarna daga. Er hægt að meta fjárhagslegt virði þess hvernig börnum okkar líður í skóla eða foreldrum okkar á öldrunarstofnunum? Eigum við að nota einhvers konar reiknireglu til að segja okkur hvernig barni líður sem býr við þær aðstæður að geta ekki boðið í afmælisveislu eða hvernig eldri borgarar geti notið lífsins á öldrunarstofnunum eftir að hafa skilað samfélaginu ómældri vinnu í gegnum tíðina? Hvað með öryrkjana og láglaunafólkið sem getur vart framfleytt sér, á það rétt til mannsæmandi lífs? Hvað með unga fólkið sem getur ekki komið sér þaki yfir höfuðið? Skiptir þetta einhverju máli?

Auðvitað skiptir þetta allt máli og þess vegna höfum við Vinstri græn lagt fram tillögur til þess að koma til móts við það ákall sem komið hefur fram í samfélaginu og allir flokkar lofuðu fyrir kosningar um að bæta kjör og byggja upp innviði, loforð sem stjórnarflokkarnir eru nú á hröðum flótta frá en við Vinstri græn viljum standa við. Velferð snýst nefnilega ekki um prósentur, hagsveiflu eða niðurstöður excel-skjals.

Okkar hlutverk á þingi er að standa vörð um jöfn tækifæri fólks, barna jafnt sem fullorðinna. Það eru mannréttindi sem við höfum skuldbundið okkur til að framfylgja, ekki síst gagnvart þeim sem standa höllum fæti, hafa verið beittir órétti eða einhvers konar mismunun.

Núverandi ríkisstjórn sýnir ekki í verki að hún leggi áherslu á jöfnuð en það kemur líklega ekki á óvart. Heilbrigðismálin, hvort sem um er að ræða stóru sjúkrahúsin eða lágmarksþjónustu á landsbyggðinni, samgöngumálin bæði á vegum og hið rándýra innanlandsflug, löggæslan, skólamálin — allt er þetta vanfjármagnað enda er þetta hægri stjórn og hagar sér sem slík. Hinum efnameiri er áfram hlíft við skattgreiðslum og minna og minna fer í samneysluna.

Ísland er velmegunarsamfélag og það á að vera forgangsverkefni að auka jöfnuð meðal okkar og stuðla að jafnrétti, að allir geti notið velferðarkerfisins, að allir sem vilja geti sótt sér menntun, að allir hafi raunverulegt val til búsetu og þeir sem geta leggi jafnframt sitt af mörkum til að viðhalda því.

Við eigum ekki að taka því þegjandi þegar Sjálfstæðisflokkurinn segir að ekki sé meira svigrúm í hagkerfinu, að ekki séu til peningar til að standa við kosningaloforðin, byggja upp innviðina og hlúa að þeim sem hafa það skítt í samfélaginu eða þurfa að neita sér um heilbrigðisþjónustu af því að fjárhagurinn leyfir það ekki. Hvenær ef ekki nú, í bullandi góðæri?

Góðir landsmenn. Ágreiningurinn innan ríkisstjórnarinnar er öllum augljós og ríkisfjármálaáætlun er ein af birtingarmyndum hans. Þar skila fulltrúar meiri hlutans áliti sem frestar ákvarðanatökum um grundvallarramma fjármálanna fram til haustsins og reynt er að sópa ágreiningnum undir teppið. Þau standa ekki að baki forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem setja trúverðugleika sinn svo sannanlega að veði með því að ætla ekki að hvika frá ákvörðuninni um hækkun virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna eins og kom hér fram hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan.

Um eitt er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar þó sammála, að auka einkavæðingu og minnka samneyslu. Saman leggja þau upp með að svelta hið opinbera kerfi og veikja til þess að rýmka fyrir „fjölbreyttum rekstrarformum“ eins og þeim verður tíðrætt um. Ráðherra leynir fyrir þingnefndum fyrirhuguðum einkavæðingaráformum og hunsar samtal við þá sem málið snýst um. Það er í raun ógnvekjandi að ríkisstjórnin fái að starfa óáreitt í sumar því að hver veit hvað verður búið að einkavæða í sumar.

Kæru landsmenn. Við þurfum nýja ríkisstjórn í þessu landi sem tekur mannréttindi og skyldur sínar til að tryggja fólki jöfn tækifæri mjög alvarlega. Við þurfum ekki ríkisstjórn sem lafir á lyginni og er með slíka blekkingaleiki, ríkisstjórn sem hangir saman valdsins vegna.

Ef raunverulegur vilji er til að byggja réttlátt samfélag sameinumst við um að setja velferð barna, elstu borgara landsins, öryrkja og þeirra sem standa höllum fæti í lífinu í forgang. Því segi ég við ykkur, kæru landsmenn, að það er afar brýnt að koma þessari hægri stjórn frá og til þess þurfum við að standa saman og við þurfum líka ykkar aðstoð.



[21:31]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Eins og síðast hafa samflokksmenn mínir sem töluðu hér á undan tekið af mér allan ræðutímann, [Hlátur í þingsal.] ég hallast að því að þetta séu samantekin ráð til þess að halda sæmilegri ró í þessum sal. Ég ætla ekki að fjalla núna um það hvað við erum góð í meiri hlutanum og hvað þið eruð slöpp í minni hlutanum. Ég ætla ekki að gera það. En ég ætla aðeins að tala um okkur sjálf, um stjórnmálin og stjórnmálamennina.

Ég hef upplifað það eins og þið kannski öll að við erum ekki að slá í gegn hjá almenningi. Ég hef mikið velt því fyrir mér af hverju það er, eins æðisleg og við erum. Og hvernig lögum við það? Ég veit það ekki, en ég er alveg viss um að við lögum það ekki með því að fara á samfélagsmiðlana og heyra hvað þeir háværustu segja þar. Ég held að við lögum það með því að hafa góðar hugmyndir, vel ígrundaðar, rökstuddar hugmyndir og ekki er verra að hafa einhverja framtíðarsýn. Við þurfum að hafa sjálfstraust til að koma þessum hugmyndum á framfæri, vera sannfærandi, leiða, og takast á um þetta. Við þurfum að hafa skoðanir jafnvel þó að einhver rísi upp á afturfæturna og jafnvel þó að sagt sé við okkur ef við höfum skoðanir: Þið eruð svo umdeild, þú ert umdeildur.

Ég held að fólk geri ekki almennt þá kröfu að vera sammála okkur um allt. Ég held að við getum notið trausts hjá fólki sem er ekki sammála okkur. Ég kann gott dæmi um þetta, því að ég sat nú hérna á síðasta þingi með Ögmundi Jónassyni. Við erum nokkurn veginn ekki sammála um neitt, en ég bar mikið traust til hans. Hann var samkvæmur sjálfum sér. Hann barðist fyrir sínu. Hann hafði hugsjónir, að vísu ekki sérstaklega góðan málstað. [Hlátur í þingsal.] En ég gat alltaf treyst honum. Það er gott að vinna með Ögmundi. Tími minn er löngu búinn, fyrirgefðu, forseti.



[21:34]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Kæru Íslendingar. Til að breyta leikreglunum þarf maður að þekkja þær. Ég man ekki hvar ég las þetta viskukorn fyrst, en það hefur verið mitt leiðarljós meiri hluta ævinnar engu að síður. Það eru forréttindi að fá að starfa hér á þessum vinnustað þar sem reglur eru settar og reglum er breytt. Þeim forréttindum fylgir ábyrgð og sú skylda að vinna að hagsmunum almennings í landinu og raunar heiminum öllum. Við Píratar trúum því að með framsýni, gagnrýninni hugsun og virkri lýðræðislegri þátttöku almennings megi lyfta grettistaki í átt að sanngjörnu og sæluríku samfélagi fyrir alla. Því fleiri sem láta sér samfélag sitt og velferð þess varða og taka höndum saman um að bæta, þeim mun hraðar mun það ganga fyrir sig.

Ef við horfum út í heim virðist þróunin þó víða vera meira í hina áttina. Teikn eru á lofti austan hafs og vestan um að lýðræðið standi veikum fótum og stefni jafnvel í að falla á eigin bragði vegna ótta, vanmáttar og reiði almennings sem er langþreyttur á lygum og svikum þeirra sem veljast til valda. Eins og margir hef ég stundum verið við það að gefast upp á leitinni að betra samfélagi, verið við það að láta undan reiðinni, rasa út, villast út úr leitinni og baráttunni og inn í sinnuleysið og deyfðina sem eflaust fylgir hinni endanlegu uppgjöf. Því rétt eins og víðtæk mannréttindanefnd hefur látið á sé standa á heimsvísu þykja mér umbæturnar ganga heldur hægt hér á Fróni, en þegar þannig árar þykir mér gott að muna að þótt hlutirnir hreyfist oft hægar en maður sjálfur helst vildi mjakast þeir þó í rétta átt.

Árið 2008 hrundi íslenska fjármálakerfið með ömurlegum afleiðingum fyrir þorra fólks á Íslandi. Almenningur vaknaði í kjölfarið til vitundar um áhrifamátt sinn gagnvart vanhæfri ríkisstjórn sem þóttist ómissandi til þess að byggja upp það sem hún hafði sjálf látið hrynja. Söguleg mótmæli settu þeim stólinn fyrir dyrnar og við tók ný ríkisstjórn sem lofaði nýjum samfélagssáttmála til að gera upp svikin milli þings og þjóðar.

Árið 2013 var stjórnarskráin komin ofan í nefndarskúffu og þeir flokkar sem báru mesta ábyrgð á efnahagshruninu voru kjörnir aftur til valda. Eftir stóð þó að meðvitund almennings um áhrifamátt sinn og ábyrgð hafði aukist til muna. Landsmenn þróuðu með sér aukið óþol fyrir spillingu og einkavinavæðingu og stjórnarskráin, þótt geymd væri, var og er ekki gleymd.

Ef við spólum aðeins áfram inn í nokkuð skrautlega stjórnartíð ríkisstjórnar hv. núverandi þingmanns og þáverandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og stoppum spóluna þann 3. apríl 2016, daginn sem hinn eftirminnilegi Kastljóssþáttur um Panama-skjölin hélt meiri hluta landsmanna límdum og gapandi við skjáinn, má sjá annað dæmi um þessa þróun, frú forseti. Næsta dag lét samtakamáttur þjóðarinnar aftur til sín taka. Úr urðu stærstu mótmæli Íslandssögunnar. 26.000 manneskjur mættu á Austurvöll til þess að mótmæla ríkisstjórn sem hafði misboðið réttlætiskennd þeirra. Krafist var afsagnar þeirra ráðherra sem áttu eignir í skattaskjólum og nýrra kosninga strax. Þó að núverandi hæstv. forsætisráðherra Bjarna Benediktsson hafi einnig verið að finna í Panama-skjölunum þá er samt sem áður um að ræða gjörbreytta stöðu á Alþingi í dag.

Aldrei hafa fleiri nýliðar setið á þingi en nú. Konur eru nær helmingur þingmanna og meðalaldur okkar hefur aldrei verið lægri. Það er vert að fagna því að þjóðin hafi treyst jafn mörgum nýjum fulltrúum til þess að fara með löggjafarvaldið og raun ber vitni. Breytingarnar ganga kannski hægt, enda er fólk gjarnan smeykt við breytingar, skiljanlega, þær fela í sér óvissu sem við viljum alla jafna forðast.

Því ætti kannski ekki að koma á óvart að gamalreyndur hagsmunagæslu- og valdaflokkur leiði nú ríkisstjórn í skjóli tveggja nýrra flokka sem virðast sjá það sem sitt helsta hlutverk að viðhalda heljartökum auðstéttarinnar á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar og greiða leið peningaaflanna að vösum almennings í gegnum heilbrigðis- og menntakerfið og það með minni hluta kjósenda að baki sér.

Frú forseti. Píratar vilja vinna að menningu ábyrgðar og heiðarleika, æðruleysis og hugrekkis í samfélaginu, að við vinnum í sameiningu gegn þeirri frændhygli og spillingu sem tröllriðið hefur samfélaginu fram að þessu. Til þess verðum við að styrkja eftirlitsstofnanir okkar svo þær geti sinnt hlutverki sínu. Þær eiga að rannsaka spillingu ráðamanna. Þær eiga að vernda borgarana gegn ágangi ríkisvaldsins og tryggja að allir sitji við sama borð. Þær eiga að vernda mannréttindi allra, ekki bara sumra.

Því er ég svo óendanlega þakklát þeim kjósendum sem gáfu okkur tækifæri til þess að kynna okkur fyrir þjóðinni og byggja upp traust og brýr til framtíðar. Við Píratar viljum samfélag þar sem lýðræðislegur réttur allra til þess að hafa áhrif er virtur. Tækniframfarir síðustu áratuga gera það að verkum að beint lýðræði er ekki lengur draumsýn heldur raunhæfur möguleiki. En til þess að geta tekið þátt í lýðræðinu þurfum við að vera upplýst. Við þurfum orku, tíma og skilning á kerfinu. Við þurfum að þekkja réttindi okkar og hafa heilsu til að njóta þeirra.

Það er því gjörsamlega ólíðandi að stór hluti þjóðfélagsins hafi ekki öruggt aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu vegna lakra kjara. Sömuleiðis er óásættanlegt að kennararnir okkar skipti í stórum hópum um starfsvettvang vegna lágra launa og mikils álags. Við vitum öll að við höfum alla burði til þess að bjóða upp á framúrskarandi heilbrigðisþjónustu og menntakerfi fyrir alla. Meiri hluti þjóðarinnar er sammála okkur um það. Enda er það fullkomlega raunhæft að við byggjum hér samfélag þar sem mannréttindi allra eru vernduð, samfélag sem kemur fram við alla af virðingu og býr öllum mannsæmandi kjör. Nútímasamfélag þarfnast fólks með fjölbreytilega hæfileika og frumkvæði. Fólks sem þorir að fara ótroðnar slóðir og prófa sig áfram með nýja tækni og nýjar hugmyndir. Þess vegna viljum við kanna kosti þess að tryggja öllum skilyrðislausa grunnframfærslu.

Það er ekki auðvelt að berjast fyrir betra samfélagi, en það er mikilvægt og það er hægt. Við gerum það með því að trúa á rétt okkar allra til þess að hafa áhrif á samfélagið okkar og áherslur þess. Við gerum það með því að mótmæla áfram spillingu, valdagræðgi og sérhagsmunapoti ráðandi afla, með því að fylgja réttlætiskenndinni, með því að halda í reiðina, með því að virkja hana og nýta hana til góðra verka og með því að gefa ekki upp vonina. Við Píratar erum búin að læra reglurnar, frú forseti. Nú viljum við ekki bara breyta reglunum. Við viljum breyta leiknum.



[21:41]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Undanfarinn þingvetur hefur verið afar tíðindalítill frá því að hæstv. ríkisstjórn tók við völdum. Hins vegar hefur þessi tími verið afar áhugaverður hvað varðar ágreining innan hæstv. ríkisstjórnar um ýmis áherslumál ríkisstjórnarflokkanna. Má þar meðal annars nefna ágreining um stærsta mál hæstv. fjármálaráðherra, ríkisfjármálaáætlunina, og þau áform sem þar voru um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu.

Ríkisfjármálaáætlun felur í sér afar lítið svigrúm til innviðauppbyggingar. Þar er stofnkostnaði og rekstrarkostnaði víða blandað saman, sérstaklega þegar kemur að heilbrigðismálum. Það gefur skakka mynd af raunaukningu til málanna. Þetta er alls ekki í samræmi við loforð ríkisstjórnarflokkanna né áherslur í aðdraganda alþingiskosninga. Allir flokkar töluðu um mikilvægi innviðauppbyggingar en hana er ekki að finna í umræddri ríkisfjármálaáætlun.

Hvernig stendur á því að 13 milljarða vantar til að klára byggingu á nýjum Landspítala? Og hvernig stendur á því að 7 milljarða vantar til að klára endurnýjun á eldri deildum spítalans? Hér er ekki að sjá að hæstv. ríkisstjórn sé að standa við gefin loforð um að bæta aðbúnað starfsfólks og sjúklinga á Landspítala þar sem svo virðist sem fjármunir fylgi ekki settum markmiðum.

Það sama má segja um framlög til heilsugæslunnar. Þar eru gefnar upp villandi upplýsingar af raunaukningu til málaflokksins. Það er því ekki hægt að sjá hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar að styrkja heilsugæsluna um land allt sem fyrsta viðkomustað sjúklinga. Stór hluti af fjármagni til málaflokksins fer í byggingu á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Við Framsóknarmenn bendum á leiðir til innviðauppbyggingar. Minnkum aðhaldskröfu ríkisfjármálaáætlunar til samræmis við fyrri áætlun og drögum úr niðurgreiðslu skulda. Ráðumst í framkvæmdir, sérstaklega á svæðum þar sem þenslan er lítil.

Góðir landsmenn. Undanfarið hefur samfélagið kallað eftir bættu heilbrigðiskerfi og var það áberandi í aðdraganda síðustu kosninga. Ákall samfélagsins sýnir fram á mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fé til málaflokksins með markvissum hætti. Forgangsmál Framsóknarmanna á þessu þingi var að unnin væri heilbrigðisáætlun. Þessi áætlun var lögð fram þar sem enga heilbrigðisáætlun var að finna á þingmálaskrá hæstv. ríkisstjórnar. Samkvæmt heilbrigðisáætluninni skal skýra verkferla innan kerfisins og skilgreina hvaða aðilar eigi að veita þjónustu. Koma skal fram hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum, hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að hafa möguleika til að sinna og hvort það sé hagkvæmt og/eða æskilegt.

Heilbrigðisáætlunin skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt skal tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu með utanspítalaþjónustu. Taka skal tillit til forvarna, lýðheilsu, íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða. Í áætluninni skal koma fram hvort og hvaða sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þannig álagi af okkar góða sjúkrahúsi, Landspítala.

Við gerð heilbrigðisáætlunar verði haft samráð við fagfólk víðs vegar að af landinu, helstu hagsmunaaðila og notendur. Fjármálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti skulu koma að vinnu heilbrigðisáætlunar til að tryggja fjármagn til málaflokksins og menntun fagfólks í heilbrigðisgreinum.

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Annað af forgangsmálum okkar Framsóknarmanna var tillaga um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs en það mál virðist hafa sofnað í hv. efnahagsnefnd Alþingis. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir heimili landsins. Tillagan snýst um að taka húsnæðisliðinn út úr útreikningum vísitölunnar og samkvæmt fréttum í dag er tólf mánaða verðbólga nú 1,7% en hún væri neikvæð um 2,6 prósentustig ef stuðst væri við samræmda vísitölu neysluverðs.

Góðir landsmenn. Auk þessa höfum við Framsóknarmenn lagt áherslu á að lækka enn frekar greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og koma til móts við þá sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu fjarri heimabyggð. Við munum halda áfram á þessari vegferð og við hlökkum til að berjast áfram fyrir góðum málum.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum velfarnaðar. — Góðar stundir og hafið það gott í sumar.



[21:46]
Sigrún Ingibjörg Gísladóttir (V):

Frú forseti. Ég sat minn fyrsta þingfund á föstudaginn og á mínum öðrum degi á þingi ætla ég ekki að fara ofan í saumana á því sem hefur verið gert eða ekki gert á tímabilinu. Í staðinn langar mig að tala um stóru hlutina. Mig langar að tala um sóknarfæri okkar.

Það vill þannig til að nákvæmlega ári áður en ég tók sæti á þingi á föstudaginn, þann 26. maí 2016, útskrifaðist ég úr háskóla og stóð frammi fyrir því að ákveða mín næstu skref. Ég hafði verið í námi í Bandaríkjunum, átti ég að búa áfram þar? Eða annars staðar? Hvar þá?

Ég ákvað að koma heim. Mér þótti Ísland bjóða upp á betri lífsgæði en buðust annars staðar. Ég gat búið í borg en í nánd við ósnortna náttúru. Ég sá fram á að geta eignast börn án þess að þurfa að kveðja starfsframann. Ég sá fram á að óháð efnahag mínum gætu þessi framtíðarbörn fengið góða menntun og að aðgangur að heilbrigðiskerfi væri tryggður. Ég sá fram á að ég gæti búið innan hæfilegrar lengdar frá vinnu og unnið við áhugaverð störf en einnig átt líf þess utan. Ég sá fram á að geta búið í samfélagi sem var opið og leiðandi í jafnréttismálum.

Með þessu er ég ekki að segja að Ísland sé best í heimi. Það er ýmislegt sem má laga en við höfum tækifæri til að bjóða ungu fólki upp á góð lífsgæði. Þar liggur samkeppnishæfni okkar og að þessu verðum við að hlúa. Mín kynslóð býr við þá forréttindastöðu að heimurinn er okkur opinn. Vegna alþjóðlegra samninga eins og EES-samningsins hefur aldrei verið auðveldara fyrir okkur að læra, búa og vinna erlendis þar sem tækifærin eru óteljandi og veðrið betra. Hvort sem okkur líkar betur eða verr heldur alþjóðavæðingin áfram. Í Viðreisn höfum við talað fyrir því að óttast ekki þessa þróun, heldur taka þátt í henni og vera leiðandi. En á sama tíma og heimurinn minnkar fjölgar tækifærunum annars staðar og þá verðum við að tryggja samkeppnishæf lífskjör hér á landi. Við erum fámenn þjóð og því fylgja ákveðnar takmarkanir en þar liggur á sama tíma helsti styrkleiki okkar. Boðleiðir eru stuttar og það á ekki að vera flókið eða erfitt að koma sameiginlegri sýn okkar á samfélagið í framkvæmd.

Fyrir okkur sem ekki sitjum á þingi að staðaldri er þetta eitt af því sem kemur á óvart. Það er erfitt að skilja hvers vegna markmið sem jafnvel allir eru sammála um ná ekki fram að ganga, hvers vegna við týnumst í útfærslum og sjáum ekki skóginn fyrir trjánum.

Í meginatriðum eru Íslendingar sammála um þá samfélagsumgjörð sem við viljum hafa. Við viljum búa við félagslega velferð, fjölskylduvænt samfélag og við viljum jafnan aðgang að grunnstoðum samfélagsins. Á sama tíma vilja flestir hafa möguleika á að skara fram úr. Og þótt við séum ekki alltaf 100% sammála um leiðir hljótum að geta náð sátt á fleiri stöðum en á bak við landsliðin okkar í fótbolta og sammælst um að ná þessum markmiðum.

Við erum í samkeppni við heiminn og til að Ísland verði áhugaverður kostur fyrir ungt fólk þurfum við að vera leiðandi og marka okkur sérstöðu. Við þurfum að nýta efnahagsuppsveifluna sem leyfir okkur í fyrsta sinn í mörg ár að hugsa stærra. Við megum ekki takmarka okkur við að framkvæma eftir sérhagsmunum eða týna okkur í smáatriðum sem verður til þess að mál sem allir eru sammála um ná ekki fram að ganga.

Við þurfum að setja okkur markmið sem tryggja að atvinnulíf sé öflugt og nýsköpun þrífist og við þurfum að tryggja að fólk búi við efnahagslegt öryggi og stöðugleika. Þetta kemur ekki af sjálfu sér og ef við ætlum að vera samkeppnishæf þurfum við að tryggja þessa aðstöðu. Þótt þetta sé forsenda fjármögnunar er þetta ekki sérstaða okkar. Sérstaða okkar er fólgin í því ef við höldum rétt á spöðunum að við getum samhliða þessu boðið upp á góð lífskjör, mannlegt og skemmtilegt velferðarsamfélag þar sem efnahagur, uppruni og kyn ræður ekki tækifærum heldur hæfileikar. En það er ekki sjálfgefið heldur krefst vinnu og samstöðu.

Sóknarfæri okkar liggja í smæð okkar og stuttum boðleiðum til að sameinast um að skapa samfélag þar sem velferð er tryggð á sama tíma og fólk getur nýtt hæfileika sína á Íslandi í og skarað fram úr.

Frú forseti. Mig langar að ljúka þessu hér með því að skora á þingið að sameinast um að tryggja að Ísland bjóði upp á samkeppnishæf lífskjör til þess að líta til framtíðar og sameinast um stóru myndina.



[21:51]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Kæru landsmenn. Nú þegar dagarnir eru hvað lengstir horfa flestir fram á sumarfrí í faðmi fjölskyldunnar. Ef íslensk stjórnmál hefðu virkilega ráðið við hlutverk sitt gerðu allir það með sömu tilhlökkun. En það er því miður ekki svo. Um þessi mánaðamót munu þúsundir Íslendinga horfa í gaupnir sér og velta áhyggjufullir fyrir sér næstu dögum og vikum og skoða hvort þeir eigi að borga reikninga, veita börnum tómstundir eða greiða læknisþjónustu.

Þúsundir barna munu ekki upplifa draumafríið sem við vel stæðir foreldrar getum veitt okkar börnum. Þessi börn munu þó líklega ekki hafa orð á neinu. Börn eru nefnilega merkilega þroskuð. Flest munu þau bera harm sinn í hljóði og hlífa foreldrum sínum við þeim áhyggjum. En á huga margra þeirra mun þó eflaust leita þessi nagandi spurning: Af hverju hún? Af hverju hann? Af hverju ekki ég?

Frú forseti. Við fimm til sex ára aldurinn gerist svolítið ótrúlega fallegt í þroskaferli barnsins. Það byrjar að finna til samúðar með öðrum. Það lærir að setja sig inn í aðstæður annarra og finna til með öðrum. Hver hefur ekki reynt að stöðva grát barns sem uppgötvar og skynjar sorglega atburðarás í teiknimynd eða barnabók? En þegar við fullorðnumst öðlumst við hins vegar hæfileikann til að setja hluti í samhengi, horfa á heildarmynd hlutanna, en líka að hugsa abstrakt og brynja okkur fyrir tilfinningum gagnvart einstökum atburðum. Þá grípum við gjarnan til þess að réttlæta alla mögulega og ómögulega hluti út frá heimi meðaltalsins og vísitölunnar.

En við lifum ekki í þannig heimi. Við erum öll af holdi og blóði, fólk sem á rétt að lifa með reisn. Þótt almenn lífskjör Íslendinga hafi batnað gríðarlega og ójöfnuður sé minni en víðast hvar er markmiðum okkar hvergi nærri náð. Við verðum að stefna að því að skapa samfélag þar sem allir eru þátttakendur, hver á sínum forsendum. Ísland er nógu ríkt land, nógu auðugt af auðlindum, til að hægt sé að tryggja öllum ásættanleg kjör. Til þess þarf aðeins að jafna gæðunum betur og deila byrðum eftir getu hvers og eins.

Við getum auðvitað aldrei blandað pólitíska mixtúru sem gerir alla ánægða og hamingjusama, komið í veg fyrir sjúkdóma eða jafnvel mannlega breyskleika. En við getum tryggt öllum öryggi og mannsæmandi kjör. Meðaltölin fletja ekki bara út veruleikann heldur draga athygli okkar stundum frá aðsteðjandi vanda. Þau geta jafnvel leitt okkur á villigötur. Nýverið birti Menntamálastofnun tölfræði sem sýndi að nemendur á höfuðborgarsvæðinu stæðu sig betur í samræmdum prófum en börn utan af landi. Draga mátti jafnvel þá ályktun að börn landsbyggðarinnar væru verri námsmenn og hefði lélegri kennara. Eflaust eru einhverjir skólar í fámenninu verr búnir og í verri færum. En þegar niðurstöður eru krufnar má sjá að einkunnir ráðast miklu fremur af félagslegri stöðu barns en búsetu þess. Þau börn sem búa við lakari félagsleg skilyrði, hafa veikara bakland, minni hvatningu, þeim gengur verr. Og til að bregðast við þessu væri því nærtækast að auka jöfnuð, laga búsetuskilyrði, styrkja velferðarkerfið og ráðast gegn fátækt.

Fyrir þá sem ekki skilja eða viðurkenna þá mannfyrirlitningu sem felst í miklum ójöfnuði er kannski allt í lagi að tefla fram efnahagslegum rökum. Vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar þarf framleiðni að aukast ef við eigum að halda áfram að bæta almenn lífskjör. Tæknibyltingin fram undan mun kalla á vel menntaða, hugmyndaríka einstaklinga með mikið frumkvæði. Af þeim ástæðum einum höfum við ekki efni á að skilja nokkurt barn eftir. Við þurfum að þróa menntakerfi sem mætir ólíkum þörfum hvers og eins, byggir á styrkleikum þeirra en ekki veikleikum. Og það er sorglegt að þessi ríkisstjórn setji ekki menntamál í algeran forgang. Í því felst bæði virðingarleysi og skammsýni. — Kæru landsmenn. Gleðilegt sumar.



[21:56]
Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Ég stend hér í kvöld frammi fyrir íslenskri þjóð og flyt ræðu í fyrsta sinn á eldhúsdegi. Ég held að ég sé þá annar innflytjandinn af fyrstu kynslóð sem heldur ræðu á eldhúsdegi, á eftir hv. þm. Pawel Bartoszek sem einnig flutti ræðu hér í kvöld. Fyrir það er ég mjög þakklát. Eflaust finnst ekki öllum það merkilegt en mig langar að segja ykkur af hverju mér finnst það merkilegt.

Það hefur ekki verið auðvelt fyrir mig að vera innflytjandi á Alþingi og líklega hefur það ekki farið fram hjá neinum. Ég er ekki alltaf með allt á hreinu. Stundum mismæli ég mig. Ég er fulltrúi fyrir flokk sem situr í ríkisstjórn á tímum þegar það er einfaldlega ekki vinsæll kostur að vera við völd. Ég hef hugsað með sjálfri mér hvort það væri ekki bara einfaldara að vera í stjórnarandstöðu, vegna þess að ég er eins og ég er. Ég er öðruvísi. Ég er nokkuð viss um að mínar frjálslyndu hugmyndir, eða hugmyndir sem samræmast minni reynslu og þekkingu, myndu ekki fljúga jafn hátt ef við værum í stjórnarandstöðu. Það væri auðveldara að láta bara í sér heyra þegar það hentar í stað þess að þurfa að takast á við ýmis verkefni sem fylgja því að axla ábyrgð.

Í yfirlýsingu Bjartrar framtíðar höfum við skilgreint hugrekki svona: Það krefst hugrekkis að hlusta á hjarta sitt, fylgja sannfæringu sinni, boða sýn, treysta fólki, hlusta á rök og upplýsingar, standa í fæturna og axla ábyrgð. Ég mæti til vinnu hingað í þinghúsið á hverjum degi með þessi orð föst í brjósti mér af því að mér er annt um samfélagið sem hefur fært mér svo margt og vil því allt hið besta.

Við eigum enn eftir að byggja og bæta margt í okkar samfélagi sem lamaði mörg okkar í hruninu 2008. Þrátt fyrir það eigum við svo ótal margt gott hér á landi sem mér finnst við stundum gleyma. Hér stend ég, útlendingurinn, sem tákn um að hér er hægt að gera hluti sem ekki væri hægt að gera annars staðar. Og alls ekki í heimalandi mínu, Bandaríkjunum, „land of the free home of the brave“, frú forseti. Á Íslandi erum við örugg. Hér hafa allir aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Hér eigum við viðamikið og öflugt velferðarkerfi, tilbúið að grípa þá sem á þurfa að halda. Það er eftirsóknarvert að búa á Íslandi. Ég vil hvergi annars staðar búa.

Þegar ég flutti hingað fyrir 16 árum starfaði ég eins og flestir innflytjendur sem ræstitæknir því að það var ekkert annað í boði fyrir manneskju eins og mig sem talaði næstum enga íslensku. Ég einangraðist og mætti fordómum oft og víða. En mjög margt hefur breyst og nú stend ég hér, þökk sé íslenska menntakerfinu.

Ég kom hingað frá ríku landi, líklega einu ríkasta landi í heimi, og það kom mér verulega á óvart að heima var ekki, og er ekki enn, boðið upp á sömu tækifæri og hér. Ég velti því oft fyrir mér hvort við skiljum nægilega vel hvað það þýðir og hvað Íslendingar búa við mögnuð tækifæri.

Fyrir mér þýðir það að ef við beitum þeim kerfum sem við höfum, keppumst við að bæta og gera þau aðgengilegri og ef við mætum áskorunum sem fyrir okkur eru lagðar með krafti og jákvæðu hugarfari getum við allt.

Það kom mér verulega á óvart að uppgötva að háskólanám hérlendis myndi ekki kosta mig margar milljónir á hverri önn. Heima skrá innflytjendur sig ekki í háskólanám eftir einungis þriggja ára dvöl í landinu. Hér á Íslandi er það hægt og það er frábært.

Fólki finnst það stundum óþægilegt þegar ég ber saman það sem við höfum hér og stöðuna heima í Bandaríkjunum. Við sem flytjum hingað þurfum hins vegar að meta hvort það er þess virði að flytja frá fjölskyldu og nánustu vinum til að setjast hér að. Hvernig mun mér líða hér? Hvernig mun börnunum mínum reiða af í þessu samfélagi? Í mínu tilviki hefur þessi samanburður sannað fyrir mér að ég tók rétta ákvörðun því að mér líður ákaflega vel hér. Ísland er svo sannarlega land tækifæranna.

Ég varð strax og er enn ástfangin af íslenska menntakerfinu. Ég hef fulla trú á að þrátt fyrir erfiðleika við að koma okkur af stað eftir hrunið munum við ná okkur á strik. En til þess þarf kjark og þor. Menntakerfið er lykilkerfið í samfélaginu öllu. Menntun er langbesta leiðin til að valdefla landsmenn á öllum aldri, hvaðan sem við komum. Við megum samt ekki gleyma að horfa líka til þeirra sem þurfa sérstaka hvatningu. Ekki bara til þeirra sem hafa það gott og geta nýtt sér tækifærin. Við þurfum að viðurkenna styrkleikana sem eru til staðar í menntakerfinu og samfélaginu í heild og halda áfram að þróa þá. Við vitum nefnilega ekki í hvaða skóla næsti tvítyngdi innflytjandi situr, sem mun stíga fram á Alþingi og sanna að við búum í landi þar sem allir hafa tækifæri til að fara eins langt og þá lystir. — Góðar stundir.