146. löggjafarþing — 75. fundur
 30. maí 2017.
fjármálaáætlun 2018–2022, frh. síðari umræðu.
stjtill., 402. mál. — Þskj. 533, nál. 808, 809, 831, 842 og 873, breytingartillaga 843 og 871.

[10:43]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Frú forseti. Við erum nú á lokaspretti umræðu um ríkisfjármálaáætlun sem rædd hefur verið í þinginu undanfarna daga. Þetta hefur að mörgu leyti verið tímamótaumræða að því leyti að hún bar þess glögglega merki að þingið var allt saman virkur þátttakandi í umræðu og meðferð málsins. Ég vil þakka sérstaklega á þessari stundu, þegar líður að lokum þessarar umræðu, þá góðu vinnu sem allt þingið lagði í þetta mikilvæga þingmál.

Umræðan hefur að vissu leyti snúist um tæknileg mál og tæknilega framsetningu þingmálsins. Ég vil einungis segja, eins og reyndar hefur komið fram í umræðunni sem ég hef reynt að taka þátt í af fremsta megni, að auðvitað erum við í ákveðnu lærdóms- og þróunarferli í þessu máli. Ég held að umræðan núna beri þess líka merki að við ættum að reyna að einsetja okkur að taka eins stórt stökk í því að þróa þetta ferli hratt og vel þannig að við getum náð þeim markmiðum sem við ætluðum að setja okkur, miklu fyrr en blasir endilega við okkur nú.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál hér. Ég ætla að fá að skipta ræðutíma okkar Sjálfstæðismanna milli mín og hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar, en einungis segja hér að lokum efnislega um ríkisfjármálaáætlun að það er mikilvægt að við höfum í huga að hún er stórt tannhjól í gangverki þess að hér ríki ábyrg efnahagsstjórn. Það má vissulega ræða um hverju þarf að breyta og að það þurfi að bæta ýmsu í og laga. Þetta er ábyrg nálgun að því leyti að við reynum að gæta hófs í að þenja út ríkisútgjöldin. Við tökum mið af þeim þrótti sem er í efnahagslífinu og honum er vissulega skilað í raunaukningu útgjalda sem rakin eru sérstaklega í nefndaráliti meiri hlutans þar sem reynt hefur verið að flokka betur þá útgjaldaþróun sem verður á næstu árum.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir þá góðu umræðu sem um þetta mál hefur verið.



[10:46]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Hér er klárlega um að ræða nýtt verklag í fjármálaáætluninni. Það er stórt og mikið átak sem íslensk stjórnsýsla gerir í þessu máli. Ég ætla rétt að nefna nokkra punkta sem við tökum til í áliti meiri hlutans í fjárlaganefnd, um fjárfestingastigið og betri upplýsingasöfnun þar, þannig að við metum það og reynum að sjá fjárfestingastigið í landinu fyrir okkur á næstu árum, hvernig við vinnum þetta mál. Við kölluðum Samtök iðnaðarins og fleiri aðila fyrir nefndina, óskuðum eftir upplýsingum vítt og breitt og vonandi fáum við ítarlegri greiningar fyrir næstu fjármálaáætlun, jafnvel fyrir fjárlögin í haust frá þessum aðilum.

Mikilvægt er að vinna þetta náið með sveitarfélögunum og öðrum opinberum aðilum, fyrirtækjum og ohf-unum og öðrum til að fá betri heildarmynd en við virðumst vera með í dag og höfum haft til að vinna með.

Varðandi það sem fram kemur í áliti meiri hluta fjárlaganefndar um ferðaþjónustu þá teljum við mjög mikilvægt að ítarlegri rannsóknir og greiningar fari fram á greininni, sem skapaði um 39% af gjaldeyristekjum í fyrra þegar sjávarútvegurinn skapaði nærri 20% og stóriðjan 13%. Það er spurning hvort taka eigi íslenskan flugrekstur út úr tölfræðinni varðandi ferðaþjónustuna og gera jafnframt ítarlegar greiningar á flugrekstrinum. Íslenskur flugrekstur er hlutfallslega gríðarlega stór hluti af efnahagslífi okkar, hann kemur víða við. Þetta er raunverulega fjórða stoðin í dag ef við tölum um hinar hefðbundnu stoðir, og það þarf að greina. Verið er að ræða um hvernig við eigum að tempra hinn mikla straum erlendra ferðamanna til landsins og þær efnahagslegu stærðir sem skapast, og eins þrýstinginn á íslensku krónuna og slíka þætti, hvort ekki þurfi að fara í frekari rannsóknir á því, vegna þess að íslenskur flugrekstur, alþjóðaflugrekstur, er orðinn svo stór breyta í landsframleiðslu og efnahag þjóðarinnar. Það er því þörf á að menn skoði það efnahagslega og geri þær greiningar sem gera þarf, hvaða áhrif hann hefur á hagkerfi okkar.

Árið 2010, þegar Eyjafjallajökulsgosið varð, voru 16 farþegaþotur í rekstri hjá Icelandair og Iceland Express til og frá landinu. Á þessu ári eru þær orðnar 49 hjá Wow og Icelandair, fjöldinn hefur þrefaldast. Ef spárnar ganga eftir, og það gerist sem Wow air hefur gefið í skyn, innan þriggja ára, að flugfélagið fari úr 17 vélum, sem það hefur yfir að ráða í dag, upp í 40, og Icelandair heldur áfram að vaxa eins og það hefur gert síðustu ár, verða farþegaþotur sem fljúga til og frá landinu 2020 orðnar 80. Þær voru 16 talsins árið 2010. Á 10 árum fimmfaldast því flugflotinn til og frá landinu.

Ég held að við þurfum að fara að taka alvöruumræðu um hversu mikil áhrif þessi gríðarlegi vöxtur getur haft á íslenskt efnahagslíf. Það má heldur ekki tala þannig — ég er nú sá þingmaður hér sem mest hefur talað fyrir íslenskum flugrekstri og hef gert það mjög lengi, en ég vil að við greinum hvað þetta mun þýða fyrir íslenskt efnahagskerfi. Ég held að það sé mikil þörf á að gera það sem allra fyrst.

Offshore Economics gerði skýrslu árið 2011 um íslenskan flugrekstur sem hlutfall af landsframleiðslu Íslendinga. Þá var það um 6,6%, en í dag eru menn ekki með á hreinu hvað það er hátt hlutfall. Heyrst hafa tölur um að það séu á milli 10 og 15% af landsframleiðslunni sem tengist íslenskum alþjóðaflugrekstri. Ég tel mikla mikla þörf á að þetta verði tekið mjög kerfisbundið fyrir og að skýrslan verði a.m.k. unnin á nýjan leik. Það þarf að uppfæra þau gögn og þær tölur sem voru í fyrri skýrslu til að fá einhverja sýn á þetta vegna þess að stefnumótun fyrir landið á náttúrlega að gera að einhverju leyti hér. Ríkisvaldið, löggjafarþingið verður náttúrlega að hafa einhverja sýn á hvernig þetta eigi að þróast í efnahagslífinu og segja hvernig við viljum sjá að það þróist. Þess vegna erum við með ábendingar um þessa þætti í meirihlutaáliti fjárlaganefndar. Við viljum að menn fari að meta áhrifin inn í kerfið og fái heildarsýn og vinni að stefnumótun til framtíðar.

Ef við skoðum hvaða hugmyndir eru í dag um Keflavíkurflugvöll og þróun hans á næstu árum þá eru það mjög stórar hugmyndir. Það þyrfti líka að meta það inni í heildarefnahagskerfi þjóðarinnar hvað það þýðir (Forseti hringir.) ef spárnar rætast sem menn hafa talað um í sambandi við Keflavíkurflugvöll.



[10:51]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það sem hefur vakið athygli við þessa fjármálaáætlun er í fyrsta lagi umsögn óháðs fjármálaráðs um áætlunina. Ég held að ég sé ekki að fara offari þegar ég segi að sú umsögn sé í raun falleinkunn um þessa áætlun. Þar er bent á að áætlunin sé ekki í samræmi við þau grunngildi sem getið er um í lögum um opinber fjármál hvað varðar stöðugleika, hvað varðar gagnsæi, hvað varðar jafnvægi og sett eru fram ítarleg rök um það af hverju áætlunin uppfyllir ekki þau grunngildi. Sérstaklega er þetta áberandi hvað varðar gagnsæið sem er nánast ekkert í þessari áætlun því að það vantar gríðarmiklar grunnforsendur og baklægar tölur til þess að áætlunin geti talist gagnsæ.

Fjármálaráð segir líka í umsögn sinni að áætlunin byggist á einsleitum spálíkönum og þar af leiðandi sé gríðarleg óvissa um efnahagslegar forsendur áætlunarinnar. Til að mynda er gert ráð fyrir því að þessu lengsta samfellda hagvaxtarskeiði lýðveldissögunnar ljúki með mjúkri lendingu þó að sagan kenni okkur annað. Við hljótum að hlusta eftir þessum ábendingum og þessari gagnrýni fjármálaráðs sem segir að það vanti miklu meiri vinnu til þess að þessi lög virki eins og þeim var ætlað að gera, að þessi áætlun standist ekki lögin eins og þau eru uppfyllt.

Um tekjuhlið þessarar áætlunar vil ég segja að hún byggir á því sem áður hefur verið gert. Á síðasta kjörtímabili voru tekjustofnar ríkisins veiktir verulega. Ég þarf ekki að fara yfir öll þau dæmi sem ég hef oft farið yfir hér í ræðustól Alþingis. En áfram er haldið með því að boða lækkun á efra þrepi virðisaukaskattskerfisins. Ég hef ekki heyrt hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans efast um þá skattalækkun, enda er hún hluti af þeirri möntru sem við heyrum hjá öllum hv. þingmönnum stjórnarliðsins um gildi skattalækkana þó að það sé þvert á það sem allir hagfræðingar tala um. Nú þegar þenslan í hagkerfinu er með þeim hætti sem við sjáum, styrking krónunnar með þeim hætti sem við sjáum, þá er boðuð skattalækkun. Tilfærsla ferðaþjónustunnar í efra þrep virðisaukaskattskerfisins er umdeild, hún mun ekki koma til framkvæmda ef ég kann að hlusta og kann að lesa í orð hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans. Hún mun ekki koma til framkvæmda og ég er svo sem ekki hissa, því að ekkert samráð virðist hafa verið haft við greinina um þessa tillögu, engin greining liggur fyrir á því hvaða áhrif þessi breyting mun hafa á ferðaþjónustuna. Það er ekki búið að vinna heimavinnuna, frú forseti.

Stóra málið er nú líklega það að áformuð þróun samneyslunnar, sem lögð er til í þessari fjármálaáætlun meiri hlutans, sést á bls. 16 í greinargerð tillögunnar; þar sést hvernig hlutfall samneyslu af vergri landsframleiðslu fer lækkandi ár frá ári út áætlunartímann og endar undir meðaltali síðastliðinna 25 ára. Slík þróun er algjörlega fráleit. Við vitum hver aldurssamsetning þjóðarinnar er og við vitum að heilbrigðiskerfið mun kosta okkur meira þegar fram í sækir sem og umönnunarkerfið og að auki erum við með gríðarlega uppsafnaða uppbyggingarþörf, hvort sem litið er til heilbrigðismála, menntamála eða annarra innviða, svo að ég nefni nú ekki þá sem búa við lægst kjörin í samfélagi okkar, öryrkja og aldraða, sem fá hörmulega niðurstöðu í þessari fjármálaáætlun þar sem framfærslutrygging öryrkja, sem á að nafninu til að tryggja að kjör þeirra haldist í hendur við lægstu umsamin laun í samfélaginu, heldur áfram að skerðast krónu fyrir krónu. Ég hvet hv. þingmenn meiri hlutans til að lesa umsögn Öryrkjabandalagsins um þessa áætlun.

Í stuttu máli eru forsendurnar óljósar. Það er skortur á greiningum og gögnum. Áætlunin fylgir ekki grunngildum laga um opinber fjármál og er fjarri öllum þeim væntingum sem gefnar voru almenningi í þessu landi fyrir kosningar. Hún stendur ekki (Forseti hringir.) undir þeim væntingum sem forsvarsmenn stjórnarflokkanna gáfu fyrir kosningar. Það eitt og sér er nægileg ástæða til að hafna þessari áætlun.



[10:56]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Í gær sagði hæstv. samgönguráðherra Jón Gunnarsson að staðan í efnahagsmálum væri með eindæmum góð og hefði sjaldan verið betri. Staða ríkissjóðs væri sterk og væri undirstaðan fyrir komandi uppbyggingu. Kunnugleg stef heyrðust líka, áherslan á einkaframtakið, aðhald í ríkisfjármálum en svo læddist inn stóriðjublæti ráðherrans þrátt fyrir að umhverfisráðherra í sömu ríkisstjórn segi að ekki verði ráðist í slíkt á hennar vakt.

Undir einkvæðingarblætið tók hv. þm. Hildur Sverrisdóttir með umvandanir um leið í garð okkar sem hún telur að skiljum ekki hugtök þegar kemur að einhverju sem byrjar á einka.

Viðreisnarþingmenn sem og ráðherra hjá Bjartri framtíð töluðu hvert um sinn málaflokk og sitt sem undirstrikar að hér fer ekki samstiga ríkisstjórn.

Það er vissulega krefjandi að viðhalda velferðarkerfinu okkar og tryggja framtíð þess. Til þess þarf bæði gott skipulag í samtímanum og skýra framtíðarsýn en ekki síst trausta fjármögnun. Þar eru skatttekjur mikilvægastar og að mati okkar Vinstri grænna ætti ekki að leita annað eftir fé til að greiða fyrir velferðarþjónustu. Við höfum ekki áhuga á að krefja sjúkt fólk um greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu eða ungmenni um skólagjöld en við ætlumst til þess að greiddir séu álagðir skattar af skattstofnum. Við gerum kröfu um að arður af náttúruauðlindum falli í hlut allra landsmanna en ekki fámennra hagsmunahópa. Við viljum að greiddur sé skattur af fjármagnstekjum og við höfum alls ekkert umburðarlyndi gagnvart þeim sem víkja sér undan skyldu sinni við samfélag sitt í þessum efnum.

Þessi ríkisfjármálaáætlun kemur ekki til móts við það sem lofað var fyrir kosningar. Það er uppgangur í efnahagslífinu og af hverju eiga öryrkjar, eldri borgarar, börn og ungt fólk sem er að koma sér upp húsnæði ekki að njóta? Hvenær skyldi vera rétti tíminn til þess?

Eins og hér kom fram áðan er umsögn fjármálaráðs um þessa ríkisfjármálaáætlun falleinkunn. Það hefur ekki verið eins lág samneysla síðastliðin 25 ár og gert er ráð fyrir í þessari fjármálaáætlun. 25 ár eru ekkert smáræði. Við horfum fram til þess að þjóðin eldist töluvert og við tökumst ekki heldur á við það í þessari ríkisfjármálaáætlun með uppbyggingu í öldrunarþjónustu. Við erum að kaupa þyrlur en ætlum ekki að tryggja á þær mannskap. Við ætlum að fækka í lögreglunni af því að við leggjum ekki nóg til. Við ætlum að loka eða fækka hjá sýslumönnum og líklega verður það ekki síst á landsbyggðinni. Það er gert ráð fyrir að fækka nemendum í skólum. Hér er talað um einkavæðingu í öðru hverju orði hjá þeim þingmönnum sem ræða um þessa ríkisfjármálaáætlun. Það eru svikin loforð og það er engin sókn í uppbyggingu í þessari ríkisfjármálaáætlun. Það er blekkingaleikur að halda slíku fram.

Það ríkir stjórnleysi á stjórnarheimilinu. Ég held að það sé alveg ljóst, það kom hér fram í gær og það hefur komið fram opinberlega mjög ítrekað að þessi ríkisstjórn gengur ekki í takt.

Ekki hefur tekist nægilega vel til í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem hér er lögð fram. Það er ámælisvert að fresta eigi og ýta fram á haustið ákvörðunum sem eru grundvallaratriði í þessari ríkisfjármálaáætlun. Það er ekki hægt að bjóða upp á þetta. Hæstv. ráðherra hefur sagt að ekki sé hægt að takast á við athugasemdirnar af því að þær komi fram eftir að ríkisfjármálaáætlun hefur verið lögð fram. Til hvers erum við þá að fá athugasemdir ef við ætlum ekki að taka tillit til þeirra?

Við getum ekki bara sagt: Við ætlum að reyna að gera betur næst. Við gerum það klárlega, það er ekki hægt annað. Verra getur það eiginlega ekki orðið miðað við umsögn fjármálaráðs.

Það er ámælisvert að ætla að halda því fram að við getum beðið. Stjórnarþingmenn tala hér um að þetta sé ekki algilt vegna þess að þetta sé bara þingsályktunartillaga en ekki lög en við erum samt búin að festa þetta hér með þingsályktunartillögu sem samþykkt var af hálfu ríkisstjórnarflokkanna fyrr og heitir fjármálastefna. Þar eru ríkisfjármálin römmuð inn og við lokuð inni, eins og fjármálaráð bendir ítrekað á.

Þegar við erum svo komin með þessa ramma í hendurnar örlítið meira sundurgreinda, allt of lítið þó eins og allir hafa sagt, er bara sagt: Þetta kemur bara í ljós í haust og þá ætlum við að jústera á milli málaflokka eða málasviða.

Virðulegi forseti. Hvar eru peningar? Hvaða málaflokkur er svo feitur að hann geti séð af fjármunum í eitthvað annað? Hver á að borga tillögur meiri hlutans í fjárlaganefnd sem byggja á því að peningarnir fái að haldast í framhaldsskólunum, að háskólarnir njóti sambærilegra framlaga og á yfirstandandi ári? Það er ekkert skýrt, en það hlýtur að vera innan þess málasviðs þannig að ég velti fyrir mér hvort einhver málaflokkur innan málefnasviðs skólanna hafi borð fyrir báru. Það held ég ekki.

Ég verð að segja, af því að oft er talað um vinstri og hægri, að munurinn á hægri og vinstri stefnu er alltaf augljós. Stundum er öðru haldið fram. Það er aldrei erfitt að greina á milli félagshyggju og jafnaðarstefnu annars vegar og sérhyggju og kapítalisma hins vegar. Það er alltaf augljóst þegar réttur hinna sterkari og ríkari er meira virtur en réttur þeirra sem standa höllum fæti og hafa af litlu að taka. Þegar stjórnvöld hleypa afli auðmagnsins að stjórnartaumunum skapast það félagslega óréttlæti sem við sjáum hér. Það er það sem er að gerast og það er það sem þessi ríkisfjármálaáætlun endurspeglar.



[11:02]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum í dag síðasta sinni stærsta mál ríkisstjórnarinnar á þessum þingvetri, fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Það er lýsandi um þá umræðu að gagnrýnin í þessum þingsal, bæði frá minni hlutanum en ekki síður frá meiri hluta þingmanna, þ.e. í álitum sem þeir hafa gefið, er mjög mikil á áætlunina enda stendur hún ekki undir þeim væntingum sem stjórnarflokkarnir, og reyndar aðrir flokkar, lofuðu fyrir kosningar og hún er ekki að bregðast við þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í samfélaginu í dag.

Það sem allir eru sammála um, bæði þingmenn í þessum sal og utanaðkomandi aðilar, eins og fjármálaráð, er að verulega skortir á að framsetningin að þessu sinni uppfylli lagaleg skilyrði og meiri greiningar vanti á milli fjárfestinga og reksturs og annarra hagrænna þátta. Það er ágætt að við erum sammála um það. Ég held að það muni vonandi breytast í framtíðinni.

Það sem hins vegar er merkilegra að sjá er að í meirihlutaáliti fjárlaganefndar í 12 liðum gagnrýna þeir mjög margt í þessari fjármálaáætlun og benda á að breyta þurfi. En stjórnarþingmennirnir heykjast á því að koma með breytingartillögur. Þetta er þó sú umræða, sá staður, þar sem við tökum umræðuna um stefnumótunina, það er löggjafinn sem leggur línurnar og framkvæmdarvaldið fylgir. En það virðist vera sem svo að samstöðuleysið innan ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna sé þannig að stjórnarþingmenn þori ekki að leggja fram breytingartillögur vegna þess að þeir eru ekki sammála um þær. En þeir verða sammála um að benda á eitt og annað.

Ég ræddi það í umræðu um fjármálastefnuna að stefna þessarar ríkisstjórnar væri að sníða sér þann stakk eftir vexti að þeir gætu ekki framfylgt einu eða neinu. Við umræðuna um fjármálastefnuna mátti ekki ræða neitt, stjórnarþingmennirnir komu ekki hingað upp. Hér í fjármálaáætluninni gagnrýna þeir þó eitt og annað, en þeir fóru heldur ekki að leggja fram breytingartillögur.

Í fjárlögunum í haust verðum við í miklum vanda. Þar verður allt upp í loft. Það mun vanta peninga í heilbrigðiskerfið, stórkostlega. Það er vanfjármagnað. Menn halda því fram að verið sé að fjármagna það í botn, bæði í uppbyggingu og rekstur. Það er alrangt. Sú uppbygging er ekki einu sinni fjármögnuð, sem er þó stærsti hlutinn, sem fer í steinsteypu við Hringbraut. Það sama gildir um háskólastigið. Sú aukning sem þar er fer að stærstum hluta í steinsteypu, ekki í meiri menntun.

Í framhaldsskólanum ákveður núverandi ríkisstjórn að bregða af leið fyrri ríkisstjórnar og fyrri fjármálaáætlunar með því að taka fjármagn frá framhaldsskólanum, sem skapast við styttingu náms úr fjórum árum í þrjú, og færa það inn í ríkissjóð eða í eitthvað annað, en ekki að skila því aftur til menntunarinnar.

Í nýsköpun, rannsóknum og tækniþróun er engin áætlun. Metnaðarleysi núverandi ríkisstjórnar er algert þegar kemur að því að takast á við framtíðina, sem er að skapa hér aukna menntun, aukin tækifæri í nýsköpun, rannsóknum og menntun ungs fólks.

Að ekki sé minnst á samgönguáætlun eða samgöngur. Þar skilar ríkisstjórnin einfaldlega auðu. Þar er rætt um að setja veggjöld. Ef menn vilja fá meiri þjónustu, fleiri og betri vegi, þá skulu menn bara borga meira. Það var mantran sem við heyrðum hér í gær. Sjálfstæðisflokkurinn kom þó fram og sagði: Það þarf bara að einkavæða meira. Björt framtíð mætti hingað upp, formaður hennar, og tók undir að það væri bara góð stefna sem þessi ríkisstjórn framfylgdi. Það kom mér á óvart. Viðreisn skilaði hins vegar auðu í eldhúsdagsumræðunum í gær. Það var ekkert rætt af hálfu stjórnarþingmanna um framtíðina.

Það er rétt að staða efnahagsmála á Íslandi er góð í dag, en það eru risastórar áskoranir. Þær snúast að mörgu leyti að því að finna þarf leið til þess að lenda hagkerfinu mjúklega. Stærsta áskorunin er okurvextir í landinu og gengi. En það er til önnur leið. Það er leið hins blandaða hagkerfis. Það er leiðin þar sem við byggjum upp þar sem tækifæri eru til þess. Það eru tækifæri til þess úti á landsbyggðinni þar sem víða er þörf á mikilli uppbyggingu án þess að það hefði mikil þensluáhrif á heildina í landinu. Það væri uppbyggingarstefna. Nú er akkúrat tækifæri til þess.

Auðvitað þarf að fjármagna nauðsynlega innviði heilbrigðis- og menntunarmála alls staðar á landinu. Það er bara frumskilyrði. Við höfum næga fjármuni til þess. Það eigum við að gera. Þess vegna munum við hafna þessari fjármálaáætlun og leggja til aðrar leiðir við fjárlögin í haust.



[11:07]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Við Framsóknarmenn teljum mikilvægt að leggja áherslu á niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og draga þar með úr vaxtakostnaði, en við hefðum viljað fara aðra leið en hægri stjórnin, betri leið og hún er fær. Við gagnrýnum t.d. þá miklu aðhaldskröfu sem sett er fram í ríkisfjármálaáætlun. Við hefðum viljað færa aðhaldskröfuna niður í 1% afgang af fjárlögum, en hún er nú 1,5%. Minna aðhald ætti að skila ríkissjóði um 10–12 milljörðum kr. aukalega á ári. Að auki viljum við auka tekjur ríkissjóðs t.d. með komugjaldi og lýðheilsuskatti.

Samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar er ófjármögnuð. Ríkisstjórnin ætlar reyndar að leggja nokkra milljarða í samgöngumál, en þeir eru aðeins dropi í hafið. Á meðan grotna samgöngumannvirki niður og við náum ekki að fara í nýframkvæmdir, sem eru orðnar verulega aðkallandi vegna vaxandi umferðar. Ríkisstjórnin ætlar að skila auðu í samgöngumálum. Ráðherrar og þingmenn hægri flokkanna hafa þó reynt að draga úr vonbrigðum landsmanna með því að tala um að það sé von. Vonin felst í vegatollum. Skilaboðin eru: Ef þið viljið bæta samgönguöryggi, losna við einbreiðar brýr og tvöfalda vegi hljótið þið að vilja greiða vegatolla. Annars gerist ekki neitt.

Þessi skilaboð eru þvættingur. Það er til betri leið, leið okkar Framsóknarmanna. Ástríðuleysið innan ríkisstjórnarinnar blasir við hverjum þeim sem vill sjá. Það eina sem virðist sameina flesta þingmenn ríkisstjórnarflokkanna er trú þeirra á einkavæðingu, einkarekstur á sem flestum sviðum. Ríkisstjórnin rekur sveltistefnu sem er til þess fallin að fá íbúa landsins til að sætta sig við að það er betra að hafa einkarekna þjónustu en alls enga — eða slaka þjónustu.

Til að fela kosningasvikin er sú leið farin að leggja fram fjármálaáætlun án þess að aðgreina fjármagn sem er annars vegar fyrir fjárfestingu og hins vegar rekstur. Ef við horfum t.d. á þau málefnasvið sem lúta að heilbrigðis- og menntamálum hefur komið í ljós að sú fjármagnsaukning sem sett er í þá málaflokka fer fyrst og fremst í steypu.

Ég gagnrýni þá forgangsröðun og bendi á þá augljósu staðreynd að ef innviðir fá að grotna niður áfram mun það skaða samkeppnisstöðu landsins til lengri tíma. Ætla menn í alvörunni að halda að sér höndum þegar uppgangur er í efnahagslífinu, eins og þeir gera þegar niðursveifla er? Hvenær er rétti tíminn til að fara í framkvæmdir?

Við þurfum að fara varlega á tímum sem hagkerfið er heitt, eins og nú. En þenslan er ekki á öllum landsvæðum. Greiningu skortir, t.d. varðandi magfeldisáhrif framkvæmda eftir landshlutum. Ég vil einnig undirstrika enn og aftur að forgangsröðun opinberra framkvæmda á ekki einungis að byggja á arðsemiskröfum heldur þjóðhagslegum forsendum þar sem ýmsir samfélagslegir þættir eru einnig teknir inn í jöfnuna.

Þá kem ég að byggðamálunum sem eru okkur Framsóknarmönnum afar hugleikin, nú sem endranær. Fjármálaáætlun lýsir því miður algjöru metnaðarleysi á því sviði þar sem framlög til sóknaráætlana til lengri tíma er ekki að finna í fjármálaáætlun. Slík óvissa um fjármögnun verkefna til lengri tíma er algjörlega óboðleg.

Við Framsóknarmenn erum algjörlega mótfallin þeim virðisaukaskattsbreytingum sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa talað fyrir. Við teljum þær hugmyndir illa útfærðar og illa undirbúnar. Í ljós hefur komið að áhrif fyrirhugaðra breytinga eru vangreind og þær ekki unnar í samráði við hagsmunaaðila.

Svipuð gagnrýni kom frá sveitarfélögunum gagnvart þeim þáttum fjármálaáætlunar sem snúa að þeim. Þar var heldur ekkert samráð haft og það sem verra er, áætlanirnar eru fullkomlega óraunhæfar m.a. að sögn fjármálaráðs, Ríkisendurskoðunar, sem tók reyndar dýpra í árinni og sagði að þessar áætlanir og tölur væru hreinlega galnar, og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hvers vegna er verið að setja fram tölur sem vitað er að munu ekki standast? Ég vitna hér í 11. gr. laga um opinber fjármála sem við eigum að fylgja. Þar segir að það beri að hafa samráð við sveitarfélögin við gerð fjármálaáætlunar. Það ber að gera það og það er ekki verið að því nú. Við erum ekki að framfylgja lögum um opinber fjármál, a.m.k. ekki að þessu leyti.

Meiri hluti fjárlaganefndar áttaði sig fljótlega á hve meingölluð framlögð fjármálaáætlun er, bæði hvað varðar innihald og framsetningu. Því lagði meiri hlutinn til að ákveðnir þættir yrðu skoðaðir betur og úrbætur gerðar. Mikið vildi ég að meiri hluti fjárlaganefndar hefði sýnt pólitískt hugrekki, verið samkvæmur sjálfum sér og lagt fram breytingartillögur. Ætla þeir þingmenn stjórnarinnar sem hafa áttað sig á hversu meingölluð áætlunin er, í alvörunni að greiða atkvæði með málinu?

Það ætlum við Framsóknarmenn a.m.k. ekki að gera, við verðum á rauða takkanum og leggjum til að málinu verði hafnað.



[11:12]
Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun sem samþykkt var í kjölfar eldhúsdagsumræðna þar sem aðeins var talað um hana. Ríkisstjórnin hefur enn ekki getað útskýrt fyrir þjóðinni eða þingmönnum hvert hún stefnir. Hún telur það vera sitt helsta mál að sýna ábyrgð í ríkisrekstri, en leiðirnar í því virðast vera að minnka ríkisrekstur, færa hann til einkaaðila og vega að samneyslu. Þetta er allt annar tónn en var sleginn fyrir kosningar.

Ræðum þá aðeins hvaða ábyrgð felst í þessari fjármálaáætlun. Í henni er skilið eftir 8,5 milljarða gat í rekstri ríkisins og óvíst er um 17 milljarða kr. árið 2019 vegna þess að fallið virðist vera frá fyrirhugaðri hækkun á virðisaukaskatti á ferðamenn sem taka átti gildi í júlí 2018. Ekki eru lagðar til neinar tekjur eða sagt hvar eigi að skera út á móti. Þetta er óábyrgt.

Það er mikilvægt í miðri uppsveiflu að halda sig við markmið um niðurgreiðslu skulda en ekki gera eins og ríkisstjórnin gerir nú að lofa ófjármögnuðum útgjöldum. Það dregur úr trausti og setur markmið um afgang á fjárlögum í fullkomið uppnám og magnar sveiflu og aukinn þrýstingur myndast á hækkun vaxta. Með þessu kyndir ríkisstjórnin líka undir óstöðugleika á vinnumarkaði, allt vegna þess að fjárlaganefnd og þingmenn ríkisstjórnarinnar ráða ekki við að afla ríkissjóði tekna þegar það hefur sjaldan verið auðveldara. Í blindri trú á þá kennisetningu frjálshyggjunnar að opinber afskipti og skattheimta geti ekki verið af hinu góða leggja þeir til sínar vondu hugmyndir.

Grafið er undan félagslegum stöðugleika sem er þó ein af undirstöðum norræna módelsins, sem ríkisstjórnin talar reyndar mjög fallega um þegar það hentar. Þessar fyrirætlanir ásamt spennitreyju fjármálaáætlunar, sem kveður á um tiltekinn afgang af ríkisrekstri, gera það að verkum að niðurskurðarhnífurinn mun blasa við og falla ef aðeins höktir í efnahagslífinu og uppgangurinn minnkar. Þess vegna er brýnt að núverandi ríkisstjórn haldi ekki völdum.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafna með öllu þessum óábyrgu vinnubrögðum meiri hlutans við afgreiðslu fjármálaáætlunar. Það að umgangast áætlunina svona er í algjörri andstöðu við áform um betri vinnubrögð og fjárlagagerð og markmið nýrra laga um opinber fjármál, góða hagstjórn og styrka og ábyrga stjórn opinberra fjármála.

Ófjármögnuð útgjöld meiri hlutans verða enn óheppilegri þegar þau eru sett í samhengi við helstu athugasemdir fjármálaráðs og annarra um að sýna þurfi meiri ábyrgð í góðærinu; skila þurfi öruggum afgangi á fjárlögum, meiri frekar en minni, og að lækkun efra þreps virðisaukaskatts í miðri uppsveiflu sé mjög óheppileg. Þeir 13,5 milljarðar sem tapast ættu frekar að nýtast í uppbyggingu á öðrum sviðum eins og lækkun tryggingagjalds sem kæmi þá nýsköpunarfyrirtækjum til góða.

Sé einbeittur vilji til þess að lækka skatta, sama hvað það kostar, þyrfti ríkisstjórnin kannski frekar að huga að félagslegum og samfélagslegum málum sem hafa verið rædd töluvert og eru ófjármögnuð í fjármálaáætluninni. Þar má kannski nefna erfiða stöðu á húsnæðismarkaði, málefni aldraðra og öryrkja, svo að ég tali nú ekki um að ráðast gegn fátækt. Í þessari fjármálaáætlun felst sem sagt ekki ábyrg efnahagsstjórn og alveg sama hversu oft söngurinn um stöðugleika verður sunginn hér þá er hann í engu samræmi við þær þarfir sem liggja fyrir.

Við í Samfylkingunni höfum lagt til nokkrar breytingar til að styrkja tekjugrunn ríkisins til að hægt sé að skila meiri afgangi, frú forseti, og styrkja félagslegar stoðir og auka jöfnuð. Við þurfum að tryggja að enginn sé skilinn eftir og allir fái að njóta þeirra góðu ára sem við búum við.

Það er auðvelt að afla tekna með því að auka tekjujöfnun í skattkerfinu og taka upp markaðstengd auðlindagjöld í sjávarútvegi, eins og hæstv. fjármálaráðherra talaði reyndar mjög fyrir fyrir kosningar. Þegar fjármálaáætlun var kynnt voru stóru fyrirsagnirnar um 20% aukningu til heilbrigðiskerfisins. Þar gleymdist að vísu að segja frá því í leiðinni að stærstur hluti þeirrar aukningar væri bygging nýs Landspítala.

Við fögnum því að sjálfsögðu að byggja eigi nýjan spítala, en hverjum hefði dottið í hug fyrir kosningar að samhliða þeirri byggingu ætti að skera niður í þjónustu á sjúkrahúsum jafnt á landsbyggðinni og á Landspítalanum? Sú viðbót sem er ætluð til spítalanna í fjármálaáætluninni nægir ekki einu sinni til að mæta fjölgun sjúklinga, hvað þá að hún dugi til að vinna á biðlistum eða fyrir nauðsynlegum tækjakaupum eða viðhaldi. Þetta þýðir með öðrum orðum niðurskurð í heilbrigðiskerfinu.

Fjárhagslegur ávinningur af styttingu framhaldsskóla er hrifsaður úr höndum skólans. Þar verða tekin fleiri hundruð milljóna á næstu árum og aðgerð sem átti að bæta skólastarfið sýnir sig að vera hrein og klár sparnaðaraðgerð. Það er ömurlegt metnaðarleysi, frú forseti. Við verðum áfram hálfdrættingar á við hin Norðurlöndin þegar kemur að framlögum á hvern háskólanemanda. Þetta er þvert á markaða stefnu sem var unnin í samstarfi við háskólasamfélagið og birtist hjá Vísinda- og tækniráði sem ríkisstjórnin á nú einhverja aðkomu að.

Í fjármálaáætluninni er heldur ekki að finna neina trúverðuga leið að því hvernig eigi að bæta kjör fjölmennra stétta á opinberum markaði, stétta sem eru fyrst og fremst kvennastéttir — hjúkrun, kennsla, mikilvæg störf í framtíðinni. Þrátt fyrir að gert hafi verið samkomulag í september á síðasta ári, í aðdraganda nýrra laga um lífeyrisréttindi, þar sem það er beinlínis viðurkennt af hálfu ráðherra að leiðrétta verði þessi kjör og jafna þau til samræmis við það sem gerist almennt á markaði, er ekkert um það.

Í fjármálaáætlun birtast líka kaldar kveðjur til barna og unglinga. Það er enginn metnaður til að bæta menntakerfið eða til að búa samfélagið undir þær gríðarlegu breytingar sem við eigum í vændum. Það eru engin alvöruáform um að bæta stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði þó að ráðherra ríkisstjórnarinnar hafi sjálfur lýst yfir neyðarástandi á þeim markaði fyrir nokkrum vikum og boðað og skipað neyðarhóp sem átti að skila innan mánaðar og ekkert hefur heyrst frá honum.

Samfylkingin leggur fram einfalda tillögu til lausnar sem dugar ekki til en hjálpar. Við byggjum 1.000 íbúðir inn í almenna leiguíbúðakerfið í samstarfi við verkalýðshreyfinguna og losum nú fólk úr fátæktargildrum leigumarkaðarins.

Það er ekki nóg til að bæta stöðu ungs fólks og foreldra. Við þurfum að muna að hér á landi búa yfir 6.000 börn við skort. Við þurfum því að styrkja kerfin sem styðja þessa hópa. En nýja ríkisstjórnin heldur áfram á vegferð þeirrar eldri að draga úr umfangi þessara skilvirku tækja til að berjast gegn fátækt og tryggja fólki öruggt þak yfir höfuðið. Hér á ég við barnabætur og vaxtabætur. Fjárhæðir til samgöngumála og löggæslu geta ekki mætt á neinn hátt uppsafnaðri þörf og svo mætti lengi telja.

Samandregið ræður ríkisstjórnin ekki við að fjármagna góða almannaþjónustu eða þá að hún hefur ekki áhuga á því. Það finnst mér þurfa að koma fram í umræðunni hvort og hvernig menn líti á hlutverk stjórnvalda þegar kemur að almannaþjónustu, hver hún er og hver eigi að bera hana.

Meiri hluti fjárlaganefndar gefur áætluninni raunar falleinkunn, með leyfi forseta:

„Þessi fjármálaáætlun ber þess merki að nýr meiri hluti hefur ekki haft nægan tíma til að undirbúa og útfæra fjármálaáætlun næstu ára … Langt er í land til að hægt sé að segja að verklag og vinna við hina nýju umgjörð sé ásættanleg … Ríkisstjórnin hefur því haft mjög stuttan tíma til að undirbúa málið og ber það þess nokkur merki, hvort sem horft er til hinnar eiginlegu fjármálaáætlunar eða markmiðssetningar einstakra málefnasviða.“

Ríkisstjórnin ætlar samt sem áður að beygja sig fyrir ógn hrísvandarins og samþykkja áætlunina, en við í minni hlutanum munum væntanlega öll vera á rauða takkanum og hafna þessu, vegna þess að þetta er óboðlegt.



[11:23]
Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að leiðrétta smámisskilning um þetta lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Eins og fram kemur í umsögn hv. þm. Smára McCarthys í minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, er það einungis í fjórða sæti af sex af lengstu hagvaxtarskeiðum sögunnar ef spár haldast. Það þarf að vera umtalsvert lengra til að hljóta titilinn „lengsta hagvaxtarskeiðið“. En alla vega.

Það sem vantar helst í þá fjármálaáætlun sem við ræðum núna er sem sagt gagnsæi. Borist hafa hátt í 70 athugasemdir umsagnaraðila, langflestar frá fjármálaráði, um að gagnsæi í fjármálaáætluninni sé ekki bara ábótavant, það sé ekkert. Gagnsæi er algjörlega nauðsynlegt til þess að við getum tekið upplýstar ákvarðanir. Það á ekki bara við um þingið, heldur líka um þjóðina. Fólk úti í samfélaginu les og skoðar hver áform stjórnvalda eru á næstu árum. Þau áform þurfa að vera skiljanleg, sett fram á skiljanlegan og auðgreinanlegan hátt þannig að fólk geti gagnrýnt stefnu stjórnvalda á málefnalegan hátt.

Ég er að leita að ákveðnum atriðum í ræðu hæstv. fjármálaráðherra um fjármálaáætlunina, en fjármálaáætlunin er ályktun ríkisstjórnar um umgjörð fjárlaga. Það sem ríkisstjórnin skilaði inn til Alþingis og Alþingi samþykkti héðan út til ríkisstjórnar þýðir að ríkisstjórninni er ekki heimilt að fara fram yfir þá útgjaldaramma sem settir eru í fjárlagaáætlun í frumvarpi til fjárlaga. Það er algjört lykilatriði. Fjármálaáætlun er ekki bara áætlun sem hægt er að hvika til eða frá án frávika án útskýringa. Þetta er alvöruplagg sem hefur mjög mikla þýðingu gagnvart fjárlögunum í haust.

Stefnumörkun málefnasviða er eitt af meginatriðunum sem eiga að vera í fjármálaáætlun. Stefnumörkun málefnasviða er ætlað að útskýra helstu áherslur, markmið og kostnað, sem er einmitt mjög ábótavant í þessari fjármálaáætlun og er helsta ástæða þess að við getum í rauninni ekki samþykkt hana. Við skiljum ekki hvert á að fara eða hvað á að gera. Þar gæti framsetningin verið mikið skýrari, kostnaður betur metinn og mælikvarðar líklegri til þess að mæla framvindu þeirra verkefna sem þar eru sett fram.

Heildartölur málefnasviðanna ættu að vera sundurgreinanlegri niður í rekstrarkostnað, lögbundin verkefni, launakostnað og einskiptisframkvæmdir, svo helstu liðir séu nefndir. Þetta eru þekktar stærðir. Það á ekki að vera neitt vandamál að setja fram núverandi mynd og spá fyrir um næstu ár. Þetta eru mjög þekktar stærðir og eru algjörlega nauðsynlegar fyrir Alþingi til þess að taka ákvarðanir um hvort við stöndum í stað, hvort verið sé að draga úr niðurskurði eða hvort bætt sé í einhvers staðar. Það leiðbeinir okkur um hvaða spurninga við eigum að spyrja á hverju málefnasviði fyrir sig.

Markmið fjármálaáætlunar er einmitt að útbúa ramma fyrir næstu fimm ár og alveg sérstaklega næstu fjárlög. Þegar næsta frumvarp til fjárlaga er gefið út eiga engar meiri háttar breytingar, að öllum forsendum óbreyttum, að koma á óvart í tekjum eða útgjöldum einstakra málaflokka. Málið snýst um að hér kemur ríkisstjórnin til þingsins með verkefnalista sem skiptist í rauninni upp í ákveðin verkefni sem Alþingi er þegar búið að skuldbinda sig til að fara í. Listinn skiptist í þá föstu liði sem ég taldi upp og svo ný verkefni. Á móti leggur ríkisstjórnin fram tillögur um fjármögnun til þessara verkefna, til þessara föstu liða, til skuldbundinna verkefna.

Við þurfum að spyrja okkur um fjármagnið, að þau verkefni sem leggja á fjármagn til séu skýrð frekar. Ríkisstjórnin kemur til Alþingis og segir: Við ætlum að gera hitt og við ætlum að gera þetta og það á að kosta svona mikið. Við spyrjum þá: Af hverju? Þegar við rýnum í fjármálaáætlun, skoðum verkefnalistann, sem þó er settur fram á mjög undarlegan hátt að því er mér finnst, þá passa tölurnar ekki. Tölurnar sem eru settar fram. Þetta mun kosta þetta mikið og þetta ætlum við að gera. Það passar ekki saman. Þá verðum við að spyrja um af hverju við höfum ekki fengið nein svör við því. Og vegna þess að við fáum ekki nein svör við því ýtum við á „nei“ og hendum þessu aftur í hausinn á ríkisstjórninni.



[11:28]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Eins og hefur ítrekað komið fram höfum við Píratar beðið um upplýsingar um hagræna flokkun á þessari fjármálaáætlun samkvæmt lögum um opinber fjármál. Nauðsynlegt er jafnframt að eyða þeirri óvissu sem stofnanir hafa gagnvart fjármálaáætluninni, eins og kemur fram í fjölda umsagna um málið.

Það kom síðan fram síðastliðinn föstudag að upplýsingar þær sem við þingmenn Pírata höfum ítrekað verið að kalla eftir, munnlega, skriflega og í nefndum, eru hreinlega ekki til samkvæmt fjármálaráðuneytinu. Þetta kom sem sagt fram á fundi sem hv. þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, átti með fulltrúa úr fjármálaráðuneytinu. Við vorum að reyna að komast að því fyrir þinglok hvort hægt væri að fá svör við þeim skriflegu fyrirspurnum sem hv. þingmenn Pírata, Björn Leví Gunnarsson og Jón Þór Ólafsson, höfðu lagt fram.

Það sem kom fram á þeim fundi olli okkur miklum áhyggjum, en fram kom að þessi fjárlög hér byggja í fyrsta lagi ekki á lögum um opinber fjármál við gerð fjármálaáætlunar og þessi fjármálaáætlun byggir einvörðungu á fjárlögum fyrir árið 2017, plús mínus einhverjir hagrænir þættir. Það sem stendur út af er óútskýrt. Það er ekki hægt að fá upplýsingar um af hverju upphæð á einhverju málefnasviði er fengin. Við höfum áhyggjur af því og eiginlega ekki hægt að útskýra á annan hátt en að hreinlega sé slumpað á þessar upphæðir og verður að segjast eins og er að það eru ekki fagleg vinnubrögð undir neinum skilgreiningum og útskýrir kannski vinnubrögðin, alla þessa skallabletti og gleymdu málaflokka sem falla undir fjárlög alla jafna.

Ekki er hægt að segja annað en hér sé verið að fremja lögbrot, því að það kemur mjög skýrt fram í lögum um fjárlagagerð að þau verði að fara fram, gerð þeirra, út frá ákveðnum forsendum. Það á ekki við núna.

Eins og fram hefur komið ríkir mikil óvissa meðal stofnana og annarra sem venjubundið er á fjárlögum. Í raun og veru hefur þessi fjármálaáætlun sett samfélagið í uppnám, en ég hélt að svona rammi ætti að virka á allt annan veg, það ætti að skapa ákveðna sýn og hægt væri að skipuleggja sig út frá þeirri stefnu sem lýst er í svona ramma.

Það er vert að hrósa þegar vel er gert. Mér finnst gott hjá bæði formanni fjárlaganefndar sem og hæstv. fjármálaráðherra að viðurkenna að þessi fjármálaáætlun er, eins og hv. formaður fjárlaganefndar nefndi í andsvari við mig, ákveðið rennsli á framsetningunni. Þegar frumsýningin verður, sem verður væntanlega næst þegar við fáum fjármálaáætlun, þá er hægt að taka mið og taka það af alvöru því að ekki er hægt að taka mark á rennslinu eða generalprufunni, eins og kom fram að þetta væri samkvæmt orðum formanns fjárlaganefndar.

Mér fannst mjög gagnlegt að ræða við hæstv. fjármálaráðherra og heyra að hann er tilbúinn að bregðast við þeirri kröfu sem kemur frá Pírötum og fleiri þingmönnum, meira að segja þingmönnum úr meiri hlutanum, um að lýsa því yfir að farið verði að ábendingum sem hafa komið núna úr þessu ferli og þetta hefur verið mjög gagnlegt ferli.

Sem generalprufa hefur þetta verið mjög gagnlegt ferli. Sem rennsli hefur þetta verið mjög gagnlegt ferli, því að komið hafa fram mjög miklir gallar. Það gleður mig að hæstv. fjármálaráðherra ætli að bregðast við þessum ábendingum. Ég hlakka til að heyra ræðu hans hér á eftir til að sjá hversu alvarlega hæstv. ráðherra tekur þær ábendingar sem hafa komið fram, m.a. frá fjármálaráði.

Ég bíð því spennt og vona að fleiri í samfélaginu átti sig á því hvað það er mikilvægt að þetta sé gert rétt frá grunni, ekki sé slumpað á þær fjárhæðir og þá stefnu sem við þurfum að búa við næstu fimm ár ef vel á að vera.



[11:33]
heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég hef verið erlendis við embættisstörf síðustu daga umræðunnar um fjármálaáætlun, en hef þó náð að fylgjast með í gegnum alnetið og í beinum útsendingum og fylgst með ræðum þingmanna og finnst ástæða til þess að þakka fyrir góða og málefnalega umræðu. Það er mjög ánægjulegt að upplifa það núna í annað skipti sem lögð er fram fimm ára fjármálaáætlun að þingið hefur að einhverju leyti áttað sig, ef það má orða það svo, á því hvað þetta er mikilvægur póstur í fjárlagagerðinni og uppsetningu fjárlaga fyrir ríkið. Segja má að fyrsta fjármálaáætlunin hafi runnið dálítið hljóðlaust í gegnum Alþingi. Þingið hefur kannski ekki áttað sig á því hvað verið væri að setja mikla stefnumörkun með henni, en í ár er öldin önnur.

Ég hef aðeins áhyggjur af því hvort við séum að einhverju leyti að oftúlka fjármálaáætlunina, því að auðvitað er hún áætlun um málaflokka og ramma málefnasviða. Þetta eru auðvitað ekki fullkláruð fjárlög. Sú vinna er eftir þó að hún byggi auðvitað á því sem lagt er fram í fjármálaáætlun. Það er kannski það sem er svo sögulegt. Við erum að móta okkur í ferli.

Þegar hv. fjárlaganefnd heimsótti fjárlaganefnd sænska þingsins, sem var kannski aðalverklagsfyrirmyndin fyrir okkur, var okkur sagt að það tæki svona 10 ár að þróa þetta ferli og fínpússa það. Við Íslendingar erum nú vön að vilja gleypa hlutina hraðar en það, en við erum í ferli, eins og komið hefur fram í umræðu bæði hjá fulltrúum meiri hluta og minni hluta, og við viljum læra af ferlinu og fara eftir því áfram.

Mig langar aðeins til að nota þær mínútur sem ég hef hér til þess að ræða innihald fjármálaáætlunarinnar, þ.e. þá pólitísku stefnumörkun sem felst í henni. Stundum þegar maður hlustar á umræður á Alþingi og jafnvel víðar mætti halda að heimurinn skiptist í svart og hvítt, annaðhvort nýfrjálshyggju eða félagshyggju, gróðahyggju, almannahyggju eða hvað það er, en ég vil nú meina að heimurinn sé ekki svona svart/hvítur. Það sést alveg ágætlega á þessari fimm ára fjármálaáætlun. Hér er annars vegar stigið hægt til jarðar. Verið er að sýna aðhald í ríkisfjármálum. Verið er að auka aðhald. Verið er að vinna gegn þensluvekjandi áhrifum áætlunarinnar, en á sama tíma er verið að staðfesta stórkostlega útgjaldaaukningu, sem sést í fjárlögum fyrir þetta ár, 2017, og bæta allverulega í. Það á alveg sérstaklega við í velferðarmálunum, í heilbrigðismálum og velferðarmálum. Ég tel að hér sé komin fram fjármálaáætlun sem feti einmitt einstigið á milli — ja, eigum við að kalla það hins svarta og hvíta eða hvað? Þetta er fjármálaáætlun hófsemdar og ég kvitta glaður undir þá stefnumörkun sem varðar áherslu á velferðar- og heilbrigðismálin sérstaklega, þær áherslur sem sjást í fjármálaáætlun.

Það er alveg rétt að við erum, eins og við erum vön hér á Íslandi, í þessum endalausa ólgusjó uppsveiflna og niðursveiflna. Núna er okkar helsti vandi gríðarleg þensla, mikill þrýstingur, það er þrýstingur á framkvæmdaraðila, það er þrýstingur á gjaldeyrinn, það er þrýstingur á vinnumarkaði o.s.frv. Maður upplifir að stjórnvöld séu alltaf annaðhvort að berjast við að halda niður þrýstingnum um að of vel gangi, eða að reyna að bjarga málum þegar allt fer á verri veg.

Sú aðferðafræði að hugsa til lengri tíma, leggja fram stefnur og áætlun til fimm ára, leggja línur sem sýna hvert verið er að fara, er einmitt hugsuð til þess að hafa sveiflujafnandi áhrif. Þó að við séum ekki búin að fullkomna það ferli tel ég mjög mikilvægt að við séum að þróa málin, jafnvel þó að það sé ekki fullkomið. Þess vegna fagna ég því að fjármálaáætlun (Forseti hringir.) sé komin á þennan stað. Ég þakka kærlega fyrir mjög góðar og efnismiklar umræður um hana.



[11:39]
Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir allt það sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson nefndi fyrr í umræðunni um ferðaþjónustu og ætla svo sem ekkert að bæta neinu við þar. Ég tek bara undir nákvæmlega það sjónarmið sem við höfum ítrekað rætt í fjárlaganefnd. Við erum að ræða fjármálaáætlun. Umræðan síðustu dagana hefur verið gagnleg, ég tek undir það, finnst reyndar stundum eins og við séum hvert um sig að lesa sína áætlunina.

Það sem við erum sammála um og hefur komið fram er að við eigum töluvert langt í land við að móta verklag við gerð þessarar áætlunar, hvernig við setjum fram tölulegar upplýsingar eins og til dæmis að blanda ekki saman fjárfestingum og rekstri. Það kemur fram í umsögn fjármálaráðs að gegnsæið er ekki nógu mikið. Við þurfum að bregðast við þeirri umsögn. Við þurfum öll að punkta vel hjá okkur þær úrbætur sem við viljum ná fram svo að við getum verið betur samstiga í umræðunni og skilningur að hugmyndafræði þessarar langtímaáætlunar geti verið sá sami.

Mér finnst mikilvægt að allar fastanefndir tóku til við að greina þá málaflokka sem undir þær falla og gáfu áætluninni þannig umsögn sína. Það er gott verklag.

Við í Bjartri framtíð erum sátt við þá aukningu sem verið er að leggja til í mikilvæga málaflokka. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að nefna að ég átta mig ekki alveg á umræðu um einkarekstur og einkavæðingu. Slíkur ásetningur og slík umræða hefur ekki farið fram í þingflokksherbergi Bjartrar framtíðar. Við erum miklu frekar að reyna að greina þann einkarekstur sem hefur orðið að veruleika á undanförnum árum. Ásetningur Bjartrar framtíðar er að skerpa á lagaumhverfinu í kringum þær heimildir sem hafa verið óljósar og skerpa á stefnumótun og þess háttar.

Ég vil hnykkja á nokkrum staðreyndum sem mér finnst mikilvægar í þessari fjármálaáætlun. Við erum að auka langmest ríkisútgjöld til velferðar- og heilbrigðismála og til málefna aldraðra og öryrkja. Hækkun til heilbrigðismála á tíma áætlunar frá fjárlögum 2017 eru 42 milljarðar kr. á ársgrundvelli, sem er 22,5% hækkun. Hækkun til velferðarmála á sama tíma eru 28 milljarðar, sem er 15% hækkun. Þannig eykst hækkun á málefnasviði lyfja og lækningavara um 54% á fimm ára tímabili áætlunarinnar og er það hlutfallslega langmesta hækkunin sem finnst í þessari áætlun. Þetta eru forgangsmál ríkisstjórnarinnar enda er veruleg þörf á uppbyggingu í þessum mikilvægu grunnstoðum samfélagsins.

Mig langar til að nefna hér örstutt að í áliti meiri hluta fjárlaganefndar er skorað á heilbrigðisráðherra að skoða kosti þess að setja á laggirnar sérstaka stjórn yfir starfsemi spítalans. Það er hugmynd sem við leggjum fram til umræðu. Aldrei hefur komið fram sérstaklega að sú stjórn sé pólitísk stjórn eins og einhverjir hafa verið að nefna hér í umræðunni, ég sé miklu frekar fyrir mér að það séu sérfræðingar á sviði rekstrar. Ég vona að við náum að fóta okkur vel í þessari umræðu og hún verði málefnaleg og komist að góðri niðurstöðu um það.

Að lokum vil ég nefna að það komu fram nokkrir punktar í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Annars vegar ábendingar um uppbyggingu og framsetningu áætlunar og hins vegar punktar sem við vekjum sérstaka athygli á. Margir þessir punktar komu fram hjá umsagnaraðilum og eiga við um einstök málefnasvið. Mér finnst mikilvægt að leggja áherslu á að meiri hlutinn er að samþykkja þennan ramma um upphæð tekna og gjalda. Hins vegar leggjum við fram og tökum undir nokkrar umsagnir, ábendingar til úrbóta og ábendingar til umræðu. Við erum ekki að gefa þessari fjármálaáætlun falleinkunn, þvert á móti. Við erum að samþykkja hana. Enda sýnir hún að við erum að stíga varlega til jarðar og vinna gegn þenslu en um leið erum við að staðfesta útgjaldaaukningu.



[11:43]
fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þær umræður sem hafa verið hér í þinginu um fjármálaáætlunina sem legið hefur fyrir frá því í lok mars.

Fjármálaáætlun samkvæmt lögum um opinber fjármál kemur nú fram í annað sinn. Í fyrra féll umfjöllun um áætlunina í skuggann af öðrum málum, auk þess sem afgreiðsla þá kann að hafa verið lituð af því að þá hafði þegar verið boðað til kosninga þegar hún var sett fram.

Það er eðlilegt að enn séu ýmsir hnökrar á framsetningu og ég er manna fyrstur til að viðurkenna að svo sé. Margvíslegar athugasemdir og ábendingar hafa komið fram í umræðum um fjármálaáætlun. Fjármálaráð skilaði ítarlegri skýrslu og jafnframt skiluðu fulltrúar í fjárlaganefnd viðamiklum álitum, meirihlutaáliti og fjórum minnihlutaálitum. Nefndir þingsins fjölluðu um áætlunina og skiluðu álitum, auk þess sem fjölmargir þingmenn hafa rætt hana í þingsal.

Ég tel afar mikilvægt að við nýtum okkur reynsluna frá því í ár til að bæta áætlun næsta ár. Vinnulag við fjármálaáætlun er ekki pólitískt mál og því afar mikilvægt að um það sé víðtæk sátt. Við getum deilt um efni hennar en eigum að vera sammála um umgjörðina. Í því skyni hef ég þegar sett í gang í fjármálaráðuneytinu vinnu um eftirfarandi þætti:

Í fyrsta lagi hafa ábendingar fjármálaráðs þegar verið greindar og niðurstöður þeirrar greiningar verða hafðar til hliðsjónar við vinnu við fjármálaáætlun næsta haust.

Í öðru lagi hef ég óskað eftir því að vandlega verði farið yfir álit frá fjárlaganefnd, bæði meiri og minni hluta, og hugað að þeim athugasemdum sem þar koma fram. Þær ábendingar eru viðamiklar og ekki allar í sömu átt. Þær má flokka í tvennt, annars vegar efnislegar athugasemdir um einstaka málefnasvið og hins vegar athugasemdir um form og framsetningu. Sérstaklega verður hugað að síðarnefndu athugasemdunum við undirbúning fjármálaáætlunar á næsta ári.

Í þriðja lagi hef ég ákveðið að í ráðuneytinu verði greindar fjármálaáætlanir annars staðar á Norðurlöndum sem og frá fleiri OECD-ríkjum og kannað með hvaða hætti þessar þjóðir setja fram sínar áætlanir og dreginn lærdómur af því fyrir okkur.

Í fjórða lagi verða með næstu fjármálaáætlun aðgengilegar töflur á excel-formi settar fram á sama tíma og áætlunin er lögð fram. Þar mun meginefni áætlunarinnar og ítarlegri sundurliðanir koma fram.

Í fimmta lagi mun næsta fjármálaáætlun sýna áætlaða skiptingu milli rekstrar og framkvæmda í útgjaldarömmum málefnasviða. Ég hyggst kynna hv. fjárlaganefnd framvindu þessarar vinnu eftir því sem efni og tækifæri gefast.

Loks er rétt að benda hv. þingmönnum á að í næsta fjárlagafrumvarpi verður sundurliðað yfirlit um áætluð fjárframlög á einstaka liði til þriggja ára. Þetta auðveldar þingmönnum og öðrum að glöggva sig á því hverjir hinir undirliggjandi þættir áætlunarinnar eru, þó að markmið áætlunarinnar sjálfrar sé að marka útgjaldarammann á hvert málefnasvið fyrir sig.

Stefnt er að því að flýta vinnu fjármálaáætlunar samkvæmt lögum um opinber fjármál fyrir næsta vor þannig að meiri tími vinnist til þess að fjalla um hana í þinginu. Mikilvægt er að sú vinna verði markviss og þar mun þingið búa að því starfi sem unnið hefur verið í ár.

Frú forseti. Fjármálaáætlunin er framsækin áætlun sem sýnir aukið aðhald en bætir þó í á mörgum sviðum. Margir hafa talað um að aðhald í fjármálaáætluninni mætti vera meira en raun ber vitni, þó að það hafi verið aukið frá síðustu fjármálaáætlun. Aðrir vilja draga úr aðhaldi þannig að meira sé hægt að gera. Þarna verðum við að reyna að finna hinn gullna meðalveg. Það eru mörg verkefni í þessu samfélagi en peningarnir eru takmarkaðir. Það er þensla í samfélaginu einmitt núna og það eru ekki mörg tæki sem ríkið hefur til að sporna við þenslu. Þar hefur Seðlabankinn vaxtaákvörðunarvald og ríkisvaldið hefur fjárlög.

Þarna fylgjum við hinu gamla líkani Keynes sem lagði til að í þenslu myndi ríkið sporna við, í samdrætti myndi ríkið bæta í. Og einmitt til þess að við getum bætt í þegar þörf verður á, og það verður einhvern tímann þörf á, er í þessari áætlun metnaðarfull stefna um niðurgreiðslu skulda ríkisins sem þegar hafa verið greiddar niður um meira en 10% í ár og þannig spörum við vexti í framtíðinni. Það verður til þess að við getum eytt meira í gagnleg útgjöld, eytt meira fyrir hinn almenna borgara, eytt meira í framkvæmdir, en þurfum ekki að borga lánardrottnum.

En það eru mörg jákvæð atriði í þessari fjármálaáætlun. Það er ekki bara viðnám heldur líka sókn. Við sækjum fram í samgöngumálum þar sem er bætt við 20–25 milljörðum frá því sem var í síðustu fjármálaáætlun. Við bætum við í velferðarkerfinu, við setjum fram markvissa áætlun um að ljúka byggingu Landspítalans, verkefni sem allir þingmenn styðja en nú höfum við sett fram áætlun um hvernig við ætlum að gera það og við ætlum að ljúka því árið 2023. Þetta mun verða landsmönnum öllum til mikilla heilla.

Ég tók eftir því í umræðum hér í gær að borin voru saman framlög á nemanda í háskólum annars staðar á Norðurlöndum og á Íslandi. Það var ekki sagt að heildarframlög til háskóla í Stokkhólmi væru miklu meiri en til háskóla á Íslandi, heldur að framlög á nemanda væru meiri. Auðvitað er það eðlilegt, það er nemandinn sem skiptir máli, en þegar við hugum að framhaldsskólum þar sem við erum að bæta við framlögum á nemanda um 300 þús. kr. að raunvirði á tímabili áætlunarinnar horfum við á heildarframlög til skólanna, þ.e. þannig hafa margir hv. fulltrúar minni hlutans talað. En það er auðvitað nemandinn sem skiptir máli, rétt eins og í sjúkrahúskerfinu er það sjúklingurinn sem skiptir máli en ekki húsin eða stofnanirnar.

Fjármálaáætlun er mikilvægur rammi en auðvitað eru breytingar hugsanlegar. Við vitum ekki hver framtíðin verður nákvæmlega. Bara á þeim stutta tíma sem þingið hefur starfað núna eftir áramót hafa komið upp tilefni, sum hugsanlega að einhverju leyti fyrirsjáanleg, önnur hafa komið algjörlega á óvart og samtals erum við að tala um útgjöld upp á 10–15 milljarða kr. Þannig verður það líka í framtíðinni, við sjáum ekki allt fyrir. Við munum gera mistök við áætlanir og við verðum að leiðrétta þau mistök. Það munu koma fram nýjar þarfir og þá munum við leiðrétta áætlunina. Engu að síður er þessi fjármálaáætlun mikilvægur rammi, hún er leiðarljósið sem við munum fylgja og við munum fylgja því öll saman.

Við undirbúning þessarar áætlunar höfðum við viðamikið samráð við ýmsa aðila, m.a. við sveitarfélögin, og það er mikilvægt að allir gangi í takt vegna þess að ef við náum árangri í þessu, ef við náum þessu aðhaldsstigi sem stefnt er að með áætluninni, skapast aðstæður til þess t.d. að lækka vexti í samfélaginu og það er ein besta búbót sem hægt er að hugsa sér. Auk þess boðum við miklar kjarabætur fyrir allan almenning þegar almennt virðisaukastig verður lækkað í 22,5%.

Áætlunin er margt í senn, hún er framsækin og aðhaldssöm, en hún er fyrst og fremst leiðarljós sem við eigum að virða öll saman. Við eigum að virða þetta ferli, við munum reyna að taka tillit til þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið þannig að við náum vandaðri áætlun næsta ár og verðum sátt um aðferðafræðina í framtíðinni. (Gripið fram í.)