146. löggjafarþing — 75. fundur
 30. maí 2017.
jarðgöng undir Vaðlaheiði, 2. umræða.
stjfrv., 524. mál (viðbótarfjármögnun). — Þskj. 755, nál. 919 og 940.

[14:02]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heimild til handa ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði, lög nr. 48/2012. Efni frumvarpsins lýtur að viðbótarfjármögnun vegna þess verkefnis sem hér um ræðir, eða eins og segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að heimild til lánveitingar úr ríkissjóði til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði verði aukin um allt að 4,7 milljarða kr. á verðlagi í árslok 2016, sem er sú fjárhæð sem nú er áætlað að þurfi til að ljúka gerð ganganna.“

Fjárlaganefnd hefur fjallað um málið frá því að það gekk til hennar 16. maí síðastliðinn. Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fulltrúar Vaðlaheiðarganga hf. og fulltrúar Ríkisábyrgðasjóðs komu á fund nefndarinnar, fóru yfir málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.

Eins og þingheimur og líkast til þjóðin öll þekkir á þetta mál sér nokkuð langa og höktandi forsögu.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en þörf er á en ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr niðurstöðum meirihlutaálitsins. Ég vil fyrst nefna að samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefur þegar verið hafin samantekt á skýrslu um aðdraganda og undirbúning þessarar framkvæmdar allrar. Það er samdóma álit nefndarinnar að þá skýrslu verði nauðsynlegt að taka til rækilegrar rýni, umræðu, á vettvangi Alþingis.

Í niðurstöðu meirihlutaálitsins segir, með leyfi forseta:

„Með samþykkt frumvarpsins yrðu því fyrst og fremst varðir hagsmunir ríkissjóðs sem lánveitanda og tryggt að framkvæmdinni verði lokið og göngin komist í notkun. Meiri hlutinn tekur ekki afstöðu til framhalds á fyrirkomulagi lánveitingar og eignarhaldi, en bendir á að óhjákvæmilegt gæti reynst að fjármagna hluta af framkvæmdaláninu með beinni fjárveitingu úr ríkissjóði þegar kemur að endurfjármögnun.

Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að þegar framtíðarfyrirkomulag fjármögnunar verður ákveðið komi til kasta Alþingis og lagt verði fram sérstakt lagafrumvarp um hana sem að öllu óbreyttu verður árið 2021 þegar kemur að endurfjármögnun framkvæmdalánsins.“

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir þetta álit rita Haraldur Benediktsson, formaður, og Hanna Katrín Friðriksson, varaformaður. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir alþingis. Lilja Alfreðsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Páll Magnússon, Oddný G. Harðardóttir og Theodóra S. Þorsteinsdóttir rita einnig undir álitið.



[14:05]
Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hafa aðeins fleiri orð um þetta mál. Það er tvímælalaust nauðsynlegt að klára þessa framkvæmd. Það er komin hola í gegnum heiðina og ástæðulaust að láta hana vera í því ástandi sem nú er.

Til hvers eru lög um ríkisábyrgðir? Lög um ríkisábyrgðir eiga að lágmarka áhættu ríkissjóðs þegar ákveðið er að veita ríkisábyrgð. Tilgangur laganna, sem eru lög um heimild fyrir ráðherra til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði, var að sá sem fékk lánið þyrfti ekki að leggja fram 20% af heildarfjárþörf verkefnis og að ríkissjóður gæti lánað fyrir öllu verkefninu en ekki bara 75% verkefnisins eins og lög um ríkisábyrgð gera ráð fyrir. Tilgangur þessara skilyrða er að lágmarka áhættu ríkissjóðs í áhættusömum fjárfestingum, fjárfestingum sem annars fengist ekki lán fyrir á almennum markaði.

Með frumvarpi þessu tekur ríkissjóður alla áhættu af rekstri Vaðlaheiðarganga. Tæknilega er ekkert eigið fé í fyrirtækinu Vaðlaheiðargöng ehf. þar sem það er nú komið í þrot, framkvæmd ekki lokið og lánsfé uppurið. Ábyrgð ríkissjóðs er 100%.

Markmið þess frumvarps sem hér er fjallað um er að sett verði lög sem framlengi þessa 100% ábyrgð ríkissjóðs, sem fer gegn tilgangi þeirra laga sem sett voru til að vernda ríkissjóð og þar með skattgreiðendur gegn því að stjórnmálamenn misnotuðu ríkissjóð.

Fjárlaganefnd hefur hér stóru hlutverki að gegna. Samkvæmt lögum sem fjalla um fjárlaganefnd, m.a. um lánsheimildir og ríkisábyrgðir, segir, með leyfi forseta:

„Enn fremur skal nefndin annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga.“

Með eftirlitinu felst m.a. að gengið er úr skugga um að framkvæmd fjárlaganna sé í samræmi við lög og markmið og að hún sé unnin með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Hér er lagt til að fjárlaganefnd afgreiði til 3. umr. frumvarp til laga sem vitað er að stendur ekki undir ábyrgðinni. Þetta er lykilatriði. Það er vitað að afskrifa verður hluta lánsins. Það er vitað að lánið er á betri kjörum í gegnum ríkissjóð en ef lánið fengist á opnum markaði, mismunurinn er greiddur af öllum skattgreiðendum. Það á ekki að vera svoleiðis. Samt segja lög um ríkisábyrgðir að sá sem fær ríkisábyrgðina eigi að greiða ríkissjóði mismun á ríkisvöxtum og markaðsvöxtum í formi áhættugjalds og ábyrgðargjalds.

Það er mjög alvarlegt mál að fjárlaganefnd, sem ber ábyrgð á eftirliti með framkvæmd fjárlaga fyrir hönd Alþingis, samþykki afgreiðslu lagafrumvarps sem aftengir varnartæki ríkisins fyrir fjárhagslegu tapi. Hlutverk nefndarinnar er þvert á móti að sjá til þess að innra eftirlit og varúðartæki ríkisins virki sem best á hverjum tíma. Eftirlitsnefndin sinnir því ekki hlutverki sínu. Að mati minni hlutans er algjörlega óásættanlegt að Alþingi gangi fram með þessum hætti. Minni hlutinn telur að standi vilji Alþingis til þess að ljúka framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng verði að gera það með öðrum hætti en að aftengja lög sem sett eru til að vernda hagsmuni ríkissjóðs, t.d. með því að yfirtaka gerð ganganna og fjármagna samkvæmt samgönguáætlun.

Hverjar verða afleiðingarnar? Mikið hefur verið rætt um mikilvægi þess að auka virðingu og traust almennings fyrir Alþingi. En eru það ekki aðgerðir sem þessar sem valda því að Alþingi nýtur ekki þeirrar virðingar og trausts sem það ætti skilið? Ætti þingið ekki fremur að hlúa að orðspori sínu en skaða það? Með því að fara gegn lögum sem ætlað er að koma í veg fyrir að ríkissjóður tapi verulegum fjárhæðum er vegið að því sem ætti að teljast eðlilegt og faglegt ferli. Ef eftirlitsnefnd Alþingis samþykkir að taka varnartæki ríkisins úr sambandi gætum við alveg eins pakkað saman og farið heim því hlutverk nefndarinnar er að styrkja þessi tæki, tryggja öflugt innra eftirlit og að farið sé eftir lögum. Það er að mati minni hlutans útilokað að auka virðingu þingsins með svona aðgerðum. Því er lagt til að gengið verði frá þessu máli innan ramma gildandi laga og reglna.

Við byggingu Vaðlaheiðarganga var á sínum tíma tekin ákvörðun um að taka þá framkvæmd fram fyrir aðrar samgönguframkvæmdir með þeim rökum að hún stæði undir sér. Öll viðvörunarorð um að það væri vart raunhæft voru hundsuð en hafa nú ræst. Framkvæmdin er komin í þrot. Eins og stendur í lögum um ríkisábyrgðir er ríkissjóði „óheimilt að takast á hendur ríkisábyrgð nema að fullnægðum eftirfarandi skilyrðum: […] Ef lánsþörfina er ekki hægt að uppfylla á almennum lánamarkaði“ — sem er ekki hægt — „og sýnt þykir að starfsemin sé hagkvæm.“ — Hún er ekki hagkvæm, það hefur sýnt sig.

Markmið þessa lagafrumvarps er að veita fé til samgönguframkvæmda sem að öðrum kosti yrðu ekki fjármagnaðar næstu árin. Samkvæmt frumvarpinu verður veitt lán til framkvæmdanna en allt bendir til að verulegar fjárhæðir tapist og verður að líta á tapið sem styrk eða framlag til þessara samgönguframkvæmda. Því er verið að fara á svig við eðlilega samgönguáætlun og spurning hvernig færi væri þetta verklag stundað víðar um land en bara á þessu landsvæði og hvernig gengi að gæta samræmis við aðra landshluta og með hvaða hætti ætti hafa hemil á útgjöldum ríkissjóðs umfram fjárheimildir ef þetta væri gert alls staðar. Er það ekki fjárlaganefndin sem fylgist með því fyrir hönd Alþingis að framkvæmdarvaldið haldi sig innan fjárheimilda? Voru ekki sett ný lög um opinber fjármál til að styrkja eftirlit Alþingis með fjárheimildum?

Með frumvarpinu er lagt til að heimild til lánveitingar úr ríkissjóði til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði verði aukin um allt að 4,7 milljarða kr. á verðlagi í árslok 2016, sem er sú fjárhæð sem nú er áætlað að þurfi til að ljúka gerð ganganna. Heimildin hefur því tekið verðlagsbreytingum frá þeim tíma sem ekki er gerð grein fyrir í frumvarpinu. Minni hlutinn bendir á að forsvarsmenn Vaðlaheiðarganga ehf. kynntu fjárlaganefnd fjárþörf fyrir 3,1 milljarð kr. 1. mars sl. en rúmum mánuði síðar vantar 4,7 milljarða kr. til að ljúka gangagerðinni. Verði frumvarpið að lögum telur minni hlutinn að nauðsynlegt sé að fylgst verði með notkun heimildarinnar þannig að ekki verði fjárfest umfram það sem nauðsynlegt er að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins og að Ríkisendurskoðun fylgist með framkvæmdinni með stækkunargleri.

Nú er síðan spurning: Er til heimild í núverandi fjárlögum til að borga út þessa 4,7 milljarða? Ég tel ekki að svo sé. Þannig að þó að þessi lög yrðu samþykkt er samt ekki heimild til að borga þessa 4,7 milljarða. Ég skil því ekki alveg hvernig þetta á að virka.

Um forsendur framkvæmdarinnar. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að þegar ákveðið var að byggja Vaðlaheiðargöng var lagt til grundvallar að Vaðlaheiðargöng og fjármögnun þeirra yrði rekstrarlega sjálfbær með innheimtu veggjalds. Í ljós hefur komið að undirbúningi verksins var verulega ábótavant þar sem bæta þarf 44% við upphaflega lánveitingu. Slík hækkun á láninu hefur mikil áhrif á rekstrarstöðu ganganna. Við afgreiðslu málsins í fjárlaganefnd nú lagði formaður áherslu á að með því að veita viðbótarfjármögnunina væri verið að bjarga því fjármagni sem ríkissjóður hefði nú þegar lagt í verkefnið þar sem það fengist að öðrum kosti ekki til baka.

Ríkisábyrgðasjóður hefur staðfest í skriflegum svörum við spurningum minni hlutans um verkefnið að ólíklegt er að lánið fáist endurgreitt, með leyfi forseta:

„Ríkisábyrgðasjóður telur hins vegar nokkuð góðar líkur á því að viðbótarlán ríkissjóðs muni verða endurgreitt og eitthvað af eldra láni.“

Því er enn lagt af stað með forsendur sem vitað er að ganga tæplega upp. Það sem er áhugavert við þessa umsögn er af hverju það eru góðar líkur á að viðbótarlánið muni verða endurgreitt en bara eitthvað af eldra láninu. Eru ekki ágætar líkur á að eldra lánið verði endurgreitt og sama og ekkert af viðbótarláninu? Niðurstaðan er samt sú sama, það er verið að veita lán sem vitað er að lendir í vanskilum og þarf að afskrifa.

Tæknilega séð er framkvæmdin við Vaðlaheiðargöng ekki í vanskilum við ríkissjóð. Upprunalega átti ekki að greiða lánið fyrr en 5. janúar 2018. Í nóvember síðastliðnum var sá gjalddagi hins vegar framlengdur til 1. maí 2021 vegna tafa við gangagerðina. Það þýðir samt að án viðbótarfjármagns mun framkvæmdaraðili óhjákvæmilega ekki geta greitt lánið á þeim tíma. Vanskilin eru mjög fyrirsjáanleg. Og það eru fleiri atriði sem koma þar inn varðandi vanskilin.

Eitt af því sem þarf að fjalla um hér er ábyrgðargjaldið. Vaðlaheiðargöng ehf. skulu samkvæmt 6. gr. laga um ríkisábyrgðir greiða ábyrgðargjald af þeim skuldbindingum sínum sem ríkisábyrgð hvílir á. Ábyrgðargjald skal svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem viðkomandi aðili nýtur, á grunni ríkisábyrgðar, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ríkisábyrgðar. Ábyrgðargjald skal ákveðið á grundvelli mats óháðs aðila á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar og skal gjaldið reiknað af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili. Þetta ákvæði var ekki í upprunalegum lögum um ríkisábyrgðir en var bætt við með lögum nr. 20/2011 sem tóku gildi 20. mars 2011.

Minni hlutinn bendir á að þetta ákvæði laganna er í fullu gildi þar sem tekin hefur verið ákvörðun um að það haldi sér í lögunum og var ekki tekið úr sambandi eins og tvær aðrar greinar. Ákvæðið felur í sér að Vaðlaheiðargöng ehf. eiga að greiða markaðsvexti af lánum sem tekin eru hjá ríkissjóði. Minni hlutinn fær ekki séð að ríkissjóði sé fært að veita fyrirtækinu lán þar sem greiðslustreymi þess stendur ekki undir markaðsvöxtum. Það skal áréttað að fyrirtækinu ber að greiða ábyrgðargjald samkvæmt lögunum en gerir það ekki og hefur ekki gert fram að þessu.

Miðað við áhættu verkefnisins þar sem lánshæfismat þess er CAA1 eða CCC, eftir matsaðila, sem fellur neðarlega í spákaupmennskuflokk ætti lánið þá að bera vexti samkvæmt því eða 13% ofan á áhættulausa vexti. Ríkisábyrgðasjóður benti á það í umsögn sinni um viðbótarlán til Vaðlaheiðarganga ehf. að miðað við greiðslufallslíkur upp á 9% væri álag ofan á áhættulausa vexti 1.300 bp miðað við lánshæfisfyrirtækin Moody´s og Standard & Poor´s. Í svörum Ríkisábyrgðasjóðs við fyrirspurn minni hlutans kemur fram, með leyfi forseta, að „sjálfgefið er að verkefnið ræður engan veginn að standa undir slíkri ávöxtunarkröfu“. Meiri hlutinn hefur ákveðið að þessi skilyrði laganna verði ekki afnumin og því ber að innheimta álagið, bæði af viðbótarláninu sem og af upphaflega láninu.

Minni hlutinn telur nauðsynlegt að Ríkisendurskoðun veiti umsögn um mat á fjárhæð þeirra gjalda sem Vaðlaheiðargöngum ehf. ber að greiða lögum samkvæmt áður en 2. umr. um frumvarpið hefst á Alþingi. Sem hefur ekki verið gert.

Áhættugjaldið er síðan annar liður. Hver sá sem ríkissjóður gengur í ábyrgð fyrir, ábyrgðarþegi, skal greiða við ábyrgðarveitingu í ríkissjóð áhættugjald er nemur 0,25–4,00% af höfuðstól ábyrgðarskuldbindingar fyrir hvert ár lánstímans. Áhættugjaldið skal greiða í upphafi lánstíma og rennur það í ríkissjóð. Áhættugjald skal ákveðið af Ríkisábyrgðasjóði og taka mið af þeirri áhættu sem talin er vera af ábyrgðinni. Vaðlaheiðargöng ehf. hafa greitt 0,6% í áhættugjald í samræmi við ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á sínum tíma. Ekki Ríkisábyrgðasjóðs. Minni hlutinn bendir á að lögum samkvæmt ber Ríkisábyrgðasjóði að ákvarða gjaldið og telur að inngrip fjármála- og efnahagsráðuneytisins í ákvörðun þess óeðlilega.

Minni hlutinn telur að Ríkisendurskoðun eigi að meta hvort fjárfesting sem fellur í spákaupmennskuflokk eigi að bera 0,6% gjald því rökstyðja þarf hvers konar fjárfesting ætti þá að bera 4% áhættugjald. Þegar leitað var útskýringa á hlutfallinu fengust eingöngu svör um að hlutfallið tæki mið af lengd láns og upphæð. Það væri óeðlilegt að fyrir lán til langs tíma þyrfti að greiða hátt áhættugjald. Miðað við forsendur þessa láns, þar sem gjalddagi á að vera árið 2021, þá hlýtur lánið að teljast vera skammtímalán og í ljósi þess að það flokkast sem spákaupmennska með stuttan gjalddaga hlýtur áhættugjaldið að eiga að vera mjög hátt.

Minni hlutinn bendir einnig á að ólíklegt er að Vaðlaheiðargöng ehf. greiði áhættugjaldið í reynd þegar upp er staðið þar sem líkur þess að afskrifa þurfi hluta lánveitinga til fyrirtækisins eru verulegar og að þær afskriftir nemi hærri fjárhæðum en nú er talið að greitt hafi verið í áhættugjald. Samkvæmt upplýsingum sem minni hlutinn fékk greiðir fyrirtækið áhættugjaldið í hvert skipti sem dregið er af láninu. Miðað við fjárhagslega stöðu fyrirtækisins verður ekki annað séð en að áhættugjaldið sé greitt með lánsfénu, þ.e. ef upprunaleg lánsfjárhæð átti að standa undir framkvæmdinni. Hingað til hefur fyrirtækið greitt tæpar 160 milljónir kr. í áhættugjald sem minnkar þá fjármagn fyrirtækisins til að framkvæma fyrir sömu upphæð. Það þarf þá augljóslega meira lán en veitt var, því sem nemur þá áhættugjaldinu. Sem passar ekki.

Líkur á greiðslufalli upp á 22% koma fram í grunnsviðsmynd fyrir rekstrarlíkan Vaðlaheiðarganga eftir að göngin hafa verið tekin í notkun. Í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs sem og í skýrslu IFS Greiningar segir m.a., með leyfi forseta:

„Líkur á greiðslufalli upp á 22% miðað við grunnsviðsmynd þýðir einfaldlega að rekstrarlíkanið gengur ekki upp miðað við forsendur.“

Þetta miklar líkur á greiðslufalli þýðir ekki að 22% lánsins ættu að fara á afskriftareikning, heldur miklu frekar að „líkur á fullri endurgreiðslu lánsins séu litlar“.

Minni hlutinn telur ófært að lána fé úr ríkissjóði á þessum forsendum og telur að fjárlaganefnd geti ekki mælt með slíku. Nauðsynlegt er að leita annarra leiða til að lána fyrirtækinu eða styrkja framkvæmdina, sé það á annað borð ætlun Alþingis.

Eitt mál í viðbót, að minnsta kosti, sem er mikilvægt að huga að, er afskriftareikningur. Í 5. gr. laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, segir, með leyfi forseta:

„Ríkisábyrgðasjóður skal halda afskriftareikning vegna veittra ábyrgða. Afskriftareikningur sjóðsins skal á hverjum tíma gefa raunhæfa mynd af áætluðum afskriftum …“

Afskriftareikningur vegna veittra ábyrgða hefur aldrei verið settur upp þrátt fyrir fyrirmæli laganna. Minni hlutinn telur að mat Ríkisábyrgðasjóðs á afskriftaþörf vegna væntanlegrar lánafyrirgreiðslu til Vaðlaheiðarganga verði að liggja fyrir áður en 2. umr. um frumvarpið hefst á Alþingi. Sem það gerir ekki. Alþingi verður að hafa upplýsingar um að hvaða marki sérfræðingar ríkisins telja að afskrifa verði lánið, hvort sem er beint eða óbeint, áður en unnt er að taka faglega afstöðu til lánveitingarinnar og þeirrar fjárheimildar sem ríkið setur sig í skuldbindingu fyrir.

Alþingi verður að vita hvert tap ríkissjóðs af lánveitingunni verður, miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir, ef ákvörðun Alþingis um að veita lánið á að teljast fagleg og upplýst.

Afgreiðslugjald er eitt í viðbót í lögum um ríkisábyrgðir, sem segir, með leyfi forseta:

„Ábyrgðarþegi skal greiða afgreiðslugjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur. Skal það taka mið af kostnaði við afgreiðslu og mat á viðkomandi ábyrgð. Afgreiðslugjaldið skal renna til Ríkisábyrgðasjóðs.“

Minni hlutinn bendir á að afgreiðslugjald hefur aldrei verið innheimt og að ráðherra hefur aldrei sett gjaldskrána. Minni hlutinn telur að ráðherra þurfi að ganga frá þessu máli og að ábyrgðarþegar þurfi að greiða gjaldið. Óeðlilegt er að þrátt fyrir ábendingar Ríkisendurskoðunar og markmið laganna að þá gangi ráðherra ekki frá málinu.

Nú liggur fyrir að hluthafar Vaðlaheiðarganga ehf. hafa á aðalfundi félagsins hafnað því að leggja félaginu til aukið hlutafé til að standa undir framangreindum aukakostnaði, þ.e. aðallega ábyrgðargjaldi og áhættugjaldi. Minni hlutinn telur að afskrifa beri innborgað hlutafé þar sem það er verðlaust og eðlilegt að hluthafar axli ábyrgð sem slíkir.

Minni hlutinn telur að veita eigi hluthöfum forgang að áskrift að nýju hlutafé í takmarkaðan tíma þannig að fljótlega liggi fyrir hver eigi göngin. Ekki verður hjá því komist í ljósi áhættu verkefnisins að ríkissjóður eigi meiri hluta hlutafjár nema að tekin verði ákvörðun um að selja verkefnið og um leið að losa ríkissjóð út úr fjármögnun þess og áhættu.

Samhliða frumvarpi þessu hefur ríkisstjórnin ákveðið að gerð verði ítarleg úttekt á framkvæmdinni allri og ástæðum þess að kostnaður við hana hefur verið langt umfram áætlanir. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að vinna við umrædda úttekt sé hafin og að gert sé ráð fyrir að hún liggi fyrir um mitt þetta ár.

Minni hlutinn bendir á að úttekt þessi er sýndarmennska og fyrir liggur hvað fór úrskeiðis. Tekin var pólitísk ákvörðun um að byggja Vaðlaheiðargöng sem voru það aftarlega á samgönguáætlun að ekki stóð til að fara í verkefnið næstu árin. Því var öllum undirbúningsrannsóknum ábótavant og horft var fram hjá áhættu verkefnisins. Má í því sambandi nefna gríðarlegt magn af heitu vatni, kalt vatn og setlög úr mjúku efni og allt þetta hefur þurft að þétta með ærnum kostnaði og fyrirhöfn. Varað var við sambærilegum óhöppum í skýrslu einkaaðila, í skýrslu IFS Greiningar og í umfjöllun fjárlaganefndar á sínum tíma. Sú úttekt sem hér er boðuð mun ekki leiða neitt nýtt fram þar. Henni er einungis ætlað að slá ryki í augu þeirra örfáu sem telja að úttektar sé þörf. Það er alveg vitað hvað gerðist, af hverju það gerðist og hverjar afleiðingarnar af því eru.

Nokkrar umræður hafa verið á undanförnum árum í þingsölum Alþingis um gæði lagasetningar. Minni hlutinn telur fulla ástæðu til að sú umræða verði tekin upp í tengslum við umræður um þetta lagafrumvarp. Í því sambandi verði ekki horft fram hjá því að meiri hluti eftirlitsnefndar þingsins með framkvæmd fjárlaga mælir með að það verði samþykkt.

Þar má benda á nýlegt dæmi um 5 milljarða. kr. mistök vegna flýtimeðferðar undir lok síðasta kjörtímabils, við breytingu á lögum um almannatryggingar sem þurfti að leiðrétta á þessu þingi. Eftir á, aftur á bak. Einnig má benda á leiðréttingu laga um stuðning við kaup á fyrstu íbúð sem stendur til að afgreiða fyrir lok þessa þings. Og einnig um kjararáð.

Til viðbótar við þessar aðstæður, við þessa ríkisábyrgð, er mál sem minni hlutinn telur að Alþingi eigi að skoða mjög vel. Minni hlutinn telur að Alþingi eigi að óska eftir því að Ríkisendurskoðun fari yfir byggingu flughlaðs við Akureyrarflugvöll og hver þáttur Vaðlaheiðarganga ehf. sé í reynd í þeirri framkvæmd þar sem fyrirtækið starfar eingöngu vegna umræddrar ríkisábyrgðar. Eðlilegt er að gerð verði grein fyrir byggingu flughlaða sem ekki eru á samgönguáætlun næstu 12 árin eða svo, en peningum er engu að síður varið í slíkar framkvæmdir.

Minni hlutinn leggur því til að frumvarpinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar þar sem hún á að koma með einhverja lausn sem passar innan faglegs ferlis og laga um ríkisábyrgðir og fjárheimildir og biðji ekki Alþingi um að þverbrjóta allar þær verklagsreglur sem það hefur sett sér, biðji ekki Alþingi um að brjóta lög um ríkisábyrgðir.

Ég skil ekki hvernig þetta mál hefur komist svona langt. Ég bið þingmenn um að íhuga vandlega eftirlitshlutverk sitt. Alþingi sjálft hefur sett sér verklagsreglur um ríkisábyrgðir, hefur sett sér þessi viðmið um eftirlitshlutverk. En við erum beðin um að þverbrjóta þær fram og til baka og við ætlum bara að segja já, ókei. Ég get ekki trúað að Alþingi láti valta svona yfir sig. Það er lágmarkskrafa að ríkisstjórn sem ber að fara eftir lögum, engin spurning er um það, leggi fram tillögu til Alþingis sem fer þá eftir lögum. Annað er ekki hægt. Alþingi getur síðan sjálft ákveðið um eitthvað annað með því að nýta til þess löggjafarvald sitt. En að ríkisstjórnin stingi upp á því að Alþingi brjóti lög, það er bara algerlega forkastanlegt. Og að eftirlitsnefnd þingsins kvitti upp á það er ekki eitthvað sem ég er tilbúinn til þess að gera.



[14:27]
Óli Halldórsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna. Það er út af fyrir sig gott að samstaða er um að ljúka þessu máli, það kom fram hér í ræðu áðan og hefur komið fram í þeim gögnum sem fyrir liggja. Það liggur fyrir að ekki er andstaða við að þessu máli verði lokið. Það er út af fyrir sig áfangi að þangað sé komið.

En ég kem inn í þetta mál á lokastigum eða á síðari stigum. Á þessu stigi er umræðan fyrst og fremst tæknileg, hún er lagatæknileg og snýst um form. Ég ætla samt að leyfa mér að spyrja stuttrar spurningar um efni, ekki um form heldur efni. Mig langar að beina þeirri einföldu spurningu til hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar hver afstaða hans sé til þessarar fjárfestingar þegar upp er staðið, að því gefnu að leið finnist til að framkvæma og ljúka þessu máli með formlegum og viðunandi hætti. Hver er afstaða hans til þessara framkvæmda? Er þetta skynsamlegt? Er þetta óskynsamlegt? Sjálfur er ég þess fullviss að þjóðhagslegt gildi þessarar framkvæmdar og framkvæmda af þessu tagi er ótvírætt. Ég held að það sé ekki hægt að verja fjármunum ríkissjóðs til mikið betri hluta nú á tímum en einmitt til fjárfestinga í vegum, göngum, brúm og fleiru þess háttar. Þetta er það sem við erum að kalla eftir í samhengi við fjármálaáætlun.

Þannig að spurningin situr eftir og ég ber hana fram hér: Er þetta skynsamleg fjárfesting eða óskynsamleg?



[14:29]
Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurðu alla þá sem voru með framkvæmdir á samgönguáætlun, sem voru ofar þessari framkvæmd þegar henni var kippt fram fyrir, hvort þeim finnist sín framkvæmd ekki líka rosalega mikilvæg og nauðsynleg. Að sjálfsögðu eru allar framkvæmdir sem fjallað er um þar mjög mikilvægar, en við forgangsröðum. Þarna ákvað Alþingi að kippa einni framkvæmd fram fyrir á listanum út af ákveðnum gefnum forsendum sem allir vissu að myndu ekki standast. Það hefur ræst að þær stóðust ekki og nú ætlum við að fara að kvitta undir það aftur.

Það eru aðrar leiðir til að leysa þetta mál. Eins og ég sagði í upphafi ræðunnar er fráleitt að skilja eftir gat í göngunum og gera ekki neitt meira við það, að sjálfsögðu klárum við þetta. En við gerum það á ábyrgan hátt, sem fylgir lögum, reglum og faglegu ferli.



[14:30]
Óli Halldórsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir svarið. Í sjálfu sér var það ágæt yfirferð en svaraði ekki spurningu minni. Ég geri mér grein fyrir þessu þannig að mig langar að ítreka spurningu mína. Hver er afstaða hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar til svona fjárfestingar og þessarar fjárfestingar að því gefnu að það takist að ljúka henni? Er þetta skynsamlegt? Er þetta óskynsamlegt? Ég geri mér grein fyrir því hver staðan var í vegáætlun.



[14:31]
Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þyrfti eitt andsvar í viðbót til að ég geti áttað mig á spurningu hv. þingmanns því að ég held að afstaða mín til þessa hafi komið mjög vel í ljós. Ég skil ekki hvað vantaði upp á fyrra svar mitt í þessu. Það er ekki farið eftir þeim verkreglum sem Alþingi hefur sjálft sett sér. (Gripið fram í.) — Ég sagði það, eins og með allar aðrar framkvæmdir.

Þetta eru allt nauðsynlegar framkvæmdir en við forgangsröðum. Það er um að gera að klára þessi göng. Frábært. Það væri mjög kjánalegt að skilja þessa holu eftir. Ég hef ekkert á móti því. Athugasemd mín gengur út á það að við gerum þetta þá rétt. Í fyrsta lagi höfum við ekki fjárheimild til þess að borga út þessa 4,7 milljarða sem er ætlast til hérna. Til þess þyrfti í raun fjáraukalög. Þetta eru ekki lög um fjárauka. Ég skil ekki einu sinni hvað við eigum að gera með þessi lög. Jú, það má borga einhverja 4,7 milljarða en við höfum samt enga fjárheimild til að borga það út, þótt þessi lög séu sett. Þetta leysir ekki neitt.

Það eina sem ég er að biðja um er: Vinsamlegast klárið þetta mál með sómasamlegum hætti, því að það er rosalega nauðsynlegt fyrir íbúa á svæðinu þarna, fyrir íbúa alls staðar annars staðar á Íslandi sem hugsa sitt. Af hverju eru þeir ekki í svipuðum framkvæmdum? Af hverju er ekki verið að taka ríkisábyrgðarlán fyrir tvöföldun á brú á Suðurlandi eða gangagerð á Vestfjörðum og því um líkt? Af hverju fara bara ekki allir fram hjá fjárlögum og fjárheimildum eins og gert var þarna? Það skiptir greinilega engu máli hvort þetta er hagkvæm aðgerð eða ekki. Þegar allt kemur til alls hafa allar vegaframkvæmdir verið hagkvæmar samfélagslega séð þótt þær séu það ekki fjárhagslega séð. Lög um ríkisábyrgðir snúast um hvort þetta sé hagkvæmt fjárhagslega séð.



[14:33]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um þetta mál sem er, og það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni sem talaði á undan mér, erfitt og umdeilt og með þeim umdeildari í samgönguframkvæmdum undanfarinna ára. Ég held að óhætt sé að segja það. Það er hægt að taka undir að gagnrýnivert sé hvernig að því var staðið á sínum tíma. Ég hef ekki skorast undan því að halda því fram að svo sé, þ.e. hvernig tilurð þessa máls var. En það breytir því þó ekki að hér erum við komin í þessa stöðu.

Mér finnst hv. þingmaður bera svolítið alvarlega hluti á borð og hef áhyggjur af því ef allt stjórnkerfið tekur undir það að við göngum ekki á svig við lögin, eins og þingmaðurinn heldur fram. Ríkisábyrgðasjóður hefur ekki sagt að verið sé að brjóta lög um ríkisábyrgðir, eins og hv. þingmaður segir. Það er niðurstaða hans og túlkun á þeim gögnum sem fyrir liggja en það kemur ekki skýrt fram í textanum af hálfu Ríkisábyrgðasjóðs sem mælir vissulega með því í ljósi stöðunnar að við gerum þetta. Ríkisábyrgðasjóður segir líka að það megi skoða eignarhaldið og annað slíkt. Það var ákveðið af hálfu ráðherra að gera það ekki. Við getum gagnrýnt það, hvort það sé skynsamlegra að ríkissjóður eigi meiri hluta í framkvæmdinni í ljósi þess að það fjármagnar hana að öllu leyti, nánast a.m.k. og áhættan eins og rakið er í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs.

Það kemur líka fram, sem styður kannski það að ríkið eignist meiri hluta í göngunum, að skynsamlegra sé að endurfjármagna gamla lánið því að það geti orðið til þess að greiðslufallið verður nánast ekki neitt, það verði mjög lítið ef lánið er endurfjármagnað miðað við þau kjör sem eru í boði í dag. Það fer mjög mikið niður. Er alla vega ekki 22% eins og staðan er í dag.

Ég veit það vel að ég og hv. þingmaður munum aldrei geta komist að sameiginlegri niðurstöðu í túlkun á því sem fyrir okkur liggur. Það er allt í lagi og verður bara svoleiðis. Ég hef alla vega kosið að lesa öðruvísi úr niðurstöðu Ríkisábyrgðasjóðs, eins og flestir virðast gera. En mér finnst það samt áhyggjuefni. Við fáum fund á morgun um málið þar sem við fáum svör við fleiri spurningum sem hafa verið á borð bornar. Ég held að það sé mjög gott. Eins og kom fram í ræðu ráðherrans þegar hann mælti fyrir málinu ætlar hann að láta skoða málið frá upphafi til enda. Ég er ekki sammála því að það sé eitthvert yfirklór, eins og hér kemur fram, eða gagnslaust, alls ekki. Ég held að það sé eitthvað sem við eigum að læra af. Ef okkur mistekst einhvers staðar eða teljum að svo hafi verið eigum við að fara yfir það, bara til að geta sett niður á blað nákvæmlega hvað.

Mér fannst líka áhugaverð sú fullyrðing að öllum undirbúningsrannsóknum hafi verið ábótavant. Ef við horfum til þess hvernig hefur verið hjá okkur í gangagerð fram til þessa þá hefur ýmislegt komið upp á. Vissulega er þetta stærsta frávikið, fram hjá því verður ekki litið að þetta er langstærsta frávikið. Umsjónarmaður verkkaupa, sem hefur reynslu af gangagerð til 30 ára hér á landi, hefur sagt að hann hafi aldrei lent í eins mörgum atvikum í jarðgangagerð á starfsævi sinni þar sem nánast allt hafi komið upp á.

Við megum ekki gleyma því að Vegagerðin sér um þetta verkefni og stjórnaði því eins og með öll önnur verkefni. Við þekkjum þau frávik sem komu upp þarna, mikið innrennsli af heitu vatni, mikill hiti, mikil bergþétting sem var samfelld, stórt hrun úr misgengissprungu og svo þetta með kalda vatnið sem kom í kjölfar hrunsins. Þegar við horfum á gangagerð á Íslandi hefur kannski eitt til tvennt af þessu komið upp. Í Héðinsfjarðargöngum kom upp mikið vatnsrennsli, eins og við munum eftir. Það kom líka fyrir með setlögin í bæði Norðfjarðar- og Bolungarvíkurgöngum o.s.frv. Það hefur ýmislegt komið upp á. En mér fannst það áhugavert í ljósi þess að því hefur oft verið haldið fram í pontu og sagt er í nefndarálitinu að undirbúningur hafi ekki verið nægur. Sumir hafa haldið því fram að fleiri rannsóknir hefðu leitt þetta í ljós, aðrir segja að svo sé ekki.

Á dögunum sáum við jarðgangagerð í Noregi, Mælifellsgöngin í Þelamörk, þar sem norskir jarðgangamenn upplifðu í fyrsta sinn gríðarlegan leka. Þeir hafa aldrei upplifað slíkt áður. Ég held að það hafi ekki verið illa að því staðið eða illa rannsakað. Sumt er bara ekki hægt að sjá fyrir. Þar er skandinavíska verktakafyrirtækið NCC að grafa. Verið er að búa til göng sem eru sambærileg að stærð og þau sem við erum að tala um, í kringum sjö kílómetrar, sjö og hálfur. Það voru í kringum 3.000 lítrar á mínútu sem láku þar út. Auðvitað miklu meira í Vaðlaheiðargöngum, vissulega. Þar hefur orðið seinkun. Það var í sjálfu sér gleðilegt að þeim tókst að koma í veg fyrir lekann um það leyti sem sprengt var í gegnum Vaðlaheiðargöngin. Þetta virðist koma upp víðar en hjá okkur og þarna erum við að tala um fyrirtæki og aðstæður þar sem við þekkjum að eru göng úti um allt.

Ég vil ekki endilega líta svo á að illa hafi verið staðið að verkefninu hvað varðar rannsóknir í upphafi. Hvað varðar það hvernig málið komst á dagskrá hef ég ekki dregið dul á að það hefði alveg mátt gera betur, hvernig aðdragandinn var. Slíkt á auðvitað alltaf að fá mikla og góða umfjöllun.

Það sem ég hef líka sagt um þetta og við eigum að hugsa um: Viljum við fara í svona framkvæmdir, þ.e. svona blandaðar framkvæmdir, einkaframkvæmdir með ábyrgð ríkissjóðs o.s.frv. eða hvernig viljum við skoða það? Samgönguráðherra hefur boðað framkvæmdir sem gætu allt eins flokkast undir eitthvað svona. Þá held ég að sé gott að við höfum þessa sögu sem við viljum horfa á og læra af. En ég er ekki viss um að það breyti einhverju um stöðuna núna. Ég skil heldur ekki að fólk geri ráð fyrir að þetta séu peningar í hendi, það er auðvitað tekið lán. Það hefur gjarnan verið þannig við jarðgangagerð að hún hefur verið tekin út fyrir sviga. Hún hefur ekki átt að hafa áhrif á önnur samgönguverkefni í samgönguáætlun. Þess vegna höfum við t.d. verið að fjalla um neikvæða eiginfjárstöðu Vegagerðarinnar, vegna þess að á sínum tíma ákvað einhver að setja þar inn framkvæmdir sem áttu ekki að vera teknar inn í samgönguáætlun. Það getur verið gagnrýnivert, ég ætla ekkert að deila um það. Það getur vel verið að fólki finnist það gagnrýnivert en það hefur hins vegar verið þannig.

Það er heldur ekkert gefið að þeir peningar sem eru teknir að láni og voru teknir að láni á sínum tíma hefðu verið teknir að láni í einhverjar aðrar framkvæmdir eða hefðu alls ekki verið í kassa sem hefði verið hægt að nýta í aðrar framkvæmdir. Mér finnst þess misskilnings gæta að ef það hefði ekki verið farið í þessa framkvæmd hefðu fjármunirnir nýst í eitthvað annað. Það er alls ekkert í hendi. Það finnst mér mikilvægt að við hugleiðum.

Ég get tekið undir margt sem er gagnrýnt hér og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson gagnrýnir. Ég tel að við þurfum að skoða margt af því. En ég tel ekki að það gagnist ríkissjóði eða verkefninu að senda þetta til baka og ég tel ekki miðað við fram komin gögn að við séum að brjóta ríkisábyrgðir. En eins og ég sagði áðan vona ég að það komi í ljós í fyrramálið á fundi nefndarinnar ef við förum hér á svig við lög. Ég ætla rétt að vona það því að ekki viljum við telja okkur gera það.

Það er mjög margt í þessu samt sem áður. Þetta eru samgöngubætur sem mér finnst að við eigum að ræða en ekki bara festa okkur í forminu. Umferðaröryggið eykst, ferðatíminn styttist, atvinnu- og þjónustusvæði er að stækka, búsetuskilyrðin verða betri og þetta mun hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun. Þetta verður líka til þess að það verður aukið val um búsetu, sem ekki er til staðar í dag. Það verður öruggara aðgengi að heilbrigðisþjónustu en hefur verið. Nú þekkjum við það sem þarna búum að það er ekki ljósmóðir á risastóru svæði, alveg austur á Langanes og norður til Akureyrar. Þetta er m.a. hluti af því að bæta þau skilyrði. Þegar við vorum t.d. að færa heilbrigðisþjónustu til var partur af því að auka umferðaröryggi, og það á víða við. Ég ætla ekki að halda því fram að svo sé ekki. Mér finnst það gleymast svolítið þegar við ræðum formið þótt það sé mjög mikilvægt. Ég ætla ekki að draga úr að það sé mikilvægt

Meiri hluti nefndarinnar hefur líka dregið fram jákvæða punkta, sem þingmaðurinn hefur ekki tekið fram, og farið yfir greiningu ráðgjafafyrirtækisins eins og umsögn Ríkisábyrgðasjóðs. Þar kemur fram að ríkissjóður fær langbestu kjörin. Það er lægri ávöxtunarkrafa en einkaaðilar myndu gera til verkefnisins. Það er líka lagt til að ríkið breyti núverandi framkvæmdarláni í langtímalán með einhverju álagi. Við getum deilt um það hvert álagið á að vera og það að hluta af lögum um Ríkisábyrgðasjóð var kippt úr sambandi á sínum tíma. Það er svoleiðis og það er gagnrýnivert. Ég er alveg sammála því. En svoleiðis er staðan.

Hér er í raun verið að bæta við þessa framkvæmd til þess að klára hana. Ég ætla að taka mark á því sem hér hefur verið sett fram og eins og ég skil það.

Ég ætla ekki að tala lengur, virðulegi forseti, um þetta mál. Þetta er mál sem maður hefði gjarnan viljað að hefði borið að mörgu leyti öðruvísi að. Það er alltaf óvissa í öllum framkvæmdum, sérstaklega jarðgangaframkvæmd. Það er svoleiðis með þetta blessaða land okkar að það er þannig úr garði gert, og ekki bara hér heldur í Noregi líka, að þetta virðist koma upp á þrátt fyrir ítarlegar og góðar rannsóknir. Við getum ekki tryggt okkur fyrir öllum slíkum hlutum, getum ekki ákveðið nákvæmlega hvað við borgum til baka, ekki frekar en, því miður, með húsnæðislánin okkar. Ég vildi gjarnan geta gert það en það er ekki þannig og ég held að við getum ekki tryggt það heldur í þessu.

Við þurfum að læra af þessu ferli, af því hvernig það hefur undið upp á sig. Kannski eru dæmi, þótt ekki séu dæmi um framkvæmd af nákvæmlega þessu tagi, hjá Vegagerðinni sem hafa farið töluvert fram úr áætlun. Það er nokkuð ljóst að við erum með slík verkefni sem ríkissjóður hefur þurft að borga meira fyrir en gert var ráð fyrir í upphafi. Það eru alls konar frávik sem við lendum ítrekað í. En þetta eru auðvitað stórar tölur og ég ætla ekki að gera lítið úr þeim.



[14:48]
Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Byrjum aðeins jákvætt. Jú, það er hægt að ná öllum þessum jákvæðu atriðum án þess að brjóta formið. Af hverju veljum við að gera þetta með röngum hætti þegar við höfum valmöguleika um að gera þetta rétt? Ef það er talað um að læra af ferlinu þá er tækifærið til þess núna. Lærum bara af ferlinu núna og gerum þetta rétt núna, en gerum þetta ekki vitlaust, nákvæmlega eins og við gerðum síðast.

Hægt hefði verið að minnka fjölda óvæntra frávika með því að vinna undirbúningsvinnuna betur. Hv. þingmaður segir réttilega að þetta séu mun fleiri óvænt frávik en tíðkast.

Mér finnst það áhugavert og vil spyrja hv. þingmann um heimild í fjárlögum til að borga þessa upphæð úr ríkissjóði. Það er ekki heimild til að greiða fyrir fram úr ríkissjóði. Það er ekki hægt að samþykkja heimild í fjáraukalögum í haust til að greiða þessa milljarða og byrja að borga þá núna. Mér þætti því áhugavert að heyra frá hv. þingmanni hvernig við leysum það vandamál.

Hv. þingmaður nefndi að greiðslufall væri hugsanlega ekki neitt. Það er rangt. Það er gjalddagi 2021. Sviðsmyndagreining Ríkisábyrgðasjóðs sýnir að ef ríkið heldur framkvæmdinni í um 40 ár borgi hún sig en þá á eftir að reikna inn markaðsvaxtamismuninn á ríkisábyrgðarláninu og markaðsvaxtaláninu sem ekki hefur verið greitt hingað til. Það eina sem við sjáum núna er að það er gjalddagi 2021. Þá er óhjákvæmileg yfirtaka. Hvernig yfirtaka það verður, með annaðhvort sölu eða algerri opinberri yfirtöku ganganna, er ekki hægt að segja til um. En það er mjög líklegt að þá þurfi að afskrifa einhvern hluta lánsins, eins og fram kemur í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs og við erum engu betur sett þá en nú. Við getum alveg eins (Forseti hringir.) gert þetta núna í staðinn fyrir að henda þessu yfir á næsta kjörtímabil.



[14:51]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Gera rangt. Enn segir þingmaðurinn „óvænt frávik“ og að betri undirbúningur hefði komið í veg fyrir þau. (BLG: Fækkað þeim.) — Eða fækkað þeim. Það eru hans fullyrðingar, alveg eins og ég segi við hann hér og nú, eins og ég fór í gegnum varðandi norsku göngin: Ég get ekki sagt til um að lengri undirbúningur þar eða hér hefði skilað því að við vissum meira um göngin, jarðlögin eða setlögin, eða hvað það nú er, en þegar við fórum af stað. Það er ekki hægt að fullyrða að svo sé.

Við hefðum getað rannsakað í þrjú ár í viðbót og ekki er víst að við hefðum fengið betri niðurstöðu. Við hefðum samt lent í nákvæmlega sömu vandræðunum. Það er ekkert sem segir að það hefði ekki gerst. Það er heldur ekkert sem segir að það hefði ekki getað gerst. En hversu langan tíma getum við réttlætt í rannsóknir? Hvað mega þær kosta áður en við hefjumst handa í hverju verkefni fyrir sig? Viljum við rannsaka næstu göng í þrjú ár? Hvaða viðmið eigum við að gefa okkur ef við teljum okkur hafa náð tiltekinni niðurstöðu? Getum við farið af stað eða verðum við að rannsaka meira til að vera viss — um hvað?

Ég átta mig ekki alveg á þessum málflutningi og held að hv. þingmaður geti ekki fullyrt um þetta frekar en ég.

Lögin sem hér ræðir og heimildin í fjárlögunum: Ráðherrann getur undirritað lánasamning. Væntanlega gerir hann það, undirritar lánasamning eins og lögin um ríkisábyrgð gera ráð fyrir. Síðan þarf hann að sækja þessa fjárheimild í fjárlögum. Það er ekki verið að tala um að hann borgi hana endilega út núna. Ég hef ekki heyrt hann nefna það. Hann er að tala um að undirrita lánasamning. Og eins og hv. þingmaður (Forseti hringir.) veit kom það fram í nefndinni að verktakinn þyrfti að fá staðfestingu á að ríkið ætlaði að halda áfram að lána svo verktakarnir héldu áfram.



[14:53]
Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður áhugavert að sjá hvaðan sá peningur kemur sem kemur í veg fyrir að framkvæmdin stöðvist.

Nefnt var áðan að ég hefði talað um að hér væru brotin lög. Nei, ég nefndi dæmi þar sem ekki hefði verið farið að lögum. Það má kannski túlka það sem svo að ég hafi sagt að verið væri að brjóta lög. Þar er ekki innheimt afgreiðslugjald, áhættugjald er innheimt á skringilegan hátt og svo framvegis.

Í umræðum á samfélagsmiðlum um þetta mál segir Gunnar Tómasson, með leyfi forseta:

„Hæstiréttur hefur úrskurðað að lánveiting án marktækrar tryggingar um endurgreiðslu jafngildi refsiverðum umboðssvikum. Stjórnarskrá Íslands heimilar ekki refsileysi fyrir ráðherra fyrir refsiverð umboðssvik í mynd lánveitinga án marktækra trygginga um endurgreiðslu.“

Eigum við bara ekki að láta það duga? Bara senda þetta aftur til ráðherra og hann getur komið með þetta með fjárheimild?



[14:54]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður. Þetta eru stór orð, að saka ráðherra um umboðssvik. (Gripið fram í: Ekki mín orð ...) — Ja, hér er verið að nýta sér það sem einhver segir úti í bæ. Það eru að minnsta kosti mjög stór orð að mínu mati, (Gripið fram í.) að segja að þetta séu umboðssvik. Hv. þingmaður ræðir þá væntanlega í fyrramálið við Ríkisendurskoðun hvort hún telji að hér sé um umboðssvik að ræða. Ef það verður niðurstaðan hljótum við að endurskoða stöðuna, ekki satt? Það hefur að mínu mati ekkert komið fram í gögnunum sem við höfum í höndunum sem styður það. En kannski þarf ég að horfa á það aftur á morgun.

Framkvæmdir stöðvast ef ekki liggur fyrir að ríkissjóður ætli að ábyrgjast viðbótarlán. Það voru þau orð sem við fengum að heyra í fjárlaganefnd af hálfu verktaka um þetta mál. Ekki að það þyrfti að vera útborgað á morgun. Það var ekki minn skilningur á þeim gögnum sem við höfum undir höndum. Ég lít alla vega svoleiðis á að það dugi til að lánsvilyrðið sé afgreitt til þess að verktakinn sem þarna er telji sig geta haldið áfram og þurfi ekki að rifta samningum. En ef þingmaður hefur einhverjar aðrar upplýsingar um það væri ágætt að við færum yfir það á nefndinni á morgun.

Þetta er tilefni til að fara vel yfir með hvaða hætti ríkið hagar framkvæmdum sínum. Ég held að það verði gert í ljósi þess þegar við fáum niðurstöðu skýrslunnar sem vinna á í þessu máli.