146. löggjafarþing — 75. fundur
 30. maí 2017.
húsnæðissamvinnufélög, 2. umræða.
stjfrv., 440. mál (fjármögnun húsnæðissamvinnufélaga). — Þskj. 573, nál. 819.

[14:59]
Frsm. velfn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndaráliti frá velferðarnefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, með síðari breytingum, um fjármögnun húsnæðissamvinnufélaga.

Nefndin fékk gesti á sinn fund og fór yfir umsagnir.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 5. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, með síðari breytingum, þannig að húsnæðissamvinnufélögum verði áfram heimilt að taka lán hjá fjármálafyrirtækjum og lánastofnunum ásamt því að taka við styrkjum og framlögum frá samstarfsaðilum en jafnframt verði þeim heimilt að taka lán á almennum markaði auk þess að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa. Þannig munu húsnæðissamvinnufélög fá aukið svigrúm til að velja þá fjármögnun sem að þeirra mati er hagstæðust og hentar best hverju sinni með hagsmuni félagsmanna í fyrirrúmi og að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem fylgir fjármögnuninni. Þannig aukast líkur á að rekstur húsnæðissamvinnufélaga verði sjálfbær sem eykur húsnæðisöryggi búseturéttarhafa.

Allir umsagnaraðilar fögnuðu þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir það skrifar formaður nefndarinnar Nichole Leigh Mosty, Vilhjálmur Árnason, Birgir Ármannsson, Elsa Lára Arnardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Halldóra Mogensen, Hildur Sverrisdóttir, Jóna Sólveig Elínardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.



[15:00]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil bara koma hér upp í örstutta ræðu og taka undir mikilvægi þess sem fram kom í ræðu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar. Hér er verið að klára ákveðið mál sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili en ríkisstjórnin sem þá var vann mjög umfangsmikla vinnu er varðaði húsnæðismarkaðinn. Það var eitt af meginmarkmiðum þeirrar ríkisstjórnar að fólk hefði raunverulegt val um búsetuform og unnið var að löggjöf um húsnæðissamvinnufélög sem hafði það að markmiði að styrkja stöðu félaganna og færa íbúum þessara húsnæðissamvinnufélaga meira vald yfir samþykktum og ákvörðunum sem væru teknar innan þessara félaga. Ég vil fagna því að hér sé verið að styrkja enn betur rekstrargrunn þessara félaga, að þau geti meðal annars fjármagnað sig á almennum markaði sem getur þá jafnvel skilað sér í lægri leigu síðar meir til íbúa. Þetta er gott mál og liður í því að við stuðlum að því að fólk hafi raunverulegt val um búsetuform.

Lögin um húsnæðissamvinnufélög, eins og áður segi, voru hluti af mjög stórum pakka sem snerist meðal annars um almennar leiguíbúðir, um að stórauka húsnæðisbætur til leigjenda og breytingar á húsaleigulögum. Það er mjög mikilvægt að standa vörð um þessi lög sem sett voru á síðasta kjörtímabili. Ég vil fagna því að þetta mál sé komið á dagskrá og umræðan líklega búin um það. Ég vona að þetta verði samþykkt.