146. löggjafarþing — 75. fundur
 30. maí 2017.
skattar, tollar og gjöld, 2. umræða.
stjfrv., 385. mál (samsköttun félaga, takmörkun á frádrætti vaxtagjalda, leigutekjur o.fl.). — Þskj. 515, nál. 858, nál. m. brtt. 910, breytingartillaga 859.

[20:06]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Nefndin fékk töluverðan fjölda á sinn fund, eins og kemur fram í nefndarálitinu, og ætla ég ekki að lengja umræðuna með því að telja það upp. Að ósk fjármála- og efnahagsráðuneytisins leggur meiri hlutinn til að 3. gr. frumvarpsins, er varðar heimildir félaga til samsköttunar, falli niður. Ráðuneytið taldi tilefni til að endurskoða ákvæðið og hyggst leggja fram nýja tillögu fyrir Alþingi í haust. Ákvæðið á ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar næstkomandi svo það ekki ætti að koma að sök að lögfestingu þess seinki til haustsins.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að felld verði brott undanþága frá takmörkun 1. mgr. 57. gr. laga um tekjuskatt á frádrætti vaxtagjalda ef lánveitandi ber ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Í greinargerð með frumvarpinu segir að líkur séu á að hún gangi gegn EES-rétti. Samtök atvinnulífsins töldu hins vegar brottfall undanþágunnar geta aftrað fyrirtækjasamstæðum frá sameiginlegri lántöku sem gæti hækkað fjármögnunarkostnað. Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt en beinir því jafnframt til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að samhliða endurskoðun ákvæðis 3. gr. frumvarpsins verði tekið til skoðunar hvernig megi tryggja að brottfall undanþágunnar komi ekki niður á eðlilegri fjármögnun innan samsteypu sem beinist ekki að því að takmarka skattgreiðslur. Ákvæði 4. gr. frumvarpsins á ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar næstkomandi svo ekki ætti að koma að sök að ákvæði um það efni verði lögfest í haust.

Með hliðsjón af ábendingu í umsögn KPMG ehf. leggur meiri hlutinn til að í a-lið 5. gr. og 7. gr. frumvarpsins verði vísað til útleigu íbúðarhúsnæðis sem fellur undir húsaleigulög fremur en útleigu til varanlegrar búsetu leigjanda í íbúðarhúsnæði. Meiri hlutinn telur þá afmörkun mun skýrari.

Síðan eru gerðar tillögur um nokkrar orðalagsbreytingar en allar breytingartillögur nefndarinnar koma fram á þingskjali 859.

Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögum. Undir þetta nefndarálit rita, auk þess sem hér stendur: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson og Vilhjálmur Bjarnason.



[20:09]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld.

Með lögum um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nr. 69/2012, með síðari breytingum, var fellt brott ákvæði í 48. gr. laga um virðisaukaskatt er laut að því að sala á skattskyldri vöru og þjónustu til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, samanber lög um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, nr. 110/1951, teldist sala úr landi enda hefði þessi hluti ákvæðisins misst marks á árinu 2006 við brotthvarf varnarliðsins frá landinu.

Með frumvarpinu er hins vegar lagt til að á ný verði mælt fyrir, án nokkurrar haldbærrar röksemdafærslu, um ýmsar undanþágur frá sköttum í þágu erlends liðsafla og borgaralegra deilda hans, þar á meðal vegna Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar og Bandaríkjahers. Minni hlutinn telur að á meðan engar grundvallarbreytingar eða grundvallarstefnubreytingar hafa átt sér stað varðandi endurkomu varnarliðsins til landsins eða meiri umsvif þess, séu engar forsendur fyrir breyttri framkvæmd í þessu efni. Minni hlutinn telur ekki tilefni til að greiða fyrir heræfingum eða annarri hernaðartengdri starfsemi hérlendis og leggst því gegn því að veittar séu sérstakar skattundanþágur í því skyni, eins og fram kemur í frumvarpinu sem hér um ræðir.

Minni hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til, en minni hlutinn leggur einnig til eftirfarandi breytingu á frumvarpinu er varðar brottfall 10.–12. gr., brottfall 16. gr. og brottfall 18.–25. gr.

Undir nefndarálitið rita Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Katrín Jakobsdóttir.