146. löggjafarþing — 75. fundur
 30. maí 2017.
landmælingar og grunnkortagerð, 3. umræða.
stjfrv., 389. mál (landupplýsingagrunnur og gjaldfrelsi landupplýsinga). — Þskj. 519, nál. 980 og 981.

[21:48]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Pawel Bartoszek) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnkortagerð, nr. 103/2006, með síðari breytingum, landupplýsingagrunnur og gjaldfrelsi landupplýsinga.

Forsaga þessa nefndarálits sem kemur hér milli 2. og 3. umr. er að fram kom ósk um að málið yrði tekið aftur til nefndar. Ég varð við þeirri ósk sem 1. varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar, ekki síst í því ljósi að nefndin hafði skilað áliti sínu nokkrum klukkustundum áður en umsagnarfrestur rann út og skrifast það frumhlaup á stjórn nefndarinnar að einhverju leyti. Eftir að því lauk, milli þess tíma, þá komu inn umsagnir og m.a. ein umsögn sem var örlítið neikvæðari í garð málsins en aðrar umsagnir sem komið höfðu fram. Þá þótti rétt að kalla til nefndarfundar og boða þá sem höfðu komið með þá umsögn á fundinn ásamt fulltrúum ráðuneytis til þess að gefa þeim aðilum færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina. Í því ljósi ákvað meiri hluti nefndarinnar að bregðast við sumum af þeim athugasemdum sem þar komu fram, en meiri hlutinn leggur engu að síður til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Ég ætla þá að gera grein fyrir nefndarálitinu. Eins og ég sagði tók nefndin málið til umfjöllunar á milli 2. og 3. umr. og fékk á sinn fund Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Karl Arnar Arnarsson frá Loftmyndum ehf. Frá því að nefndin afgreiddi málið til 2. umr. hafa borist umsagnir um málið frá Ískorti ehf., Loftmyndum ehf., Skipulagsstofnun og Veðurstofu Íslands.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að frumvarpið gæti leitt til aukins samkeppnisrekstrar Landmælinga Íslands þar sem stofnuninni yrði heimilt að safna og miðla gögnum með meiri nákvæmni en í mælikvarðanum 1:50.000 eins og nú er samkvæmt gildandi lögum. Í greinargerð frumvarpsins og á fundi nefndarinnar kom fram að ráðuneytið hefði gert samkeppnismat í samræmi við álit Samkeppniseftirlitsins, nr. 2/2009, um samkeppnismat stjórnvalda. Niðurstaða þess mats hefði verið að ekki væri þörf ítarlegri greiningar á samkeppnisáhrifum frumvarpsins. Að auki var bent á að ætluðu Landmælingar sér að koma upp grunni gagna með meiri nákvæmni og hefja beinan samkeppnisrekstur við einkaaðila um viðskipti með slík gögn krefðist það mikilla fjárútláta sem stofnunin gæti aðeins ráðist í með auknum fjárheimildum. Aðkomu Alþingis væri því þörf, en þessu frumvarpi fylgdu ekki auknar fjárheimildir til stofnunarinnar. Ætlunin með breytingunni væri að Landmælingar Íslands gætu notað landupplýsingar sem yrðu til vegna ýmissa verkefna stofnunarinnar við uppbyggingu landupplýsingagrunns og sambærilegar upplýsingar sem yrðu til hjá öðrum ríkisstofnunum og sveitarfélögum. Slíkar upplýsingar væru jafnan unnar af einkaaðilum.

Meiri hlutinn sér ekki ástæðu til að gera breytingar á frumvarpinu eins og það liggur fyrir en leggur áherslu á að lagabreytingin sem frumvarpið hefur í för með sér verði ekki til þess að auka samkeppnisrekstur Landmælinga Íslands. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta rita hv. þingmenn Pawel Bartoszek, 1. varaformaður og framsögumaður, Ásmundur Friðriksson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karen Elísabet Halldórsdóttir, Óli Björn Kárason og Teitur Björn Einarsson.



[21:52]
Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um landmælingar og grunnkortagerð.

Hv. þm. Pawel Bartoszek, framsögumaður meirihlutaálitsins, rakti ágætlega í ræðu sinni feril málsins, hvernig til þess kom að kallaðir voru inn gestir á milli 2. og 3. umr. Í sjálfu sér hef ég engu við það að bæta. Við fulltrúar minni hlutans sem skrifum undir þetta álit erum þó þeirrar skoðunar að sú gestakoma hafi engu breytt í málinu og ekki kallað á neitt sérstakt álit. Það þurfti að bregðast við þeim athugasemdum sem þar komu fram þar sem umræddir gestir skiluðu umsögn um málið þegar það var lagt fram á sínum tíma fyrir tveimur árum síðan og það voru engar nýjar upplýsingar sem komu fram á milli umræðna, því var engin ástæða til að tiltaka efnislega eitthvað í málinu. Þetta lá allt saman fyrir, en sjálfsagt að bregðast við og kalla inn gesti vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem hv. framsögumaður meirihlutaálitsins fór yfir í máli sínu.

Í nefndaráliti okkar reifum við þetta ferli. Við tókum málið til umfjöllunar á milli 2. og 3. umr., eins og hv. framsögumaður meirihlutaálitsins fór yfir. Á fundi nefndarinnar reifaði fulltrúi Loftmynda áhyggjur af mögulegum breytingum á stöðu fyrirtækisins við samþykkt frumvarpsins. Nefndin fór yfir þau sjónarmið með fulltrúa ráðuneytisins.

Minni hlutinn sér ekki ástæðu til að reifa frekar þau sjónarmið sem fram komu á fundinum, enda kom þar ekkert nýtt fram sem ekki liggur fyrir, m.a. í umsögnum um málið þegar það var lagt fram á 144. löggjafarþingi, mál 560. Því er engin ástæða til að hnykkja sérstaklega á einhverjum efnisatriðum málsins heldur nægir að vísa almennt í greinargerð frumvarpsins.

Minni hlutinn sér ekki ástæðu til að gera breytingar á frumvarpinu eins og það liggur fyrir og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta rita sá sem hér stendur, hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson og hv. þm. Guðrún Ágústa Þórdísardóttir.

Eins og ég kom inn á í máli mínu og í upplestri á nefndarálitinu voru þetta dálítið sérstakar aðstæður og sem betur fer höfum við ekki þurft að grípa til þessa í öðrum málum á þessu þingi. Ég ítreka það að að mínu viti er ekki nokkur einasta ástæða til þess að gefa út sérstakt framhaldsnefndarálit vegna upplýsinga sem komu fram á fundi hv. umhverfis- og samgöngunefndar í dag. Það átti öllum nefndarmönnum að vera ljóst hvernig málið stæði og vera ljós afstaða þeirra gesta sem komu á fund nefndarinnar. Hún hefur verið ljós í a.m.k. tvö ár, ef ekki lengur, því að þetta mál hefur komið fram áður. En það er gott að það náðist samstaða um að málið yrði samþykkt óbreytt. Við í minni hlutanum styðjum það. Þetta er gott og þarft mál sem mun verða mörgum til hagsbóta þegar það nær fram að ganga.



[21:56]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég á aðild að nefndarálitinu sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé gerði grein fyrir og vil árétta að Landmælingar sem ríkisstofnun geyma bæði gögn sem varða örnefni og landupplýsingar á gömlu og nýju formi.

Ég lít svo á að stofnunin sé nauðsynleg svo að þau verði ávallt aðgengileg, hvernig sem einkafyrirtækjum í greininni vegnar eða kann að vegna. Stofnunin er ekki lengur í samkeppni við einkafyrirtæki en kaupir af þeim gögn, eins og aðrar ríkisstofnanir, og mun gera það eftir sem áður. Kynntar breytingar á lögum um landmælingar og grunnkortagerð sem hér hafa verið reifaðar fara ekki á svig við þá starfshætti. Lögin eftir breytingar auka aðeins aðgengi að mikilvægum upplýsingum án þess að greiðslu sé krafist.

Þess vegna sér minni hlutinn ekki ástæðu til að gera breytingar á frumvarpinu, eins og kom fram í máli hv. þingmanns á undan mér, og við leggjum sameiginlega ásamt Guðrúnu Ágústu Þórdísardóttur frá Pírötum til að það verði samþykkt óbreytt.