148. löggjafarþing — 10. fundur
 28. desember 2017.
mannvirki, 3. umræða.
stjfrv., 4. mál (faggilding, frestur). — Þskj. 4.

[15:10]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er mál sem ég held að lengst af hafi fáum hugnast að tala mikið um. Þetta er, eins og kemur fram í frumvarpinu, framlenging á bráðabirgðaástandi vegna þess að embættum byggingarfulltrúa hefur ekki tekist að afla sér faggildingar. Það virðist mjög einfalt og sjálfsagt við fyrstu sýn og ég hygg að flestir þingmenn hafi litið svo á en ég get ekki annað en minnst á umsögn frá fyrirtæki sem heitir Inspectionem. Þar birtust áhyggjur og tillögur sem ég fæ ekki séð að hafi verið ræddar. Ég sé það ekki í gögnum þingsins. Ég er ekki í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sjálfur, og við erum reyndar ekki með nefndarmann þar heldur áheyrnarfulltrúa, en svo virðist sem þessir aðilar hafi ekki verið boðaðir á fund til að ræða þetta eða velta upp öðrum möguleikum við frumvarpið. Mér sýnist liggja alveg ljóst fyrir að þetta mál kemur seint fram, það kemur a.m.k. þessum aðila að óvörum. Svo heyri ég sögur af því að það hafi komið öðrum aðilum í samfélaginu líka að óvörum og það kemur niður á rekstri þeirra fyrirtækja.

Mér finnst mikilvægt að halda þessu til haga. Ég held að þetta mál hefði verið unnið öðruvísi ef við hefðum haft tíma til að vanda okkur. Ég held að þetta mál sé enn eitt einkenni þess hvað við erum í miklu óðagoti og höfum lítinn tíma. Við getum ekki sinnt því hlutverki sem almenningur ætlast til af Alþingi, sem er að ástunda vönduð vinnubrögð, taka yfirvegaðar og upplýstar ákvarðanir með hliðsjón af staðreyndum og rökum þannig að við tölum við hagsmunaaðilana, tökum tillit til þeirra sjónarmiða og reynum að búa þannig um hnútana að það komi sér sem best fyrir alla. Ég hygg að tímaskorturinn geri það að verkum að ekki gefst færi á að skoða þetta nógu vel.

Ég hygg í fljótu bragði að tillagan sem kemur frá þessu umrædda fyrirtæki ætti alveg að virka og geta gengið upp. Þá þyrftum við ekki að ganga á hagsmuni þessa fyrirtækis eða annarra í sambærilegri stöðu.

Mér fannst rétt að nýta þann tíma sem er til að minnast á þetta vegna þess að mér finnst hann koma aftur og aftur upp, þessi hábölvaði tímaskortur sem er sérstaklega mikill núna, en við skulum líka halda því til haga að þetta er óþarflega mikið þema á Alþingi og var líka 2013–2016 þegar ekkert átti að vera að flýta sér. Þá var hins vegar alltaf búin til einhver tímapressa út af einu eða öðru sem gerði það að verkum að við gátum ekki sinnt hlutverki okkar sem Alþingi Íslendinga á þann hátt sem almenningur býst réttilega við. Mér finnst alveg tilefni til að nefna það sérstaklega undir þessum kringumstæðum, sérstaklega þegar maður kemur auga á það greinilega allt of seint að betur hefði mátt fara en fór.



[15:14]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Er nokkuð hægt að fá ráðherra í salinn? Í frumvarpinu, sem er stjórnarfrumvarp, er verið að stilla upp góðum leikreglum sem koma fram í handbók um stjórnarfrumvörp um samráðsvinkil. Ég vildi eiga lítinn orðastað við ráðherra um samráð. Er hægt að kalla ráðherrann í salinn fyrir það?

Ég get haldið áfram að tala um málið.

Lykilatriðið er að samkvæmt stjórnarfrumvörpum á að leita samráðs. Það er talað um það hérna en samt sem áður virðist ekki hafa verið haft samráð við þau fyrirtæki sem gætu sinnt þessu. Þau málefnalegu sjónarmið sem koma fram eru að klárlega þarf að gera það sem frumvarpið segir, þ.e. að lengdur sé sá frestur sem aðilar hafa til að leita sér faggildingar og að þetta sé enn í höndum ríkisins sem sinnir þessu eins og það er að gera þannig að við getum haldið áfram að faggilda hlutina. Þetta hefur verið trassað lengi. Aftur á móti er ekki loku fyrir það skotið að fagaðilar, eins og sendu inn umsögn um málið, geti sinnt þessu samhliða. Það er mikil þörf á að þessu sé sinnt vel og að þetta sé ekki flöskuháls í þeim mikla uppbyggingarfasa sem á að fara í á húsnæðismarkaðnum.

Það sem ég vil spyrja ráðherra út í, fyrst ég rak augun í þetta, er hvort leitað hafi verið til þeirra aðila sem uppfylla þessi skilyrði til að geta sinnt löggildingu, leitað til þessara einkaaðila. Þeir sendu inn umsögn til Alþingis. Var leitað til þeirra í ferlinu þegar verið var að vinna málið hjá ráðuneytinu?

Má vænta ráðherra?

(Forseti (SJS): Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hefur verið gert kunnugt um að óskað hafi verið eftir nærveru hans en hann er ekki í húsi. Ég hef ekki upplýsingar um hversu langan tíma taki að fá ráðherrann til umræðunnar.)

Ókei. Almenna meginreglan er að ráðherra sé til staðar þegar verið er að ræða hans frumvörp.

(Forseti (SJS): Forseti ætlar ekki í orðaskipti við hv. þingmann meðan hann er í ræðustól.)

Ókei. Þetta er sjónarmið sem einhver annar gæti kannski átt orðastað við mig um. Kannski er framsögumaður málsins hjá nefndinni meðvitaður um hvernig þetta var unnið í nefndinni. Ég sit ekki í henni sjálfur en framsögumaður hlýtur að hafa kynnt sér málið það vel að hann geti mætt í ræðustól og svarað fyrir það. Ég skoða hvernig þetta lítur út með framsögumann málsins. — Ég sé það ekki merkt. Það hlýtur þá að vera sá sem — (Gripið fram í: Hann er að koma.) Hann er að koma, já. Ókei.

Var hv. þingmaður meðvitaður um það sem ég var að spyrja varðandi þetta erindi sem kom frá einkaaðilum og hvernig ferlið var hjá ráðuneytinu varðandi meginreglur um stjórnarfrumvörp, um að leita samráðs? Það er spurningin.



[15:17]
Frsm. um.- og samgn. (Bergþór Ólason) (M):

Virðulegur forseti. Til að svara þeim spurningum eins og ég er fær til varðandi það sem hv. þingmaður spyr um kom fram fyrir nefndinni að þessi sjónarmið hefðu verið skoðuð í ráðuneytinu en leiðin sem var ákveðið að fara er í rauninni þannig útfærð að þau fyrirtæki sem veita þessa þjónustu, m.a. það sem þú nefndir hér áðan, Frumherji er sambærilegt, Efla, Verkís og fleiri, hafa unnið þessi verkefni fyrir byggingarfulltrúaembættin víða um land, sérstaklega úti á landsbyggðinni. Ef ég skil málið rétt verður ekki röskun á því að þau geti sinnt þeim störfum áfram.

Hvað faggildinguna sjálfa varðar hefur það mál ekki unnist hraðar en þetta í Mannvirkjastofnun. Niðurstaða nefndarinnar eftir að fulltrúar ráðuneytis höfðu komið þar fyrir varð að útfæra málið með þessum hætti. Þannig væri svigrúm allra þeirra sem hafa veitt þessa þjónustu tryggt áfram þar til öll skilyrði reglnanna hafa verið uppfyllt og faggilding verður þá veitt á grunni þeirra reglna sem settar verða. Ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns.