148. löggjafarþing — 17. fundur
 25. janúar 2018.
sérstök umræða.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[11:47]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Halda má því fram með nokkrum rökum að það sé eiginlega kraftaverk að til séu á Íslandi en frjálsir fjölmiðlar. Einkareknir miðlar sem margir hverjir eru reknir af miklum metnaði. Ég staðhæfi að fá ef nokkur fyrirtæki búi við erfiðari aðstæður en íslenskir fjölmiðlar, þurfi að standa í ótrúlega ósanngjarnri og óeðlilegri samkeppni og það eftir leikreglum sem við hér höfum samið.

Leikurinn er ójafn. Hann er eins ójafn og nokkur samkeppnisrekstur getur orðið.

Við horfum fram á skakka stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem hefur orðið til þess að einkareknir fjölmiðlar berjast flestir í bökkum. Ólíkt Ríkisútvarpinu þurfa sjálfstæðir fjölmiðlar að standa reikningsskil á því sem þeir gera. Á hverjum degi fella landsmenn sinn dóm sem lesendur, áhorfendur eða hlustendur. Ef þeim líkar illa við vinnubrögðin hætta þeir hreinlega að lesa eða kaupa viðkomandi dagblað eða tímarit, segja upp áskriftinni að sjónvarpsstöðinni eða hætta að hlusta á útvarpsstöðina. Ef þeir eru ósáttir við hvernig fréttir eða fréttaskýringar eru matreiddar gefast þeir upp á að heimsækja viðkomandi fjölmiðil á vefnum. Minnkandi vinsældir fjölmiðla munu koma niður á auglýsingatekjum.

Með öðrum orðum, einkareknir fjölmiðlar búa við aðhald almennings. Agavald sem nær hins vegar ekki til hins ríkisrekna fjölmiðils með sama hætti og til einkarekinna. Landsmenn þurfa að greiða útvarpsgjald. Um það sér innheimtumaður ríkissjóðs. Enginn hefur frelsi til að láta óánægju sína í ljós með því að segja upp áskriftinni, slíta viðskiptasambandinu.

Ég hef haldið því fram bæði í ræðu og riti að það sé eitt af hlutverkum stjórnmálamanna, löggjafans, að plægja jarðveginn fyrir fjölbreyttari flóru fjölmiðla. Ekkert tryggir betur fjölbreytni fjölmiðla en að réttar upplýsingar séu dregnar fram í dagsljósið og ólík sjónarmið fái að heyrast. Um mikilvægi þess að hér séu til sjálfstæðir, öflugir fjölmiðlar þarf ekkert að ræða. Frjálsir fjölmiðlar eru einn af mikilvægustu hornsteinum lýðræðisins, hins frjálsa samfélags.

Sá sem hér stendur hefur ekki verið mikill talsmaður þess að sértækar reglur gildi um fyrirtæki eða að ákveðnar atvinnugreinar búi við einhverjar sérreglur þegar kemur t.d. að skattalegum reglum. Ég vil hafa leikreglurnar skýrar og einfaldar, réttlátar og að þær tryggi jafnræði. En staðan á íslenskum fjölmiðlamarkaði kallar hins vegar á það að maður þurfi að beygja aðeins af leið. Ég hef lagt til að við afnemum virðisaukaskatt af áskriftum fjölmiðla. Ég tel að nauðsynlegt sé að við skoðum með hvaða hætti við innheimtum tryggingagjald þegar kemur að einkareknum fjölmiðlum. Og ég hef talið nauðsynlegt að Ríkisútvarpið verði dregið út af auglýsingamarkaði.

Fyrir utan hina ójöfnu samkeppni sem íslenskir einkareknir fjölmiðlar standa í gagnvart Ríkisútvarpinu eru þeir líka að berjast í bökkum þegar kemur að samkeppni við stórfyrirtæki erlendis, Google, Facebook o.s.frv. sem höggva og gera núna strandhögg á auglýsingamarkaðinn.

Ég vil því í ljósi þessa alls spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Er rétt að huga að skattalegu umhverfi fjölmiðla á Íslandi, fella niður virðisaukaskatt á áskriftum? Eru önnur skattaleg úrræði skynsamleg, t.d. að lækka tryggingagjald? Er hæstv. ráðherra fylgjandi því að taka Ríkisútvarpið af (Forseti hringir.) auglýsingamarkaði og jafna þannig leikinn? Sér hæstv. ráðherra einhverja aðra möguleika til að jafna stöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart erlendum stórfyrirtækjum sem sækja nú inn á auglýsingamarkaðinn?



[11:53]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að efna til umræðu um stöðu einkarekinna fjölmiðla og ég vil þakka nefnd um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla kærlega fyrir störf sín.

Það er bæði tímabært og nauðsynlegt að Alþingi taki fjölmiðlamál til umræðu, enda mikilvægt málefni sem varðar menningu okkar og lýðræði. Það er einnig í samræmi við það sem við höfum orðið vitni að alls staðar annars staðar í heiminum að stjórnvöld eru farin að hafa mun meiri áhuga og fylgjast mun betur með þeirri hröðu þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár í fjölmiðlamálum. Þar hafa samfélagsmiðlarnir, Google og efnisveitur á borð við Netflix og Spotify gerbreytt rekstrarumhverfi fjölmiðla. Stærsta breytingin er ef til vill sú að smám saman eru notendur fjölmiðlaefnis að verða eigin dagskrárstjórar og miðlun fjölmiðlaefnis verður í gegnum tölvur, síma og önnur snjalltæki.

Fjölmiðlar eru eitt mikilvægasta tæki lýðræðissamfélagsins og breytingar á umhverfi þeirra geta haft bein áhrif á hvernig okkur tekst til við að halda því lýðræðisfyrirkomulagi sem við kjósum. Aðgerðir stjórnvalda víða um heim hafa fyrst og fremst beinst að því markmiði að tryggja að fólk hafi aðgang að fjölbreyttum fjölmiðlum sem miðla samfélagslegu efni, fréttum og þess háttar, sem gerir því kleift að verða virkir þátttakendur í lýðræðissamfélaginu. Þar við bætist sú ósk eða krafa að fjölmiðlar leggi sitt af mörkum til að viðhalda og efla menningu og tungumál, hver á sínu svæði.

Einkareknir fjölmiðlar hafa fundið fyrir þessum hröðu breytingum og eiga fullt í fangi með að aðlaga rekstur sinn að þeim. Sú aðlögun á sér stað alls staðar en með mismunandi hætti því að umhverfi fjölmiðla, fjölmiðlavenjur og væntingar eru mismunandi. Það er því virkilega ánægjulegt að ræða nýútkomna skýrslu starfshóps um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla ásamt tillögum og greinargerð. Í greinargerðinni eru upplýsingar um stöðu fjölmiðla, bæði hér á landi og erlendis, ásamt tillögum í sjö liðum um aðgerðir til að bæta stöðu fjölmiðla. Þær snúa m.a. að stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, skattalegu umhverfi, textun og talsetningu og endurgreiðslu framleiðslukostnaðar á tilteknu efni.

Það má segja að skýrslan marki ákveðin þáttaskil í umræðunni um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og mun nýtast sem gott innlegg í vinnu við að bæta rekstrarumhverfi þeirra. Ég tel mikilvægt að unnið verði áfram með þær tillögur sem lagðar eru fram í skýrslunni og lagt mat á áhrif þeirra, til að mynda kostnað sem falla myndi á ríkissjóð, ávinning fjölmiðlanna sjálfra, áhrifa á tungumálið og fleira. Atriði í skýrslunni ríma við sáttmála núverandi ríkisstjórnar en ríkisstjórnin ætlar að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla, m.a. með því að útfæra breytingar á skattumhverfi þeirra. Ég hef talað fyrir því að nálgast vinnu með eflingu starfsumhverfis tónlistar, bókmennta og fjölmiðla heildstætt, m.a. með því að setja íslenskuna í öndvegi.

Okkur hefur skort heildstæða stefnu í fjölmiðlamálum. Sú skýrsla sem kynnt er í dag er fyrsta skrefið í þeirri vinnu. Stefnumótun þarf að eiga sér stað með breiðri aðkomu hagsmunaaðila, allra stjórnmálaflokka og almennings því að við verðum að reyna að finna leið til samkomulags um starfsemi fjölmiðla og hugsanlegan stuðning ríkisins við lýðræðis- og menningarhlutverk þeirra.

Það er hægt að styðja við fjölmiðla með margs konar hætti. Fyrir þeim stuðningi geta verið mjög góðar og gildar ástæður. Þess vegna tel ég rétt að við byrjum á því að móta okkur stefnu í fjölmiðlamálum og tökum afstöðu til þeirra, bæði til þeirra atriða sem nefnd eru í skýrslunni og fleiri sem geta verið á borðinu. Markmið þeirra er að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Ég tel mjög skynsamlegt að byrja á virðisaukaskattinum og hef sett vinnu af stað hvað það varðar. Annað sem varðar þau efnisatriði sem eru í skýrslunni þarf að skoða betur. Það þarf að kostnaðarmeta þau og meta áhrifin sem þau hafa á rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Að lokum vil ég segja að nú eru rúm 30 ár síðan fjölmiðlun varð frjáls á Íslandi en stærstu breytingar á rekstrarumhverfi þeirra og starfsskilyrðum hafa orðið núna á örfáum árum. Við sjáum ekki fyrir endann á þeim. Við verðum að vera vakandi og tilbúin til að grípa til aðgerða til að tryggja að fólkið í landinu hafi aðgang að góðu og vönduðu fjölmiðlaefni sem er ein af forsendum þess að hér sé virkt lýðræði.



[11:58]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda þessa þörfu umræðu. Í margradda og frjálsu fjölmenningarsamfélagi þurfum við að tryggja að opinber umræðu- og menningarvettvangur sé öflugur og margbreytilegur. Við viljum tjá okkur og sjá okkur í fjölmiðlum sem hafa sama tungumál og við tölum og sama menningarlega bakgrunn og við höfum. Við tölum mikið um að efla þurfi innviði um þessar mundir og þá má ekki gleymast að hið sama gildir um menningarlega innviði okkar. Þar er Ríkisútvarpið mikilvægt, Ríkisútvarpið sem er með orðum hv. málshefjanda sjálfstæður, öflugur fjölmiðill en líka, svo ég bæti við, óháður valdi auðs og áhrifaafla.

Ríkisútvarpið er mikilvægt líka í framleiðslu á leiknu efni sem vonandi nær einhvern tímann til okkar mikla skáldsagnaarfs, ég er alltaf að bíða eftir seríunni miklu um Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi, og í miðlun á því efni sem þegar er til innan veggja. Sú leið sem hefur verið farin hér á landi, ólíkt löndunum í kringum okkur, að láta Ríkisútvarpið fjármagna að mjög miklu leyti starfsemi sína með auglýsingum hefur margvíslegar neikvæðar afleiðingar, bæði fyrir það sjálft og einkaframtakið. En Ríkisútvarpið getur ekki farið af auglýsingamarkaði án þess að því séu tryggðar tekjur á móti. Við þurfum ekki að styrkja einkarekna fjölmiðla með því að veikja Ríkisútvarpið.

Fjölmiðlar búa við margvíslegar ógnir eins og hér hefur komið fram. Mig langar að lokum að nefna tvennt: Rannsóknarblaðamenn búa við þá sífelldu ógn sem smásmuguleg meiðyrðalöggjöf er hér. Og hitt sem ég vil fá að nefna er rekstrarskilyrði minni sjónvarpsstöðva sem gegna mjög mikilsverðu hlutverki. Þar nefni ég sérstaklega stöðina N4 á Akureyri sem hefur ekki opinberan fjárstuðning og heldur ekki dreifikerfi en hefur sannað gildi sitt.



[12:00]
Una Hildardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni og einnig hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni sama dag og nefnd um betra rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla afhenti henni skýrslu sína.

Ég vil byrja á því að taka undir þau orð málshefjanda að íslenskir fjölmiðlar séu reknir með miklum metnaði. Það er alveg rétt. En frjálsir fjölmiðlar eru lýðræðinu nauðsynlegir. Þeir veita aðhald með faglegri og upplýsandi umfjöllun og fréttaflutningi. Það er því mikilvægt að stjórnvöld verji sjálfstæði og ritstjórnarlegt frelsi fjölmiðla og þeir hafi fjárhagslega burði til að sinna lýðræðishlutverki sínu. Æskilegt er að hið opinbera styðji við starfsemi þeirra án þess að vega að sjálfstæði þeirra með takmörkunum á fjárveitingum, hótunum eða annarri valdbeitingu. Ég fagna þeim áformum ráðherra um að breyta skattumhverfi fjölmiðla. Ég tel það skref í rétta átt, en sú aðgerð getur bætt rekstrarforsendur þeirra án beinnar aðkomu ríkisins.

Einnig er mikilvægt að styðja sérstaklega við bakið á rannsóknarblaðamennsku enda er nauðsynlegt að blaðamenn fái svigrúm og tíma til að sinna sínu mikilvæga lýðræðis- og samfélagshlutverki. Því beini ég því til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að skoða möguleikann á sérstökum sjóði fyrir rannsóknarblaðamennsku sem hægt væri að starfrækja á svipaðan hátt og launasjóð listamanna.



[12:02]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Óla Birni Kárasyni, fyrir að hefja máls á þessu fjölmiðlamáli, og þeim sem hafa haldið hér ræður. Þá kemur upp í hugann, eins og margir hafa komið inn á, Ríkisútvarpið.

Staða einkarekinna fjölmiðla er að mínu viti ekki góð hér á landi, aðallega í ljósi þess að samkeppnisstaða þeirra gagnvart Ríkisútvarpinu er skökk, einfaldlega vegna þess að RÚV er á auglýsingamarkaði og þá óneitanlega samkeppnisaðili við einkarekna fjölmiðla. Einnig er skattalegt umhverfi einkarekinna fjölmiðla erfitt.

Afnotagjöld Ríkisútvarpsins hækkuðu í síðustu fjárlögum. Þegar spurt er hvers vegna er svarið að sjálfsögðu: Það kostar að reka útvarp. Einnig er talið nauðsynlegt að þjóðin hafi ríkisrekinn fjölmiðil sem öryggistæki fyrir almannavarnir og önnur þau öryggissjónarmið er lúta að því að koma skilaboðum um allt land ef eitthvað steðjar að og allir landsmenn þurfa að fá skilaboð um það strax.

En nú er það staðreynd að útsendingar RÚV nást ekki um allt land. Þá er illt í efni þegar talað er um öryggistæki. Í dag er tæknin orðin sú að aðrar leiðir en gamla góða Ríkisútvarpið eru jafn góðar ef ekki betri þegar koma þarf skilaboðum til landans.

Ég hef alltaf verið fylgjandi Ríkisútvarpinu. Saga þess er samofin þjóðarsálinni, bæði sem menningarlegur fjölmiðill í djúpum skilningi þess orðs og sem öryggistæki. En tímarnir hafa breyst og við því verður að bregðast.



[12:04]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Umhverfi fjölmiðla hefur breyst mjög mikið í gegnum tíðina almennt, sér í lagi á síðustu árum. Víðs vegar úti um allan heim eru fjölmiðlar að fikra sig áfram með ný viðskiptamódel vegna tilkomu internetsins. Enda er rík þörf fyrir vegna þess að hefðbundnu módelin eru hætt að virka. Það er mikið kvartað undan því að fólk sé hreinlega hætt að borga fyrir fréttir. Það ætlast til þess að fréttirnar séu ókeypis. Sú þróun á sér stað hérna líka. Það þarf eitthvað nýtt, annað en gamla módelið þegar maður seldi einstök eintök. Þetta er sama trend og í mörgum öðrum iðnaði líka.

Vandi Íslendinga og Íslands við að taka þátt í þeirri þróun er smæð markaðar íslensku tungunnar. Það setur okkur í þann kjánalega vanda að til þess að taka þátt í þessari þróun þurfum við í raun og veru að búa til efni á máli sem fleiri en Íslendingar skilja, svo sem ensku eða einhverju álíka tungumáli sem er talað af ógrynni fólks.

En við viljum væntanlega að íslensk tunga lifi af. Ég geri fastlega ráð fyrir því. Ég er vissulega þeirrar skoðunar sjálfur. En ef íslenska tungan á að lifa af 21. öldina og þá framþróun sem henni fylgir verðum við að styrkja íslenska tungu með ríkisstyrk, með peningum úr ríkissjóði, með skattheimtu. Það er engin önnur leið í kringum það að mér vitandi. Ég væri á móti slíkri nálgun ef við byggjum í tugmilljóna manna samfélagi. En við gerum það ekki.

Hvað varðar tillögurnar sem koma fram í umræddri skýrslu þá hef ég kannski ekki tíma til að fara yfir þær allar hérna en kem að þeim í seinni umferð. En hvað varðar tillögu A í það minnsta, um endurgreiðslu á hluta kostnaðar við framleiðslu á fréttum og fréttatengdu efni, tel ég það mikilvægt, samanber það sem ég var að segja áðan. Við verðum að styðja við bakið á þessum fjölmiðlum ef við ætlum að halda í íslenska tungu. Fyrir mér er það í sjálfu sér aðalatriðið í þessari umræðu.



[12:07]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Takk fyrir. Mér þykir full ástæða til að hafa varann á þegar ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks boðar endurskoðun á skattalegu umhverfi fjölmiðla og annað inngrip í samkeppnisumhverfið.

Ég ætla að vinda mér beint í að spyrja hæstv. ráðherra fjölmiðlamála: Mun ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tryggja að staða okkar ágæta ríkisfjölmiðils á auglýsingamarkaði kæfi ekki aðra, sérstaklega smærri fjölmiðla? Mun ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna tryggja að boðaðar skattabreytingar hygli ekki fyrst og fremst stærri fjölmiðlum, jafnvel þeim sem eru á áskriftarmarkaði, fjölmiðlum með fjársterka eigendur sem eru kannski orðnir þreyttir á gegndarlausum taprekstri þrátt fyrir ótvíræðan ávinning í þágu sérhagsmuna? Mun ríkisstjórnin koma í veg fyrir að einstaka fjölmiðlar komist áfram upp með að vera í samkeppnisrekstri árum saman án þess að standa skil á sköttum og gjöldum og síðan sé hægt að komast til leyniáhrifa í þessum miðlum með yfirtöku á skuldunum þvert á markmið fjölmiðlalaga? Mun hæstv. ríkisstjórn fara í sína boðuðu vegferð með það að markmiði að tryggja það? Er það raunverulegt markmið boðaðra breytinga að gæta hagsmuna allra á fjölmiðlamarkaði og reyna að tryggja þannig nauðsynlega fjölbreytni og almannahagsmuni?

Það verður fylgst mjög vel með því í hvaða vegferð verður farið. Við munum gera það, m.a. við í Viðreisn, með öllum tækum ráðum, og tryggja að í þessar breytingar og þessa vegferð verði farið með almannahagsmuni í huga. (ÞKG: Heyr, heyr.)



[12:09]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Óla Birni Kárasyni, fyrir að vekja máls á þessu þýðingarmikla máli.

Það er auðvitað allt rétt sem fram kom í máli hans. Á milli fjölmiðla er leikurinn ójafn, það er vægt til orða tekið, hann fer raunar í bága við öll samkeppnislögmál og er í raun fullkomlega óþolandi.

Hér er sannarlega tímabært að vekja máls á þessu. Ég vil sömuleiðis þakka hæstv. ráðherra fyrir framlag hennar til umræðunnar. Við fáum í dag mikilvæga skýrslu sem ég vænti að verði rædd á Alþingi og verði grundvöllur að ítarlegri stefnumörkun, og ég leyfi mér að taka undir með ráðherra, að hér verði mótuð fjölmiðlastefna, og þakka ég henni fyrir það.

Það er ekki bara að þetta mál snúist um samkeppnisskilyrði fyrirtækja í fjölmiðlarekstri heldur eru afar þýðingarmiklir lýðræðishagsmunir þjóðarinnar undir, afar þýðingarmiklir menningarlegir hagsmunir þjóðarinnar undir. Hér er sömuleiðis undir vernd og viðgangur íslenskrar tungu. Málið er eins stórt og það getur í raun og sanni orðið. Ég á mér þá von og ósk að á Alþingi verði samhugur um víðtæka stefnu í þessum efnum sem getur fleytt okkur fram á við á öllum þeim sviðum sem málið snýr að.



[12:11]
Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Það má með sterkum rökum halda því fram að allir íslenskir fjölmiðlar, þ.e. meginfjölmiðlarnir okkar, séu verr settir núna en þegar þeir voru best settir í fjárhagslegu tilliti. Má þá líka álykta í framhaldi af því að þeir séu allir heldur verri en þegar þeir voru bestir. Því að það er leiðinleg fylgni á milli fjárhagslegs styrks og ritstjórnarlegs eða dagskrárlegs afls í þessu efni.

Það gildir einkum og sér í lagi um einkareknu fjölmiðlana enda höfum við séð það núna upp á síðkastið að þeir eru byrjaðir að týna tölunni. Einn er runninn inn í annan, tveir stærstu ljósvakamiðlarnir eru komnir í eigu fjarskiptafyrirtækja og eru orðnir hjáleiga eða aukabúgrein hjá símafyrirtækjum með þeim afleiðingum sem það hefur síðan á ritstjórnarlega stöðu þeirra.

Það hefur gerst núna bara á síðustu tveimur til fjórum árum að hlutfallslegur styrkleiki Ríkisútvarpsins á íslenskum fjölmiðlamarkaði hefur stóraukist. Það hefur verið nokkuð vel sett og er ágætlega sett núna t.d. varðandi áskriftartekjur sínar með tvöfaldri tryggingu. Þær eru verðtryggðar og síðan kemur nettóaukning á hverju ári miðað við fjölgun greiðenda. Hinn íslenski auglýsingamarkaður er um 9,5 milljarðar kr. Hlutur Ríkisútvarpsins er 25% af heildinni, nærri því helmingur af þeim auglýsingum sem eru á ljósvakamarkaði. Það er óhjákvæmilegt að taka þá stöðu til skoðunar núna því að fullyrða má að hvergi á Vesturlöndum sé hlutfallslegur styrkur ríkisins á fjölmiðlamarkaði neitt nálægt því sem hann er á Íslandi. Sá munur er að aukast; einkareknu fjölmiðlarnir eru að veikjast og ríkið er að styrkjast. Það verðum við að taka til skoðunar núna, ekki síst á grundvelli þeirrar skýrslu sem (Forseti hringir.) birt var í dag.



[12:14]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni umræðuna. Hún er sannarlega þörf. Málshefjandi kemur inn á mikilvæga þætti.

Menningar- og lýðræðishlutverk fjölmiðla er óumdeilt, hvort heldur sem er einkarekinna eða ríkisrekinna. Hv. þingmaður telur það kraftaverk að einkareknir fjölmiðlar hafi við núverandi samkeppnisaðstæður þrek til að starfa. Ég ætla að vísa í grein sem birtist á vef Hagstofunnar sem styður þá þróun sem átt hefur sér stað, ef við skoðum samkeppnisumhverfið, sem hefur vissulega orðið flóknara með hraðri tækniþróun, eins og fram hefur komið í umræðunni. Í greininni kemur fram að við skerum okkur þó nokkuð úr í samanburði við Norðurlöndin og Vesturlönd. Hér er lægri upphæðum varið til kaupa á auglýsingum en á Norðurlöndunum, hvort sem reiknað er á íbúa eða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Það segir sig sjálft að einkareknir fjölmiðlar treysta á þessar tekjur. Í þessu flókna umhverfi herðir að. Þróunin í samdrætti auglýsingatekna er þó til samræmis við þróunina annars staðar þar sem tekjur hafa líka dregist saman, þ.e. á Norðurlöndunum. Þá hefur hlutur dreifst á fleiri aðila með tilkomu og aukinni útbreiðslu vefmiðla.

Þegar við búum ekki við fullkomið samkeppnisumhverfi og menningar- og lýðræðishlutverkið er óumdeilt, ber okkur að skoða það. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra, m.a. á grundvelli skýrslu sem kom út (Forseti hringir.) í morgun, til aðgerða og mótunar stefnu á þessu sviði.



[12:16]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Þegar ég undirbjó umræðu um stöðu einkarekinna fjölmiðla í morgun var ég svo bláeyg að ég hélt að ég væri í alvöru að fara að ræða hugmynd málshefjanda, hv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Óla Björns Kárasonar, um stöðu einkarekinna fjölmiðla og bága stöðu þeirra. Hafði ég því skoðað vandlega skýrslu þá sem kom út í morgun og skoðað tillögurnar sem bárust þar og velt þeim fyrir mér og leitað mér frekari upplýsinga, þrátt fyrir að tíminn væri stuttur. En þegar við upphaf ræðu hv. þingmanns var alveg ljóst að tilgangur hans í þessari umræðu var alfarið að hjóla í almannaútvarp okkar, Ríkisútvarpið.

Hann talaði þannig um þessa menningarstofnun okkar, okkar sameiginlegu menningarstofnun, þessa ævagömlu stofnun sem nýtur algerrar sérstöðu í framleiðslu upplýsinga og menningarefnis hér á landi, að maður gapir bara. Mér fannst alveg hörmulegt, verð ég að segja, að hlusta á málflutning þingmannsins, sem virðir augljóslega í engu það gríðarmikla menningarstarf sem starfsfólk þeirra þriggja stöðva sem reknar eru hjá Ríkisútvarpinu, RÚV Sjónvarp, Rás 1 og Rás 2, innir af hendi hvern dag árið um kring.

Það er enginn fjölmiðill á pari við þá þrjá fjölmiðla þegar kemur að upplýsinga- og menningarhlutverki. Ég skil ekki alveg af hverju við getum ekki einhent okkur í að efla stöðu einkarekinna fjölmiðla án þess að þurfa að vega svo mjög að þessari stofnun okkar, þessari sameiginlegu eign. Ég átta mig ekki alveg á því. Það eru fjölmargar góðar tillögur í þeirri skýrslu sem kom í morgun. Ég vil hvetja menntamálaráðherra til að fara fljótt og vel í þá vinnu sem þar er verið að leggja á borð fyrir okkur en bið um leið fólk að gæta hófs í orðum sínum þegar kemur að Ríkisútvarpinu (Forseti hringir.) og því starfsfólki sem þar vinnur.



[12:18]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir hlý orð síðasta ræðumanns í garð Ríkisútvarpsins sem er hvort tveggja í senn kjölfesta í menningarumfjöllun og í fréttaflutningi hér á landi. Hugmyndir eru um að draga úr tekjum með því að leggja af útvarpsgjald, eða hvað það er sem fólk nefnir, en það verður að mæta því tekjutapi. Eins og fram kemur í skýrslunni sanna dæmin að það er ekki alltaf gert. Það þarf að vera mjög vakandi fyrir því að við veikjum ekki RÚV með því að breyta umhverfinu.

Hvað varðar hugmyndir um lækkun virðisaukaskatts hnaut ég um það í skýrslu um rekstrarumhverfi fjölmiðla að þær tillögur snúa aðallega að tvennu; annars vegar að VOD-leigum fjarskiptafélaganna og hins vegar að prentmiðlum í áskrift, sem eru ekki sérstaklega margir hér á landi. Ég fæ kannski að heyra í hv. frummælanda um hvort þetta eigi að vera það sértækar ráðstafanir að þær nái annars vegar til vídeóleigu og hins vegar til Morgunblaðsins.

Hér hefur verið rætt um rekstrarumhverfi fjölmiðla. En það er fleira en fjárhagslegar áhyggjur sem gerir fjölmiðlum lífið leitt hér á landi, sérstaklega um þessar mundir. Þar getur hið opinbera litið nokkuð í eigin barm þegar kemur að því að svara upplýsingabeiðnum. Þá er ég ekki bara að tala um ráðuneytin sem draga oft lappirnar fram úr öllu hófi við að svara sjálfsögðum, einföldum beiðnum fjölmiðla, heldur líka um okkur á Alþingi sem virðumst eiga mjög erfitt með að gefa greinargóð svör við þeim fyrirspurnum sem að okkur er beint um rekstur þingsins.

Og svo verð ég að nefna það sem enginn hefur nefnt, og kemur það nokkuð á óvart, sem er lögbannið á Stundina. Við erum í þeirri stöðu að fulltrúi framkvæmdarvaldsins (Forseti hringir.) setti fyrir 100 dögum lögbann á umfjöllun um hagsmunatengsl æðstu valdhafa. Frú forseti. Ég hef meiri áhyggjur af 100 daga hömlum á tjáningarfrelsi en einhverri virðisaukaskattsprósentu.

(Forseti (BHar): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörkin.)



[12:21]
Elvar Eyvindsson (M):

Frú forseti. Ég velti oft fyrir mér hvaða erindi ríkið á inn í þennan bransa, fjölmiðlabransann, og kemst alltaf að þeirri niðurstöðu, eins og flestir aðrir hv. þingmenn hafa nefnt, að það er menningarhliðin. Við erum mjög fámennt þjóðfélag og það verður aldrei markaður fyrir alla þá litlu hópa og áhugahópa um alls kyns málefni sem við verðum að sinna ef við ætlum að halda hér uppi menningarlegu þjóðfélagi. Þess vegna held ég að RÚV hafi áfram ótvírætt hlutverk og það sé engin spurning um það. Þetta hlutverk kostar örugglega pening, það mun örugglega kosta pening, hvernig sem honum er náð og ég get alveg léð máls á því, eins og margir fleiri, að RÚV dragi sig út úr auglýsingamarkaði og það sé hreinlega frekar á ríkisins hendi.

Mér finnst að endurskoða þurfi hugmyndirnar um RÚV eða ríkisútvarp og -sjónvarp. Þar inni eru í dag orðin uppsöfnuð gríðarleg verðmæti þjóðarinnar í menningarmálum. Þetta ætti í raun og veru að gera miklu aðgengilegra. Við höfum netið og fólk er, eins og fram hefur komið hjá hv. þingmönnum, farið að velja sér efni sjálft. Við þekkjum öll ungmenni í dag sem bókstaflega opna aldrei fyrir dagskrá sem er fyrir fram ákveðin. Þetta er bara að gerast, þannig að RÚV ætti að vera menningarhlaða þjóðarinnar. Einnig ætti að halda áfram að búa til menningarefni og koma því á framfæri, annaðhvort með eigin rekstri eða með því að kaupa sig inn í annars staðar.

Líka þarf að huga að lýðræðislegri umræðu, það er svona matsatriði. Að þessu sögðu finnst mér stóra málið að tryggja að allir landsmenn hafi aðgang að (Forseti hringir.) fjarskiptaneti, interneti og slíku. Þannig getum við tryggt þetta.



[12:24]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í tveggja mínútna ræðu er hægt að segja einn hlut. Ég ætla að reyna að segja sex en ég ætla að ekki að gera það í alveg línulegri röð miðað við tillögurnar í skýrslunni. Ég ætla að byrja á að segja um tillögu d, að áfengis- og tóbaksauglýsingar verði heimilar, að ég treysti mér ekki til að ræða það á þessum stutta tíma en vona að við getum rætt það betur síðar.

Um tillögu g, um gagnsæi í kaupum hins opinber á auglýsingum, myndi ég vilja taka út orðin „á auglýsingum“ og segja bara „gagnsæi í kaupum hins opinbera“ og ljúka setningunni þannig.

Hvað varðar tillögu b, að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði, þá er ég sífellt hlynntari því. Auðvitað hef ég sömu áhyggjur og aðrir, að það veiki Ríkisútvarpið. Ég vil ekki að það gerist, en þó verðum við líka að hafa í huga að tekjurnar sem Ríkisútvarpið hefur af þeim auglýsingum sem Ríkisútvarpið hefði ekki lengur væru tekjur sem færu annað, þannig að það væri ekki niðurskurður í fjölmiðlun í heild sinni, eða fréttaflutningi, heldur væri verið að beina fjármagni aðra leið. Ég ítreka að ég myndi vilja gera það einhvern veginn þannig að það kæmi ekki niður á rekstri Ríkisútvarpsins og er alveg opinn fyrir þeirri umræðu að endurskoða hlutverk Ríkisútvarpsins í ljósi nýrra tíma og tækniþróunar.

Hvað varðar tillögu e, endurgreiðslu á hluta kostnaðar vegna textunar og talsetningar, þykir mér það algjörlega sjálfsagt. Ég vona að tæknin lækki þann kostnað niður í lítið sem ekkert með tímanum. En þangað til er algjörlega nauðsynlegt að við fjármögnum þetta beinlínis úr ríkissjóði með einhverjum hætti, svo sem með endurgreiðslu.

Um tillögu f, undanþáguheimildir frá textun og talsetningu, þykir mér það líklegt og kemur mér á óvart að sé ekki þegar til staðar, ef ég á að segja eins og er. Það getur verið sérstaklega mikilvægt fyrir litla aðila sem eru með sérhæft efni, eins og sjónvarpsstöðin Omega, sem er kannski ekki í tísku hjá öllum. En það er meginpunkturinn, smáar stofnanir geta ekki staðið í því að þýða allt það efni sem þær vilja koma á framfæri. Það er mjög mikilvægt að þær hafi einhverja leið til þess. Það má reyndar treysta þeirri stöð til að gera sitt ýtrasta til að koma sem flestu efni yfir á íslensku.

Tillaga c, um að virðisaukaskattur á áskrift verði 11% — ég er einfaldlega hlynntur því.



[12:26]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli. Frjáls, óháð og öflug fjölmiðlun er auðvitað undirstaða lýðræðissamfélags og þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að við stöndum vel að því rekstrarumhverfi sem þeim er búið. Ég tek hins vegar undir áhyggjur hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson um vilja þeirra flokka sem að núverandi ríkisstjórn standa til að stuðla að raunverulegu frjálsu samkeppnisumhverfi, alla vega hefur hugkvæmni þeirra í að reisa ýmsar samkeppnishindranir í gegnum árin verið ótrúleg.

En við eigum kannski að horfa á meginefni máls. Ástæðan fyrir skakkri samkeppnisstöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði er inngrip ríkisins í þennan markað, gríðarlega mikill stuðningur við einn tiltekinn fjölmiðil, Ríkisútvarpið. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr gæðum á því efni sem þar er framleitt eða mikilvægi þess í neinu samhengi, ég tek undir orð sem hér hafa verið höfð um að þaðan kemur mikið gæðaefni. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort aðkoma ríkisins að því að skaffa íslenskt hágæða dagskrárefni geti frekar verið í gegnum samkeppnissjóði heldur en að reka fjölmiðil. Það er miklu heilbrigðara að styðja alla fjölmiðla í landinu til þess að framleiða íslenskt efni, af því að við viljum bæði tryggja framboð íslensks efnis og vernda tunguna okkar, en þá ættu allir fjölmiðlar að sitja við sama borð um aðgang að fjármagni til framleiðslu á slíku efni, ekki einungis einn í krafti ríkisstuðnings.

Hins vegar er að finna í tillögum fjölmiðlanefndar ýmislegt áhugavert, t.d. að taka RÚV af auglýsingamarkaði ef halda eigi áfram núverandi fyrirkomulagi, sem ég styð. Það skiptir gríðarlega miklu máli að þetta sé heilbrigt, almennt samkeppnisumhverfi þar sem allir sitja við sama borð. Vandamálið er ekki að ekki sé eftirspurn eftir efninu, vandamálið er að ríkið skekkir samkeppnisstöðuna á þessum markaði og það útskýrir rekstrarvanda frjálsra fjölmiðla.



[12:28]
Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Mikið var ég glaður að heyra ræðu hv. þm. Þorsteins Víglundssonar. Hann kemst akkúrat að kjarna málsins. Um það snýst þetta.

Það var annar bragur á ræðu hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem ég skildi hvorki upp né niður í, annaðhvort hlustaði hún ekki á það sem ég var að reyna að segja eða þá að ég hef talað þannig að hún skildi ekki hvað ég var að reyna að segja, en það er mjög einfalt. Við eigum að búa til umhverfi þar sem frjálsir fjölmiðlar, sjálfstæðir fjölmiðlar, ná að blómstra, ná að festa rætur þannig að þeir geti sinnt hlutverki sínu. Það er staðreynd að miðað við það fyrirkomulag sem við höfum haft er búið að skekkja stöðuna á þann hátt að ekki verður við unað.

Fíllinn í stofunni heitir Ríkisútvarpið. Ég hef auðvitað ákveðnar skoðanir á því hvort ríkið eigi yfir höfuð að reka fjölmiðla eða ekki, en það er allt annað mál. Ég er ekki að tala um það. Ég er að tala um að fyrst við erum búin að ákveða að reka ríkismiðil skulum við a.m.k. reyna að jafna stöðuna á einhvern hátt. Ég hef lagt fram ákveðnar hugmyndir og það eru alveg örugglega aðrar hugmyndir. Samkeppnissjóður hugnast mér vel, vegna þess að það eru nokkur ár síðan ég lagði það til. En það er vonandi að dropi holi steininn í þeim efnum.

Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra kærlega fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég hygg að tilefni sé til þess að við tökum aftur upp þráðinn þegar við erum öll búin að ná að kynna okkur þá skýrslu sem hæstv. ráðherra fékk afhenta í morgun og þá verði ekki sérstakar umræður sem standi yfir í hálftíma. (Forseti hringir.) Ég held að við eigum að efna til mjög langrar, ítarlegrar umræðu í þessum sal (Forseti hringir.) um hlutverk Ríkisútvarpsins, um það hvernig við getum bætt stöðu einkarekinna fjölmiðla (Forseti hringir.) og hvernig við getum styrkt lýðræðið og frjálsa, opna umræðu á Íslandi. Um það snýst þetta allt saman.



[12:31]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum kærlega fyrir mjög gagnlegar umræður sem ég held að sýni nákvæmlega hvernig við öll skiljum mikilvægi frjálsra og öflugra fjölmiðla og hvaða hlutverki þeir gegna í lýðræðissamfélagi. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að nú vil ég hefjast handa við að móta fjölmiðlastefnu og fara í þær aðgerðir sem við getum gert vegna þess að staða margra einkarekinna fjölmiðla er mjög bágborin. Fyrst vil ég byrja á því að útfæra tillögu sem snýr að því að lækka virðisaukaskattinn og óska eftir því að nú þegar verði farið í samræmda álagningu á fjölmiðla þannig að hann verði í öllum tilvikum í neðra þrepi eða skoða útfærslur, skoða hver kostnaðurinn er o.s.frv.

Ég vil taka fram, vegna þess að það hefur komið fram hér hjá nokkrum þingmönnum, að að sjálfsögðu verður gætt að jafnræði meðal fjölmiðla í landinu þegar við erum að fara í þessa stefnumótun. Allt annað er útilokað og ég kalla eftir mjög góðri samvinnu þingmanna, að við séum ekki að setja fram hlutina þannig að þeir séu til þess fallnir að búa til tortryggni. Öll sú vinna sem við munum fara í verður gerð á opinn og gagnsæjan hátt. Það er alveg ljóst að til þess að ná sátt um þetta þurfa leikreglurnar að vera skýrar og almennar og aðstaða þessara fjölmiðla jöfn.

Varðandi stöðu RÚV er ljóst að hún er einstök. Hvergi annars staðar hefur ríkisfjölmiðill jafn sterka stöðu á auglýsingamarkaði. En ef menn ætla að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði þarf að huga að mótvægisaðgerðum. Við viljum að sjálfsögðu halda í mjög öflugt ríkisútvarp.

Að lokum tek ég undir þá tillögu sem kom fram hjá málshefjanda þar sem hann nefndi að við ættum að hafa sérstaka umræðu um skýrslu nefndar um stöðu einkarekinna fjölmiðla og ég fagna því. Ég tel að það eigi að vera löng og umfangsmikil umræða og ég tel að við ættum að hafa hana sem allra fyrst. Ég vil taka fram að skýrslan barst í morgun og ég vildi óska þess að þið hefðuð haft lengri tíma til að kynna ykkur hana en mér fannst mjög brýnt að birta hana strax (Forseti hringir.) og gefa þingmönnum tækifæri á að kynna sér hana stuttu fyrir umræðuna en ég boða aðra umræðu hvað þetta varðar.