148. löggjafarþing — 18. fundur
 30. janúar 2018.
tekjuskattur, 1. umræða.
frv. GIK o.fl., 108. mál (skattleysi uppbóta á lífeyri). — Þskj. 177.

[18:07]
Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, um skattleysi uppbóta á lífeyri. Meðflutningsmenn mínir eru Inga Sæland, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson.

Breytingartillagan er sú að við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: „Uppbætur á lífeyri skv. 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.“

Með frumvarpinu er lagt til að uppbót á lífeyri vegna kostnaðar, sem ekki fæst greiddur eða bættur að öðru leyti, til lífeyrisþega sem ekki getur framfleytt sér án hennar, samanber 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og uppbót til hreyfihamlaðs elli- eða örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega vegna reksturs bifreiðar, samanber 2. mgr. 10. gr. sömu laga, verði undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Ef við kíkjum á 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, er þarna um að ræða umönnunarkostnað sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiða ekki. Einnig er þarna sjúkra- og lyfjakostnaður og kostnaður vegna kaupa á heyrnartækjum sem sjúkratryggingar greiða ekki. Þá er húsaleigukostnaður sem fellur utan húsaleigubóta þarna inni líka. Vistunarkostnaður á dvalarheimilum, stofnunum svo og sambýlum og áfangastöðum sem fengið hafa starfsleyfi frá ráðuneytinu eða reka sambærilega starfsemi eru þarna undir og rafmagnskostnaður vegna súrefnissíunotkunar.

Uppbót vegna reksturs bifreiða fyrir hreyfihamlaða, samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð, er þarna einnig undir.

Ólíkt örorkulífeyri miðar slík uppbót ekki að því að bæta launamissi vegna skertrar vinnugetu heldur að því að koma til móts við sérstök útgjöld lífeyrisþega. Það markmið næst augljóslega ekki ef stór hluti uppbótarinnar er tekinn í skatt. Skilgreining hennar sem skattskyldar tekjur hefur enn fremur keðjuverkandi áhrif því að hún skerðir fyrir vikið aðrar bætur til tekjulágra lífeyrisþega, svo sem húsnæðisbætur, sérstakan húsnæðisstuðning og barnabætur.

Hvað erum við þá að tala um í þessu samhengi? Við erum að tala um að leggja til styrk. Við getum tekið dæmi af styrk vegna bifreiðar upp á 15 þús. kr. sem er yfirleitt styrkurinn þar. Af honum þarf að borga 5 þús. kr. í skatt. Þá eru 10 þús. kr. eftir. Heildartekjurnar sem koma út úr þessu eru um 180 þús. kr. á ári sem leggjast ofan á það sem örorkulífeyrisþegar og eldri borgarar eða lífeyrisþegar eru með yfir höfuð. Þetta hefur áhrif á húsnæðisbætur, sérstakar húsnæðisbætur og barnabætur. Það er ekki bara 5 þús. kr. skattur sem kemur þarna heldur verða skerðingar sem fólk áttar sig oft ekki á. Maður hefur á tilfinningunni að verið sé að búa til styrktarkerfi þar sem við ætlum að rétta einhverjum styrk sem þarf virkilega að nota hann, sérstaklega t.d. í lyfjamálum, með vinstri hendinni en rífum hann af með þeirri hægri. Og það sem kannski er skelfilegast er að maður hefur séð dæmi um að það er rifið svo illa með hægri hendinni að fólk lendir í mínus, fólk tapar á því að taka við svona styrkjum.

Þá spyr ég: Er það hlutverk Alþingis að vera með svoleiðis lög? Til hvers í ósköpunum erum við yfir höfuð að styrkja fólk til lyfjakaupa og annarra hluta ef það skaðar fólk?

Samkvæmt upplýsingum sem flutningsmenn hafa aflað sér fengu 1.245 einstaklingar samtals 203 millj. kr. árið 2016 í uppbætur samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð og greiddu af þeim 46 millj. kr. í tekjuskatt. Það voru 5.750 einstaklingar sem fengu samtals rúman 1 milljarð í uppbætur samkvæmt 2. mgr. sömu greinar og greiddu af því rúmar 229 millj. kr. í tekjuskatt. Við erum að tala um 280 millj. kr. í skatt. Ríkissjóður verður því ekki af verulegum skatttekjum verði breytingarnar að veruleika. Lífeyrisþegar sem bera mikinn kostnað vegna fötlunar eða sjúkdóma fyndu aftur á móti verulega fyrir breytingunum.

Ef við horfum aðeins á hvernig þetta skiptist eru útgjöld ríkisins vegna fyrri hópsins, 1.245 einstaklingar, um 203 milljónir. Þegar kemur að bifreiðastyrkjunum, uppbót vegna reksturs bifreiða, eru ellilífeyrisþegar 3.255, örorkulífeyrisþegar 2.489 og örorkustyrksþegar sex. Þetta eru samtals 5.750 einstaklingar. Þessar tekjur skipta þessa einstaklinga miklu máli. Við verðum að átta okkur á að uppbætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð bæta ekki launatap. Hugtakið örorka merkir skert færni og geta til að vinna vegna sjúkdóma, fötlunar eða slysa, samanber 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í samræmi við það byggir örorkulífeyrir á því að bæta launamissi vegna skertrar vinnugetu. Þannig er örorkulífeyrir og tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar miðaður við skerta vinnugetu. Þær greiðslur sem einstaklingur fær á grundvelli laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, eru aftur á móti af allt öðrum toga. Þær eru ekki ígildi launa eða bætur fyrir launamissi heldur er um uppbætur að ræða til þess að koma til móts við sérstök útgjöld á grundvelli sérstakra aðstæðna.

Með því að uppbætur og styrkir og aðrar greiðslur til að mæta kostnaði vegna sjúkdóma og fötlunar, skerðinga eða sérstakra aðstæðna sem eru skattskyldar, fær sá sem þarfnast þeirra í fyrsta lagi ekki nema um 60% af uppbótinni sem metið hefur verið að hann þurfi til að mæta kostnaðinum. En þessi 60% uppbót er ekki rétt vegna þess að hún skerðir aðrar bætur, þar koma inn húsaleigubætur, sérstakur húsnæðisstuðningur, allar bætur sem merktar eru sem tekjur hjá örorkulífeyrisþegum eru skertar einhvers staðar. Þetta er keðjuverkandi skerðingarkerfi. Þess vegna er alveg skelfilegt þegar verið er að greiða svona styrki að það er aldrei athugað hvaða afleiðingar það hefur, hvað skilar sér til viðkomandi og hvað fer í skerðingar.

Ég get tekið sem dæmi húsaleigubætur. Á sínum tíma fékk ég 30 þús. kr. í húsaleigubætur á mánuði þegar ég var á leigumarkaði. Síðan datt ég niður í 15 þús. kr. og síðan niður í núll. Hvað skeði þarna? Jú, lífeyrissjóðstekjurnar mínar hækkuðu. En þegar lífeyrissjóðstekjurnar hækkuðu lækkaði ég hjá Tryggingastofnun ríkisins. Innkoma mín varð ekkert meiri en þessi millifærsla varð þess valdandi að húsaleigubæturnar hurfu. Hvers vegna var það? Vegna þess að hækkun á lífeyrissjóðsgreiðslum skerðir húsaleigubæturnar en hækkun á bótum Tryggingastofnunar gerði það ekki. Hjá einstaklingi í svipaðri aðstöðu og ég en sem hafði engar lífeyrissjóðsbætur, þá lækkuðu ekki húsaleigubætur hjá honum, þær hækkuðu. Hann fór upp í 50 þús. kr. og í 70 þús. kr. Á endanum var einstaklingum með lífeyrissjóðsgreiðslur refsað í sjálfu sér svo grimmilega að þeir voru látnir tapa jafnvel 50–70 þús. kr. á mánuði.

Svona kerfi er óskiljanlegt, að það skuli vera við lýði slíkt kerfi gagnvart lyfjakaupum og jafnvel rafmagnskostnaði vegna súrefnissíunotkunar. Þetta er óskiljanlegt í því samhengi ef við skoðum hvað er undir þegar við tölum um skatta. Í 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru íþróttastyrkir, þeir eru ekki skattaðir. En lyfjastyrkir eru skattaðir. Súrefni og rafmagn til súrefnissíu er skattað. Húsaleigukostnaður sem fellur utan húsaleigubóta er skattaður. Ef við getum haft íþróttastyrki, sem er mjög gott að séu ekki skattaðir, hlýtur þetta pottþétt að eiga að vera þar inni og á ekki að vera skattað. Eins og segir líka í 28. gr, um það sem telst ekki til tekna:

„Húsnæðisbætur, sbr. lög um húsnæðisbætur, og sérstakur húsnæðisstuðningur …“

Styrkir úr starfsendurhæfingarsjóðum, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, sem ganga til greiðslu kostnaðar vegna endurhæfingar, heilbrigðisþjónustu og tiltekinnar þjónustu fagaðila. Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis.“

Þetta er einfalt, við eigum að breyta þessu. Sérstaklega í því samhengi að þetta kostar mjög lítið og líka í því samhengi að þetta er svo illa gert.

Við verðum að átta okkur á því að í þessu kerfi er annað svolítið undarlegt. Við áttum okkur aldrei á því þegar maður lifir í þessu kerfi hverjar tekjur manns eru. Maður fékk ákveðnar tekjur mánaðarlega en síðan kom alltaf þessi skerðingardagur, skerðingardagurinn mikli var 1. ágúst, nú er hann 1. júlí. Þá koma skerðingarnar. Það sem var undarlegast við þær var að þær voru aldrei sundurliðaðar. Maður vissi ekkert hvað það var sem skerti tekjurnar. Ég var einhvern tíma að grafa ofan í þetta og það voru ótrúlegustu hlutir sem voru að skerða hjá manni tekjurnar og þá þarf maður að borga afturvirkt. Að vera í þessari aðstöðu sem margir hafa lent í og ég hef lent í sjálfur, að fá núll á seðlinum frá Tryggingastofnun ríkisins í heilt ár vegna þess að ég hafði fengið einhvers staðar tekjur í byrjun minnar örorku frá lífeyrissjóði, eftir þrjú ár, sem urðu þess valdandi að í heilt ár fékk ég núll. Með börn á heimili og vissi ekki um þetta. Það er fullt af fólki að lenda í þessari aðstöðu. Þetta er enn í gangi í dag.

Þess vegna segi ég: Við verðum að stokka upp þetta kerfi og þetta er bara smá skref, lítið skref, í því, hænuskref til að breyta þessu kerfi, hvernig það er spillt og hvernig það er upp sett. Ég vona að þetta fari í gegn og verði fyrsta skrefið í því að gera kerfið réttlátt og fari að gera það sem það á að gera, vera mannúðlegt og vera fyrir þá sem á því þurfa að halda.



[18:21]
Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og fyrir þetta þingmál, sem ég held að sé hið besta mál. Hv. þingmaður svaraði reyndar hálfpartinn í síðustu setningu sinni hér í ræðustól spurningunni en ég ætla nú samt að láta mig hafa að koma með hana. Spurningin sem var að brjótast um í kollinum á mér var þessi: Er þetta ekki bara hænuskref? Er þetta ekki bara eitt af mjög takmörkuðum hlutum sem verið er að breyta hér sem þarf í raun að breyta og laga út frá allri þessari víxlverkun, skerðingum og slíku? Það er verðlaunað með vinstri og refsað með hægri, eins og hv. þingmaður orðaði það eða gaf í skyn hér áðan. Þess vegna langar mig að fá hv. þingmann til að segja mér að þetta sé bara eitt skref af mörgum sem þarf að stíga til að gera þetta kerfi okkar réttlátara. Maður hefur heyrt þessar sögur, séð dæmin um það sem manni finnst óréttlátt í þessu öllu saman. En það eru hins vegar forréttindi að fá að heyra þetta svona skýrt og vel útskýrt eins og hv. þingmaður gerði hér. Eftir stendur þessi spurning, sem hálfpartinn var svarað áðan, hvort þetta sé ekki bara eitt af mörgum skrefum sem við þurfum að stíga.



[18:22]
Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Jú, eftir að hafa lifað í þessu kerfi í nær 27 ár, ég þarf nú að hafa vitni að því hversu lengi ég hef lifað í þessu kerfi, hef ég kallað þetta refsikerfi mannvonskunnar. Ég held að ekki sé hægt að gera neitt annað en að núllstilla þetta kerfi og byrja upp á nýtt. Það er búið að stagbæta það svo að ég held að ekki sé hægt að bæta meira í því. Ekki án þess að refsa þá einhvers staðar annars staðar. Ég var í endurskoðunarnefnd almannatrygginga á sínum tíma þegar sérfræðingur kom frá Tryggingastofnun ríkisins og ég hélt að hann myndi vita allt um þetta kerfi. Það sló mig þegar hann sagði: Það er enginn sem veit allt um þetta kerfi.

Við erum eiginlega komin með tölvu, liggur mér við að segja, sem segir: Nei. Það er mjög erfitt að fara að rökræða við hana. Þegar við erum komin á þann stað að það er ekki neinn mannlegur einstaklingur sem getur fylgst með þessu og tekið á þessu kerfi eigum við að segja: Hingað og ekki lengra. Stopp, nú byrjum við upp á nýtt. Og búa til þannig kerfi að það sé í lagi að fá lyfjastyrki. Því þeir sem fá þessa styrki til að kaupa lyf þurfa á þeim að halda. Þeir eru með gífurlegan kostnað út af lyfjum, ég hugsa alveg fáránlegan kostnað. Ég segi fyrir mitt leyti: Það er nógu erfitt að vera veikur, nógu erfitt að þurfa að taka öll þessi lyf, en það hlýtur að vera ömurlegt að hafa síðan ekki fjárhagslega efni á að lifa. Til hvers er þá verið að láta fólk fá öll lyfin, styrkina, ef það á síðan ekki að geta lifað af fjárhagslega?



[18:24]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þingmálið og fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hversu lengi barist hafi verið fyrir þessari tilteknu breytingu. Ef hv. þingmaður getur eitthvað farið út í söguna á bak við þetta. Það er ástæða fyrir því að ég spyr að þessu.

Frá því að ég tók sæti hér á Alþingi í fyrsta sinn 2013 hef ég heyrt alveg ótal sögur og fólk jafnvel sent manni upplýsingar um upphæðir og því um líkt. Mér hefur reynst, vissulega á þeim tíma og eiginlega alltaf, algerlega ómögulegt að skilja vandann sem blasir við fyrir framan mig. Ég hef blessunarlega aldrei þurft að nota þetta kerfi og þess vegna finn ég ekki fyrir því á eigin skinni og þarf að öðlast þekkingu í gegnum aðra. Eftir því sem ég hef prílað meira inn í þennan málaflokk, því betur sé ég hvað hann er óheyrilega flókinn og hvað búið er segja margt aftur og aftur. Maður er búinn að heyra um krónu á móti krónu skerðingu mánuðum saman og tengdi samt ekki við það hvað væri verið að tala um. Og hvað þá lausnir. Maður finnur vissulega ekki lausnir undir þessum kringumstæðum. Það er þess vegna sem ég er að spyrja.

Er þetta eitthvað sem hv. þingmaður eða aðrir hafa vitað af mjög lengi? Þá hversu lengi? Hefur verið stungið upp á þessu áður við þingmenn? Ég er að spyrja vegna þess að mig langar svo til þess að svona hugmyndir, sem koma frá fólkinu sem notar kerfið, fólki eins og hv. þingmanni, eða hefur notað það alla vega, eigi greiða leið hingað inn á þingið. Mér finnst ofboðslega gott að Flokkur fólksins sé hér á Alþingi til að koma fram með þessi mál. En þess á ekki að þurfa. Þetta á að vera straumlínulagaðra ferli við að koma svona einföldum breytingum á. Ég álít þetta sjálfsagðar breytingar, bara svo ég segi það. Og spyr þess vegna; Hver er aðdragandi þessa máls eða hversu gamalt er það? Hversu lengi hefur verið reynt að koma þessu að einhvers staðar?



[18:27]
Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Hversu gamalt er þetta? Þetta er frá því að ég kom inn í það. Mín fyrstu kynni af þessu kerfi voru þau að þegar ég lenti í mínu slysi og varð öryrki var konunni minni neitað um að vinna. Hún má ekki vinna vegna þess að ef hún færi að vinna skertust bæturnar mínar. Ég fór á ASÍ-þing og annað og barðist fyrir að þessu yrði breytt. Og þessu var breytt, sem betur fer. En breytingin var ekki meiri en svo að þetta er komið aftur. Skerðingar við maka eru komnar aftur.

Það hefur verið barist fyrir breytingum í þessu kerfi alla tíð. Það sem hefur kannski eyðilagt kerfið í heild sinni er að það hefur ekki verið tekið gersamlega og núllstillt og byrjað upp á nýtt. Það er alltaf verið að bæta inn í kerfið. Við vitum að ef þú ert að byggja hús verðurðu að byggja það eftir ákveðnum reglum. Þú byggir ekki bara eitthvað hér og eitthvað þar, þá mun það aldrei standa. Þetta kerfi er þannig upp byggt. Hugmyndum er bara hent inn í það: Já, við skulum bara styrkja þennan flokk, styrkjum lyfin, látum þennan pening í að styrkja lyf. Þú setur það bara inn á einum stað í kerfinu en þá gleymirðu að taka tillit til þess að af því að þetta eru tekjur eru allar tekjur undir. Hjá þeim sem lifir í þessu kerfi eru allar tekjur undir. Allt sem heitir tekjur skerðist. Þess vegna eru þessar krónu á móti krónu skerðingar og þetta refsikerfi svona óskiljanlegt.

Þegar kerfið er orðið svo óskiljanlegt að enginn hjá Tryggingastofnun, enginn mannlegur máttur, skilur það og getur reiknað það eigum við að segja: Hingað og ekki lengra. Og bara byrja strax og koma með nýtt kerfi.



[18:29]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að byrja á að segjast ekki ætla að lengja þessa umræðu vegna þess að þá nýtir maður auðvitað allan tímann, eins og frægt er orðið. En ég verð að koma aðeins upp og þakka fyrir þetta frumvarp, þakka Flokki fólksins fyrir þetta frumvarp sem og athyglina sem sá flokkur sýnir málaflokknum og metnaðinn sem hann sýnir með því að leggja fram mál til að laga kerfið. Eins og ég fór yfir í andsvörum mínum við hv. þingmann áður hef ég eins og aðrir þingmenn frá því að ég fyrst tók sæti hérna fengið fréttir af ótal málum og alls konar vandamálum sem ég hafði þá engan skilning á. Núna hef ég nokkurn skilning á ýmsum þáttum þessa kerfis en eins og hv. þingmaður nefnir, réttilega að mínu mati, skilur enginn þetta kerfi algerlega. Gaman er frá því að segja að einhvern tíma var okkur sagt að það væri ein manneskja á landinu sem skildi kerfið. Við fengum þá manneskju á fund í velferðarnefnd en hún sagðist ekki heldur skilja það að fullu. Þannig fór sá draumur að til væri ein manneskja sem skildi kerfið frá frá A–Ö. Svo virðist ekki vera.

Ég öðlaðist sjálfur áhuga á almannatryggingakerfinu við að senda inn það sem ég taldi frekar sakleysislega fyrirspurn. Hún sneri að umkvörtunarefni sem ég hafði heyrt mjög oft á þeim tíma, af því að árið 2009 var hætt að tengja hækkun á bótum við vísitölu neysluverðs út af hruninu. Þetta var eitthvað sem AGS heimtaði frá okkur til að sanna að okkur væri alvara með að taka til eftir hrunið, en það er löng og leiðinleg saga og allt það. Þetta var gert og eðlilega var fólk mjög ósátt við það. Ég sendi inn fyrirspurn til að komast að því hvað það hefði kostað ríkið ef breytingin 2009 hefði ekki verið gerð. Svarið var á sex blaðsíðum og á máli sem ég hreinlega skildi hvorki upp né niður í. Ég tók mér einhvern tíma kvöldstund og fór yfir þetta og fann orð sem ég kunni ekki og skrifaði þau niður. Ég man ekki alveg hversu mörg orðin voru, 12 eða 13, sem ég skildi ekki og þurfti að fletta upp til að öðlast einhvern skilning. Ég fékk takmarkaðan skilning á málinu þá en það fyrsta sem blasti við var að kerfið er svo flókið að óhætt er að segja að flækjustigið sjálft sé ófreskjan í kerfinu.

Mér sýnist stærsta og versta vandamálið við kerfið vera það hversu flókið það er og á hversu margan hátt það getur komið niður á fólki. Þegar við reynum að breyta því á einhvern ákveðinn hátt, ef það eru einhverjar verulegar breytingar, kemur það niður á stórum hópi fólks.

Þess vegna er svo dýrmætt þegar við komum auga á lagfæringar sem kosta ríkissjóð útgjöld eða valda tekjumissi að það séu einu fyrirsjáanlegu afleiðingarnar, að breytingarnar hafi ekki neikvæð áhrif á neinn hóp. Þess vegna þótti mér vænt um það þegar hv. þm. Björn Leví Gunnarsson lagði fram fyrirspurn sína, sem á uppruna sinn í grasrót Pírata, hjá meðlimi Pírata sem samdi fyrirspurnina. Þar spurðum við að því hvað það myndi kosta að hætta að skerða greiðslur úr almannatryggingum vegna tekna af ýmsu tagi og fengum mjög gott svar og gagnlegt. Úr því varð sú stefna og breytingartillaga sem við lögðum fram við umræðu um bandorminn svokallaða, breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlagafrumvarps, um að hætta að skerða greiðslur almannatrygginga til ellilífeyrisþega á grundvelli atvinnutekna. Síðan kom þetta fína þingmál frá Flokki fólksins sem var sama efnis. Þar var í boði lagfæring sem kom ekki niður á neinum. Ég vona að það mál nái í gegn. Ég hlakka til að rökræða það betur og stend með Flokki fólksins í því góða og mikilvæga máli, kannski í ákveðnum glannaskap að mati sumra Sjálfstæðismanna en að mínu mati í algerlega meinlausa máli gagnvart ríkissjóði. Útgjaldaaukningin verður alla vega aldrei þannig að það borgi sig ekki. Það er alveg á hreinu.

En svo kemur þessi tillaga. Hún hefur einnig það gleðilega einkenni að koma ekki niður á neinum hópi. Það eru tvö önnur frumvörp sem við Píratar höfum lagt fram, sem einnig eiga uppruna sinn í grasrót Pírata. Þar er leið farin sem í raun og veru kostar meira en mönnum er vel við, vegna þess að útfærslan á ekki að koma niður á neinum. Við lendum svolítið í því ef við ætlum að einfalda kerfið, ef við ætlum að breyta því einhvern veginn en án þess að það kosti óheyrilegar fjárhæðir að þá verður það að koma niður á einhverjum hópi fólks. Við lendum aftur og aftur í slíkum vanda. Þetta er eitt af vandamálunum sem komu upp við einföldunina á ellilífeyriskerfinu í lok 2016 þegar, eins og frægt er orðið, frítekjumark var afnumið með tilheyrandi leiðindum. Sú breyting kom sumum vel, öðrum illa. En það góða við þá breytingu, með fullri virðingu fyrir öllum þeim sem fengu lægri greiðslur í kjölfarið á henni, var að hún einfaldaði kerfið. Ég vil meina að hún hafi einfaldað kosningabaráttuna, umræðuna í henni. Við gátum talað um þetta kerfi, eða afmarkaðan hluta þess, á einhvern hátt sem kjósandinn meira og minna skildi. Það er mjög erfitt enn þá þegar kemur að örorku og öllum örorkutengdum málefnum. Um leið og þú segir tekjutrygging eru flestir búnir að missa þráðinn, nema fólkið sem þekkir hana á eigin skinni. Og jafnvel það fólk er ekkert endilega með þetta á hreinu, eins og hv. þingmaður lýsti áðan kemur það fólki í opna skjöldu hvað hefur áhrif á greiðslurnar, sem er agaleg staða sem ég á erfitt með að gera mér almennilega í hugarlund hvernig er að vera í. Þetta er ömurleg staða og við eigum ekki að leyfa því að líðast.

Það er ýmislegt fleira í þessu kerfi sem við eigum að reyna að uppræta að mínu mati. Það eru hlutir eins og makatengingar og það fyrirbæri að vera að spyrja að því hvort fólk búi með öðrum, spyrja um persónulegar aðstæður. Mér finnst mjög óþægilegt að slíkar spurningar ráði eða hafi afgerandi áhrif á tekjur fólks. Ég hef starfað sem forritari alla mína fullorðinsævi og aldrei lækkaði ég í launum við það að finna mér maka. Laun mín lækkuðu aldrei við það að búa með einhverjum, sem ég hef oft gert, einmitt vegna þess að það er skynsamlegt fjárhagslega, og líka vegna þess að mér líkaði vel við það fólk og það var mjög skemmtilegt og mjög gaman að búa með því ef út í það er farið.

Ég er á móti því að persónuleg atriði stjórni mikilvægustu hlutunum í fjárhag fólks. En þá lendum við aftur í þessum vanda: Hvernig gerum við breytinguna án þess að það komi niður á einhverjum hópi? Húsnæðisuppbótin er eitt slíkt dæmi. Ég spurði að því fyrir einhverju síðan, og sennilega er svarið orðið úrelt núna í ljósi breytinga á kerfinu síðan þá, hvað það myndi kosta að hætta með húsnæðisuppbót en þó þannig að það kæmi ekki niður á neinum, fólk myndi frekar hækka, sem sagt ekki þannig að húsnæðisuppbótin færi bara heldur væri eins og allir væru með hana. Ég man ekki nákvæmlega hvert svarið var en það var eitthvað í kringum 8–10 milljarðar, sem er umtalsverð upphæð. Það er aldrei auðvelt að segja að þetta sé of mikið eða of lítið í þeim málaflokki en mér finnst mikilvægt að þegar við gerum breytingar stefnum við að því að draga úr hlutum eins og að ráðast inn í einkalíf fólks og spyrja hverjum það býr með og slíkt. Mér finnst það mjög óþægilegt, svo að ekki sé meira sagt.

Ég er kominn aðeins út fyrir efnið. Ég fagna þessu frumvarpi og sér í lagi því góða einkenni þess að koma ekki niður á neinum. Þetta er ekki breyting sem kemur niður á neinum. Þegar við finnum slík tækifæri sem kosta smáaura í samhengi við ríkissjóð eigum við að nýta þau og gera breytingarnar. Eins og gefur að skilja af ræðu minni er ég hlynntur málinu og vona að það nái í gegn, eins og önnur góð mál Flokks fólksins í málaflokknum.



[18:38]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja fundinn mjög í ljósi þess hversu áliðið dags er orðið en sem einn af flutningsmönnum vil ég segja nokkur orð, kannski einna helst til áréttingar. 1. flutningsmaður fór mjög rækilega yfir frumvarpið, en áður en lengra er haldið hlýt ég að þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðu hans sem einkenndist af þeirri gjörhygli sem hann hefur orðið kunnur að vegna starfa sinna. Það er sannarlega mikilvægt og ánægjulegt að hafa svo öflugan liðsmann í þeim baráttumálum sem við erum hér að beita okkur fyrir sem hv. þingmaður er og fleiri góðir þingmenn.

Innsti kjarni þessa máls er að við erum að fjalla um greiðslur til fólks sem vissulega stendur í flestum tilfellum höllum fæti og eru ákveðnar utan ramma almannatrygginga. Þær eru ákveðnar á forsendum laga um félagslega aðstoð. Það er eðlismunur á þeim greiðslum sem þarna um ræðir. Hér er um að ræða eins konar uppbætur eða styrki. Það var rakið af 1. flutningsmanni hvað um væri að ræða í því efni. En það er eðlisólíkt bótagreiðslum almannatrygginga sem ætlað er að bæta fyrir tekjumissi vegna missis á starfsorku, örorku og öðru slíku.

Þetta mál sem er út af fyrir sig ekki mjög stórt í eðli sínu dregur fram það umhverfi sem því fólki sem við erum að fjalla um hérna er í raun og sanni búið. Sá sem er í þeirri aðstöðu að taka við örorkubótum, sérstökum uppbótum, eins og hér um ræðir á grundvelli laga um félagslega aðstoð má sig hvergi hræra öðruvísi en að þurfa að þola þungar fjárhagslegar refsingar. Þær fjárhagslegu refsingar birtast sem skerðingar á hvers kyns uppbótum og bótum eins og hv. 1. flutningsmaður fór svo rækilega yfir í sinni ræðu. Sömuleiðis er ástæða til að nefna hið mikla ósamræmi sem er í þessu lagaumhverfi. Tökum dæmi: Eitt af þessu er greiðslur vegna kaupa á heyrnartækjum, annað er rafmagnsnotkun vegna notkunar á súrefnissíu. Slíkar greiðslur eru metnar sem tekjur hlutaðeigandi manni til handa og hann þá látinn þola að aðrar greiðslur sem hann á rétt á lögum samkvæmt skerðast.

Ég leyfi mér að segja að Alþingi hefur ákveðið tækifæri til að rétta hlut þess fólks sem á hlut að máli. Ég leyfi mér að vonast eftir víðtækum stuðningi við málið og að það nái fram að ganga.



[18:42]
Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessu frumvarpi til breytinga sem miða að því að rétta hlut öryrkja og lífeyrisþega að þessu leyti. Við í Flokki fólksins lítum á þetta frumvarp sem eitt af fyrstu skrefunum í þá átt að ráðast að því óréttláta kerfi sem öryrkjum og lífeyrisþegum er búið og þetta sé bara eitt af fyrstu skrefunum.

Hér er um það að ræða að fella niður skattlagningu á styrkjum sem hluti þessa hóps fær til að standa straum af kostnaði við sannarleg útgjöld sem þeir hafa vegna sjúkleika eða fötlunar sinnar, skattlagningu á styrkjum sem eru vegna útgjalda þeirra. Þetta frumvarp er því í raun leiðrétting á ákveðnum mistökum sem hljóta að hafa orðið. Þetta snertir tæplega 7 þús. manns. Og ekki nóg með að þessir styrkir séu skattlagðir með slíkum ósanngjörnum hætti heldur hefur það einnig önnur áhrif þar sem horft er á þessa styrki sem tekjur þeirra sem fá þá. Það hefur þau keðjuverkandi áhrif að bætur, eins og barnabætur og húsnæðisbætur, skerðast þá jafnframt. Þetta hefur keðjuverkandi áhrif. Er þetta sanngjarnt? Nei.

Við erum hér að tala fyrir hreinu réttlætismáli. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir sérstakan áhuga hans á þessu máli. Ég hefði auðvitað viljað sjá fleiri þingmenn hér í salnum, kannski suma þeirra sem á tyllidögum vilja tala með fagurgala við öryrkja. Hér eru einungis þingmenn Flokks fólksins og Miðflokksins, fyrir utan hæstv. forseta auðvitað.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.