148. löggjafarþing — 19. fundur
 31. janúar 2018.
almenn hegningarlög, 1. umræða.
frv. HHG o.fl., 37. mál (stafrænt kynferðisofbeldi). — Þskj. 37.

[17:08]
Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Frumvarpið fjallar í stuttu máli um að banna svokallað stafrænt kynferðisofbeldi. Ég ætla að byrja á að lesa efni frumvarpsins, með leyfi forseta.

„Á eftir 210. gr. b laganna kemur ný grein, 210. gr. c, svohljóðandi:

Hver sem af ásetningi dreifir mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

Sé brot framið af stórkostlegu gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að 3 árum.“

Með frumvarpi þessu er lagt bann við beitingu stafræns kynferðisofbeldis og refsing lögð við þeirri hegðan að dreifa mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans að viðurlögðu sex ára fangelsi.

Með tækniframförum síðastliðinna ára og áratuga hefur það fæst verulega í aukana að mynd- og hljóðefni sem inniheldur nekt eða kynlífsathafnir einstaklinga sé dreift á internetinu, án þess að efnið hafi nokkurn tíma verið ætlað til dreifingar, án leyfis þeirra sem koma fram í efninu og jafnvel án þeirra vitundar. Slíkt efni hefur stundum verið kallað „hefndarklám“ eða „hrelliklám“. Sú orðanotkun verður þó ekki talin lýsandi fyrir þann verknað sem henni er ætlað að lýsa, m.a. vegna þess að verknaðurinn felur ekki endilega í sér þann tilgang að hefna eða hrella, sem og að hugmyndir fólks um hvað teljist til kláms eru æðimisjafnar. Því er hér fjallað um verknaðinn sem stafrænt kynferðisofbeldi.

Þau brot sem féllu undir þessa refsiheimild hljóta nú meðferð samkvæmt öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga. Dæmi er um að Hæstiréttur hafi kveðið upp dóma í málum sem samkvæmt frumvarpi þessu yrðu skilgreind sem mál sem varða stafrænt kynferðisofbeldi. Þar má m.a. nefna dóma Hæstaréttar í málum nr. 242/2007 og nr. 312/2015, en í málunum voru ákærðu sakfelldir fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga. Sú grein fjallar um brot gegn blygðunarsemi viðkomandi. Í síðara málinu var einnig ákært fyrir brot gegn 233. gr. b, en greinin fjallar um móðgun eða smánun á hendur maka, fyrrverandi maka eða öðrum nákomnum. Ljóst er að sú grein getur komið til álita í þeim lagaramma sem nú gildir um slík mál, þó að ekki hafi verið dæmt eftir henni í þessum umrædda dómi. Séu þau tengsl á milli aðila ekki til staðar er möguleiki á því að 234. gr. almennra hegningarlaga yrði beitt, en hún fjallar um ærumeiðingar. Við beitingu 234. gr. er almenna reglan að höfða þurfi einkarefsimál.

Hvað varðar þessar refsiheimildir verður að líta til þess að engin þeirra er sett með það í huga að sporna gegn beitingu stafræns kynferðisofbeldis. Engin þessara greina kveður beint á um refsingu vegna stafræns kynferðisofbeldis og felur því beiting þeirra í sér að ekki er refsað fyrir hið raunverulega ofbeldisverk, heldur fyrir tengdan verknað. Þessi beiting á greinum sem hafa upprunalega annan tilgang leiðir til þess að refsiheimildir verða óskýrari og óskilvirkari. Sérstaklega má benda á að samkvæmt 209. gr., þeirri grein sem dæmt var eftir í áðurnefndum dómum Hæstaréttar, er refsiverða hegðunin að særa blygðunarsemi manna með lostugu athæfi eða að verða til opinbers hneykslis. Bersýnilega er þetta orðalag úrelt og afar óheppilegt sem gildandi refsiheimild fyrir beitingu stafræns kynferðisofbeldis. Þá fjallar 233. gr. b, sem áður hefur verið ákært eftir, um móðgun eða smánun nákomins einstaklings. Þó að sú háttsemi geti vissulega falist í beitingu stafræns kynferðisofbeldis er það ekki sú háttsemi sem ætti að bera þyngstu viðurlögin heldur ofbeldið sjálft. Það sama á við um 234. gr. hegningarlaga sem fjallar um ærumeiðingar.

Nauðsynlegt er að alvarleg brot á borð við stafrænt kynferðisofbeldi hljóti eigin refsiákvæði með möguleika á beitingu þyngri viðurlaga en er að finna við klám-, blygðunarsemis- og ærumeiðingabrotum. Í núgildandi hegningarlögum er ekki að finna bein viðurlög við beitingu stafræns kynferðisofbeldis þrátt fyrir það sem hér á undan er talið.

Lagt er til að ný grein bætist við almenn hegningarlög, gr. 19/1940, 210. gr. c, sem geri refsivert það athæfi að dreifa mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklinga án samþykkis þeirra. Með breytingu þessari verður sú háttsemi gerð refsiverð að dreifa slíku efni, en með dreifingu er átt við að einstaklingur grípi til aðgerða sem stuðli að því að aðrir geti fengið aðgang að, séð eða fengið afrit af efninu. Samkvæmt greininni verður það skilyrði fyrir birtingu slíks efnis að fyrir dreifingunni liggi samþykki. Þannig verður refsivert að dreifa slíku efni af ásetningi ef samþykki þeirra einstaklinga sem koma fyrir í efninu liggur ekki fyrir. Með samþykki er átt við skýrt samþykki sem einstaklingur gefur til kynna með virkum hætti. Með mynd- eða hljóðefni er átt við hvers konar ljósmyndir, myndbönd, upptökur, eða hvers konar margmiðlunarefni sem kann að vera möguleiki á að framleiða.

Lagt er til að hámarksrefsing vegna slíkra brota verði sex ár þegar um er að ræða ásetning. Ljóst er að stafrænt kynferðisofbeldi hefur alvarlegar afleiðingar og með beitingu þess er vegið með mjög alvarlegum hætti að persónu og frelsi þolandans.

Þó kann að vera að fólk hafi í sínum fórum efni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun annarra með samþykki fyrir þeirri vörslu án þess að efnið sé ætlað til dreifingar. Mikilvægt er að ábyrgð þess sem hefur efnið í sínum fórum, jafnvel með samþykki þeirra sem fram í því koma, á því að vernda efnið gegn dreifingu sé ótvíræð og er því lagt til að refsing við dreifingu þess af stórkostlegu gáleysi varði sektum eða fangelsi allt að þremur árum.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið stuttri yfirferð á greinargerðinni, helstu atriðum úr henni sem ég vildi að kæmu fram, en ég hvet áhugasama vitaskuld til að lesa hana í heild sinni. Þetta mál er til komið vegna þess að núna höfum við gengið í gegnum miklar tækniframfarir. Þeim fylgja bæði gríðarlega mikil tækifæri og gríðarlega miklar ógnir. Ef tæknin er rangt notuð getur hún bitnað mjög alvarlega á frelsi fólks og lýðræðislegum réttindum. Höfum við Píratar haldið margar ræður um það og erum reyndar til af þessari ástæðu ef út í það er farið.

Eitt af því sem er mjög mikilvægt fyrir alla löggjöf sem á að taka á svona brotum er að hún sé skýr. Það er ekki nóg að hún sé skýr fyrir dómstóla. Jafnvel þótt 209. gr. almennra hegningarlaga um blygðunarsemisbrot hafi verið notuð og geti verið notuð er það ekki nóg því að þetta felur ekki endilega í sér einhverjar spurningar um blygðun eða blygðunarsemi. Þetta snýst um friðhelgi einkalífs og kynfrelsi einstaklinga, rétt þeirra til að ákveða sjálfir hvernig þeir haga sínum málum. Og kynfrelsi hlýtur að vera eitt af djúpstæðustu réttindum sem við eigum eða svo myndi maður halda.

Það er líka mjög mikilvægt að löggjöf sé framfylgjanleg. Það er ekki nóg að Alþingi gefi út einhver skilaboð um það að Alþingi finnist það vera slæmt framferði að beita stafrænu kynferðislegu ofbeldi. Það er ekki nóg. Þess vegna er m.a. refsiramminn svo hár sem hér er nefndur og sömuleiðis er útfærslan hugsuð sérstaklega þannig að hægt sé að taka á þessum málum. Það hafa komið fram tillögur sem miðast meira að því að gefa einhver skilaboð eða koma þessu einhvern veginn fyrir í almennum hegningarlögum en þá hef ég haft áhyggjur af að þau séu ekki framfylgjanleg, það sé ekki hægt að framfylgja þeim með raunhæfum hætti. Það er eitt að framfylgja hlutum sem gerast á internetinu en að framfylgja þeim sem gerast úti í búð eða úti á götu. Það er eðlismunur á þessum fyrirbærum og þess vegna þurfum við að nálgast viðfangsefnið öðruvísi en við gerum ef það gerist úti í búð eða úti á götu. Þetta frumvarp er skrifað með tillit til þess og tel ég það framfylgjanlegt. Ég tel ábyrgðina skýra, refsirammann nógu háan til að lýsa alvarleika brotsins og sömuleiðis að lögreglan hafi þær rannsóknarheimildir sem hún þarf til að rannsaka þessi mál af þeim þunga sem er við hæfi.

Það er enn fremur ákveðin eðlismunur að mínu mati á þessu broti og ærumeiðingabrotum. Þetta brot snýst um friðhelgi einkalífs og kynfrelsi einstaklinga, snýst að mínu mati alla vega ekki svo mikið um æru fólks þótt hún komi vissulega líka við sögu. En síðast en ekki síst er mjög mikilvægt að við höfum alveg á hreinu, löggjafinn og samfélagið, hvar ábyrgðin liggur í þessum málum. Sá sem verður fyrir stafrænu kynferðisofbeldi ber enga ábyrgð á því sjálfur. Ekki neina. Það er alfarið gerandinn, alfarið sá sem dreifir, sem ber ábyrgðina og ekki á neinn hátt hægt að sakast við fórnarlömb stafræns kynferðisofbeldis. Við eigum aldrei að segja við þau að þau hefðu ekki átt að láta taka mynd af sér, hefðu ekki átt að hýsa þetta hér eða þar. Það er hægt að gefa einhverjar almennar öryggisráðleggingar eins og við gerum í okkar daglega lífi almennt. En ábyrgðin liggur alltaf hjá gerandanum. Skömmin liggur aldrei hjá þeim sem er í svona efni og verður fyrir stafrænu kynferðisofbeldi. Ef það væru aðeins ein skilaboð sem við þyrftum að koma á framfæri héðan væru það þau skilaboð. Ég vona að fólki sem verður fyrir stafrænu kynferðisofbeldi, þótt ég viti að því hljóti að fylgja skömm af félagslegum ástæðum, takist að líta svo á að það á ekki að skammast sín. Gerandinn á að skammast sín. Það er gerandinn sem er sekur og gerandinn sem við eigum að eltast við. Það er lagt til með þessu frumvarpi að svo verði sem fyrr greinir með slíkum refsiramma að lögreglan ætti að hafa raunverulegar heimildir til að rannsaka þessi mál, ekki bara með því að slá á puttann heldur til að fara með þau sem mjög alvarleg kynferðisafbrot sem og þau vissulega eru.



[17:20]
Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og fyrir að umræða fari fram um þetta alvarlega en mikilvæga málefni. Þótt við þingmenn Sjálfstæðisflokksins séum ekki meðflutningsmenn frumvarpsins er ekki þar með sagt að við séum á móti því eða markmiði þess. Það sem vakir fyrir okkur er hvort við séum raunverulega að leysa vandamál eða búa það til. Hversu ítarlega hefur verið farið yfir að þetta sé rétta leiðin? Og hvert er vandamálið? Í greinargerð með frumvarpinu er vitnað í dóm Hæstaréttar nr. 312/2015 þar sem er dæmt er fyrir akkúrat svona brot. Þetta frumvarp er þó vissulega betra en frumvörp sem hafa áður verið lögð fram undir nafninu hefndarklám, því að þar var refsiramminn aðeins eitt til tvö ár. Hann hefur verið hækkaður núna. Ef það frumvarp hefði náð fram að ganga á sínum tíma hefðum við hugsanlega verið að minnka refsirammann. Það er þó búið að bæta úr því hér. En við höfum nú þegar dómafordæmi Hæstaréttar fyrir þessu, dæmt hefur verið fyrir þau brot sem fjallað er um í frumvarpinu. Við höfum réttarvissu fyrir því. Þótt brotaþoli hafi sent myndina sjálfur var dæmt fyrir misnotkun. Þess vegna er ég að leita að því hvert raunverulega vandamálið er sem frumvarpið á að leysa.



[17:22]
Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór stuttlega yfir í ræðu minni og kemur fram í greinargerð hafa vissulega fallið dómar. Það eru nú þegar til, að mati sumra, viðunandi greinar í lögunum. Vandinn er sá að þær greinar sem eru í almennu hegningarlögunum voru ekki hugsaðar til að bregðast við svona brotum. 209. gr. fjallar um blygðunarsemisbrot. Ef ég les þá grein sem almennur borgari les ég ekki úr henni að stafrænt kynferðisofbeldi sé bannað. Ég hugsa um fólk sem berar sig á opinberum vettvangi eða eitthvað því um líkt eða áreitir fólk á einhvern hátt.

Það er mjög mikilvægt að fólk sem verður fyrir stafrænu kynferðisofbeldi skilji lögin. Þrátt fyrir 209., 233. b og 234. gr. hafa fórnarlömb slíkra brota átt mjög erfitt með að ná málum sínum fram. Skynjun mín af því að kanna þau mál er sú að réttarkerfið viti hreinlega ekki hvað eigi að gera við þau. Kerfið okkar veit það ekki nákvæmlega. Vonandi batnar það með tímanum og ég geri reyndar ráð fyrir því eftir því sem hæstaréttardómar falla. En borgarinn hefur skýlausan rétt til þess að skilja lögin. Þetta er í fyrsta lagi vandamálið, að lögin eru ekki skýr, og reyndar fjarri lagi.

Ég tek svo líka undir með hv. þingmanni í sambandi við refsirammann. Eins til tveggja ára refsirammi er bara einhver skilaboð. Það er alveg eins hægt að lýsa því í blogggrein, að mínu viti. Það hefur ekki meiri áhrif en það. Refsiramminn þarf að vera hár, enda alvarlegt brot, og hann var hugsaður sérstaklega til þess að gefa lögreglunni þær rannsóknarheimildir sem hún þarf til að rannsaka þau mál sem alvarleg kynferðisbrot, sem þau vissulega eru.

Þetta eru þau vandamál sem ég geri ráð fyrir að setning frumvarpsins lagfæri.



[17:24]
Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Almenn hegningarlög eru vissulega orðin ansi gömul, það er langt síðan þau voru sett. En hugmyndin með þeim er að þau standist þróun tímans og ég held að fyrrnefndur hæstaréttardómur sanni að þau hafi gert það. Nú höfum við fordæmi fyrir því að þau nái utan um stafræna væðingu hvað þetta varðar. Talandi um að réttarkerfið viti ekki hvernig á að takast á við málin hefur Hæstiréttur sagt það, kominn er dómur um hvernig þetta er. Það er hluti af því að skýra réttarstöðuna. Ef við gerum svona breytingu verðum við að passa okkur á því að þrengja ekki réttarstöðuna frá því sem hún er í dag. Hafa flutningsmenn frumvarpsins fengið yfirferð sérfræðinga, eins og réttarfarsnefndar, eða réttarkerfisins sjálfs um að við séum alveg örugglega ekki að þrengja réttarstöðu brotaþola frá því sem hún er í dag og við höfum fengið staðfest hjá Hæstarétti? Það finnst mér gríðarlega mikilvægt. Hefur verið gengið úr skugga um hvað það er sem hefur raunverulega gert brotaþolum erfitt að ná málum sínum fram? Er það eitthvað varðandi sönnunarfærsluna? Er eitthvað í réttarfarslögunum sem við þurfum að breyta? Er það að ekki sé nútímaorðalag í lögunum eina vandamálið og það sem hefur torveldað brotaþolum að ná fram rétti sínum?



[17:26]
Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar þau mál brotaþola sem ég nefndi er best að kanna þau annars staðar en í andsvörum vegna þess að þau eru einfaldlega það viðamikil. En m.a. hefur lögreglan ekki tekið á málum á þann hátt sem maður myndi vilja. Það er eins og lögreglustofnanir sjálfar átti sig ekki á því og eðlilega því að lögin eru ekki skýr við lesturinn. Það sést í raun á vandræðaganginum í kringum það hvort beita eigi 209. gr. eða 233. b og ef hún gengur ekki þarf að fara í 234. gr., allt eftir aðstæðum brotaþola og öðru slíku. Vandræðagangur í kerfinu í sambandi við þetta brot er frekar augljós. Þetta er hugsað til að leysa það.

Hv. þingmaður nefnir að við verðum að passa okkur á að þrengja ekki réttarstöðuna frá því sem nú er. Það er alveg hárrétt. Athugasemdir komu fram við áður framlagt frumvarp, sem var lagt fram á 145. löggjafarþingi, minnir mig. Þá var refsiramminn undir einu til tveimur árum á meðan refsiramminn fyrir 209. gr., blygðunarsemisgreinina, er fjögur ár. Umsagnaraðilar höfðu réttilega áhyggjur af því að þarna væri verið að þrengja að réttindum brotaþola. En í þessu frumvarpi er refsiramminn hækkaður upp í sex ár og svo er í 2. mgr. ákvæði sem er hugsað til þess að fólk átti sig á því að það ber ábyrgð á því að vernda efni af þessu tagi, jafnvel ef það hefur efnið í sínum fórum með leyfi viðkomandi ber það ábyrgð á því að það komist ekki í dreifingu.

Svarið við spurningu hv. þingmanns um hvort þetta frumvarp hafi fengið yfirferð réttarfarsnefndar er nei, en það hefur verið tekið tillit til þeirra umsagna sem bárust við meðferð fyrra máls, sem var reyndar lagt fram af öðrum flokki. Ég geri fastlega ráð fyrir að athugasemdir eða áhyggjur af slíku komi fram við meðferð hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[17:28]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka flutningsmanni, hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, fyrir þetta mál. Ég held að mjög brýnt sé að á þessu sé tekið. Þetta er augljóslega vaxandi vandamál í samfélagi okkar í dag. Þó svo að, eins og hér er bent á í umræðunni, dómstólar hafi verið að reyna að ná utan um þessi brot með vísan til annarra greina í hegningarlögum þá held ég að enginn vafi leiki á mikilvægi þess að löggjafinn taki á málinu með skýrum hætti og marki líka skýran refsiramma um brot af þessu tagi. Raunar veldur nokkrum vonbrigðum hvað við höfum verið lengi að bregðast við í slíkum málum.

Það sem ég velti kannski fyrir mér í þessu er að — jú, mér finnst ánægjulegt að sjá að heldur er hert á refsirammanum miðað við þau dómafordæmi sem við höfum í dag þegar vísað er til 209. gr. hegningarlaga varðandi blygðunarbrot. Nú heyrum við um þær miklu og skelfilegu sögur sem ganga undir myllumerkinu #metoo eða #églíka og fjölmörg dæmi þess að verið sé að senda einstaklingum myndefni með mjög klámfengnum hætti þar sem brotið er klárlega gegn viðkomandi einstaklingum. En þau mál, þegar þeim hefur verið vísað til lögreglu, virðast sjaldan leiða til ákæru, hvað þá dóms. Það væri áhugavert að heyra frá hv. flutningsmanni hvort hv. þingmaður hafi eitthvað hugleitt hvort slík brot, þ.e. sendingar á slíku klámfengnu efni til einstaklinga sem vilja ekki taka á móti slíkum sjálfsmyndum, ef orða mætti svo, mætti með (Forseti hringir.) einhverjum hætti fella undir ákvæði sem þetta.



[17:31]
Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg 100% viss um að ég skilji spurninguna rétt. En það sem þessu er ætlað að gera er að fólk sem verður fyrir slíku ofbeldi geti leitað réttar síns og fengið þá aðstoð lögreglu sem þörf er á. Réttur einstaklingsins til að ákveða alltaf sjálfur hvernig er háttað með dreifingu svona efnis hlýtur að vera heilagur, svo annað orð sé ekki notað, út frá almennum kynfrelsissjónarmiðum. Þessu frumvarpi er ætlað að setja það algerlega í vald hvers og eins að ráða því.

Nú vitum við að það er ekki alltaf hægt að eltast við allt sem gerist á netinu. Það verður aldrei þannig að við getum tekið út þann skaða sem verður af slíkum brotum, því miður. En það er líka m.a. þess vegna sem brotið er mjög alvarlegt. Hins vegar er oft vitað, ekki alltaf en oft, hver aðilinn er sem framdi brotið. Í 2. mgr. frumvarpsins er líka gert ráð fyrir að aðilar sem gera það kannski ekki með beinum ásetningi heldur af stórkostlegu gáleysi séu líka ábyrgir gagnvart lögum. Það er hugsað sérstaklega þannig vegna þess að grunnhugmyndin er sú að finna út hvar í lögunum ábyrgðin eigi að liggja. Hún á að liggja hjá þeim sem hefur efnið í sínum fórum. Sá aðili á að tryggja að það dreifist ekki, hvort sem er af stórkostlegu gáleysi eða hvað þá af ásetningi. Þegar um er að ræða ásetning og vitað er eða talið að einhver sé grunaður um að hafa framið slíkt brot, þá er þessi hái refsirammi, sex ár, hugsaður til þess að lögreglan hafi öll þau úrræði sem hún þurfi til að beita. Slík brot eru mjög alvarleg. Og mikið rannsóknarúrræði sem lögreglan fær með svona háum refsiramma. Það er beint markmið (Forseti hringir.) með þeim háa refsiramma að gefa lögreglunni færi á að rannsaka þessi mál að öllu því leyti sem þarf.



[17:33]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Kannski var ég bara ekki nægilega skýr í spurningunni. Ég er alveg sammála hv. þingmanni í að auðvitað liggur í þessum málum ábyrgð þess sem geymir myndefnið eða efni af þessu tagi með einhverjum hætti og mjög skýrt á því tekið þarna að hvort tveggja geti talist brotlegt; stórkostlegt gáleysi eða hreinn ásetningur. En það sem ég átti við og vísaði til í spurningu minni er þar sem af hreinum ásetningu er verið að senda klámfengið efni í einhvers konar hrelliskyni, ekki af móttakanda endilega heldur beinlínis til þess að áreita viðkomandi einstakling, verulega í óþökk þess sama einstaklings. Við sjáum fjölmörg dæmi um það í umræðunni í dag þar sem verið er að senda myndir jafnvel á barnunga einstaklinga sem eru mjög klámfengnar eða meiðandi. Hefur hv. þingmaður leitt hugann að því hvort refsiákvæði sem þessi gætu náð utan um slík brot einnig eða ekki?



[17:34]
Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að skýra spurninguna. Ég skil hana betur núna.

Ég held ekki að orðið typpi sé fúkyrði, ég ætla að leyfa mér að segja það. Hv. þingmaður er að tala um það sem í daglegu tali er sagt þegar menn senda typpamyndir af sér, yfirleitt til kvenna sem vilja ekkert með slíkar myndir hafa. Það getur vissulega verið hluti af áreitni. Ég hef ekki litið þannig á að þessi klausa myndi ná utan um slík brot. Slík brot myndu frekar falla undir 209. gr., sem er nú þegar í lögum, sem blygðunarbrot. Þar er fjögurra ára fangelsisrammi. Ég hef ekkert íhugað það að neinu ráði hvort sá refsirammi sé hæfilegur, fjögur ár. En í fljótu bragði virðist mér svo vera. Ég sé ekki ástæðu til að fara í sex ára fangelsisramma með tilheyrandi rannsóknarheimildum lögreglu vegna slíkra brota, þótt vissulega sé slík hegðun óvelkomin, við gerum ráð fyrir að hún sé óvelkomin ef þetta á að heita brot. Í því felist sambærileg hegðun og finnst í áreitni almennt. Það er ýmis svona hegðun sem við köllum brot eða ekki brot eftir því hvort hún er velkomin eða ekki. Þá hlýtur það að vera mælikvarðinn á það.

Mér sýnist í fljótu bragði 209. gr. duga. Ég veit ekki tilfelli þess að það hafi verið eitthvað sérstaklega erfitt að rannsaka þau mál út frá þeim lagabókstaf, ég þekki það hreinlega ekki. Það getur vel verið að svo sé. En þá myndi ég halda að það væri þá frekar liður í að reyna að finna almenna lagalega útfærslu á því hvað kallist áreitni og hvernig eigi að bregðast við henni. En eins og ég segi var það ekki hugsunin með þessu frumvarpi og ég sé ekki hvernig það myndi falla undir þetta frumvarp. En góð spurning og (Forseti hringir.) alveg þess virði að ræða hana frekar í nefnd.



[17:37]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta mál er að mínu viti mikilvægt og það er, held ég að megi segja, í framhaldi af og í tengslum við mjög mikla umræðu sem fram fer í samfélaginu um kynferðislegt ofbeldi, stafrænt kynferðislegt ofbeldi í þessu tilviki. Það er mjög þarft og ég held að við séum að átta okkur á því smátt og smátt, ekki síst í ljósi þeirra atburða sem hafa orðið á síðustu mánuðum þar sem að kynferðislegt ofbeldi og áreitni hefur verið dregin fram í dagsljósið undir myllumerkinu #metoo, bæði hér á landi og víðar. Það kemur betur og betur í ljós að ofbeldi af þessu tagi virðist miklu útbreiddara en menn gerðu sér grein fyrir og ekki nóg með að það sé útbreiddara en við höfum gert okkur grein fyrir, í það minnsta sá sem hér stendur, heldur kemur betur og betur í ljós hversu alvarlegar afleiðingar ofbeldi af þessu tagi hefur. Það kemur betur og betur í ljós að það getur tekið fólk sem verður fyrir ofbeldi af þessu tagi, sem eru aðallega konur, mjög langan tíma að jafna sig, ef það gerir það nokkurn tímann. Ofbeldið hefur mikil sálræn áhrif og getur eyðilagt líf þeirra sem fyrir verða. Það eru líka til sögur af fólki sem hefur hreinlega tekið eigið líf í framhaldi af slíku ofbeldi. Fjöldamörg dæmi eru um það að stafrænt kynferðisofbeldi hafi leitt til slíkra hluta. Þess vegna held ég að við verðum í samræmi við það að reyna að styrkja lagaramma sem taka á ofbeldi af slíku tagi af festu og öryggi.

Stafrænt kynferðisofbeldi er frekar nýtt af nálinni. Varðandi þá miðla sem eru notaðir þá göngum við öll með snjallsíma, börn eru jafnvel farin að ganga með snjallsíma. Það er ótrúlega auðvelt að taka myndir og dreifa þeim og oft hugsa menn ekki út í það hvað þeir að gera eða vilja ekki gera sér grein fyrir því að um geti verið að ræða sendingar sem valda gríðarlegum skaða. Þess vegna held ég að sjálfsagt sé og eðlilegt að við ræðum þau mál. Þetta frumvarp er mjög í þeim anda sem er mér að skapi, enda er ég einn af flutningsmönnum. Ég held að í þessu máli, eins og svo mörgum fleirum, sé mjög mikilvægt að ekki sé aðeins verið að styrkja lagarammann heldur að við sendum um leið sterk skilaboð til samfélagsins um að brot af því tagi verði ekki liðin. Auðvitað þarf þetta allt að fara hönd í hönd við fræðslu og upplýsingar um alvarleika slíkra brota.

Málið er af sama meiði og annað mál sem er til meðferðar í þinginu sem hefur verið kallað samþykkisfrumvarp og varðar skilgreiningu á nauðgun þar sem frelsi einstaklingsins og kynfrelsi hans er í öndvegi. Það sama hlýtur að gilda hér, það á ekki að vera hægt að níðast á frelsi fólks með því að dreifa efni sem það vill ekki að sé dreift. Slíkt ofbeldi, að dreifa svona myndefni, er líka þess eðlis að það verður ekki svo auðveldlega afmáð, það gleymist ekki svo auðveldlega ef menn verða fyrir því og hægt er að endurtaka dreifingu slíks efnis æ ofan í æ ef þannig verkast vill. Þetta eru því mjög alvarleg mál og þarf að reyna allt sem hægt er til þess að hefta þau.

Ég held að áhyggjur hv. þm. Vilhjálms Árnasonar um að þarna göngum við kannski of langt eða skerðum önnur réttindi sem eru þegar til staðar og um það hvort fullkomlega hafi verið gengið úr skugga um að þetta frumvarp sé þannig úr garði gert að það bætti ástandið eða menn nái tilætluðum árangri séu í sjálfu sér góðra gjalda verðar. Við eigum alltaf að huga að því að við séum að færa okkur fram á veginn. Ég held að meðferð í nefnd og það að kalla til sérfræðinga, lögfræðinga, refsiréttarsérfræðinga, lögreglu, fólk sem hefur reynslu af að meðhöndla fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi af þessu tagi o.s.frv. sé liður í því að laga málið ef kunna að vera á því annmarkar eða ef hægt er að gera það enn betra.

Ég ítreka að lokum að svona mál eru þess eðlis að við getum ekki annað en tekið á þeim af mikilli festu. Það er greinilegt að áreitni og ofbeldi sem er kynbundið og af mörgu tagi er mein í samfélaginu sem við þurfum að taka á með öllum ráðum, m.a. með því að herða, skerpa og skýra löggjöf á þessu sviði þannig að öllum sé ljóst að þetta ofbeldi, auðvitað eins og annað ofbeldi en þetta er að mörgu leyti hættulegra ofbeldi en margt annað, verður einfaldlega ekki þolað lengur.



[17:45]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Til umræðu er þriðja forgangsmál okkar Pírata um breytingu á almennum hegningarlögum til þess að gera stafrænt kynferðisofbeldi refsivert. Í fyrsta lagi vil ég tala um nauðsyn þess að setja þessi lög í samhengi við mannréttindi og það eru mannréttindaskuldbindingar sem Ísland hefur tekið sér á hendur með samþykkt mannréttindasáttmála Evrópu. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hafa komið fram skýr merki þess að aðildarríki samningsins þurfa að uppfylla jákvæðar skyldur til þess að vernda sem best réttindi fólks, samkvæmt 8. gr. samningsins, þ.e. réttindi fólks til friðhelgi einkalífs. Þau réttindi ná líka utan um líkamlega friðhelgi og sálarlega friðhelgi, ef svo mætti að orði komast. Ber ríkjum, sem eru aðilar að þessum samningi, að tryggja með aðgerðum af sinni hálfu að þessi mikilsverðu réttindi séu tryggð með fullnægjandi hætti innan síns yfirráðasvæðis.

Með því að afmarka þetta athæfi í lögum sem refsivert erum við að senda skýr skilaboð um að brot sem þetta á friðhelgi einstaklinga, á friðhelgi líkama þeirra og sálar, séu ekki leyfð í íslensku samfélagi. Þar með er líka borgurum þessa lands orðið alveg ljóst að hegðun sem þessi líðst ekki og er refsiverð samkvæmt íslenskum lögum. Þetta er mikilvægt í því ljósi sem oft er kallað skýrleiki refsiheimilda, sem er, eins og flestir í þessum sal vita, mjög sterkur fylgifiskur réttarríkisins, þ.e. að borgararnir geti gert sér grein fyrir því til hvers er ætlast af þeim, hvað þeir megi og hvað þeir megi ekki gera. Þetta er mjög mikilvægt í réttarríki. Í þessu ljósi tel ég líka mjög mikilvægt að við setjum þessa grein, þar sem kemur einfaldlega skýrt fram að ekki megi dreifa myndefni af einstaklingum sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings, án samþykkis hans, að sú athöfn sé bönnuð með lögum.

Það hefur verið komið aðeins inn á að 209. gr. almennra hegningarlaga nái að einhverju leyti utan um þetta. En það hljóta allir sem það mál skoða að gera sér grein fyrir því að orðalagið „að særa blygðunarkennd manna“ er frekar snautlegt fyrir það ofbeldi sem á sér stað þegar stafrænt kynferðisofbeldi er stundað. Í þessu ljósi erum við að leggja þetta fram, herra forseti. Við viljum afmarka og skilgreina og viðurkenna það ofbeldi sem felst í verknaði af þessu tagi. Við viljum líka að þetta verði lögreglunni hvatning til þess að taka betur á þessum málum, til þess að vinna betur að þeim og til þess að efla og auka sérþekkingu sína í þessum málaflokki.

Í þessu ljósi langar mig að benda á nokkur atriði sem hafa verið til vansa og hafa unnið gegn því að brotaþolar geti með fullnægjandi hætti kært þessi brot, leitað réttar síns og fundið fyrir einhvers konar réttlæti eftir að brotið hefur verið á þeim. Vinkona mín, baráttukonan Júlía Birgisdóttir, hefur verið einn ötulasti talsmaður þess að stafrænu kynferðisofbeldi verði sett mörk í lögum, verði bannað með lögum. Hún hefur á mjög áhrifaríkan hátt lýst reynslu sinni af því að kæra brot sem þetta og þeim hindrunum og þeim sárindum sem fylgdu því ferli öllu. Hún lýsti því meðal annars hvernig lögreglan vildi láta hana afhenda á minnislykli myndbandið af henni sem dreift hafði verið án hennar samþykkis til þess að málið fengi að ganga áfram. Þarna var lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að biðja um afrit af brotinu gegn henni og að hún skyldi afhenda það. Það lýsir, held ég, ákveðnum skorti á skilningi og vanvirðingu gagnvart því ofbeldi sem þarna á sér stað að láta þetta yfir hana ganga. En þetta er greinilega almennt verklag og viðhorf lögreglu að fólk þurfi að mæta með sönnunargögnin. Það er ekki nóg að vísa þeim í rétta átt eða segja: Þarna er þetta að finna eða svona er þetta. Fólk þarf að koma með afrit eða svo er að sjá af frétt í Vísi þar sem rætt er við yfirmann kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, Árna Þór Sigmundsson.

Í frétt frá því í mars 2017 segir hann:

„… að ef fólk vilji kæra stafrænt kynferðisofbeldi til lögreglu þurfi það að koma með einhverskonar staðfestingu í skýrslutöku til lögreglunnar.

Ef að uppi eru grunsemdir um slíkt þá hefur viðkomandi væntanlega séð það sjálfur og getur prentað út eða bent okkur á viðkomandi vefslóð. Við þurfum að rannsaka tiltekin tilvik, ekki bara opnar grunsemdir um að nektarmyndir séu til einhvers staðar.“

Þetta viðhorf þarf að breytast og þá sérstaklega að lögreglan hafi frumkvæði að því að rannsaka brot sem þessi og að lögreglan viti líka hvert brotaþolar geta leitað. Eins og Júlía vinkona mín hefur upplifað þá gat lögreglan ekki sagt henni um hvaða brot gegn henni væri að ræða þegar myndbandi var dreift án hennar samþykkis.

Nýrri tækni eins og hér um ræðir fylgja bæði tækifæri og ógnir en það hefur tekið langan tíma að bregðast við og skilja þessa ógn. Að skilgreina þetta í lögum gerir þolendum þessara brota auðveldara fyrir að leita sér aðstoðar. En þetta kemur líka til með að hafa forvarnagildi þar sem þetta verður orðið að lögbroti. Okkur finnst að það þurfi hreinlega að vera skýrt hvað það er sem tekur á þessari tegund brota og að það heimfærist ekki á úrelta grein, 209. gr., þar sem talað er um „blygðunarsemisbrot“, brot sem ætlað var að ná yfir menn sem bera sig á opinberum vettvangi eða annað slíkt. Það er alls ekki sami hluturinn og það ber að skýra þessar reglur bæði í samræmi við skýrleika refsiheimilda sem og hinar augljósu jákvæðu skyldur á hendur hinu íslenska ríki að vernda friðhelgi einkalífs borgara sinna.

Að lokum vil ég taka fram að það þarf að vera skýrt að um kynferðisbrot er að ræða. Það þarf að vera skýrt að þetta er kynferðisofbeldi. Við erum sem samfélag að færast í átt frá því að skilgreina opinber úrræði, viðhorf, orðræðu, frá upplifun geranda til réttinda þolenda. Ef #metoo hefur kennt okkur eitthvað þá er það það að allt of oft er tekið allt of mikið mið af upplifun gerenda í stað þess að skoða hvaða áhrif gerðir gerenda hafa á líðan þolenda. Mig langar að lokum að taka nokkur dæmi um þetta þar sem upplifun gerenda er í brennidepli, þ.e. hvort þeir hafi notið kynferðislegrar nautnar af athöfnum sínum, sem geta fallið undir ákvæði 209. gr. sem nú er í gildi eða nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga. Upplifun gerenda hefur oft fengið allt of mikið vægi og hefur verið notuð sem gjaldfelling á því hvort um kynferðisofbeldi hafi verið að ræða, að gerandinn hafi ekki upplifað kynferðilega ánægju af því að brjóta kynferðislega á einstaklingi. Þetta viðhorf þarf að heyra sögunni til og með þessu ákvæði hér, með þessu frumvarpi, erum við að leggja til að færa ábyrgðina af herðum þolenda, að þeir þurfi að sýna fram á, undir einhverjum úreltum lagabálki, að brotið hafi verið á þeim, beint í fangið á gerendum sem eiga alla ábyrgðina.



[17:54]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögumanni og öllum meðflutningsmönnum fyrir að þetta frumvarp er komið fram. Ég fagna því mjög og finnst í sjálfu sér táknrænt að það skuli koma fram einmitt í dag.

Ég er ekki einn af flutningsmönnum frumvarpsins og má líta á það sem mistök af minni hálfu vegna þess að hafi mér verið boðið að vera með hef ég ekki tekið eftir því. Ég hefði gjarnan viljað vera meðflutningsmaður á þessu frumvarpi.

Alnetið er stórkostleg tækniframför. En það hefur skuggahliðar, dökkar hliðar sem birtast okkur æ meir eftir því sem þróun þess og útbreiðsla verður meiri, þar á meðal stafrænt kynferðisofbeldi. Það virðist vera út frá mörgum frásögnum brotaþola sem maður hefur heyrt og séð að oft og tíðum fylgi dreifing þessa efnis sambúðarslitum eða einhverju slíku og það sé notað af hreinum hefndarþorsta. Í sjálfu sér er hefndarklám eða hrelliklám og klám á netinu jafn alvarlegt og hefur jafn alvarlegar fyrir brotaþola og annað kynferðislegt ofbeldi.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að færa eigi kastljósið af þolendum yfir á gerendur. Við vitum það örugglega mörg að þolendur kynferðisofbeldis hafa sagt sögur af því hversu erfitt það er að koma fram og kæra, hversu erfitt það er t.d. að málshraðinn hér er allt of langur. Þolendur eru dregnir í gegnum alls konar umræðu. Framkoma þeirra er tortryggð, jafnvel klæðnaður og hvar þær voru.

Þess vegna er það fagnaðarefni að þetta frumvarp skuli koma hér fram. Þegar löggjöf er ekki ótvíræð og ekki nógu skýr og verndar ekki brotaþola nægilega verðum við að sjá til þess að hún sé skýrð þannig að vafinn sé enginn eða sem minnstur. Þess vegna fagna ég því mjög að þetta skuli vera komið fram hér nú.

Það hefur líka komið fram hjá þolendum að sögurnar eru átakanlegar. Þær bera með sér að afleiðingar hrellikláms eru síst minni og eiginlega erfiðari eða jafn erfiðar og afleiðingar af öðru kynferðisofbeldi.

Það er annað mál og efni í sérstaka umræðu að til þess að hægt sé að framfylgja lagabreytingu eins og þessari verðum við að gera lögreglunni kleift að framfylgja þessum lögum með því að tryggja henni nauðsynleg tæki, þekkingu og mannafla. Það er efni í sérstaka umræðu. Því miður hafa framlög til lögreglunnar dregist verulega saman undanfarin ár. Það má segja að allar deildir og greinar lögreglunnar séu bæði vanbúnar jafnt mannskap, tækjum og fjármunum, hvort sem á við um umferðarlagabrot, kynferðisbrot, auðgunarbrot, það skiptir ekki máli. Alls staðar er lögreglan að verða vanbúnari en áður. Ég átti tal við lögreglumann um daginn sem sagði mér hversu mikið hefði fækkað á vakt í Reykjavík um helgar. Það er alveg skelfileg þróun að vaktirnar eru orðnar mun fámennari en áður var. Vegna þess að lögreglan er vanbúin lenda lögreglumenn oft í átökum við brotamenn sem þeir gætu komist hjá ef þeir væru almennilega búnir.

Eins er með brot af þessu tagi hér sem krefjast tæknibúnaðar, mikillar þekkingar. Við þurfum að vera við því búin, og það þarf í sjálfu sér að fylgja í kjölfar lagasetningar eins og þessarar, að lögreglunni sé tryggt nægt fjármagn og mannafli til þess að geta framfylgt þessu góða máli.

Mig langar aðeins að fara yfir eitt hér þótt það sé kannski önnur grein af kynferðisofbeldi, en mér finnst það svo sláandi og svo vill til að ég man nokkurn veginn tölurnar frá Bretlandi í því efni og ef eitthvað er eru þær hlutfallslega verri hér. Í Bretlandi er 60 þúsund konum nauðgað á hverju ári, um það bil. Það eru um það bil 18 þúsund mál sem eru kærð af þessum 60 þúsundum. 2.900 mál sem rata inn í dómsali. Af þessum 2.900 málum eru 1.100 sakfellingar. 1.100 sakfellingar af 60 þúsund málum.

Ég man ekki tölurnar frá Íslandi, en síðast þegar ég aðgætti stóðum við okkur hlutfallslega verr en Bretar. Það er ólíðandi, svo gersamlega ólíðandi, herra forseti. Það sýnir vanvirðingu okkar í garð þeirra sem eru fórnarlömb kynferðisofbeldis. Þess vegna er þetta mál mjög gott innlegg í að reyna að vernda þessi fórnarlömb eins og við best getum og færa fókusinn og ábyrgðina á gerendur þar sem hún á heima. Ég tók eftir að hv. framsögumaður sagði áðan að ábyrgð gerenda í þessum málum væri alveg ótvíræð. Það er alveg rétt hjá honum. En það er reyndar líka þannig að ábyrgð gerenda er alltaf ótvíræð þegar um kynferðisbrot er að ræða. Það er engin afsökun sem gerendur hafa fyrir einhverjum aðstæðum þar sem brotið á sér stað. Alls ekki. Það er því mjög þarft og gott að þetta mál skuli koma fram og ég vona að það eigi greiða leið í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd sem ég vænti að taki það til athugunar. Ég vona að málið fari greiðlega þar í gegn og heiti stuðningi við það alla leið.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.