148. löggjafarþing — 23. fundur
 7. feb. 2018.
almannatryggingar og félagsleg aðstoð, 1. umræða.
frv. HallM o.fl., 39. mál (afnám sérstakrar uppbótar til framfærslu). — Þskj. 39.

[16:03]
Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Með frumvarpinu er lagt til sérstök uppbót til framfærslu verði felld úr gildi og fjárhæð hennar færð undir ákvæði um tekjutryggingu. Með þessari breytingu yrði stuðlað að minni skerðingu fyrir lífeyrisþega þar sem sérstaka uppbótin skerðist um 100% vegna allra tekna sem lífeyrisþegi kann að fá, en slík skerðing hefur í daglegu tali verið nefnd króna á móti krónu skerðing. Það gerir að verkum að fyrir ákveðna upphæð tekna skerðast lífeyrisgreiðslur að sama marki og verða því tekjur lífeyrisþega óbreyttar þrátt fyrir atvinnuþátttöku hans. Það að ein gerð tekna eyði annarri gerð að öllu leyti hefur mjög letjandi áhrif á atvinnuþátttöku lífeyrisþega.

Það er staðreynd að margir lífeyrisþegar kjósa að taka ekki þátt á atvinnumarkaði vegna umfangs þeirra skerðinga sem þeir myndu þá verða fyrir. Ákvörðun um að taka ekki þátt í vinnumarkaði getur virst betri fyrir lífeyrisþega þar sem atvinnuþátttaka þeirra myndi ekki skila þeim auknum tekjum. Þess vegna sjá margir lífeyrisþegar sér ekki hag í að vinna þrátt fyrir að þeir kunni að hafa starfsgetu. Hætta er á að upplifun þeirra verði sú að vinnuframlag þeirra sé lítið eða einskis virði. Með afnámi þessarar uppbótar myndast aukinn hvati til atvinnuþátttöku þeirra sem þessi uppbót á við um í dag.

Þessi skerðing á sérstakri uppbót til framfærslu vegna atvinnutekna var áður einnig við lýði hjá ellilífeyrisþegum. Hún var afnumin með breytingu á lögum nr. 116/2016, þar sem gerðar voru ýmsar einfaldanir og breytingar á ellilífeyriskerfinu. Að gera slíkt hið sama fyrir örorkulífeyrisþega er réttlætismál óháð hugmyndum um starfsgetumat.

Hvað varðar kostnað við slíka aðgerð hefur hann þegar verið áætlaður. En þó skal sá fyrirvari gefinn að kostnaðarmat gæti þarfnast endurnýjunar.

Á 146. löggjafarþingi lagði hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, fram fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra þar sem spurt var um lífeyrisgreiðslur í almannatryggingakerfinu. Meðal þeirra þátta sem spurt var um var hver árlegur aukakostnaður ríkisstjórn við almannatryggingakerfið yrði af því að fella sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð inn í tekjutryggingu samkvæmt 22. gr. laga um almannatryggingar og afnema þannig krónu á móti krónu skerðingu vegna annarra tekna örorkulífeyrisþega.

Fram kom að kostnaður við slíka aðgerð yrði um 10,9 milljarðar kr. Það verður þó að halda því til haga að þar er einungis metinn hreinn kostnaður við slíka aukningu. Ekki var lagt mat á mögulegar tekjur sem myndu skapast af aðgerðinni t.d. með aukinni atvinnuþátttöku lífeyrisþega, aukinni framleiðslu og auknum skatttekjum. Raunverulegur kostnaður er því talsvert lægri.

Forseti. Það skal nefnt að þetta frumvarp var lagt fram á síðasta ári og því miðast gildistaka þess við 1. janúar þessa árs. Ég mun því leggja til að sú dagsetning i uppfærist í 1. janúar 2019 við meðferð málsins í nefndinni.

Einnig ber að nefna að í kjölfar þess að frumvarpið var lagt fram bárust athugasemdir þess efnis að frumvarpið gæti haft neikvæð áhrif á þann hóp örorkulífeyrisþega sem er með skertar örorkugreiðslur vegna búsetu. Þetta er fámennur hópur sem er í mjög viðkvæmri stöðu og er það ekki ætlun flytjenda að skerða laun þeirra frekar. Þvert á móti þarf að tryggja þessum hóp viðunandi framfærslu. Það hafa þegar komið fram tillögur að úrbótum og legg ég því til að þær tillögur verði ræddar við meðferð málsins í hv. velferðarnefnd og að fundin verði lausn sem tryggir að framangreindur hópur beri ekki skarðan hlut frá borði. Það er mjög mikilvægt.



[16:07]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fjalla um þetta mál. Það koma stundum fram hugmyndir og tillögur að umbótum á almannatryggingakerfinu sem ég kalla tækifæri vegna þess að það eru breytingar sem kosta lítið og jafnvel ekkert en gætu hins vegar haft frekar mikil áhrif. Það er tiltölulega sjaldgæft í almannatryggingakerfinu vegna þess að þetta er risavaxið kerfi, ofboðslega kostnaðarsamt kerfi eðli málsins samkvæmt, þess vegna getur verið mjög erfitt í raun og veru að leiðrétta það margvíslega óréttlæti sem þar fyrir finnst.

Frumvarp eins og það sem Flokkur fólksins hefur lagt fram um afnám skerðinga á ellilífeyri vegna atvinnutekna er samhljóða breytingartillögu sem Píratar lögðu fram við hinn svokallaða bandorm, þ.e. ýmsar lagabreytingar, skattbreytingar og því um líkt. Um þetta var líka sem betur fer nokkuð talað í kosningabaráttunni. Nú þori ég ekki að fara með nákvæma tölu vegna þess að aðstæður breytast með tímanum, en þessi lausn myndi kosta um milljarð, 1,5 milljarða kannski, einhvers staðar þar á milli, að gera þessa breytingu út frá þeim breytingum sem urðu á ellilífeyri í kjölfar þess að við samþykktum bandorminn. Þá var frítekjumark hækkað úr 25 þús. kr. í 100 þús. kr. fyrir atvinnutekjur. Það þýðir að tölurnar sem koma úr svari við þeirri fyrirspurn sem er hér oft nefnd í þessu samhengi frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni eru ekki lengur réttar miðað við stöðuna í dag. Staðan í dag er skárri hvað varðar tölurnar, þetta eru lægri upphæðir hvað varðar þessa breytingu en áður, en í svarinu við þessari fyrirspurn kom fram að kostnaðurinn væri 2,5 milljarðar.

Frumvarpið sem hv. þm. Halldóra Mogensen mælti fyrir áðan um frítekjumarkið er mjög einföld breyting sem kostar nákvæmlega 0 kr. og breytir engu um útgjöld ríkissjóðs vegna þess að það er einfaldlega verið að festa í sessi eitthvað sem er nú þegar gert árlega með bráðabirgðaákvæði. Þetta var líka tillaga sem við lögðum fram í umræðum um bandorminn en var því miður hafnað. Ég held að það sé að hluta til vegna þess að fólk hafi hreinlega ekki kynnt sér tillöguna nógu vel. Ég óttast að hið sama gildi um þá tillögu sem var mælt fyrir áðan, en það ætti enginn að vera á móti frítekjumarkstillögunni vegna þess að það eina sem hún gerir er að róa fólk sem annars hefur áhyggjur af því að bráðabirgðaákvæðið verði ekki framlengt.

Ég nefni þetta vegna þess að þetta frumvarp um afnám sérstakrar uppbótar kostar hins vegar þó nokkuð mikið fé, kostar um 10,9 milljarða, það eru að vísu fyrirséð útgjöld ef ekki er tekið tillit til þeirra tekna sem koma á móti í formi aukinnar atvinnuþátttöku öryrkja. Það leiðir hugann, alla vega minn huga, að atvinnuþátttöku öryrkja.

Almannatryggingakerfið er, a.m.k. samkvæmt flestum sem ég tala við, hugsað fyrir fólk sem getur ekki unnið, hefur skerta starfsgetu, getur kannski unnið eitthvað og þetta er mælt. Þetta er mælt á einhvern hátt sem ég kann ekki mikil deili á, maður getur verið 75% öryrki eða 100% öryrki eða hvaðeina. Almannatryggingakerfið er til þess að grípa þennan þjóðfélagshóp sem er með skerta starfsgetu. Þá virkar það kannski í fljótu bragði rökrétt að þessar greiðslur skerðist þegar í ljós kemur að einstaklingur hefur meiri starfsgetu en var kannski mælt í upphafi.

Mig langar að storka aðeins þeirri skoðun að þetta sé sjálfsagt. Í fyrsta lagi er þessi nálgun mjög letjandi og óréttlát fyrir fólk sem hefur kannski einhverja starfsgetu, jafnvel á sérstöku sviði og birtist í gríðarlegu óréttlæti. Það sem bítur höfuðið af skömminni í þeim efnum er hin svokallaða króna á móti krónu skerðingu þar sem öryrki finnur sér atvinnu, fær einhverjar tekjur með verkefninu eða hverju sem er, og fær ekkert borgað fyrir það. Að leysa þetta getur kostað skildinginn samkvæmt þessu frumvarpi, en þetta er bara svo mikið réttlætismál.

Það sem meira er er að þessi króna á móti krónu skerðing getur í raun orðið meira en 100% vegna þess að ýmsar tekjur geta haft þau áhrif að aðrar bætur eða tekjur skerðast líka. Mig langar til þess að fá áhorfendur til þess að velta þessu fyrir sér. Sem öryrki getur maður í reynd tapað tekjum með atvinnuþátttöku. Það er galin staða. Það er algjörlega galið. En þótt þessi 10,9 milljarða tala virki kannski há þá held ég að það sé mjög erfitt að reikna út fyrir fram hversu mikið kæmi á móti í gegnum atvinnuþátttöku öryrkja.

Það er líka ákveðin siðferðisleg réttlæting fyrir því að við eigum ekki að skerða, alla vega ekki svona mikið og vissulega ekki með þessum hætti, greiðslur úr almannatryggingakerfinu til öryrkja sem fara að einhverju leyti á vinnumarkaðinn. Hún er sú að ef öryrki, segjum 75% öryrki, finnur sér vinnu þá metur kerfið það kannski þannig að það sýni fram á að viðkomandi þurfi ekki á greiðslum að halda en samt hefur sá öryrki miklu minna atvinnuöryggi. Hann er líklegri til að missa vinnuna og hann getur leitað á færri staði, ef þá nokkra, ef það gerist.

Það er eðlilegt að fólk sem er metið öryrkjar að einhverju marki taki þátt af og til, jafnvel oft, í atvinnulífinu án þess að tekjur skerðist og án þess að það sé metið þannig að það sé á einhvern hátt minni öryrkjar. Það er vegna þess að við erum öll svo fjölbreytt. Við höfum mismunandi getu og það er í raun og veru engin takmörk fyrir því hvernig fötlun fólk getur átt við að etja á öllum sviðum. Það er ýmislegt sem getur hamlað starfsgetu, bæði almennri og sértækri. Ég þekki öryrkja sem geta ekki suma hluti en geta aðra hluti mjög vel og ættu að geta nýtt krafta sína þegar tækifæri er til og hafa samt þetta öryggisnet og tapa ekki á því að taka þátt í atvinnulífinu.

Það er siðferðislega réttlætingin sem ég legg fram fyrir þessu máli. Sömuleiðis verð ég líka að segja almennt um kostnaðarsamar breytingar á almannatryggingakerfinu að til þess að gera þetta kerfi réttlátt mun það kosta peninga. Þá verðum við einfaldlega að gera upp við okkur þá siðferðislegu spurningu hvort við ætlum að greiða fyrir það réttlæti eða ekki. Þeirri spurningu svara ég, virðulegi forseti, játandi.



[16:15]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Aftur færi ég hv. framsögumanni og fyrsta flytjanda þessa máls og meðflytjendum hennar þakkir.

Það er meginregla í íslensku samfélagi, og hún er venju helguð í gegnum rás aldanna, herra forseti, að Íslendingar hafa tekið það ráð til þess að bæta hag sinn að auka vinnu. Í kringum þau bótakerfi sem hafa verið sett upp hefur hins vegar verið þróað fyrirkomulag sem gengur gegn þeirri meginreglu. Það lýsir sér í skerðingum sem eru ítrekað til umfjöllunar og menn þekkja það svo sem að orðunum aldraðir og öryrkjar fylgir oft orðið skerðingar. Með frumvarpinu er leitast við að vinna gegn því.

Sú skerðingarárátta hefur kannski náð hámarki sínu í því hugtaki sem kemur fyrir í greinargerð og það er með hinni svokölluðu krónu á móti krónu skerðingu. Ef menn vilja taka þetta enn þá lengra, eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson vék að, gæti jafnvel farið svo í því skerðingarkerfi öllu saman að menn yrðu af tekjum fyrir það og skertu hag sinn með því að auka vinnu. Það sjá náttúrlega allir menn að nær engri átt.

Auðvitað ber að haga allri uppbyggingu bótakerfa og þeirra úrræða sem hið opinbera hefur til að styðja við bakið á þeim sem falla undir þau kerfi, þannig að þeir hafi hvata sem hafa vilja og getu til þess að fara út á vinnumarkaðinn með öllum þeim ávinningi sem það hefur fyrir einstaklinginn og fyrir ríkissjóð af auknum skatttekjum. Slík kerfi eiga að sjálfsögðu að fela í sér hvatningu frekar en að letja til slíks.

Reyndar er það svo að við komum ítrekað að því í umræðum um mál af þessu tagi að hinn metni fjárhagslegi kostnaður við umbætur í þessu er jafnan gefinn upp sem ein tala sem sjaldnast felur í sér að tekið er tillit til þeirra áhrifa fyrir ríkissjóð að fólk fari út að vinna. Við höfum til að mynda rekist á þetta í umræðum um það mál sem við í Flokki fólksins og fleiri hafa beitt sér fyrir, varðandi að fella brott frítekjumarkið. Þar er jafnan gefin upp tala um kostnað fyrir ríkissjóð án þess að minnsta tillit sé tekið til þess fjárhagslega ávinnings sem aukin atvinnuþátttaka leiðir af sér.

Ég tel að hér sé um réttlætismál að ræða og leyfi mér að láta í ljósi þá von og ósk að þetta frumvarp fái þann stuðning á Alþingi, herra forseti, sem það verðskuldar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.