148. löggjafarþing — 23. fundur
 7. feb. 2018.
sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum, fyrri umræða.
þáltill. GBr o.fl., 62. mál. — Þskj. 64.

[17:27]
Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Flutningsmenn, auk þess sem hér stendur, eru gervallur þingflokkur Samfylkingar.

Tillagan hljóðar á þessa leið:

Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að sjá til þess að frá og með skólaárinu 2018–2019 verði öllum nemendum í framhaldsskólum landsins tryggt aðgengi að sálfræðiþjónustu innan veggja skólanna þeim að kostnaðarlausu. Ráðherra hafi samráð við Kennarasamband Íslands og Sálfræðingafélag Íslands um tilhögun þjónustunnar, m.a. um meðferð sem veitt er, fjölda nemenda á hvern sálfræðing o.fl.

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars að þessi tillaga hafi fyrst verið lögð fram á 145. löggjafarþingi en ekki hlotið þar afgreiðslu og endurflutt á 146. löggjafarþingi og sé nú endurflutt öðru sinni.

Í hvítbók mennta- og menningarmálaráðherra um úrbætur í menntun sem gefin var út í júní 2014 kemur fram að aðeins 44% íslenskra framhaldsskólanema ljúka námi á tilsettum tíma. Ungt fólk hverfur frá námi og mun langtímaáhrifa þess gæta víða í samfélaginu og eru þau þegar farin að sjást. Þetta má að hluta rekja til slæmrar geðheilsu ungmenna hér á landi en sjálfsvíg eru til að mynda helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi. Þessum vanda þarf að mæta, t.d. með auknu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, en fleira þarf til.

Vegna þessa hefur álag aukist mikið á kennara, skólahjúkrunarfræðinga og námsráðgjafa, sem hafa mismunandi bakgrunn, reynslu og þekkingu, til að takast á við vandann. Það er því mikilvægt að bregðast við kallinu og auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu innan veggja skólanna.

Ungt fólk kallar eftir aðgerðum frá stjórnvöldum. Netbyltingin Ég er ekki tabú á sínum tíma var ákall um breytt viðhorf samfélagsins alls til andlegra veikinda og til að benda á gífurlegan kostnað sem fylgir því að leita sér geðheilbrigðisþjónustu. Þá hefur Samband íslenskra framhaldsskólanema ályktað ítrekað um málið á sambandsstjórnarþingum sínum, nú síðast í lok nóvember. Þar er meðal annars kallað eftir auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu og fræðslu um geðræna heilsu innan framhaldsskóla landsins, m.a. í ljósi vaxandi álags á nemendur.

Vísa má til reynslu skóla sem fetað hafa þá braut að ráða til sín sálfræðinga t.d. Verkmenntaskólann á Akureyri sem hóf tilraunaverkefni fyrir nokkrum árum og fylgdi því með skýrslu sem greindi frá reynslunni og einstökum aðferðum við nálgun. Þjónustan skilaði miklum árangri fyrir þá nemendur sem hana nýttu. Í skýrslunni kemur fram að mikil ásókn nemenda í sálfræðiþjónustu og sá fjöldi viðtala sem veittur var sýni að þörfin fyrir slíkt úrræði er til staðar. Þá séu fordómar og skömm hverfandi með auknum sýnileika sálfræðings innan veggja skólans. Ásókn í þjónustuna er nú jafnari samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslunni eftir einstökum námsbrautum en þegar fyrst var boðið upp á hana sem gefur til kynna tengsl milli sýnileika og aðgengis um nýtingu á þjónustunni.

Stjórnvöld hafa margvíslegum skyldum að gegna gagnvart nemum í framhaldsskólum. Það kemur fram í lögum um framhaldsskóla. Í 2. gr. kemur fram að hlutverk framhaldsskóla sé að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Samkvæmt 33. gr. laganna eiga allir framhaldsskólanemendur rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi sem meðal annars taki mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Þá ber samkvæmt sömu lögum öllum aðilum í skólasamfélaginu að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Samkvæmt lögunum skulu framhaldsskólar leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi. Öll framangreind atriði eru þess eðlis að þau snerta andlega líðan nemenda og er ætlað að stuðla að góðri andlegri líðan þeirra. Þá er góð andleg líðan nemenda mikilvæg fyrir árangur í námi.

Í lið B.2 í þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, sem samþykkt var í apríl 2016, er ráðherra falið að skipa starfshóp sem geri tillögur um innleiðingu geðræktarstarfs í leik-, grunn- og framhaldsskólum og þær áttu að liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2017. Ekkert er hins vegar í tillögunni vikið að því að nemendum í framhaldsskólum skuli tryggður aðgangur að sálfræðiþjónustu sér að kostnaðarlausu. Taka má þó undir þau ummæli í greinargerð með tillögu til þingsályktunar að skólinn sé ákjósanlegasti vettvangurinn til að ná til sem flestra barna með geðrækt og forvarnir. Verður að telja að það eigi einnig við um framhaldsskóla.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur ásamt fleirum lagt fram tillögu til þingsályktunar um sálfræðiþjóðnustu í opinberum háskólum. Í greinargerð með þeirri tillögu er vísað til þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar komi fram að ríkisstjórnin leggi sérstaka áherslu á forvarnir og lýðheilsu og sé menntakerfið nefnt þar sérstaklega. Tekið er undir nauðsyn þess að efla geðheilbrigðisþjónustu í framhaldsskólum landsins, en þörfin sé ekki síður brýn í háskólunum. Tekur sá sem hér stendur heils hugar undir það.

Markmið þessarar tillögu er að í byrjun skólaárs 2018–2019 verði tryggt að í öllum framhaldsskólum í landinu hafi nemendur aðgang að sálfræðiþjónustu sér að kostnaðarlausu til að bregðast við ófremdarástandi sem skortur á faglegri geðheilbrigðisþjónustu hefur í för með sér. Ráðherra er í tillögunni falið að útfæra nánar með hvaða hætti þjónustan verði veitt. Einnig verður að hafa í huga að bið eftir þjónustu af þessu tagi getur verið slæm fyrir nemendur og mikilvægt að nemendur sem þurfa á þjónustunni að halda geti komist sem fyrst að. Þetta þekkja flestir.

Virðulegur forseti. Ég vona að þessi tillaga fái brautargengi í velferðarnefnd og að nemendur framhalds- og háskóla geti vænst þess að mikilvæg þjónusta á þessu sviði verði efld hið fyrsta.



[17:35]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er þjóðþrifamál. Velferðarráðuneytið kom á fund fjárlaganefndar í morgun og fjallaði um þann gríðarlega fjölda sem lendir á örorku vegna geðheilbrigðismála, en rúmlega 55% af fjölguninni sem orðið hefur á undanförnum árum er vegna geðrænna vandamála. Ef við dettum inn í þann hluta sem tölur eru um í framhaldsskólum, 18–19 ára hópurinn, þá eru 1,3% þar á örorku vegna ýmissa mála, þar á meðal geðrænna vandamála. Miðað við hlutfallið sem hefur bæst við nýlega ætti það að vera um helmingur af þeim sem eru nýir vegna geðrænna vandamála. Af því að þetta er mjög ungur aldurshópur þá væri það væntanlega rétt hlutfall af þessu 1,3%. Í samanburðarlöndum okkar er þessi tala helmingi lægri eða það hlutfall.

Það vantar dálítið í þær tölur sem við erum með hér og þá umræðu sem er í gangi að við erum með nánast helmingi hærra hlutfall öryrkja en í samanburðarlöndunum. Rúmur helmingur af þeim sem er að bætast núna við, og það hefur verið svo mikil viðbót að undanförnu, er vegna geðrænna vandamála. Við vitum ekki hvort sambærileg alda er í gangi í samanburðarlöndunum, en að þau lönd hafi önnur úrræði sem virka, sem grípa fólkið fyrr. Að fólk komist aftur til baka án þess að enda í örorku. Hér er vandamálið að þegar fólk lendir á annað borð í örorku þá eru mjög fáir sem vinna sig þaðan út aftur. Það er mjög alvarlegt mál.

Við fjölluðum aðeins um upphæðirnar. Grófur hugarreikningur hvað þær upphæðir varðar, miðað við tölurnar sem þarna var verið að setja upp, var á þá leið að aukinn kostnaður okkar — nú ætla ég að fara mjög varlega með mikla fyrirvara á þessu — vegna fjölgunar öryrkja, vegna geðrænna vandamála, væri um 5–10 milljarðar á ári. Ég set mikla fyrirvara við þessar tölur, en þetta var það sem við komumst næst á þessum fundi. Það væri mjög gott að fá betri tölur um þetta.

Að nota 5–10 milljarða á ári, þ.e. lægri upphæð, í forvarnir, önnur úrræði og endurhæfingu til að koma fólki aftur til baka — ávinningurinn af því er gríðarlegur. Því ekki nóg með að þú komist hjá því að nýta þessa 5–10 milljarða í örorkubætur, heldur nærðu fólki aftur inn á vinnumarkaðinn, í nám og í verðmætasköpun og í að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Áætlanir á hvern einstakling sem lendir ungur í örorku hlaupa á milljörðum, bara fyrir einn einstakling.

Þeim peningum sem nú er varið í örorkubætur, t.d. vegna geðrænna vandamála, væri svo miklu betur varið í heilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum og sálfræðiþjónustu í háskólum, eins og Viðreisn hefur lagt fram tillögu um og er alveg sjálfsagt líka. Peningnum er miklu betur varið þar, hann kemur miklu betur til baka til okkar allra.

Við ættum að íhuga það alvarlega að hefja þetta ferli sem fyrst, byrgja brunninn. Hann er því miður opinn núna. Það hafa allt of margir dottið ofan í hann. En við þurfum að byrgja brunninn. Tefjum það ekki mikið lengur. Það ætti öllum að vera ljóst þó að þeir skoði bara tölurnar sem liggja fyrir framan okkur á mjög yfirborðskenndan hátt.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.