148. löggjafarþing — 30. fundur
 27. feb. 2018.
friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja, 1. umræða.
frv. KÓP o.fl., 214. mál. — Þskj. 301.

[19:29]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að fá að mæla fyrir þessu máli hér í kvöld. Af og til áður hefur verið mælt fyrir því í þessum sal, mér skilst að þetta sé í fjórtánda skipti sem mælt er fyrir þessu góða og þarfa máli. Það er með þetta eins og margt annað að stundum þarf að hamra steininn og góðir hlutir gerast oft hægt. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem sýndu af sér þau liðlegheit að liðka fyrir því að málið kæmist til umræðu núna. Flutningsmenn þessa máls ásamt mér eru hv. þingmenn Steinunn Þóra Árnadóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Una Hildardóttir, Þórunn Egilsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Oddný G. Harðardóttir.

Hægt er að fara mörgum orðum um mikilvægi þessa máls og í máli sem er flutt svona oft hleðst utan á greinargerðina, málið slípast til og verður æ betra. Ég ætla ekki að æra óstöðugan með því að lesa allt, hvorki allt málið né greinargerðina, heldur vísa til þeirra gagna sem dreift hefur verið. Mig langar þó að vitna örlítið í greinargerðina, með leyfi forseta, á nokkrum mikilvægum stöðum. Þar er að finna mörg rök með þessu góða máli. Það er mjög fróðleg lesning að lesa sér til um hvernig farið hefur með þetta mál. Farið er ágætlega yfir þróunina í málum er varða friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum víða um heim.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Langflest ríki viðurkenna þó hættuna sem stafar af slíkum vopnum og hafna kenningunni um gagnkvæmt ógnarjafnvægi sem er löngu orðin úrelt ef hún hefur þá nokkurn tímann átt við.

Í því sambandi má benda á dóm Alþjóðadómstólsins í Haag um beitingu kjarnorkuvopna og ógnun þess. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu“ — og ég fletti því upp að þetta er árið 1992, ef mér skjöplast ekki — „að ekki aðeins bryti notkun kjarnorkuvopna gegn alþjóðalögum, heldur líka það að ógna eða hóta því að beita þeim gegn öðru ríki. Rökstuðningur dómstólsins er sá að til þess að vopn geti talist lögmætt verði beiting þess að geta beinst að hernaðarlegum skotmörkum eingöngu en ekki óbreyttum borgurum. Eðli kjarnorkuvopna sé hins vegar þannig að beiting þeirra muni ávallt bitna á óbreyttum borgurum, auk þess sem þau hafi neikvæð umhverfisáhrif sem leiðir til enn meiri skaða óbreyttra borgara. Sams konar rök eru færð á grundvelli þess að ávallt beri að virða hlutlaus svæði, en kjarnorkuvopn séu þess eðlis að aldrei sé hægt að útiloka að beiting þeirra bitni líka á íbúum og umhverfi hlutlausra svæða. Að lokum telur Alþjóðadómstóllinn að þjóðum heims sé skylt að semja um algjöra kjarnorkuafvopnun undir ströngu alþjóðlegu eftirliti.“

Virðulegi forseti. Þetta er ekki einhver framtíðarsýn friðelskandi þingmanna á hinu háa Alþingi Íslendinga, heldur er beinlínis verið að lýsa dómi Alþjóðadómstólsins í Haag. Við þetta má bæta að margir alþjóðlegir sáttmálar, eins og Genfarsáttmálinn og fleiri, kveða á um það að í það minnsta í teoríunni, ég bið virðulegan forseta að afsaka slettuna, eigi vopn að vera þannig að hægt sé að beina þeim að tilgreindum skotmörkum, en þau hafi ekki áhrif á allt nærumhverfið. Við höfum rætt hér klasasprengjur og fleira sem þetta á við um.

Þetta er fyrir heiminn allan gríðarlega mikilvægt og stórt mál. Við ræddum um daginn um bann við notkun kjarnorkuvopna. Þar erum við að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og leggja það til. Hér erum við kannski að horfa aðeins á nærumhverfið. Það þarf engum blöðum um það að fletta að friðlýsing fyrir kjarnorkuvopnum er fyrir Íslendinga, eins og fyrir allar aðrar þjóðir, stórt umhverfismál. Það er tímabært að hugað sé að þeirri umhverfisógn sem okkur og heiminum öllum stafar af kjarnorkuvopnum. Ég held að enginn þingmaður á Alþingi Íslendinga sé andsnúinn því að með öllum mögulegum ráðum sé komið í veg fyrir að slys verði í nágrenni Íslands við meðferð eða flutninga á kjarnorkuvopnum. Við getum rétt ímyndað okkur hvað gæti gerst hér ef kjarnorkuúrgangur, kjarnorkuknúin farartæki og kjarnorkuvopn yrðu meðhöndluð í landhelgi Íslands og slys yrði. Við getum rétt ímyndað okkur hver áhrifin yrðu á okkur sem fiskveiðiþjóð, ef geislavirk efni kæmust út í lífríki sjávarins í kringum landið. Það er því sjálfsagður liður út frá umhverfissjónarmiðum, þótt ekki væri annað, að banna með öllu siglingar eða umferð kjarnorkuknúinna farartækja upp að landinu.

Eins og ég kom inn á hefur þetta mál verið flutt þrettán sinnum áður, þetta er í fjórtánda sinn. En ég tel að flutningurinn nú sé mikilvægari en oft áður og ekki bara af því ég er 1. flutningsmaður, heldur vegna þess að við höfum séð það á síðustu árum að þróunin er því miður í neikvæða átt. Það er ekki eins og heimurinn sé allur að sammælast um að notkun kjarnorkuvopna sé slæm og að við þurfum með öllum ráðum að koma í veg fyrir hana, heldur hefur notkun kjarnorkuvopna þvert á móti komið til tals eins og eðlilegur valkostur í deilum ríkja; vissulega alvarlegur, það gera sér allir grein fyrir því, en allt í einu er hann kominn aftur upp á borðið sem einn af valkostunum. Það er breyting frá því sem áður var. Stórar þjóðir með mikil kjarnorkuvopnabúr eins og Bandaríkjamenn eru farnar að ræða það að endurnýja sín vopnabúr, gera kjarnorkusprengjur minni og meðfærilegri, sem þýðir að hægt er að flytja þær til með fleiri farartækjum og koma þeim víðar. Ég held að málið hafi alltaf verið mikilvægt, en það sé sérstaklega mikilvægt nú.

Ég er sérstaklega vongóður um það núna að málið nái fram að ganga. Ég held að allir þingmenn á hv. Alþingi vilji koma í veg fyrir að einhvers konar slys með kjarnorkuvopn verði hér í landhelgi eða á Íslandi. Árið 2011 samþykkti Alþingi þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Þar kom sá vilji skýrt fram. Nefndin var skipuð árið 2011, en þjóðaröryggisstefnan var samþykkt síðar, tillögum skilað til utanríkisráðherra árið 2014 og fyrir örfáum árum var þessi þjóðaröryggisstefna samþykkt.

Af hverju er ég að vísa í þjóðaröryggisstefnuna? Jú, af því þar segir í 10. tölulið:

„Að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.“

Aftur — þetta er ekki draumur þeirra sem lengst vilja ganga eða þeirra sem hafa verið árum og áratugum saman í baráttu gegn kjarnorkuvopnum. Þetta er samþykkt þjóðaröryggisstefna Íslands. Ég ber mikla von í brjósti um að þetta verði samþykkt núna og einkum vegna þess að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vísar sérstaklega í stjórnarsáttmála sínum í umrædda og samþykkta þjóðaröryggisstefnu.

Í stjórnarsáttmálanum segir, um öryggis- og þróunarmál, með leyfi forseta:

„Þjóðaröryggisstefna Íslands sem samþykkt var af Alþingi verður höfð að leiðarljósi.“

Ég ber því þá von í brjósti að þetta mál nái fram að ganga.

Ég talaði áðan um að við höfum verið að ræða, ef ég man rétt í síðustu viku, um bann við kjarnorkuvopnum, hér værum við kannski að líta okkur aðeins nær. Mig langar að minnast á það að í öðrum tilvikum hafa menn verið að líta sér enn nær. Hér erum við að horfa á landið allt og landhelgi þess. Staðreyndin er sú að öll sveitarfélög á Íslandi, nema þrjú, eru búin að samþykkja ályktun, gera samþykkt um að í landi þeirra sé búið að friðlýsa fyrir meðferð og umferð kjarnorkuvopna. Þau þrjú sveitarfélög sem ekki hafa gert það eru Reykjanesbær, Skútustaðahreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur. Það sjá það allir í hendi sér, bæði áheyrendur og áhorfendur, að ef Ísland allt, öll sveitarfélög landsins, fyrir utan þessi þrjú sveitarfélög, er friðlýst þá er hálfur sigur unninn og jafnvel meira en það.

Mig langar rétt í lokin á mínu máli að vitna í fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar hvar umrædd tillaga var samþykkt 14. febrúar 2002, fyrir 16 árum og tveimur vikum.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Umferð og geymsla kjarnorku-, efna- og sýklavopna í Reykjavík. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga Kolbeins Proppé:

„Umhverfis- og heilbrigðisnefnd vísar því til borgarstjórnar að samþykkt verði að borgarlandið verði friðlýst fyrir umferð og geymslu kjarnorku-, efna- og sýklavopna, í samræmi við samþykktina Abolition 2000 fyrir sveitarfélög. Tillögunni fylgir greinargerð.““

Að þessu máli höfum við mörg okkar unnið lengi á ýmsum vígstöðvum og hallar ekki á nokkurn mann þegar ég segi að þegar kemur að sveitarfélagamálum hafi Samtök hernaðarandstæðinga virkilega dregið vagninn þar og sýnt algjört frumkvæði í þeim málum.

Virðulegur forseti. Ég ber mikla von til þess að málið verði nú að lögum. Góð mál þarf oft að ræða oft. Við höfum rætt ýmis mál hér margoft, bæði í þessum sal og utan. Sjálfstæði Íslands er mál sem kemur upp í hugann sem lagðar voru fram tillögur um ár eftir ár, áratugum saman, áður en þær urðu að veruleika. Þannig að það að mál sé lagt fram oft getur oft verið til góða.

Eins og ég hef rakið hér þá hefur dropinn holað steininn á ýmsum sviðum. Við erum búin að stíga í áttina að þessu á mörgum sviðum. Þegar við erum komin með þetta inn í þjóðaröryggisstefnu okkar, þegar sveitarfélögin, öll nema þrjú, eru búin að friðlýsa sín svæði, þá er ekkert eftir nema að festa þetta í lög, að löggera þetta, þ.e. að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og umferð kjarnorkuknúinna farartækja verði bönnuð.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. utanríkismálanefndar og 2. umr. Ég vona að nefndin taki frumvarpið til góðrar og rækilegrar skoðunar. Ég vona að við gerum það að lögum.



[19:44]
Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er í öllum skilningi fullkomlega sammála þessu máli og markmiðum þess, en þó hnaut ég um eitt orð sem vantar skilgreiningu á í greinargerð frumvarpsins, það er orðið „kjarnakleyfra“. Flutningur er bannaður á þessu eða losun kjarnakleyfra efna. Ég get svo sem verið sammála því að banna losun á þeim, en vandinn er að mér þykir vanta skilgreiningu á þessu orði vegna þess að ég býst við að hér sé átt við það sem á ensku væri kallað, með leyfi forseta, „fissile material“, þ.e. efni sem geta viðhaldið kjarnorkuniðurbrotsferli af sjálfsdáðum sé nægilegt magn fyrir hendi.

En ótti minn er sá að annars vegar gæti þetta verið skilið þannig að þetta gæti verið um hvaða efni sem er sem væri mögulegt að kljúfa kjarnann á. Sem væri þá hér um bil öll efni, þar með talið við sjálf, sem ég býst ekki við að sé markmiðið. En einnig og það er tilfellið að ég er bara ekki nægilega kunnugur svona kjarneðlisfræði til þess að vera dómbær á það. En það gæti verið að hér sé líka óvart verið að banna einhver af þeim efnum sem verða til í kjarnaofninum sem í eru notuð þessar geislavirku samsætur sem eru notaðar gjarnan í læknisfræðilegum tilgangi eða í öðrum rannsóknartilgangi.

Nú veit ég að til er töluverð löggjöf á Íslandi um meðferð geislavirkra efna, ég þekki ekki öll smáatriði hennar, en mig langar bara til að vera viss um það að hér sé ekki verið fyrir handvömm að banna öll efni eða í það minnsta ekki öll efni sem gætu verið nýtt í læknisfræðilegum tilgangi.



[19:46]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður segist ekki vera nógu vel að sér í kjarneðlisfræði, en það er ég. [Hlátur í þingsal.] Nei, ég biðst forláts, ég er það heldur ekki, virðulegur forseti. Ég þakka bara hv. þingmanni þessa ábendingu. Ég fullyrði það að hvorki ég né aðrir flutningsmenn þessa frumvarps viljum að einhver tvímæli séu um skilgreiningar og hvet hv. utanríkismálanefnd til að skoða þetta mál.

Ég vek þó athygli á því að í greinargerð með frumvarpinu, af því að hv. þingmaður vitnaði til 9. gr., ef ég skildi hann rétt, er fjallað fyrst og fremst um losun geislavirks úrgangs, sem er í seinni hluta 9. gr., en svo er í frumvarpinu sjálfu talað um, með leyfi forseta:

„Öll umferð farartækja, sem flytja kjarnakleyf efni eða kjarnorkuúrgang, er bönnuð innan hins friðlýsta svæðis, sbr. þó ákvæði 10. gr.“

Í 10. gr. er sérstaklega kveðið á um að heimilt sé að veita undanþágu fyrir friðsamlega umferð. Snúist þetta að einhverju leyti að efnum notuðum í friðsamlegum tilgangi, eins og læknisfræðilegum tilgangi, myndi ég halda að það þyrfti bara að skerpa á orðalaginu þannig að það falli að sjálfsögðu undir þau undanþáguákvæði við 9. gr. sem eru í 10. gr., eða að það þurfi einfaldlega að skerpa á ákvæði 9. gr.



[19:48]
Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt. Skilningur okkar er líklega svipaður. Við þurfum bara að passa upp á þetta. Ég skal gera mitt besta til að passa upp á að þetta verði rétt gert í utanríkismálanefnd. Ég ætla ekki að tefja þetta neitt meira.



[19:48]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að fara örfáum orðum um þetta góða frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja í námunda við Ísland, þ.e. í íslenskri land- og lofthelgi innan tólf mílna. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir að mæla fyrir þessu frumvarpi og get tæplega dulið aðdáun mína á því eljufólki sem vekur athygli á þeim voðabúnaði sem kjarnorkan getur verið þótt hún sé vissulega líka nýtt í friðsamlegum tilgangi, ekki megum við gleyma því.

Ég vil líka nýta þetta tækifæri til að vekja athygli á tillögu til þingsályktunar sem hér var flutt fyrir nokkrum dögum. Flutningsmaður var hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir; það mál ber að sama brunni, tillaga um að við gerumst aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Hv. þingmaður gat þess í sinni ágætu yfirferð að þetta væri ekki alveg í fyrsta sinn sem mælt væri fyrir þessu frumvarpi eða viðlíka. Þetta væri fjórtánda sinn. Það má furðulegt heita að þessi friðsama þjóð skuli ekki leggjast meira á árarnar þarna. Íslendingar eru friðsamir almennt þó að ýmsar krytur beri nú fyrir annað veifið, aðallega stjórnleysi innbyrðis.

Við höfum rætt þetta ítrekað. Þetta hefur verið á dagskrá sveitarfélaga. Það merkilega er að langflest sveitarfélög í landinu hafa undirgengist samkomulag af þessu tagi. Ég held að þjóðir heimsins, ef við getum sagt sem svo, fólkið í veröldinni, hafi eins og við, hvert og eitt okkar, óttast þennan búnað og viljað tóna þetta niður og fjarlægja þennan búnað úr safni þjóðanna. En það eru gjarnan þjóðarleiðtogar eða stjórnvöld hinna ýmsu þjóða sem ekki gefa eftir. Þetta er hluti af þessu alræmda vopnaskaki þjóðanna. Svona erum við enn frumstæð í samskiptum okkar.

Þó hafa heilar álfur eins og Afríka, eins og kemur fram í ágætri greinargerð, fallist á og gengist undir þetta samkomulag, það eru mörg ár síðan. Þessum vilja vex fiskur um hrygg, það eru fleiri að leggjast á þessar árar, þeir sem berjast fyrir friði, berjast fyrir því að tóna niður vopnaskakið, og þessi illyrmislegu vopn. Ég nefni ICAN, alþjóðleg samtök, eins og kom fram í tillögu til þingsályktunar frá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, sem hafa barist fyrir því að jarðsprengjum, sýklavopnum og eiturefnahernaði væri útrýmt. Þessir hópar, þessi öfl, njóta æ meiri virðingar og trausts. Þessi hópur, þessi alþjóðlegi hópur, hampar nú friðarverðlaunum Nóbels árið 2017.

Ég tek undir með hv. þingmanni og vonast til þess að þetta frumvarp nái sínum fulla þroska hér í þinginu, fái umfjöllun í nefndum og komi til umræðu aftur og verði samþykkt. Við erum með því að senda skilaboð til heimsins, skilaboð til samtímans, skilaboð til okkar þjóðar. Við erum líka að senda skilaboð til barnanna okkar.

Þess vegna styð ég heils hugar þetta frumvarp.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til utanrmn.