148. löggjafarþing — 32. fundur
 1. mars 2018.
almenn hegningarlög, frh. 1. umræðu.
frv. SilG o.fl., 114. mál (bann við umskurði drengja). — Þskj. 183.

[12:26]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er stuðningsmaður þess nauðsynlega frumvarps sem fjallar um umskurð drengja. Það á ekki að vera leyfilegt að skaða börn fyrir lífstíð út af einhverju fyrirbrigði sem ekkert hefur með læknisfræðilega hluti að gera. Ég hef verið að hugsa hvers vegna í ósköpunum við leyfum að ráðist sé á börn og þau limlest fyrir lífstíð í nafni trúar. Ég tel ekki það komi trú við á nokkurn hátt að ganga að sjö daga gömlu barni og fremja þessa viðurstyggilegu gjörð, sem ég kalla svo, meira að segja án deyfingar. Lýsingarnar á því hvernig farið er að því eru skuggalegar. Ég hef hlustað og horft á hvernig það er framkvæmt.

Ég hef farið í margar aðgerðir um ævina. Það fer enginn, ekki nokkur maður trúi ég, í aðgerð nema hann sé alvarlega veikur. Enginn gerir það að gamni sínu, enginn að óþörfu. Ég fór allt í einu að spá í hversu langt maður man aftur í tímann. Hver er fyrsta minningin? Jú, mín fyrsta minning tengist einmitt sársauka. Mín fyrsta minning er að ég var á leið á sjúkrahús. Þar var sett yfir mig gríma, þetta var á þeim tíma þegar börn voru svæfð með eter, eða ég veit ekki hvaða efni var hellt yfir. Og ég var svæfður. Sennilega hef ég verið í kringum þriggja ára gamall. Ég man alltaf skelfinguna þegar gríman kom yfir mig og ég barðist um á hæl og hnakka. En tilgangurinn með þessari svæfingu var að það þurfti að taka úr mér kirtlana. Ég hafði verið mikið veikur lengi. Þetta var nauðsynleg aðgerð til að lækna veikindi mín. Og hún virkaði.

Síðan fór ég að hugsa um að það næsta sem ég myndi hlyti að vera eitthvað ánægjulegt. Næsta minning var að mörgu leyti ánægjuleg, það var þegar ég var að leika við besta vin minn og hann tók steypustyrktarjárn og negldi því í hausinn á mér. Blóð út um allt. Ég var skelfingu lostinn. Það er næsta minning. Sársauki. Og sársaukinn virðist bíta inn í sál barnanna.

Ég hef fengið ótrúlega marga tölvupósta um þessi mál og alla jákvæða. Fólk styður að frumvarp þetta verði samþykkt. Ég segi fyrir mitt leyti eftir lestur þessara tölvupósta og af reynslu minni af aðgerðum þá á ekki, ekki í neinum tilfellum, að ráðast á sjö daga gamalt barn, barn sem búið er að ganga í gegnum fæðingu viku áður. Ég segi barn vegna þess að það breytir engu máli hvort það er stúlka eða drengur. Mér er sagt að þar sem drengir séu umskornir í gyðingdómi verði búið að útiloka gyðingdóm ef banna eigi umskurð. Hvar erum við þá stödd? Þúsund árum fyrir Krist eða árið 2018? Höfum við ekkert þróast? Ég segi: Það hlýtur að vera krafa þegar við erum komin inn á þessa öld og höfum alla þessa þekkingu um hvað þarf að gera og hvað ekki, hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar og hverjar ekki, að við stöldrum við og segjum: Hingað og ekki lengra. Segjum bara: Nei, þetta kemur ekki til greina. Barnasáttmálinn, mannréttindasáttmálinn, allt segir: Við stoppum þessa hluti.

Þetta á að vera svo sjálfsagt að það er eiginlega óskiljanlegt hversu mikla athygli þetta mál hefur vakið. Það er á engan hátt hægt að réttlæta það. Ekki nokkurn. Þeir sem reyna það á einhvern furðulegan hátt með skírskotun í trúarbrögðin. Í því tilfelli fer maður að hugsa út í trúarbrögð. Kristindómur segir að guð hafi skapað manninn í sinni mynd. En hvaða rétt höfum við þá til að breyta þeirri mynd? Hvaða rétt höfum við til að segja: Þarna er sjö daga gamalt barn, það er ekki fullkomið, við ætlum að breyta því í okkar mynd. En það var fullkomið í mynd þess guðs sem á að hafa það skapað í sinni mynd. Við erum komin í andstöðu við okkur sjálf ef við ætlum að fara að leika guð. Sagt er að í sumum tilfellum þurfi svona aðgerð, en í 99,9% tilfella þarf þess ekki, myndi ég telja.

Að framkvæma svona aðgerð án deyfingar og með þeim aðferðum sem ég hef lesið um segir mér að við verðum að stöðva þetta og sjá til þess að það séu alltaf börnin sem njóti vafans.

Íslenskir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa lýst yfir stuðningi við frumvarpið. Læknar hafa lýst yfir stuðningi við það. Enda get ég ekki ímyndað mér að það sé á nokkurn hátt í verkahring lækna að framkvæma ónauðsynlega aðgerð sem veldur þjáningum og getur valdið ólæknanlegum erfiðleikum hjá viðkomandi barni.

Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmálanum stenst þetta ekki. Það er ekki á neinn hátt hægt að verja þetta. Í umræðunni undanfarnar vikur hef ég ekki orðið var við neitt annað en jákvætt gagnvart þessu frumvarpi, fólk vill stöðva umskurð drengja. Einstaklingar sem lent hafa í þessu hafa sent mér tölvupóst um þetta. Þeir biðja um að þetta verði stöðvað. Komið hafa tölvupóstar frá þeim sem eru skelfingu lostnir yfir þeirri tilhugsun að nú muni þeir brátt eignast barn og þurfi að beita það ofbeldi sjö dögum eftir fæðinguna. Ég segi um trúfrelsi: Ég er alveg sáttur við trúfrelsi. Algerlega sáttur við að fólk trúi hverju sem það vill svo framarlega sem sú trú meiðir ekki neinn. Við verðum að átta okkur á því að það er ekki langt síðan við Íslendingar vorum í torfkofum, og það er ekki langt síðan við Íslendingar vorum með galdrabrennur. Við höfum sem betur fer þróast frá því. Frá mínum bæjardyrum séð erum við að taka eitt skref í þeirri þróun. Við erum að segja: Við ætlum að koma í veg fyrir að börn verði sköðuð að óþörfu.

Þess vegna segi ég: Frelsi og réttindi barna eru númer eitt, tvö og þrjú. Þegar barn verður fullorðið hefur það rétt til að láta gera svona aðgerðir ef það vill. Það er engin spurning að þetta verður alltaf og á alltaf að vera réttur barnsins, aldrei foreldranna. Réttur foreldranna á eingöngu að vera gagnvart því að hjálpa barninu.

Ég hef staðið frammi fyrir því að vera með rétt um mánaðargamalt barn, fárveikt, og geta ekkert gert. Vegna veikinda. Ef mér hefði einhvern tíma dottið í hug að framkvæma svona aðgerð á mínum drengjum — ég á nú bara drengi, sex drengi, fimm á lífi, og beita þá því ofbeldi sem svona aðgerð hefði gert, hvort sem er í nafni trúar eða einhvers annars — það hefði aldrei komið til greina.

Þess vegna segi ég: Að taka heilbrigt barn sem ekkert er að og beita það ofbeldi er alveg óskiljanlegt.

Að lokum mun ég lesa úr grein í Kjarnanum, með leyfi forseta:

„Af öllu því sem hér hefur verið rakið má telja það ljóst að bann við umskurði barna stríðir ekki gegn trúfrelsi foreldranna. Án þess að afstaða sé tekin til líklegrar niðurstöðu Mannréttindadómstóls eða annarra dómstóla varðandi það hvort umskurður fæli í sér brot á grundvallarréttindum hins ómálga barns, þ.e. mannréttindum þess, verður að telja nokkuð öruggt að réttur barns til líkamlegrar friðhelgi, auki réttar barnsins til að taka ekki við kennisetningum trúarbragða foreldra sinna gegn eigin mótmælum, yrði talið til „réttinda og frelsis annarra“ í skilningi 2. mgr. 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og sambærilegra ákvæða laga og alþjóðasamninga.“

Þess vegna segi ég, og ég meina það og tala af reynslu, af því að þetta er skelfileg framkvæmd: Ég bið þingheim um að samþykkja þetta bann og bið fólk að styðja það að við sýnum þann manndóm og réttlæti gagnvart vikugömlum börnum að við gefum þeim allan þann rétt sem þau eiga, að séð verði til þess að aldrei verði framkvæmt neitt á börnunum sem veldur þeim skaða, þau njóti alls réttar. Þegar þau verða fullorðin hafa þau þetta val.



[12:40]
Birgir Þórarinsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við erum að fara að ræða hér mál sem vakið hefur mikla athygli bæði hér heima og erlendis, verið víða í fjölmiðlum, varðar breytingu á hegningarlögum þess efnis að umskurður drengja verði refsiverður hér á landi og sæti fólk fangelsi allt að sex árum ef hann er framkvæmdur. Ég vil vekja athygli á því að hv. flutningsmaður Silja Dögg Gunnarsdóttir er ekki í salnum. Mér þykir það sérstakt í ljósi þessarar mikilvægu umræðu sem víða hefur fengið athygli. Ég er með spurningar til hv. þingmanns í ræðu á eftir og hefði kosið að hún væri í salnum. Ég vil vekja athygli á því. Hv. þingmaður er ekki í salnum. Ég teldi að hv. þingmaður ætti að vera hér.



[12:41]
Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég held að rétt sé að óska eftir því að hæstv. forseti geri ráðstafanir til að fá 1. flutningsmann þessa máls hingað í salinn þannig að umræðan geti haldið áfram og þingmaðurinn geti svarað þeim spurningum sem til hennar er beint. Ég held að það sé eðlilegt að gefa þá í það minnsta þingmönnum sem hafa spurningar til hv. þingmanns færi á að bíða með ræður sínar eða fresta umræðunni þar til þingmaðurinn er komin í salinn, því að það er mikilvægt að geta átt þetta samtal við flutningsmann málsins.



[12:42]
Forseti (Jón Þór Ólafsson):

Forseti vill upplýsa þingmenn um að flutningsmaður málsins hefur verið upplýstur um þessar beiðnir. Það var gert áðan. Er ósk um það að forseti ítreki þá beiðni? (GBS: Að sjálfsögðu.) Það skal ég gera. Er ósk um að við bíðum með ræðu þingmannsins tímabundið þar til sú ósk hefur komist til skila? (Gripið fram í.) Það skal gert.

Forseti vill enn fremur upplýsa meðan við bíðum að það er venjan að þegar ráðherra flytur mál sé hann í salnum til að eiga orðastað við þingmenn um það mál sem er málefnaleg og eðlileg nálgun þannig að átt geti sér stað upplýst umræða í þinginu um málið.



[12:44]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp um bann við umskurði drengja. Samkvæmt frumvarpinu, verði það að lögum, mun það verða refsivert og sæta fangelsisvist allt að sex árum að framkvæma slíka aðgerð á Íslandi.

Frumvarpið hefur fengið töluverða athygli og er fordæmt víða erlendis frá. Ég er ekki fylgjandi þessu frumvarpi. Ég vil hins vegar taka það fram að ég er ekki sérstakur talsmaður umskurðar. Ég er hins vegar á móti því að gera umskurð refsiverðan samkvæmt hegningarlögum. Ég mun fara nánar út í það hér á eftir. Ég er auk þess með nokkrar spurningar varðandi málið til hv. þingmanns og flutningsmanns, Silju Daggar Gunnarsdóttur, og koma þær jafnóðum og ég flyt mál mitt hér.

Í greinargerð með frumvarpinu er rætt nokkuð um umskurð kvenna og fjallar rúmlega einn fjórði greinargerðarinnar um umskurð kvenna. Umskurður kvenna eða stúlkna er fordæmdur af þorra mannkyns og á ekkert skylt við þessa umræðu, hvorki hugmyndafræðilega né læknisfræðilega. Kemur mér það á óvart að rætt skuli um umskurð kvenna í þessu samhengi og er ég þeirrar skoðunar að með því sé verið að afvegaleiða umræðuna. Í greinargerðinni er einnig vísað til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það fullyrt að umskurður drengja brjóti í bága við sáttmálann. Hér fer hv. þingmaður mjög frjálslega í túlkun sinni á barnasáttmálanum að mínum dómi.

Það er alveg ljóst að barnasáttmálinn hefði aldrei fengið brautargengi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna ef hann bryti í bága við trúarhefð sem hefur verið iðkuð í þúsundir ára af milljónum manna og stærstu trúarbrögðum heims.

Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort bann við umskurði drengja gangi ekki gegn alþjóðlegum markmiðum fjölmenningar sem koma fram í þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og við erum aðilar að, en þar segir, með leyfi forseta:

„Við skuldbindum okkur til að hlúa að þvermenningarlegum skilningi, umburðarlyndi, gagnkvæmri virðingu og siðferði sem byggir á vitund um hnattrænan þegnskap og deilda ábyrgð. Við viðurkennum náttúrulegan og menningarlegan fjölbreytileika heimsins og sjáum að allir menningarheimar geti stuðlað að og eru hver um sig ómissandi við að raungera sjálfbæra þróun.“

Biskup Íslands og þjóðkirkjan taka í sama streng og eru andsnúin frumvarpinu. Segir biskup m.a. í umsögn sinni um frumvarpið að þjóðkirkjan beri virðingu fyrir siðum og venjum annarra trú- og lífsskoðunarfélaga.

Hv. þingmaður segir hér í flutningsræðu sinni að hún hafi fengið fjölda bréfa frá ísraelskum gyðingum sem styðji frumvarpið og í Ísrael sé ört vaxandi hreyfing gegn því að limlesta unga drengi í nafni trúarinnar. Um þetta vil ég segja:

Í fyrsta lagi er orðanotkun hv. þingmanns óviðeigandi. Orðið „limlesting“ samkvæmt íslenskri orðabók þýðir að stórskadda eða beinbrjóta. Ég held að allir geti verið sammála um það að umskurður er ekki stórsköddun, hvað þá beinbrot. Að nota orðalag af þessu tagi sem á ekkert skylt við það sem hér er á ferðinni finnst mér ekki vönduð vinnubrögð. Ég tel það ekki vera rökstuðning í málinu að vísa til bréfa sem hv. þingmaður hefur fengið frá Ísrael.

Alþingi er þjóðþing Íslendinga. Við erum ekki stödd í Knesset, þjóðþingi Ísraels. Við höfum ekki lagasetningarvald í Ísrael. Sá sem hér stendur starfaði í Ísrael áður en hann tók sæti á Alþingi. Ég heyrði aldrei af ört vaxandi hreyfingu gegn umskurði drengja, á ég nú marga ágæta ísraelska vini. Spurði ég m.a. fyrrverandi ráðherra í Ísrael sem ég þekki persónulega um álit hans á málinu. Hann kannaðist ekki við áðurnefnda hreyfingu. Hann vildi hins vegar koma því á framfæri að það væri mjög auðvelt að líta á þetta frumvarp sem fordóma í garð gyðinga. Yrði það samþykkt gæti það haft áhrif á samskipti Íslands og Ísraels.

Í greinargerðinni er einnig rætt um sýkingarhættu af völdum umskurðar og hún talin mikil, einkum og sér í lagi þegar umskurður fer fram í heimahúsi. Svo enn sé rætt um Ísrael þá eru gyðingar, þ.e. drengir, umskornir skömmu eftir fæðingu og meiri hlutinn í heimahúsum. Hlutfall sýkingar í Ísrael er mjög lágt, eða 0,2–0,6%. Ég tel að fullyrðing um mikla sýkingarhættu sé ekki á rökum reist, enda er fullyrðingin í greinargerðinni ekki studd neinum gögnum.

Engin gögn eru til um það að umskurður drengja hafi farið fram í heimahúsum á Íslandi. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að rannsóknir sem hafa sýnt fram á að umskurður sé vörn gegn kynsjúkdómum og HIV-smiti séu mjög gagnrýnisverðar, og þær séu byggðar á veikum grunni. Þetta er rangt hjá hv. þingmanni. Þvert á móti hefur umskurður reynst mjög mikilvægur í baráttunni við alnæmi í Afríku og sýnt hefur verið fram á það að umskurður dregur úr líkum á alnæmissmiti um 60%.

Árið 2011 settu Sameinuðu þjóðirnar af stað fimm ára áætlun um að hvetja til umskurðar á meðal karla í 14 ríkjum Afríku sem þáttur í mikilvægri forvörn í baráttunni við alnæmi. Fyrir þessu átaki stóðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn alnæmi, stofnun Bills og Melindu Gates og Alþjóðabankinn. Þessar stofnanir hefðu ekki hvatt til umskurðar í baráttunni við eyðni ef kostirnir væru byggðir á veikum grunni.

Danska heilbrigðismálastofnunin er á móti banni við umskurði drengja. Stofnunin telur að það sé ekki aukin sýkingarhætta vegna umskurðar ef aðgerðin er framkvæmd rétt. Þetta kom fram í umræðum um málið hjá danska ríkisútvarpinu í janúar sl.

Samtök bandarískra barnalækna eru fylgjandi umskurði drengja og segja kostina fleiri en fylgikvillana og mæla með deyfingu við aðgerðina. Bandarísku læknasamtökin eru sömu skoðunar. Árið 2014 birti sjúkrastofnunin Mayo Clinic í Bandaríkjunum niðurstöðu rannsóknar þess efnis að kostir umskurðar drengja væru mun meiri en fylgikvillarnir. Mayo Clinic er meðal þekktustu sjúkrastofnana í heimi.

Herra forseti. Hér hef ég nefnt mikilvægar alþjóðastofnanir, samtök lækna, dönsku heilbrigðismálastofnunina og þekkta heilbrigðisstofnun í Bandaríkjunum sem mæla með umskurði drengja.

Hv. þingmaður og flutningsmaður er fylgjandi því að við tökum vel á móti flóttamönnum og þar erum við sammála. Hv. þingmaður sagði hér í ræðu frá 2013 um flóttamenn, með leyfi forseta:

„Við eigum að sýna mannúð í verki og sanngirni og hjálpa fólki sem þarf að flýja ættjörð sína vegna hörmunga.“

Ég tek heils hugar undir þetta.

Meiri hluti kvótaflóttamanna sem hingað hafa komið er frá stríðshrjáðum svæðum Mið-Austurlanda þar sem íslamstrú er ríkjandi. Þegar til Íslands er komið halda þeir áfram að iðka sína trú og hefðir tengdar henni, enda ríkir trúfrelsi á Íslandi. Umskurður drengja er liður í trúarhefð íslams.

Því spyr ég hv. þingmann hvaða áhrif hún telur að bann við umskurði drengja geti haft á móttöku flóttamanna hingað til lands sem eru íslamstrúar. Telur hv. þingmaður að í banninu felist sanngirni gagnvart ríkri trúarhefð íslams, gyðingdóms og hluta kristinna manna? Er það sanngjarnt gagnvart flóttamönnum sem hingað koma og eru íslamstrúar að þegar þeir eignast dreng þá þurfi fjölskyldan að ferðast til útlanda til þess að láta umskera barnið, verði frumvarpið samþykkt? Eins og hv. þingmaður veit þá hafa þessar fjölskyldur ekki mikið á milli handanna. Múhameð spámaður var umskorinn. Múhameðstrúarmenn eru þekktir fyrir harkaleg viðbrögð telji þeir að vegið sé að trú þeirra. Þekkt eru þau miklu áhrif sem teikningar þær sem birtust í Jótlandspóstinum af Múhameð spámanni höfðu á danskt samfélag og danska hagsmuni um allan heim. Yrði frumvarpið að lögum gæti sú staða komið upp að múslimar á Íslandi stæðu frammi fyrir allt að sex ára fangelsisdómi. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að samfélag múslima um heim allan gæti risið gegn Íslandi og íslenskum hagsmunum verði frumvarpið að lögum? Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að hjá alþjóðastofnunum sem annast flóttamenn eins og Alþjóðaflóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna verði litið á bannið við umskurði drengja sem fordóma gagnvart íslam og hindrun í móttöku flóttamanna hingað til lands?

Hv. þingmaður sagði í blaðaviðtali fyrir skömmu í tengslum við þetta mál að viðbrögð alþjóðasamfélagsins gagnvart málinu hefðu komið henni á óvart. Það er einmitt þess vegna, herra forseti, sem ég tel að frumvarpið sé vanhugsað. Hv. þingmaður mátti vita að frumvarpið yrði fordæmt víða vegna þess að það snertir trúarhefð milljóna manna um heim allan, helgisið, sem hefur verið við lýði í þúsundir ára og engin alþjóðleg heilbrigðisstofnun hefur mælt með að banna. Með frumvarpinu er verið að gera hefð sem er trúar-, menningar- og söguleg hefð meðal milljóna manna að lögbroti og fangelsisvist allt að sex árum.

Í því samhengi vil ég nefna annan þátt í málinu sem ég tel ekki síður mikil rök fyrir því að frumvarpið verði ekki samþykkt. Ísland er lítið land og hefur þurft að berjast fyrir hagsmunum sínum á erlendum vettvangi og meira að segja þurft að fara í stríð, herlaus þjóðin.

Herra forseti. Ég tel að verði frumvarpið að lögum geti það hæglega skaðað hagsmuni Íslands á erlendri grundu. Miðað við viðbrögðin sem þegar hafa komið fram erlendis frá má telja víst að Ísland gæti lent í hringiðu fordóma sem gæti haft áhrif á utanríkisviðskipti, komu erlendra ferðamanna og ímyndar landsins út á við. Árið 2012 dæmdi dómstóll í Þýskalandi umskurð drengja ólögmætan. Málið olli miklum deilum í Þýskalandi, vakti hörð viðbrögð erlendis frá og voru þýsk stjórnvöld sökuð um fordóma gagnvart gyðingum. Til að lægja öldur setti þýska þingið lög sem heimiluðu umskurð drengja. Angela Merkel, sú merka stjórnmálakona og kanslari Þýskalands, sagði af þessu tilefni að ef Þýskaland hefði orðið fyrsta ríkið í heiminum til að banna umskurð hefði landið orðið að athlægi á alþjóðavettvangi. Hér talar reynslumikil stjórnmálakona sem virðing er borin fyrir um allan heim.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að frumvarpið gæti skaðað ímynd Íslands út á við verði það að lögum.

Ísland gegndi mikilvægu hlutverki í stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Samskipti ríkjanna voru lengi vel mikil en hafa minnkað verulega á liðnum árum einkum vegna hernáms Ísraels á Palestínumönnum sem við fordæmum. Ég fullyrði þó hér að Ísraelsmenn bera mikla virðingu fyrir Íslandi og líta á okkur sem vinaþjóð. Gyðingar eru áhrifamiklir víða um heim, en bera það ekki á torg. Ef vegið er að grunngildum gyðingatrúar til þúsunda ára þar sem umskurður er ófrávíkjanleg tenging við guð og sáttmáli sem mælt er um fyrir í Gamla testamentinu og Torah, helgiriti gyðinga, er sú hætta fyrir hendi að við yrðum ekki vinaþjóð í augum gyðinga og mikilvægum viðskiptahagsmunum af ýmsum toga stefnt í hættu.

Trúarbrögð eru mikill áhrifavaldur í alþjóðasamskiptum. Flestum er í minni sá glundroði sem skapaðist hér á landi þegar Reykjavíkurborg samþykkti viðskiptabann á Ísrael. Stórar fjárfestingar í hjarta Reykjavíkurborgar voru í húfi. Borgarfulltrúar hlupu á harðahlaupum undan eigin samþykkt þegar þeir áttuðu sig á því hversu áhrifamiklir gyðingar eru í viðskiptalífinu. Málið varðar ekki bara íslamstrú og gyðingdóm, heldur kristna trú einnig, enda hafa leiðtogar kaþólsku kirkjunnar bæst í þann hóp sem hefur mótmælt frumvarpinu. Gleymum því ekki að Kristur var umskorinn og það sama á við Pál postula.

Herra forseti. Komið hefur fram í fjölmiðlum m.a. í viðtali við Þráin Rósmundsson barnalækni að umskurður barna hafi verið lagður af á Landspítalanum fyrir nokkrum árum. Umskurður virðist því ekki vera framkvæmdur hér á landi.

Því vil ég spyrja: Hvers vegna að banna og gera refsivert eitthvað sem ekki á sér stað á Íslandi en tíðkast hins vegar meðal milljóna manna um heim allan? Er þetta frumvarp þá ekki óþarft? Er ekki verið að ögra samfélögum þar sem umskurður tíðkast? Hver er tilgangurinn? Að vera fyrsta ríkið til þess að banna umskurð og gera refsiverðan sem nemur allt að sex árum í fangelsi? Það er verið að vega að trúarhefðum milljóna manna um heim allan. Það getur haft afleiðingar. Það er mjög auðvelt að álykta sem svo að í þessu frumvarpi felist fordómar, að verið sé að tala niður trúarbrögð, vegna þess að í því felst hrein og bein skírskotun til trúarlegrar hefðar sem er liður í því að fylgja vilja guðs og nauðsynlegt í trúar- og félagslegu samhengi þeirra trúarbragða sem hér hafa verið nefnd.

Sú hætta er veruleg að mínu mati að alþjóðasamfélagið líti svo á að hér sé um að ræða lagafrumvarp sem felur í sér fordóma. Það er rökstutt m.a. með því að hér er verið að banna eitthvað með lögum og gera refsivert sem ekki tíðkast á Íslandi en er hins vegar rík trúarhefð fyrir meðal milljóna manna eins og ég hef áður sagt.

Þó svo að hv. þingmaður segi það að gyðingar séu velkomnir hingað er ekki víst að gyðingar líti málið sömu augum verði frumvarp þetta að lögum. Verði frumvarpið samþykkt má segja að Alþingi, elsta þjóðþing veraldar, hafi ákveðið að tala niður, banna og glæpavæða einn helsta helgisið veraldar. Ég tel að viðbrögðin erlendis frá muni verða stærri og meiri en við gerum okkur grein fyrir. Frumvarpið hefur nú þegar náð athygli út fyrir landsteinana. Sú athygli hefur hins vegar verið neikvæð. Ísland er lítið land í samfélagi þjóðanna. Við þurfum ekki á neikvæðri athygli heimsbyggðarinnar að halda. Fyrstur getur stundum verið fól.



[12:58]
Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja að mér þykir leitt að hv. þm. Birgir Þórarinsson tekur viðskiptahagsmuni Íslands og mögulegan ferðamannastraum fram yfir mannréttindi barna. Það finnst mér mjög alvarlegt. Í öllum flutningi málsins, og í ræðu minni sem ég flutti hér fyrir tveimur vikum, kom fram að málið grundvallast á að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland innleiddi 2013, sé brotinn með því að gera aðgerðir á börnum sem hafa ekkert um það að segja, kvalafullar aðgerðir, sem geta haft slæmar afleiðingar. Sem betur fer kveljast ekki allir menn sem hafa verið umskornir vegna þess í dag.

Varðandi fullyrðingu þingmannsins, um að hér séu ekki gerðar slíkar aðgerðir á drengjum, þá er það rangt. Ég hef undir höndum bréf frá landlækni þar sem teknar voru saman fyrir mig nýjar tölur um hversu algengur umskurður er. Þeir eru fleiri en hv. þingmaður heldur hér fram. Ástæðan fyrir því að ég legg þetta mál fram, og við átta þingmenn úr fjórum flokkum, er ekki sú að þetta sé orðið svo stórkostlegt vandamál á Íslandi að bregðast þurfi við. Þvert á móti. Það grundvallast á sömu rökum og bann við umskurði á stúlkum og konum, þegar það var lagt fram 2005, þ.e. að koma í veg fyrir að þetta verði gert við lítil börn sem geta ekki varið sig.

Ég get alveg farið í rökfærslur varðandi barnasáttmálann og fleiri atriði. Ég vil líka segja að frumvarpið brýtur ekki, ef umskurður drengja verður bannaður, á trúfrelsi foreldra. Ég vil taka á móti flóttafólki hingað. (Forseti hringir.) Ég tel ekki að þetta hafi neikvæð áhrif á það. Hingað verður fólk áfram velkomið að koma. Í mínum huga hefur þetta mál fengið mjög jákvæða athygli út um allan heim.



[13:01]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil nú segja það að mér finnst hún hafa snúið út úr orðum mínum hér áðan. (Gripið fram í.) Ég sagði ekki að ég tæki viðskiptahagsmuni fram yfir hagsmuni barna, það sagði ég ekki. Það er rangt. Ég sagði að það væri einn af áhættuþáttunum sem gætu fylgt því fyrir þjóðina að þetta frumvarp yrði samþykkt, ef Ísland yrði fyrsta ríkið í heiminum til að banna umskurð drengja.

Varðandi barnasáttmálann þá hef ég hvergi séð að þetta sé andstætt honum. Ég vil árétta það sem ég sagði hér áðan að ég er fullviss um að ef þetta væri andstætt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þá hefði hann aldrei verið samþykktur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, það er bara ósköp einfalt. Ég held að rétt sé að halda því til haga.

Ég vil líka benda á það, og ég sagði það hér í ræðu minni, að ég er enginn sérstakur talsmaður umskurðar, en hins vegar tel ég ekki rétt að banna hann með þeim hætti að gera hann refsiverðan svo að varði fangelsisvist allt að sex árum. Ég tel einfaldlega að það geti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir okkur sem þjóð. Þar vitnaði ég meðal annars í þekktan stjórnmálaleiðtoga í Evrópu, Angelu Merkel, sem sagði, eins og ég sagði áðan, að það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir Þýskaland hefði Þýskaland orðið fyrsta ríkið til að samþykkja þetta.



[13:02]
Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að lesa brot úr bréfi sem ég fékk í gær frá íslenskum karlmanni sem var umskorinn þegar hann var drengur úti í Ameríku. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég hef engan áhuga á að kasta mér út í þann drullupoll sem umræða um þessi mál er og þú hefur fengið að kenna á. Mér finnst fólk almennt vera dálítið mikið úti á túni og hinir raunverulegu þolendur hunsaðir með rökum um trú, menningu o.s.frv.“

Ég ætla að bæta við: „… og ferðamannastraumi“ — það er það nýjasta.

„Máltækið Hver er sinnar gæfusmiður á þannig ekki við í þessu sambandi, því við fæðingu er nútíma umskorinn Íslendingur sviptur þeim rétti að stjórna sínu eigin lífi og líkama. Það á því að banna foreldrum að taka svona ákvörðun.“

Ég hvet hv. þingmenn til að heyra í fórnarlömbum umskurðar, spyrja það fólk sem þetta hefur verið gert við hvort það sé hæstánægt með það. Ég er ekkert svo viss um að hv. þingmaður fengi hreinskilin svör frá vinum sínum úti í Ísrael, sem hann nefndi í ræðu sinni áðan, ef hann færi að spyrja nánar út í samlíf þeirra og fleira, hvernig þetta hefði haft áhrif á það. Þetta er mjög mikið feimnismál hjá karlmönnum. Karlmenn kvarta yfirleitt ekki yfir svona hlutum, þeir eru ekki vanir því, þetta er og verður feimnismál.

Ég hvet hv. þingmann til að leita sér frekari upplýsinga, bæði varðandi algengi umskurðar á Íslandi, tala við fólk sem þetta hefur verið gert við, lesa greinargerð frá Barnaheillum þar sem fullyrðingar þingmannsins hér áðan, um litið inngrip og skaðleysi, eru hraktar, m.a. HIV og ýmislegt fleira. Ég hvet þingmanninn til að kynna sér þau gögn. Ég hvet þingmanninn líka til að kynna sér og lesa vel viljayfirlýsingu talsmanna og umboðsmanna barna á Norðurlöndum, en þeir hvetja öll norræn ríki til að banna umskurð á grundvelli mannréttinda og á grundvelli þess að verið sé að brjóta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.



[13:05]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil alls ekki gera lítið úr því að einstaklingar hafi haft samband við hv. þingmann og tjáð henni um erfiðleika sem þeir hafa þurft að glíma við eftir að hafa verið umskornir, ég vil alls ekki gera lítið úr því; ég hef samúð með því fólki. En ég vil hins vegar bara vísa í staðreyndir. Hv. þingmaður hamrar hér á Barnaheillum. En við getum hins vegar skoðað virtar heilbrigðisstofnanir, Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, þekktar heilbrigðisstofnanir í Bandaríkjunum, Samtök barnalækna í Bandaríkjunum, allar þessar stofnanir telja kosti umskurðar fleiri en fylgikvillana. Þannig að ég held að það sé innlegg í umræðuna.

Hv. þingmaður virtist ýja að því að ég hefði ekki kynnt mér þessi mál nægilega vel. Það er bara rangt og það eru bara dylgjur. Ég hef kynnt mér þetta mjög vel. Þess vegna kem ég hér og tjái mig um þetta mál vegna þess að ég tel að það geti haft slæm áhrif fyrir Ísland sem þjóð að samþykkja bann með þessum hætti.

Ég sé heldur ekkert athugavert við það að landlæknisembættið setji reglur um þessa aðgerð, deyfingu og annað slíkt og að þær séu ekki gerðar í heimahúsum á Íslandi o.s.frv. En að banna þetta og dæma til refsingar til sex ára finnst mér ekki rétt aðferð í þessu máli, ég verð bara að segja það.



[13:06]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú svolítill íhaldsmaður að upplagi og hef verið mikill stuðningsmaður alls sem gamalt er og ég vil ekki raska hefð mikið. Það er samt sumt sem truflar mig aðeins við málflutning hv. þingmanns, kannski aðallega það sem snýr að trúfrelsi og trúarhefð.

Ég velti fyrir mér: Er einhver munur á því hvað hefðin er löng? Ef ég stofna eitthvert trúfélag núna og gengi svolítið á skrokk á börnunum mínum eða einhverjum í nafni trúarinnar, kæmist ég ekki upp með það vegna þess að ég væri nýbúinn að stofna trúarbrögðin? Eða ef þau væru mjög gömul væri það þá í lagi? Er munur á því hvort blóðbaðið er mikið í kringum þetta eða lítið? Hvað er tekið mikið af einhverjum? Er munur að taka forhúðina eða eina tána? Hvar liggja mörkin? Eru einhver mörk í þessu? Það er það sem ég velti fyrir mér.

Ég hef líka velt fyrir mér: Skiptir það einhverju máli í þessari umræðu núna, af því að ég heyrði þingmanninn tala um að refsingin væri sex ár, væri þingmaðurinn rólegri ef hún væri bara eitt ár, eins og minni háttar líkamsmeiðingar væru alla jafna í hegningarlögunum?

Telur þingmaðurinn yfir höfuð, eins og hegningarlögin eru í dag, að það sé heimilt? Hefur þingmaðurinn velt því fyrir sér? Alla jafna er svona ekki heimilt, (Forseti hringir.) hvorki inngrip í kynfæri né annað.



[13:09]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hann vísaði í hefðina og spurði hvort það skipti máli hvort hún væri ný af nálinni eða gömul og rótgróin. Í mínum huga er þetta fyrst og fremst hefð trúarbragða til þúsunda ára og mér finnst mikill munur þar á hvort það er söfnuður sem stofnaður verður í næstu viku í Reykjavík eða hvort þetta er gyðingasöfnuðurinn, sem dæmi, sem er mörg þúsund ára gamall.

Síðan spurði hv. þingmaður hvort það skipti einhverju máli hvort refsingin væri sex ár eða eitt ár. Ég segi fyrir mitt leyti og hef sagt, sagði það í ræðunni, að mér finnst ekki að þetta eigi að vera refsivert. Það er hins vegar hægt að setja ýmsar reglur til þess að koma í veg fyrir að þetta sé gert í heimahúsi o.s.frv., ég er fylgjandi því.

Síðan nefndi hv. þingmaður hvort ég teldi hefðina skipta máli. Ég svaraði því. En það er líka rétt að flutningsmaður svari þessari síðustu spurningu sem þingmaður beindi til mín, þannig að hann gæti þá bara áréttað hana.



[13:10]
Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að frumvarp eins og þetta þurfi mikla umræðu, hún þarf að þroskast. Ég er ekki að segja hér og nú að ég sé einhver sérstakur stuðningsmaður þess, en ég er bara að velta fyrir mér rökunum í þessu. Það virðist vera þannig að þetta snúist allt um hversu lengi þetta er búið að vera. Ef þetta hefði aldrei verið og einhver myndi stofna núna trúarhóp og hefði þetta málefni þar sem algjört grunnatriði, hvað myndi hv. þm. Birgir Þórarinsson segja? Væri þetta þá í lagi? Alveg örugglega ekki. Þetta snýst því orðið svolítið um hefðina.

Nú voru margar hefðir hér og víðar í trúarbrögðum. Og af því að hv. þingmaður talaði um fordóma, það væru fordómar að menn skyldu vilja banna þetta, væri hluti af fordómum, voru það þá fordómar gagnvart múslimum þegar við settum lögin um jafna stöðu karla og kvenna? Þeir segja að slík lög um að konur eigi rétt á þessu og hinu séu algjörlega fráleit. Eigum við á Íslandi, það sem við teljum rétt og rangt, að láta það mótast af einhverjum mörg þúsund ára gömlum trúarbrögðum af því að það hefur alltaf verið svoleiðis?

Ég er ekki viss um það, en ég er samt ekki að segja það, en ég velti auðvitað fyrir mér: Er þetta frumvarp nauðsynlegt? Þetta er ekki gert hér. Eigum við ekki að láta kyrrt liggja, leyfa umræðunni að þroskast og þróast, láta þetta gerast frekar innan frá eins og allt sem gerist hjá okkur. Margt sem var hefð fyrir hjá okkur öldum saman fussum við og sveium yfir núna. Kannski þarf þetta að þróast, ég veit það ekki.

En ég er samt ekki tilbúinn að kaupa þau rök að þetta sé hefð og hluti af einhverju trúfrelsi, sem mér er nú reyndar alveg óskiljanlegt, en trúarhefð get ég skilið aðeins, og hvort við eigum ekki bara að leyfa þessu að þroskast aðeins í staðinn fyrir að koma með svona bratt frumvarp. Það getur vel verið.



[13:13]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það er bara ágætishugmynd að leyfa umræðunni að þroskast. Er þetta nauðsynlegt? Er nauðsynlegt að taka svona djúpt í árinni og gera þetta refsivert? Ég tel svo ekki vera. Það er ósköp einfalt. Ég hef fært rök fyrir því og færði rök fyrir því í máli mínu hér.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi, svo ég komi aðeins inn á hefðina aftur, þá er það svo að um þetta er fjallað í helgiriti gyðinga, sem eru milljónir manna um heim allan. Mér finnst við ekki geta horft fram hjá því. Þar vísa ég til umsagnar biskups Íslands sem sagði að þjóðkirkjan bæri virðingu fyrir hefðum og venjum annarra trúfélaga. Ég vil taka undir það með biskupsstofu hvað það varðar, og biskupi Íslands.