148. löggjafarþing — 33. fundur
 5. mars 2018.
kostnaður við hjúkrunarheimili og heilbrigðisþjónustu.
fsp. ÓGunn, 140. mál. — Þskj. 212.

[16:48]
Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Forsaga þessarar fyrirspurnar er að nú um allnokkurt skeið hefur það tíðkast að tekið er tiltekið gjald að hámarki fyrir dvöl einstaklinga á hjúkrunarheimili, þ.e. sá hlutur sem þeir sem þar dvelja eða búa þurfa að greiða fyrir dvölina. Eins og hæstv. ráðherra er vafalítið kunnugt um og þingmönnum öllum þá eru þetta núna að hámarki tæplega 400 þús. kr. á mánuði.

Undirritaður hefur hins vegar velt því fyrir sér að þarna geti verið um að ræða eiginlega innheimtu fyrir heilbrigðisþjónustu sem er töluvert umfram það sem við erum með í almennara kerfi. Hámarkið á kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hjá einstaklingum er töluvert lægra en það gæti verið samkvæmt þessum tölum sem ráðuneytið styðst við.

Þetta er í raun ástæðan fyrir fyrirspurninni, þ.e. hversu stór hluti kostnaðar er við rekstur hjúkrunarheimilanna vegna heilbrigðisþjónustu og hvernig honum er skipt niður.

Við þekkjum öll húsnæðiskostnað á Íslandi. Við höfum heyrt tölur af því og umræðu um að leiguverð sé býsna hátt, en alla vega hefur maður ekki heyrt mikið talað um leigu upp á 400 þús. kr. eða þaðan af meira fyrir húsnæði, en þó kann það vafalítið að vera til.

Í framhaldi af þessu held ég að sé mikilvægt að ráðherra og ráðuneyti hennar reyni með einhverju móti að þátta þennan kostnað, þessa kostnaðarþætti, svolítið niður til þess að sé hægt að gera sér grein fyrir því hvort við séum óafvitandi og líklega óviljandi að innheimta fyrir heilbrigðisþjónustu í meira mæli en við höfðum hugsað okkur.

Þá í framhaldi af því spyr ég hvort ráðherra muni taka til athugunar að notuð verði sömu viðmið, bæði úti í almenna samfélaginu og eins inni á hjúkrunarheimilum.

Að lokum hvort það komi til álita að kostnaðarþátttaka hjúkrunarheimilanna verði tekin til endurskoðunar með það fyrir augum að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu þeirra verði ekki meiri en annarra landsmanna.

Jafnvel þótt við værum mjög viljug í að meta eitthvað sem ekki heilbrigðisþjónustu, þó það væri ekki nema 5 þús. kr. á mánuði sem væri heilbrigðisþáttur inni í þessu, þá værum við samt komin yfir heildargjöldin sem aðrir eldri borgarar landsins þurfa að inna af hendi.



[16:52]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson beinir hér til mín munnlegri fyrirspurn um kostnað við hjúkrunarheimili og heilbrigðisþjónustu. Ég freista þess að svara spurningum í þeirri röð sem hann ber þær upp.

Í fyrsta lagi spyr hann hve stór hluti kostnaðar við rekstur hjúkrunarheimila sé vegna heilbrigðisþjónustu við heimilismenn og hve stór hluti vegna annarrar þjónustu svo sem félagsþjónustu.

Svarið er á þá lund að greiðslur vegna almennra dvalar- og hjúkrunarrýma skiptast í dvalarkostnað, gjald fyrir grunnheilbrigðisþjónustu og húsnæðisgjald. Hjúkrunarheimili fá til viðbótar greitt fyrir hjúkrunarþjónustu í hjúkrunarrýmum og saman mynda þessir liðir daggjald.

Dvalarkostnaður er sólarhringsþjónusta í dvalar- og hjúkrunarrými og er ætlað að mæta öllum kostnaði vegna dvalarinnar nema grunnheilbrigðisþjónustu og hjúkrunarþjónustu í hjúkrunarrými. Dvalarkostnaður er um 41,7% af meðalgjaldi fyrir hjúkrunarrými, en grunnheilbrigðisþjónusta er sólarhringsþjónusta og fellur undir heilbrigðisþjónustu samkvæmt reglugerð nr. 427/2013, um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu. Grunnheilbrigðisþjónusta er um 3,6% af meðalgjaldi fyrir hjúkrunarrými.

Húsnæðisgjaldi er ætlað að standa undir öllu almennu viðhaldi húsnæðis, umsýslu, fasteignagjöldum og tryggingum, en ekki stofnkostnaði, afskriftum eða meiri háttar endurbótum á húsnæði. Húsnæðisgjaldið er um 6,8% af meðalgjaldi fyrir hjúkrunarrými.

Hjúkrunarþjónusta er sólarhringsþjónusta og fjárhæðin er tengd hjúkrunarþyngdarstuðli hvers hjúkrunarheimilis. Hjúkrunarþjónusta er um 47,90% af meðaldaggjaldi fyrir hjúkrunarrými. Hér var þess freistað að brjóta upp heildartöluna eins og eftir var kallað.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um það hvort sú sem hér stendur muni taka til athugunar að sömu viðmið verði látin gilda varðandi heildarkostnaðarþátttöku ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu við íbúa hjúkrunarheimila og eiga við um aðra landsmenn.

Svarið er á þá leið að hámarksgreiðsluþátttaka heimilismanns í daggjaldi er að hámarki jöfn dvalarkostnaði, samanber spurningu eitt, sem er án grunnheilbrigðisgjalds og án greiðslna vegna húsnæðis og hjúkrunarþjónustu. Framreiknuð fjárhæð þessa árs er 409.104 kr. á mánuði, sem er aðeins lægra en dvalarkostnaður, sem er 417.745 kr. á mánuði.

Íbúar hjúkrunarheimila taka því ekki þátt í greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf eru þeim einnig að kostnaðarlausu. Ekki hefur komið til álita að íbúar hjúkrunarheimila greiði hluta heilbrigðisþjónustunnar.

Þriðja spurning hv. þingmanns er á þá leið hvort sú sem hér stendur telji að það komi til álita að kostnaðarþátttaka íbúa hjúkrunarheimila verði tekin til endurskoðunar með það fyrir augum að kostnaður þeirra vegna heilbrigðisþjónustu verði ekki meiri en annarra landsmanna.

Forsendur spurningarinnar fela í sér að íbúar hjúkrunarheimila greiði fyrir heilbrigðisþjónustu sem aðrir landsmenn þurfi ekki að greiða fyrir, en þar sem núverandi greiðslufyrirkomulag gerir ekki ráð fyrir að íbúar hjúkrunarheimila greiði hluta af heilbrigðisþjónustu, samkvæmt því svari sem hér er fram borið, þá er ljóst að þeir eiga ekki að standa verr að vígi en aðrir landsmenn hvað varðar umrædda greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu.

Þá má nefna að þáverandi húsnæðis- og félagsmálaráðherra skipaði starfshóp 3. maí 2016 til að skoða breytt greiðslufyrirkomulag á dvalar- og hjúkrunarheimilum, en starfshópurinn er enn að störfum og er vonast til að hann skili tillögum fljótlega.

Virðulegur forseti. Ég vona að þessi svör svari þeim spurningum sem hv. þingmaður ber hér fram.



[16:55]
Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Það sem vekur kannski athygli í svörunum og þessum útreikningum ráðuneytisins er í rauninni að menn gefa sér það, eins og ég sé það, að greiðsluþátttökuhluti einstaklings á hjúkrunarheimili sé ekki í sömu hlutföllum og heildarkostnaðurinn af dvölinni á hjúkrunarheimili. Menn reikna sig einhvern veginn niður á það að allt sem einstaklingurinn kynni að þurfa að borga, þ.e. hámarkið eins og hæstv. ráðherra kom inn á, 409 þús. kr., sé allt vegna einhvers annars en heilbrigðisþjónustu. Ég held að í augum þeirra sem búa á hjúkrunarheimilunum þá sé þetta ekki svona, þ.e. þeir líti á það þannig að þeir séu í rauninni að taka þátt í heildarkostnaðinum af dvölinni. Því mætti eins hugsa í þeirra augum, þó að þessi skipting sé til staðar, að með því að þeir geta borgað allt að 40% af heildarkostnaðinum þá séu þeir í rauninni að borga stærri prósentu, stærri hluta, til heilbrigðisþjónustu en ella væri. Ég held að það sé kannski spurningin sem hæstv. ráðherra og ráðuneyti hennar ættu að velta upp.

Ég ímynda mér að minnsta kosti, eins og ég kom aðeins inn á í fyrri ræðu minni, að afar margir líti svo á að það að borga 410 þús. kr. á mánuði fyrir fæði og húsnæði, jafnvel þótt inni á stofnun sé, sé vel í lagt. Ef við skoðum til að mynda hvaða lífeyri við ætlum til eldri borgara á mánuði, sem er töluvert miklu lægra en þessi upphæð, þá sjáum við það að þarna er einhver skekkja sem ég held að væri fróðlegt fyrir ráðuneytið að skoða betur.



[16:58]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina og áréttinguna í síðari ræðu hv. þingmanns. Það er sannarlega til umhugsunar sem hv. þingmaður byggir fyrirspurn sína á, hvort hér sé þörf á meira gagnsæi varðandi það hvað liggur á bak við gjaldið og hvað er í raun verið að greiða fyrir, þannig að engir freistist til þess að láta flæða þar á milli.

Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir með skýrum hætti, ekki síst fyrir þá sem þjónustunnar njóta.

Fram kemur í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar að treysta þurfi enn frekar rekstrargrunn fyrir hjúkrunarheimilin. Það kemur auðvitað líka inn í þessa umræðu að það er alveg ljóst að það sem heyrir til ábyrgðar ríkissjóðs þarf líka að liggja fyrir með skýrum hætti þannig að það gerist ekki í þessu efni frekar en öðrum að greiðsluþátttaka sjúklinga sé of mikil.