148. löggjafarþing — 38. fundur
 8. mars 2018.
réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, 1. umræða.
frv. ÞorS o.fl., 249. mál (hækkun starfslokaaldurs). — Þskj. 350.

[16:16]
Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, sem varðar hækkun starfslokaaldurs. Það er svo sem betur fer að við Íslendingar erum að verða að meðaltali eldri en við vorum fyrir ekki mörgum áratugum síðan. Við höldum starfsgetu okkar og þreki lengur fram á ævina en áður var þegar menn voru orðnir úr sér slitnir af erfiðisvinnu langt um aldur fram. Auk þess er þjóðin að eldast, við erum að eignast fleiri einstaklinga í aldursbilinu frá 67 ára og upp úr.

Fyrir nokkrum árum var lögum um almannatryggingar breytt. Settur var á valkvæður lífeyristökualdur frá 65 ára alveg upp í áttrætt. Menn gátu sem sagt valið um það hvenær þeir fóru á lífeyri innan þessa tímabils. En ekki er öllum fært að nýta sér þetta vegna þess að í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, kemur mjög skýrt fram að starfsmenn ríkisins og embættismenn eiga að láta af embætti eftir að þeir verða sjötugir, þ.e. næsta mánuð á eftir ef ég man rétt. Þessir ágætu menn og konur geta því ekki nýtt sér sveigjanleg starfslok.

Í þessum hópi ríkisstarfsmanna eru margir með áratugareynslu, búa yfir gríðarlegri þekkingu og mikilli reynslu. Í sjálfu sér er það mikil sóun og óréttlátt að skipa fólki sem er fullfrískt og hefur starfsgetu, hefur starfsvilja, að setjast í helgan stein. Nú tek ég skýrt fram að með þessu frumvarpi er ekki verið að skylda fólk til að vinna til 73 ára aldurs. Það er verið að gefa fólki sem vill það og getur það og hefur áhuga á því möguleika á því.

Þá ætla ég að koma aftur að því að í þessu fólki, í þessum mannauð, býr gríðarleg þekking. Það eru nokkur atriði sem ég get nefnt, nokkrar stéttir, þó að maður eigi kannski ekki að gera upp á milli. Ég get nefnt t.d. háskólakennara sem hafa langan starfsaldur að baki, gríðarlega reynslu, mikla þekkingu. Þeim er gert að fara heim eftir sjötugt. Sumir þessara ágætu manna og kvenna hafi verið ráðnir sem verktakar eftir sjötugt og halda áfram að kenna. Í hvað rekast þeir þá? 100 þús. kr. frítekjumarkið sem var sett fyrir áramót, þvert ofan í það sem við Miðflokksmenn lögðum til um að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur. Í hverju skrefi er lögð fyrir fólk gildra sem gerir því erfiðara um vik að sinna störfum eftir sjötugt ef það svo kýs. Ég man að í ágætri nefnd sem Pétur heitinn Blöndal stjórnaði í fyrstu og ég tók síðan við á sínum tíma voru þessi mál rædd. Svo mikið hef ég heyrt og orðið áskynja um að ég veit að innan vébanda Félags eldri borgara stendur mikill vilji til þess að fólki sé gert kleift að vinna lengur ef það kýs og getur. Einn forystumaður, ágæt kona sem ég heyrði í núna á fundi í haust, sagði: Við förum ekki fram yfir síðasta söludag þó að eitt ár bætist við ævina. Þetta er alveg hárrétt hjá henni. Það er sóun að nýta ekki starfskrafta fólks með alla þessa reynslu, alla þessa þekkingu, í mörgum tilfellum mjög vel menntað fólk sem býr yfir dýrmætri menntun.

Ég minntist á háskólakennara áðan. Ég gæti nefnt fleiri dæmi. Ég þekki dæmi um vísindamenn sem lengi hafa unnið að rannsóknum á Íslandi, ýmsum rannsóknum, sem hafa jafnvel verið í sjálfboðavinnu og unnið án þess að fá greitt af einskærum áhuga fyrir því að halda áfram rannsóknum sínum eins lengi og þeir telja að rannsóknin krefjist. Eigum við að leggja stein í götu þessa fólks? Nei, við eigum frekar að hvetja til þess að það nýti sína krafta eins og það kýs og vill.

Þetta frumvarp varðar eingöngu ríkisstarfsmenn en þeir eru bundnir af þessum starfsaldri að lögum. Nú er eftirlaunaaldur á Íslandi 67 ár og fólk á almennum vinnumarkaði getur út af fyrir sig hætt að vinna þegar þeim aldri er náð. Við höfum rekist á það að mjög oft er reiknað með því að fólk hætti líka á almenna markaðnum í kringum sjötugt eða sjötugt. Við höfum hins vegar séð dæmi um það og eitt kemur upp í hugann að margir iðnaðarmenn sem hafa skilað miklu dagsverki og eru farnir að lýjast verða náttúrlega afbragðssöluráðgjafar í byggingarvörum, menn með 40–50 ára reynslu að baki. Það er ekki hægt að fá betra fólk til að annast slíka vinnu að dómi þess sem hér stendur.

Í því skyni er þetta frumvarp lagt fram, að við hættum að sóa þeim kröftum og þeirri þekkingu sem aldraðir Íslendingar búa yfir og að við gerum þessum hópi kleift að starfa til 73 ára aldurs sem er ágætis fyrsta skref vegna þess að eftir að sá tími er liðinn sjáum við áhrifin af þessu. Nú segi ég aftur: Það er í sjálfu sér nauðsynlegt líka að tekið verði upp þetta svokallaða frítekjumark og fólki verði gert kleift að vinna sér inn tekjur án þess að verða fyrir skerðingum. Það er mjög margt sem vinnst með þessu. Við komum í veg fyrir félagslega einangrun fólks. Margir sem hætta að vinna koðna einfaldlega niður og missa hluta af lífsviljanum að því er virðist, verða jafnvel fyrir heilsuskerðingu af því einungis að setjast í helgan stein og hafa ekki þann sama tilgang eins og þeir höfðu áður.

Að okkar dómi sem stöndum að þessu máli, sem eru auk mín hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Páll Jónsson og Birgir Þórarinsson, er það skref í rétta átt að gefa fólki kost á því að vinna sjálfu sér til heilla og þjóðfélaginu til gagns til 73 ára aldurs ef það kýs svo.

Ég vona að eftir þessa umræðu fái frumvarpið vandaða meðferð í efnahags- og viðskiptanefnd, geri ég ráð fyrir, þannig að við getum notað þann auð sem býr í þessu góða fólki. Ég vonast eftir góðri umræðu um þetta mál og góðri afgreiðslu.



[16:25]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er fremur karllægt í salnum fyrir utan virðulegan forseta, en það er nú kannski ekki umræðuefni hér. Ég þakka hv. frummælanda Þorsteini Sæmundssyni fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Ég held að það sé tímabært. Það er ýmislegt sem hann sagði sem vert er að vekja athygli á og ég tek undir flest, ef ekki allt sem hv. frummælandi sagði í framsögu sinni.

Það er alveg ljóst að sem betur fer lifum við lengur. Lífsvon okkar er meiri en afa okkar og ömmu. Við erum við betri heilsu lengur en áður, starfsþrekið meira og svo framvegis. Einhver mesti fjársjóður sem við Íslendingar eigum er auðvitað mannauðurinn sjálfur. Þess vegna eigum við að nýta hann með sem bestum hætti og lofa fólki að nýta sinn eigin mannauð með þeim hætti sem það kýs.

Þar af leiðandi eru engin rök sem ég tek gild sem mæla með því að opinberir starfsmenn skuli endilega láta af störfum um sjötugt. Það sem vefst fyrir mér er af hverju miðað er við 73 ár í frumvarpinu. Það stakk mig eiginlega. Ég hefði skilið 75 ár, það er hálfur tugur. En 73 ár? Það hljóta að vera einhver ákveðin rök fyrir því hjá þeim sem standa að baki þessu frumvarpi. Ég veit að hv. þingmaður mun leiða mig í allan sannleika um það, nema ég hafi misskilið eitthvað og við getum sameinast um að hafa það 75 ár.



[16:27]
Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta. Líkt og ég sagði fyrr í dag veit ég að í brjósti hans býr jafnaðarmannshjarta sem kemur í ljós æ ofan í æ. Hvers vegna 73 ár? spyr hv. þingmaður. Ég get t.d. bent á að ef við skoðum upplýsingar um atvinnuþátttöku eins og hún er núna þá minnkar hún mjög eftir 73 ára aldur.

Þegar talan 73 ár kom fram við undirbúning þessa máls sagði ágætur maður sem ég hitti, sem er mikill sérfræðingur á þessu sviði: Já, 73 ár, það er ágætt fyrsta skref.

Ég man þá tíð þegar við hv. þingmaður sátum saman í þeirri nefnd sem ég nefndi áðan. Þá ræddu menn möguleikann á því að fólk gæti verið í vinnu alveg fram undir áttrætt.

Það eru hins vegar ýmis mál sem gæta þarf að, það þarf jú að vera ákveðin endurnýjun. Við erum náttúrlega með töluverðan stabba af vel menntuðu háskólafólki sem er atvinnulaust. Við þurfum að taka tillit til ýmislegs.

En ég sé þessa tölu, 73 ár, sem fyrsta skrefið af fleirum. Okkur fannst fullbratt að fara með þetta upp um hálfan áratug og tókum þess vegna þann pól í hæðina að gera þetta svona, láta reyna á þetta, sjá árangurinn, sjá eftirspurnina hjá þeim sem eiga þess kost og taka málið áfram þaðan.



[16:30]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég skil rökin núna fyrir 73 árum. Ég er ekki alveg viss um að ég ætli að skrifa upp á þau að óbreyttu. Ég held að 75 ár sé miklu betri hugmynd, en látum það liggja milli hluta. Ég held að það kunni nú að flækjast eitthvað fyrir stéttarfélögum opinberra starfsmanna, ég hygg að það þurfi að huga að því. Þetta er auðvitað hluti af miklu stærra máli. Við vorum að glíma við það að hækka eftirlaunaaldur og færa hann í skrefum upp í 70 ár og jafnframt væri sá sveigjanleiki að geta hafið lífeyristöku 65 ára og frestað til áttræðs. Það náðist því miður ekki samstaða um það. Ég var sjálfur ósáttur við þá tillögu að þetta yrði gert á 24 árum. Ég tel að það þurfi að gera þetta miklu hraðar og tel skynsamlegt að miða við tólf ár í þeim efnum, tólf ár er ágætur tími fyrir okkur eða mig sem er á þessum aldri, það er nú það sem ég á eftir. Nema að þetta frumvarp nái fram að ganga og ég gerist opinber starfsmaður fram til 75 ára, það verði þannig.

Hugmyndin að baki þessu frumvarpi er góð. Ég styð það sem er reynt að ná fram. Ég skil rökin að baki 73 árum. Ég óttast hins vegar að ef menn eru ekki tilbúnir að taka skrefið upp í 75 ár þá verði þetta um næstu áratugi 73 ár. Þegar við horfum til þeirrar þróunar sem mun verða áfram, (Forseti hringir.) að lífaldur og starfsgeta fólks verður alltaf meiri (Forseti hringir.) þrátt fyrir hærri aldur, þá held ég að það sé skynsamlegt að gera þetta eins og ég legg til.



[16:32]
Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir upplífgandi andsvar. Þetta mál fer til meðferðar í nefnd. Þar munu menn væntanlega fá að heyra formleg viðbrögð stéttarfélaganna við þessari hugmynd. Ég hef aðeins skýrt forystumönnum frá því sem hér er í undirbúningi. Ég fékk svo sem ágætisviðbrögð við því. En ég vænti þess að þau félög og þau samtök muni senda inn umsagnir um þetta mál.

Sjálfur sé ég ekkert því til foráttu að mörkin séu 75 ár. Það er kannski innbyggð íhaldssemi í þann sem stendur hér að taka stutt skref og örugg, sem veldur því að þessi árafjöldi var valinn og ég seldi félögum mínum þá hugmynd.

En ég tek hins vegar undir það sem hv. þingmaður segir: Þetta frumvarp eitt og sér er einn liður í því að við örvum aldraða, sem það kjósa og geta, til að taka virkan þátt í atvinnulífinu eins lengi og þeir kjósa. Í staðinn fyrir að leggja stein í götu þeirra á þeirri vegferð eigum við að reyna að gera hana greiðari. Það er til eitthvað sem á ensku kallað er — ég bið hæstv. forseta afsökunar — „win-win“. Ég get ekki betur séð en að allir vinni á því að mál eins og þetta komi fram vegna þess að sá auður sem býr í þessu góða fólki nýtist þjóðfélaginu og því verður gert kleift að eiga innihaldsríkara líf og taka fullan þátt í þjóðfélaginu lengur en nú er.



[16:34]
Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni og meðflutningsmönnum hans, fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Það er ánægjulegt að heyra hversu vel hv. þm. Óli Björn Kárason tók í frumvarpið sem gefur góða von um framgang þess í framhaldinu. Það er sannarlega kominn tími til að tekin sé umræða um einmitt þetta, hvort ekki sé eðlilegt að mönnum verði gert kleift að vinna lengur ef þeir sjálfir kjósa. Það er mönnum í lófa lagið sem vinna í einkageiranum. Þeir vinna einfaldlega eins lengi og þeir sjálfir kjósa, nenna og þurfa.

Hér erum við að fjalla um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem gengur út á það að ríkisstarfsmenn geti unnið til 73 ára aldurs. Ég var einmitt að velta fyrir mér þessu aldursmarki, 73 ára aldri, og við fengum skýringar á því hérna áðan. Eftir þann aldur, á því bili, fækkar þeim sem eru úti á vinnumarkaði. Ég myndi kannski spyrja: Af hverju ekki 80 ára? Menn geta þá hætt þegar þeir vilja. Ef þeir vilja hætta 73 ára eða 75 ára þá hætta þeir, en heimildin yrði kannski ekki svona knöpp. Hv. þm. Óli Björn Kárason óttaðist það að ef markið yrði sett við 73 ára aldurinn þá yrði það óbreytt næstu áratugi. Ég hef nú ekki svona litla trú á Alþingi Íslendinga, að það sé svo erfitt að breyta lögum en hv. þingmaður er með lengri reynslu en ég, kannski talar hann af þeirri reynslu. Ég á bágt með að trúa því að þetta verði svo erfitt. Aldursmarkinu er unnt að breyta í nefndinni og þetta kemur til umræðu þar að sjálfsögðu.

Það er kannski eitt sem ég myndi vilja benda á og óttast, það er þetta með þaulsetu ríkisstarfsmanna, sérstaklega forstöðumanna. Það þarf einhvern veginn að girða fyrir það. Ef markið yrði sett við 75 ára aldur þarf að girða fyrir þaulsetuna, gera auðveldara fyrir ríkið að losa menn út. Það hefur ekki verið þannig núna og menn sitja sem fastast og þeir hafa mikil réttindi til að sitja áfram og það eru lítil ráð til að stemma stigu við því. Ég held að það þurfi að skoða það í samhengi, sérstaklega ef aldursmarkið yrði fært eitthvað hærra en það er í frumvarpinu.

Það þekkja allir dæmi þess að kraftmiklum einstaklingum sem hafa margt fram að færa úti á vinnumarkaðnum sé gert að hætta störfum allt of snemma. Það þekkja allir dæmi um það. Þeir eru oft ansi óánægðir með starfslokin, fullir starfsorku og hafa það sem skiptir mestu máli, mikla starfsreynslu. Það er kannski einn mesti galli nútímasamfélagsins hversu mjög ungu fólki er hampað á vinnumarkaði. Eldra fólk er oft afskaplega lítið eftirsótt að algerri ósekju því þar er auðvitað reynslan en einnig ýmislegt annað, oftast t.d. mikil vinnusemi og framúrskarandi samviskusemi. Eldra fólk er afskipt þegar það leitar eftir vinnu eða starfi. Það er oft hreinlega afskrifað, en það er auðvitað önnur umræða. Við verðum samt að taka þá umræðu hér hvernig við getum sem þjóðfélag komið því þannig fyrir að starfsreynsla þeirra sem eru komnir yfir miðjan aldur sé betur metin.

Þjóðin er að eldast og aldurssamsetning hennar breytist ört. Nú er svo komið að það stefnir í lýðfræðilegt vandamál. Búast má við því að sífellt færri vinnandi hendur séu að störfum. Ein orsökin er fækkandi barneignir og önnur er að meðalævilengd hefur hækkað mikið hér á landi og í öðrum vestrænum löndum. Ævilengd kvenna á Íslandi hefur hækkað frá árinu 1986 úr 80 árum upp í 82 ár árið 2000 og upp í tæp 84 ár árið 2016 eða um fjögur ár. Ævilengd karla hefur hækkað á sama tíma úr tæpum 75 árum frá 1986 upp í 78 ár árið 2000 og upp í tæplega 81 ár árið 2016 eða um sex ár. Ævilengd kvenna og karla hefur hækkað um fjögur ár annars vegar og sex ár hins vegar en frumvarpið gerir ráð fyrir hækkun um þrjú ár í starfi ríkisstarfsmanna. Ég vildi aðeins benda á þetta, að ævilengd hefur hækkað að meðaltali á þessum 30 árum um fimm ár. Lífslíkur hér á Íslandi eru með þeim hæstu í Evrópu.

Lög þau sem breyta á með þessu frumvarpi, lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eru stundum kölluð starfsmannalögin. Þau öðluðust gildi 1. júlí 1996 og eru því bráðum 22 ára. Lögin taka til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar. Lögin taka þó ekki til forseta Íslands, ráðherra eða alþingismanna. Alþingismenn geta starfað eins lengi og kjósendur sjálfir ákveða. Lögin taka ekki heldur til starfsmanna hlutafélaga og annars konar félaga einkaréttarlegs eðlis, jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins né heldur starfsmanna stofnana sem að einhverju eða öllu leyti eru í eigu annarra en ríkisins, þar á meðal sjálfseignarstofnana, jafnvel þótt þær séu einvörðungu reknar fyrir framlög frá ríkinu, þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því.

Í frumvarpinu sem hér liggur frammi er gert ráð fyrir breytingu á 33. gr. laganna og 43. gr. laganna sem tekur til allra ríkisstarfsmanna, bæði embættismanna og annarra ráðinna ríkisstarfsmanna. Nú er það svo í dag að allir ríkisstarfsmenn, bæði embættismenn og aðrir starfsmenn, þurfa að láta af störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að þeir ná 70 ára aldri. Þannig er þetta í dag.

Loks hvet ég menn til að standa saman að þessu frumvarpi sem er einungis ívilnandi fyrir starfsmenn. Þeim er gefinn kostur á að vinna lengur ef starfsorka þeirra er með þeim hætti. Ég veit að margir verða ánægðir með framkomu þessa frumvarps og möguleika til að vinna lengur. Þetta eykur lífshamingju fólks eins og frummælandi nefndi. Hvað er þarfara en einmitt það? Með lögunum mun ríkisstarfsmönnum líka gefast kostur á því að auka við uppsöfnuð lífeyrisréttindi sín og fyrir fólk sem einhverra hluta vegna byrjar störf síðar á ævinni, t.d. vegna náms eða það hverfur úr öðrum störfum og byrjar hjá ríkinu síðar á ævinni, þá er þetta til bóta. Ég endurtek að þetta frumvarp er að mínu mati afskaplega þarft og hvet til upplýsandi umræðu um það.



[16:43]
Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni Karli Gauta Hjaltasyni kærlega fyrir þessa ræðu og þakka honum þann áhuga sem hann sýnir þessu máli. Hann hreyfði að mínu mati við athyglisverðum punkti sem ekki rataði inn í frumvarpið en hefur í nokkurn tíma verið áhugamál þess sem hér stendur þegar hann talaði um þaulsetu. Eins og hv. þingmaður veit varð sú breyting á með lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, að í stað þess að embættismenn væru æviskipaðir voru þeir skipaðir í fimm ár í senn. Það var væntanlega gert til að opna á að ríkið sem vinnuveitandi gæti auglýst starf t.d. forstöðumanna og embættismanna á fimm ára fresti.

Hins vegar hefur framkvæmd laganna orðið þannig frá 1996 að störf hafa yfirleitt til þessa ekki verið auglýst á fimm ára fresti nema eitthvað hafi komið upp á, eitthvað hafi verið að. Það er alla vega sú tilfinning sem menn hafa fengið. Það eru að vísu til heiðarlegar undantekningar frá því. En mér hefði persónulega fundist að það ætti að vera ófrávíkjanleg regla að störf sem skipað er í á vegum ríkisins væru auglýst á fimm ára fresti. Sá sem situr í embættinu getur að sjálfsögðu sótt um og hefur þá forskot, bæði af út af reynslu sinni og ferli, eða þá hefur ríkið möguleika til þess að miða við fimm ára skipunartíma til að koma í veg fyrir þaulsetu, eins og hv. þingmaður orðaði það svo ágætlega.



[16:45]
Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Þetta er alveg þekkt í ríkisgeiranum sem ég starfaði lengi hjá, og starfa kannski enn, það er þessi þaulseta. Þetta er viðvarandi vandamál veit ég. Þessi fimm ára regla virkar ekki alveg, að mínu mati. Menn sitja næstum því eins lengi og þeir sjálfir kjósa nema þeir brjóti óskaplega mikið af sér í starfi og eru látnir fara þess vegna, sem er sjaldgæft eins og allir vita. Ríkisstarfsmenn sérstaklega, forstöðumenn og embættismenn sem eru hluti ríkisstarfsmanna, hafa afskaplega mikil réttindi í dag. Dómar ganga þeim iðulega í vil sem veldur bótaskyldu ríkisins.

En varðandi þessa fimm ára skipun, ef ég kem kannski aðeins inn á hana meðan ég hef tíma, þá er það auðvitað matsatriði. Að vera fimm ár í starfi, nýju starfi, er kannski stuttur tími en er orðinn langur tími þegar menn eru búnir að vera í kannski 20 ár og bæta við fimm árum í viðbót. Menn eru kannski ekki komnir inn í starf eftir fimm ára setu í nýju starfi, en mín reynsla segir að tími frá fimm til tíu árum sé happadrýgstur. Menn eru þá farnir að þekkja starfið og kunna á alla þræði þess, mér finnst því kannski ekki alveg rétt að hrekja menn úr starfi eftir fimm ár, ekki nema þeir hafi sérstaklega brotið eitthvað af sér. En það má alveg endurskoða þetta, að menn sem standa ekki sína plikt verði settir út fyrir.



[16:47]
Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú gætti örlítils misskilnings hjá honum. Ég talaði reyndar um að auglýsa hvert starf eftir fimm ár og að viðkomandi gæti þá sótt um. Ég tek alveg heils hugar undir með honum að fimm, tíu eða fimmtán ára starfstími í embættismennsku eða forstöðumennsku er náttúrlega um fljótur að líða. Menn eru þá að komast inn í starfið og reyna að gera allt vel. En ég tek alveg undir það.

Það er reyndar annað sem ekki hefur ratað í lög en ég veit að hefur alla vega verið til skoðunar í Stjórnarráði Íslands, þ.e. að maður sem ráðinn er í ákveðið ráðuneyti geti ferðast um milli ráðuneyta. Þá sé notað ákvæðið í starfsmannalögunum sem segir að hægt sé að færa starfsmenn til í starfi. En það hefur líka með starfsþróun hvers og eins að gera, að t.d. maður sem ráðinn er sem sérfræðingur, deildarstjóri eða skrifstofustjóri og skipaður í fjármálaráðuneyti, gæti alveg eins ferðast um og farið yfir í dómsmálaráðuneyti eða hvaða annað ráðuneyti sem er. Þá lítur Stjórnarráðið á sig sem einn vinnustað í staðinn fyrir mörg ráðuneyti.

Það eru svona hlutir sem hægt er að hafa í huga. Þetta gagnast starfsmönnum örugglega mjög vel og er hluti af ákveðnu starfsþróunarferli hvers og eins. Menn geta þá viðað að sér meiri og margvíslegri reynslu en ef þeir sætu á sama póstinum heila starfsævi eða í 20 ár eða eitthvað slíkt. Ég held að allt svona sem við opnum á gæti orðið til þess að bæði ríkinu og viðkomandi starfsmönnum liði betur hverjum með annan.



[16:49]
Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Varðandi auglýsingarnar, nei, ég misskildi það svo sem ekki. Í fyrsta lagi hefur það ekki verið notað nema í algerum undantekningartilvikum, tilvik sem hafa kannski verið mjög umdeild og forstöðumenn taka því óstinnt upp þegar þeirra starf er skyndilega auglýst.

Varðandi það að flytja menn til í starfi. Það lítur mjög fallega út en það er nú oft þannig að viðkomandi tekur það oft, ekki alltaf, óstinnt upp að vera fluttur til í starfi. Þetta snýst voðalega mikið um virðingu og sóma og slíkt þannig að þegar menn eru fluttir til þá finnst þeim vegið að sínum sóma nema auðvitað þeir séu fluttir hærra. Þó að það sé auðvelt að tala um þetta þá er erfiðara að framkvæma þetta og menn stimpast mjög illilega á móti ef svona kemur til tals, ef þetta er fært í tal við þá. En svo er hinn hluturinn líka, það er verið að flytja menn í starf sem er kannski hærra sett en þeir voru í áður. Þá koma auðvitað líka upp gagnrýnisraddir og sagt: Af hverju var þetta starf ekki auglýst? Við höfum auðvitað oft séð það.



[16:51]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir ágætisræðu í máli þessu. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hér er verið að leggja til að þeir sem starfa á vegum ríkisins geti starfað lengur en til sjötugs, en eins og lögin eru nú þurfa þeir að hætta umsvifalaust 70 ára gamlir. Hv. þingmaður fór vel yfir lög þess efnis og með hvaða hætti það gerist.

Ég vil segja það hér að ég er hlynntur þessu máli. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að ævi karla og kvenna hafi lengst að meðaltali um fimm ár, sem er vel. Fólk hefur meiri styrk fram eftir aldri og er hressara almennt en áður.

Ég sé í raun ekki neitt sem mælir gegn því að þeir haldi áfram að starfa sem hafa getu og vilja til. Allar vinnumarkaðsrannsóknir frá Hagstofunni sem við skoðum hér og eru gagnlegar til síns brúks miða við starfsaldurinn frá 16 til 74 ára. Hér er verið að leggja til 73 ár. Hv. þingmaður kom aðeins inn á árafjöldann. Ég spyr hvort hann hafi sterkar skoðanir á því hversu mörgum árum eigi að bæta við. Svo er ég í raun að kalla eftir rökum. Ég er svolítið hissa að þetta mál hafi ekki komið fram fyrr eða að mikið ákall hafi verið eftir því frá t.d. aðilum vinnumarkaðarins. Af hverju skyldi það ekki hafa verið? Hefur hv. þingmaður hefur einhver svör við því?



[16:53]
Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir andsvarið.

Ég er glaður yfir því að heyra að þingmaðurinn horfi jákvætt á frumvarpið, en hann spyr mig af hverju það hafi ekki komið fyrr. Ég er nú tiltölulega nýkominn inn í sali Alþingis þannig að ég veit ekki af hverju hann spyr um það. Hann er kannski að leita eftir ástæðu sem gæti leynst einhvers staðar, sem ekki sést í greinargerðinni. Mér dettur svo sem ekkert í hug af hverju, alls ekki.

En ég held að þetta frumvarp sé gott, menn auka uppsafnaðan lífeyri á þessu. Menn eru ekki neyddir til að halda áfram, geta hætt fyrr. Ég sé því ekki neitt nema ívilnandi við frumvarpið og vil endilega vita ef einhver sér eitthvað annað að á það verði þá bent, hvort það sé íþyngjandi einnig. Ég get ekki séð það.

Hvað mörgum árum á að bæta við? Þarna er verið að bæta við þremur árum, ef ég skildi spurninguna rétt, úr 70 árum í 73 ár. Ég held að það sé alveg óhætt, ef kemur í ljós að frumvarpið er einungis ívilnandi, að fara upp í 75 ár eins og hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi.



[16:55]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Af hverju hefur þessi hugmynd ekki komið fram fyrr? Ég er í sömu stöðu og hv. þingmaður, ég á ekki langa þingsetu að baki, en ekki hefur verið mjög áberandi ákall um þetta atriði. Mér finnst það skrýtið, bæði út frá því hvernig samfélagið hefur þróast og, eins og hv. þingmaður kom vel inn á í ræðu sinni, hvernig meðalævilengd hefur þróast; við höfum meiri styrk og getu, sem er vel. Þess vegna er undarlegt að þetta hafi ekki komið fram áður.

Við höfum líka orðið vör við umræðu um að samræma almenna vinnumarkaðinn og opinbera markaðinn. Það er svo sannarlega ekki samræmi þar á milli þegar kemur að þessum þætti, sem mér finnst þó einhvern veginn blasa við. Maður veltir fyrir sér af hverju frumvarp þessa efnis hafi ekki komið fram fyrr. Ég hef alla vega ekki orðið var við það. Það var ekkert annað á bak við vangaveltur mínar.

Ég velti því fyrir mér varðandi þessi ár, hvort það eigi að skoða betur til samræmis við almenna markaðinn og hvort einhver takmörk þurfi að vera á því í raun og veru. Auðvitað fer þetta mál til umfjöllunar í nefnd og umsagnir koma um það. Ég geri ráð fyrir því að aðilar vinnumarkaðarins komi með umsagnir við þetta mál. En auðvitað gætu ein rökin gegn þessu verið þau að hleypa að ungu fólki, menntafólki, sem sumt er á atvinnuleysisskrá. Þá lokast að einhverju marki fyrir þennan möguleika. Það má vera að einhver slík rök búi þarna að baki.



[16:57]
Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir þetta andsvar. Það sem mér dettur helst í hug að gæti verið ástæðan fyrir því að þetta frumvarp hafi ekki komið fram fyrr er að ríkisstarfsmenn hafi svona góð lífeyrisréttindi. En ég hef nú heyrt ansi marga kvarta yfir því að þau séu ekki nægilega góð.

Ég held að mjög margir sem hafa starfsorku, og þeim fjölgar sífellt, myndu gjarnan vilja vinna lengur, í eitt, tvö, þrjú ár, kannski jafnvel lengur. Mjög margir hafa enn fulla starfsorku á þessum aldri, sem betur fer. Lífaldur á Íslandi hefur hækkað ansi mikið, eins og ég nefndi. Frá 1986 hefur lífaldur kvenna hækkað um fjögur ár og á sama tíma hefur lífaldur karla hækkað um heil sex ár. Við erum að tala um allt annað þjóðfélag en var hérna þegar þessi lög voru sett, allt annað þjóðfélag. Ég er í engum vafa um að þetta frumvarp verður rætt í nefnd og að kallað verður eftir umsögnum frá hagsmunaaðilum og þeim sem láta sig málið varða. Þá fáum við náttúrlega að heyra afstöðu þeirra.



[16:59]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Þetta er gott mál, þetta er sanngjarnt mál, þetta er heilbrigðismál og þetta er frelsismál. Ég tel rétt að Alþingi samþykki frumvarpið með þeirri athugasemd að ég tel að til bóta væri að hækka aldursviðmiðið. Fleira hef ég ekki um málið að segja.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.