148. löggjafarþing — 40. fundur
 19. mars 2018.
fækkun rúma fyrir vímuefna- og áfengissjúklinga.

[15:25]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Frá 1985 hefur heilbrigðisráðuneytið fækkað sjúkrarúmum sem ætluð eru til meðferðar vímuefna- og áfengissjúklinga úr 265 niður í 62. Þetta er 400–500% fækkun á þessu tímabili, á sama tíma og þörfin hefur aldrei verið meiri til að stíga inn og hjálpa þessum þjóðfélagshópi.

Staðreyndin er sú að á meðan 500–600 Íslendingar, áfengis- og vímuefnasjúklingar, bíða eftir því að fá úrræði og hjálp deyja þau. Þau deyja á þessum biðlista, við getum líkt þessu við það, hæstv. forseti, að fólki væri meinað að fara á bráðamóttökuna vegna þess að það á að bíða fyrir utan og getur þá bara dáið á meðan.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Er það viðunandi að við skulum vera í samtali á meðan við þurfum að vera með aðgerðir, á meðan við þurfum að stíga inn, í ljósi þess að það er ekki verið að biðja um háar peningaupphæðir? Við erum að tala um baunir í samanburði við það lífsins alvörumál sem það er þegar við getum ekki stigið inn og hjálpað fólkinu okkar sem þarfnast þeirrar hjálpar meira en nokkuð annað.

Hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað ertu að gera fyrir þetta fólk?



[15:27]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir samtalið. Hún spyr í sinni fyrirspurn hvort viðeigandi sé að eiga í samtali. Það er okkar verkefni að vera í því og þess vegna spyr hv. þingmaður mig væntanlega vegna þess hversu viðeigandi það er að við ræðum málin á vettvangi þingsins.

Það mikilvægasta af öllu sem við erum að gera á vettvangi framkvæmdarvaldsins snýst um að koma geðheilbrigðisstefnunni til fullrar framkvæmdar. Áfengis- og vímuefnavandi er geðheilbrigðisvandamál. Við þurfum að beina sjónum okkar enn meira að forvörnum en við höfum gert. Við þurfum að horfast í augu við breytingar sem eru að verða á sýn samfélagsins, við þurfum að geta boðið upp á meðferðarúrræði sem virkar í nærumhverfi. Það eru auknar áherslur á slíkar lausnir í áfengis- og vímuvörnum víðs vegar, þ.e. að fólk sem glímir við slíkan vanda lifir ekki í tómarúmi heldur á þetta fólk fjölskyldur og umhverfi. Vandinn er fjölþættur og hefur líka áhrif á nærumhverfið.

Alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að fleiri slæmar upplifanir sem barn lendir í í æsku hafi síðan áhrif á að það þrói með sér bæði heilbrigðis- og félagsvanda síðar á ævinni. Þetta er orðið viðfangsefni bæði heilsugæslunnar, þeirra sem vinna með forvarnir en ekki síst þeirra sem vinna með geðheilbrigðismál á öllum stöðum, bæði á spítölunum og í heilsugæslunni.

Hv. þingmaður spyr mig hvað ég sé að gera í þessu. Þetta mál verður ekki leyst með framlagi til eins tiltekins aðila. Því miður. Þá væri það einfalt mál. Við þurfum að horfa til þess að þetta er flókið viðfangsefni, flókið fyrir samfélag (Forseti hringir.) eins og okkar að takast á við og við eigum að hafa kjark í að skoða þetta í öllum lögum heilbrigðiskerfisins.



[15:29]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég er harla döpur yfir þessu engu-svari sem ég fékk. Í raun var þetta hálfgerður útúrsnúningur hjá hæstv. heilbrigðisráðherra því að ég er ekki að biðja um sérstakt samtal einungis við hana, ég er að biðja um svör við spurningunni hvað sé til ráða núna. Í fyrsta lagi um þá staðhæfingu að hér sé aðallega um geðheilbrigðisvanda að ræða, það er bara alrangt. Og í öðru lagi er svolítið sérstakt að ætla að halda því fram að það myndi ekki skipta sköpum að veita fjármagn þangað sem hjálpina er að finna, þ.e. á sjúkrahúsinu Vogi, sem er með starfsemi SÁÁ og er sú sérfræðiþjónusta, þekking og menntun sem hefur verið tengd við Landspítala – háskólasjúkrahús og hefur unnið stórkostlegt starf og þrekvirki í þessum málaflokki.

Ég bið hæstv. heilbrigðisráðherra að svara spurningum með öðru en því sem ég lít á sem útúrsnúninga — og ekkert svar. Ég er orðin hálfleið á að standa hér í óundirbúnum fyrirspurnum og koma til baka með ekkert svar.



[15:30]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef hv. þingmaður er orðinn leiður á þingstörfunum (IngS: Það voru ekki mín orð.) en það var ekki mín meining að vera hér með útúrsnúninga, alls ekki, heldur langar mig að reyna að varpa ljósi á hversu flókið viðfangsefnið er. Það varðar ekki bara einn aðila á þessum vettvangi.

Þá vil ég líka nefna það að þær breytingar sem ég nefndi í mínu fyrra svari hafa áhrif á áfengis- og vímuefnameðferð í víðum skilningi,. Til að mynda er sífellt lögð meiri áherslu á göngudeildarþjónustu heldur en innlögn og það er eitthvað sem við sjáum að virkar vel fyrir marga. Þess vegna þurfum við að horfa til þess að leiðirnar sem voru kannski meira notaðar hér áður fyrr henta ekki öllum, það er ekki ein stærð sem hentar öllum. Það þarf að fara í víðtæka skoðun á því hvað hentar best og auðvitað þarf að fjármagna það og það þurfum við að gera í fjárlögum hvers árs, það er vettvangurinn sem við (Forseti hringir.) notum til að fjármagna einstök úrræði. Ég vænti þess að við munum hafa það til umræðu þegar það verður rætt síðar á þessu ári.