148. löggjafarþing — 40. fundur
 19. mars 2018.
boðaður niðurskurður opinberrar þjónustu.

[15:53]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til nýkjörins varaformanns Sjálfstæðisflokksins, en um leið óska ég henni til hamingju með kjörið. Á þessum landsfundi Sjálfstæðisflokksins áttu sér stað mjög stór pólitísk tíðindi. Í ályktun flokksins segir, með leyfi forseta:

„Árið 2016 námu opinber útgjöld 45% af landsframleiðslu.“

Síðan segir í ályktuninni, og í því liggja tíðindin:

„Stefnt skal að því að útgjöld hins opinbera verði ekki hærri en 35% af landsframleiðslu.“

Hvað þýða þessar tölur, ágæti þingheimur? Að skera niður opinber útgjöld um 10 prósentustig af landsframleiðslu eins og Sjálfstæðisflokkur boðar núna þýðir niðurskurð upp á 260 milljarða kr. Annar forystuflokkurinn í þessari ríkisstjórn vill skera niður opinbera þjónustu um 260 milljarða kr. á næstu árum á sama tíma og þessi flokkur, og reyndar Vinstri græn einnig, segir ítrekað við þjóðina að hér eigi að ráðast í umfangsmikla innviðauppbyggingu, menntasókn og björgunarleiðangur heilbrigðiskerfisins.

Hér er hins vegar verið að boða blóðugan niðurskurð af slíkri stærðargráðu að ég hef aldrei séð annað eins, ekki einu sinni þegar við vorum að vinna okkur upp úr hruninu.

Ég vil því spyrja forystumanneskju þessa flokks og ráðherra nýsköpunarmála: Hvar mun niðurskurður lenda? Hvaða sjúkrahúsum ætlið þið að loka? Hvaða niðurskurður blasir við skólunum okkar? Hvaða laun munuð þið lækka? Hjúkrunarfræðinga? Kennara? Lögreglumanna? Hvernig mun þessi blóðugi niðurskurður gagnast öldruðum sem lifa við og undir fátæktarmörkum eða þeim 6 þúsund börnum sem lifa við fátækt í okkar samfélagi?

Þið verðið einfaldlega að svara þessu hér í þessum sal.



[15:55]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Heilt yfir er um þetta að segja að á landsfund Sjálfstæðisflokksins mæta yfir þúsund manns og koma sér saman um ákveðna hugmyndafræði. Sú hugmyndafræði í mínum huga er í grunninn að við reynum að stækka kökuna og við eyðum minni tíma í það að ræða það hvernig eigi að skipta henni vegna þess að ef við horfum of mikið á það, en ekki að stækka hana, þá lendum við í erfiðleikum með að skipta henni.

Þessi prósentutala af vergri landsframleiðslu í opinber útgjöld er eitthvert markmið í ályktun. Allt annað í ályktun Sjálfstæðisflokksins gengur út á það að gera íslenskt samfélag sterkara og betra og við vitum öll að við gerum það með góðu og öflugu menntakerfi, góðu heilbrigðiskerfi, sem er opið fyrir alla, óháð efnahag.

Almennt um þetta vil ég segja að við erum að vinna að fjármálaáætlun þar sem stefna Sjálfstæðisflokksins í þessu ríkisstjórnarsamstarfi birtist. Við höfum auðvitað, á síðustu fjárlögum og erum einnig með skýr skilaboð um það í stjórnarsáttmála, boðað það að styrkja einmitt innviði samfélagsins en höfum ekki talað fyrir blóðugum niðurskurði. Það er líka stór munur á því að setja aukin útgjöld í málaflokka og verkefni sem gera Ísland sterkara og betra, en það er alveg hægt að horfa á ýmis verkefni sem eru unnin sem einhverjir aðrir geta mögulega sinnt. Það er munur á því að ræða að gera heilbrigðiskerfið sterkara, eða að allar tegundir af skriffinnsku séu inni í öllum opinberum stofnunum.



[15:57]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þetta eru ótrúleg svör. Hér er talað eins og ályktanir Sjálfstæðisflokksins séu meira til heimabrúks, svona málfundaræfingar og innstæðulausar með öllu. Auðvitað eru 260 milljarða niðurskurður blóðugur niðurskurður. En við fáum engin svör. Hvernig ætlar þessi flokkur, forystuflokkur í þessari ríkisstjórn, að ná þessu fram? Svo skulum við ekki gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði einn flokka hundrað milljarða kr. innviðauppbyggingu. Núna er hann að boða 260 milljarða kr. niðurskurð.

Mér sýnist Sjálfstæðisflokkurinn vera með tvær tegundir af hagstjórn. Hann er með vonda hagstjórn sem lýtur að því að lækka skatta og auka útgjöld á sama tíma og allir hagsmunaaðilar eru sammála um að gengur ekki upp. Svo er það hin ómögulega hagstjórn, það er sú hagstjórn sem við sjáum hér, að lofa 100 millj. kr. innviðauppbyggingu á sama tíma og þau ætla að skera niður um 260 milljarða í opinberri þjónustu.

Mér sýnist þessi ályktun vera sömuleiðis köld vatnsgusa fyrir kjósendur í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga sem eru nú fram undan. Hvernig ætla frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningum að svara því hvernig þeir ætla að ná fram þessum niðurskurði? Hvaða leikskólum á að loka? (Forseti hringir.) Hversu mikið á að lækka laun kennara o.s.frv.? Þetta geta ekki bara verið orðin tóm. Þetta er stefna forystuflokks (Forseti hringir.) í ríkisstjórn. Hann þarf að standa við þess orð sín.



[15:58]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir mikinn áhuga á landsfundarályktunum Sjálfstæðisflokksins. Ég hvet hv. þingmann til að lesa þær allar og lesa hvað þar er sagt. Þar er mikið rætt um hvernig við ætlum að efla íslenskt samfélag.

Svo langar mig að koma því hér líka á framfæri að útgjöld ríkissjóðs aukast um 56 milljarða milli fjárlagafrumvarpa 2017 og 2018, sem eru 7,4%. Mesta aukningin er til málefna aldraðra og sjúkrahúsþjónustu, og málefna örorku og fatlaðra. Við erum hér með stjórnarsáttmála. Við erum að vinna góða vinnu. Stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins birtist eins og áður sagði í fjármálaáætlun og í störfum Sjálfstæðisflokksins í núverandi ríkisstjórn. Þar eru verkefnin á þá leið að gera Ísland betra. Það er gert með því að innviðir landsins verði mjög öflugir. Að því er unnið.