148. löggjafarþing — 40. fundur
 19. mars 2018.
vinna við réttaröryggisáætlun.
fsp. ÞKG, 338. mál. — Þskj. 449.

[17:45]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra: Hversu langt er vinna við gerð réttaröryggisáætlunar komin innan ráðuneytisins? Hvenær telur hæstv. ráðherra að þeirri vinnu allri muni ljúka? Ég veit að vinnan er komin mislangt á veg, en það er mikilvægt að fá að vita hvar þetta mikilvæga mál er statt. Það á rætur að rekja til ársins 2015, minnir mig, þegar rætt var innan þáverandi ríkisstjórnar að móta og setja á laggirnar réttaröryggisáætlun. Hún tekur til löggæslunnar, ákæruvaldsins, fullnustuáætlunar og dómstólanna.

Með þeirri áætlun var í fyrsta sinn unnið að heildstæðri nálgun varðandi réttarvörslukerfið, framtíðarskipan þess, og síðan það, sem er ekki síður mikilvægt, fjárveitingar til réttarvörslukerfisins og langtímaáætlanir mótaðar við kerfið og stofnanir. Varðandi það sem við höfum verið að ræða í dag, þ.e. fjármálaáætlun og -stefnu, skiptir máli að sjá í þeirri áætlun hvar tekið er tillit til þessara fjögurra áætlana.

Á sínum tíma sagði forveri hæstv. ráðherra í starfi að verið væri að móta framtíðarsýn réttarvörslukerfisins, einstakra þátta, og setja mælanleg markmið. Með því væri verið að setja fram stefnumótun sem samræmdist vel þeirri langtímahugsun sem við erum að reyna að koma inn í fjármál ríkisins, eins og ég gat um áðan.

Ég veit að löggæslan, ákæruvaldsáætlanir og fullnustuáætlun eru allar svo gott sem klárar, en það er eitthvað lengra í að áætlun um dómstólana klárist, kannski út af ýmsu sem gengið hefur á á liðnum misserum. Það var ekki hugsunin á þeim tíma að bregðast við einhverjum vanda sem þá var, mikið álag var á dómstólunum og á löggæslunni. Þar þarf meira fjármagn. En þarna var reynt að gefa skýra framtíðarsýn á þessum mikilvægu sviðum í samfélaginu og var mikil vinna lögð í það.

Mér leikur forvitni á að vita hvar nákvæmlega þessar áætlanir eru staddar eftir að hæstv. ráðherra tók til starfa. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að fylgja þeim eftir? Ég tel þær vera mjög brýnt hagsmunamál, eitthvað sem er gott að við vitum að fylgt sé eftir þó að ríkisstjórnir komi og fari.



[17:48]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, þessar áætlanir sem nefndar hafa verið eru komnar nokkuð langt. Þess ber þó að geta að með tilkomu laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, breyttist að verulegu leyti hvernig ráðuneytunum ber almennt að haga stefnumótun fyrir málefnasvið. Ég vísa þar sérstaklega til 20. gr. laganna. Með hliðsjón af því var m.a. talið réttara í dómsmálaráðuneytinu að sú stefnumótunarvinna sem áður hafði farið fram undir formerkjum réttaröryggisáætlunar skyldi finna sér nýjan farveg í samræmi við 20. gr. laganna um opinber fjármál.

Upphaflegt markmið réttaröryggisáætlunar var að mynda ákveðna regnhlíf utan um stefnumótun á sviði löggæslu, ákæruvalds, dómstóla og fullnustu refsinga þannig að heildarsýn fengist yfir þessa málaflokka ásamt nauðsynlegri samræmingu. Vinna við löggæsluáætlun var komin nokkuð langt á veg en önnur vinna eitthvað skemur. Löggæsluáætlunin var komin lengra en aðrar áætlanir.

Í lögunum um opinber fjármál fólst, eins og ég hef nefnt, sú breyting að núna ber ráðuneytunum að haga stefnumótun á einstökum málasviðum með aðgreinanlegum hætti. Sú skipan sem höfð var á við gerð réttaröryggisáætlunar fellur þar af leiðandi ekki vel að fyrirmælum laga um opinber fjármál. Formlega hefur vinnu við réttaröryggisáætlunina verið hætt, en afrakstur hennar verður hins vegar nýttur við áframhaldandi stefnumótun í viðkomandi málaflokkum þannig að ákæruvalds-, dómstóla- og fullnustuáætlanir verða núna gerðar í samræmi við lög um opinber fjármál.

Undantekningin frá þessu fyrirkomulagi er vinna við löggæsluáætlun sem mun halda áfram í óbreyttri mynd enda er hún langt komin, eiginlega tilbúin. Auk þess að hafa verið sérstaklega samþykkt í ríkisstjórninni á hún einnig sérstaklega uppruna sinn í þinginu og ég stefni að því að leggja löggæsluáætlun fram á næsta haustþingi.



[17:51]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Um réttaröryggisáætlun segir á vef Stjórnarráðsins, þ.e. frá 4. september 2015, að hún hafi verið rædd á samstarfsvettvangi um aukna hagsæld ef ég fer rétt með. Það er Ólöf Nordal heitin, þáverandi innanríkisráðherra, sem ávarpar fundinn og fer yfir þetta. Síðan þá hefur sá dómsmálaráðherra sem nú er setið í embætti í eitt og hálft ár. Það væri áhugavert að vita hvar þessi áætlun stendur eða alla vega þeir þættir úr þeirri áætlun sem á að nýta. Dómsmálaráðherra segir að hún ætli að koma með löggæsluhlutann af þessu, sem er eitt af þessum fjórum atriðum, í haust. En síðasta haust sagði lögreglan — það svið innan lögreglunnar sem metur áhættu — að það væri rautt hættuástand varðandi skipulega glæpastarfsemi út frá þeim formerkjum sem þeir mæla, en það er gert eins og Sameinuðu þjóðirnar gera.

Á einu ári, í tíð þess hæstv. dómsmálaráðherra sem nú situr, (Forseti hringir.) er traustið á dómstólum (Forseti hringir.) og löggæslu, þættir sem á að færa þarna yfir, farið niður um átta og sjö stig. Dómskerfið er komið niður í 33%, það (Forseti hringir.) skortir greinilega verulega á í þessu. Hvar (Forseti hringir.) stendur þetta nákvæmlega í ráðuneytinu?

(Forseti (ÞorS): Forseti biður þingmenn að virða ræðutíma.)



[17:52]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta ákveðin tíðindi. Það var samdóma álit á sínum tíma að það væri mjög mikilvægt að móta réttaröryggisáætlun. Lög um opinber fjármál tóku síðan gildi 1. janúar 2016. Það var haldið áfram að vinna að þessum áætlunum eftir gildistöku laga um opinber fjármál og mjög mikið hefur verið unnið í löggæsluáætluninni, eins og við vitum, langt komið með hana og það á að halda henni áfram. Það er gott og það er fagnaðarefni, enda kominn tími til. Ákæruvaldið var komið langt með þá vinnu og hið sama á við um fullnustuáætlunina.

Þetta skiptir gríðarlega miklu máli því að allir helstu samstarfsaðilar, undirstofnanir og fleiri, voru kallaðir til þeirrar miklu vinnu sem býr að baki þessum áætlunum. Ég get ekki betur greint en að það eigi bara að leggja allri þessari vinnu, setja hana til hliðar fyrir utan löggæsluáætlunina. Mér finnst það miður því að það er búið að vinna gríðarlega mikið að þessu. Það var merkilegt starf sem fór af stað á sínum tíma, einmitt undir forystu þáverandi innanríkisráðherra, Ólafar Nordal, en ég verð að biðja hæstv. ráðherra að tala skýrt. Fyrir utan löggæsluáætlunina spyr ég: Hvað verður um ákæruvaldsáætlunina, dómsmálaáætlunina og fullnustuáætlunina? Á að skýla sér á bak við lög um opinber fjármál og segja: Nei, við getum ekki haldið áfram með þessar áætlanir? Skil ég það rétt?

Mér finnst þetta skipta mjög miklu máli. Loksins þegar komið er eitthvert heildarsamhengi í réttaröryggi sem tekur til dómsvaldsins, löggjafarvaldsins, ákæruvaldsins og fullnustuþáttanna er allt í einu bara sett til hliðar mjög mikilvæg og merkileg vinna sem hefur verið unnin þvert á stofnanir. Mikið samráð og mikil vinna hefur átt sér stað. Hvað ætla menn þá að gera? Mér finnst skipta máli að við tölum hér skýrt, ekki veitir af á þessum síðustu dögum að það verði talað skýrt á (Forseti hringir.) þessu sviði.



[17:54]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Já, það er nauðsynlegt að menn tali skýrt og lög um opinber fjármál krefjast þess að ráðherra setji fram stefnu fyrir þau málefnasvið og þá málefnaflokka sem hann ber ábyrgð á og að það sé sett þannig fram að allt málefnasviðið sé undir. Það er gert í texta með fjármálaáætlun sem verður lögð fram innan skamms. Þar verður gerð grein fyrir markmiðum og stefnu til næstu fimm ára, m.a. á almanna- og réttaröryggissviði. Í dómsmálaráðuneytinu hefur vinna við stefnugerð á almanna- og réttaröryggissviði verið látin hafa forgang. Það er í algjörum forgangi. Sú vinna er hafin. Það er fráleitt að sú vinna sem lögð hefur verið í réttaröryggisáætlun og aðrar áætlanir verði lögð til hliðar — öll sú vinna mun þvert á móti nýtast í stefnumótun fyrir áætlun fyrir almanna- og réttaröryggissviðið í dómsmálaráðuneytinu. Það verður lagt fyrir síðar á þessu ári.

Við erum full bjartsýni um að það náist á þessu ári að leggja fram slíka áætlun. Það sama held ég að eigi við um öll önnur ráðuneyti. Lög um opinber fjármál kveða á um að hverju einasta málefnasviði verði sett slík stefna. Sá ráðherra sem hér stendur hefur að minnsta kosti ekki annað í hyggju en að vinna samkvæmt þeim lögum sem gilda. Ég árétta það og ítreka að öll sú mikla og góða vinna sem liggur í ráðuneytinu, og hafði yfirskriftina réttaröryggisáætlun, er fráleitt fyrir bí, heldur verður stuðst við hana og byggt á henni þegar áætlunin verður kynnt fyrir almanna- og réttaröryggissviðið.