148. löggjafarþing — 41. fundur
 20. mars 2018.
breyting á ýmsum lögum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála, 1. umræða.
stjfrv., 389. mál. — Þskj. 539.

[16:14]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála. Er þar um að ræða áætlanir á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem lagðar eru fyrir Alþingi sem þingsályktunartillögur.

Í ráðuneyti eru þrjú meginsvið sem leggja grunn að innviðum og þjónustu í samfélaginu, þ.e. samgöngur, fjarskipti og sveitarstjórnar- og byggðamál. Áætlanagerð hefur verið lögbundin um nokkurt skeið á flestum þessara sviða.

Áætlanir í samgöngumálum hafa kannski lengst af verið við lýði, en í maí 2002 tóku gildi lög um samgönguáætlun sem kváðu á um gerð einnar samgönguáætlunar sem tæki til allra þátta samgangna, samanber nú lög nr. 33/2008.

Þá skal gerð fjarskiptaáætlun samkvæmt lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, en í athugasemdum með frumvarpi laganna kemur fram að markmiðið hafi verið að samræma áætlanagerð innan ráðuneytisins, sem og að samræma hana við aðra áætlanagerð hins opinbera, þar með talið við Sóknaráætlun 20/20.

Í samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun skal marka langtímastefnu til 12 ára en jafnframt gera styttri áætlun til fjögurra ára. 12 ára stefnurnar skulu endurskoðaðar á fjögurra ára fresti en áætlanirnar styttri á tveggja ára fresti.

Samkvæmt ákvæðum laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, skal gera stefnumótandi byggðaáætlun til sjö ára í senn. Áætlunin skal lýsa stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera.

Í sveitarstjórnarlögum er ekki sérstaklega kveðið á um samantekna stefnumörkun ríkisins í málefnum sveitarfélaga, en ráðherra ber hins vegar að leggja fram stefnu á því sviði sem öðrum samkvæmt ákvæðum laga um opinber fjármál. Ljóst er hins vegar að stefna ríkisvaldsins í málefnum sveitarfélaganna er þegar til staðar á mörgum sviðum.

Virðulegi forseti. Ég tel afar mikilvægt að samræma þá áætlanagerð sem þegar fer fram og formgera jafnframt stefnu ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Allir þessir málaflokkar mynda eina heild þar sem starfsemi í einum hefur áhrif á aðra.

Með því að samræma þessar stefnur og áætlanir gefst kostur á að horfa lengra en til verkefna einstakra málaflokka, móta sameiginlega framtíðarsýn og meginmarkmið og hámarka þannig árangur. Er ég þeirrar skoðunar að frumvarpið marki að þessu leyti nýja sýn á stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera.

Frumvarpið felur í sér lágmarksbreytingar sem gera þarf á lögum til að hægt sé að ná fram þessum markmiðum um samþætta og samræmda áætlanagerð. Lagt er til að í samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamálum verði gerðar sambærilegar áætlanir, þ.e. til fimm og 15 ára í senn, sem endurskoðaðar verði á þriggja ára fresti hið minnsta. Með því næst einnig samræmi við tímalengd fjármálaáætlunar og fjármálastefnu samkvæmt lögum um opinber fjármál.

Þá verður undirbúningur þessara áætlana samræmdur eins og kostur er. Þannig verði komið á fót nýjum ráðum, fjarskiptaráði og byggðamálaráði, sem annist undirbúning fjarskiptaáætlunar og byggðaáætlunar með sambærilegum hætti og samgönguráð undirbýr samgönguáætlun. Í hverju þessara ráða sitji tveir fulltrúar ráðherra, þar af annar formaður, auk fulltrúa viðkomandi fagskrifstofu ráðuneytisins og forstöðumanna viðkomandi stofnana. Að auki sitji fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í byggðamálaráði. Þá verði skipunartími ráðanna bundinn við embættistíma þess ráðherra sem þau skipar.

Í frumvarpinu er hlutverk þessara ráða tilgreint þannig að þau skuli gera tillögur að viðkomandi áætlunum til ráðherra að fengnum áherslum hans. Með því er undirstrikað að áherslur viðkomandi ráðherra skuli liggja til grundvallar vinnu þessara ráða og það sé ráðherra sem móti endanlega tillögur að þeim áætlunum sem lagðar eru fyrir Alþingi.

Það nýmæli er í frumvarpinu að stefna ríkisins í málefnum sveitarfélaga skuli formgerð í sérstakri áætlun til samræmis við aðra áætlanagerð á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Þykir rétt að þessi stefna verði tekin saman í einni formlegri áætlun til að tryggja samræmi og samhæfingu, ekki síst ef áætlun er á öðrum sviðum. Hefur Samband íslenskra sveitarfélaga lýst yfir ánægju sinni með þau áform.

Ekki er gert ráð fyrir að sérstakt ráð undirbúi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga heldur fari um undirbúninginn eftir ákvörðun ráðherra hverju sinni í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök. Helgast það af sérstöðu þessa málaflokks.

Í frumvarpinu eru almenn ákvæði um samráð við bæði helstu hagsmunaaðila og almenning sem koma í stað eldri ákvæða um tiltekið afmarkað samráð á hverju sviði fyrir sig. Er stefnt að því að samráð verði aukið frá því sem nú er við gerð þessara áætlana, en opnari ákvæði bjóða upp á að laga megi fyrirkomulag samráðsins að þörfum og áherslum á hverjum tíma.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins. Virk stefnumótun er forsenda framfara. Ég tel að með frumvarpinu séu stigin stór skref í þá átt að tryggja skýra og samhæfða stefnumörkun í þessum mikilvægu málaflokkum.

Með þeim orðum legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og til 2. umr.



[16:20]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra og áhorfendur geti hjálpað mér við að skilja þetta mál aðeins betur. Nú hefur komið fram að samgönguáætlun verður ekki lögð fram fyrr en í haust. Það eru vonbrigði, en það er nú bara eins og hæstv. ráðherra ákveður. Ég hef bara rennt lauslega í gegnum frumvarpið en er að velta fyrir mér, með þetta mál sérstaklega, hvað myndi gerast ef hæstv. ráðherra þyrfti að svara því nákvæmlega hvaða áhrif, nú segi ég reyndar nákvæmlega svolítið óvarlega, þetta kemur til með að hafa á tilteknar framkvæmdir. Það eru væntingar til staðar um ýmsar framkvæmdir. Ég nefni sem dæmi Vatnsnesveg norðan við Hvammstanga sem er algjörlega óboðlegur. Þar fara ferðamenn um og það þarf ekki nema eina mynd af honum til að sjá að hann væri hlægilegur ef það væri ekki svona agalegt að sjá hann. Annað sem mér dettur í hug er Þ-H leiðin um Teigsskóg á Vestfjörðum og ýmislegt svona.

Við stutta yfirferð á frumvarpinu átta ég mig ekki alveg á samhenginu. Ég skil þetta þannig að þetta geri yfirvöldum kleift að samþætta verkefni og skipuleggja sig betur eða eitthvað því um líkt. En mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra myndi kannski svara mér eins og óbreyttum kjósanda. Hvaða áhrif hefur þetta á leiðina í mínu nærsamfélagi?



[16:22]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég held að svarið myndi bara akkúrat gleðja hv. þingmann, að frumvarp þetta snýst um það að ríkisvaldið, í þessu tilviki framkvæmdarvaldið, er að samþætta áætlunargerð sína, samþætta hana við lög um opinber fjármál þannig að við séum að leggja fram áætlanir til lengri tíma. Frumvarpið snýst fyrst og fremst um formgerð vinnunnar til að tryggja það að við séum með verkfærin út af fyrir sig og samræma þau við ólíka málaflokka sem heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.

Í sjálfu sér erum við í þessu í vinnu við að búa til rétta formið fyrir okkur og við leggjum síðan fram áætlanir sem hafa þá verið unnar af viðkomandi ráðum, samgönguráði varðandi samgönguáætlun, fjarskiptaráði varðandi fjarskiptaáætlun, byggðamálaráði varðandi byggðaáætlun, til samræmds tíma, þ.e. 15 ára, en fimm ára aðgerðaáætlunartíma sem er þá það sama og við höfum þekkt í sambandi við samgönguáætlun sem hafa reyndar verið til fjögurra ára og 12 ára.

Hér er fyrst og fremst verið að formgera vinnuna. Frumvarpið snýst um það, ég hefði haldið að hv. þingmaður hefði einmitt áhuga á því að við værum að horfa til lengri tíma og tryggja það að verklag framkvæmdarvaldsins væri með skýrari hætti. Þetta hefur síðan ekkert með einstakar tillögur, hvorki í samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun né byggðaáætlun, að gera. Þær koma síðan eins og þær verða búnar til af viðkomandi ráði í samráði við alla þessa aðila sem viðkomandi ráðherrar vinna áður en þær verða lagðar fyrir þingið sem þingsályktunartillögur.



[16:24]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Eins og sést af jafnvel bara mjög stuttri yfirferð yfir frumvarpið þá fjallar þetta ekki um einstaka framkvæmdir.

Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, á kannski aðeins meira slangri, þá dregur þetta úr veseni við að koma hlutum í verk sem kannski eru ákveðin á öðrum stöðum, þetta dregur úr líkum á einhverju ósamræmi og því að það sem í daglegu máli er kallað vesen tefji þær framkvæmdir sem annars eru ágætar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé réttur skilningur hjá mér.



[16:25]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ætli það megi ekki bara segja það á mannamáli að þetta dragi úr veseni. En tilgangurinn er að búa til samræmt verklag og ég á von á því að framkvæmdarvaldið í öðrum ráðuneytum fari kannski að horfa svolítið til þessa. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur auðvitað vegna reynslu sinnar af að leggja fram áætlanir, af áætlanagerð, kannski meiri reynslu en mörg önnur í svona vinnulagi við að vinna áætlanir.

Eins og ég held að ég hafi orðað það svo ágætlega í ræðu minni, ég ætla að reyna að finna það, í lokaorðunum, þá er virk stefnumótun forsenda framfara og því meira sem við vöndum okkur við stefnumótunina og verkáætlanirnar og tryggt er að búið sé að fara í gegnum fyrirframmótað verklag áður en við tökum ákvarðanir um einstaka framkvæmdir eða verktíma þeirra, því líklegra er að þær gangi fram með skilvirkum hætti.

Þar sem þetta hefur samsvörun við fjármálaáætlun gildir þetta auðvitað líka á því sviði og á að tryggja það að þær áætlanir sem ríkisvaldið leggur fram séu í samræmi við þá fjármálaáætlun sem er í gildi á hverjum tíma þannig að við lendum ekki í því sem við höfum stundum lent í á þinginu, að samþykkja einn daginn samgönguáætlun og svo nokkrum vikum síðar fjárlög eða fjármálaáætlun sem er í engu samræmi við þá samgönguáætlun sem þingið hefur áður samþykkt.



[16:27]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að fagna frumvarpinu í heild, sérstaklega því sem snýr að því, sem er náttúrlega meginmálið, að horfa til lengri tíma í áætlunargerð ríkisins og ekki síst þar sem endurskoðunartíminn er líka styttur. Ég held að þetta muni í grunninn skila miklu markvissari vinnu til lengri tíma litið og sömuleiðis skemmri tíma, ef svo má segja, með því að setja inn aðgerðaáætlun og fleira slíkt.

Frú forseti. Frumvarpið lofar um margt góðu. Hins vegar er eitt sem vekur athygli mína og mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í og það varðar þau ráð sem eru lögð til í byggða- og fjarskiptamálum. Mig langaði að spyrja út í það sem snýr að fjarskiptamálunum. Þar er gert ráð fyrir stjórn fjarskiptasjóðs sem muni hafa með fjárhagshliðina að gera, ef ég skil þetta rétt, verkefnisstjórnin er tekin af stjórn fjarskiptasjóðsins og sett í fjarskiptaráð sem á að vinna áætlunina í samræmi við vilja ráðherra o.s.frv. Ég velti fyrir mér hvort ekki væri einfaldara — ef þetta snýst, sem mig grunar, um skipan fjarskiptaráðsins, þ.e. að ráðherra hafi fulltrúa sína þar inni — að breyta stjórn fjarskiptasjóðs og vera áfram með verkefnisstjórnina þar inni, eða leggja niður stjórn fjarskiptasjóðs. Gerir þetta mögulega stjórn fjarskiptasjóðs óþarfa?



[16:29]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni bæði fyrir fyrirspurnina og góð orð í garð þessa frumvarps. Ég held að það sé alveg rétt að þar sé kveðið við nýjan tón í sambandi við langtímastefnumörkun.

Varðandi fjarskiptasjóðinn hefur það verið verkefni hans að koma á grunnþjónustu. Stærsta verkefnið á síðustu misserum er landsátakið Ísland ljóstengt, sem lýkur vonandi 2020, þegar við höfum náð þeim árangri að tengja 99,9% heimila og fyrirtækja í landinu við nothæft, samkeppnishæft net, sem er á við það besta sem gerist.

Það væri svolítið úr takti ef hugmyndafræðin á bak við frumvarpið er að við séum með sams konar verkáætlanir og nálganir við okkar ólíku verksvið, þ.e. samgönguráð. Reynslan af slíku samgönguráði er góð, þess vegna erum við að yfirfæra hana yfir á fjarskiptaráð og þá byggðamálaráð, sem við höfum líka unnið með öðrum hætti. Það á hins vegar ekki að draga úr samráði við ólíka aðila, almenning, stofnanir, landshlutasamtök, stýrinet Stjórnarráðsins eða neitt slíkt í neinum af þessum tilvikum þó að við séum að samræma verklagið.

Ég held að sú leið sem hér er farin sé annars vegar til þess að tryggja samræmingu í verklaginu og hins vegar til að tryggja að sú pólitíska stefnumótun sem ráðherra á hverjum tíma vinnur eftir komist í framkvæmd á verktíma hans. Þess vegna eru ráðuneytin bundin í skipunartíma við embættistíma ráðherrans.



[16:31]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Kannski var ekki alveg nógu skýrt áðan hvað ég var að meina með spurningunni af því að ég er alveg hjartanlega sammála nálguninni og skil hana vel. Ég er sammála markmiðum hennar og held að þetta muni bara skila miklu betra verki þegar upp er staðið.

Í dag er til stjórn fjarskiptasjóðs sem má segja að missi þarna verkefni af því að verkefnisstjórnin er tekin af henni. Væri ekki miklu einfaldara að þessi fjárhagshluti væri hjá starfsmönnum sjóðsins eða ráðuneytinu, að stjórn fjarskiptasjóðs yrði lögð niður og við hefðum bara fjarskiptaráð sem væri með verkefnisstjórnina? Ég velti því fyrir mér af því að annars erum við komin með tvær stjórnir yfir sama apparatið. Er það ekki óþarfaflækja?

Af því að ég hef tíma langar mig líka að koma aðeins inn á annað, mér finnst hugmyndin um byggðaráð alveg frábær. Mig hefur lengi langað að taka þá umræðu hérna, í ljósi þess að við horfum á öll frumvörp og allt sem við gerum með kynjagleraugunum, og spyr hvort ekki væri ástæða til að gera það sama með byggðamálin og horfa á allt með byggðagleraugunum. Gæti byggðaráðið t.d. fengið á einhvern hátt það hlutverk að fjalla um alla áætlunargerð ríkisins út frá byggðamálum? Þetta er bara hugmynd sem ég fæ hér í ræðustól.



[16:33]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki afleit hugmynd sem hv. þingmaður lét sér detta í hug hér í pontu. Auðvitað er það þannig að í dag þarf Byggðastofnun að yfirfara fjárlög með byggðagleraugum en hefur kannski ekki komist enn svona almennilega í framkvæmd vegna þess að við höfum verið að kjósa og leggja fram fjárlög á óhefðbundinn hátt upp á síðkastið frá því að sú tilhögun var tekin upp í lögum. Byggðaáætlun á auðvitað að taka tillit til samþættingar allra áætlana og hugmyndafræðin með því að samræma verklagið við allar þessar ólíku áætlanir er auðvitað sú að þær tali saman og styðji hver aðra.

Varðandi síðan spurninguna um fjarskiptasjóð svaraði ég því kannski heldur ekki nægilega skýrt að sjóðurinn er í tilteknu verkefni í miðri á og ég tel að það væri óráðlegt að fara að býtta út fólki eða skipuritum við það, hvað svo sem síðar verður þegar við erum búin að tryggja grunnnetið í fjarskiptum til allra, hvort sjóðurinn, fjarskiptasjóður, fái þá allt annars konar verksvið og umfang og þá þurfum við bara að endurskoða það. En við núverandi aðstæður held ég að það væri óráðlegt.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.