148. löggjafarþing — 43. fundur
 22. mars 2018.
fjármálafyrirtæki, 1. umræða.
stjfrv., 387. mál (skuldajöfnun, greiðslujöfnunarsamningar og ógildir löggerningar). — Þskj. 537.

[15:18]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Frumvarpið er á þskj. 537 og er 387. mál þingsins.

Frumvarpið mælir fyrir um þrjár breytingar á lögunum sem taka til endurskipulagningar fjárhags og slita fjármálafyrirtækja. Breytingarnar byggja á efni tilskipunar 2001/24/EB um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana. Tilefni framlagningar frumvarpsins eru athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert vegna gildandi laga og túlkunar dómstóla á þeim.  

Sú meginregla gildir samkvæmt íslenskum rétti að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um endurskipulagningu fjárhags og slit fjármálafyrirtækja, fer eftir íslenskum lögum hafi fjármálafyrirtæki fengið starfsleyfi hér á landi. Þessi meginregla byggir á reglum Evrópuréttar.

Frumvarpið mælir fyrir um breytingar á undantekningum frá þessari meginreglu en í tilskipun 2001/24/EB er mælt fyrir um þessar undantekningar.

Meginmarkmiðið með framlagningu frumvarpsins er að auka skýrleika þeirra ákvæða laganna sem innleiða þrjár af þessum undantekningarreglum í íslenskan rétt. Með því er ætlunin að koma til móts við þær athugasemdir sem ESA hefur sett fram við innleiðingu þessara reglna hér á landi.

Hér er um að ræða reglur sem taka til heimildar til skuldajafnaðar, stöðu greiðslujöfnunarsamninga og heimildir til að rifta löggerningum sem teljast lánardrottnum skaðlegir.  

Þær efnisbreytingar sem frumvarpið mælir fyrir um eru eftirfarandi:

Lögð til breyting sem varðar túlkun á því hvað teljist ógildi, ógildanleiki eða skortur á réttarvernd löggerninga í skilningi 30. gr. tilskipunar 2001/24/EB, en í gildandi lögum er vísað til III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga til skýringar á því. Í dómi EFTA-dómstólsins í máli E-28/13 var inntak 30. gr. tilskipunarinnar skýrt þannig að riftunarreglur gjaldþrotaréttar varðandi undanskot eigna eigi einnig að falla undir inntak 30. gr. tilskipunarinnar en engu að síður þykir tilefni til að árétta gildissviðið. Er því lagt til að tilvísun til XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. bætist við n-lið 2. mgr. 99. gr. laganna.

Þá er lagt til að hugtakið „greiðslujöfnunarsamningur“ verði skilgreint í lögunum með sérstakri orðskýringu. Þá er einnig lögð til breyting á j-lið 2. mgr. 99. gr. laganna sem tekur til greiðslujöfnunarsamninga og skuldajöfnunar. Tilgangur þessara breytinga er að samræma orðalag laganna orðalagi 23. og 25. gr. tilskipunar 2001/24/EB sem inniheldur ákveðnar reglur varðandi greiðslujöfnunarsamninga og skuldajöfnun.   Með breytingunni er því lagt til að skýrt verði að um réttaráhrif greiðslujöfnunarsamninga geti farið eftir öðrum lögum en íslenskum við fjárhagslega endurskipulagningu eða slit lánastofnunar og er það í samræmi við tilskipunina. Það er þó skilyrði að slíkur samningur sé gerður áður en til fjárhagslegrar endurskipulagningar eða slita kemur.

Meginregla laganna er sú að um skuldajöfnuð fari eftir íslenskum lögum þegar fjármálafyrirtæki gengst undir endurskipulagningu fjárhags eða slit hér á landi. Í tilskipun 2001/24/EB er eins og áður sagði gert ráð fyrir því að í ákveðnum tilfellum hafi lánardrottinn fjármálafyrirtækis heimild til þess að krefjast skuldajöfnunar vegna kröfu sinnar gagnvart kröfu fjármálafyrirtækis og þá samkvæmt lögum þess lands sem gilda um kröfu fjármálafyrirtækis. Skuldajöfnuður þarf þá að vera heimilaður samkvæmt lögum þess ríkis sem taka til réttarstöðu aðila.

Frumvarpið miðar að því að skýra betur þessa undantekningareglu en hins vegar er áréttað að þessi undantekningarregla sætir þeirri takmörkun að réttur til skuldajafnaðar á grundvelli heimildarinnar takmarkast af rétti fjármálafyrirtækis til þess að krefjast ógildingar eða riftunar eftir lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða gjaldþrotalögum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.