148. löggjafarþing — 45. fundur
 9. apríl 2018.
viðbrögð við fjölgun ferðamanna.
fsp. ATG, 305. mál. — Þskj. 407.

[17:18]
Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Við segjum gjarnan að ferðaþjónustan sé á krossgötum. Ég reikna með því að við séum sammála um það, hæstv. ráðherra og ég. Það hægir á vextinum. Túristaflóran breytist. Álag á landið, á samfélag og náttúru er farið að reyna verulega á, sums staðar að minnsta kosti. Þolmörkum er náð sums staðar miðað við innviði. Allt kallar það á stýringu líkt og við allar aðrar auðlindanytjar. Breytingar eru nauðsynlegar á mörgum sviðum atvinnuvegarins. Ég ætla að nefna fjögur nokkuð praktísk atriði við ráðherrann og fá umræðu um þau.

Í fyrsta lagi er það fjölgun landvarða og um leið að tryggja hátt menntunarstig þeirra. Þetta á við jafnt sumar sem vetur. Það þarf að fara eftir greiningu á þörfum eftir svæðum til að stýra nauðsynlegum fjölda, en ég vil gjarnan heyra skoðun ráðherra á því.

Í öðru lagi er það löggilding leiðsögumannsstarfsins sem Samtök leiðsögumanna hvetja til og ég tel tíma kominn til að færa í verk og þá um leið skyldu til að hafa slíka leiðsögumenn í tilteknum ferðum. Við getum talað um skoðunarferðir, hópa, rútuferðir, sem við köllum gjarnan, tilteknar fjalla- og jöklaferðir, sem ég þekki mætavel, og fleira mætti nefna.

Í þriðja lagi hef ég talað fyrir því oftar en einu sinni að hugað sé að því að hafa lögreglumenn sem eru menntaðir landverðir eða öfugt, landverði sem eru menntaðir lögreglumenn, hvernig sem menn vilja hafa það, þ.e. að sameina þessi hlutverk í tiltölulega litlum hópi sem sinnir svæðum utan alfaraleiða. Það hefur margoft sýnt sig að það hefur ekki gengið nógu vel á mörgum stöðum þar sem landverðir eru, en þeir hafa tiltölulega takmarkaða heimild til að hefta för fólks eða annað slíkt eða skipa fólki beinlínis fyrir. Lögreglan hefur í litlum mæli verið á hálendinu. Fyrir það fyrsta eru lögreglumenn of fáir og í öðru lagi eru þeir ekki menntaðir í því tiltekna fagi sem við köllum landvörslu.

Í fjórða lagi þá er það álagið sem orðið er á björgunarsveitir landsins. Þetta er sjálfboðavinna eins og við vitum. Þetta eru um 100 sveitir, 18.000 manns, sem vinna óeigingjarnt starf, mjög gott starf. En er ekki kominn tími til að við endurskipuleggjum þetta þannig að hluti af þessu liði, lítill hluti vissulega, verði einfaldlega launaðir björgunarsveitarmenn? Þeir geta að einhverju leyti verið landverðir líka, en það yrðu sérhæfðir björgunarsveitarmenn sem eru í launuðum sveitum sem sinna fyrstu útköllum og létta á sjálfboðaliðssveitunum.



[17:21]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina um viðbrögð við fjölgun ferðamanna. Svarið við fyrstu spurningunni um hvort ég telji vænlegt að fjölga landvörðum er einfalt: Já, ég tel að reynslan sýni að slík fjölgun sé skilvirk og góð leið til þess að bregðast við þessum mikilvægu þáttum í tengslum við ferðaþjónustu.

Landverðir gegna mikilvægu hlutverki og geta líka gegnt mjög fjölbreyttu hlutverki. Þannig eru þeir lykilaðilar í því að fræða ferðamenn um öryggismál og rétta umgengni við landið okkar og náttúruna. Með fjölgun þeirra er því hægt að bregðast við álagi á ferðamannastöðum á skjótvirkan hátt.

Ríkisstjórnin lagði í fyrra til viðbótarfjármagn til landvörslu og hefur gert ráðstafanir til að gera slíkt hið sama á næstu árum. Nánar tiltekið er í þriggja ára verkefnaáætlun landsáætlunar um uppbyggingu innviða 2018–2020 gert ráð fyrir fjárveitingum til landvörslu sem nema samtals 320 millj. kr., til viðbótar við þá landvörslu sem fyrir er á vegum stofnana ríkisins. Fjölgun landvarða hefur því verið sett í forgang af hálfu stjórnvalda.

Varðandi aðra spurninguna þá svaraði ég á síðasta kjörtímabili fyrirspurn sem fjallaði m.a. um afstöðu mína til lögverndunar á starfsheiti leiðsögumanna. Þar svaraði ég því til að ég teldi það ekki rétt á þessu stigi. Afstaða mín hefur ekki breyst. Hæfni og gæði í ferðaþjónustu eru eitt af þeim leiðarljósum sem við vinnum eftir við framþróun ferðaþjónustunnar hér á landi. En hafa verður í huga að lögverndun starfsheitis leiðsögumanna myndi leiða til þess að ófaglærðir einstaklingar, sumir með áratugareynslu í leiðsögn, aðrir sem þekkja sitt land betur en flestir aðrir, gætu ekki kallað sig leiðsögumenn. Skoða mætti hvort hægt væri að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með lögverndun með öðrum hætti, svo sem á grunni gæðakerfisins Vakans. Þetta væri t.d. hægt að gera með samningum við fyrirtæki í ferðaþjónustu um að þau noti faglærða leiðsögumenn og með kynningum og auglýsingum þar sem hvatt er til að notaðir séu faglærðir leiðsögumenn. Þá mætti einnig hugsa sér að þeir sem hafa haft leiðsögu ferðamanna hérlendis að aðalstarfi í tiltekinn tíma geti aflað sér réttinda, enda sýni þeir með hæfniprófi að þeir búi yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að ljúka leiðsögunámi. Aðalatriðið í mínum huga er að málefni leiðsögumanna séu í stöðugri skoðun með hliðsjón af þróun ferðaþjónustunnar.

Þriðja spurningin um aukið gæsluhlutverk landvarða er álitamál sem snertir á mörgum þáttum sem skarast við valdsvið bæði umhverfis- og auðlindaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis. Málefni tengd landvörslu sem slíkri er á borði umhverfis- og auðlindaráðherra. Mér er kunnugt um að til meðferðar í því ráðuneyti er ný reglugerð um landverði. Embætti lögreglustjórans á Suðurlandi og embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hafa til þessa sinnt hálendiseftirliti og eftirliti á fjölförnum ferðamannastöðum. Að öðru leyti snýst málið m.a. um handhöfn lögregluvalds og ákvarðanir um löggæslu eru því almennt teknar hjá dómsmálaráðuneyti í samráði við handhafa lögregluvalds.

Varðandi fjórðu spurninguna um björgunarsveitir þá skilst mér, samkvæmt upplýsingum mínum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg á fundum með þeim, að ekki sé um að ræða ofálag á björgunarsveitirnar vegna erlendra ferðamanna. Þá vil ég taka fram að fulltrúar björgunarsveitanna hafa ekki óskað eftir að hluti þeirra verði gerður að opinberum starfsmönnum. Ef slík ósk berst á einhverjum tímapunkti mun ekki standa á mér að skoða það með opnum huga með hvað hætti best verði haldið á starfseminni. En að svo komnu máli tel ég mikilvægt að taka mið af óskum björgunarsveitanna um fyrirkomulag þessara mála.

Að því sögðu legg ég jafnframt áherslu á að það er mikilvægt að þessi mál séu í stöðugri skoðun með það að markmiði að efla og bæta þá þætti sem snúa að öryggismálum, enda eru þau eitt af forgangsverkefnum stjórnvalda þegar kemur að ferðaþjónustu og uppbyggingu hennar hér á landi.

Í þessu sambandi langar mig einnig að geta þess að í frumvarpi til laga um Ferðamálastofu sem ég hef nýverið lagt fram er í 10. gr. gert ráð fyrir skyldu hvers þess sem hyggst bjóða upp á eða selja skipulagðar ferðir hér á landi til að útbúa skriflega öryggisáætlun fyrir hverja tegund ferðar óháð því hvort viðkomandi selur ferðina beint til ferðamanns eða með milligöngu annars aðila. Öryggisáætlanir skulu ávallt vera til skriflega á bæði íslensku og ensku. Með lögbindingu gerðar öryggisáætlunar er ætlunin að auka öryggi ferðamanna, en slysahætta eykst með auknum fjölda ferðamanna eins og þekkt er. Skyldan hefur í för með sér að ferðaþjónustuaðilar þurfa fyrir fram að hafa lagt mat á þá áhættu sem í ferðinni felst til að geta brugðist rétt við erfiðum aðstæðum sem upp kunna að koma. Gerð öryggisáætlunar og mat á áhættu af ferð eykur þannig sjálfstæði ferðaþjónustuaðila og eykur jafnframt þær kröfur sem gerðar eru til hæfni þeirra í starfi.



[17:25]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hérna viðbrögð við fjölgun ferðamanna. Þá vil ég aftur taka upp KPMG-skýrsluna um framtíð ferðaþjónustunnar þar sem áhættuþættir hafa verið teknir saman og Vegvísi í ferðaþjónustu, hvort tveggja gert 2016. Það er svo mikið af góðum upplýsingum sem við höfum. Nú er bara spurning hvort ráðherra sé þess megnugur að framfylgja því. Við vitum hvað þarf að gera. Við skulum ekki dæma ráðherra enn þá, það er of stutt liðið myndi ég segja til þess að geta dæmt ráðherra vegna þess að við skulum dæma af verkunum, en hvað þarf að gera er mjög skýrt. Ég vona virkilega að þessum ráðherra takist að gera þetta af því að þessi málaflokkur hefur verið vanræktur svo ofboðslega lengi, það er uppsafnaður svo mikill vandi. Ég vil því bara óska ráðherra, svo ég nefni hana nú á nafn, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, lengsta nafnið hérna og ég er málhaltur hvað nöfn varðar, (Forseti hringir.) farsældar í þessu verkefni. Ég vona að þetta gangi vel.



[17:27]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera landvörslu að umtalsefni og mikilvægi landvörslu allt árið. Og brýna stjórnvöld til að tryggja það að bæði gestastofur og landverðir séu til staðar og ekki síst í dreifðum byggðum þar sem umferð ferðamanna er lítil yfir veturinn. Þar skiptir akkúrat slík þjónusta enn meira máli, þ.e. þar sem þjónusta þeirra sem eru á markaði er ekki endilega opin yfir veturinn því að hún stendur ekki undir sér. Þá er mjög mikilvægt að einhver staður sé þar sem ferðamenn geta fengið upplýsingar, ráðgjöf og leiðbeiningar á ferðum sínum í misjöfnum veðrum ásamt upplýsingum um náttúruna.



[17:28]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það málefni sem hér um ræðir og fyrirspurnir frá hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni eru mikilvægar. Ég velti fyrir mér ýmsu er varðar björgunarsveitirnar. Fólk gengur í björgunarsveitir í ljósi þess að verða sjálfboðaliðar og leggur fram mikla vinnu varðandi það. Óskin þarf að koma frá þeim ef á að breyta einhverju fyrirkomulagi. Landverðir eru mjög mikilvægir alls staðar sem þeir eru. Mér hugnast mjög vel allar hugmyndir um samþættingu og samnýtingu á vinnuafli og vinnukrafti. Við erum með lögregluskóla, sérmenntaða lögreglumenn, ætlum svo að mennta sérstaklega landverði og gerum það, það er mjög mikilvægt. En þá þurfum við að hafa eitthvert sérstakt form á því hvernig við ætlum að samtvinna það. Einstaklingurinn þarf að geta valið að gerast lögreglumaður og mennta sig svo sérstaklega sem landvörður. Það held ég að gæti bara orðið mjög gagnlegt. Væri gaman að heyra af því.



[17:29]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Fyrirspurnin gengur út á viðbrögð við fjölgun ferðamanna og ljóst að fyrirspyrjandinn er sérstaklega að huga að landvörslu og setja fram hugmyndir um frekari útfærslu í því. Ég verð að segja að mér hugnast þessar hugmyndir vel, en ég hjó líka eftir því í svari hæstv. ráðherra hversu viðamikið verkefnið er. Það var áhugavert innlegg hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar og áhugaverð skýrslan sem KPMG gerði á sínum tíma. Það sýnir svo vel hvað ferðaþjónustan er víðtæk atvinnugrein og hvað hún snertir marga þætti, eins og hæstv. ráðherra kom inn á.

Það er ljóst að við þurfum að ræða þessi mál frekar og fá frekari lausn í þeim. Ég aðhyllist mjög aðgangsstýringu inn á ákveðna ferðamannastaði. Í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur í fjölmiðlum undanfarið er ljóst (Forseti hringir.) að við þurfum að fara að taka þá umræðu lengra og taka ákvarðanir sem lúta að því að stýra aðgangi inn á viðkvæma ferðamannastaði.



[17:31]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég viðurkenni að ég sé ekki alveg fyrir mér landverði með handtökuheimild, en hugsanlega er hægt að samtvinna þau störf með einhverjum hætti. Það er hins vegar miklu meiri þörf á að við tökum almenna umræðu um ferðamennskuna, þar á meðal aðgangsstýringar sem eru algjörlega nauðsynlegar, og skoða hvernig við ætlum t.d. að koma í veg fyrir að viðkvæmir staðir á landinu verði troðnir enn frekar niður en orðið er.

Eitt olli mér nokkrum vonbrigðum í svari hæstv. ráðherra, þ.e. að hún ætlaði sér ekki eða hefði ekki hug á því að löggilda leiðsögumannsstarfið. Það þykir mér óráð vegna þess að ég tel að það sé enginn vandi að koma fyrir einhverjum sólarlagsákvæðum þannig að þeir sem þegar starfa við leiðsögumennsku og hafa gert það mjög lengi og eru með víðtæka reynslu, geti gert það meðan þeirra aldur leyfir. En ég tel að það sé algjörlega nauðsynlegt að við lyftum leiðsögumannsstarfinu og gerum miklu ríkari kröfu til leiðsögumanna, sérstaklega þeirra sem fara með hópa ferðamanna (Forseti hringir.) um viðkvæm svæði.



[17:32]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina er tengist ferðamálum og stýringu á aðsókn ferðamanna á viðkvæm náttúrusvæði hér á landi. Mig langar samt að halda hér ákveðnu sjónarhorni á lofti þegar kemur að fjölgun landvarða til að auka öryggi, fræðslu og umhverfisvernd. Ég tel sannarlega að styrkja beri stjórnun náttúruverndarsvæða með því að styrkja landvörslu og fjölga landvörðum. Ég held að það sé eitt af lykilatriðunum í aðgangsstýringunni sem við höfum svo oft rætt um í þessum þingsal og víðar.

Við höfum rætt annað mál er kemur inn á þessa fyrirspurn hér, þ.e. fjölgun lögreglumanna. Við vitum að fjölgun lögreglumanna hefur verið ábótavant um margra ára skeið og ég geld varhuga við því að við séum að slá saman tveimur hlutum, (Forseti hringir.) annars vegar því að styrkja lögregluna og fjölga lögreglumönnum, og hins vegar því að tengja landverði og landvörslu (Forseti hringir.) við störf lögreglumanna. Ég tel að þetta séu tveir aðskildir hlutir og að við eigum að einbeita okkur að því annars vegar að (Forseti hringir.) styrkja lögregluna, efla hana og auka þá fjármuni sem renna til hennar, og hins vegar að styrkja landvörslu, en ekki að blanda þessu tvennu saman.



[17:34]
Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka öllum hlutaðeigandi fyrir þessa ágætu umræðu. Aðeins hefur verið komið inn á mikilvægar öryggisáætlanir fyrirtækja. Þær koma ekki í staðinn fyrir neitt af því sem við höfum talað um. Þær eru bara hluti af því öryggisneti sem ferðaþjónustan þarf að hafa og er ekki sjálfsagt alls staðar og verður auðvitað að vinnast áfram. Annað sem hefur líka komið fram er aðgangsstýring og þolmörk og annað slíkt. Þá vil ég bara minna á þessa skýrslu sem nýbúið er að leggja fram — beiðni um hana kom héðan frá þinginu — sem fjallar nákvæmlega um þau mál. Við erum hér að ræða um praktískari hluti, landvörslu, leiðsögn, löggæslu og björgunarstörf. Við erum þá sammála um aukningu í landvörslu.

Varðandi leiðsögn og löggildingu erum við kannski eitthvað ósammála, en sá umþóttunartími sem var nefndur hér á undan mér, af hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, þ.e. sólarlagsákvæði, er þekktur. Þetta var til dæmis gert þegar framhaldsskólakennarar fengu kennsluréttindi og þurftu að fara í háskólanám. Þá var þetta gert nákvæmlega þannig og reyndist mjög vel. Ég sé enga mótsögn í því. Ég hnykki bara á því að þetta er fag og skal löggildast.

Varðandi löggæslu þá er það einfaldlega svo að þetta er þekkt í mörgum löndum. Það er ekkert nýtt að löggæslumenn séu landverðir og landverðir séu löggæslumenn. Þetta er bara sérstakur hópur innan lögreglunnar og það hefur ekkert með styrkingu lögreglunnar að gera að öðru leyti. Ég legg áherslu á að reynslan sýnir að sá litli hópur sem sinnir þessu er of fámennur og ekki nógu kunnáttusamur í landvörslu.

Varðandi björgunarstörfin þá verð ég að minna á að þetta snýst almennt um álag á björgunarsveitir, ekki bara vegna ferðaþjónustu. Þetta er veðurtengt og tengt ferðum Íslendinga sjálfra. Ég veit það vegna tengsla minna inn í þessar sveitir að mikið er kvartað (Forseti hringir.) yfir gríðarlegu álagi á ákveðnar sveitir og atvinnuveitendur eða -rekendur sem það fólk vinnur hjá. Þannig að ég held að þetta sé miklu flóknara (Forseti hringir.) málefni en svo að við eigum bara að hlusta á forstöðumenn þessara björgunarsveita með það að ákvarða hvort þessi umræða fari í gang eða ekki.



[17:37]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég ætlaði að koma inn á örfá atriði hérna í lokin. Ég vil bara draga það fram, þrátt fyrir að það hafi oft verið gert, að við höfum auðvitað eflt löggæslu í landinu verulega síðastliðin ár en við erum enn þá á þeirri vegferð.

Vegna umræðunnar um björgunarsveitirnar og ofálag þá er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta er ekki endilega vegna erlendra ferðamanna. Ég var að vísa beint til þess og dró þetta sérstaklega fram vegna þess að þetta kom mér á óvart. Miðað við umræðuna þá hefur maður einhvern veginn haft á tilfinningunni að álag á björgunarsveitirnar sé sérstaklega vegna ferðamanna, en a.m.k. samkvæmt þeim sem ég hef rætt við þá virðist það ekki vera, heldur eru það einmitt eins og hv. þingmaður kemur inn á öll hin verkefnin, veturinn og þau verkefni og bara við sjálf sem erum að gera alls konar hluti og koma okkur í vandræði.

Ég er því alveg sammála hv. þingmanni um að þetta samtal við björgunarsveitirnar skiptir máli. Ég er kannski hér að vísa sérstaklega til þeirra sem eru í forsvari fyrir þær, en mér finnst lykilatriði að allar slíkar breytingar eða umræða um þær séu unnar með björgunarsveitunum sjálfum vegna þess að þetta er auðvitað sjálfsprottin starfsemi öllsömul og á algjörlega að vera á þeirra forsendum. En umræðan um álag á atvinnuveitendur og annað skiptir auðvitað líka máli og maður þarf að hlusta eftir því .

Svo til að ítreka aftur þetta mál varðandi landverðina þá finnst mér sú leið ótrúlega öflug vegna þess að maður slær svo margar flugur í því höggi. Þetta er skilvirk leið. Þessu fylgir fræðsla frá landvörðum til ferðamanna, aukið öryggi, meiri gæði og betri upplifun ferðamanna þegar þeir skoða náttúru landsins. Þess vegna finnst mér þetta jákvætt (Forseti hringir.) og ég er ánægð með þann forgang sem hefur verið í því að efla landvörslu.