148. löggjafarþing — 45. fundur
 9. apríl 2018.
eftirfylgni við þingsályktun nr. 22/146.
fsp. BjG, 267. mál. — Þskj. 369.

[18:06]
Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ákvað að fylgja hér eftir afgreiðslu þingsályktunartillögu sem samþykkt var fyrir tveimur þingum síðan. Fyrsti flutningsmaður var þáverandi hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir og snýr þingsályktunin að uppbyggingu á Hrauni í Öxnadal. Þetta er eitt af þeim málum sem týnast gjarnan þegar komið er inn í ráðuneytin. Auðvitað hefur ýmislegt gerst og kosningar og annað slíkt hafa orðið til þess að verkefnið hefur að minnsta kosti ekki komist á þann stað að við vitum af því. Tilgangur með þessari spurningu er að vita hvernig staðan er og hvort ráðherra hyggist gera eitthvað.

Fram kom á sínum tíma þegar málið var til umfjöllunar í nefndinni að það væri einn af mikilvægum þáttum gagnvart landsbyggðinni að byggja upp menningarsetur, tengja sögu og menningartengda ferðaþjónustu. Það hjálpar til við að tryggja dreifingu ferðamanna og svo auðvitað miðlun á menningararfinum til bæði innlendra og erlendra gesta.

Við þekkjum mörg þá ægifögru náttúru sem umlykur Jónasarsetur. Það er tiltölulega nálægt þéttbýli þannig að þar er hægt að halda uppi alls konar lifandi safna- og fræðslustarfi. Ég held að nefndin hafi unnið ágætlega úr þessu máli þegar hún valdi þessa leið, en breytingin var sú að taka inn umhverfis- og auðlindaráðuneytið því að málið var jú fyrst og fremst undir mennta- og menningarmálaráðuneytinu, þ.e. tillagan eins og hún var lögð fram. En það liggur fyrir að sveitarfélagið og þeir sem standa að þessu starfi geta ekki unnið áfram nema með aðkomu ríkisins. Íbúðarhúsið, sem var byggt 1933, var lagfært í kringum árið 2006. Þar var og er fræðimannsíbúð og menningarstofur. En nú er svo komið í starfinu gagnvart húsinu og rekstrinum að ekki er hægt að gera neitt frekar eða halda áfram starfinu nema einhverjar ákvarðanir og stuðningur komi frá ríkinu.

Þess vegna þótti mér mikilvægt að fylgja þessu eftir hér og heyra í ráðherra hvort ekki sé alveg öruggt að málið fái framgöngu innan ráðuneytisins. Þá má líka spyrja, í ljósi þess að málið fór til tveggja ráðuneyta eðli málsins samkvæmt þar sem þetta er friðlýst svæði, hvort samtal hafi átt sér stað á milli þessara ráðuneyta og hvort ekki sé alveg öruggt að við höldum áfram að styðja við þetta verkefni.



[18:09]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu fyrirspurn. Eins og þingmaðurinn fór réttilega yfir skipar Hraun í Öxnadal sérstakan sess í sögu lands og þjóðar. Framlag þjóðskáldsins og fræðimannsins Jónasar Hallgrímssonar til fræða og menningar er lofsvert og því afar mikilvægt að við höldum því á lofti.

Með bréfi dagsettu 14. júní 2017 var ráðuneytinu send þingsályktun um uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal sem samþykkt hafði verið á Alþingi 31. maí 2017. Ráðuneytið hafði sent allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis umsögn um þingsályktunartillöguna þegar afgreiðsla hennar var í undirbúningi þar sem meðal annars var bent á að jörðin Hraun í Öxnadal hefði verið friðlýst af umhverfisráðherra árið 2007 sem fólkvangur. Tilgangur friðlýsingarinnar hefði verið að vernda svæðið til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu en verndargildi þess byggðist á að landslag og náttúrufar, sérstaklega jarðmyndanir, væri mjög fjölbreytt. Þá var bent á að félagið sem væri eigandi jarðarinnar væri í meirihlutaeigu Hörgársveitar og því bæri sveitarfélaginu sérstök skylda til að hlúa að starfsemi félagsins og fólkvangsins.

Með vísan til ofangreindra atriða taldi ráðuneytið eðlilegast að í tillögunni væri lagt til að Alþingi ályktaði að fela mennta- og menningarmálaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra þetta sameiginlega verkefni í samvinnu við Hörgársveit og jarðeiganda. Með bréfi dagsettu í nóvember síðastliðnum til umhverfis- og auðlindaráðherra var óskað eftir tilnefningu fulltrúa þess ráðuneytis til að vinna með fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins að frekari framgangi þingsályktunarinnar sem nú hefur borist.

Virðulegi forseti. Í tilefni fyrirspurnar hv. þingmanna get ég ekki látið hjá líða að nefna Dag íslenskrar tungu sem haldinn hefur verið hátíðlegur um land allt frá árinu 1996 á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Eins og þingheimi er kunnugt er efnt til fjölbreyttra viðburða um land allt í skólum og stofnunum og veitt eru verðlaun Jónasar Hallgrímssonar auk viðurkenninga í tilefni dagsins. Á þessum degi minnumst við þjóðskáldsins sem á sérstakan sess í vitund og menningu landsmanna. Það er brýnt að halda minningu Jónasar Hallgrímssonar ætíð á lofti og ná til nýrra kynslóða. Samþykkt þingsályktunartillögunnar hér á Alþingi, um uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal, fæðingarstað Jónasar, er áfangi á þeirri leið.

Næstu skref í málinu eru að kynntar verða tillögur ráðuneytisins að frekari uppbyggingu staðarins á næstu mánuðum. Við metum starf Jónasar Hallgrímssonar mikils og mun vinnan taka mið af því. Mér finnst mjög brýnt að við tengjum saman í ríkari mæli menningu og ferðaþjónustu. Ég lít svo á að eitt af markmiðunum með þessari þingsályktun sé að gera svo.

Virðulegi forseti. Ég vonast til góðs samstarfs við Alþingi um framkvæmd þessarar þingsályktunar og frekari samvinnu er varðar þær tillögur sem við erum að vinna að í ráðuneytinu.



[18:13]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að fylgja þessu máli eftir hér. Það er alveg ljóst að skáldið Jónas Hallgrímsson á sterkar rætur í þjóðarsálinni og við þurfum að halda merki hans á lofti og við þurfum að koma upplýsingum og þekkingunni um hann áfram til komandi kynslóða, annars glatast það allt. Hluti af því er að efla og styrkja starfsemina sem er á Hrauni í Öxnadal og ég fagna því og hlakka í rauninni til að heyra tillögur sem ráðherra minntist á áðan og við fáum að vita meira um á næstunni.

Hugmyndafræði Jónasar og hugsjónir hans eiga vel við í dag og kjörorð hans og Fjölnismanna voru nytsemi, fegurð og sannleikur. Það er sannarlega eitthvað sem við getum tileinkað okkur í nútímanum og þess utan erum við að tala um ferðaþjónustuna, menningartengda ferðaþjónustu, sem svo sannarlega á vel við á þeim stað.



[18:15]
Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mér finnst þau pínu loðin, ég verð að játa það. Það kemur þó fram að búið er að fá fulltrúa úr umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til að vinna að þessu verkefni.

Ráðherra talaði um að kynna áform á næstu mánuðum. Þá spyr ég í framhaldinu hvort eitthvert samráð hafi þegar verið haft, af því þetta er í nóvember og nú er kominn apríl, við Hörgársveit í þeirri vinnu og hvernig það eigi að fara fram. Eins og ég sagði áðan þá liggur fyrir að þetta litla sveitarfélag getur ekki staðið undir slíkum rekstri eða áframhaldandi uppbyggingu nema með aðkomu ríkisins sem, eins og hæstv. ráðherra benti á, er stærsti eigandinn að þessu svæði og þessu húsi. Ég spyr hvort þar sé einhver fulltrúi.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra, varla er hægt að tala um Jónas án þess að minnast á Dag íslenskrar tungu. Ég var íslenskukennari í grunnskóla og sá dagur var einn af betri dögunum, því að þann dag er skólastarf mjög víða brotið upp og minning þjóðskáldsins heiðruð á marga vegu. Það er kannski það sem hann er meira þekktur fyrir í dag en fyrir náttúrutenginguna, en hann var auðvitað mjög merkur náttúrufræðingur. En það þarf að gera þetta að alvöruvinnustofu og setri sem sinnir þeirri þjónustu sem þarf. Við erum með Snorrastofu, við erum með Skriðuklaustur, Gljúfrastein, Þórbergssetur. Við höfum gert mjög margt gott í þessum efnum. Ég tel að Jónas sé næstur og við megum ekki draga það allt of lengi.



[18:17]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessari þingsályktun, þannig að við getum farið yfir hvar verkefnið er statt. Við verðum í samvinnu við sveitarfélagið, það er auðvitað afar brýnt vegna þess að íbúar þess þekkja staðarhætti mun betur en fulltrúar ráðuneytisins. Ég vil bara segja við þingheim að mjög brýnt er að við gerum þetta vel. Þessi staður skipar sérstakan sess í huga þjóðarinnar og það er brýnt að við gerum þetta almennilega. Ég hlakka því til að greina frá næstu skrefum þegar þær tillögur verða tilbúnar í ráðuneytinu og við getum farið yfir þær og gert þetta vel og örugglega.