148. löggjafarþing — 46. fundur
 10. apríl 2018.
dómstólar o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 442. mál (Endurupptökudómur). — Þskj. 627.

[17:21]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um dómstóla, lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Með frumvarpinu er lagt til að settur verði á fót nýr dómstóll, svokallaður Endurupptökudómur, sem komi í stað endurupptökunefndar. Með slíkri skipan yrðu tekin af öll tvímæli um að dómsvaldið væri einvörðungu á hendi dómenda í samræmi við fyrirmæli 2. gr. stjórnarskrárinnar og jafnframt að úrlausnir slíks sérdómstóls um hvort hróflað skuli við endanlegum dómum Hæstaréttar, Landsréttar eða héraðsdóms væru endanlegar og kæmu ekki til endurskoðunar dómstóla á grundvelli 60. gr. stjórnarskrárinnar.

Á núverandi skipan, sem komið var á fót með lögum nr. 15/2013, er sá ágalli að endurupptökunefnd, sem tilheyrir framkvæmdarvaldinu í skilningi íslenskra laga, er fengið vald til að leysa úr því hvort skilyrði séu til þess að endurupptaka mál sem dómstólar hafa leyst endanlega úr og hrófla þannig við úrlausn handhafa dómsvaldsins.

Það má færa fyrir því rök að þetta fyrirkomulag brjóti í bága við þrígreiningu ríkisvaldsins sem mælt er fyrir um í 2. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir að forseti Íslands og önnur stjórnarvöld fari með framkvæmdarvaldið og dómendur með dómsvaldið. Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar eiga dómstólar úrskurðarvald um lögmæti stjórnvaldsákvarðana og á grundvelli þess stjórnarskrárákvæðis hefur Hæstiréttur vísað frá máli, sem endurupptökunefnd hafði ákveðið að endurupptaka, vegna þess að ekki hafi verið að lögum skilyrði til þess að verða við beiðni þess efnis. Vísa ég þá í dóm Hæstaréttar frá 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015. Enn fremur hefur Héraðsdómur Reykjavíkur með úrskurði sínum frá 25. janúar 2017 komist að alveg afdráttarlausri niðurstöðu um að þetta fyrirkomulag brjóti í bága við 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Í því ljósi legg ég til að settur verði á stofn nýr sérdómstóll, Endurupptökudómur, sem komi í stað endurupptökunefndar sem verður þá um leið lögð niður. Lagt er til með frumvarpinu að Endurupptökudómur verði að meiri hluta skipaður embættisdómurum sem komi frá hverju hinna þriggja dómstiga. Með því vinnst tvennt. Í fyrsta lagi væri tryggt að meiri hluti dómenda kæmi úr röðum handhafa dómsvaldsins og njóti þar með verndar 61. gr. stjórnarskrárinnar þannig að þeim verði almennt ekki vikið úr embætti nema með dómi. Í annan stað yrði slegið föstu með þessari skipan að um væri að ræða dómstól í skilningi stjórnarskrárinnar á sama hátt og Félagsdóm og Landsdóm. Samhliða er lagt til að einn af fjórum dómendum hins nýja dómstóls verði skipaður að undangenginni auglýsingu og komi úr röðum annarra en dómara, fyrrverandi dómara eða starfsfólks dómstóla. Það er í samræmi við annað aðalmarkmiðið með breytingunni sem gerð var þegar endurupptökunefnd var komið á fót, að aðrir en dómarar komi að ákvörðun um endurupptöku dómsmála.

Þá er lagt til að dómendur taki þátt í meðferð hvers máls og að sá dómandi sem tilnefndur er af því dómstigi sem dæmdi það mál sem óskað er endurupptöku á verði ekki einn þeirra. Þannig verði dómur hverju sinni skipaður tveimur dómendum úr hópi embættisdómara auk þess dómanda sem skipaður er að undangenginni auglýsingu. Með því er annars vegar tryggt að aðrir en einungis embættisdómarar taki þátt í meðferð hvers máls og hins vegar að dómandi taki ekki þátt afgreiðslu á beiðni um endurupptöku á dómi uppkveðnum af samdómara eða samdómurum hans.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að skilyrði til endurupptöku einkamála verði rýmkuð frá því sem nú er. Samkvæmt gildandi lögum þurfa þrjú skilyrði sem nefnd eru í 191. gr. laga um meðferð einkamála öll að vera uppfyllt til þess að mál fáist endurupptekið. Tvö þessara skilyrða eru sérstaks eðlis þar sem leiða verður sterkar líkur að því annars vegar að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum sem fer fram á endurupptöku verði ekki um það kennt, og hins vegar að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Þriðja skilyrðið, sem einnig verður að vera til staðar, er almennara þar sem þar er vísað til þess að önnur atvik mæli með því að leyfi verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Lagt er til að nægilegt sé að öðru hvoru sérstöku skilyrðanna sé fullnægt til að mál fáist endurupptekið, enda séu þá hin almennu skilyrði jafnframt fyrir hendi, þ.e. að atvik mæli með því að leyfi til endurupptöku verði veitt og að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi. Þá eru lagðar til breytingar á skilyrðunum með skýrleika að leiðarljósi.

Þannig muni skilyrði a-liðar taka til þeirra tilvika þegar sterkar líkur eru að því leiddar með nýjum gögnum eða upplýsingum að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verði ekki um það kennt.

Skilyrði b-liðar muni aftur á móti taka til annarra tilvika en þeirra sem varða málsatvik. Samkvæmt því nægir að fram hafi komið ný gögn eða upplýsingar, um annað en málsatvik, og sterkar líkur hafi verið leiddar að því að þau muni breyta fyrri niðurstöðu dómsmálsins í mikilvægum atriðum. Með nýjum gögnum eða upplýsingum í þessum skilningi er átt við öll þau gögn eða upplýsingar sem leitt gætu til breyttrar niðurstöðu málsins í mikilvægum atriðum, þar á meðal úrlausnir alþjóðlegra dómstóla á borð við Mannréttindadómstól Evrópu og EFTA-dómstólinn.

Þá er að lokum lagt til að Endurupptökudómur hafi aðsetur hjá dómstólasýslunni. Að sama skapi eru lagðar til umtalsverðar breytingar er varða meðferð endurupptökumála. Þær taka mið af því að um er að ræða dómstól en ekki stjórnsýslunefnd og er ekki ástæða til að rekja þær hér ítarlega, en ég vísa að lokum til greinargerðarinnar um málið almennt.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.



[17:27]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst eitthvað pínulítið súrrealískt við það að fara hér upp í ræðu við hæstv. dómsmálaráðherra um skipan dómstóls eftir það sem á undan er gengið. Ég veit ekki alveg hversu mikið mig langar til að heyra af endurtekningum á þeim rökstuðningi sem ráðherrann hefur lagt fram áður í sambandi við hátterni sitt og vinnubrögð í kringum skipan Landsréttar. En mér finnst mikilvægt, til þess að gera ekki sömu mistökin aftur, að fólk læri eitthvað af því sem það gerir áður.

Fyrsta skrefið í því er yfirleitt að viðurkenna að eitthvað hafi farið úrskeiðis, að maður hafi gert eitthvað rangt. Það hefur að mínu viti skort algerlega hjá sitjandi hæstv. dómsmálaráðherra sem hefur bæði unað dómi Hæstaréttar en samt verið ósammála — samt sammála en samt ósammála, allur sá fráleiti málflutningur. En ég verð að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé eitthvað í reynslunni af skipan Landsréttar, málsmeðferðinni hér inni, málsmeðferðinni hjá Hæstarétti, sem hæstv. dómsmálaráðherra hafi lært af og muni nýta sér í framtíðinni, t.d. þegar kemur að skipan þessa nýja dómstigs. Því að þótt hlutverk ráðherra sé ekki endilega það ríkt samkvæmt þessum lögum, eins og ég skil þau á þessu stigi, er það þó eitthvað. Ég segi bara eins og er, eins og ég hef sagt áður og greitt atkvæði samkvæmt, að ég treysti þessum sitjandi dómsmálaráðherra ekki á nokkurn einasta hátt til þess að setja dómsstig eða skipa dómara. Það er enginn ráðherra sem ég get ímyndað mér sem ég treysti minna. Ég segi það bara.

Það sem gæti kannski aðeins slegið á það, ef hæstv. ráðherra yfir höfuð kærir sig um það, sem ég reyndar efast um, þá mundi það hugga mig eilítið að vita (Forseti hringir.) að eitthvað hefði lærst við skipan Landsréttar og eftirmála þess sem gæti nýst hæstv. ráðherra til að standa sig betur í þessum málum.



[17:30]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort það mundi gagnast hv. þingmanni að slá örlítið af yfirlætinu og hrokanum sem kom fram í andsvari hans um þetta mál. Það hefði kannski verið vænlegra til árangursríks samtals að óska eftir umræðum um eitthvert tiltekið atriði sem hv. þingmanni hugnast ekki en hv. þingmaður hefur greinilega ekki nokkuð við frumvarpið sem slíkt efnislega að athuga.

Almennt má þó segja í þessum efnum, því að hér er verið að fjalla um skipan dómara, og ég held að það sé ágætt að líta til þess að í þessu frumvarpi er einmitt gerð sú krafa við skipan fjórða einstaklingsins sem á að skipa þennan dómstól að sú staða sé auglýst en viðkomandi ekki handvalinn eða tilnefndur af einhverjum þáttum ríkisvaldsins, að öllum gefist kostur á að sækja um þá stöðu og ganga í gegnum einhvers konar hæfnismat, reyndar í þessu tilviki þá umfjöllun hæfnisnefndar sem kveðið er á um í lögum um dómstóla. Það er ágætt að hafa það í huga í stóra samhenginu þegar menn fjalla um skipan dómara.

Að öðru leyti vil ég kannski spyrja hv. þingmann að því líka hvort hann telji mögulega að almennir þingmenn megi eitthvað læra af því þingmannamáli sem varð hér að lögum árið 2013 og leiddi til stofnunar endurupptökunefndar sem Hæstiréttur og fleiri dómstólar hafa nú komist að niðurstöðu um að hafi verið í andstöðu við stjórnarskrá.



[17:32]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra gróf undan trausti og trúverðugleika nýs dómstigs. Og það leiðir til þess að ég segi tæpitungulaust að ég treysti ekki ráðherra sem hagar sér þannig. Það ætti að vera augljóst. Það má alveg vera hrokafullt ef hæstv. ráðherra sefur eitthvað betur um nætur við að kalla það hrokafullt. Satt er það. Það er það sem stendur eftir.

Ég get alveg sagt að það er eitt sem ég hef efnislega að athuga við frumvarpið og er í 2. gr., að dómendur endurupptökudóms eru skipaðir af ráðherra sem ákveður hvor þeirra sem tilnefndir eru af hverjum tilnefningaraðila verði aðalmaður og hvor varamaður. Eina ástæðan fyrir því að ég hef eitthvað við þetta athuga er sú að miðað við vinnubrögðin sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur sýnt, og sér í lagi viðbrögðin við eftirmálunum, gerir að verkum að ég vil helst ekki að hæstv. dómsmálaráðherra komi þar nokkurs staðar nálægt hver verði dómari yfir höfuð.

Hæstv. ráðherra má alveg finnast það hrokafullt ef það er eitthvað betra fyrir hana. Það má alveg standa þannig mín vegna. Mér er bara alveg slétt sama. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur unnið sér inn fyrir þeirri orðræðu sem hún situr undir. Því eftir það sem á undan er gengið er hvorki iðrun né neitt sem bendir til þess að hæstv. ráðherra myndi gera neitt öðruvísi ef hún stæði aftur í sömu stöðu og í sömu sporum, fengi sömu viðvaranir frá sama fólkinu og seinast. Og það er það sem hræðir mig. Ég stend ekki hér og tala svona við hvaða ráðherra sem er. Allir ráðherrar gera mistök, allir þingmenn gera mistök, öll gerum við mistök. Það er eitt og sér eðlilegt og allt í lagi. En við verðum að geta horfst í augu við þau og lært af þeim. Það er grunnkrafa á hendur þeim sem fer með jafn viðkvæmt vald og að setja dómara.

Ég tók eftir því, í svari hæstv. dómsmálaráðherra, að hún svaraði ekki spurningunni. Mig langar því að spyrja aðeins nánar. Ef hæstv. dómsmálaráðherra stæði aftur í þeim sporum sem (Forseti hringir.) hún stóð í í byrjun júnímánaðar og lok maí á seinasta ári, mundi hæstv. ráðherra gera hið sama?



[17:34]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessum ræðustól eins og alls staðar annars staðar fljúga menn eins og þeir eru fiðraðir. Þegar talið berst að undangreftri undan dómstólum landsins held ég að hv. þingmaður sé meðal þeirra sem mættu íhuga hvort ræðumennska hans um þetta mál geti átt hlut að máli.

Hv. þingmaður hefur ekki efnislegar athugasemdir við þetta frumvarp. Það kann vel vera að hann hafi þær ekki, hafi ekki kynnt sér það eða vilji ekki hafa skoðun á því. Ég hvet hann hins vegar til að kynna sér þetta frumvarp. Það eru margar leiðir færar þegar kemur að því að skipa dómara í þennan dómstól eins og aðra. Ég vek þó athygli á því, ef menn hafa ekki áttað sig á því, að þetta er auðvitað ekki eiginlegur dómstóll í þeim skilningi að hann kveði upp efnislega dóma heldur er þetta dómstóll sem falið er að kveða upp úr um það hvort það séu málefnaleg og lögbundin sjónarmið sem geti leitt til þess að dómur sé tekinn upp, en kveður alls ekki upp neitt um niðurstöðuna við slíka endurupptöku.

Að því leyti er þessi dómstóll öðruvísi en aðrir dómstólar. En allt að einu er við skipan dómara hægt að fara margar leiðir. Hér er lögð til ein leið, það gætu verið margar aðrar leiðir sem kæmu til greina. Hún gæti til dæmis komið til greina sú leið að þessir dómstólar, hvert einasta dómstig, tilnefni ekki tvo fulltrúa eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu heldur verði einfaldlega dregið úr nöfnum sitjandi dómara til að sitja í Endurupptökudómi. En þetta eru allt ágæt álitaefni sem ég held að hv. allsherjar- og menntamálanefnd ætti að (Forseti hringir.) taka til umfjöllunar og skoðunar. Ég tek öllum ábendingum um það sem betur mætti fara í þessu frumvarpi, hafi menn einhverjar tillögur í þeim efnum, fagnandi.



[17:37]
Olga Margrét Cilia (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því vissulega að það eigi að setja á fót sérdómstól sem skeri úr um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmála. Í frumvarpinu er talað um að einn af þeim dómurum sem þar sitja eigi að skipa úr röðum Hæstaréttar, annan úr Landsrétti og þann þriðja úr hópi héraðsdómstóla. Gert er ráð fyrir að tilnefnd séu bæði karl og kona úr þessum röðum en, með leyfi forseta, „heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að það er ekki mögulegt. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.“

Ég vil nýta tækifærið og benda á þann kynjahalla sem ríkir í íslenska dómskerfinu. Í Hæstarétti sitja ein kona og sjö karlar. Af þeim 35 dómurum sem eru skipaðir í héraði eru 14 konur. Vissulega er jafnara hlutfall í Landsrétti en sú skipan var ekki óumdeild. Því má velta upp hvort til Endurupptökudómstóls muni koma mörg kynferðisofbeldismál þar sem sönnunarfærsla í þeim málum reynist oft örðug. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort þessi dómstóll sé enn ein viðbótin í það karlaveldi og sérhagsmunagæslu sem ríkir innan dómstólakerfisins á Íslandi. Dómarar eiga að vera hlutlausir í störfum sínum en það þarf að taka kerfið í heild til endurskoðunar.

Því miður er staða kvenna innan dómskerfisins á Íslandi ekki björt, sama með hvaða augum litið er, hvort heldur það er fyrir konur sem eru að útskrifast úr laganámi og hyggja á starfsframa innan dómskerfisins eða þá brotaþola sem munu æskja endurupptöku mála sinna er lúta að kynferðisofbeldi.



[17:39]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hætta mér í ræðu þótt hæstv. dómsmálaráðherra myndi kannski gjarnan vilja að ég talaði um eitthvað allt annað eða væri að gera eitthvað sem hæstv. dómsmálaráðherra fyndist frekar að ég ætti að vera að gera. Ég ætla að láta það eiga sig. Frekar að fara aðeins yfir grundvallaratriðin sem við hljótum að velta fyrir okkur þegar hæstv. dómsmálaráðherra leggur fram mál um dómstóla.

Nú veit ég að fólk gleymir hlutum sem gerast í pólitík. Það er alveg eðlilegt. Fólk hefur fleira við líf sitt að gera en að velta sér endalaust upp úr því sem hefur gerst í pólitíkinni. En það sem kallað er Landsréttarmálið má einfaldlega ekki gleymast. Lexían af því máli er hvernig íslensk stjórnmál líta út í grunninn. Hvernig það er í grundvallaratriðum einkennandi fyrir stjórnarfarið á Íslandi, og ég ætla bara að segja sér í lagi fyrir stjórnarhætti Sjálfstæðisflokksins; ábyrgðarleysi, algert ábyrgðarleysi. Ekki bara smá ábyrgðarleysi heldur algert.

Við hæstv. dómsmálaráðherra töluðum um þetta einhvern tíma í útvarpsviðtali. Í því útvarpsviðtali vildi hæstv. dómsmálaráðherra meina að ábyrgð ráðherrans fælist í því að mæta í viðtöl og bjóða sig fram í kosningum. Það segir í raun og veru alla söguna að mínu mati. Að það sé bara skoðun sem dómsmálaráðherra í lýðveldinu Íslandi geti haft og sagt það upphátt fyrir framan alþjóð. Og heill stjórnarflokkur kinkar kolli, finnst það í lagi, bara eðlilegt, enda hefur sá flokkur hagað sér þannig, alla vega eins lengi og ég man eftir mér, þ.e. eftir stjórnmálum yfir höfuð, sem er reyndar ekkert mikið skemmra.

Hvað varðar þetta mál efnislega, sem ég hef ekki skoðað alveg í gegn en eitthvað af því, þá líst mér ágætlega á það sem þar stendur. Ég hefði ekkert svakalegar áhyggjur af þessu ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hérna í pólitíkinni lærum við ekki. Við breytum ekki hlutum sem greinilega virka ekki, eða virka þannig að Alþingi greiðir atkvæði, klofið í herðar niður, með 31 atkvæði gegn 30, um nýtt dómstig í bullandi ágreiningi, meðfram viðvörunarorðum innan úr ráðuneytinu, úr nefndum Alþingis, og síðan staðfest af héraðsdómi og Hæstarétti í lokin.

Og svarið er: Hæstv. dómsmálaráðherra mætir í viðtal og býður sig fram aftur. Þetta er sem sé ábyrgðin. Þegar svona hegðun í stjórnmálum er borin fram eins og hún sé á einhvern hátt í lagi eða boðleg þá tortryggir maður svona mál. Þetta er ekki mjög stórt mál, ekki viðamikið frumvarp. Maður er ekki lengi að renna í gegnum það, efnislega. En þetta er samt Endurupptökudómur. Þetta er einhvers konar dómsvald. Þá skiptir máli að fólk vandi sig, að fólk hlusti á viðvörunarorð, alla vega einhvern tímann, og svo getur fólk alveg verið ósammála. Það er allt í góðu. Það eina sem þurfti seinast var, hvað? Að bíða. Það var meira að segja borin fram lausn á þessu. Það langaði engan til að fara að skipa Landsrétt, engan í stjórnarandstöðunni, í bullandi ágreiningi.

Hv. þm. Jón Þór Ólafsson stóð hér, sællar minningar, og útskýrði hvað þurfti. Það þurfti bara tíma. Sem síðan hefur komið í ljós að hefði alveg dugað, einfaldlega tíma til að hæstv. ráðherra gæti farið eftir lögum eins og búið var að benda á að ráðherra ætti að gera. Því var hafnað. Af hverju? Af hverju mátti þetta ekki vera í lagi? Af hverju gat hæstv. ráðherra ekki tekið sér þann mánuð til að gera þetta rétt? Og þá hefðum við samþykkt nýtt dómstig með öllum greiddum atkvæðum. Væntanlega öllum viðstöddum, geri ég ráð fyrir. Af hverju mátti það ekki? Vegna þess að það þurfti ekki. Það þarf ekki á Íslandi. Það er óþarfi á Íslandi. Það er allt í lagi á Íslandi að meiri hlutinn trukki hlutunum í gegn, skipi nýtt dómstig í bullandi ágreiningi, meðvitaður um viðvörunarorðin sem voru látin falla þar áður.

Nú veit ég að hæstv. ráðherra finnst kannski ekki nógu gott að ég sé ekki að tala efnislega um málið sem hún vill tala um, heldur meira um umgjörðina í kringum það hvernig við högum lagasetningu og dómstigum, dómskerfinu okkar. En hæstv. ráðherra verður bara að sitja undir því og því miður hv. þingmenn einnig, og þeir sem kæra sig um að hlusta. En þetta er grundvallaratriði. Ef við getum ekki sýnt fram á að yfirvöldum sé treystandi til að setja nýtt dómstig eigum við að vera hrædd. Þá þurfum við að tortryggja svona lög, svona frumvörp, jafnvel þótt þau séu góð, jafnvel þótt þau hljómi ágætlega. Við neyðumst til þess. Því að hinn kosturinn er þessi að við segjum bara ókei, að ég segi við hæstv. dómsmálaráðherra: Ókei, ég skal bara lesa þetta og vera ekki að minnast á þetta Landsréttarmál aftur, sem ég veit að hæstv. ráðherra finnst ekki einu sinni óþægilegt, sýnir ekki einu sinni þá lágmarksvirðingu að finnast það í það minnsta pínulítið óþægilegt. Að Alþingi hefði bara hlustað á þessi viðvörunarorð og hunsað þau líka og greitt atkvæði með vilja hæstv. dómsmálaráðherra. Það hefði getað verið þannig. Það hefði verið hæstv. dómsmálaráðherra og Sjálfstæðisflokknum sérlega að skapi, vænti ég. Nema kannski ekki. Ég held að þeim sé bara sama. En það gengur ekki. Mönnum á ekki að vera sama um það hvort yfirvöldum sé yfir höfuð treystandi til að skipa dómara eða að það líti þannig út, því að það er til gömul speki; ekki er nóg að réttlætinu sé fullnægt, það þarf að sjást að því sé fullnægt.

Það er alveg eins með pólitíkina. Ástæðan fyrir því að fólki finnst pólitík vera svona mikið drullusvað, fyrirgefið orðbragðið, virðulegi forseti, er sú að fólk sér ekki ábyrgðina. Það er auðvelt að sjá ekki ábyrgð þegar hún er ekki til staðar. Hún verður sjaldan jafn blöskrunarlega og óþægilega og pínlega og hörmulega og sorglega augljós og í fyrrnefndu Landsréttarmáli.

Þá velti ég fyrir mér hvernig ábyrgur þingmaður ætti að nálgast þetta mál miðað við það sem á undan er gengið, miðað við hegðun hæstv. dómsmálaráðherra í Landsréttarmálinu. Ég held að best sé að tortryggja þetta við hvert einasta skref. Reyna að finna glufur, finna eitthvað sem hæstv. dómsmálaráðherra gæti misnotað til að skipa einhvern sem hæstv. dómsmálaráðherra finnst frekar að eigi að vera dómari heldur en eftir einhverju ferli sem annars er búið að samþykkja. Ókei, það er ágætishvati til að lesa þetta betur en ella, leggja meiri tíma í þetta. En gott væri að þurfa ekki að nálgast mál eins og þessi með þeirri svakalegu, algeru tortryggni sem a.m.k. ég sýni gagnvart hæstv. dómsmálaráðherra eftir það sem á undan er gengið. Því að hvert einasta skref, hvert einasta tækifæri, notaði hæstv. dómsmálaráðherra til að taka rangar ákvarðanir. Og sér ekki eftir neinu af því. Ég spurði hér í tvígang áðan, í seinna skiptið mjög skýrt að því er ég taldi, í andsvari við ræðu hæstv. dómsmálaráðherra, jú, það komu tvær mínútur af orðum, vissulega, en ekki kom svar við spurningunni sem var hvort hæstv. dómsmálaráðherra myndi gera eitthvað öðruvísi ef hún stæði frammi fyrir sömu aðstæðum og voru hér í lok maí 2017.

Hvað á góður þingmaður að hugsa? Hvað er rökrétt að hugsa? Ja, kannski myndi hún gera þetta eitthvað öðruvísi. Kannski. Kannski myndi hún nota þetta tækifæri til að gera eitthvað rétt. En ég efast um það. Ég held ekki að það sé rökrétt. Ég held að það væri órökrétt. Ég held að það sé miklu rökréttara að draga þá ályktun að hæstv. dómsmálaráðherra hafi ekkert lært af þessu, myndi gera nákvæmlega það sama í sömu aðstæðum og muni beita sér ranglega og brjóta lög þrátt fyrir varnaðarorð — og vera bara alveg sama. Vera bara ósammála Hæstarétti.

Það sem er náttúrlega verst af öllu er ekki í sjálfu sér það. Dómsmálaráðherrar koma og fara. En það er að þetta þyki í lagi. Það er það sem fer í taugarnar á mér. Að fólki finnist þetta yfir höfuð í lagi. Mér finnst það ekki í lagi og þekki mjög marga sem finnst þetta ekki í lagi. En það er þó alveg þó nokkur hópur fólks sem finnst þetta í lagi og ekki vera neitt mál, bara eitthvert svona stjórnarandstöðutuð, leið til að sóa tíma. En ekki til að tala um skipan nýs dómstigs hvers trausti er grafið undan, því að ráðherra þurfti að fá að gera það sem hann vildi. Og meiri hlutinn þurfti að fá að gera það sem hann vildi, þá sem ávallt.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vona að einn daginn líti kynslóð framtíðarinnar aftur til þessa tíma og hugsi með sér: Fyrirgef þeim, því þau höfðu ekki hugmynd um hvað þau voru að gera.



[17:49]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Það er eiginlega synd að hæstv. ráðherra sé ekki í salnum þar sem ég ætlaði að fá að eiga smáorðastað við hana um tiltekin atriði. Er vitað hvort ráðherra er í húsi? Ég held að ég hafi séð hana frammi.

Ég get svo sem hafið þessa ræðu sem verður ekki löng. Ég vil byrja á að taka það fram að ég held að það sé mjög þarft mál að skipa í dómstól af þessu tagi til að sinna þeim verkefnum sem kveðið er á um í frumvarpinu. Ég verð að viðurkenna að mér hefur ekki gefist tóm til að fara rækilega yfir það en ég reikna með að það sé vandað. Ég treysti því.

Það sem mig langaði til að ræða sérstaklega í framhaldi af allri þeirri umræðu sem varð um skipan dómara í Landsrétt er aðferðin við skipan dómaranna — ég sé að ráðherra er komin og þakka henni kærlega fyrir því að mig langaði til að — ég fæ bara að endurtaka: Ég fagna þessu frumvarpi og held að það sé ákaflega mikilvægt en ég er að velta fyrir mér ákvæðinu um skipan dómaranna. Ef ég skil þetta rétt eru þarna þrír tilteknir dómstólar sem tilnefna aðila til að taka sæti í dómnum og hafa það karl og konu. Síðan er gert ráð fyrir að staða fjórða dómarans sé auglýst og dómnefnd fari yfir umsóknir og velji.

Ef ég skil þetta rétt munu koma á borð hæstv. dómsmálaráðherra átta tilnefningar, þar með þeir sem sóttu um, og ef svona ákvæði gengur upp verða væntanlega fjórir karlar og fjórar konur komin á borð hæstv. dómsmálaráðherra.

Þá velti ég fyrir mér fyrst tilnefningaraðilum er gert að tilnefna karl og konu og gera í sjálfu sér ekki upp á milli þeirra — að vísu eru undantekningar frá því ef það er greinilega mikill munur á hæfi, ef ég skil það líka rétt — í ljósi umræðu, eins og ég sagði um fyrri skipanir í dómstóla, hvort það komi til álita að þessu sinni að breyta þessu ákvæði einhvern veginn með þeim hætti að dómsmálaráðherra skuli taka tillit til kynjasjónarmiða þegar hann skipar í dóminn. Að þessu sinni ætti það að vera útlátalítið vegna þess að þá eru fjórir karlar og fjórar konur hæf að mati tilnefningaraðila, og þá dómnefndar, til að taka sæti í dómnum. Mönnum ætti að vera í lófa lagið að ganga þannig til verks að dómsmálaráðherra væri gert skylt eða í það minnsta væru mjög sterk tilmæli í lögunum að hann gæti kynjasjónarmiða þegar hann velur úr þessum hópi.

Erindi mitt við hæstv. dómsmálaráðherra þegar ég er að velta þessu fyrir mér er eiginlega hvort þarna væri hægt að finna lausn sem fæli það í sér að við erum í senn að tala um að þarna er fólk sem tvímælalaust er hæft, bæði að mati dómstólanna sem tilnefna og dómnefndar sem skilar áliti til ráðherra, hvort það sé íþyngjandi fyrir dómsmálaráðherra — ég veit ekki hvaða önnur sjónarmið hann ætti að hafa við það að setja saman dóminn. Þetta er eiginlega erindi mitt á þessu stigi máls um þennan nýja dómstól sem ég ítreka að ég tel að sé nauðsynlegur. Ég held að það væri mjög gott ef við gætum nálgast skipan dómaranna með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ég nefni hér. Ég held að það yrði til þess að betri sátt ríkti um skipan dómsins og gerð laganna. Það væri vel þegið ef hæstv. ráðherra gæti hugsað sér að bregðast við en ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að þessu sinni.



[17:55]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil nefna nokkur atriði varðandi framsögu ráðherra og efni frumvarpsins. Ráðherra nefndi að vandamálið við endurupptökunefndina, sem er verið að leysa með þessu, er tengt stjórnarskránni. Afleiðing þess er sú að þessi dómstóll tilheyrir dómsvaldinu, eins og sagt er í greinargerð.

Nú sagði hæstv. ráðherra eitthvað á þá leið í framsögunni að þessi dómstóll skyldi ekki skila neinum niðurstöðum líkt og önnur dómstig. Vissulega er það þannig í lögunum að endurupptökudómur kveður upp úrskurð. Það liggur í hlutarins eðli, miðað við að þessi dómstóll tilheyrir dómsvaldinu og niðurstöður hans eru dómsúrskurður, að hann lýtur þeim lögmálum sem aðrir dómstólar gera einnig, málsmeðferðarlega séð. Það er þó örugglega eitthvert tæknimál sem hægt er að fara nánar út í en ég er ekki einn af þessum löglærðu hérna, ekki úr lögfræðingaflokki.

Ég geri einnig smáathugasemdir varðandi skipun dómaranna. Nú er sagt í frumvarpinu að fjórir séu skipaðir dómarar. En lagt er til að einungis þrír dómarar taki þátt í meðferð hvers máls og að sá dómandi sem tilnefndur er af því dómstigi sem dæmdi það mál sem óskað er endurupptöku á verði ekki einn þeirra.

Nú er það svo að hvert mál getur hafa farið alla leiðina í gegnum dómstigin alveg upp í Hæstarétt. Það er Hæstiréttur sem kveður upp lokadóm sem gæti í raun verið sá sami og Hæstiréttur og Landsréttur kváðu upp. Þó að hæstaréttardómarinn sé ekki í þeim endurupptökudómstól eru þar dómarar frá Hæstarétti og héraðsdómi, dómstigum sem komu að því máli á einhverju stigi þess; komust jafnvel að sömu niðurstöðu, hún var kannski staðfest alla leið. Ef koma á í veg fyrir einhvers konar árekstra við samdómendur á því dómstigi sem málið endaði á er það samt enn til staðar þar sem málið hlaut jafnvel meðferð í héraði og Landsrétti eða bara í héraði og Landsrétti en ekki Hæstarétti, hvernig sem það er.

Ég tek ágætlega í þær hugmyndir að eðlilegt væri að draga um þetta, hverjir sitja þarna í hvert skipti. Það getur verið lausn á því. En vandamálið er samt til staðar, þ.e. dómarar koma óhjákvæmilega til með að sitja í þessum Endurupptökudómi þar sem málið hefur hlotið meðferð á dómstigi þeirra meðal samdómara. Það er gott að hafa það til hliðsjónar og spurning hvort hægt væri að hafa þessa dómara sem auglýst er eftir í meiri hluta; að það væri kannski bara einn af þeim dómurum sem eru skipaðir og tveir sem auglýst hefur verið eftir í hvert skipti; einhver þannig skipting í staðinn.

Að lokum: Ég er í fjárlaganefnd og kíki alltaf á mat á áhrifum. Ekki er gert ráð fyrir að það séu nein fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð af því að þetta kemur í staðinn fyrir endurupptökunefndina. En í greinargerð um það, með leyfi forseta, stendur:

„Í því sambandi er sérstaklega bent á að áfram er gert ráð fyrir að þrír aðilar taki þátt í meðferð hvers máls fyrir sig og fái dómendur einungis greitt fyrir þau mál sem þeir taka sæti í, og þá samkvæmt tímagjaldi sem ákveðið er af kjararáði.“

Kemur kjararáð inn í þetta líka? Við erum með Landsrétt sem hangir yfir þessu eins og draugur og svo bætist kjararáð við líka.

Miðað við nýlegar ákvarðanir hjá kjararáði, t.d. um laun þingmanna, efast ég um að tímagjaldið verði það sama og það er núna. Ég veit ekki hvernig greitt er fyrir þetta núna en ætla að leyfa mér að giska á að tímagjald sem kjararáð ákveður verði hærra, af einhverjum orsökum. Það er bara byggt á reynslunni hvað þessi mál varðar og landsréttardraugurinn sem slíkur er einnig byggður á reynslunni í meðferð þessara mála. Það er ástæðan fyrir því að ég nefni það hérna. Ég er ekki viss um að þessi staðhæfing, um að þetta hafi engin fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð, sé sönn.

Að lokum hef ég almenna athugasemd um lagafrumvörp af þessari stærð þar sem mjög margar af breytingum frumvarpanna eru á þessa leið: Í stað orðsins „jaríjaríjarí“ kemur orðið „jaríjaríjarí“. Það er þó nokkuð mikið af slíkum breytingarákvæðum sem gera að verkum að maður glatar samhenginu. Maður þarf að fara í upprunalegu lögin og skipta út handvirkt: Hvernig fæ ég heildartextann núna? Hvernig lítur hann út? Er ég að missa af einhverju samhengi sem ég hefði ef heildartextinn birtist einfaldlega í lagafrumvarpinu? Nú erum við með þingsályktun, sem var samþykkt á þingi, um tölvutæk gögn, tölvutæk lög í rauninni; lagatexta, sem mundi hjálpa okkur mikið til að sjá heildarlögin eins og þau líta út ef þau væru samþykkt miðað við lagatextann eins og hann lítur út núna. Þetta blandast inn í þær kvartanir sem við höfum, alla vega ég, varðandi þau þingmál sem eru að detta inn, þau eru mörg hver ansi stór og nokkur einmitt á þennan hátt. Þetta kemur aðeins í veg fyrir að maður geti sett sig inn í málið á hraðan og einfaldan hátt. Maður þarf að fara í rosalega mikla handavinnu, tímafreka handavinnu, við að púsla út úr lagabreytingunum hver áhrifin á lögin verði að lokum. Síðan þarf maður að vera viss um að það sé rétt gert því að það er ekkert sjálfsagt í því. Sumar breytingarnar eru ansi flóknar, fara í einhverja liði og setningar o.s.frv., 3. mgr. „jaríjaríjarí“ og 2. liður og ég veit ekki hvað. Maður týnist stundum mjög auðveldlega þegar þetta er orðið flókið ef maður er ekki sjóaður í að lesa hvernig lög eru uppbyggð.

Ég myndi vilja hvetja forseta í þessu tilviki til að spýta aðeins í lófana varðandi þessa þingsályktun um tölvutækan lagatexta sem við höfum til að koma þessu í gagnið. Það myndi spara okkur þingmönnum ansi mikla vinnu við að reyna að ná samhenginu í þeim lögum sem verið er að leggja fram. Það er nefnilega nægilega mikil vinna að lesa sig í gegnum öll lögin sem koma, hvað þá að bæta því við að þurfa að púsla þeim saman. Þetta er eins og leikskóladót; maður fær ósamansett púsl og þarf að skoða það en getur ekki skoðað eitt og eitt púsl og áttað sig á samhenginu. Ég tel nauðsynlegt að við förum að hætta þessu, sérstaklega í lögum sem eru svona fyrirferðarmikil og með svona margar einstakar breytingar fram og til baka. Þegar það eru ein til tvær greinar þar sem skipt er út einni setningu er þetta ekkert flókið, en þegar það er orðið svona viðamikið minni ég einfaldlega á þessa þingsályktun og hvet forseta til að láta eitthvað verða úr henni.



[18:05]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls, verið málefnalegir og viljað ræða efni þessa frumvarps sem full ástæða er til að ræða í þessum þingsal en einnig í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Það er meginregla og algert grundvallaratriði í réttarríkinu að dómur sé endanleg niðurstaða í ágreiningsmáli. Það er meginregla sem gott er að hafa í huga, þannig að dómur bindi algeran endi á þá þrætu sem er verið að leysa úr. Það kunna hins vegar að vera uppi slík tilvik, koma upp síðar, að það þyki svo augljóst að mál hafi með einhverjum hætti ekki verið borið réttilega undir dómstólinn, þ.e. öllu heldur að forsendur fyrir þeim dómi hafi ekki verið allskostar réttar og ekki sé hægt að kenna aðilum máls um. Það er þá líka einn þáttur í réttarríkinu að menn eigi þess kost að fá kveðið upp úr um hvort forsendur séu fyrir því að taka upp dóm.

Eins og ég nefndi í framsögu minni hefur þessu verið þannig háttað frá árinu 2013 að stjórnsýslunefnd, hluta af framkvæmdarvaldinu, er falið að kveða upp úr um þetta. Það var í kjölfar samþykktar Alþingis á þingmannafrumvarpi sem var lagt fyrir árið 2013 sem kvað á um þetta. Það var ekki bara þannig að þar með væri það tekið úr höndum Hæstaréttar, sem fram að þeim tíma hafði haft það hlutverk að veita umsögn um endurupptökubeiðnir — 2013 var þessari stjórnsýslunefnd komið á laggirnar. Alþingi samþykkti einnig, ekki í nokkrum einasta ágreiningi — eða þeir sem samþykktu það þingmannamál, sem voru reyndar ekki allir þingmenn, þvert á móti — en þingið samþykki þá að kæmist þessi stjórnsýslunefnd að þeirri niðurstöðu að forsendur væru til að endurupptaka dóm þá félli hinn nefndi dómur þá þegar úr gildi. Þetta gerði Alþingi og það hvarflaði að nokkrum þingmönnum að leggja fyrir Alþingi að samþykkja það og Alþingi samþykkti með þeim þingmeirihluta sem þá var við lýði. Að sjálfsögðu komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að þarna væri gróflega vegið að stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinganna og brotið gegn stjórnarskrá og sjálfstæði dómstólanna með þessum hætti.

Það var nú ekki um að ræða að það yrði. Nú viðurkenna menn, og ég vona að það sé óumdeilt hér, að sú breyting sem hér er lögð til færi þessi mál í miklu betra form, alveg örugglega miklu betra form en var með nefndri stjórnsýslunefnd sem var sett á laggirnar 2013 en líka í miklu betra form en það sem hafði þekkst fyrir þann tíma.

Ég vil árétta að þegar ég á við að þessi endurupptökudómstóll kveði ekki upp efnislega niðurstöðu í máli þá er ég að vísa til þess að hann tekur eingöngu afstöðu til þess hvort tilefni sé til að endurupptaka málið. Það kann síðan að vera að málið verði endurupptekið í kjölfarið og nákvæmlega eins dómur falli. Eða allt öðruvísi dómur. Það er algerlega á forræði dómstólsins sjálfs, viðeigandi dómstóls sem tekur þá upp þann dóm, en endurupptökudómstóllinn kveður ekki upp efnislega dóma heldur kveður upp úr um hvort dómur skuli endurupptekinn. Þetta er kannski svona lagatæknilegt atriði. Þó þannig að mér fannst rétt að árétta að þetta er ekki dómstóll í þeirri eiginlegu merkingu að hann leggi efnislegt mat á ágreiningsefni.

Menn hafa einnig velt því fyrir sér hvernig eigi að skipa dómara í þennan dómstól. Ég fagna því mjög að menn hafi áhuga á að velta því raunverulega fyrir sér hvernig dómari er valinn í þennan dómstól, jafnvel þótt, að því sögðu, að þetta sé ekki þess háttar dómstóll sem kveður upp efnislega niðurstöðu í málum.

Hér er farin sú leið að fela öllum dómstólunum þremur að tilnefna einhvern úr sínum hópi. Svo yrði auglýst eftir fjórða manninum. Ég held að margar leiðir séu færar í þessu. Ég hef nefnt að það geti verið málefnalegt að fela þessum dómstigum að draga hreinlega úr nöfnum; að allir dómarar við tiltekinn dómstól, segjum samt með tiltekna reynslu að baki, t.d. dómarar við héraðsdóm sem hafa verið dómarar fimm ár, séu settir í pott sem dregið er úr og þannig sé róterað svo að menn sitji þarna, eins og reyndar er kveðið á um hér, ekki of lengi. Þannig sé þessu skipt út. Þetta er ein leiðin. Það er líka hægt að fara þá leið að hafa ekki einstakling þarna sem er utan við dómstólana heldur fjölga bara dómurum úr öðru dómstiginu til að kveða upp endurupptökudóma. Ég nefni þetta nú bara. Ég held að það væri gagnlegt ef nefndin myndi fjalla um þetta sérstaklega.

Hvað kynjasjónarmiðin varðar er hér sérstaklega tekið fram að tilnefningaraðilar þurfi að tilnefna bæði konu og karl. Því var velt hér upp í ræðu eins hv. þingmanns hvort tilefni væri til að kveða líka á um að ráðherrann skyldi vera bundinn við að skipa jafnt í. Ég sé ekki ástæðu til að tiltaka það sérstaklega í lögunum. Eins og ég hef áður nefnt í umræðum við skipan dómara tel ég að ráðherrar séu bundnir af kynjasjónarmiðum í þessum efnum, svo sem lögum um jafna stöðu og réttindi karla og kvenna bjóða. Sá ráðherra sem hér stendur hefur lagt sig í líma við að skipa jafnt hlutfall karla og kvenna í m.a. hinn nýja dómstól, Landsrétt, þrátt fyrir mikil ramakvein frá einstökum þingmönnum.

Það geta líka verið þannig aðstæður og ég vek athygli á því að það er ekki víst að allir dómstólarnir hafi tök á að tilnefna bæði konu og karl þótt það til framtíðar líti út fyrir að það verði alla jafna. Þetta vildi ég segja um þetta.

Ég vil síðan að lokum nefna að ég get tekið undir það sem kom fram í máli eins hv. þingmanns að það kann að vera snúið að lesa út úr þessum frumvörpum. Ekkert þessu fremur en öðrum, það er almennt svona. Ég hef óskað eftir því í dómsmálaráðuneytinu að þegar það undirbúi frumvarp sé ávallt undirbúinn svokallaður texti á ritvinnsluskjali sem sýnir breytingarnar, gildandi lagatexta með innfelldum breytingartillögum. Það mun ekki standa á dómsmálaráðuneytinu að senda slíkt skjal til viðeigandi nefndar sem hefur málið til umfjöllunar. Ég hvet hv. þingmenn til að nýta sér það. Svo bendi ég á að hv. þingmenn sjálfir hafa starfsmenn, allir stjórnmálaflokkarnir, til þess að inna svona vinnu af hendi en ég hef ekki orðið vör við annað en að starfsmenn þingsins séu reiðubúnir til að aðstoða þingmenn við alla þessa vinnu og hefur ekki þurft að biðja oft um slíkt í nefndum, að svoleiðis skjöl séu útbúin. Ég tel hins vegar ekki að tvíverknaður eigi að vera í gangi. Ef þetta er til í ráðuneytunum, ég tala þá bara fyrir dómsmálaráðuneytið, mun ég leggja mig fram um að koma þessum texta á framfæri við þingið.



[18:15]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt hægt að gera athugasemdir við hérna. Ég ætla að byrja á hringavitleysunni í þessu. Nú er það svo í frumvarpinu að það er passað upp á að dómari sé ekki úr því dómstigi sem málið endaði á. En getur þetta ekki farið hina leiðina, þegar endurupptökudómur hefur kveðið á um að taka megi upp mál að nýju sé viðkomandi dómari sem var í endurupptökudómstólnum dómari í málinu þegar það er tekið upp á nýtt?

Einnig vil ég ítreka athugasemdir mínar um að lögin séu í fullu samhengi og með fullum texta. Það gagnast þingmönnum lítið fyrir 1. umr. ef nefndin fær bara skjalið. Þetta ætti að vera hluti af öllu ferlinu.

Að lokum vildi ég bera það alla vega af mér það sem dómsmálaráðherra bryddaði upp á varðandi kynjasjónarmiðin í Landsréttarmálinu. Það var ekki endilega það sem var verið að setja út á heldur skortur á rökstuðningi fyrir því að breytingar voru gerðar. Kynjasjónarmið voru ekki vandamál þar. Þau voru ekki einu sinni notuð sem rök dómsmálaráðherra eftir því sem ég best man.



[18:16]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það á ekki að koma til þess að dómarar verði vanhæfir í þessum málum, hvorki dómarar við endurupptökudómstólinn né við þann dómstól sem mál verður hugsanlega endurupptekið. Það er kveðið á um það í frumvarpinu og gert ráð fyrir því að dómendur séu skipaðir af ráðherra sem ákveður hvor þeirra verði aðalmaður og hvor varamaður. Dómstóllinn verður skipaður fjórum aðalmönnum og fjórum varamönnum. Það eru auðvitað bara hefðbundnar vanhæfisreglur sem eiga að koma til skoðunar við afgreiðslu hvers máls.



[18:17]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þarf að ítreka spurninguna aðeins því hún snýst um það þegar endurupptökudómstóllinn hefur klárað málið og það er tekið upp á nýtt í dómskerfinu; í héraðsdómi, Landsrétti eða hvar sem það er. Hvort þar sé þá dómari sem var í endurupptökudómstólnum og kvað á um að það væru málefnalegar ástæður fyrir því að taka málið upp á nýtt og fær síðan málið inn til sín aftur sem dómari, t.d. hæstaréttardómari. Þeir eru nú ansi margir sem koma þar að. Bara það að hann sé í endurupptökudómstólnum gerir það ansi líklegt að viðkomandi sé líka einn af dómurunum sem tekur við málinu þegar það kemur aftur inn í dómskerfið.



[18:18]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það geti ekki verið um það að ræða að dómari í endurupptökudómstól muni á síðari stigum dæma í máli t.d. héraðsdóms sem er endurupptekinn, í t.d. Landsrétti síðar. Ég held að málum verði þannig fyrir komið við úthlutun mála, því að málum er úthlutað. Það er ekki fyrir fram ákveðið áður en mál koma til dómstóls, heldur er málum úthlutað af dómstjórum hvers dómstóls. Ég held að það hljóti að verða tekið mið af hæfisreglum hvað það varðar eða aðkomu dómara á fyrri stigum, eins og jafnan er gert við úthlutun mála.



[18:19]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði í ræðu sinni að hún hefði viljað láta kynjasjónarmiðin ráða við mikið harmakvein hér á Alþingi. Mig langar bara að spyrja hæstv. ráðherra að því: Hver var það hér sem var á móti því að líta til kynjasjónarmiða?



[18:19]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur dómari. Ég nefndi það bara að ég hefði við skipan í Landsrétt skipað jafn margar konur og karla. Ég nefndi það líka að sú skipan í Landsrétt, skipan þess ráðherra sem hér stendur, varð undir miklu ramakveini margra þingmanna.



[18:20]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Er það sanngjarnt og sannleikanum samkvæmt að segja að enginn hér inni hafi mótmælt því að líta til kynjasjónarmiða?



[18:20]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú átta ég mig ekki á því hvað hv. þingmaður er að fara. Ég veit ekki hvað fór fram í hugum hv. þingmanna við skipan í Landsrétt síðasta sumar, en ég veit það þó og það er nú skjalfest að menn drógu mjög lappirnar, margir þingmenn, vildu fresta málinu og sáu sér ekki fært að afgreiða tillögu ráðherrans um sjö konur og átta karla við Landsrétt.



[18:21]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að víkja orðum að mínum athugasemdum eða spurningum. Við getum náttúrlega ekki treyst því að dómsmálaráðherrar framtíðarinnar verði jafn afdráttarlausir jafnréttissinnar og núverandi hæstv. dómsmálaráðherra. Eins og þetta kerfi gerir ráð fyrir, að þessir dómarar í þennan endurupptökurétt eða dómstól verði skipaðir, er engin spurning um hæfi þeirra, þeir eru allir hæfir til þess að vera dómarar á sínu dómstigi. Þess vegna eru þeir valdir.

Þess vegna hlýt ég að ítreka spurningu mína: Er það ekki útgjaldalítið að hnykkja á því í þessum lögum einmitt vegna forsögunnar og einmitt vegna þess að við viljum jafna kynjahlutföll í dómstólunum? Ef sú staða verður uppi að þeir aðilar sem tilnefna geti ekki tilnefnt jafnt hlutfall karla og kvenna er það orðinn ómöguleiki fyrir ráðherrann að hafa jafnt kynjahlutfall. Þá gerir hann eins vel og hann getur með þau sjónarmið í huga. Væri það ekki útgjaldalítið þar sem þetta snýst ekki um hæfi? Af hverju ætti hæstv. dómsmálaráðherra ekki að geta unað því að hafa reglu sem segir: Gæta skal að því að hlutfall dómara í þessum dómstóli sé jafnt eða sem jafnast? Væri það ekki útgjaldalítið og væri það ekki bara góður endahnútur á umræðu um þetta mál og stimplar hæstv. dómsmálaráðherra inn sem sannan jafnréttissinna?



[18:23]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef nefnt að ég telji að ráðherra sé alla jafna bundinn af lögum um jafna stöðu og rétt kvenna og karla, við allar ákvarðanir, m.a. skipanir í ráð og nefndir. Ég vil hins vegar líka benda á að hér er gert ráð fyrir að skipunartími dómenda sé sex ár en þó þannig að annað hvert ár renni út skipunartími eins þeirra þriggja sem koma úr röðum embættisdómara.

Það er því nokkur velta á dómurum í þessum dómstól. Jafnvel þótt tilnefndir séu jafn hæfir dómarar — allir eru þeir auðvitað hæfir, sitjandi embættisdómarar, annaðhvort væri það nú — þá kunna að vera uppi þannig aðstæður, og nú er ég bara að velta fyrir mér einhverjum aðstæðum sem kunna að koma upp, að í dóminn hafi valist dómarar sem hafa kannski sérþekkingu á tilteknu réttarsviði umfram annað réttarsvið. Og svo kann jafnvel að koma upp eitthvert réttarsvið sem við þekkjum ekki í dag sem brýnt væri að hafa í dómstól sem þessum. Það kunna því að koma upp einhver slík sjónarmið þar sem rétt væri — jafnvel þótt það væru þrjár konur í dómstólnum gætu verið einhver rök fyrir því að skipa fjórðu konuna næstu sex árin, þar sem vitað er að ein konan úr hópi hinna þriggja hverfur úr dómstólnum kannski eftir eitt ár eða svo.

Aðstæðurnar eru þannig það er ekki alveg hægt að útskýra þær í eitt skipti fyrir öll. Ég tel að löggjöf í dag eigi að tryggja þau sjónarmið sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af.



[18:26]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Mér er nú eiginlega óskiljanlegt af hverju hæstv. dómsmálaráðherra er svona treg í taumi. Auðvitað geta verið uppi alls konar ástæður. Það getur auðvitað líka verið þannig að nýtt réttarsvið komi þar sem væri mjög æskilegt að hafa dómara sem kynni einhver skil á því. Það vill bara þannig til að það er enginn slíkur dómari til í landinu. Hvorki karl né kona. Og hvað ætla menn að gera þá?

Þannig að mér finnst þetta satt að segja talsverður fyrirsláttur hjá hæstv. dómsmálaráðherra. Ég held að sagan segi okkur það ótvírætt þrátt fyrir allt, þrátt fyrir jafnréttislög og þrátt fyrir skýra skyldu að hallað hefur á konur. Það er nú hin einfalda staðreynd. Ég veit ekki alveg hvernig verður með rétt dómara í dómstól sem hefði sagt: Ja, ég hefði nú átt að vera í hópi þeirra sem tilnefndur var af þessum tiltekna dómstól og hæstv. ráðherra hefði átt á skipa mig. Hver eru réttarúrræði dómaraefnanna til þess að skjóta þá málum sínum til jafnréttisnefndar eða dómstóla eftir atvikum? Er ekki ágætt bara að hafa þetta skýrt og skorinort?



[18:27]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður er hissa hvað þessi ráðherra sem hér stendur er treg í taumi. Því er til að svara að ráðherrann er ekkert áfjáð um að láta teyma sig eitt eða neitt, það útskýrir það nú. En ég hvet allsherjar- og menntamálanefnd til þess að ræða þetta almennt. Ég er þeirrar skoðunar að þessi sjónarmið eigi ekki heima í hverjum einasta lagatexta sem hér er settur og varðar einstaklinga. Ég bendi líka á að kynjunum fer sífjölgandi nú til dags. Ég velti því fyrir mér hvort í fjögurra manna dómstól þurfi kannski að vera eitthvert svigrúm fyrir fleiri kyn en tvö.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.