148. löggjafarþing — 47. fundur
 11. apríl 2018.
kvennadeildir Landspítalans.

[15:22]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég beini fyrirspurn til hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra. Ég er mjög spennt fyrir svörunum. Mig langar að ræða í dag þá grafalvarlegu stöðu sem blasir við á kvennadeildum Landspítalans. Nú þegar hefur talsverður fjöldi ljósmæðra sagt störfum sínum lausum. Heilbrigðiskerfið hefur undanfarin ár þurft að þola síendurtekinn niðurskurð sem hefur bitnað misjafnlega á hinum ýmsu deildum Landspítalans og annarra sjúkra- og heilbrigðisstofnana.

Þrátt fyrir það hafa kvennadeildir Landspítalans, og þá sérstaklega fæðingardeild og meðgöngu- og sængurlegudeild, viðhaldið gæðum heilbrigðisþjónustunnar fyrir nýfædd börn og mæður. Á þessum deildum eru ljósmæður meiri hluti starfsmanna. Störf ljósmæðra eru algerlega nauðsynleg til að tryggja heilbrigði mæðra og barna og eru menntakröfur til þeirra í samræmi við það krefjandi starf sem þær sinna. En einhverra hluta vegna er vinna þeirra ekki metin til fjár.

Nú lítur út fyrir að harðlínustefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum muni bitna allverulega á þessari mikilvægu stétt og þeim mikilvægu deildum Landspítalans sem þær vinna á. Kjaramál ljósmæðra eru í svo miklum ólestri að þær hafa síðastliðnar vikur sagt upp í tugatali. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ber ábyrgð á starfsmanna- og kjaramálum ríkisins. Ber hann þá ekki endanlega ábyrgð á því neyðarástandi sem blasir við? Eða er ábyrgðin einhvers annars? Og ef svo er, hvers er hún? Hver ber ábyrgðina?

Það gengur ekki að segja að ábyrgðin sé hjá stéttarfélögunum vegna þess að síðast þegar ljósmæður fóru í verkfall samþykkti fjármálaráðherra lög á verkfallið. Þær fengu ekki að semja. Hefur ráðherra sjálfur sett sig inn í kjaraviðræður ljósmæðra í ljósi þess hve alvarleg staðan er? Eða telur ráðherrann stöðuna yfir höfuð alvarlega? Hefur ráðherra kynnt sér mögulegar afleiðingar þess ef stór hluti ljósmæðra hættir störfum?

Og aftur: Hver ber ábyrgð?



[15:24]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er dálítið snúið mál að taka kjaraviðræður sem standa yfir upp hér í þinginu og ætla að fara að skiptast á skoðunum um hvernig best sé að leiða þær til lykta. Ég ætla ekki að fara í neina keppni við hv. þingmann um það hvoru okkar þyki vænna um ljósmæður, mér eða hv. þingmanni, mér þykir þær sinna mikilvægum störfum. Ég get bara sagt það eitt að ég er einn þeirra fjölmörgu Íslendinga sem hafa ítrekað (Gripið fram í: Sett lög á þær.) … nú halda ósmekklegheitin áfram hérna. Ég er einn þeirra Íslendinga sem hafa farið upp á fæðingardeild, fjórum sinnum, og það hefur mjög reynt á þá þjónustu sem hér er vísað til. Ég held að ekki fari vel á því að við förum í einhverja keppni um hvert okkar kunni best að meta þá sem hér eiga undir. (Gripið fram í.)

Vandinn sem við er að etja birtist okkur m.a. með þeim hætti að í miðri kjaralotunni þegar kjaraviðræður stóðu ágætlega, og ég hef sett mig inn í hvernig þær standa, þegar svo virtist sem tiltölulega stutt væri á milli manna sem sátu við samningaborðið, var skipt um kúrs hjá viðmælendum samninganefndar ríkisins og öllu því, a.m.k. flestu, sem áður hafði verið rætt um ýtt til hliðar og færðar fram á samningaborðið allt aðrar og nýjar kröfur. Þess vegna hefur ekki tekist að ljúka samningalotunni. Við munum halda áfram að reyna. Það er allt rétt sem hv. þingmaður segir, það er mikilvægt að við komumst að niðurstöðu.

Ég vil þó fá að koma einu að hér undir lokin. Þegar talað er um að gildandi samningar meti viðkomandi stéttir ekki að verðleikum er það nú samt þannig að þeir eiga sér sögulegar rætur og hafa almennt verið samþykktir af viðkomandi stéttarfélögum. Það er staðan. Við eigum ekki að umgangast þá með öðrum hætti en þeim að almennt (Forseti hringir.) séu samningar leiddir fram eftir viðræður sem leiða til samkomulags.



[15:26]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég var búin að rita hérna hjá mér eitthvað fyrir annað hollið sem ég er að spá í að sleppa og hafa þetta einfalt. Ég er ekki í einhverri keppni um hverjum þyki vænst um ljósmæður. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hæstv. ráðherra á börn. Ég á börn. Við eigum flest börn og skiljum alveg hversu mikilvægt starf ljósmæðra er. Það sem ég spyr hæstv. ráðherra um er: Hver ber ábyrgð á neikvæðum afleiðingum uppsagna ljósmæðra fyrir samfélagið og fyrir konur og börn sérstaklega? Ljósmæður eru að segja upp og ef við náum ekki samningum, hver ber endanlega ábyrgð á þeim neikvæðu afleiðingum sem það hefur fyrir samfélagið að missa þessar konur úr vinnu og af spítalanum í aðra vinnu, af því að launin þeirra eru ekki nægilega góð? Hver ber ábyrgð? Það er eina svarið sem ég vil fá.



[15:27]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við skipum samninganefnd ríkisins sem hefur það ábyrgðarhlutverk að láta reyna á samninga. Það er tvíeggjað sverð. Annars vegar þarf að láta reyna til fulls á að niðurstaða fáist sem báðir aðilar eru sáttir við. Ef það tekst ekki getur það verið mikill ábyrgðarhlutur sömuleiðis að ganga engu að síður að kröfum sem setja aðra samninga í fullkomið uppnám.

Ég get bara sagt það alveg eins og er þannig að það dyljist engum að þær kröfur sem settar hafa verið fram núna eru fyrir samninganefnd ríkisins algerlega óaðgengilegar vegna þess að þær myndu setja fordæmi sem settu allar aðrar kjaraviðræður, sem eru á viðkvæmu stigi í þessu landi á þessu ári og því næsta, í algert uppnám. (Gripið fram í.) Það er ástand sem við ætlum ekki að skapa í þessari lotu. (Gripið fram í.)