148. löggjafarþing — 49. fundur
 13. apríl 2018.
um fundarstjórn.

svör við fyrirspurnum – vinna í fjárlaganefnd.

[11:09]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að leita ásjár forseta. Þannig er að ég hef á þessu þingi lagt fram allnokkrar fyrirspurnir sem varða þjóðarhag. Ein sú fyrsta, sem ég lagði fram um miðjan febrúar til hæstv. fjármálaráðherra, var um innflæði erlends áhættufjármagns til Íslands.

Þeirri fyrirspurn hefur ekki verið svarað og ég minnist þess ekki að hafa heyrt af forsetastóli beiðni um frest til svars við henni. Það kann að vera að það sé misminni hjá mér og ég er kannski ekki hér við upphaf allra funda. En mig langar til að biðja hæstv. forseta að ganga eftir því hvort ekki sé hægt að fá þessari fyrirspurn svarað því að það ríður á miklu að svarið komi fram áður en þingstörfum lýkur og áður en við tökum okkur hlé vegna sveitarstjórnarkosninga. Því bið ég forseta góðfúslega um að ýta á eftir því við hæstv. fjármálaráðherra að svar berist við þessari fyrirspurn.



[11:10]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Það er sjálfsagt mál að verða við ósk þingmannsins. Forseti mun sjá um að gengið verði eftir svari frá ráðuneytinu.



[11:10]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tók þessum orðum hv. þm. Brynjars Níelssonar persónulega. Ég vil nú víkja að dagskrá nefndafunda á næstunni. Þar er gert ráð fyrir því að fjárlaganefnd sé að störfum alltaf, einfaldlega alltaf, í öllum slottum, öllum hólfum sem nefndum er úthlutað til funda með ráðuneytunum til kl. 18 alla daga, frá kl. 8–18. Ég sé ekki að ég hafi í rauninni tíma til að undirbúa mína vinnu og fyrirspurnir mínar til ráðuneytanna á neinum öðrum tíma. Ég er upptekinn allan daginn alla daga. Mér finnst ekki góður bragur á því að þegar ríkisstjórnin skilar fjármálaáætluninni seint hlaupi þingið upp til handa og fóta og fórni faglegum vinnubrögðum til að kreista fram einhvers konar afgreiðslu á heilli fjármálaáætlun á örskömmum tíma. Mér finnst það ekki vera boðleg vinnubrögð. (Forseti hringir.) Áðan var ég að tala um eflingu Alþingis og ábendingar sem þingið fékk um fagleg vinnubrögð. (Forseti hringir.) Vinsamlegast laga þetta.



[11:11]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég rifjaði um daginn upp orð núverandi forseta þingsins sem hann lét falla á sínum tíma um þáverandi forseta Alþingis en þá kallaði hann forsetann færibandastjóra. Eins og þá ætla ég mér ekki að setja þann titil á núverandi forseta en dagskrá fjárlaganefndar í næstu viku ber ansi sterkan keim af færibandavinnu. Við eigum að fá yfirferð allra ráðuneyta á 4.500 milljarða kr. fjármálaáætlun á fjórum dögum. Þessi dagskrá nefndarinnar sýnir í raun vel að í hugum sumra er þingið ekkert annað en afgreiðslustofnun framkvæmdarvaldsins. Við eigum bara að afgreiða málin hratt og helst ekki gera neinar breytingar eins og dæmin sýna. Munum að fjármálastefnan fékk 80 ábendingar og athugasemdir og meiri hlutinn ákvað að gera engar breytingar hvað það varðaði.

Herra forseti. Þetta nær ekki nokkurri átt. Breytum þessu vinnulagi og hættum að líta á Alþingi sem einhverja stimpilstofnun ráðherranna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:12]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nú verð ég í fyrsta skipti að vera ósammála samflokksmanni mínum, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, þegar hann notar orðið færiband. Það er rétt að við erum afgreiðslustofnun. Ég vil miklu frekar líkja ástandinu hérna við svona týpískan vertíðarkúltúr Íslendinga, þar sem við djöflumst í skorpum og tökum okkur svo langar pásur þess á milli. Til hvers hefur það leitt? Lægri framlegðar og framleiðni en aðrar þjóðir búa við.

Ég held að við þurfum að fara að taka þessi vinnubrögð til endurskoðunar. Við vöruðum við því að ef hæstv. fjármálaráðherra myndi ekki fara að lögum og birta fjármálaáætlunina á réttum tíma myndi það leiða til þess að við yrðum ofhlaðin. Hinar nefndirnar fá líka of lítinn tíma til þess að undirbúa sín viðbrögð við henni. Þannig að akkúrat í augnablikinu stöndum við við færibandið en ef þetta færiband væri sæmilega skilvirkt og við fengjum tækifæri til að hugsa gagnrýnið en ekki að lenda í þessari óþolandi skorpu sem við erum núna í væri það í lagi.



[11:14]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í gær kom yfirlýsing frá SÁÁ þar sem þeir tilkynntu að hér eftir byðist ekki börnum yngri en 18 ára að koma í meðferð á Vogi. Með því er verið að reyna að tryggja að sú staða komi ekki upp sem kom upp nú á dögunum að unglingsstúlka hefði hugsanlega verið misnotuð í meðferðinni.

En hvað er til ráða? Síðan árið 2000 höfum við tekið á móti börnunum okkar sem átt hafa bágt. Er einhver munur á því að vera fárveikur 17 ára unglingur eða 16 ára eða 18 ára? Hvað verður um þessi börn, virðulegi forseti? Ég kalla eftir utanumhaldi um börnin okkar. Það er óviðunandi að í hverri einustu viku skuli níu þeirra koma inn í andnauð vegna ofneyslu á ópíóðalyfjum og hugsanlega dóu fimm ungmenni af völdum þeirrar neyslu í janúar sl. Ég kalla eftir aðgerðum fyrir börnin okkar.



[11:15]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti minnir á að hér hafa þingmenn óskað eftir því að ræða fundarstjórn forseta.



[11:15]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Ég verð að taka undir orð annarra þingmanna um þetta verklag okkar við vinnslu fjármálaáætlunar. Ég er satt best að segja dálítið hugsi, við erum að fara í gegnum snarpa vinnulotu. Ég kveinka mér aldrei undan mikilli vinnu, ég kvíði því ekkert að sitja í fjárlaganefnd í næstu viku og klára þá fundalotu sem þar er stillt upp, en ég spyr mig um leið: Til hvers? Það er alveg augljóst í svona uppleggi þegar við erum að tala um liðlega 5 þús. milljarða ríkisútgjöld á fimm árum, við erum að tala um langtímastefnumörkun fyrir ríkissjóð, að þessari vinnu er stillt upp þannig að þinginu er ekki ætlað að gera neitt með þetta. Þinginu er ekki ætlað að vinna neitt með þetta plagg.

Framkvæmdarvaldið er búið að verja einhverjum mánuðum í að undirbúa þetta og ætlar þinginu að klára málið á viku eða tíu dögum. Við eyðum talsvert meiri og vandaðri vinnu í umræðu um fjárlög hvers árs. Ég segi eins og er, við getum allt eins sleppt þessu eins og (Forseti hringir.) að ætla að vinna þetta svona. Þetta hefur engan tilgang, það er augljóst að þinginu er ekki ætlað að gera nokkurn skapaðan hlut með þetta. (Forseti hringir.)Við rétt klórum í yfirborðið á þessari áætlun með þeim vinnubrögðum sem hér er lagt upp með. Þá skulum við bara leggja þetta (Forseti hringir.)af og vinna þetta með einhverjum öðrum hætti.



[11:17]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi verklagið við afgreiðslu þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 verð ég að segja að mér finnst menn gera fulllítið úr því hvert við erum komin í að þroska umræðuna um stefnumörkun í opinberum fjármálum. Þegar menn segja að umræðan sé of grunn, þinginu ekki ætlaður nægur tími o.s.frv. finnst mér sömuleiðis gert lítið úr því hverju er hægt að áorka á mörgum dögum í þingsal, þar sem við höfum tekið þrjá daga, og í fjárlaganefnd og öðrum nefndum sem geta tekið málið til umfjöllunar.

Nefndarálit, umsagnir, gagnrýni og skoðun fjármálaráðs, þetta er allt innlegg í umræðuna og getur haft áhrif til framtíðar. Ég segi bara að ef við getum ekki nýtt almanaksárið til að klára stefnumótun til fimm ára á Alþingi fyrir þjóð sem telur 340.000 manns er eins gott að við erum ekki að reyna að stýra milljónasamfélagi eða hundraða milljóna samfélagi vegna þess að í þeim þjóðþingum sem eru að vinna sama verk í slíkum þjóðfélögum eru jafn margir dagar í almanaksárinu. (Gripið fram í.)



[11:18]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil bara koma inn á það sem hefur komið fram í máli hv. þingmanna fjárlaganefndar, hv. þingmanna Björns Levís Gunnarssonar og Ágústs Ólafs Ágústssonar, og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson tók undir. Ég get vel skilið þessar ábendingar um álag. Já, það eru fyrirhugaðir nefndadagar. Okkur gengur ekkert annað til en að nýta þann tíma sem best og samnýta tíma með fagnefndum sem hitta ráðuneyti og ráðherra upp á hvar ábyrgðin liggur á hverju málefnasviði. Í staðinn fyrir að fagnefndirnar hitti þá og svo fjárlaganefnd sér samnýtum við þennan tíma. Það þýðir að við setjum fundina á nefndadagana og fundum stífar en ella væri. Í leiðinni erum við að spara tíma, leggja aðeins meira á okkur, það er rétt, en í þessu felst fyrst og fremst tímasparnaður.



[11:19]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Vissulega hefur umræðan þroskast en innihaldið held ég síður, því miður. Það er nóg af dögum. Þetta þarf ekki að vera spurning um tímasparnað. Það er fullt af dögum í maí sem eru hvorki þingfundir né nefndafundir. Það er hægt að hafa nefndafundi á þeim dögum. Það er alveg hægt að hafa fleiri nefnda- og þingfundi í júní. Það er alveg nægur tími eftir. Við erum ekki að fara í frí þó að þingfundum og nefndafundum ljúki í júní. Við höldum áfram að vinna, að sjálfsögðu. Ég geri a.m.k. ráð fyrir. Ég geri það og ég gæti alveg eins mætt á nefndafundi þá líka eða einhverja þingfundi.

Ég geri athugasemd við þessa þéttu dagskrá af því að hún kemur niður á faglega starfinu sem hefur verið sagt að nefndavinnan sé, að hún sé faglegasta starfið hérna. Þegar svona þétt dagskrá er þar kemur það niður á undirbúningi, þeim upplýsingum og þeirri faglegu vinnu sem við skilum þar. Það er einfaldlega þannig. Það er ekki hægt að neita fyrir það.

Ég kalla eftir því að við gefum okkur þann tíma sem nefndunum er skylt að nota til að sinna (Forseti hringir.) mikilvægasta starfinu, gefi okkur ráðrúm til að skila faglega af okkur.



[11:21]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég ætla ekki að standa í neinum leiðindum. Mér er bara annt um að þessi vinna sé til einhvers gagns. Ég kveinka mér ekkert. Við erum með hálfs mánaðar þinghlé vegna sveitarstjórnarkosninga, við getum hæglega setið í nefndavinnu á meðan. Við getum hæglega unnið lengra inn í sumarið. Ég hygg að ég hafi ekki staðið frammi fyrir jafn löngu „sumarleyfi“ frá því að ég var í grunnskóla. Ég veit að maður finnur sér vafalítið eitthvað til dundurs að vinna með í sumarvertíðinni en ég segi bara að ef þinginu er einfaldlega ætlað að stimpla þessa áætlun er kannski allt eins gott að hún komi fram sem fjármálaáætlun framkvæmdarvaldsins til kynningar. Ef þinginu er hins vegar ætlað að taka þessa áætlun til einhverrar þinglegrar meðferðar og sökkva sér ofan í þá krafta sem knýja áfram kostnað ríkissjóðs, ætla að hafa eitthvað um það að segja hvort þetta sé sett fram með vönduðum, réttum og raunhæfum hætti og (Forseti hringir.) á endanum skila sjálfstæðri niðurstöðu, verður þingið einfaldlega að fá tíma til að fara yfir málið. Ég kveinka mér ekkert undan því að sitja á fundum kl. 8–18 en ég myndi gjarnan vilja hafa tíma til að undirbúa og fara yfir niðurstöðu slíkrar yfirferðar. Sá tími er ekki veittur.



[11:22]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Við erum ekki að kvarta undan vinnuálagi. Við erum heldur ekki að kvarta undan almanaksárinu. Við erum að benda á að öll ráðuneytin eiga að ljúka sinni yfirferð á 4.500 milljarða kr. áætlun á fjórum dögum í næstu viku. Ég hefði haldið að hæstv. ráðherra vildi fá vandaða umfjöllun og umræðu af hálfu þingsins um þessa stóru áætlun.

Ég tel að umræðan sé einmitt ekki nægilega þroskuð til að ljúka þessari yfirferð með þeim hætti sem stefnt er að í næstu viku. Við erum ekki að tala um að lengja þingið fram á sumarið, bara að nota þingdaga betur en hér stendur til. Það verður fróðlegt að sjá framhaldið og við skulum spyrja að leikslokum. Þegar við erum búin að afgreiða þessa fjármálaáætlun skulum við athuga hvort þingið geri einhverjar breytingar á henni. Það verður fróðlegt að sjá hvort meiri hluti fjárlaganefndar treystir sér til að gera eina breytingu á fjármálaáætlun sem er upp á 4.500 milljarða. Það verður fróðlegt að sjá eftir alla þá vinnu sem er fram undan af hálfu allra nefndanna og þingsins hvort einhver breyting verður gerð á áætluninni eða ekki. Þá getum við kannski rætt af fullri alvöru tilgang þeirrar vinnu (Forseti hringir.) sem er fram undan á vettvangi þessa vinnustaðar.



[11:24]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er alltaf til í umræður um hvernig við getum bætt vinnulagið. Hér fór fram ágætisumræða klukkan hálftvö í nótt þar sem var mikil ánægja með það vinnulag sem við höfum komið okkur upp í opinberum fjármálum. Það var eindrægni á meðal þeirra sem tóku til máls um að við værum á réttri leið, við þyrftum að sníða af einhverja vankanta. Ég er áhugasamur um að við gerum það saman. Upphrópanir í þá veru að það sé lögbrot að hafa ekki kynnt þetta laugardaginn fyrir páska, 31. mars, heldur 4. apríl eru út í bláinn. Krakkar! Við erum að tala um þrjá eða fjóra daga.

Að við séum að stimpla áætlun, séum bara einhver afgreiðslustofnun? Fyrri umr. tók yfir 20 tíma. Fram undan er heil nefndavika og svo kemur síðari umr. Gerum ekki svona lítið úr sjálfum okkur með því að tala um að öll þessi vinna þýði að við séum bara stimpilstofnun.

Hvað varðar það að hafa mikið að gera í nefndaviku er ég mjög til í að ræða það í rólegheitum hvernig við getum skipulagt starfið betur. Ég sit í tveimur nefndum og allar mínar nefndavikur eru svona. Það eru fundir alla dagana. Eru hv. þingmenn ekki á villigötum ef þeir kvarta yfir því að (Forseti hringir.) nefndafundir og vinna við fjármálaáætlun taki frá þeim tíma til að búa til fyrirspurnir fyrir ráðherra?



[11:25]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ræða nánar um skipulag á nefndadögum í næstu viku. Til að fyrirbyggja allan misskilning erum við í fjárlaganefnd þar að samnýta tíma með öðrum fagnefndum og reyna að klára kynningu ráðherra og ráðuneyta á áætluninni. Það gefur okkur meiri tíma í frekari umfjöllun um málið. Um það snýst þetta. Við þurfum að pakka þessu svolítið saman í næstu viku, það er rétt, en við eigum eftir að fara í dýpri og nánari umfjöllun um málið. Það er ekki að klárast á þessari einu viku. Við fáum aukinn tíma í þá umfjöllun, það gefur augaleið.

Við skulum hafa það alveg á hreinu að ekki er verið að klára umfjöllun um málið í þeirri viku.