148. löggjafarþing — 50. fundur
 16. apríl 2018.
ummæli ráðherra um þingmann Pírata.

[15:34]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Eins og við vitum hafa Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að hæstv. dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, hafi brotið lög, þ.e. 10. gr. stjórnsýslulaga, þegar hún skipaði dómara við Landsrétt í fyrra. Ráðherra framkvæmdi ekki fullnægjandi rannsókn á umsækjendum um stöðu dómara og gaf ekki fullnægjandi rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun sinni að víkja frá mati dómnefndar um hæfni umsækjenda í dómaraembætti í samræmi við þær kröfur sem á henni hvíla samkvæmt stjórnsýslulögum. Sem stendur hafa tveimur umsækjendum sem gengið var fram hjá verið dæmdar miskabætur og stendur nú yfir deila fyrir dómstólum um hvort Arnfríður Einarsdóttir, ein þeirra fjögurra dómara sem skipaðir voru í trássi við hæfnismat dómnefndar, geti með réttu talist handhafi dómsvalds og bær til að dæma mál í Landsrétti.

Þessa fordæmalausu stöðu þekkjum við vonandi öll í þessum sal, hæstv. dómsmálaráðherra eflaust best sjálfur. Erfitt er að deila um að staða sem þessi grafi undan trausti okkar allra á dómskerfinu og sjálfstæði þess. Einnig gefur hún okkur mörgum tilefni til að vantreysta hæstv. dómsmálaráðherra í þessum efnum yfir höfuð.

Ég vildi rifja þessa sögu upp til að hafa samhengi í eiginlegri fyrirspurn minni til hæstv. dómsmálaráðherra. Sú fyrirspurn snýr einmitt að trausti gagnvart dómstólum og skoðunum hæstv. ráðherra á því. Í síðustu viku átti hæstv. ráðherra orðastað við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson um nýjan endurupptökudómstól sem ráðherra hyggst koma á fót og þar barst í tal traust hv. þingmanns til hæstv. ráðherra gagnvart skipan í enn eitt dómstigið og í ljósi þeirra aðstæðna sem ég hef lýst hér á undan. Í þeim umræðum viðhafði hæstv. ráðherra eftirfarandi orð um samflokksmann minn, hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson, með leyfi forseta:

„Í þessum ræðustól eins og alls staðar annars staðar fljúga menn eins og þeir eru fiðraðir. Þegar talið berst að undangreftri undan dómstólum landsins held ég að hv. þingmaður sé meðal þeirra sem mættu íhuga hvort ræðumennska hans um þetta mál geti átt hlut að máli.“

Í fyrri fyrirspurn minni hér vil ég spyrja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvað í ræðumennsku hv. þingmanns hún telji grafa undan dómstólum landsins svo hún svari skýrt um þessi orð sín.



[15:36]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefði getað tekið þátt í umræðu um þetta ágæta mál sem ég mælti fyrir í síðustu viku og varðar endurupptökudómstólinn. Þar átti ég orðastað við ýmsa þingmenn, bæði í ræðum og andsvörum. Í þessum tilvitnuðu orðum hv. þingmanns er ég að vísa til ummæla sem hv. þingmenn hafa viðhaft hér um það, og fullyrðinga, um að grafið hafi verið undan dómstólunum með framkvæmd við skipan Landsréttar. Þar með vil ég beina því til þeirra sem þessi eða viðlíka orð hafa uppi og beina því aftur til þeirra, vísa slíkum ummælum til föðurhúsanna eins og kallað er, og benda á að veldur hver á heldur. Það eru ummæli eins og þessi, m.a. úr þessum virðulega ræðustól, sem einmitt eru til þess fallin miklu fremur en margt annað að grafa undan trausti og trúverðugleika stofnana ríkisvaldsins.



[15:37]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að upplýsa hæstv. ráðherra um að í síðustu viku var ég erlendis á vegum þingsins og gat því miður ekki tekið þátt í þessari greinilega mjög áhugaverðu umræðu. Hins vegar fer mér að verða betur og betur ljóst af samskiptum mínum, eftir því sem þau verða meiri og lengri, við hæstv. dómsmálaráðherra að hér er svolítið eins og að ræða við keisarann sem var í engum fötum, var sem sagt nakinn, en kennir barninu sem bendir á það stöðugt um að hann sé öllum sýnilegur.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hún sig ekki bera neina ábyrgð á því sem við köllum hér vantraust til dómstóla og er í gangi? Telur hún sig ekki bera neina ábyrgð á því að við treystum ekki hæstv. ráðherra til að skipa í nýtt dómstig? Finnst henni ekkert tilefni til að reyna að vinna inn traust þessa þings á getu hennar til að skipa nýtt dómstig? Er það bara ekki svo?



[15:39]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég get ekki nokkra einustu ábyrgð borið á hugrenningum hv. þingmanns. Ef hann treystir ekki dómstólunum er ekki við mig að sakast, heldur miklu frekar verður hann að leita í sínum eigin ranni að skýringu.

Ég veit ekki betur en að menn leiti til dómstólanna sýknt og heilagt að einhverra mati í mjög miklum og ríkum mæli, a.m.k. þeirrar sem hér stendur, en ég hef svo sem fagnað því að menn leiti til dómstóla til að útkljá allan ágreining. Það er einmitt þar sem menn eiga að leita aðstoðar við að útkljá ágreining sinn. Ég hef ekki orðið vör við annað en að menn treysti öllum dómstigum mjög vel til þess arna.