148. löggjafarþing — 65. fundur
 31. maí 2018.
hvalveiðar.

[11:37]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Með leyfi:

„Litur sjávarins breyttist í rautt og slátrarinn skælbrosir. Hjartað í blóði drifnum höndum hans er enn volgt. Stoltur heldur hann því að myndavélinni.“

Þannig hljóðar fyrirsögn í þýsku dagblaði sem birtist þegar hvalveiðar voru leyfðar aftur á Íslandi árið 2003. Keimlíkar fréttir og frásagnir af hvalveiðum birtust í fjölmiðlum um allan hinn vestræna heim og leiddu til mikillar hneykslunar og gagnrýni. Eftir nokkra daga á að leyfa veiðar á allt að 209 langreyðum, sem eru næststærstu núlifandi dýrategundin og eru á lista yfir dýr í útrýmingarhættu.

Þegar veiðar voru leyfðar aftur skömmu eftir hrun var efnahagslíf þjóðarinnar með allt öðrum hætti og þjóðin sleikti sárin eftir hrunið. Í dag er ekki einu sinni hægt að bera fyrir sig efnahagslegum rökum og mestar líkur eru á að þetta muni skaða atvinnulíf okkar stórkostlega. Ekkert liggur einu sinni fyrir um hvort hægt verður að selja þessar afurðir.

190 þjóðir banna verslun og flutning á hvalaafurðum. 28 Evrópuþjóðir og Bandaríkin hafa þar að auki mótmælt veiðunum hér á landi með formlegum hætti. Þá liggur heldur ekki fyrir neitt nægilegt mat á áhrifum hvalveiða á lífríki, efnahag eða samfélag. Loks er ótalið hversu hrottalegar þessar veiðar eru, með eldgömlum tækjum. Í því ljósi er ákvörðunin um áframhaldandi hvalveiðar í raun algjörlega óskiljanleg.

Ég vil einfaldlega fá að vita hvort hæstv. umhverfisráðherra sé mér sammála um að í þessu felist skammsýni og hvort eitthvað hafi breyst í stefnu Vinstri grænna varðandi friðun hvala. Ef ekkert hefur breyst, hvernig hefur flokkurinn þá beitt sér í ríkisstjórn? Og ef eitthvað hefur breyst, hvaða ný rök vill hæstv. ráðherra telja upp sem mæla með hvalveiðum á Íslandi?



[11:40]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þær veiðar sem hér er um að ræða byggja á ákvörðun sem tekin er samkvæmt reglugerð sem gildir út árið 2018 og mun málið þess vegna fara þá leið. Hvað varðar ríkisstjórnina og áframhald á veiðum þá er það nokkuð sem engin ákvörðun hefur verið tekin um, en búið er að ákveða að ráðast í úttekt á því hvaða áhrif veiðarnar hafa efnahagslega á atvinnuvegi, fleiri en bara þann sem hér um ræðir.



[11:41]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Samráð. Úttekt. Heilsteypt. Ég er að verða bara býsna leiður á þessu. Ég spyr: Hyggst ríkisstjórnin grípa til aðgerða til að stöðva og hindra að þessar veiðar fari af stað aftur? Vegna þess að það getur hún.

Við horfum upp á Vinstri græn gefa eftir í nánast öllum málum á umhverfissviðinu. Nú síðast í vikunni tekur hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. samgönguráðherra og kremur hugmyndir um borgarlínu sem er þó stærsta umhverfisátak sem við gætum ráðist í. Fyrir hvað ætlar hæstv. umhverfisráðherra að standa ef hann ætlar ekki að stöðva hvalveiðar? Það væri bara mjög gott að heyra það skýrt. Ég nenni ekki að sitja hérna og hlusta á „samráð“, „heilsteypt“, eða „sitja í nefnd“. Ríkisstjórnin hefur þetta í höndum sínum.

Ég vil bara fá að heyra: Mun hæstv. ráðherra beita sér eða mun hann ekki gera það? Vegna þess að það hlýtur að vera mjög skýr vitnisburður um (Forseti hringir.) fyrir hvað Vinstri græn standa í umhverfismálum í dag.



[11:42]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir og ætla ekki að skipta mér af því hvort hann nennir að sitja undir þessu eða ekki, það verður að vera undir honum sjálfum komið. Það er alveg ljóst að þessi ráðherra stendur fyrst og fremst fyrir umhverfis- og náttúruvernd. Þessi ráðherra hefur beitt sér fyrir því að fá stóraukið fjármagn í þennan málaflokk, sem munar 35% ef miðað er við árið 2017; á næstu fimm árum tæpir 7 milljarðar í loftslagsmál, 7,5 milljarðar í náttúruverndarmál. Ég veit ekki til þess að aðrir umhverfisráðherrar hafi gert betur þegar kemur að slíkum fjárhæðum í þennan málaflokk.

Ég vísa bara í það sem ég sagði hér áðan að reglugerð er í gildi. Ég veit ekki betur en að farið verði eftir henni fyrir þennan tíma. (IngS: Þú getur sett aðra reglugerð.) — Nei, ég get reyndar ekki sett neina reglugerð í þessu, þetta er allt á sviði sjávarútvegsráðherra. Því er það mál þar statt að ég (Forseti hringir.) veit ekki betur en að þetta verði klárað með þessum hætti. Hins vegar er fyrirhugað að fara í úttekt á þessum málum. Það er það sem liggur fyrir.