148. löggjafarþing — 65. fundur
 31. maí 2018.
um fundarstjórn.

afbrigði um veiðigjöld felld.

[17:09]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég geri miklar athugasemdir við fundarstjórn forseta í dag. Það er með ólíkindum að forseti skuli hafa látið þetta leikrit ganga í allan dag þegar hann veit hver niðurstaðan verður. Það er ekki vel farið með tímann í þinginu þegar þannig er haldið á málum. Það er ekki einungis farið illa með tímann, það er líka óþarfi að æsa hér upp geðslagið í annars mjög geðprúðum þingmönnum með svona stjórnvisku, ef ég má orða það þannig.

Nú eru þingstörfin öll í uppnámi, reyndar ekki í fyrsta sinn. Þau verða það væntanlega það sem eftir lifir af þessu þingi því að við höfum ekki enn þá fengið botn í það hvort forseti telji að samningar skuli standa. Nei, það er þjösnast áfram af einhverri þvermóðsku sem er nánast óskiljanleg. En ég vona — maður lifir nú alltaf í voninni — að eitthvað muni breytast eftir þennan undarlega dag, sem er nú kannski reyndar rétt að byrja ef forseti ætlar að vera hér fram undir morgun í fundarstjórn.



[17:10]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ólíkt mörgum öðrum vestrænum lýðræðisríkjum skipum við okkur í hóp þeirra Evrópuþjóða sem líta ekki þannig á að minnsti mögulegi meiri hluti taki og hrifsi til sín öll völd, heldur eigi minni hlutinn líka sinn rétt. Hér höfum við setið og reynt að gera athugasemdir og reynt að fá forseta til þess að setjast niður og greiða fyrir vinnunni fram undan. Því miður hefur hæstv. forseti ekki hlustað á það og því miður óttast ég að það kunni að hafa áhrif á andann í þinginu. Ég tek að minnsta kosti undir með einum hv. þingmanni sem lagði til að nú yrði endurskrifuð forsíðan á stjórnarsáttmálanum og tekin út orðin „efling og virðing Alþingis“.



[17:12]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég verð að lýsa yfir ánægju minni með að meiri hlutinn, þó ekki aukinn meiri hluti heldur bara rétt meiri hlutinn, hafi ekki getað þröngvað þessu hörmulega máli á dagskrá. Ég verð líka að lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum með framkomu hæstv. forseta í dag þar sem það var auðvitað alveg fyrirséð.

Núna er klukkan korter yfir fimm og hér hefðum við getað staðið í dag og greitt fyrir ýmsum góðum málum, af því að það eru nefnilega mörg góð mál í pípunum. Það eru mörg góð mál í nefndum sem ég er alveg tilbúin að greiða fyrir og vinna að í staðinn fyrir að standa í þessu óþarfaþrasi sem er bara tilkomið vegna (Forseti hringir.) samráðsleysis. En engu að síður gleðst ég einhvers staðar í hjartanu yfir þessari stöðu, að þetta mál hafi ekki komist á dagskrá.



[17:13]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Nú erum við búin að afgreiða nákvæmlega tvö dagskrármál á þessum fundi með þeirri niðurstöðu að 11. dagskrármálið fellur brott af dagskrá í dag. Ég skil ekki alveg til hvers var unnið akkúrat núna. Ég er að velta því fyrir mér hvers vegna ákveðið var að fara þessa leið í stað þess að reyna að komast að einhverju samkomulagi við okkur, hvers vegna ákveðið var að vinna svona gegn okkur þegar niðurstaðan var öllum ljós. Við erum búin að standa hér síðan klukkan hálfellefu í morgun. Megnið af þeim tíma hefur farið í að ræða um hvort taka eigi 11. dagskrármálið, um veiðigjöld, af dagskrá. Það hefur nú verið gert. Þetta er algjör tímasóun og fremur ömurleg fundarstjórn.



[17:14]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ef ég hefði verið forseti í dag hefði ég frestað þingfundi, talað við þingflokksformennina sem forseti Alþingis og reynt að finna einhverja leið út úr þessu. Það er náttúrlega ekki það sem menn hafa áhuga á. Tvö mál koma inn núna sem eru alveg á lokametrunum og svo þriðja málið sem mikil andstaða er við. Þá veit náttúrlega forseti alveg hvað gerist. Auðvitað getur minni hlutinn ekki gert annað, fyrst hann hefur ekki dagskrárvaldið, en segja: Þetta gengur ekki, þetta er andstætt því sem talað var um fyrir tveim vikum síðan. Það er ekkert annað sem við getum gert.

Þá hefjast þingstörfin eðlilega, vegna þess að við getum ekki sætt okkur við svona fundarstjórn og svona dagskrá og algjört samráðsleysi. Á endanum getur forseti sagst vera búinn að taka afstöðu og sagt: Þið voruð bara að tala og tefja o.s.frv. og þar af leiðandi er ekkert hægt að klára þessi mál. Svona verður þetta að vera. Svo verða menn þreyttir og svona.

Þetta er ekki tilviljun. Þetta er spilað nákvæmlega eftir þeirri leikbók sem (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið eftir þegar hann hefur sinnt embætti forseta Alþingis, og fleiri flokkar líka. Þetta er nákvæmlega (Forseti hringir.) eftir gömlu handbókinni um hvernig þessi störf eru. Forsetinn er með dagskrárvaldið. Forsetinn er með valdið (Forseti hringir.) til þess að eiga samráð við þingflokksformenn, til þess að hliðra til hérna, (Forseti hringir.) eiga samráð. Þetta skrifast allt saman á forseta þingsins.



[17:16]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Í anda þeirrar ágætu umræðu sem við áttum hér um Vog langar mig að tala aðeins um ábyrgð. Hér tekur hver og einn ábyrgð á því sem hann segir, hvað hann segir í pontu og hversu oft hann kemur í pontu. Að stjórnarandstaðan sé núna að kenna hæstv. forseta um hversu oft stjórnarandstaðan komi upp í pontu er í hæsta lagi hlægilegt. Ég væri til í að nota meiri og sterkari orð um það, ég kýs að gera það ekki. (JÞÓ: Þú veist betur sjálfur.) Þú kannski leyfir mér, hv. þingmaður, að klára mál mitt áður en þú heldur áfram, nóg hefur þú talað í dag.

Stjórnarandstaðan talar hér um að forseti hafi vitað allan tímann hvernig þessi atkvæðagreiðsla færi. Vissi hv. stjórnarandstaða það þá ekki líka? Gat hv. stjórnarandstaða ekki einfaldlega tekið þá ákvörðun vegna hinna fjölmörgu mála sem hv. stjórnarandstæðingar tala um að nauðsynlegt sé að komast á dagskrá, að hleypa málinu einfaldlega í atkvæðagreiðslu … (Gripið fram í.) — Ég endurtek bón mína, hv. þm. Jón Þór Ólafsson, (Forseti hringir.) að ég fái kannski bara næði. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem hingað í dag.

Gat hv. stjórnarandstaða ekki bara gert það sama? Hleypt þessu máli (Forseti hringir.) í atkvæðagreiðslu, fellt það (Forseti hringir.) og náð því fram sem hún vildi, þ.e. að taka málið af dagskrá, og tekið til (Forseti hringir.) við öll þau góðu mál sem (Forseti hringir.) hv. stjórnarandstæðingar (Forseti hringir.) láta hér eins og þeim sé í mun um að komast í dagskrá í leikriti dagsins?



[17:17]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti biður hv. þingmenn að gæta að tímamörkum og aðra hv. þingmenn að gefa ræðumönnum hljóð.



[17:17]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er kannski fínt að ég komi strax á hæla hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés því hann virðist hafa misskilið hvað það var nákvæmlega sem við höfum verið að biðja um hér í allan dag. Við vorum ekki endilega að biðja um að þetta mál yrði tekið af dagskrá heldur að það yrði samráð, eðlilegt samráð, við minni hlutann um það hvernig málum yrði hagað. Það samráð hefur ekki átt sér stað. Það var ýmsu fögru lofað fyrir þinghlé og það er búið að svíkja það í allar mögulegar áttir. Í rauninni er ein ástæða þess að við höfum náð einhverjum árangri í dag með því að fella þessa afleitu tillögu um að taka málið á dagskrá sú að einhverjum frábærum snillingi datt í hug að kannski væri ágætt og nauðsynlegt að hafa aðeins rýmri meiri hluta fyrir ákveðnar atkvæðagreiðslur, einmitt til að sporna við svona misbeitingu valds. Þetta segir mér að við þurfum miklu fleiri (Forseti hringir.) ákvæði í þingsköpum þar sem þarf þrjá fimmtu hluta atkvæða eða jafnvel tvo þriðju til að hlutir fari í gegn.



[17:19]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé talar um að við hefðum átt að greiða fyrir atkvæðagreiðslu um mál sem við vildum ekki sjá á dagskrá vegna þess að það væri einhverra hluta vegna voðalega málefnalegt af okkur. Það hefði líka verið frekar málefnalegt, vitandi að það þyrfti þrjá fimmtu hluta atkvæða til að fá þetta í gegn, að verða einfaldlega við ósk minni hlutans um að taka þetta mál af dagskrá. Getum við ekki bara aðeins talað saman hérna, talað um hvernig staðan er, komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki vinnandi vegur og haldið svo bara áfram? Nei, það er ekki þannig. Það þurfti að gera hlé á þingfundi, funda með forseta, halda áfram með fundarstjórn forseta vegna þess að það var enginn vilji til þess að greiða fyrir málum, ræða málin, í raun ganga frá því sem var gefin niðurstaða fyrir fram. Um það snýst þessi fundarstjórn. Við höfum fullan rétt á að gagnrýna fundarstjórn forseta án þess að fá einhverjar miður skemmtilegar ávirðingar frá stjórnarþingmönnum um hvað við séum nú ómálefnaleg.



[17:20]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka forseta fyrir að hleypa mér að þrátt fyrir að hafa misst af bendingum mínum. Ég kem hér upp til að furða mig á ræðu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés sem virðist ekki hafa hlustað á það sem þingmenn voru að tala um í þessum ræðustól. Við vorum að gagnrýna þau vinnubrögð sem hér hafa verið höfð uppi. Það er ekki að okkur langi eitthvað sérstaklega til að tala um þessi mál sem eru á dagskrá þingsins í dag. Við vildum gjarnan ræða önnur mál, mál sem við höfum verið svikin um í nefndum. Það er það sem við viljum fá að ræða hérna. Ekki að það séu tekin einhver gælumál stjórnarþingmanna umfram mál stjórnarandstöðunnar sem jafnvel er búið að semja um, svo ég ítreki það enn og aftur. Það væri mjög áhugavert að fá á hreint fyrir lok dags hvort það sé einhver hér, ef ekki forseti, í stjórnarmeirihlutanum sem ætlar sér að standa við þá samninga sem gerðir voru fyrir nokkrum vikum.



[17:21]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil koma hérna upp til að gera grein fyrir máli mínu. Ég var tekinn hérna afsíðis frammi á gangi og það var talað um að ég hefði skorast undan merkjum. Ég vildi greiða þessu máli með veiðigjöldin veg inn í þingið til þess að það fengi umræðu. Ég hef beðið um svör frá sjávarútvegsráðherra í allan vetur um þetta mál. Svo kemur það á dagskrá í gær og ég vildi ekki standa í vegi fyrir því. En ég greiddi því ekki atkvæði áðan að það kæmist á dagskrá núna vegna þess sem ég hef sagt hér áður í dag, það var búið að semja um það fyrir þinghlé að mál minni hlutans kæmust út úr nefndum. Við það hefur ekki verið staðið. Því var ég á rauða takkanum áðan um þetta mál, svo það sé sagt hér. Ég var ekkert að svíkjast undan merkjum.



[17:23]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill segja, vegna umræðna sem orðið hafa um dagskrá dagsins í dag, að þá er sennilega rétt, þó ekki væri nema Þingtíðindanna vegna, að rekja hvernig sú dagskrá fæddist. Á fimmtudaginn í síðustu viku sendi skrifstofustjóri þingmálaskrifstofu, í samráði við forseta, póst á formenn þingflokka þar sem, samkvæmt þeirri hefð sem hefur skapast frá og með miðjum vetri, gerð var grein fyrir því hvernig þingvikan yrði og hvaða mál, í aðalatriðum, yrðu á dagskrá þingfundadagana þriðjudag og fimmtudag sem við nú stöndum á. Á mánudag voru venjulegir fundir þingflokksformanna með forseta og forsætisnefndar með forseta. Þá var farið yfir dagskrána og þá var í öllum aðalatriðum ljóst hvernig hún yrði, bæði daginn eftir, á þriðjudaginn, og í dag. Á dagskránni í dag er það eina frávik frá þessu að enn er órædd tillaga hæstv. utanríkisráðherra um Evrópureglugerðina.

Síðdegis í gær sendi forseti formönnum allra þingflokka tölvupóst þar sem hann lýsti í nánari atriðum hvernig fyrirhugað væri að fundurinn væri í dag, þar á meðal að aftast á þá dagskrá kæmu að líkindum þingmál flutt af nefndum.

Fyrir hádegi í dag sendi forseti enn og aftur tölvupóst á formenn allra þingflokka þar sem hann áréttaði þessi skilaboð og kom fleirum á framfæri, þar á meðal um það hvenær mætti vænta atkvæðagreiðslna.

Tali um að skort hafi algerlega á samráð á forseti, í ljósi þessa, erfitt með að sitja þegjandi undir. Óski hv. þingmenn eftir því, sem engu að síður hafa haldið slíku fram, að fá það staðfest að hér sé farið með rétt mál skal ég afhenda þeim afrit af þessum tölvupóstum. Sjálfsagt mál.

Í öðru lagi er það svo, varðandi þá umræðu sem hér hefur staðið í dag og lyktir mála, að einfaldlega var farið að þingsköpum og vilji þingmanna í salnum réði úrslitum mála eins og vera ber. Bæði varðandi það að samþykkja afbrigði eða fella þau, ef vilji manna stóð til slíks. Hér var ekki annað gert en það að láta á það reyna hvort nægjanlegur stuðningur væri við það samkvæmt þingsköpum að mál færu á dagskrá.

Í ljós kom að svo var ekki í því tilviki að aukinn meiri hluta hefði þurft til að 11. dagskrármálið kæmist að. Og þá er það niðurstaðan. Lýðræðislega og rétt fram kölluð með atkvæðagreiðslu hér í salnum.

Síðan hafa menn talað um að svikið hafi verið samkomulag sem hér hafi verið gert fyrir þinghlé. Að vísu hafa að mestu leyti talað um það menn sem ekki voru viðstaddir þá fundi þar sem þau mál voru rædd. Ég tek það fram að ég hef ekki heyrt slíkar ásakanir með jafn sterkum orðum frá þeim þingflokksformönnum sem voru aðilar að því máli eins og frá sumum öðrum þingmönnum. Það mál var rætt á stuttum fundi forseta með þingflokksformönnum í hádeginu og forseti tók þar fram að hann hefði fylgst með því hvaða mál hefðu hlotið afgreiðslu úr nefndum og myndi gera það áfram. Nú er svo komið að á síðasta sólarhring, í gær og í dag, hafa, að mér sýnist, að minnsta kosti sex þingmannamál hlotið afgreiðslu og þar á meðal nokkur af þeim málum sem rætt var um fyrir hlé og komast þá á dagskrá hér í beinu framhaldi af því að nefndarálitum í þeim hefur verið dreift.

Ég fæ ekki betur séð en að ágætlega horfi með það að nokkurn veginn sé að nást sú niðurstaða í afgreiðslu mála út úr nefndum sem þarna var rætt um. Ég bið menn að hugleiða hvort það séu þá efni til þess að hafa jafn stór orð um svik og menn hafa gert hér í dag. Þetta hlýtur forseti að segja í lok, þó kannski ekki undir lok, þessarar löngu umræðu vegna orða sem hér hafa fallið fyrr í dag.



[17:27]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Forseti talar hér um að hafa sent þingflokksformönnum tölvupóst og það er rétt. Það sem forseti nefnir hins vegar ekki er að við svöruðum þeim tölvupósti. Sú sem hér stendur sagði: Það er okkar skilningur, eða minn skilningur og okkar í Samfylkingunni, að veiðigjöldin fari ekki á dagskrá nema öll nefndin sé á málinu. Undir það tóku fleiri þingflokksformenn. Það er ekki hægt að tala um samráð þegar tilkynningar eru sendar í tölvupósti og svör koma við þeim og ekkert kemur til baka annað en það næsta sem maður sér að málin eru komin á dagskrá.

Dagskrárvaldið er ekki í höndum forseta þegar um er að ræða mál sem eru allt of seint fram komin. Þá er dagskrárvaldið í höndum þingsins. En auðvitað kjósum við öll (Forseti hringir.) að við náum samkomulagi um þessa hluti og þurfum ekki að standa í stappi, eins og við þurftum að gera hér í dag, til þess að koma fólki í skilning um að málið færi ekki á dagskrá í dag.



[17:28]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Forseti segir að það sé ekki rétt að ekkert samráð hafi verið haft. Jú, eitthvert samráð var haft, og sendar hugmyndir um það hvernig dagskráin gæti litið út; yfirflokkur einnar var mál úr nefndum. Svo gerist það í gær að nefnd leggur fram nýtt mál. Ekki var um að ræða mál sem hafði verið lagt fram í 1. umr., komið á dagskrá, farið til nefndar, rætt þar, farið í umræðuferli, umsagnarferli, klárað og tekið úr nefnd og síðan lagt hér fram. Nei, meiri hluti nefndarinnar tekur það á dagskrá og búmm, út úr nefnd. Þá er þetta komið í þann flokk sem forseti þingsins túlkar sem samráð við okkur um mál úr nefndum. Eigum við þá bara að túlka orð forseta þannig að mál úr nefndum, sá undirflokkur, geti verið hvaðeina sem ríkisstjórninni eða meiri hluta í nefnd ákveður að búa til eða leggja fyrir nefndina og strax inn í þingið? Nei, þetta er ekki sanngjarnt, þetta er ekki málefnalegt, þetta er ekki einu sinni hefðbundið, þetta er mjög óvanalegt og ómálefnalegt.