148. löggjafarþing — 68. fundur
 5. júní 2018.
siðareglur ráðherra.

[11:03]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á undanförnum misserum hef ég spurt bæði hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra út í siðareglur ráðherra og hvort það hafi ekki verið brot á þeim siðareglum að fela skýrslu um skattaskjólseignir Íslendinga fyrir kosningar 2016. Fyrstu fyrirspurnunum á 146. þingi var beint til þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, og var ekki svarað þrátt fyrir að ráðherra hefði fengið marga mánuði til þess og spurningarnar hafi ekki verið flóknar. Það var ekki fyrr en núverandi forsætisráðherra fékk tækifæri til að svara að svör fóru loksins að berast. Í þeim svörum kom m.a. fram að það er undir hverjum ráðherra komið að túlka siðareglur og fara eftir þeim.

Í nýlegu svari fjármálaráðherra kom fram áhugaverð túlkun sem mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í. Spurningin var hvenær mat á því hvort efni skattaskjólsskýrslunnar varðaði almannahag eða ekki hefði farið fram. Hvenær fór matið fram? Svarið var, með leyfi forseta:

„Skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum var unnin að frumkvæði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Birting hennar var því algerlega án utanaðkomandi kvaða eða mats á því hvort þær ættu við samkvæmt siðareglum.“

Virðulegi forseti og hæstv. forsætisráðherra. Þetta svar gerði mig kjaftstopp í ansi langan tíma. Er það virkilega svo að ef um frumkvæði ráðherra er að ræða þurfi ekkert að fara eftir siðareglum? Ég bið vinsamlega um skýrt svar við þessari spurningu, svar sem byrjar annaðhvort á jái eða neii áður en útskýringar byrja: Já, ráðherra þarf ekki að fara eftir siðareglum í frumkvæðismálum, eða: Nei, ráðherra þarf að fara eftir siðareglum í frumkvæðismálum.



[11:05]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram að ég hef ekki lesið það svar sem hv. þingmaður vísar í frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég get því ekki lagt sérstakt mat á það svar sem hv. þingmaður vísar í. (Gripið fram í.) Þar sem það koma svo ansi margar fyrirspurnir hér inn koma ansi mörg svör, eins og hv. þingmanni er kunnugt um, og erfitt að henda reiður á þeim öllum.

Hvað varðar siðareglurnar er það alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að gildandi siðareglur gera ráð fyrir því að leggja það á herðar hvers ráðherra að meta hvernig beri að bera sig að þegar kemur að álitamálum sem varða siðareglur. Síðan, eins og hefur komið fram í samtali mínu við hv. þingmann og svari mínu við fyrirspurn hans, er forsætisráðuneytið boðið og búið til ráðgjafar fyrir alla þá ráðherra sem vilja leita hennar. Raunar hafa þau dæmi verið birt opinberlega nú í vetur þannig að hv. þingmenn og almenningur allur hefur svo sem góða hugmynd um það.

Svo að ég taki smáútúrdúr hér: Samkvæmt tillögum, getum við sagt, erlendra aðila tel ég þó ekki endilega gott að birta slík tilvik því að það getur haft þau áhrif að ráðherrann leiti síður ráðgjafar um hvenær eigi að beita siðareglum; ef þeir eiga von á að fyrirspurnir og svör við þeim verði öll birt. Það er eitt af því sem við þurfum að taka afstöðu til við endurskoðun siðareglna.

En gilda siðareglur ekki ávallt? spyr hv. þingmaður. Jú, siðareglur eiga auðvitað við um öll störf hæstv. ráðherra sem og hv. þingmanna hvernig sem þau ber að. Hins vegar er það svo, og það er alveg hárrétt, sem hv. þingmaður hafði eftir upp úr svari hæstv. fjármálaráðherra, að sú skýrsla sem um ræðir var unnin að frumkvæði ráðherrans og væntanlega er verið að vísa til þess í því svari sem ég hef ekki lesið. En siðareglurnar eiga við um öll störf ráðherra.



[11:07]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er svarið sem ég bjóst við, sem betur fer. Auðvitað hafa siðareglur ráðherra sérstaklega áhrif í málum þar sem ráðherra beitir ráðherravaldi að eigin frumkvæði. Þar þarf sérstaklega að vanda til verka. Siðareglur ráðherra eru einmitt mjög skýrar um þetta og í 7. gr., um ábyrgð, segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal sýna samstarfsvilja séu störf hans tekin til skoðunar af hálfu Alþingis eða eftirlitsstofnana þess og eins þegar þingmenn óska eftir upplýsingum á grundvelli laga um þingsköp.“

Hæstv. forsætisráðherra. Hvers konar samstarfsvilji er það að svara ekki fyrirspurnum í langan tíma annars vegar og þegar svör loksins berast eru þau einfaldlega ósönn? Hvaða ábyrgð mun hæstv. forsætisráðherra axla á svona svörum frá ráðherra í hennar ríkisstjórn? Hvers konar ábyrgð mun fjármálaráðherra axla? Eða er þetta bara enn eitt dæmið um íslenska pólitíska ábyrgð? Ráðherra segir ósatt og kemst upp með það?



[11:08]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka skýrt fram að ég fellst ekki á að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt ósatt; það ætla ég ekki að fallast á hér. Hins vegar bera ráðherrar ábyrgð á svörum sínum hér í þingi. Það er okkar stjórnskipan. Við erum ekki fjölskipað stjórnvald og forsætisráðherra fylgist ekki með svörum einstakra ráðherra. Þau hafa verið mörg, eins og ég sagði í mínu fyrra svari, enda fyrirspurnirnar margar. Ég fullvissa hv. þingmann um að hæstv. ráðherrar eru allir sem einn að reyna að fylgja þeim skyldum sem á þá eru lagðar, þ.e. að veita þinginu þær bestu mögulegu upplýsingar sem eru fyrir hendi á hverjum tíma. Hins vegar held ég að það sé síðan sérstakt umræðuefni hvort við þurfum ekki að gefa því aukinn kraft að vinna úr því að svara fyrirspurnum þingmanna í ljósi þess mikla álags sem hér hefur verið. Það kann auðvitað að þýða aukinn mannafla. Það liggur til að mynda fyrir að ég skulda, að ég held, hv. þingmanni svar við spurningu um störf þingmanna í ýmsum nefndum. Það hefur satt að segja reynst þrautin þyngri, svo að ég segi það hér í þingsal, að grafa þær upplýsingar upp (Forseti hringir.) tíu ár aftur í tímann. Það hefur kallað á mikinn tíma. Ég vona að hv. þingmaður sýni því skilning líka.