148. löggjafarþing — 69. fundur
 6. júní 2018.
tollalög, 2. umræða.
stjfrv., 518. mál (vanþróuðustu ríki heims). — Þskj. 749, nál. 1063.

[20:04]
Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (vanþróuðustu ríki heims). Nefndarálitið er frá efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndin fjallaði um málið og fékk sérfræðinga frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu á sinn fund. Auk þess bárust umsagnir um málið frá Félagi atvinnurekenda og Sambandi garðyrkjubænda.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á 1. mgr. 7. gr. tollalaga, nr. 88/2005, að því er varðar tollfríðindi á vörum sem upprunnar eru í vanþróuðustu ríkjum heims samkvæmt skilgreiningum Sameinuðu þjóðanna (svokölluðum LDC-ríkjum). Samkvæmt 2. mgr. 1. tölulið 1. mgr. 7. gr. tollalaga njóta vörur frá þessum ríkjum nú sömu tollfríðinda og vörur sem upprunnar eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Með breytingunni er aukið við tollfríðindin og verða vörur sem falla undir 97% tollskrárnúmera tollskrár í viðauka I við tollalög undanþegnar tollum. Ráðherra verður heimilt að setja reglur um uppruna við innflutning vöru með reglugerð.

Nefndinni bárust ábendingar um að ganga mætti lengra en gert er með frumvarpinu og fella með öllu niður tolla á vörur frá þeim ríkjum sem í hlut eiga í stað þess að undanþiggja ákveðna vöruflokka sem tengjast landbúnaði. Skiptar skoðanir eru hins vegar um þetta atriði. Nefndin telur ekki tilefni til að gera breytingar á frumvarpinu að svo stöddu en beinir því til ráðuneytisins að ábendingar í þessa veru verði teknar til skoðunar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður þetta álit.

Undir það skrifa sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Björn Leví Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ásgerður K. Gylfadóttir.



[20:07]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Mörg ríki eiga það sameiginlegt að landbúnaður stendur undir tiltölulega stórum hluta hagkerfisins, en viðskiptahindranir í þróuðum ríkjum gera þeim erfitt fyrir að flytja út landbúnaðarafurðir. Tvíhliða fyrirkomulagið sem nú er ráðandi í alþjóðaviðskiptum gerir samningsstöðu þeirra veikari. Þróuð ríki eru ólíklegri til að semja við og hvað þá gefa eftir í pólitískt viðkvæmum málaflokkum.

Tvíhliða fríverslunarviðræður setja meira álag á stjórnsýslu hvers ríkis fyrir sig eftir því sem viðræðunum fjölgar, verða margþættari og krefjast eftirfylgni hverjar fyrir sig. Stjórnsýsla margra þróunarríkja getur átt erfitt með að sinna fleiri slíkum ferlum í einu. Þá eru tveir höfuðvankantar á tvíhliða fríverslunarsamningum samanborið við marghliða. Þeir eru afvegaviðskipti og skortur á samræmi. Afvegaviðskipti lýsa stöðu þar sem óhagkvæm viðskipti eiga sér stað sem afleiðing af fríverslunarsamningi.

Ríki sem best er í stakk búið til að flytja út ákveðna vöru til annars ríkis nær ekki að njóta góðs af samkeppnishæfni sinni vegna fríverslunarsamnings á milli hins ríkisins og þriðja ríkis. Niðurstaðan verður að íbúar ríkisins sem flytur inn vöruna frá landinu sem það hefur fríverslunarsamning við borga hærra verð fyrir hana en ella. Og landið sem ekki hefur fríverslunarsamning getur ekki flutt vöruna út yfir höfuð. Skortur á samræmi lýsir sér þannig að fríverslunarsamningar eru mismetnaðarfullir hvað varðar ákvæði um umhverfisvernd, réttindi og kjör vinnandi fólks og ríkisstyrki, svo eitthvað sé nefnt.

Þegar alþjóðaviðskipti einkennast af aragrúa af fríverslunarsamningum á milli ríkja og ríkjasambanda skortir samræmi í leikreglum og kröfum fríverslunarinnar. Stærsti kostur tvíhliða fríverslunarsamninga borið saman við marghliða er skilvirkni, en auðveldara er að komast að samkomulagi þegar fjöldi aðila er minni. Umfang samningsins er undir þeim sjálfum komið hverju sinni. Fyrirkomulagið gerir ríkjum kleift að leggja áherslu á samningagerð við mikilvægustu útflutningsmarkaði sína og gefur þeim svigrúm til að halda pólitískt viðkvæmum málaflokkum utan samningaviðræðna.

Herra forseti. Við eigum að auka áherslu á fríverslun og nýtingu útflutningstækifæra, bæta þjónustu við Íslendinga erlendis, auka viðskiptaþjónustu og hagsmunagæslu á nýmörkuðum í starfsemi utanríkisþjónustunnar. Þessi markmið endurspegla nýjan raunveruleika alþjóðaviðskipta í kjölfar stöðnunar Doha-lotunnar svokölluðu. Hlutverk utanríkisþjónustunnar er í auknum mæli fólgið í að greiða leiðina fyrir aðgang innlendra fyrirtækja að erlendum mörkuðum. Eðlilegt verður að teljast að ríkið sækist eftir því að stunda fríverslunarstefnu sína að mestu utan ramma Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar ef Doha-lotan hefur ekki borið árangur og pólitískur vilji er ekki til staðar til að hefja umfangsmiklar marghliða fríverslunarsamningaviðræður að nýju. Þó má ekki gleyma að fríverslunarsamningar gerast ekki í pólitísku tómarúmi. Gerð þeirra kann að virðast að mestu tæknilegs eðlis, en ávöxtur þeirra getur verið verulegur sé rétt að þeim staðið og allir hagsmunaaðilar hafðir með í ráðum.

Því fer fjarri að takmarkaður útflutningur þróunarríkja á landbúnaðarafurðum til þróaðra ríkja sé einungis viðskiptahindrun þeirrar síðarnefndu að kenna. Samkvæmt Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, eru það landbúnaðarumbætur innan lands í þróunarríkjum sem myndu leiða til stærstu ávinninganna. Þar getum við Íslendingar svo sannarlega látið að okkur kveða í gegnum þróunarsamvinnu. Hins vegar hefur breyting alþjóðaviðskiptakerfisins úr marghliða í tvíhliða fyrirkomulag og stöðnun Doha-lotunnar fjarlægt mikilvægan vettvang til að stuðla að þýðingarmiklum umbótum í aðgengi þróunarríkja að mörkuðum þróaðra ríkja.

Hægt er að fara aðrar leiðir til að skjóta styrkum stoðum undir sjálfbærni innan þessara fátæku ríkja en með tollfrelsi. Má þar nefna skuldauppgjöf. Verulegur árangur hefur náðst í að létta skuldabyrði fátækustu ríkja heims, en mun síður gengur að standa við fyrirheit um bætt viðskiptakjör og aukna þróunaraðstoð. Þetta er niðurstaða í nýlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Mörg þróunarríki þurfa að taka meira tillit til viðskipta og samkeppnishæfni í þróunaráætlunum sínum í því skyni að notfæra sér viðskiptatækifæri. Mörg þeirra þyrftu einnig að afnema skatta og tolla á nauðsynleg lyf og leyfa notkun samheitalyfja á lægra verði. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því að erfitt getur verið að meta gagnsemi og skilvirkni slíkrar aðstoðar vegna skorts á gagnsæjum upplýsingum um þessa aðstoð.

Þess má geta að skuldauppgjöf til fátækra ríkja er í raun guðfræðilegt hugtak. Um það hefur m.a. verið skrifuð lærð ritgerð eftir séra Pál Ágúst Ólafsson. Hér á eftir ætla ég að koma inn á nokkur áhugaverð sjónarmið sem koma fram í ritgerð séra Páls um þetta efni.

Í 3. og 5. Mósebók Biblíunnar eru reglur sem geta átt erindi við samtímann eins og hann blasir við aðstæðum í þeim fátæku löndum sem hér hefur verið rætt um. Kröfum um skuldauppgjöf er oft fálega tekið, bæði af vel stæðum þjóðum og viðskiptabönkum. Hinir fornu textar Gamla testamentisins hafa oft skírskotun í viðkvæm pólitísk mál í okkar samtíð. Textinn í 5. Mósebók hljómar svo, með leyfi forseta:

„Sjöunda hvert ár skaltu fella niður skuldir. Eftir þessum reglum skaltu fella niður skuldir: Sérhver lánardrottinn skal falla frá kröfum vegna láns sem hann hefur veitt náunga sínum. Hann skal ekki ganga eftir greiðslu hjá náunga sínum og meðbróður því að niðurfelling skulda hefur verið boðuð vegna Drottins.“

Einnig segir að enginn okkar á meðal eigi að vera fátækur.

Ritskýrendur í guðfræði eru á einu máli um að í 5. Mósebók sé átt við skuldir sem hinir fátæku, óborgandi, stofnuðu til. Nokkur dæmi eru nefnd um slíka einstaklinga, t.d. um bónda sem þurfti á fjármunum að halda vegna uppskerubrests, til að kaupa útsæði eða annað þess háttar, og borgarbúa sem var fjárvana vegna atvinnuleysis. Litið var á lán til slíkra einstaklinga sem mannúðarverk fremur en viðskiptagjörning. Áskrift slíks láns var því örlætisgerningur eða afskriftin var örlætisgerningur fremur en nokkuð annað.

Reglur 5. Mósebókar um afskriftir skulda eru merki um það hvernig guð ætlaðist til að jöfnuður næðist í samfélaginu. Vitað er að til voru konungar í Mesópótamíu sem gáfu upp skuldir þjóða sinna, oftast við valdatöku sína og stundum aftur einhverjum árum síðar. Sambærilegar athafnir þekktust hjá Grikkjum. Notað er orðalagið sjöunda hvert ár í 5. Mósebók. Þessi orð eru talin þýða að afskrifa á skuldina við sólarlag síðasta dags sjöunda ársins.

Að fella niður skuldir. Skiptar skoðanir hafa verið um það hvort í fyrirmælum felist boð um að fella tímabundið niður vaxtaskuldbindingu eða hvort í þeim felist algjör afskrift skulda. Frekar hefur verið hneigst að því að í orðalaginu felist algjör afskrift skulda. Almennt er talið að túlka beri þetta orðalag samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e. að skuldir skuli fella niður eða afskrifa.

Enn fremur segir í 5. Mósebók, með leyfi forseta:

„Sérhver lánardrottinn skal falla frá kröfum vegna láns sem hann hefur veitt náunga sínum.“ Svo virðist að þrátt fyrir þetta orðalag, sem felur í sér samkvæmt orðanna hljóðan að allir kröfuhafar eigi að afskrifa öll lán á sjö ára fresti, þá hafi engu að síður verið strax eða fljótlega farið að líta svo á að skuldaafskriftir næðu ekki til allra skulda, enda var lögmálið fyrst og fremst ætlað til hagsbóta fyrir hina fátæku. Þannig var fljótt farið að líta svo á að lögmálið næði ekki til skulda vegna launagreiðslna, greiðslu lána með einhvers konar veðtryggingu og skulda, sem til hafði stofnast vegna kaupa á vöru með afborgunum „því að niðurfelling skulda hefur verið boðuð vegna Drottins“. Það felur í sér skilaboð um að fyrirmælin um skuldauppgjöf komi frá Drottni, engum öðrum. Af þeim skýringarritum sem hér hefur verið vísað til virðist sem niðurfelling skulda hafi átt að eiga sér stað á sjö ára fresti og að afskrifa skyldi algjörlega allar skuldir. Svo virðist sem reglurnar hafi fyrst og fremst átt að vera til hagsbóta fyrir hina fátæku og því farið að túlka reglurnar á þann veg að niðurfellingin tæki ekki til allra skulda. Grunnur þessa er sá að Drottinn fer fram á að felldar séu niður skuldir og því fylgir það loforð frá Drottni að hann muni blessa þann sem það gerir.

Herra forseti. Þessa tilvitnun mína í texta Gamla testamentisins og skuldaniðurfellingu til fátækra þjóða tel ég eiga ágætlega við í þessari umræðu, en það er sjálfsagt að við Íslendingar tökum virkan þátt í samstarfi við Alþjóðaviðskiptastofnunina sem stefnir að því að stuðla að efnahagslegri farsæld, sjálfbærni og baráttu gegn fátækt.

Ég er hlynntur þessu frumvarpi. Það eru hins vegar ýmis álitamál sem vert er að hafa í huga. Frumvarp sem þetta hefur mjög takmarkaðan tilgang ef innviðir í viðkomandi landi eru ekki í stakk búnir að greiða fyrir útflutningi.

Í þessu sambandi, og ég geri það að lokaorðum mínum í þessari umræðu, verða viðkomandi ríki að vera sjálfbær.



[20:20]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni erindið. Tíminn líður nokkuð undarlega þegar þinglok nálgast. Allt í einu fannst mér ég hrokkinn fram á sunnudag, alla vega hef ég sjaldan heyrt jafn mikið rætt um Mósebók frá því að ég álpaðist í messu á þeim ágæta drottinsdegi og svo sem ágætt að hugsa um skuldir og jöfnuð og önnur réttlætismál í sögulegu samhengi og leita hugmynda sem víðast.

Þessi ræða þingmannsins vekur hjá mér þá spurningu hvaða aðra lagasetningu hann vill bera upp við helgar bækur, af því að mér hefur frekar þótt tíðarandinn blása í þá átt að við reynum að skilja í sundur löggjöf mannanna og þá löggjöf sem menn sækja sér í trúarrit. Það er nú ekki talað af allt of mikilli virðingu um leiðtoga sem vilja setja sharia-lög til dæmis yfir löndin sín. Þó að ég sé ekki að bera þingmanninum það á brýn þá langar mig að heyra aðeins frá honum hvort við megum eiga von á því að Mósebók og systur hennar verði hér notaðar sem rök í fleiri lagasetningartilgangi.



[20:21]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa svo jákvæðan og góðan áhuga á ræðu minni hér áðan. Hann talar um lagasetningu og guðfræði í þeim efnum. Þetta var fyrst og fremst sett fram, þessi texti, vegna þess að ég vildi sýna fram á að guðsorð getur talað inn í svo margvíslegar aðstæður í lífinu, þar á meðal í þessu mikilvæga máli sem er að koma til móts við og aðstoða náungann í hans neyð og fátækt. Það færum við yfir á alþjóðasamfélagið og ábyrgð þess gagnvart fátækum þjóðum og þar komum við að því sem ég nefndi í ræðu minni, að það eru fyrirmæli í 5. Mósebók þess efnis að við eigum að hugsa um náungann og eigum að koma til móts við hann. Það má yfirfæra það yfir á þjóðir. Það var gert á tímum stórveldisins Mesópótamíu. Í því felst, eins og ég nefndi hér áðan, sú blessun að ef þú gefur af þér með þessum hætti, þú fellir niður skuldir, þá færðu blessun drottins í staðinn. Það er einmitt akkúrat lykilatriði í þessu.

Ég var ekki beint að tala um það að við ættum að yfirfæra þetta yfir á lagasetningu með ákveðnum hætti, hins vegar var þetta fyrst og fremst sett fram til umhugsunar, vegna þess að málið er mikilvægt. Við þurfum ávallt að skoða það hvaða leiðir hægt er að fara, þar á meðal er skuldaniðurfelling mjög mikilvæg. Það hefur meðal annars komið fram í skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna að þessi leið skiptir þessar þjóðir verulegu máli.



[20:24]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum þetta viðbótarerindi sitt. Vissulega er hægt að leita andagiftar í ýmsum sagnaarfi, en ég held að við þurfum alltaf að vera með nokkuð gagnrýna linsu á það sem við lesum frá þeim tíma sem hér um ræðir. Það var nú ekki í Mesópótamíu en Hammurabi ríkti á svipuðum tíma, maður sem sagði að við ættum að gjalda auga fyrir auga; hugtak sem var hegningarlagabókstafur víða um heim öldum saman en við höfum nú horfið frá. Eins eru Mósebækurnar fullar af ýmsu ágætu sem örugglega má halla sér að þegar kemur að réttri breytni, en þær eru líka jafn fullar af hroðalegum hugmyndum eins og þeirri að grýta fólk til bana fyrir það að brjóta gegn lögmálinu þótt það séu jafn hversdagslegir hlutir og að skilja við maka sinn eða hvað það er. Ýmsir hlutir sem eiga engan veginn við í nútímasamfélagi.

Ég lýsi ánægju með að heyra frá þingmanninum að þarna hafi hann valið það sem passar vel inn í samtímann og hann gerir sér væntanlega vel grein fyrir því að þegar við förum að ræða, einhvern tímann á næstu misserum, kynfrelsi kvenna — við eigum líka von á frumvarpi um réttindi trans- og intersexfólks — þá verði ekki litið jafn mikið til 5. Mósebókar heldur siðferðislögmála sem eru okkur nær í tíma.



[20:26]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og hugleiðingar hans í þessum efnum, ánægjulegt að hann er ágætlega að sér í Gamla testamentinu. Ég fagna því. Þar er á ferðinni afskaplega mikilvægt innlegg inn í margt í lífinu eins og við þekkjum, þess vegna fannst mér þetta eiga mjög vel við af því að við erum nú að ræða um þá sem minna mega sín í alþjóðasamfélaginu.

Ég vildi líka koma aðeins inn á það sem ég nefndi sérstaklega áðan, að það er grundvallarforsenda að þau ríki sem við erum að tala um, þau 47 ríki sem þarna eru nefnd, séu sjálfbær. Eins og ég nefndi áðan hefur frumvarpið mjög takmarkaðan tilgang ef innviðirnir í viðkomandi landi eru ekki í stakk búnir til að greiða fyrir þeim útflutningi sem við ætlum síðan að taka á móti með eins jákvæðum hætti og við getum. Þar höfum við þá möguleika að aðstoða þessar þjóðir í landbúnaði o.s.frv. með því að gera það í gegnum … (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Ég bil biðja menn að gefa þögn og hljóð í hliðarsölum, halda sig einhvers staðar annars staðar ef þeir þurfa að tala saman.)

Það sem ég vildi nefna er að þá höfum við þá leið sem er þróunarsamvinnan. Við getum aðstoðað þessar þjóðir í því að vera sjálfbærar svo að þær geti farið í að flytja út mikilvægar vörur sem geta þá orðið liður í því að byggja upp sjálfbærni viðkomandi þjóða. Þannig (Forseti hringir.) skiptir það verulegu máli að við getum þá tekið á móti þessum útflutningi með sem hagkvæmustum hætti fyrir viðkomandi þjóðir.



[20:28]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég er á nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar og fagna málinu eindregið. Það er fagnaðarefni að við séum að greiða götu viðskipta við fátækustu ríki heims með þeim hætti sem hér er gert en þess verður þó auðvitað að geta að þetta hefur tekið okkur æðilangan tíma. Hér er um að ræða í raun þá fullgildingu á yfirlýsingum sem við gáfum fyrst árið 2000, það hefur tekið okkur nærri tvo áratugi að koma þessu í lög og hefði kannski verið betra ef við hefðum klára það fyrr.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á, að við ættum kannski að nálgast þetta viðfangsefni meira sem þróunaraðstoð en hefðbundna fríverslunarsamninga. Það eiga ekki við alveg sömu sjónarmið hér þegar við viljum gjarnan semja um gagnkvæman aðgang eða eitthvað þess háttar í hefðbundnum fríverslunarsamningum. Við erum fyrst og fremst að reyna að greiða fyrir viðskiptum fátækustu ríkja heims við ríka þjóð eins og okkar og auðvitað er það skuldbinding hinna vestrænu ríkja að reyna með því að efla efnahag fátækustu þjóða heims eins og þær eru skilgreindar hverju sinni.

Ekki get ég vitnað af jafn mikilli snilld í Mósebók eins og hv. þingmaður, en kom mér þó í hug eitt erindi úr Hávamálum sem á ágætlega við um þetta:

Bú er betra,

þótt lítið sé,

halur er heima hver.

Þótt tvær geitur eigi

og taugreftan sal,

það er þó betra en bæn.

Það er kannski það sem við erum að tala um, að ýta undir sjálfbærni þessara ríkja, ýta undir að þau geti staðið undir eigin efnahag. Það er vissulega rétt sem hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á að þar er oft helsti þröskuldurinn innviðirnir heima fyrir, en það breytir því ekki að það er útgjaldalítið fyrir okkur sem auðuga þjóð að afnema tollahindranir fyrir þau ríki og við þurfum ekki endilega að láta sömu lögmál um það gilda eins og aðra fríverslunarsamninga. Þess vegna þykir mér leitt að horfa upp á það að við séum áfram með talsverðar tollahindranir á landbúnaðarvörum.

Ég tel að við eigum hæglega að geta gengið lengra án þess að það brjóti gegn grundvallarafstöðu okkar hvað varðar viðskipti með landbúnaðarafurðir almennt. Það er ágætt að hafa í huga að tollar okkar á landbúnaðarafurðir eru almennt nokkuð háir, þeir eru háir í alþjóðlegu samhengi. Við erum með hvað ríkustu verndina gagnvart innflutningi einmitt á þeim sömu vörum og oftar en ekki eru þetta þær vörur sem þessi ríki framleiða helst eða hafa möguleika á að framleiða.

Í ljósi þess að um algjörlega óverulega viðskiptahagsmuni er að ræða fyrir okkur en aftur á móti geta þeir verið umtalsverðir fyrir viðkomandi ríki þá tek ég heils hugar undir með þeirri áeggjan nefndarinnar að stjórnvöld taki til skoðunar með hvaða hætti mætti mögulega liðka enn frekar fyrir viðskiptum við ríkin með því að afnema tollahindranir að fullu.



[20:32]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef dálítinn áhuga á lokaorðum hv. þingmanns. Mig langar að eiga smáspjall við þingmanninn um það sem mér finnst vera fátæktargildra sem felst í því að bjóða upp á að fella niður tolla einhliða af verst stöddu ríkjunum, en fara ekki t.d. svipaða leið og aðrar þjóðir hafa farið að fella líka niður tolla af næstverst stöddu ríkjunum. Það er ákveðinn hvati til þess að halda sig neðst, sem verst stadda ríkið. Það er í rauninni hagur af því að þurfa ekki að borga ákveðna tolla en ef ríki fer upp um flokk sem er ofar verst stöddu ríkjunum er alla vega hvati til þess að vinna sig upp úr því að vera verst stadda ríkið. Þá myndast ákveðin hringrás í þeirri flokkun og ríki ná sér upp til þess að þróa efnahaginn. Að sjálfsögðu tek ég líka undir áskorun þingmannsins um að afnema þetta bara yfirleitt, það væri mun betri heimur þegar allt kemur til alls, tel ég.



[20:34]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Þetta er ágæt spurning. Það er kannski blessunarlega að það hefur ekki mikil áhrif á ákvarðanir þessara tilteknu ríkja þó að Ísland, eitt ríkja, hafi ákveðið að hafa ekki þessa næstu deild í utanríkisviðskiptum, en þetta er alveg rétt ábending. Fjölmörg ríki hafa líka innleitt tilslakanir á tollvernd gagnvart næstverstsettu ríkjum heims.

Enn og aftur í okkar tilfelli: Við erum að horfa á lönd sem við eigum mjög óveruleg viðskipti við, eru oftar en ekki það fjarlæg okkur að það er strax ákveðin, getum við sagt, fjarlægðarvernd á innflutning frá þeim, þ.e. það er talsvert kostnaðarsamt að flytja vörurnar hingað inn. Þess vegna er þetta meira grundvallarafstaða eða það að sýna lit í málum að bjóða einnig upp á þennan möguleika og fylgja þar fordæmi fjölmargra annarra ríkja.

Ég held einmitt, og endurtek það sem ég sagði í ræðu minni, að það sé mjög mikilvægt hvað þennan hóp ríkja varðar, að við nálgumst þetta miklu frekar sem skipulega þróunaraðstoð en hefðbundnar viðræður um fríverslun. Færi vel á því að stjórnvöld sýndu metnað í að ganga enn lengra og kannski hraðar í þetta sinn en þau 18 ár sem það tók að koma þessum áfanga í gegn.



[20:35]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Við 1. umr. þessa máls lýsti ég yfir stuðningi við það, en ég gerði líka að umtalsefni þær aðstæður sem fólk býr við í þessum löndum og er að framleiða þær vörur sem við ætlum núna að aflétta tollum af. Á svipuðum tíma og við vorum að ræða þetta mál í 1. umr. vorum við líka að ræða gagnkvæman fríverslunarsamning við Filippseyjar og ég varð var við það að mönnum fannst það alveg ótækt vegna stjórnarfarsins sem þar ríkir um þessar mundir. Það vill nú þannig til að í þessum 47 ríkja hópi sem hér er undir eru ekki skátahöfðingjar við völd í þeim öllum, því miður, heldur eru þar yfirvöld sem t.d. grýta samkynhneigða á götum úti o.s.frv. og fara fram með hluti sem við í sjálfu sér samþykkjum ekki, viljum ekki samþykkja og eigum ekki að samþykkja. Ég get því að mörgu leyti tekið undir með þeim ræðumanni sem hér talaði á undan mér að í raun og veru værum við kannski að gera betur við þessar þjóðir með því að gera við þær samkomulag um þróunaraðstoð en að fella endilega niður tolla af þeirra varningi.

Auðvitað er það þannig að við, ef einhver, eigum að skilja vel þá aðstöðu sem þessar þjóðir eru í vegna þess að það eru ekki nema 150 ár síðan við vorum á sama stað og þær eru núna, svona um það bil. Auðvitað var það frjáls verslun á sínum tíma sem gerði okkur kleift að bæta lífskjörin og lyfti þar grettistaki, fyrir utan náttúrlega það að við fórum að hagnýta okkar auðlindir.

Þá komum við að öðru, því þessar ágætu þjóðir sem hér um ræðir eru margar ofurseldar alls konar auðhringum og aðilum sem misnota þeirra auðævi sem liggja bæði í jörðu og ofan á jörðinni. Það er viss tvískinnungur í því hvernig við Vesturlandabúar lítum á þessar þjóðir og það sem þær framleiða. Ég hef stundum sagt í hálfkæringi að í raun og veru ættum við, ef við værum samkvæm sjálfum okkur, að banna innflutning á súkkulaði vegna þess að það eru væntanlega engir bændur í heiminum jafn illa farnir af auðhringum og verslunarauðvaldi en einmitt kakóbændur. Þeir eru gjörsamlega trampaðir niður. Og kaffibændur í Suður-Ameríku, svo ég nefni annað dæmi. Þetta eru hvort tveggja stéttir gagnvart hverjum hefur verið fram af fádæma hörku og grimmd, en við fáum ódýrt súkkulaði og ódýrt kaffi og erum bara þokkalega sátt. Sama á við um vörur sem unnar eru úr bómull. Ég orðaði það hér um daginn þannig að þegar maður er að kaupa bómullarflík sem kostar kannski eitt pund, eitt sterlingspund, þá veltir maður fyrir sér: Hvað fékk bóndinn í sinn hlut? Hvað fékk sá sem var að tína bómullina saman?

Ég held að það sé kannski meira um vert fyrir okkur að horfa akkúrat á þetta. Sú þróunaraðstoð sem við höfum veitt og mörgum þykir fátækleg og lítil og aum hefur þó miðast að því að reyna að gera fólk meira sjálfbjarga en áður, þ.e. kynna því tækni sem við þekkjum eins og t.d. við að veiða fisk, og síðan að veita þessu fólki aðstoð sem varðar heilbrigðisþjónustu og fleira eins og við höfum verið að gera í Malaví og víðar, reyna að koma í veg fyrir barnadauða og mæðradauða o.s.frv.

Því kem ég fram með þennan vinkil vegna þess að í þessum hópi ríkja eru, eins og ég segi, stjórnvöld sem t.d. níðast á samkynhneigðum. Þarna eru stjórnvöld sem leggja blessun sína yfir barnabrúðkaup. Eins og menn vita þá eru 39 þúsund börn gefin í hjónabönd á hverjum einasta degi í heiminum árið um kring. 39 þúsund börn. Mér finnst í raun og veru að þegar svona ákvörðun er tekin eins og við erum að taka hér — og það kann vel að vera að við höfum tekið okkur allt of langan tíma í að taka þessa ákvörðun, — eigum við að vera með það fyrir augum, jafnvel í gegnum viðskiptasambönd eða með einhverjum hætti, að koma hinum sjónarmiðunum á framfæri.

Ég orðaði það reyndar þannig um daginn að misnotkun á fólki t.d. í landbúnaðargeiranum er miklu nær okkur en við höldum. Ég nefndi t.d. dæmi frá Sikiley þar sem rúmenskar konur eru við uppskeru á grænmeti, meira að setja misnotaðar kynferðislega. Okkur er alveg sama því að við fáum ódýrt grænmeti á diskinn. Ef við viljum vera ábyrgir neytendur, ábyrgir þátttakendur í samfélagi þjóðanna, þá hljótum við að hugsa um þessi mál líka um leið og við leggjum okkar af mörkum til að þessar þjóðir verði sjálfbjarga með svipuðum hætti í raun og okkur var gert kleift fyrir 150 árum, þ.e. í gegnum frjálsa verslun.

Þá kemur aftur að því að við þekkjum það best að hér var ekki frjáls verslun í 700 ár vegna þess að hér var einokun o.s.frv., sem reyndar hefur látið á sér kræla aftur á 20. og 21. öldinni, en það er önnur saga. Á þennan hátt eigum við náttúrlega að nýta þá reynslu sem við höfum sjálf af því að vera undirokuð og kúguð til þess að reyna að skilja betur þjóðir sem eru í sömu stöðu og við vorum þá. Við berum í raun og veru meiri og ríkari skyldur en margir aðrir vegna þess að við höfum verið í þessari stöðu sjálf.

Því dreg ég þetta hér upp að mér hefur þótt gæta ákveðins tvískinnungs í framkomu okkar út á við við hinar ýmsu þjóðir, við höfum verið svona heilög í framan gagnvart einhverjum þjóðum en látið síðan sem ekkert sé og látið átölulaust alls konar kúgun og misnotkun sem viðgengst í þeim löndum sem við höfum viðskipti við. Af því að við búum að þeirri reynslu sem ég var að rekja hér áðan þá ættum við kannski að geta verið framar í flokki í því að reyna að koma á heilbrigðari viðskiptaháttum við einmitt lönd í þessari stöðu en aðrir. Líkt og ég sagði við 1. umr.: Við erum hér að eiga við þjóðir sem lengi voru undirokaðar af þjóðum sem hafa árhundraða reynslu af nýlendukúgun. Bæði Bretar, Þjóðverjar og Hollendingar og fleiri og fleiri hafa aldalanga reynslu af því að kúga aðrar þjóðir og hafa reist efnahag sinn að miklu leyti á því að kúga nýlendur sínar í nokkur hundruð ár. Þess vegna stendur þetta okkur nær, verandi eins og maður segir nýfrjáls ef við getum orðað það þannig, þetta eru ekki nema tveir, þrír mannsaldrar. Við ættum að finna til ábyrgðar í þessu máli og láta hana koma í gegnum þau viðskiptasambönd sem við gerum við þjóðir sem eru þarna staddar eins og ég var að lýsa áðan.

Að því sögðu þykir mér að sjálfsögðu þetta mál jafn gott mál og þá. En ég get ekki látið það liggja hjá garði að fara aftur með þessi varnaðarorð og brýningu til íslenskra stjórnvalda að reyna að beita áhrifum þessa lands til góðs. Við erum sem betur fer af þeirri stærð þjóða að það stendur engum ógn af okkur svo ég viti til. Síðan við vorum að drepa hver annan með sverðum 1244 eða þar um bil, þá höfum við ekki staðið í miklum illdeilum við fólk, hvað þá heldur utan lands. Við höfum ekki sótt á neina þjóð með hernaði eða einhverju slíku. Að því leyti til erum við í kjörstöðu til þess að reyna að hafa áhrif til góðs í þessum málum.

Það vill nú þannig til að Íslendingar eru þokkalega kynntir t.d. eins og hjá Sameinuðu þjóðunum og hafa þar áhrif í ýmsum málum langt umfram áhrif þjóðarinnar á heimsvísu. Ég nefni bara sem dæmi að hjá Sameinuðu þjóðunum er hlustað þegar við Íslendingar tölum um jafnréttismál. Það er leitað í smiðju til Íslendinga í jafnréttismálum þótt okkur finnist sjálfum margt óunnið hér. Það er margt óunnið en þrátt fyrir það getum við samt verið fyrirmynd annarra þjóða í þessum málum og komið að liði.

Þessi orð mín eru ekki ætluð sem einhvers konar sjálfsupphafning þjóðarinnar eða þjóðremba eða eitthvað slíkt, heldur einungis að við getum komið að liði. Það er allt annað mál. Og við getum nýtt okkar reynslu, okkar þekkingu, akkúrat þarna.

Þá kemur að þessu sem ég segi: Ætlum við þá ekki að reyna að beita áhrifum okkar ef við höfum einhver til þess að koma í veg fyrir barnabrúðkaup, til þess að koma í veg fyrir misþyrmingu eða misþyrmingar á kynfærum kvenna, til þess að koma í veg fyrir að fólk sé í ánauð, vegna þess að það þekkist á þessum slóðum? Ég held einmitt að með því skrefi sem við erum að stíga núna, sem er mikilvægt og mikilsvert og getur komið þessum þjóðum mjög vel, þá verðum við að beita áhrifum okkar í þessa átt. Við eigum að sjálfsögðu að beita áhrifum okkar í þá átt að stjórnvöld í einhverju ákveðnu landi eða ákveðnum löndum hætti t.d. að grýta samkynhneigt fólk úti á götum og leggja blessun sína yfir það. Auðvitað eigum við að reyna að beita áhrifum okkar ef við höfum þau.

Síðan kemur að því sem ég ræddi líka við 1. umr., af því að hér var áðan talað um landbúnaðarafurðir, að Danir eru hættir eða hættu alla vega um tíma að flytja inn afskorin blóm frá Afríkuríkjum vegna þess að þeir höfðu vissu fyrir því að með verkafólk, einkum konur, sem þar komu að störfum var farið eins og þræla. Það var misnotað á alla lund. Þá segi ég aftur: Við eigum að vera ábyrgir neytendur. Við eigum ekki að flytja inn hvað sem er í nafni frelsis ef það bitnar á þeim sem síst skyldi, þ.e. verkamönnum sem vinna við þetta.

Nýlegt dæmi sem ég hef áður minnst á varðar það hvernig menn beita niðurgreiðslum. Bandaríkjamenn eru nánast búnir að eyðileggja sjálfsþurftarbúskap hrísgrjónabænda á Haíti eftir jarðskjálftana sem urðu þar fyrir allnokkrum árum. Þegar landbúnaðurinn þar var í algjörri rúst og allt í rúst þá fóru Bandaríkjamenn allt í einu að hella þar inn niðurgreiddum hrísgrjónum frá Arkansas sem bandaríska alríkið borgaði niður. Með þessu dömpuðu þeir inn, afsakið orðbragðið herra forseti, helltu inn, ætlaði ég að segja, ódýrum hrísgrjónum og eyðilögðu lífsviðurværi fjölda fólks sem hafði árum saman haft lítinn sjálfsþurftarbúskap og ræktað hrísgrjón bara í kálgarðinum bak við húsið hjá sér.

Það sem ég segi með þessu er að við eigum að fara mjög varlega í því að opna leiðir til þess að það sé hægt að misnota enn meir neyð þjóðanna sem heildar og fólksins sem þar býr. Við verðum að stíga varlega til jarðar. Um leið og við gefum þessu fólki kost á því að auka frjálsa verslun í sínu heimalandi þá hljótum við jafnframt að gera ákveðnar kröfur til þeirra, rétt eins og við gerum til okkar sjálfra, um að ekki sé farið illa með það fólk sem er að vinna að því að við fáum ódýrari vörur hingað inn til landsins.

Að þessu sögðu þá mun ég að sjálfsögðu samþykkja þetta frumvarp en mun alveg örugglega líka koma fram með mál í einhverri mynd, hvort sem það verður þingsályktunartillaga eða fyrirspurn til bæði hæstv. utanríkisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, um það að við beitum þeim áhrifum sem við getum haft til góðs fyrir þessa fátækustu bræður okkar og systur.



[20:51]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir þessa innihaldsríku ræðu enda er þetta áhugavert mál á mjög marga vegu, sem ég komst að þegar ég skoðaði málið betur í 1. umr. Mál þingmannsins var viðamikið og snerti á ansi mörgum mjög alvarlegum málum og því lítur spurning mín til hans kannski dálítið lítilfjörlega út og ég biðst afsökunar á því. Það snertir mig dálítið, þegar þingmaðurinn talaði um kaffið og súkkulaðið, því að í þessum rannsóknum mínum fyrir þingmálið í 1. umr. komst ég að því að hærri tollur er á súkkulaði en á kaffi. Mér fannst það mjög undarlegt og velti fyrir mér hvort ekki væri hægt að bæta úr því. Ég er ekki kaffidrykkjumaður þó að ég geri ekki lítið úr áhrifamætti kaffis, ég sé til dæmis ákveðna fylgni á milli þess að kaffið kom til Englands og þess að Principia Newtons birtist en þá er súkkulaðið ekki síður mannkynssögulega merkileg vara og hefur verið með okkur miklu lengur en kaffið. Sem „ekki-kaffidrykkjumaður“ fæ ég mér oft súkkulaði á kaffihúsunum þegar ég fer þangað í staðinn fyrir kaffi og öfunda fólk sem er með mér oft mjög mikið af því að geta fengið sér mun ódýrari drykk og jafnvel ábót en ég þarf að fá þennan mun betri en því dýrari drykk í staðinn. En ég vildi inna þingmanninn eftir því hvort hann myndi styðja mig í því að lækka tolla á súkkulaði þegar kemur að fjárlögum.



[20:53]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa athugasemd. Ég veit að hann er maður sem sökkvir sér djúpt í þau mál sem hann vill kynna sér og gerir það mjög vel. Ég er sjálfur frelsaður kaffidrykkjumaður, þ.e. ég er óvirkur. Ég hef ekki drukkið kaffi í nokkur ár, besta ákvörðun sem ég hef tekið. Auðvitað þykir mér vænt um fólk sem drekkur kaffi, ekki þar fyrir. Þó að ég talaði í hálfkæringi hér áðan, um að við ættum að hætta innflutningi á súkkulaði, er alvörutónn í því vegna þess, eins og ég sagði áðan, hvernig farið er með þá framleiðendur. Það er einn alþjóðlegur hringur sem ræður um það bil öllu í súkkulaðiframleiðslu og níðist á þessu fólki alveg takmarkalaust.

Við eigum svo sem ekkert endilega að bæta ofan á það með því að tolla þessa vöru umfram aðrar sambærilegar. Út af fyrir sig get ég alveg tekið undir það með hv. þingmanni að ástæða sé til að athuga þennan mismun en bendi þrátt fyrir það á það sem ég sagði áðan, að þetta er einn af þeim hlutum sem mér finnst að við Íslendingar ættum að reyna að vekja máls á á alþjóðavettvangi. Eins og ég segi, við eigum að vera ábyrgir neytendur og við eigum ekki að stuðla að því að hagnast á neyð annarra. Við eigum ekki að hrúga hingað inn ódýrum vörum, t.d. landbúnaðarvörum, í nafni frelsis, sama hvað það kostar aðra. Að því leyti til eigum við líka að horfa til þess hvernig tollskrá Evrópusambandsins er byggð upp. Ég held að menn ættu kannski, sem tala hér hæst um að flytja inn ódýrar landbúnaðarafurðir, að kynna sér hvernig það gengur fyrir okkur að flytja inn til Evrópusambandsins, tollabandalagsins, okkar vörur.



[20:55]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög en þetta er mál sem ég myndi gjarnan vilja ræða nánar í framtíðinni. Í grundvallaratriðum, án þess að vilja einfalda þetta of mikið, eru allar viðskiptahindranir milli landa til þess gerðar að auka á fátækt í sumum löndum í þágu annarra. Þá er ég ekki bara að tala um vöruflutninga og vöruviðskipti heldur einnig takmarkanir á flutningi á vinnuafli sem, þegar það er sett saman við flutning á fjármagni, býr til möguleikann á ákveðnum fátæktarpollum í heiminum. Peningarnir geta farið þangað sem vinnuafl er ódýrast en vinnuaflið kemst ekki þangað sem það er mest metið.

Í augnablikinu í heiminum, á jörðinni, er lítill skilningur á þessu og það er til mjög varlegt mat sem segir að við séum í það minnsta að skilja eftir trilljón dollara á ári í heimsframleiðslu á því einu að vera með svona stíf skilyrði fyrir flutning á vinnuafli. Þetta er nokkuð sem ég held að við getum bætt en við gerum það ekki með þessu frumvarpi. Það sem gerum með þessu frumvarpi er að stíga lítið en mikilvægt skref í rétta átt með því að minnka viðskiptaþvinganir. Þetta eru þvinganir gegn ansi mörgum löndum og það er mjög gott. Auðvitað eigum við að stíga miklu fleiri skref eins og margir hafa talað um hér út af þessu máli. Ég hlakka til að takast á við það með ykkur, með öllum hér á þingi, en í millitíðinni skulum við hugsa svolítið um hvaða tækifærum við erum að missa af vegna þessarar þröngsýni sem verður fyrst og fremst til með þjóðernishyggju.