148. löggjafarþing — 69. fundur
 6. júní 2018.
ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn, síðari umræða.
stjtill., 545. mál (Hugverkaréttindi). — Þskj. 827, nál. 1051.

[20:58]
Frsm. utanrmn. (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn sem fjallar um hugverkaréttindi. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Jón Vilberg Guðjónsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB frá 26. febrúar 2014 um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 22. mars 2018. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Tilskipun 2014/26/ESB er ætlað að samræma starfshætti rétthafasamtaka með því að setja þeim samræmdar reglur um starfsramma er varðar stjórnskipulag, skipan fjármála, gegnsæi og upplýsingagjöf. Reglunum er ætlað að tryggja þátttöku rétthafa í ákvörðunarferli rétthafasamtaka og upplýsingaflæði til rétthafa, rétthafasamtaka, þjónustuveitenda og almennings. Reglurnar eiga auk þess að tryggja að rétt sé staðið að umsýslu tekna sem rétthafasamtök innheimta fyrir hönd rétthafa. Réttindi rétthafa skulu þannig vera tilgreind í samþykktum viðkomandi samtaka, auk þess sem rétthafar geta valið sér rétthafasamtök án tillits til ríkisborgararéttar og búsetu. Óheimilt er að neita rétthöfum um aðild að rétthafasamtökum og rétthafar munu sjálfir geta veitt leyfi fyrir notkun sem ekki er í hagnaðarskyni. Þá er það jafnframt markmið tilskipunarinnar að koma á samræmdum reglum um fjölþjóðleg leyfi sem veitt verða af rétthafasamtökum um afnot af tónlist á netinu í þeim tilgangi að tryggja aukið framboð slíkrar þjónustu og tilgreinir tilskipunin í því skyni þær kröfur sem rétthafasamtök, sem munu geta veitt slík leyfi, þurfa að uppfylla.

Við meðferð málsins hjá nefndinni kom fram að sú aðlögun sem allsherjar- og menntamálanefnd og utanríkismálanefnd kölluðu eftir hefði ekki fengist samþykkt af hálfu Evrópusambandsins. Sú aðlögun varðaði tiltekna þætti tilskipunarinnar sem nefndirnar töldu að gætu reynst íslenskum samtökum á þessu sviði íþyngjandi. Íslensk stjórnvöld óskuðu þess í stað eftir tímabundinni aðlögun frá tilskipuninni með þeim hætti að frestað yrði gildistöku íþyngjandi ákvæða hennar um skýrslugerð rétthafasamtaka, þannig að miðað yrði við fjárhagsárið 2019 í stað 2018 í aðlögunartexta sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í ljósi þess hve umræða um upptöku tilskipunarinnar dróst á langinn var aftur á móti ekki lengur þörf á slíkri aðlögun þar sem umræddar kröfur um skýrslugerð rétthafasamtaka munu ekki gilda fyrr en fjárhagsárið 2019. Fram kom í kynningu fulltrúa utanríkisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis að íslensk rétthafasamtök væru vel undirbúin undir þær breytingar sem felast í tilskipuninni.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi. Gert er ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra muni leggja fyrir Alþingi frumvarp til nýrra laga sem kveði á um samræmdar reglur um stjórnarhætti, gagnsæi starfsreglna og fjármálaskipulag samtaka höfundaréttar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Inga Sæland sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Smári McCarthy, Ari Trausti Guðmundsson, Ásgerður K. Gylfadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Logi Einarsson.

Það er kannski allt í lagi að koma inn á að það er nokkuð gott að þetta mál er að komast í gegn, þ.e. ná þessu stigi, vegna þess að nú eru þær netþjónustur sem veita höfundaréttarvarið efni í notkun hjá 64% fólks í Evrópu og töluvert hærra hlutfall væntanlega á Íslandi án þess að ég hafi séð tölur um það. Þá erum við að tala t.d. um streymisveitur eins og Spotify og Netflix. Helmingur fólks á aldrinum 18–35 ára samkvæmt könnun sem var gerð, að mig minnir, af Eurostat leit svo á að þau réttindi að geta farið milli landa og notið sömu þjónustu óhindrað hvar sem er í Evrópu væru mjög mikilvæg. Það skýrist svolítið af því að fólk ferðast mun meira en áður og fólk er rosalega hissa þegar það kemur til annars lands og allt í einu virka þjónusturnar ekki lengur. Um leið eru mjög margir sem héldu að þetta væri sjálfsagt og eiginlega bara innbyggt í hlutarins eðli. Þetta hefur verið háð ýmsum samningum í gegnum tíðina sem hafa flækt málin töluvert. Þetta gerir því ýmislegt, þessi tiltekna tilskipun sem vonandi verður útfærð sem allra fyrst í lögum, en gagnvart hinum almenna neytanda er þetta svo góð réttarbót, bæði vegna þess að hafa þá fyrirsjáanleika þegar ferðast er um alla Evrópu og líka vegna þess að þetta eykur líkurnar á því að meira gæðaefni verði aðgengilegt á Íslandi. Gagnvart rétthöfum þýðir þetta líka ákveðinn réttindaauka sem gerir það að verkum að fólk getur farið hvert sem er til rétthafasamtaka og sé í rauninni ekki bundið af þjónustu ákveðinna rétthafasamtaka eins og áður og vonandi líka að bókhaldið við greiðslu svokallaðra stefgjalda eins og það hefur oft verið kallað til réttra rétthafa verði með betri hætti í framtíðinni. Því hefur oft verið mjög ábótavant.

Einhverjum gæti þótt skrýtið að Pírati standi í ræðustól Alþingis og sé hlynntur þessu máli af því að þetta snýr að höfundarétti, en það er kannski ágætisástæða til að minna á að Píratar eru ekki og hafa aldrei verið andsnúnir höfundarétti sem slíkum. Við viljum bara nútímavæða þann rétt í samræmi við þann nútíma sem við búum við. Nú man ég það ekki alveg nákvæmlega en 2. gr. stefnu Pírata í höfundaréttarmálum snýr einmitt að því hvernig við aukum á nútímavæðingu þess réttar. Ég er ekki frá því að það að taka upp þessa ágætistilskipun frá Evrópusambandinu uppfylli ansi margt í þeirri stefnu. Að sjálfsögðu tala ég því vel og lengi fyrir þessu en ætla að láta hér staðar numið.



[21:06]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál, það kom til kasta þeirrar nefndar sem ég sit í, allsherjar- og menntamálanefndar. Ég er eiginlega kominn hingað upp aðallega til þess að lýsa yfir stuðningi við málið og minna á að bak við þann tyrfna lagatexta sem er á þessu áliti er raunverulegt fólk. Þetta varðar líf og störf raunverulegs fólks og þá ekki bara neytenda. Listsköpun, tónlistarsköpun kannski í þessu tilviki, varðar ekki bara rétt neytenda heldur líka rétt listamanna til að fá sanngjarnan arð af sinni vinnu og geta lifað af list sinni.

Eins og hv. þm. Smári McCarthy minnti okkur á í ræðu sinni búum við við allt annan tæknilegan veruleika en við gerðum áður en heimurinn netvæddist. Tónlistarefni er dreift með allt öðrum hætti en þegar um var að ræða efnislega markaðsvöru í formi platna eða geisladiska og við erum sífellt að bregðast við því. Tæknin hefur haft tilhneigingu til þess að vera dálítið á undan siðvitinu, getum við sagt, maðurinn er einhvern veginn dálítið þannig og kannski eru framleiðsluhættir okkar dálítið þannig að þeir ýti undir að tæknivit okkar, tæknihyggjan, sé á undan siðvitinu. Við finnum upp tækni og tækninni fleygir fram en síðan lötrar á eftir hvernig við eigum að greiða úr ýmsum siðferðilegum álitamálum sem hljóta að koma upp við nýja tækni. Þessi siðferðilegu álitamál varða þá félagsleg réttindi og í þessu tilviki voru það félagsleg réttindi listafólks, sjálfsögð réttindi listafólks til að fá arð af vinnu sinni.

Ég fagna allri viðleitni til að festa í sessi regluverk sem tryggir þessi réttindi listafólks. Ég tel að það sé hér á ferðinni. Landamæri eru hrunin í okkar nútíma, enda er jörðin miklu stærri en við gerum okkur grein fyrir en líka miklu minni en við gerum okkur grein fyrir. Upplýsingar ferðast með miklum hraða á milli heimshorna á örskotsstund og varningur getur líka farið á milli heimshorna með miklu frjálsari hætti en áður var. Það gildir líka um list. Við höfum séð það með veitum eins og Spotify, Netflix og fleirum að fólk vill greiða fyrir efni, fólk vill að neysla þess á list sé sett í formlegri farveg en bara að hlaða niður efni og njóta þess án þess að greiða fyrir það. Upp til hópa er það þannig og mér sýnist að þetta umhverfi leiti sífellt meira jafnvægis.

Ég styð þetta mál. Það komu fram áhyggjur frá réttindasamtökum hér á landi um að það yrði íþyngjandi og of viðurhlutamikið að annast þessa skráningu ef miðað yrði við árið 2018 en gildistakan dróst það lengi að þetta er ekki lengur jafn aðkallandi vandamál og áður eins og kemur fram í nefndarálitinu. Þá kemur fram það mat að íslensk rétthafasamtök séu vel undirbúin undir þær breytingar sem felast í þessari tilskipun.

Ég styð þetta mál.



[21:13]
Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Það getur vel verið að ég sé algjörlega úti á túni með þetta andsvar og þessa spurningu en ég er að velta nokkru fyrir mér. Við sáum hér ekki alls fyrir löngu að upp kom ákveðin gagnrýni varðandi nýja veitu þar sem hægt er að hlusta á, ef ég kann þetta rétt, sögur og þess háttar. Það kom meðal annars fram að þeir rétthafar, þ.e. þeir sem eiga og bjuggu til það efni sem þar er, voru, ef ég man þetta rétt, eitthvað ósáttir við hvernig þetta fór af stað. Það sem ég er hreinlega að velta fyrir mér er hvort þingmaðurinn telji að þetta mál, sú þingsályktunartillaga sem við erum hér með og það sem fylgir vonandi í framhaldinu, sé til þess einhvern veginn að skýra eða bæta úr þeirri stöðu sem kom upp þá.

Þingmaðurinn nefndi réttilega tónlistarveitur og kvikmyndaveitur og hvað þetta heitir allt saman en þarna var eitthvað nýtt, að minnsta kosti nýtt fyrir mér það sem þarna kom, og þess vegna fór ég að hugsa um þetta núna þegar ég hlustaði á ræðu þingmannsins hvort við værum þarna komin með eitthvert verkfæri, bæði til að skera úr og bæta og laga stöðu þeirra sem þarna eiga efni. Ég er áskrifandi að Spotify og ég borga glaður fyrir að fá þá þjónustu. Mér finnst að það eigi að vera viðmið að við séum ekki að ná okkur í efni án þess að þeir sem lögðu það á sig að búa það til fái eitthvað fyrir það.



[21:14]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta. Ég vil fyrst segja að ég borga alls ekki glaður fyrir áskrift mína að Spotify vegna þess að mér finnst ég borga svo smánarlega lítið. Ég vildi gjarnan borga að minnsta kosti helmingi meira til að það tónlistarfólk sem gleður mig daglega fái meira fyrir sinn snúð.

Þetta tiltekna mál sem hv. þingmaður vísar hér til, ég hef því miður ekki á takteinum hvernig það er nákvæmlega vaxið. Ég hef það bara ekki í hausnum og hef ekki kynnt mér það sérstaklega, hafði bara, eins og hver annar fjölmiðlalesandi, örlítinn ávæning af því. Ég held að það hafi að einhverju leyti snúist um það að farið hafi verið af stað með þessa þjónustu án þess að viðkomandi hafi verið búinn að ná samningum við forlögin sem höfðu þá einhvern rétt á opinberum flutningi á þessum bókum. Ég treysti mér hreinlega ekki til að svara þessari spurningu. Hér stendur sem sé, um þessa tilskipun, að henni sé ætlað að samræma starfshætti rétthafasamtaka með því að setja samræmdar reglur um starfsramma er varðar stjórnskipulag, skipan fjármála, gegnsæi og upplýsingagjöf. Reglunum er ætlað að tryggja þátttöku rétthafa í ákvörðunarferli rétthafasamtaka og upplýsingaflæði til rétthafa. Það var meðal annars út af svona sem ég minnti á að bak við þetta lagamál sé raunverulegt fólk.



[21:17]
Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég held að það hafi einmitt komið ágætlega í ljós núna að ég misskildi þetta aðeins. Það er réttilega talað um samtök rétthafa í því máli sem við erum að ræða, í þessari þingsályktunartillögu. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni, þó að ég hafi orðað það þannig að ég borgaði glaður fyrir áskriftina, að auðvitað eru þetta ekki miklir peningar og mættu hugsanlega vera meiri. En það er betra að hægt sé að borga fyrir þetta en að ræna þessu einhvers staðar.

Ég held hins vegar að það sé mikilvægt fyrir okkur á Íslandi, ekki síst, að standa vörð um þá sem eru að skapa eitthvað fyrir okkur hin sem skortir þá náðargáfu að geta búið til tónlist eða skrifað bækur. Það er mjög mikilvægt að við höldum utan um það og beitum skynsemi og öllum góðum ráðum til að passa að ekki sé verið að misnota efni sem aðrir hafa lifibrauð af að búa til. Í ljósi þeirrar umræðu sem um þetta mál hefur orðið held ég að við ættum að skoða það einhvern tímann hvort utanumhald um það er nógu gott hjá okkur.



[21:18]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég tek undir orð hans og hef svo sem ekki miklu við þau að bæta. Frásagnarlist hefur fylgt Íslendingum um aldir í ýmsu formi. Þeir hafa skrifað upp sögur á pappír, í handrit; sjálf bókaútgáfan er ekkert svo ýkja gömul, frásagnarlistin sjálf er miklu eldri og hefur fylgt okkur miklu lengur í ýmsum búningi, ekki síst munnlegum búningi, þ.e. frásagnarlistin sem er þá flutt fyrir okkur. Mér virðist að það sé að verða sífellt vinsælla hjá fólki að kaupa sér aðgang að slíkum flutningi á skáldsögum og öðrum bókum, þ.e. að fá þetta lesið fyrir sig. Ég held að þar sé að verða til markaðsvara sem á sér mikla framtíð. En þá verðum við líka, löggjafarvaldið hér og yfirvöld, að sjá til þess að slík starfsemi nái að dafna á eigin forsendum og nái að verða arðvænleg og verði ekki kaffærð, annars vegar í of mikilli samkeppni frá opinberum aðilum og hins vegar frá aðilum sem líta svo á að eingöngu neytandinn hafi rétt til listarinnar en framleiðandi listarinnar, listamaðurinn og þeir sem skapa þessu búning, eigi ekki að fá neitt fyrir sinn snúð.