148. löggjafarþing — 75. fundur
 11. júní 2018.
hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl., 2. umræða.
stjfrv., 248. mál (sérstök kæruheimild vegna athafna og athafnaleysis). — Þskj. 344, nál. m. brtt. 1161.

[15:56]
Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sérstök kæruheimild vegna athafna og athafnaleysis. Álitið er frá umhverfis- og samgöngunefnd. Frumvarpið sjálft liggur fyrir á þskj. 344 og nefndarálitið með breytingartillögu á þskj. 1161.

Þingmálið hefur almennt gengið undir heitinu „athafnir og athafnaleysi“ og lýtur að sérstakri kæruheimild vegna slíks. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín allmarga gesti og farið yfir þær umsagnir sem bárust.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði fyrir þá sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta og umhverfisverndarsamtök, eins og þau eru skilgreind í lögum um umhverfis- og auðlindamál, að kæra athafnir og athafnaleysi jafnóðum í tengslum við þátttökurétt almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Samfara því er einnig lagt til að gerð verði breyting á kæruheimild laga um hollustuhætti og mengunarvarnir til að samræma hana heimildum annarra laga til að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að með 3. gr. frumvarpsins um lögfestingu kæruheimildar til að kæra athafnir og athafnaleysi væri gengið mun lengra en efni standa til út frá rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 2016, en í álitinu væri einungis fjallað um að kæruréttur væri ekki tryggður þegar stjórnvald tæki ekki ákvörðun sem því væri skylt að taka. Hvergi væri verið að innleiða kærurétt athafna og athafnaleysis með þeim hætti sem lagt væri til í frumvarpinu. Nefndin áréttar að mikilvægt er að tryggja þátttökurétt almennings við ferli mats á umhverfisáhrifum. Ákvæði Árósasamningsins um aðgang að réttlátri málsmeðferð mælir fyrir um að þrjú tilvik skuli vera kæranleg, sem eru ákvörðun, aðgerð og aðgerðaleysi. Þar með er ekki nægilegt að eingöngu sé til staðar heimild til kæru ákvarðana.

Athugasemdir voru gerðar við ákvæði 6. tölulið b-liðar 3. gr. frumvarpsins sem felur í sér eins konar safnlið, þ.e. mælt er fyrir um að tilvik sambærileg þeim sem rakin eru í 1.–5. tölulið og gætu þar með sætt kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Bent var á að rökstutt álit ESA gæfi ekki tilefni til lögfestingar slíks ákvæðis. Þá byði orðalag þess upp á túlkunarágreining um inntak kæruheimildarinnar en sjónarmiðum um skýrleika bæri að gefa sérstakan gaum við lagasetningu til að tryggja að réttaróvissa skapaðist ekki. Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og leggur til að 6. töluliður b-liðar 3. gr. frumvarpsins falli brott.

Á fundum nefndarinnar komu fram verulegar áhyggjur af málsmeðferðartíma fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála en hann hefur verið umfram lögbundinn málsmeðferðartíma í fjölda ára. Dæmi eru um ólokin mál allt frá árinu 2015 og stefnir í að málsmeðferðartími muni lengjast á árinu. Ljóst er að kærur og tafir á úrlausn þeirra geta leitt til verulegs tjóns fyrir framkvæmdaraðila. Nefndin telur brýnt að unnið verði markvisst að því að stytta málsmeðferðartíma fyrir nefndinni, m.a. með fjölgun stöðugilda en mikilvægt er að tryggt sé fjármagn til þess. Þá leggur nefndin til að veittar verði auknar heimildir til flýtimeðferðar fyrir nefndinni, þ.e. mál sem varða verulega fjárhagslega hagsmuni aðila, hvort sem er kærða eða kæranda, skuli sæta flýtimeðferð. Leggur nefndin til breytingu á 6. mgr. 4. gr. laganna í því skyni. Raunar ræddu mjög margir gestanna akkúrat þetta mál, sem er ekki nýmæli í lögunum heldur kannski það sem staðið hefur í vegi fyrir skilvirkni.

Nefndin leggur mikla áherslu á að boðuð heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum fari fram sem allra fyrst. Töluverð reynsla er komin á lögin á þeim 18 árum sem liðin eru frá setningu þeirra og þykja ferlin að ýmsu leyti þung í vöfum auk þess sem bent hefur verið á að þau gangi að einhverju leyti lengra en gert er ráð fyrir í tilskipunum ESB. Þá séu lögin ólík löggjöf þeirra landa sem við berum okkur saman við og um margt flóknari. Nefndin telur mikilvægt að í vinnu við endurskoðunina verði þess gætt að hafa samráð við hagsmunaaðila og leitað verði til færustu sérfræðinga háskólasamfélagsins á sviði stjórnsýsluréttar og umhverfis- og auðlindaréttar.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum, sem eru þær tvær breytingartillögur sem ég hef gert grein fyrir.

Undir álitið rita hv. þingmenn Bergþór Ólason formaður, Jón Gunnarsson, sem var framsögumaður í vinnu nefndarinnar, Líneik Anna Sævarsdóttir, sem tók að sér framsögn í dag í forföllum framsögumanns, Albertína Friðbjört Elíasdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Karl Gauti Hjaltason, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Árnason.



[16:03]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Frumvarp þetta má að stofni til kalla EES-innleiðingu. Það var umdeilt í upphafi, m.a. vegna þess að talið var að þarna væri verið að ganga lengra en Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefði úrskurðað um. En nú hefur frumvarpið tekið breytingum til sátta í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, það er ánægjulegt.

Frumvarpið snýst um möguleika almennings og málsaðila til að kæra svokallaðar athafnir eða athafnaleysi — það geta verið tilkynningar eða auglýsingar, skortur á auglýsingum og annað slíkt — á stjórnvaldsstigi svo að það sé á hreinu. Það gerist þá þegar verið er að undirbúa og leyfa alls konar framkvæmdir. Þetta eru þá svokallaðar matsskyldar framkvæmdir og ljóst er að þessi ákvæði hefur vantað í íslensk lög og þarna eru þau þá komin. Það má segja sem svo að megininnihald frumvarpsins, eða grunnurinn sjálfur, sé veruleg réttarbót.

Þá má í leiðinni minna á hve nauðsynlegt það er að stimpla inn í aukinn almannarétt í umhverfismálum nákvæmlega þennan rétt, einkum ef unnt er að færa athugasemdir og breytingar framar í allt ferlið sem þarna er í gangi; ferlið frá hönnun tiltekinna framkvæmda til framkvæmdanna sjálfra og til framkvæmdaloka í raun og veru. Lögin ættu einmitt að leiða til þess að framkvæmdaraðilar, stofnanir, ríkisstofnanir eða sveitarfélög, og þá leyfisveitendur, sem yfirleitt eru sveitarfélög, vandi sig betur. Það er einmitt tilgangurinn með þessu, meðal annars og það er vel.

Þá er brýnt að ítreka að samhliða þessu á að auka bæði fé og mannafla, afl, við getum bara kallað það sem svo, til svokallaðrar úrskurðarnefndar kærumála. Eins og kom fram í máli hv. framsögumanns hér á undan hefur skort á skilvirkni og aðallega getu þeirrar nefndar til að ljúka málum sínum. Þetta er þá gert samhliða framlagningu frumvarpsins og það er líka vel.

Sú gagnrýni að bíða hefði átt með frumvarpið og í stað þess endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eða áætlana er skiljanleg en óþörf vegna þess að ríkisstjórnin ætlar sér að gera hvort tveggja í einu, fá þetta frumvarp framlagt og undirbúa endurskoðun þess mikla lagabálks um mat á umhverfisáhrifum. Sá undirbúningur er þegar hafinn. Ég fagna afgreiðslu frumvarpsins og því að sú endurskoðun er hafin, þ.e. endurskoðun á heildarlögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.



[16:06]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla í örfáum orðum að árétta nokkuð sem komið hefur fram hjá kollegum mínum í umhverfis- og samgöngunefnd og varðar þetta ágæta mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, mál sem varðar athafnir og athafnaleysi. Fram kom í umsögnum nokkurra ef ekki vel flestra aðila, mismunandi harðorð, ákveðin gagnrýni á að hér væri um að ræða ranga lagatæknilega nálgun, þ.e. að með frumvarpinu væri gengið töluvert lengra en þyrfti varðandi innleiðinguna og efni stæðu til út frá þessu rökstudda áliti Eftirlitsstofnunar EFTA.

Komið hefur fram í máli fyrri ræðumanna um málið að lagðar voru til breytingar sem vonandi ganga að einhverju leyti til móts við þá gagnrýni sem kom fram, þó að ég ímyndi mér að einhverjir hafi viljað ganga enn lengra. Þetta er sáttin sem náðist í nefndinni og mig langar aðeins að hnykkja á því sem kemur fram í nefndarálitinu undir lokin, að umhverfis- og samgöngunefnd leggur mjög mikla áherslu á að boðuð heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum fari fram sem allra fyrst. Þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði starfshóp í apríl 2016 til að endurskoða lögin og síðan hefur töluvert vatn runnið til sjávar, bæði í stjórnmálunum með tíðum ráðherraskiptum en ekki síður í ákveðnum framkvæmdum sem þessi lög varða.

Það er gríðarlega mikilvægt að við stöndum við þau fyrirheit að fara í þá vinnu sem fyrst og með þeim hagsmunaaðilum sem um ræðir og skoðum þetta heildstætt. Ef það er eitthvað sem ég óttast er það að þessi löggjöf, fari þetta í gegn, verði til þess að menn andi léttar um sinn og láti einhver önnur verkefni ofar á forgangslistann en að fara í þessa heildarendurskoðun.

Ég vildi bara árétta að ég tel mjög mikilvægt, nefndin er mjög skýr með það álit sitt, að við förum í heildarendurskoðun, náum sátt um þessi mál og höfum þá það til hliðsjónar að vera ekki að ganga lengra en efni standa til og jafnframt að fá hagsmunaaðila að borðum til að vinna þetta eins mikið í sátt og samlyndi og hægt er og tryggja þannig rétt almennings til að hafa aðkomu að borðinu.