148. löggjafarþing — 78. fundur
 12. júní 2018.
persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga, 2. umræða.
stjfrv., 622. mál. — Þskj. 1029, nál. 1281, breytingartillaga 1282.

[20:49]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Ég þarf ekki að fjölyrða um það hér með hvaða hætti og með hversu skömmum fyrirvara þetta mikla mál kom til meðferðar hjá þinginu. Þingmönnum er kunnugt um það. Ég ætla heldur ekki að þreyta þingmenn á því að fara í gegnum allt nefndarálitið, sem er upp á 21 blaðsíðu, heldur vísa til þingskjalsins sem búið er að dreifa hér.

Fram kemur á fyrstu síðunni löng upptalning á öllum þeim umsagnaraðilum sem nefndin kallaði til og hefur fjallað um þetta mál á allmörgum löngum fundum með stuttu millibili, á fáum dögum, og unnið það eins samviskusamlega og kostur er.

Almennt má segja um frumvarpið að annars vegar er stefnt að því að lögfesta ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins frá 2016 eins og hún er tekin upp í EES-samninginn, og hins vegar að setja frekari ákvæði til fyllingar og viðbótar reglugerðinni þar sem hún mælir fyrir um að settar verði sérreglur í landslög. Samþykkt frumvarps þessa er forsenda fyrir þátttöku Íslands í samevrópsku regluverki um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Í frumvarpinu sett fram það efnislega markmið, eins og í gildandi lögum, að stuðla að því að með persónuupplýsingar verði farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Frumvarpið hefur þá sérstöðu að það snertir allt samfélagið.

Persónuverndarreglugerðin hefur þá sérstöðu að hún veitir aðildarríkjum talsvert svigrúm til að setja sérreglur um tiltekin atriði, útfæra sum ákvæði hennar eða víkja frá þeim og í sumum tilvikum er skylt að festa ákveðin atriði sérstaklega í landslög. Ástæður setningar sérreglna í landslögum má greina í fjóra flokka:

1. Heimild til nánari útfærslu á efni tiltekinna reglugerðarákvæða.

2. Valkostir um að setja efnisreglur á tilteknum sviðum.

3. Svigrúm ríkja til að setja lög sem víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar.

4. Skyldur sem hvíla á ríki til að setja sérstök atriði í lög eða reglur.

Almennt má segja um innleiðinguna að með vísan til þess að reglugerðin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn er mikilvægt að árétta að ekki er um eiginlega innleiðingu að ræða við þessa lagasetningu núna. Því er vakin athygli á nauðsyn þess að lögfesta sérstakt innleiðingarákvæði eftir að gerðin er orðin hluti af EES-samningnum. Slíkt ákvæði mætti færa í lögin samhliða breytingum á öðrum lögum.

Fjallað var talsvert ítarlega í nefndinni um afleiðingar þess ef reglugerðin yrði ekki innleidd á yfirstandandi löggjafarþingi. Vinnsla persónuupplýsinga yfir landamæri frá Íslandi til ESB fer fram á hverjum degi í miklum mæli, t.d. hjá íslenskum fyrirtækjum með starfsemi í Evrópu og hjá erlendum fyrirtækjum með starfsemi á Íslandi. Á fundum nefndarinnar hefur komið fram að ef persónuverndarfrumvarpið verður ekki að lögum á yfirstandandi þingi er hætta á að íslensk fyrirtæki lendi í margs konar vandræðum og vandkvæðum við flutning á persónuupplýsingum sem eru forsenda þjónustu á netinu, í tölvukerfum og öðru. Þá kunni samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja að veikjast og ófyrirsjáanlegt er hvernig viðskiptavinir þeirra í Evrópu myndu bregðast við.

Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Viðskiptaráðs Íslands er áréttað mikilvægi þess fyrir atvinnulífið að frumvarpið verði að lögum eins fljótt og hægt er. Tafir á innleiðingu skapi óvissu sem veikt geti samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi. Ísland verði flokkað sem þriðja heims ríki sem falið gæti í sér umtalsvert fjárhagslegt tjón fyrir hið opinbera, atvinnulífið og viðsemjendur þeirra. Þá lýsti Íslensk erfðagreining í umsögn sinni áhyggjum af því að hætta geti skapast á áframhaldandi óheftu samstarfi við erlenda samstarfsaðila sem gera þá kröfu að Íslensk erfðagreining starfi í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Allítarlega er fjallað um þetta í nefndarálitinu sem er upp á 21 blaðsíðu. Ég hvet þingmenn til að kynna sér efni málsins. Nokkrar breytingartillögur hafa komið fram. Það er kannski rétt að taka það fram í sambandi við kostnaðinn sem tekinn er fram í lok nefndarálitsins að fyrir nefndinni kom fram mikil gagnrýni á þann kostnaðarauka sem frumvarpi hefði í för með sér fyrir atvinnulífið, stofnanir og sveitarfélög og að honum væri ekki mætt. Þá er bent á að Persónuvernd hefði verið tryggt aukið fjármagn á fjárlögum til að sinna auknum og nýjum verkefnum, en aðrar stofnanir ekki fengið slíka aukningu. Að því þarf að hyggja.

Fyrir nefndinni kom fram hörð gagnrýni varðandi þinglega meðferð, hversu seint fyrirliggjandi frumvarp væri fram komið. Bent var á að um væri að ræða flókið mál sem hefði í för með sér auknar skyldur og kostnað fyrir atvinnulífið. Getur nefndin út af fyrir sig ekki annað en tekið undir það.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar leiðréttingar til að tryggja skýrleika og vísanir milli greina.

En að öllu framangreindu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir skrifar undir álitið með þeim fyrirvara að hún tekur ekki ábyrgð á þeim villum sem kunna að leynast, eins og þar segir, í þessu umfangsmikla og mikilvæga þingmáli vegna þess hversu skammur tími hefur gefist til meðferðar þess.

Undir nefndarálitið, meirihlutaálit, skrifa Páll Magnússon, Guðmundur Andri Thorsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Birgir Ármannsson, Jón Steindór Valdimarsson, Willum Þór Þórsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, með þeim fyrirvara sem ég las.

Meiri hlutinn leggur sem sagt til að þetta frumvarp verði samþykkt með þeim breytingum sem fylgja á sérstöku þingskjali.



[20:56]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Málið kom mjög seint hér inn í þingið og það er líka sérstakt að okkur þingmönnum er ætlaður lítill tími til að setja okkur almennilega inn í málið. Þess vegna mun ég, sem og þingmenn Miðflokksins, ekki styðja afgreiðslu þessa máls.

Um daginn, þegar hæstv. dómsmálaráðherra mælti fyrir málinu, sagði hún að litlu yrði breytt í þingsal þar sem um mál frá Evrópusambandinu væri að ræða. Það má segja að hún hafi haft nokkuð rétt fyrir sér. Eitt er að málið kemur seint, hitt er að flestir þingmenn hafa samþykkt að það fari í gegn að mestu umræðulaust. Ég hlýt því að spyrja: Er það þinginu til sóma?

Allsherjar- og menntamálanefnd hefur haft málið hjá sér í 15 daga og hefur nefndin fengið til sín fjölda gesta. Eftir því sem umræðan um málið eykst vakna fleiri álitamál. Meira að segja hefur því verið velt upp hvort verið sé að brjóta á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og það segir allt sem segja þarf.

Umsagnarbeiðnir voru sendar út 30. maí, fyrir 13 dögum. Alls voru beiðnir sendar til 298 aðila og hafa borist um 50 umsagnir frá mismunandi hagsmunaaðilum, svo sem sveitarfélögum, ríkisstofnunum og hagsmunasamtökum flestra helstu atvinnuvega landsins. Þannig að umsagnirnar snerta allmarga.

Umsagnirnar eiga það allar sameiginlegt að benda á að nauðsynlegt sé að vanda til verka og gefa tíma til þess að fara vel og vandlega yfir þetta mikilvæga mál. Við erum með í höndunum gríðarlega stórt og viðamikið mál. Þess vegna er það furðulegt að ætla umsagnaraðilum svo skamman tíma. Það er ekki eins og þetta sé einfalt mál. Það er mikilvægt að gefa tíma þannig að fólk geti farið eins djúpt og þarf til að glöggva sig á því. Enda snúast umsagnirnar meðal annars um það hversu stuttur tími er gefinn ásamt gagnrýni á efnistök málsins alls.

Það er hægt að telja hér upp efnisatriði sem þyrfti að rýna betur í, svo sem eins og sektarákvæðin. Í sumum öðrum löndum eru þau ekki til staðar og sums staðar eru þau meira að segja lægri en þau verða hér. Samtök iðnaðarins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samorka, Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök ferðaþjónustu, Samtök verslunar- og þjónustu hafa öll gagnrýnt að hafa ekki átt fulltrúa í innleiðingarferlinu sem er í sjálfu sér dálítið sérstakt þar sem verið er að innleiða þetta stóra mál sem snertir þessa aðila beint. Störf persónuverndarfulltrúa er aðeins eitt atriði af mörgum sem fyrirtæki þurfa að innleiða hjá sér og það eru fáir búnir að ráða, en einhverjir farnir að auglýsa. Það segir allt sem segja þarf.

Ég get haldið áfram, af nægu er að taka. Eftir standa fjölmörg álitaefni og fjölmörg lagatæknileg efni. Eitt vil ég þó segja að lokum, þ.e. að nefndasvið Alþingis á þakkir skilið fyrir sína vinnu, en það er með öllu óraunhæft að ætla að klára málið með þeim hætti sem hér er boðað.

Ég vel að láta staðar numið hér en vek athygli á því, eins og fyrr í máli mínu, að málið kom seint inn og okkur þingmönnum er á engan hátt gefinn nægur tími til að ræða það né heldur fá umsagnaraðilar alvörutækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það er ekki hægt að fara áfram á þessu sem við oft segjum: „þetta reddast“. Mér finnst þetta þinginu ekki til sóma.



[21:01]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum að afgreiða stórmál, mjög mikilvægt mál sem hefði verið æskilegt og raunar nauðsynlegt að fá mun meiri tíma til að fjalla um. Það verður að lýsa þeirri skoðun sinni hér að hæstv. dómsmálaráðherra og ráðuneyti hans hefðu betur komið frumvarpinu frá sér fyrr til þess að það fengi vandaðri umfjöllun en gefinn er kostur á. Hins vegar er málið þess eðlis að við verðum að innleiða þessa nýju löggjöf. Það gerum við. Ég held að flestallir umsagnaraðilar séu sammála um að málið þoli ekki bið. Vegna þess lagði nefndin á sig mikla vinnu með dyggri aðstoð starfsmanna þingsins, nefndasviðsins, og höfunda frumvarpsins, sem voru duglegir við að aðstoða nefndina við að færa til betri vegar nokkur atriði í frumvarpinu. Ég held að því hafi tekist á ótrúlega stuttum tíma að sníða af agnúa og bæta frumvarpið frá því sem upphaflega var.

Frumvarpið felur í sér, ég vil leyfa mér að segja nánast byltingu á þessu sviði. Fjallað er um mikilvæg réttindi og tekur frumvarpið til mjög margra aðila í samfélaginu. Málið er í sjálfu sér mjög þarft og gott í alla enda og kanta því að við erum að tryggja og taka samræmda löggjöf sem tryggir persónuvernd betur en áður var og hvað er heimilt og hvað ekki í meðferð persónuupplýsinga.

Það er líka rétt að benda sérstaklega á að nefndin var mjög meðvituð um þann vanda sem hún stóð frammi fyrir. Það er kirfilega tekið fram í nefndarálitinu að nefndin telur sér hafa verið sniðinn býsna þröngur stakkur við að vinna þetta mál svo að sannur sómi væri að. Rétt er að ítreka enn og aftur gagnrýni á það hversu seint málið kom fram.

Það eru fjölmörg atriði í málinu sem hefðu svo sannarlega þurft lengri umræðu en ég held að þrátt fyrir allt hafi tekist að koma málinu í þann búning að það sé tækt til þess að við afgreiðum það á Alþingi. Það býður auðvitað heim þeirri hættu að það finnist á því gallar þegar málið fer af stað, verður að lögum, og við það verðum við að búa. En ég held að þá sé rétt að við séum öll mjög árvökul og ekki síst dómsmálaráðuneytið sem fer með þessi mál, að við séum mjög á tánum við að bregðast við ef upp koma atriði sem valda réttaróvissu eða misskilningi.

Ég ítreka enn og aftur að betra hefði verið að hafa lengri tíma. Við hefðum getað haft lengri tíma ef betur hefði verið að verki staðið. En að öllu virtu hef ég skrifað undir nefndarálitið og þær breytingartillögur sem lagðar eru fram og mun að sjálfsögðu styðja að frumvarpið verði að lögum. En þessi málsmeðferð öll er ekki í samræmi við það sem ég hefði helst kosið.



[21:06]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem komið hefur fram í máli hv. þingmanna þar sem þeir tala um þann skamma tíma sem okkur í allsherjar- og menntamálanefnd var skammtaður til vinnslu málsins svo við þurftum næstum því að leggja nótt við dag til þess að vinna málið. Ég vil í því sambandi færa samnefndarfólki mínu öllu þakkir fyrir góða og mikla vinna. Ég vil líka þakka sérstaklega starfsfólki nefndasviðs sem lagði nótt við dag til þess að koma málinu í þann búning sem við höfum hér nú. Loks vil ég þakka höfundum frumvarpsins sem komu til okkar aftur og aftur og ræddu við okkur ótal atriði þessa frumvarps og ótal álitamál og hjálpuðu okkur að komast að niðurstöðu um þann besta búning sem hægt væri að hafa á þessu.

Það er ekki alveg alls kostar rétt sem haft var eftir hæstv. dómsmálaráðherra hér að ekki hafi verið neitt svigrúm til að vinna málið, það er alls ekki svo. Við höfum svigrúm til þess. Við þurfum að innleiða þessa reglugerð, en svo er í þessari reglugerð margvíslegt svigrúm sem einstakar þjóðir geta unnið úr.

Að slepptum fyrirvaranum um málsmeðferðina, sem hefur verið svo hröð og sem helgast náttúrlega ekki síst af þeirri tímapressu sem við erum undir í þessu máli og við getum ekkert talað okkur undan, er rétt að leggja áherslu á að hér er um raunverulegt og mikið framfaramál að ræða, réttarbót fyrir hinn almenna borgara. Varðandi málefni sem verða sífellt mikilvægari á okkar tímum eiga eftir að skipa æ meira máli þegar um er að ræða gagnasöfnun, um alls kyns málefni einstaklinga í ófyrirséðri framtíð á ófyrirséðan hátt, og hvernig þau gögn verða notuð. Þá er mjög mikilvægt að til séu vönduð lög. Við erum þegar farin að fá nasasjón af slíkri starfsemi með fréttum að Cambridge Analytica og Facebook-lekanum. Það er sum sé verið að tryggja borgunum réttindi og styrkja þau að fjölmörgu leyti.

Í þessari reglugerð og í þessum lögum eru hagsmunir borgaranna, einstaklinganna, okkar, almennings, í fyrirrúmi. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga. Það er stundum þannig í íslenskri umræðu að þegar kemur að réttindum borgaranna er eins og sumum finnist það í sjálfu sér vera áhyggjuefni og telja að þau séu íþyngjandi, það sé vesen og fara að finna því allt til foráttu. Okkur er tamt að hugsa svona mál út frá hagsmunum fyrirtækja og stofnana frekar en hugsa þetta út frá hagsmunum borgaranna.

Það eru náttúrlega ýmis álitamál í þessu frumvarpi og við fórum í gegnum í okkar hópi og með höfundum frumvarpsins. Fjallað er um það í mjög rækilegu nefndaráliti sem ég leyfi mér að vísa hér til. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því hvernig nefndin áréttar þann skilning sinn á lögunum að persónuvernd muni í beitingu stjórnvaldssekta og dagsekta og (Forseti hringir.) gjaldtöku ávallt og ævinlega hafa að leiðarljósi reglu um meðalhóf og gæta þess að (Forseti hringir.) íþyngja ekki þeim sem sektin beinist að.



[21:12]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Allsherjar- og menntamálanefnd hefur haft til umfjöllunar frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á almennu persónuverndarreglugerðinni og felur það í sér eitt stærsta stökk fram á við í aukinni réttarvernd hins almenna borgara á sviði persónuverndar og friðhelgi einkalífs.

Ég rita undir þetta nefndarálit með fyrirvara og langar að gera grein fyrir því hvers vegna sá fyrirvari er gerður. Þingmenn Pírata hafa á síðustu mánuðum beint því ítrekað til hæstv. dómsmálaráðherra hversu mikilvægt það sé að tryggja að umrætt frumvarp væri lagt nógu snemma fram til þess að það hljóti góða og faglega meðferð í þinginu. Við vöruðum ítrekað við því að leggja málið fram of seint. Ef það yrði gert yrði málið rætt í tímaþröng. Það kynni að vega að möguleikum almennings til að koma að athugasemdum um málið í formi umsagna. Ef frumvarpið kæmi of seint fram og vinna við það á Alþingi yrði það ekki eins og best verður á kosið og væri hætta á að mistök yrðu gerð við lagasetninguna sem kynnu að hafa neikvæð áhrif á hina ýmsu hagsmunaaðila.

Þegar fundum Alþingis var frestað í fyrri hluta maí vegna komandi sveitarstjórnarkosninga hefði mátt draga þá ályktun að ráðherra hygðist ekki leggja frumvarpið fram fyrr en á haustþingi og eiga þannig á hættu að vanvirða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, enda hefði verið stórkostlega misráðið að leggja málið fram þegar Alþingi kæmi saman aftur eftir sveitarstjórnarkosningar þann 28. maí 2018. En sú varð raunin og við búum nú við það.

Að vinna þetta mál á handahlaupum með takmarkaðri aðkomu almennings er ástand sem skapað hefur verið af hæstv. dómsmálaráðherra og stjórnarmeirihlutanum, sem hefur verið afar ósamvinnuþýður í því að velja lengri málsmeðferðartíma, t.d. með því að bjóða lengri umsagnarfrest eða með því að leggja málið fyrr fram.

Ég lagði fram þá kröfu á fundi formanna um að umsagnarfrestur um málið yrði lengdur sem komið var til móts við að einhverju leyti, en þó ekki meira en svo að hinn nýi umsagnarfrestur yrði rétt rúm vika. Það sýnir sig að gefinn var allt of stuttur tími þar sem margar umsagnir bárust eftir tilskilinn frest. Eflaust hefðu fleiri viljað koma að athugasemdum sínum og eflaust hefðu fleiri viljað koma fyrir nefndina til þess að greina frá áhyggjum sínum og athugasemdum og jafnvel hrósi varðandi þetta annars góða frumvarp.

Þá er þetta frumvarp líka enn eitt dæmið um að það er óumflýjanlegt að gerð verði mistök við lagasetninguna. Til þess að tryggja að lögin yrðu gallalaus, eða gallalítil skulum við öllu heldur segja þar sem við erum mjög sjaldan með gallalaus lög á þessu þingi, hefðum við þurft að hafa margfalt meiri tíma til vinnslu málsins. Sú staða er uppi að nauðsynlegt er að samþykkja lög sem kunna að innihalda galla. En sú staða er á ábyrgð flutningsmanns frumvarpsins, hæstv. dómsmálaráðherra. Þess vegna rita ég undir nefndarálitið með fyrirvara, vegna þess að ég vil alls ekki standa í vegi fyrir því að við virðum okkar alþjóðlegu skuldbindingar og tökum þátt í því sameiginlega verkefni Evrópu allrar að vernda betur persónuupplýsingar einstaklinga, að vernda betur friðhelgi einkalífs einstaklinga á þessari upplýsingaöld þar sem upplýsingar um einstaklinga ganga kaupum og sölum án þess að þeir fái miklu um það ráðið. Að sjálfsögðu vil ég ekki standa í vegi fyrir því.

En ég ítreka þær áhyggjur sem við Píratar höfum haft hér og höfum verið mjög hávær um, sérstaklega hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, af því að málið yrði ekki lagt fram eða ekki lagt fram með góðum fyrirvara og það myndi valda því að það fengi ekki eðlilega og góða málsmeðferð á þingi og að í því myndu mögulega leynast margar villur sem við myndum þá þurfa að una við í dágóðan tíma á eftir.

Svo það sé sagt hef ég verið mjög ánægð með vinnu nefndarinnar í málinu. Ég er mjög ánægð með vinnu starfsfólks nefndasviðs. Það hefur lagt nótt við dag til þess að sníða sem flesta agnúa af málinu sem hafa fundist á þeim stutta tíma sem það hefur verið til meðferðar, því ber að fagna og því ber að þakka fyrir.

Ég endurtek í lokin þann fyrirvara sem hv. þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Páll Magnússon, las upp í ræðu sinni áðan, þ.e. að ég skrifi undir álitið með þeim fyrirvara að ég taki ekki ábyrgð á þeim villum sem kunna að leynast í þessu umfangsmikla og mikilvæga þingmáli vegna þess hve skammur tími hefur gefist til meðferðar þess. En þar sem ég tel þetta þingmál auka rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs og persónuverndar er ég samþykk meðferð þess, með semingi þó.



[21:17]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Margir þingmenn hafa talað um tímann. Ég ætla líka að byrja á því. Ég ætla að tala um árið 1995 en þá var sá sem hér stendur 16 ára og fór austur á Kirkjubæjarklaustur á tónlistarhátíðina Uxa. Þetta var einfaldari tími. Þetta var tími þar sem fæstir voru með internet heima hjá sér og ef þeir voru með það þurftu þeir að hringja til Reykjavíkur í gegnum tæki sem hafði mjög hátt og skilaði litlum upplýsingum af interneti sem hafði mjög lítið upp á að bjóða. En þetta er einmitt árið sem Evrópusambandið setti reglugerð um persónuvernd, þá sem lögin okkar frá árinu 2000 byggja á og þá sem við erum nú að skipta út fyrir nýja og betri.

Munurinn á upplýsingasamfélagi ársins 1995 og 2018 er svo stjarnfræðilegur að ég fer jafnvel að trúa því, þótt ég sjái mig enn fyrir mér sem 16 ára dreng hoppandi á Uxa, að ég gæti verið farinn að vera að nálgast virðulegan aldur, miðað við magn upplýsinga, hvernig þeirra er aflað og hvernig þeim er miðlað. Þetta er annar heimur. Vísindaskáldsaga ársins 1995 er hversdagslegur veruleiki ársins í dag.

Það sem nýja reglugerðin og nýju lögin gera er að takast á við þann nýja veruleika og þá sjálfsögðu kröfu okkar sem einstaklinga að tryggja eignarhald og umráðarétt yfir persónuupplýsingum okkar í þeim veruleika. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt framfaraskref stigið við samþykkt laganna. Við fögnum því öll.

Það var mikil vinna að koma okkur þetta langt og það er mikil vinna fyrir höndum. Það kom skýrt fram við umfjöllun nefndarinnar. Mig langar að tæpa örstutt á nokkrum þeim atriðum sem nú taka við.

Fyrst vil ég nefna þá stofnun sem við störfum innan, Alþingi sjálft, vegna þess að við erum að gera þá breytingartillögu að persónuverndarreglur nái ekki utan um störf Alþingis. Svo að það sé alveg á hreinu þá er hugmynd okkar með því ekki að hefja okkur yfir almenn lög heldur sáum við okkur ekki fært á þeim tíma sem fyrir hendi var að vinna útfærsluna á því hvaða þættir starfa Alþingis ættu erindi undir persónuverndarreglur eins og þeir eiga erindi undir lög um stjórnsýslu- og upplýsingalög. Það er ekki skýrt í dag vegna þess að Alþingi gegnir margþættu hlutverki, hluti þess á ekkert erindi undir þá lagabálka, en þar sem stjórnsýsla er framkvæmd innan stofnunarinnar eigum við að láta hin almennu lög gilda.

Því leggjum við til að í framhaldinu muni forseti Alþingis og einhverjir honum nærgengir vinna í því að útfæra þetta þannig að allir lagabálkarnir þrír umgangist Alþingi á sambærilegan hátt.

Sama þarf að gera með dómstólana þar sem lengi hefur verið togast á um það hvernig stjórnsýslulög og upplýsingalög eiga við um störf þeirra. Sama þarf að gera með persónuverndarlög í framhaldinu.

Það sem þarf að gera í haust er líka að fá inn á þing gríðarstóran bandorm sem tekur á hinum ýmsu sérlögum þar sem fjallað er á einhvern hátt um vinnslu, miðlun og öflun persónuupplýsinga. Það gætu verið tugir lagabálka sem þurfa að koma frá ráðuneytum eins fljótt og hægt er að lokinni þingsetningu. Ég nefni sem dæmi lög um skjalasöfn, lög um landlækni. Listinn er endalaus.

Eins þurfum við að fara að ræða setningu nýrra sérlaga, eins og t.d. var bent á í umsögnum Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins er varðar atvinnutengt samhengi, t.d. vímuefnarannsóknir á starfsmönnum og eftirlit með tölvupósthólfum þeirra. Þetta allt saman vantar miklu skýrari ramma utan um. (Forseti hringir.)

Þá þarf á komandi hausti að skoða af alvöru þann kostnað sem hlýst af þessu hjá stærstu stofnunum ríkisins sem eru með flóknustu vinnslu persónuupplýsinga, (Forseti hringir.) hvort koma þurfti til móts við þær í fjárlagavinnunni.

Af því að forseti er farinn að slá svo undurblítt í bjölluna langar mig að nefna tónlistarkonuna Björk sem árið 1995 átti einmitt vinsælasta lag Íslands á þessum tíma árs, „Army of me“, með leyfi forseta. Það þurfti heilan her fólks til að koma þessu máli í gegn. Ég ætla ekki að nefna það fólk sem vann þetta í ráðuneytinu eða okkur þingmennina. Við getum (Forseti hringir.) hrósað hvert öðru í bakherbergjum. Mig langar að nefna sérstaklega starfsfólk Alþingis. Ég held að það sé engum ofsögum sagt að við höfum hertekið nefndasvið Alþingis og gott betur síðustu vikur. Mig langar að nefna umsagnaraðila sem eins og fram hefur komið (Forseti hringir.) fengu allt of skamman tíma til að skila inn umsögnum, en þeir gerðu það margir, þeir gerðu það vel og þeir mættu kvöld og nætur, helgar og hvenær sem er, fyrir nefndina til að hjálpa okkur að sigla málinu í höfn.



[21:23]
Forseti (Guðjón S. Brjánsson):

Forseti biður hv. þingmenn vinsamlegast að virða viðmiðunarmörkin í tíma.



[21:23]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Hér er verið að stuðla að því, eins og segir í nefndaráliti, að með persónuupplýsingar verði farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Því er um að ræða umfangsmiklar breytingar í frumvarpinu til viðbótar við þann rétt sem er að finna í núgildandi löggjöf þar sem meginreglur um vinnslu persónuupplýsinga, réttindi skráðra og skyldur ábyrgðaraðila standa óbreytt í evrópsku reglugerðinni og um er að ræða ýmsar grundvallarbreytingar og viðbætur við gildandi reglur. Það er í takt við umfangsmiklar breytingar sem hafa orðið og eru að eiga sér stað á þessu sviði um allan heim. Þá um leið eykst þrýstingur á að samræma slíkt regluverk á þessu réttarsviði sem og mörgum öðrum, eins og verið er að gera með þeirri reglugerð sem við erum að lögfesta og við höfum upplifað svo sem á undanförnum árum og misserum með þátttöku okkar í alþjóðastarfi og með aðild okkar að EES-samningnum.

Fram hefur komið í máli hv. þingmanna og samnefndarmanna í allsherjar- og menntamálanefnd að tíminn var knappur til að fjalla um málið, en á sama tíma er margt sem knýr á um að það verði klárað á þessu þingi, ekki síst frá atvinnulífinu sem er búið að vera á fullri ferð að búa sig undir hið breytta lagaumhverfi á þessu sviði.

Ég vil fá að bera sérstaklega niður í nefndarálitinu og lesa, með leyfi forseta:

Í sameiginlegri umsögn fjölmargra fulltrúa Samtaka atvinnulífsins „er áréttað mikilvægi þess fyrir atvinnulífið að frumvarpið verði að lögum eins fljótt og hægt er.“ — Það er því mikil pressa frá atvinnulífinu, eins og við sjáum, að við afgreiðum málið. — „Tafir á innleiðingu skapi óvissu sem veikt geti samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi.“

Það segir enn fremur:

„EFTA-ríkin gáfu nýverið út yfirlýsingu um að eldri persónuverndartilskipun 95/46/EB gilti áfram í EES-samningnum þar til almenna persónuverndarreglugerðin hefði verið tekin upp í EES-samninginn. Fyrir nefndinni kom fram að Evrópusambandið hefði ekki andmælt yfirlýsingunni. Því ætti ekki að verða truflun á gagnaflutningi persónuupplýsinga á milli landa fram að upptöku gerðarinnar í EES-samninginn.“

Þetta er afar mikilvægt, virðulegi forseti, því að eina óvissan sem getur skapast er ef við drögum að innleiða gerðina eftir að gerðin er orðin partur af EES-samningnum.

Það segir:

„Í ljósi þeirra veigamiklu hagsmuna sem í húfi eru og þeirrar óvissu sem skapast ef innleiðing reglugerðarinnar dregst telur meiri hlutinn mikilvægt að hún verði innleidd á yfirstandandi löggjafarþingi.“

Þessi staðreynd vegur að mínu viti þyngra en sú mikilvæga rýnivinna sem eðlilegt er að jafn viðamikið mál fái í þinglegri meðferð. Gerir nefndin grein fyrir þeim þætti í sérstökum kafla og áréttar nauðsyn þessa og leggur áherslu á að nýta tímann vel fram að hausti til að rýna ákvæði málsins og fara yfir önnur lög sem breyta þarf og vinna að fræðsluefni.

Markmiðin með þessari reglugerð eru tvíþætt, annars vegar réttindamiðuð áhersla á aukin réttindi til persónuverndar og meiri stjórn á eigin persónuupplýsingum, hins vegar að greiða fyrir virkni stafræns markaðar og tryggja samræmt flæði upplýsinga yfir landamæri. Af því leiðir að það eykur verulega skyldur og ábyrgð samhliða kostnaði á atvinnulífið, stofnanir og sveitarfélög.

Það skal viðurkennt, virðulegi forseti, að tilfinningin gagnvart málinu var blendin í upphafi, sú að meiri tíma þyrfti í þinglegri meðferð en síðan að þetta gæti náðst á tilsettum tíma.

Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn þakka röskt, samstillt átak í vinnu samnefndarmanna í allsherjar- og menntamálanefnd, umsagnaraðilum sem komu hingað á mjög óvenjulegum tímum, frumvarpshöfundum sem gáfu nefndinni sérstaklega góðan tíma, glöggan og gagnlegan, og nefndasviði Alþingis. Er það allt þakkarvert.

Niðurstaðan er sú að ég hef nokkurt öryggi fyrir því að við séum að gera rétt með því að klára málið. Það er mikilvægt og vegur þyngra en að lifa með mögulegum ágöllum þess að málið sé unnið í þinginu með þeim hraða sem raun ber.



[21:29]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það er ýmislegt jákvætt í þessu frumvarpi. Ég vil taka undir það með hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni að þar er réttarbót að finna fyrir hinn almenna borgara. Hins vegar er þetta frumvarp mjög viðamikið og íþyngjandi. Meginmarkmið þess er að tryggja einstaklingum aukna vernd og aukin réttindi við meðferð persónuupplýsinga. Rætt er um hugarfarsbreytingu hvað varðar meðferð persónuupplýsinga, umgengni um slíkar upplýsingar og þýðingu þeirra. Allt hljómar þetta vel og eru í sjálfu sér göfug markmið, en áhrif frumvarpsins verða víðtæk og snerta öll svið samfélagsins eins og komið hefur fram. Einmitt þess vegna kallar þetta frumvarp á vandaða umræðu í þingsal. Þau vinnubrögð sem við höfum horft upp á hér og flest allir þingmenn hafa komið inn á, hvernig þetta hefur komið inn í þingið með afar skömmum fyrirvara, eru alls ekki til fyrirmyndar og sérstaklega í ljósi þess hversu umfangsmikið og íþyngjandi frumvarpið er.

Mig langar aðeins að víkja að kostnaði við þetta frumvarp vegna þess að ég tel að því miður hafi verið horft fram hjá því og það er mjög slæmt. Ef við horfum aðeins á umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið kemur þar fram að þetta frumvarp, verði það að lögum, mun hafa í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir sveitarfélögin. Fram kemur að fyrirhuguð lagasetning kalli á nýtt og bætt verklag um persónuvernd og muni hafa veruleg áhrif á alla stjórnsýslu sveitarfélaga og leiða til umfangsmikils kostnaðarauka.

Þá segir Samband íslenskra sveitarfélaga í umsögn sinni að fjölmörg atriði í frumvarpsdrögunum séu mjög óljós og skýrleika vanti um þau fyrirmæli sem sveitarfélög hafa um hvernig standa beri að málum, það er að sjálfsögðu mjög slæmt.

Árlegur rekstrarkostnaður sveitarfélaganna vegna þessa er áætlaður um 390 millj. kr. Hins vegar er undirbúningskostnaður við verkefnið sem leggst á sveitarfélögin áætlaður um 770 millj. kr. Það eru verulegar upphæðir og er hvergi fjallað um það í tengslum við þetta mál hvernig koma eigi til móts við sveitarfélögin hvað þetta varðar.

Stærsti liðurinn í undirbúningskostnaðinum er annars vegar verkefnastjórn og hins vegar kortlagning vinnslu sveitarfélaga og gerð vinnsluskráa. Þetta er áætlað að kosti um 660 millj. kr. Þannig að við sjáum það, herra forseti, að hér eru háar upphæðir á ferðinni. Allt er þetta mjög athyglisvert. Ef við förum nánar yfir þær tölur sem stefnt er að að leggja á sveitarfélögin sjáum við alveg að það verður að koma mótframlag. Það verður að koma til einhvers konar mótframlaga eða breyta tekjustofnum sveitarfélaganna þannig að þau séu í stakk búin að takast á við þetta mál.

Í málinu hefur verið rætt um víðtækt samráðsferli. Ég sé hvergi að það hafi átt sér stað gagnvart sveitarfélögunum. Mörg þeirra hafa ekkert svigrúm til að mæta þessum mikla aukakostnaði. Í dag eru sum sveitarfélög ekki einu sinni í stakk búin að halda uppi eðlilegu skólastarfi vegna slæmrar fjárhagsstöðu, hvað þá að fara að taka á sig þessar skuldbindingar Evrópusambandsins sem koma frá Evrópusambandinu.

Tíminn er skammur, herra forseti. Ég vil bara segja að lokum að það er alveg ljóst að þetta mál þarfnast mun betri og vandaðri umræðu. Hérna eru veigamikil atriði er lúta ekki síst að (Forseti hringir.) kostnaði, innleiðingu og framkvæmd laganna, ákvæði um sektargreiðslur, skýrleika laganna, (Forseti hringir.) fræðslu o.s.frv., sem þarfnast mun meiri samráðs við hagsmunaaðila. Við megum ekki að ganga (Forseti hringir.) of nærri framsali valds og fullveldi Íslands.