148. löggjafarþing — 80. fundur
 17. júlí 2018.
verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins, fyrri umræða.
þáltill. KJak o.fl., 675. mál. — Þskj. 1340.

[13:36]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins. Tillagan er flutt sameiginlega af formönnum þeirra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi. Hún er tvíþætt og hljóðar svo:

Alþingi ályktar eftirfarandi, í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands:

a. Stofnaður verði Barnamenningarsjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2019–2023, 100 millj. kr. á ári. Sjóðurinn hafi það að markmiði að fjármagna og styrkja verkefni á sviði barnamenningar en jafnframt verði lögð áhersla á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna í samfélaginu og verkefni er stuðli að áframhaldandi innleiðingu barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Annað hvert ár verði efnt til Barnaþings sem taki til umfjöllunar málefni tengd börnum og ungmennum og hagsmunum þeirra.

Forsætisráðherra skipi fimm manna stjórn sjóðsins og fimm varamenn. Stjórn sjóðsins tilkynni um úthlutun úr sjóðnum á degi barnsins ár hvert.

Forsætisráðherra setji nánari reglur um starfsemi sjóðsins að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Þær verði birtar í Stjórnartíðindum. Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands, sjái um umsýslu og vörslu sjóðsins

b. Hafin verði smíði hafrannsóknaskips með framlagi af fjárlögum næstu þrjú ár, 2019–2021, sem skiptist þannig að 300 millj. kr. verði varið til hönnunar og undirbúnings á árinu 2019 og 1.600 millj. kr. hvort ár 2020 og 2021 til smíði skipsins. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði falin framkvæmd þessa.

Herra forseti. Eins og fram er komið er tillaga þessi lögð fram í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands og miðar annars vegar að því að efla verkefni í þágu barna og ungmenna og hins vegar eflingu rannsókna í þágu lífríkis og auðlinda í hafinu umhverfis Ísland.

Barnamenningarsjóður var stofnaður árið 1994 í tilefni af lýðveldisafmælinu og ári fjölskyldunnar og hafði það hlutverk að styrkja verkefni á sviði barnamenningar. Rekstri sjóðsins var hætt árið 2016.

Þátttaka barna og ungmenna í menningu er mikilvægur þáttur þess að lifa í frjálsu samfélagi og menningarlæsi og menningarþátttaka eru veigamikil atriði í uppvexti barna og unglinga. Kynni barna og ungmenna af menningu og listum eykur víðsýni og umburðarlyndi. Þátttaka í menningarstarfi eykur vitund um lýðræði, réttlæti og sögulegt samhengi.

Er það sameiginleg afstaða flutningsmanna tillögunnar að nú þegar við fögnum aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands sé viðeigandi að stofnaður verði nýr og öflugur Barnamenningarsjóður sem styðji við verkefni á sviði lista og menningar sem unnin eru fyrir börn eða með virkri þátttöku barna. Markmiðið er að styrkja börn til virkrar þátttöku í menningarlífi, listsköpun, hönnun og nýsköpun og leggja þannig áherslu á sköpunarkraft barna og ungmenna sem mun verða lykilhæfni í þeim áskorunum sem blasa við okkur í fjórðu iðnbyltingunni.

Við framkvæmd tillögunnar verður haft að leiðarljósi að sjóðnum er ætlað að styrkja verkefni sem eru unnin fyrir börn, með börnum og af börnum. Sömuleiðis gerir tillagan ráð fyrir að lögð verði áhersla á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að eflingu lýðræðislegrar þátttöku barna í samfélaginu og áframhaldandi innleiðingu barnasáttmála. Sérstök áhersla verður lögð á verkefni sem hafi það að markmiði að efla samfélagslega þátttöku barna innflytjenda og flóttafólks og barna sem búa við bágan efnahag.

Ég hef þegar sett af stað vinnu við endurskoðun laga um umboðsmann barna og er þar m.a. ráðgert að festa barnaþing í sessi sem umfjöllunarvettvang um stöðu og hagsmuni barna og ungmenna hér á landi og í alþjóðlegu samhengi.

Gert er ráð fyrir að Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands, annist umsýslu sjóðsins en sú stofnun fer þegar með umsýslu annarra sjóða á sviði menningar, lista og æskulýðsstarfs.

Stjórn sjóðsins verður skipuð af forsætisráðherra samkvæmt tilnefningum frá mennta- og menningarmálaráðherra, frá embætti umboðsmanns barna, einn samkvæmt tillögu frá Bandalagi íslenskra listamanna og einn samkvæmt tillögu ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna en formaður sjóðstjórnar verður skipaður af forsætisráðherra.

Herra forseti. Síðari hluti tillögunnar kveður á um að hafin verði smíði hafrannsóknaskips með sérstöku viðbótarframlagi af fjárlögum næstu þrjú ár. Nýting sjávarfangs lagði grunn að efnahagslegu sjálfstæði Íslendinga, og þar með fullveldinu, og það er stefna stjórnvalda að nýting lifandi auðlinda sjávar sé byggð á bestu fáanlegu þekkingu og ráðgjöf hverju sinni.

Ísland hefur að mörgu leyti verið í fararbroddi þegar kemur að rannsóknum sjávar og hafrannsókna og er litið til okkar sem fyrirmyndar á því sviði. Breytingar hafa orðið í umhverfi sjávar, loftslag er að hlýna, sjávarstraumar að breytast. Vistkerfi hafsins eru að breytast og í hafinu í kringum Ísland og norðan við okkur eru þessar breytingar miklar og hraðar. Norðlægar tegundir hörfa norðar, suðlægar tegundir sækja á. Dæmi um þessar breytingar er að loðna, sem er norðlæg tegund, hefur nú þegar fært sig norðar í hafið. Miklar áskoranir eru fólgnar í vöktun umhverfisþáttar vistkerfa og breytinga í afkomu einstakra stofna. Þá þarf að fylgjast mjög vel með kolefnisbúskap og súrnun sjávar. Aukning plastmengunar í hafi og annarrar mengunar kallar einnig á auknar rannsóknir, auk þess sem þörf er á auknum örverurannsóknum. Nú þegar er kortlagning hafsbotnsins og efstu jarðlaga hans í lögsögu Íslands hafin sem er mjög umfangsmikið verk og kallar á mikið úthald öflugra skipa en áformað er að ljúka því verki innan tíu ára. Nýtt og vel búið hafrannsóknaskip er forsenda þessara rannsókna sem og annarra haf- og fiskirannsókna.

Íslendingar þurfa að ráða yfir góðum og vel búnum rannsóknaskipum sem geta sinnt haf- og umhverfisrannsóknum og þau hafa líka mikilvægu kennsluhlutverki að gegna og mikilvægt er að á nýju hafrannsóknaskipi verði unnt að sinna bæði kennslu og rannsóknum fyrir háskólanemendur en líka kennslu og fræðslu fyrir önnur skólastig.

Nýtt hafrannsóknaskip mun leysa af hólmi eldra rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Bjarna Sæmundsson, sem er að verða 50 ára gamalt og stenst ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru til rannsóknaskipa um aðbúnað og tæki fyrir utan að vera þungt í rekstri.

Með þessari tillögu er horft til þess að Ísland geti áfram verið í forystu í góðri umgengni við náttúruna og í haf- og fiskirannsóknum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt öllu lengra en legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar er taki tillöguna til skoðunar í samráði við hv. atvinnuveganefnd og til síðari umr. og afgreiðslu á hátíðarfundi Alþingis sem fram fer á morgun, 18. júlí, að Lögbergi á Þingvöllum við Öxará.



[13:43]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Íslenska þjóðin stendur nú á merkum tímamótum og það er við hæfi að minnast þess með góðum verkum sem skipta máli fyrir framtíð okkar sem þjóðar. Það er ekkert launungarmál að við í Samfylkingunni hefðum helst af öllu kosið að á þessum merku tímamótum gæti þjóðin fagnað nýrri stjórnarskrá, að drög stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá hefðu verið fullunnin og samþykkt á 100 ára fullveldisafmælinu. En svo er ekki og það eru mér mikil vonbrigði.

Þær gjafir sem formenn stjórnmálaflokkanna á þingi hafa komið sér saman um að gera tillögu um eru að sönnu góðar en þó aðallega bæði tímabærar og hagnýtar. Myndarlegur barnamenningarsjóður með víðtækt hlutverk sem hvetur öll börn til lýðræðisþátttöku er mikilvægur; sjóður sem hvetur til listsköpunar og að börn njóti lista og menningar er einkar viðeigandi gjöf. Börnin eru framtíðin og að þeim eigum við að hlúa vel alla daga en þessi tímamót gefa okkur tilefni til að gera enn betur á því sviði.

Smíði hafrannsóknaskips er einnig mikilvæg og tímabær gjöf. Hún talar til sögu þjóðarinnar og til lífsviðurværis um aldirnar en þó enn frekar til framtíðar með rannsóknum sem þjóðin getur lært af og lagt af mörkum í samfélagi þjóðanna. Loftslagsváin spyr ekki um landamæri. Það stendur okkur Íslendingum nærri að rannsaka áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins. Súrnun og hlýnun sjávar, breytt hegðun fiskstofna, hækkandi yfirborð, mengun og ofveiði eru allt ógnir sem vinna þarf gegn með kröftugum og skýrum hætti. Við eigum að ganga vel um auðlindina okkar og við verðum að leggja okkar af mörkum í því mikilvæga máli. Til þess þarf að efla rannsóknir og skapa góðar aðstæður til rannsókna.

Nýtt hafrannsóknaskip er okkur nauðsyn og það er okkur nauðsyn að gæta þess að börnin okkar njóti jafnt örvunar sem umhyggju og eigi þess öll kost að þroskast, skapa og njóta.



[13:45]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við þá tillögu sem hér hefur verið mælt fyrir af hálfu formanna stjórnmálaflokkanna. Ég held að það sé vel við hæfi að við minnumst 100 ára afmælis fullveldis landsins með verkefnum af þessu tagi. Verkefnin, hvort um sig, eru mikilvæg og verðug en mest er þó um vert að Alþingi minnist þessara tímamóta í sögu þjóðarinnar með táknrænum hætti, undirstriki mikilvægi fullveldisins fyrir okkur öll og standi vörð um þau grundvallargildi sem fullveldi okkar var reist á.

Verkefnin sem um er að ræða hafa hvort með sínum hætti skírskotun til fullveldisins. Annars vegar er það forsenda þess að við getum verið þjóð meðal þjóða að menning okkar blómstri. Hvernig er betur að því staðið en einmitt með því að efla hana hjá yngstu kynslóðunum, styrkja verkefni sem gera það að verkum að ungt fólk fái að blómstra á menningarsviðinu, fái að kynnast menningarlífinu og spreyta sig á því sviði?

Hins vegar er um að ræða mikilvægt verkefni sem tengist rannsóknum á auðlindum sjávar, sem, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi í framsöguræðu sinni, hefur verið forsenda þess að við höfum á þessum 100 árum náð að byggja hér upp velmegunarríki. Nýting auðlinda sjávar hefur verið gríðarlega mikilvægur þáttur í því að við höfum getað staðið sjálf og byggt upp það samfélag sem við búum við.

Hér er um að ræða verðug og mikilvæg verkefni, en eins og ég sagði í upphafi er mest um vert að við minnumst þess hvaða gildi það hefur fyrir okkur að vera fullvalda ríki og hversu mikilvæg tímamót það voru 1918 þegar við undirrituðum sambandslagasáttmálann sem var með sínum hætti gríðarlega mikilvægur áfangi, bæði formlega og efnislega, en um leið upphafið að lokakaflanum í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Ég held að við getum sameinast um þessi verkefni. Ég held að þetta séu verkefni sem við eigum að geta staðið saman um. Og á þessum 100 ára tímamótum er einmitt verðugt og mikilvægt að við finnum okkur verkefni sem við getum staðið saman um en geymum ágreiningsmál og átakamál, sem auðvitað eru næg, til annarra tíma.



[13:48]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Með leyfi forseta:

Rís, Íslands fáni. Aldir fylgja öldum,

og ættir landsins flytja þakkargjörð,

því sjálfstæð þjóð skal sitja hér að völdum,

uns Surtarlogi brennir vora jörð.

Leitum og finnum. Lífið til vor kallar.

Land var oss gefið, útsær draumablár.

Vér biðjum þess, að bygðir vorar allar

blómgist og vaxi — næstu þúsund ár.

Svo orti Davíð Stefánsson í einu af ljóðum sínum, Að Þingvöllum. Ljóð þetta, líkt og mörg ættarljóð, er okkur sem eftir komu þörf áminning um þá baráttu sem haldin var árum og áratugum saman áður en til fullveldisins kom þann 1. desember 1918. Fullveldið kom ekki af sjálfu sér heldur var kafli í langri baráttu.

Ísland er ungt lýðveldi þótt þingið sé hið elsta. Baráttan sem formæður og -feður okkar háðu fyrir fullveldinu og frelsinu ætti að vera í hávegum höfð og minna okkur hin á hve verðmætt það er.

Við sem höfum notið þess að heimsækja Íslandsbyggðir í Vesturheimi og ræða við frændfólk og aðra sjáum vel hve verðmætt fullveldið og lýðveldið er í augum þessa fólks og hve verðmætt landið var fyrir forfeður og -mæður þeirra sem flýja þurftu hörmungaraðstæður á landinu sem það elskaði svo mikið.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson fór fyrir hópi átta þingmanna sem lagði fram tillögu á síðasta þingi um að fullveldisdagurinn 1. desember yrði gerður að lögbundnum frídegi. Því miður náði sú tillaga ekki fram að ganga í það skiptið. Ég tel, hæstv. forseti, að í lok afmælisársins 2018 ætti Alþingi að minnast fullveldisins enn frekar og samþykkja 1. desember sem almennan lögbundinn frídag.

Hæstv. forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu sem flutt er af formönnum allra flokka sem sæti eiga á Alþingi. Tillagan er tvískipt. Í fyrsta lagi er lagt til að stofnaður verði Barnamenningarsjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár. Styrkja á verkefni á sviði barnamenningar, leggja áherslu á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna í samfélaginu og verkefni er stuðli að áframhaldandi innleiðingu barnasáttmálans svo eitthvað sé nefnt.

Þingflokkur Miðflokksins fagnar því að stutt sé vel við menningu barna, þátttöku barna í menningarstarfi og samfélaginu öllu. Menningin sem á sér svo ríkar rætur í sögunni er framtíðinni mikilvæg.

Í öðru lagi er lagt til að hafin verði smíði hafrannsóknaskips með framlagi af fjárlögum næstu þrjú ár. Sjálfstæði hverrar þjóðar byggir á mörgum sjálfstæðum en samverkandi þáttum og einn þeirra er efnahagslegt sjálfstæði. Forskotið sem við höfum í sjávarútvegi byggir m.a. á því að vel rekin og sterk atvinnugreinin hefur getað fjárfest í framtíðinni og þannig verið skrefi á undan samkeppnisaðilum. Slíkt er ekki sjálfsagt og því afar mikilvægt að atvinnugreinin sé áfram öflug og búi við sem stöðugast og öruggast umhverfi. Liður í því er að þekkja sem best lífríki hafsins, hvernig það þróast og breytist, hvernig megi áfram nýta það á sjálfbæran og vandaðan hátt. Til þess þarf öflugt vísindafólk og tæki af bestu gerð.

Þingmenn Miðflokksins fagna því sérstaklega að formenn stjórnmálaflokka leggi til að byggt verði nýtt, öflugt hafrannsóknaskip. Þess tvö mál sem hér er eru sett saman í eina tillögu eru, hvort um sig, mikilvæg og vel til þess fallin að minnast fullveldisins. Þá mun þingflokkur Miðflokksins styðja þá tillögu sem hæstv. forseti mun mæla fyrir síðar í dag.

En gleymum því aldrei að þjóð sem ekki ræður sjálf yfir landi sínu og auðlindum, hvernig það er nýtt og verndað, er ekki frjáls og fullvalda.

Hæstv. forseti. Undanfarin ár hafa sumir talið að fullveldi og sjálfstæði megi skerða með því að undirgangast sífellt meira og meira af lögum og reglum sem aðrir semja og setja. Til eru þeir sem telja að það dugi ekki og vilja ganga bandalögum annarra ríkja á hönd og afsala þannig stórum hluta sjálfsákvörðunarréttar fullvalda og frjáls ríkis til erlendra aðila.

Megi það aldrei verða.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Fögnum fullveldinu. Áfram Ísland.



[13:52]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsóknir er stuðla að sjálfbærni auðlinda hafsins. Tillagan hefur verið undirbúin af fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Tillagan er tvíþætt. Annars vegar snýr hún að börnum og ungmennum og hins vegar er hún til eflingar rannsókna í þágu lífríkis og auðlinda í hafinu umhverfis Ísland.

Það er vel við hæfi þar sem framtíðin er barnanna og auðlindir landsins eru þeirra. Raunar er það sjónarmið margra að lífsgæði þjóðar megi meta út frá því hvað þær gera fyrir börnin í samfélaginu. Íslenskt samfélag getur, eins og flest önnur samfélög, gert betur á því sviði og fyrirliggjandi tillaga er mikilvægt skref í þá átt.

Nú þegar 100 ár eru liðin frá því að samningar um fullt sjálfstæði og frelsi í eigin málum eru liðin verður ekki hjá því komist að líta yfir farinn veg og hugsa til þeirra sem stóðu í baráttunni. Ég tek ofan fyrir fólkinu sem barðist fyrir réttindum okkar. Þau virðast sjálfsögð en þau urðu ekki til nema fyrir elju, vinnusemi og þrautseigju þeirra sem ruddu brautina við erfiðar aðstæður. Á þessari öld hafa ýmsar ógnir steðjað að fullveldinu. Þær hafa varðað fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar, verndun náttúrunnar og þátttöku og ábyrgð í alþjóðlegu samstarfi. Fullveldið er ekki sjálfgefið og við þurfum að hlúa vel að því. Við sem þjóð þurfum að vera fær um að skiptast á skoðunum innbyrðis og sýna færni í samskiptum við aðrar þjóðir, deila heiminum með öðrum.

Lítil kosningaþátttaka ungs fólks er áhyggjuefni því að lykillinn að lýðræði í fullvalda ríkjum eru kosningar. Ég fagna því þessari tillögu sem styður lýðræðislega þátttöku barna í samfélaginu með því að stofnaður verður nýr og öflugur barnamenningarsjóður þar sem sérstök áhersla verður lögð á að styrkja verkefni sem efla sköpunarkraft barna og ungmenna og hæfni þeirra til að vera þátttakendur í þeirri þróun sem á sér stað í aðdraganda hinnar svonefndu fjórðu iðnbyltingar.

Hæstv. forseti. Hinn þáttur tillögunnar er ekki síður mikilvægur þar sem fyrirætlun um smíði nýs hafrannsóknaskips styrkir stöðu okkar sem þjóðar sem horft er til þegar kemur að sjálfbærri nýtingu auðlinda sem byggist á rannsóknum og bestu þekkingu hverju sinni. Sjálfbær nýting auðlinda okkar er í raun forsenda efnahagslegs fullveldis. Því hlýtur það alltaf að vera markmið okkar að skila auðlindum okkar áfram til afkomendanna í betra ástandi en þegar við tókum við þeim.

Árið 1918 var sannarlega ekki líkt árinu 2018 hvað varðar veðurfar. Vissulega hefur gæðum náttúrunnar verið misskipt þetta árið og veður farið misjafnlega með landsmenn, líkt og oft gerist í okkar góða landi. Eftir einmunatíð eru heiðarnar og löndin fyrir austan í mun betra ástandi en sumarið 1918 þegar fólk hraktist í burtu vegna erfiðra aðstæðna. Frostaveturinn 1918 beit fast og gekk nærri fólki sem háði harða lífsbaráttu. Nútímakonan ég get engan veginn sett mig í spor Jóhönnu Maríu Jónsdóttur sem var vinnukona á Grímsstöðum þann vetur. Við þekktumst vel, hún fullorðin en ég barn, en lifðum á misjöfnum tímum og ég er þakklát fyrir grunninn sem lagður var í hennar tíð.

Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir fullum stuðningi við þessa tillögu. Hún er gott sameiginlegt verkefni og innlegg í framtíðina.



[13:56]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Núverandi aðalnámskrá grunnskóla byggist á sex grunnþáttum: læsi, sköpun, jafnrétti, sjálfbærni, heilbrigði og velferð og að lokum lýðræði. Af hverju þessir sex grunnþættir en ekki aðrir? Í formála aðalnámskrár er þessu svarað á einfaldan hátt, með leyfi forseta:

„Miklu skiptir að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Þessum grunnþáttum er m.a. ætlað að bæta úr því. Mennta þarf hinn almenna borgara nægilega vel til þess að hann geti veitt valdhöfum eðlilegt aðhald, hvort sem þeir eru í fjármálalífinu, stjórnmálum, fjölmiðlum eða á öðrum sviðum.“

Einnig segir:

„Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.“

Aðalnámskrá er afurð faglegrar vinnu sem er ætlað að framfylgja vilja Alþingis.

Í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, er markmið grunnskóla skilgreint í 2. gr.:

„Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.“

Í þeirri tillögu sem hér er fjallað um er sérstök áhersla á lýðræði í orðunum:

„Jafnframt verði lögð áhersla á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna í samfélaginu og verkefni er stuðli að áframhaldandi innleiðingu barnasáttmálans …“

Í barnasáttmálanum segir:

„Aðildarríki skulu tryggja barni að sem getur myndað sér eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.“

Það er góð hugmynd að styrkja barnamenningarsjóð til þessara lýðræðiseflandi verkefna en lög um grunnskóla og aðalnámskrá eru ekki einu ástæðurnar fyrir því að það er góð hugmynd að efla lýðræðið.

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt þjóðfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman eigum við og berum ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi, náttúru, sögu, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti og lýðræði að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Með þessa hugsjón að leiðarljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Svo segir í aðfaraorðum frumvarps til nýrra stjórnarskipunarlaga frá árinu 2011. Vonandi leiða þau verkefni, sem fá styrk vegna þessarar tillögu, til öflugra lýðræðis, lýðræðis sem kann á jafnt vægi atkvæða, hlutfallslega skiptingu þingsæta, þjóðaratkvæðagreiðslur; lýðræði sem kann að hlusta á og treysta unga fólkinu fyrir sínu eigin atkvæði. Atkvæði er skoðun sem verður að taka tillit til, óháð aldri þess sem kýs. Með þessari tillögu verður í framtíðinni vonandi einnig tekið réttmætt tillit til atkvæða óháð staðsetningu, hlutfallslegri samsetningu og tilefni.



[14:00]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Við minnumst þess nú að 100 ár eru frá því að sambandslagasáttmálinn var undirritaður í Alþingishúsinu 18. júlí 1918. Með honum varð Ísland fullvalda og sjálfstætt ríki í konungssambandi við Danmörku sem tók að sér um skeið að sinna afmörkuðum málefnum fyrir landsins hönd, einkum á sviði utanríkismála og landhelgisgæslu. Æðsta dómsvald fluttist í landið með stofnun Hæstaréttar 1920, landhelgisgæsla upphófst sama ár með kaupum á varðskipinu Þór af hálfu Björgunarfélags Vestmannaeyja en öll önnur skip sem áður höfðu gætt landhelginnar og sinnt björgunarstörfum voru dönsk.

Þær ákvarðanir sem Alþingi er í þann mund að taka, og ég lýsi fullum stuðningi við, til að minnast hinna merku tímamóta í sögu þjóðarinnar sýnast mjög við hæfi. Vænta má góðs af Barnamenningarsjóði enda eru börnin framtíð þjóðarinnar; af hafrannsóknaskipi enda liggja til grundvallar sjávarútvegi landsmanna lög frá 1948 um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, auk útgáfu bókverka sem fallin eru til að tengja þjóðina betur við menningu sína og tungu.

Herra forseti. Ég óska íslenskri þjóð til hamingju með merkan áfanga í sögu sinni, 100 ára afmæli fullvalda og sjálfstæðs Íslands. Á herðum okkar hvílir sú skylda að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði landsins sem verið hefur þjóðinni aflvaki til margvíslegra dáða. Minnumst forystumanna í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga þar sem hæst ber nafn Jóns Sigurðssonar forseta.



[14:03]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um verkefni í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

Þetta eru góðar og virðingarverðar tillögur á þessum mikilvægu tímamótum og er ánægjulegt að sjá hversu góð samstaða hefur náðst um það sem er vel við hæfi, eins og komið hefur fram í umræðunum, á þessum tímamótum; að Alþingi sameinist um verkefni á borð við þau sem við ræðum hér.

Þingsályktunartillagan felur m.a. í sér að komið verði á fót öflugum barnamenningarsjóði sem hafi það hlutverk að fjármagna og styrkja verkefni á sviði barnamenningar. Jafnframt verði lögð sérstök áhersla á verkefni er stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna í samfélaginu. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni og við sjáum það, sem er áhyggjuefni, að kosningaþátttaka ungs fólks hefur farið minnkandi í samfélaginu. Þegar við minnumst þessa mikilvægasta áfanga í sjálfstæðisbaráttu landsins verðum við að hafa í huga hvernig við getum eflt þátttöku barna og ungs fólks í lýðræðislegu samfélagi. Hornsteinn sjálfstæðis okkar og fullveldis er hin lýðræðislega stjórnskipan og sú stjórnskipan nær ekki tilgangi sínum að fullu nema með virkri og öflugri þátttöku allra þjóðfélagshópa.

Sem fyrr segir sýna rannsóknir að kosningaþátttaka ungs fólks hefur farið minnkandi. Það er umhugsunarverð og varhugaverð þróun. Það er mikilvægt að ungt fólk taki virkan þátt í mótun íslensks samfélags með þátttöku í stjórnmálum og með því að nýta sér kosningarrétt sinn. En það er ekki síður mikilvægt að ungt fólk upplifi að á sjónarmið þess sé hlustað, að því sé treyst til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi, að orð þess hafi vigt og að við treystum því m.a. til aukinnar þátttöku á sviði sveitarstjórna eins og Alþingi ræddi á liðnum vetri; mikilvægt mál en náði því miður ekki fram að ganga.

Við þingmenn Viðreisnar fögnum því sérstaklega þessu framtaki og vonum að stofnun barnamenningarsjóðs verði einmitt til að ná fram tilgangi sínum, að efla enn frekar lýðræðislega þátttöku ungs fólks.

Þá er það fagnaðarefni að hér sé samstaða um byggingu nýs hafrannsóknaskips. Fáar þjóðir ef nokkrar eiga jafn mikið undir sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins. Sjávarútvegur er og hefur verið undirstaða að efnahagslegum framgangi íslenskrar þjóðar á öllum fullveldistímanum. Á þessum tímamótum stöndum við einmitt frammi fyrir nýjum og varhugaverðum áskorunum í þeim miklu breytingum sem fylgja loftslagsbreytingum í heiminum og þeim áhrifum sem þær hafa á sjávarstrauma og lífríki hafsins. Því er mikilvægt að þingið sameinist um að stórefla hafrannsóknir til að bregðast við þeirri vá.

Að síðustu þætti mér gott ef þingið kæmi sér saman um annað mikilvægt verkefni á komandi vetri sem er einmitt að efla vegsemd og virðingu þingsins sjálfs. Það er áhyggjuefni að á þessum tímamótum búum við enn við þá stöðu að traust almennings til Alþingis er í mikilli lægð. Við þurfum öll, allur þingheimur, að taka höndum saman um það hvernig efla má og endurreisa traust til þingsins og hvernig við sjálf getum með störfum okkar stuðlað að slíku trausti.

Við fögnum þeim tímamótum sem felast í 100 ára afmæli fullveldisins. Við þingmenn Viðreisnar fögnum sérstaklega og styðjum þær tillögur sem hér eru lagðar fram.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.