149. löggjafarþing — 6. fundur
 18. september 2018.
störf þingsins.

[13:33]
Heiða Guðný Ásgeirsdóttir (Vg):

Herra forseti. Af nógu er að taka þegar kemur að bættum búsetuskilyrðum á landsbyggðinni en í nútímanum er það svo að góðar nettengingar, liprar samgöngur og tryggt afhendingaröryggi rafmagns eru grunnskilyrði til þess að gera svæði aðlaðandi til búsetu. Afhendingaröryggi rafmagns er mjög breytilegt milli landsvæða og orkufyrirtæki, bæði í ríkis- og einkaeigu, nýta sér það óspart sem þrýstiaðferð, bæði á einstaklinga og sveitarstjórnir.

Íbúum landsvæða þar sem afhendingaröryggi er lélegt er sagt að til að fá viðunandi rafmagn þurfi að virkja innan svæðanna, burt séð frá því hvort um er að ræða landsvæði sem eru ósnortin af slíkum mannvirkjum eður ei. Sveitarfélögin eiga sem sagt eftir þessu að selja náttúru sína fyrir aðgengi að rafmagni, náttúru sem í mörgum tilfellum laðar að ferðamenn sem aftur skila svo peningum til ríkisins.

Þessi nálgun er í besta falli vafasöm. Ég minni á það, herra forseti, að við erum ein þjóð í einu landi og það er stjórnvalda að tryggja öllum landsmönnum sömu grunnþjónustu. Það er stjórnvaldsákvörðun hvað gert er við það rafmagn sem framleitt er í landinu. Í dag er framleitt nóg rafmagn til að knýja flórsköfur og þvottavélar í Skaftárhreppi og rúningsklippur á Vestfjörðum. Vandamálið er hversu illa gengur að flytja rafmagnið og tryggja að það sé til staðar þegar á því þarf að halda og því vill drepast á mjaltavélum og hitakútum fyrir 60 hótelsturtur þegar verst gegnir, en þegar að þessu kemur benda ríkisfyrirtækin hvert á annað.

Ég var á fundi með stjórn og talsmönnum Rariks í lok ágúst og í máli þeirra kom fram að það væri sveitarstjórnarfólks að þrýsta á pólitíkina um að arðgreiðslur Rariks færu í uppbyggingu og endurnýjun dreifikerfisins. Einnig væri þeirra að þrýsta á um auknar arðgreiðslur frá Landsvirkjun og þrýsta á pólitíkina að herða á Landsneti við uppbyggingu dreifikerfis.

Af hverju þarf að vera að þrýsta á um þetta einhvers staðar baka til, þrjú fyrirtæki að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins, öll með svipuð verkefni, sama grunnmarkmið? Enn og aftur, við erum ein þjóð í einu landi. Ég hvet þingheim til að íhuga alvarlega það hlutverk sitt að tryggja öllum íbúum þessa lands sambærilega grunnþjónustu.

Það þarf að hlífa einstaklingum við því að finnast skylda sín að láta land sitt í skiptum fyrir sömu lífsskilyrði og þykja sjálfsögð annars staðar í sama landi og að láta sveitarstjórnarfólk taka ákvarðanir um framkvæmdaleyfi virkjana út frá breiðara sjónarhorni en dreifikerfi rafmagns. Þessi brýna þörf úrbóta þar verður óeðlilega plássfrek í rökum fyrir ákvarðanatöku á kostnað annarra þátta. Eins þarf að hlífa sveitarstjórnum við þeirri niðurlægingu að þurfa (Forseti hringir.) við hvert gefið tækifæri að stinga augun úr nágrannasveitarfélögum sínum við að reyna að sýna fram á nauðsyn þess að fá forgang að þjónustu sem ætti í nútímanum ekki að þurfa að berjast um.



[13:35]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið afstaða Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um árabil að þegar kemur að almannaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menntamálum og fleiru eigi ekki að vera um það að ræða að ríkið geri samninga sem tryggja þeim einstaklingum sem standa að baki fyrirtækinu eða fyrirtækjunum eða fyrirtækjasamsteypum arð úr ríkissjóði. Það þýðir ekki að Vinstri græn séu á móti einkarekstri í heilbrigðisþjónustu, séu á móti einkarekstri í menntakerfinu. Síður en svo. Við viljum hins vegar að það sé alveg á hreinu að ekki sé verið að nota takmarkað almannafé til þess að greiða arð út úr fyrirtækjum sem veita slíka þjónustu.

Hv. þingmenn hafa örugglega einhvern tímann heyrt hugtakið „non profit“ í þessu sambandi og mjög stór hluti þeirra heilbrigðisþjónustufyrirtækja sem eru á Íslandi eru í raun slík fyrirtæki. Vinstri græn telja að ef menn vilja standa í heilbrigðisþjónustu á Íslandi verði þeir að átta sig á því að það er ákveðinn markaðsbrestur í því að selja heilbrigðisþjónustu vegna þess að staða kaupanda og seljanda er alltaf mjög ójöfn. Kaupandinn er yfirleitt ekki í neinni stöðu til að segja að hann þurfi eða þurfi ekki einhverja tiltekna þjónustu vegna þess að sá sem veitir þjónustuna er alltaf í yfirburðastöðu gagnvart kaupandanum.

Þess vegna er miklu nær að hugsa málin þannig að verði einhvers konar ábati eða ávinningur af slíkum fyrirtækjum sé hann notaður inni í fyrirtækinu til að bæta þjónustuna, bæta hag fyrirtækisins, bæta laun starfsmanna og fjölga þeim sem fá þjónustu.

Vinstri græn hafa nú flutt frumvarp á Alþingi í þá veru þar sem er gert ráð fyrir að ráðherra fái heimild til að setja það sem skilyrði í samninga um heilbrigðisþjónustu að ekki sé gerð arðsemiskrafa í fyrirtækjunum. (Forseti hringir.) Vinstri græn munu halda þessu máli mjög á lofti í vetur.



[13:37]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég var að koma úr minni fyrstu utanlandsferð á vegum þingsins, af velferðarnefndarfundi Norðurlandaráðs í Nuuk í Grænlandi. Ég spyr mig eftir þessa ferð hverju hún hafi skilað og í hvaða tilgangi hún hafi verið farin. Ég dáist að þeim Grænlendingum sem búa þar á þessum kletti sem er með ís ofan á og með ótrúlegri seiglu hafa lifað á þeim stað. En ég verð að gera athugasemd við það að ég gisti á dýrasta hóteli sem ég hef nokkurn tímann gist á á ævinni. Það er meira en tvöfalt dýrara en nokkurt lúxushótel sem ég hef komist inn á. Var það samt ekki dýrt í þeim samanburði. Ég spyr mig hvers vegna í ósköpunum var verið að senda tíu manns, sjö þingmenn og aðstoðarfólk, á þessa ráðstefnu sem var eingöngu í þeim tilgangi að samþykkja einhverjar áður gerðar ályktanir eða reyna að gera einhverjar orðalagsbreytingar.

Ég segi bara: Guði sé lof, þetta voru á milli 20 og 30 álit sem var farið í gegnum en á bak við þessi álit voru um 250 blaðsíður. Ég spyr: Til hvers í ósköpunum erum við að þessu? Ef ég er að borga þarna meira en helmingi dýrara hótel en þyrfti að vera og við erum að borga helmingi meira fyrir hátíðina á Þingvöllum en þyrfti spyr ég líka: Er þetta gegnumgangandi á þinginu? Þurfum við ekki að fara að endurskoða hlutina? Á sama tíma er hver fréttatíminn af öðrum þar sem kemur fram að börn fái ekki þjónustu vegna þess að laga þarf í þeim góminn, það þarf að laga í þeim tennurnar. Á sama tíma erum við að setja inn í fjárlög hungurlús, rosalega ánægð, 1% hækkun á persónuafslætti aukalega, 500 kall. Það sýnir sig að 1% lækkun á 37% þrepaskatti hefði skilað 14 milljörðum til að nota í persónuafsláttinn og það hefði skilað þeim sem lægst eru settir 15.000 kr. á mánuði en ekki 500 kr.

Ég spyr og vil bara fá upplýsingar um það hvort við eigum að fara að taka það saman hvort allar þessar utanlandsferðir og kostnaðurinn í kringum þær séu nauðsynlegar. (Forseti hringir.) Við eigum að kafa ofan í þetta. Að lokum vil ég segja: Þetta var rándýr ferð en það sem er undarlegast við hana og verður sennilega mest í minningunni haft er að hún var í boði Alþingis og það eina sem stendur sennilega upp úr er rándýr hálsbólga og kvef.



[13:40]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Undir liðnum um störf þingsins ætla ég að ræða störf þingsins. Ég ætla að byrja á því sem m.a. hefur verið til umræðu í forsætisnefnd, og er nú til umræðu í fjölmiðlum, um samantekinn kostnað við þingfundinn á Þingvöllum. Þar kemur fram, eins og birt hefur verið opinberlega á vefnum, að pallar og gangvegir, efni og vinna, hafi kostað 40 milljarða. (Gripið fram í: Milljarða?) Nei, ekki milljarðar, þá fyrst væri þetta algjört fíaskó, þá fyrst. [Hlátur í þingsal.] Þá væri það eitthvað til að hrópa húrra fyrir, að menn hefðu getað eytt peningunum svona vel. Nei. Lýsingin var síðan 22 milljónir, fór eitthvað umfram. Það urðu umræður um þetta í nefndinni og sjálfsagt að birta opinberlega þær tölur.

Við Píratar óskuðum eftir því, og ég hef sent þann ítrekunarpóst á þingforseta, og vísa í ósk mína undir dagskrárliðnum, að fá samninga Alþingis í tengslum við þennan Þingvallafund við þá aðila sem framkvæmdu þessa hluti. Þá getum við kannski farið að glöggva okkur á því hvers vegna þetta fór svona langt umfram. Var það ekki skýrt í samningunum hvað ætti að gera o.s.frv.?

Svo eru það þessir pallar upp á 40 milljónir — það kom fram í umræðum í nefndinni að þeir eru víst ekki neitt sem við eigum og getum notað aftur. Þó er hægt að nota þá aftur en það er þá einhver aðili sem getur leigt öðrum þá.

Fáum þetta allt upp á borðið. Kannski er þetta allt saman í himnalagi og hið besta mál nema náttúrlega það að misreikna sig svona svakalega í kostnaði, það þarf alla vega að laga eitthvað þar.

Ég óskaði eftir lögfræðiáliti á sumarfundi forsætisnefndar í ágúst varðandi annað atriði sem tengist Þingvallafundinum. Ég óskaði eftir lögfræðiáliti um það hvort aðrir en þingmenn, kjörnir af þjóðinni, forsetinn og íslenskir ráðherrar mættu ávarpa Alþingi. Nefndasvið Alþingis hafði sagt hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni að breyta þyrfti stjórnarskránni til að hann gæti fengið mál sitt samþykkt sem var þess efnis að almenningur gæti komið hingað inn öðru hvoru, slembivalinn, og ávarpað okkur. Málið var hugsað til að fá venjulegt fólk hingað inn til að segja okkur að við þurfum kannski að horfa út fyrir rammann. Það er hætta á því í öllum skipulagsheildum að fólk festist inni í sinni kúlu. Hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni var sagt að breyta þyrfti stjórnarskránni en svo kemur á daginn að það þarf ekki að breyta henni. Í lögfræðiáliti frá skrifstofu Alþingis, sem forseti hefur nú lagt fram og birt opinberlega, segir að það megi.

Ef hv. þm. Björn Leví Gunnarsson leggur svona mál fram er hægt, ef Alþingi ákveður það, að hleypa almenningi hingað inn að ræða málin. Það mætti þá ekki vera partur af þingstörfunum (Forseti hringir.) en það að ávarpa þingfund er heimilt samkvæmt stjórnarskránni.



[13:43]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef framið stjórnmálalega synd, ég hef skipt um skoðun. Reglulega eru hér til umræðu mál sem varða verðtryggingu. Verðtrygging húsnæðislána er hitamál víða í samfélaginu. Ég hef sjálfur haldið hér fleiri en tvær ræður um að þótt hún sé ekki endilega jákvætt fyrirbæri sé hún ill nauðsyn, eina leiðin til að gera fjárhagslegar langtímaskuldbindingar mögulegar meðfram íslenskri krónu án himinhárra vaxta. Ég hef enn fremur nefnt að neytendur geti valið lán sem henti sér og sínum aðstæðum. Tvö andstæð gildi stangast þar á, þ.e. valfrelsi neytenda og neytendavernd. Hvort tveggja aðhyllist ég, en eins og ég hef sagt áður stangast þau stundum á.

Þótt ég sé ekki í grundvallaratriðum á móti allri verðtryggingu og telji hana t.d. eðlilega við langtímasparnað hef ég komist að þeirri niðurstöðu, eftir ótal samtöl og spekúleringar, ekki síst við fólk sem er að taka húsnæðislán, að það sé óæskilegt að húsnæðislán séu verðtryggð, sérstaklega svokölluð verðtryggð jafngreiðslulán, sem er yfirþyrmandi vinsælasta húsnæðislánaformið á Íslandi. Ég nefni það í leiðinni að ég tel þetta ekki vera jafngreiðslulán en meira um það síðar.

Neytendavernd þeirra lána er að mínu mati fullkomlega ómöguleg. Þau eru einfaldlega of flókin til þess að hægt sé að ætlast til þess af almennum neytendum að þeir átti sig á því hvað þeir séu að gera til framtíðar þegar þeir taka þessi lán. Þau eru ekki bara flókin, þau eru líka stórfurðuleg. Og hætturnar sem neytandinn á að vara sig á eru of „esoterískar“ til að hægt sé að gera þá kröfu á hendur almenns neytanda.

Enn fremur hef ég sannfærst meira um ákveðin neikvæð kerfisleg áhrif verðtryggðra húsnæðislána á hagkerfið í heild sinni algerlega óháð sjónarmiðum neytandans.

Þó vil ég halda til haga að ég tel rökin sem ég hef fært fyrir nauðsyn þess að bjóða upp á verðtryggð húsnæðislán meðfram íslenskri krónu enn vera góð rök. Mótrökin hafa hins vegar styrkst í mínum huga og er því hinu fyrra jafnvægi sannfæringar minnar raskað.

Eins og heyrist verður þessi ræða ekki mjög góð á þessum stutta tíma, en ég hlakka til (Forseti hringir.) tækifæra til að ræða málið nánar við umfjöllun hinna ýmsu þingmála sem fjalla um verðtryggingu á þessu þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:45]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vona að það hafi ekki farið fram hjá neinum í þessum sal að nú stendur samgönguvika yfir. Frá árinu 2002 hafa borgir og bæir á Íslandi tekið þátt í því samevrópska verkefni á þessum tíma árs en markmið verkefnisins er að ýta undir og auka umræðu um sjálfbærar samgöngur.

Við höfum í þingsal verið að ræða fjárlagafrumvarpið og mörg okkar bíða spennt eftir umræðu um nýja samgönguáætlun. Nýverið kynnti umhverfisráðherra svo áætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum en þar er m.a. fjallað um mikilvægi þess að styrkja almenningssamgöngur, styðja við hjólreiðar og auðvelda fólki að lifa bíllausum lífsstíl. Ég tek heils hugar undir þau markmið, ekki vegna þess að ég vilji skikka alla í strætó eða út að hjóla. Mörg okkar og líklega flest munum við á ákveðnum tíma vera háð okkar einkabíl því að hann er bæði þægilegur og góður samgöngumáti. Nei, ég vil auka fjölbreytnina og virða valfrelsi einstaklinga þegar kemur að samgöngum.

En það er auðvitað þannig, sérstaklega hér á þéttbýlasta svæði landsins, að við getum ekki haldið áfram óbreyttum lífsstíl. Það sér hvert mannsbarn. Það er mikilvægt að bæta almenningssamgöngur og virka samgöngumáta þannig að fleiri sjái kosti í því að velja þá leið. Erum við þá ekki á villigötum þegar við hér í þessum sal ræðum almenningssamgöngur og umræðan er fyrst og fremst drifin áfram af þörfum landsbyggðarinnar? Það er ýmislegt sem má gera miklu betur úti á landi og þá vil ég fyrst nefna orkuöryggi og almennar vegasamgöngur, en ef við ætlum að ná árangri, þegar kemur að almenningssamgöngum og loftslagsmálum, þarf áhersla okkar að vera hér á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í.) Þess vegna þurfum við að tryggja fjármögnun, bæði borgarlínu og nauðsynlegra breytinga á stofnvegakerfinu, til að tryggja öryggi (Gripið fram í.) og greiða fyrir umferð hér á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:48]
Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég kýs að gera að umtalsefni mínu í dag, áratug eftir efnahagshrunið, stöðu ungs fólks á Íslandi, fólks sem nú er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið og hefur jafnvel hug á að stofna fjölskyldu. Þetta er kynslóðin sem var fyrir tíu árum að stíga sín fyrstu skref inn í fullorðinsárin og hefur ekki fengið leiðréttingu, fólkið sem á erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Þau sem ekki ná að safna sér fyrir innborgun á íbúð til kaups festast á leigumarkaði þar sem lítið öryggi ríkir og stór hluti launa fer í að greiða fyrir það öryggi sem felst í fastri búsetu sem ætti að teljast sjálfsagt. Ef einstaklingur nær að safna sér fyrir íbúð eða fá lán frá velviljuðum ættingja getur viðkomandi fengið verðtryggt eða óverðtryggt lán hjá banka, en hvort er hentugra til lengri tíma er óljóst.

Komi ekkert upp á, líkt og þungun eða andlegt áfall, hjá einstaklingum sem ákveða að taka lán hjá LÍN til að mennta sig er óljóst hversu mikið lánið mun hækka á þeim áratugum sem það mun taka einstaklinginn að greiða það niður. Atvinnuhorfur sérfræðimenntaðra einstaklinga eru einnig mjög óljósar þar sem sú stefna virðist hafa verið tekin að atvinnuuppbygging feli í sér að byggja verksmiðjur frekar en að stuðla að nýsköpun og tækniþróun.

Verði þessi kynslóð alvarlega veik er óljóst hvort heilbrigðiskerfið muni greina sjúkdóminn nægilega snemma. Gerist það er einnig óljóst hvort heilbrigðiskerfið verði í stakk búið til að aðstoða einstaklinginn á fullnægjandi hátt. Samt verðum við hissa þegar við heyrum að ungt fólk kýs að búa erlendis. Við erum hissa þegar við heyrum að fæðingartölur á Íslandi hafi fallið gríðarlega mikið síðustu ár. En af hverju ættum við að vera hissa? Hver er hvatinn fyrir ungt fólk að ákveða að koma sér upp heimili, starfa og ala upp börnin sín í sínu eigin heimalandi þegar framtíð þess og barna þess er jafn ótraust og raun ber vitni?

Herra forseti. Ungt fólk á sér fáa málsvara á þessu þingi og er það miður. Við þurfum á unga fólkinu að halda ef Ísland vill viðhalda góðu (Forseti hringir.) samfélagi og sjálfbæru til framtíðar. Lærum af mistökum annarra þjóða sem eru nú að missa stóra hópa ungs fólks frá sér vegna þess að því er ekki boðið upp á mannsæmandi kjör. Gerumst öll málsvarar ungs fólks á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:50]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég hef gert það að vana mínum að koma hér í upphafi þings að hausti, áður en við byrjum að ræða fjárlögin til hlítar, að tala um mikilvægi umferðaröryggis og kostnað samfélagsins af umferðarslysum.

Þess vegna vildi ég minna á skýrslu sem Samgöngustofa gaf út fyrir ekki svo löngu þar sem komið var inn á að slys í umferðinni hafi kostað samfélagið um 500 milljarða á tíu ára tímabili. Ég held að við ættum að hafa þetta í huga núna þegar við förum að ræða fjárlögin og út af þessu hef ég komið hingað reglulega upp til að minna á það að samgöngumálin í heild sinni eru eitt stærsta velferðarmálið okkar, velferðarmál númer eitt, sem hjálpar okkur svo mikið við að byggja upp velferðarsamfélagið.

Þetta kom líka fram í svari heilbrigðisráðherra til mín þegar ég spurði um kostnað ríkisins af umferðarslysum. Þá kom nákvæmlega sama tala út og er til hér í þingskjölum. Þetta kemur líka svo glöggt í ljós eins og hv. þm. Heiða Guðný Ásgeirsdóttir kom inn á áðan hvað innviðirnir skipta miklu máli. Þeir skipta gríðarlega miklu máli og hvað það er sem hefur tryggt velgengni okkar í hagkerfinu og þannig að við getum staðið undir þeirri velferð sem hefur verið undanfarið. Það er samgöngumannvirki, samgöngumannvirkið Keflavíkurflugvöllur. Ef við hefðum ekki haft það samgöngumannvirki hvernig væri staðan á Íslandi þá? Hvernig væri hún þá?

Við þurfum að setja fókusinn á að byggja upp innviðina, bæði til að draga úr kostnaði samfélagsins og líka til að auka styrk samfélagsins til að byggja hér upp velferðarsamfélag. Þetta skulum við hafa á hreinu núna þegar við ræðum fjárlögin.



[13:52]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Stundum er leikurinn ójafn að óþörfu. Við höfum séð ríkisfyrirtæki og ríkisstofnanir hasla sér völl á nýjum sviðum í samkeppni við einkaaðila. Við verðum vitni að því að ríkisfyrirtæki fara ekki að lögum eins og ljóst er með Ríkisútvarpið sem fer ekki að lögum um Ríkisútvarpið, 4. gr., þar sem kemur skýrlega fram að Ríkisútvarpinu beri að stofna dótturfélög til að halda utan um samkeppnisreksturinn og skilja alfarið á milli almannaþjónustunnar og samkeppnisrekstrar. Í sumar þurftu sjálfstæðir fjölmiðlar að lifa við það að Ríkisútvarpið þurrkaði upp auglýsingamarkaðinn. Við getum ekki metið það tjón sem einkareknir fjölmiðlar urðu fyrir. Og við sjáum að Ríkisútvarpið núna er komið í samkeppni við einkaaðila við að leigja tækjabúnað og aðstöðu til kvikmynda- og sjónvarpsgerðar.

Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið á þetta hins vegar að gerast í formi dótturfélags. Það átti að vera búið að gerast 1. janúar sl. Núna þegar september er svo gott sem hálfnaður bólar ekkert á því að Ríkisútvarpið taki ákvörðun um að fara að lögum. Svo getum við velt því upp hér hvernig við ætlum að styðja við og reyna að styrkja starfsemi frjálsra fjölmiðla, sjálfstæðra fjölmiðla. Við munum örugglega taka til umræðu tillögur menntamálaráðherra í þeim efnum. En er ekki best að byrja þá á því, herra forseti, (Forseti hringir.) að láta ríkisstofnanir fara almennt að lögum?



[13:55]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er öruggt að þær ákvarðanir sem eru teknar í þessum sal hafa mikil áhrif í landinu og hér er margt gott gert. Hins vegar er mikil synd, ár eftir ár og áratug eftir áratug, að horfa upp á andúðina, sem oft og tíðum er til staðar hjá meiri hluta þingmanna í þessum sal, á frjálsri samkeppni í landinu. Ég bendi á allar þær samkeppnishindranir sem reistar hafa verið upp af Alþingi í nafni verndar af einhverju tagi, í nafni þess að nauðsynlegt sé að skjóta skjólshúsi yfir þessa atvinnugreinina eða hina. Allt er það á endanum á kostnað neytenda.

Nýverið sáum við ákvörðun verðlagsnefndar aftan úr forneskju, verðlagsnefndar búvara, um hækkun á mjólk og smjöri, eða á mjólkurafurðum almennt, vegna hækkun upp á 3,5% sem er tæplega 3 milljarða kr. reikningur á heimilin í landinu, bara í verðtryggingaráhrifum á húsnæðislán þessara sömu heimila.

Ég furða mig oft á því af hverju í ósköpunum þessi mikla vantrú er á frjálsri samkeppni í þessum sal með þeim tilkostnaði sem heimilin í landinu verða fyrir. Ég held að með allgóðum líkum megi segja að þær vörur og sú þjónusta sem háð er verulegum samkeppnishömlum, sem settar hafa verið hér í þessum sal, séu um fimmtungur af neyslu landsmanna hið minnsta, með tilheyrandi áhrifum til hærra verðlags. Við sjáum það mjög glöggt, þegar við berum saman verðþróun á þessum vörum og öðrum sem eru háðar frjálsri samkeppni, að það munar mjög miklu á því hve mjög þessar vörur hækka umfram þær vörur sem eru háðar frjálsri samkeppni.

Þetta munar líka heimilin sjálfsagt allmörgum milljörðum á ári hverju í verðtryggingu á húsnæðislánum. (Forseti hringir.) Ég held að það sé orðið tímabært að við tökum höndum saman, hættum að niðurgreiða afleiðingar samkeppnisskortsins og einbeitum okkur að því að ryðja þessum sömu samkeppnishindrunum úr vegi.



[13:57]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Skólar landsins hafa nú tekið til starfa á ný. Á sama tíma er það óumdeilt að íslenskt menntakerfi er í lægð. Það gerðist ekki á einni nóttu að fjaraði undan menntamálum á Íslandi heldur hafa þau verið vanrækt af stjórnvöldum árum saman og rangar ákvarðanir gert stöðuna enn verri. Öðrum fremur ber Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð á því hvernig komið er fyrir okkur í þessum mikilvæga málaflokki. Síðustu 27 árin hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið 22 ár í menntamálaráðuneytinu. Stytting framhaldsskólans úr fjórum árum í þrjú er eitt af síðustu afrekum Sjálfstæðismanna í menntamálum. Sífellt fleirum er ljóst hvers mikið ólán þessi ákvörðun var fyrir íslenskt menntakerfi. Hún fól í sér gengisfellingu stúdentsprófsins. Inntökupróf í háskóla eru orðin mun algengari vegna þess að stúdentsprófið er ekki lengur nein trygging fyrir undirbúningi fyrir háskólanám.

Áreiðanlegar kannanir á borð við PISA hafa sýnt að stór hluti þeirra sem ljúka grunnskóla á Íslandi getur ekki lesið sér til gagns. Þrátt fyrir það fara flestir þeirra í framhaldsskóla sem síðan er búið að stytta um eitt ár.

Stytting framhaldsskólans hefur aukið álag á nemendur, valdið meiri streitu, minnkandi námsánægju og vaxandi andlegri vanlíðan. Auk þess hefur hún dregið úr íþróttaiðkun og tómstundum nemenda. Styttingin kom verulega niður á félagslífi framhaldsskólanema en félagslífið hefur ávallt verið mikilvægur þáttur menntaskólaáranna og mikilvægt tímabil félagsþroska.

Þessi vanhugsaða ákvörðun hefur ofan á allt þetta valdið því að fleiri nemendur hafa flosnað upp úr námi.

Herra forseti. Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að vinda ofan af þessum slæmu mistökum Sjálfstæðismanna í menntamálum og endurreisa fjögurra ára framhaldsskólanám.



[14:00]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar að nefna tvær framkvæmdir. Önnur þeirra fólst í því að endurbæta bragga, náðhús og skála hér í borgarlandinu. Hin framkvæmdin fólst í því að halda fund í nágrenni höfuðborgarinnar.

Áætlaður kostnaður endurbóta á bragganum í landi borgarinnar var 158 milljónir en þegar upp var staðið kostaði bragginn 415 milljónir. Fundurinn í nágrenni höfuðborgarinnar átti að kosta 45 milljónir en þegar upp var staðið kostaði hann 87 milljónir. Í tilfelli braggans mátti margfalda upphaflega kostnaðaráætlun með rúmlega 2,6 og þegar fundurinn átti í hlut mátti margfalda upphaflega áætlun með 1,93.

Mönnum er nokkur vorkunn þegar ráðist er í stórframkvæmdir, boruð eru göng, lagðir vegir eða byggðar stórar brýr, þó að ekki sé hægt að sjá fyrir alla hluti. Það er minni vorkunn þegar ráðist er í að laga bragga, jafnvel þótt hann kunni að vera fúnari en áætlanir gerðu ráð fyrir, hvað þá að halda fund jafnvel þótt hátíðlegur sé og á okkar merkasta stað í landinu.

Hér er eitthvað verulega mikið að og ég held að við verðum að vinda bráðan bug að því að lagfæra þetta. Sem betur fer hafa nú verið lagðar fram tillögur, samþykktar hér af öllum þingheimi, um að bæta verklag við opinberar framkvæmdir (Forseti hringir.) og nú er ekkert annað en að drífa í því að koma þeim til framkvæmda.



[14:02]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Þegar kennarinn kemst í ræðustól á Alþingi nýtir hann að sjálfsögðu tækifærið til að ræða menntun og stöðu barna og unglinga. Þegar við ræðum um menntun er tími og gagnrýnin hugsun lykilatriði, tími til að leyfa breytingum að eiga sér stað og gagnrýnin hugsun til að gera mistök.

Í umræðunni verðum við að forðast að fara pólanna á milli. Það eru til aðrir valkostir en að banna símanotkun yfir í algert frelsi barna og ungmenna með símann. Hér í þessum ræðustól höfum við heyrt því fleygt að drengir geti ekki lesið sér til gagns sem er auðvitað rakalaus vitleysa. Svona sveiflast einmitt umræðan pólanna á milli og veldur því að við náum ekki að þroskast.

En breytingar munu ekki eiga sér stað ef við höldum okkur við sömu gömlu aðferðirnar og óbreytta afstöðu til menntunar, þ.e. að 20–25 börn í lítilli kennslustofu með einum fullorðnum kennara séu í 40 mínútur í senn að læra afmarkað námsefni sem börnin hafa ekkert um að segja. Hvernig á hver og einn að njóta menntunar við hæfi þegar við notum viðmiðunarstundaskrá sem mælir mínútur í hverri námsgrein?

Leiðin til breytinga í samfélaginu er í gegnum skólakerfið, að kenna ungu fólki gagnrýna hugsun í stað þess að leggja áherslu á mælanlegan námsárangur.

Í vikunni þreyta allir nemendur í 7. bekk samræmd könnunarpróf. Það er í raun óskynsamlegt að horfa um of á mælanlegan námsárangur hvers nemanda. Það er réttur hvers barns að njóta menntunar, við erum öll sammála um það sem sitjum hér inni enda er kveðið á um það í lögum. Hins vegar er engin vissa fyrir því að þessum rétti sé fullnægt. Við gætum bætt við lögin einhverju á þá leið að hvert barn eigi rétt á að njóta þeirrar menntunar sem það hefur gáfur til, hljómar vel og gerir kröfur á skólakerfið og samfélagið að veita í kerfið aukna fjármuni, veita því meiri athygli og umræðu meðal fólksins. Það gerir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra líka með sóma.

Ég vil af þessu tilefni engu að síður segja að íslenskt menntakerfi er alltaf í sókn. Við þingmann Miðflokksins sem fellur í þá pólagryfju að kastast til og frá til að henda hér fram einhverjum fullyrðingum vil ég segja að hann þarf að kynna sér málið betur.



[14:04]
Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Herra forseti. Nú á laugardaginn verður Lýðháskólinn á Flateyri settur í fyrsta sinn. 30 nemendur eru skráðir til náms og skólinn er fullsetinn. Lýðháskólinn á Flateyri er nánast fullfjármagnaður í ár með frjálsum framlögum einstaklinga, stofnana og fyrirtækja, en það þarf um 40 millj. kr. á ári til þess að reka skólann. Mikil óvissa er um fjármögnun lýðháskólans á næsta ári og til framtíðar. Fjárlagafrumvarpið var lagt fram í síðustu viku og ekki verður séð að gert sé ráð fyrir krónu í lýðháskólann, sem er miður. Ég vona svo innilega að það breytist í meðförum þingsins. Ég treysti á að fjárlaganefnd taki á þessu máli.

Svo við setjum hlutina í samhengi kostar jafn mikið að reka Lýðháskólann á Flateyri í heilt ár og nemur framúrkeyrslu vegna hátíðarfundar Alþingis í sumar, 40 milljónir. Þetta verkefni er að fara að breyta Flateyri og er liður í því að finna nýja undirstöðu fyrir byggðina sem ekki er vanþörf á eftir að stoðunum var kippt undan byggðinni árið 2007 þegar 3.000 tonna kvóti var seldur í burtu frá þorpinu. Verkefni af þessu tagi eiga eftir að breyta þorpum eins og Flateyri til lengri tíma. Þetta á eftir að hafa miklu meiri áhrif á samfélagið en t.d. aðgerðir eins og byggðakvóti sem er í raun bara til þess að framlengja núverandi ástand.

Þetta verkefni er ekki einungis mikilvægt fyrir nemendur skólans, eins og ég sagði áðan, heldur er um að ræða risastórt samfélagslegt verkefni. Íbúum fjölgar um 20–30%. Ungu fólki, sem vantar inn í samfélagið, fjölgar. Það fjölgar í leikskólanum. Það fjölgar í grunnskólanum. Önnur þjónusta í byggðarlaginu mun styrkjast, eins og matvöruverslun.

Að lokum vil ég kalla eftir frumvarpi til laga um lýðháskóla sem ég vona að hafi ekki dagað uppi í menntamálaráðuneytinu. Það er nauðsynlegt að setja þessum skólum lagaumgjörð, en fram að því verðum við að tryggja Lýðháskólanum á Flateyri og LungA á Seyðisfirði fjármögnun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:06]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Háæruverðugur forseti. Þingmenn upplifa nú nánast daglega manngerða jarðskjálfta og þrumur vegna framkvæmda hér í miðbænum. Og þó að þingmenn séu almennt vanir hávaða og skjálftum gefur þetta okkur smáinnsýn, þótt ekki væri nema dálitla innsýn, í það sem sjúklingar og starfsfólk Landspítalans mun upplifa næstu árin a.m.k. ef fram heldur sem horfir með framkvæmdir þar. En ég ætla ekki að ræða meira um Landspítalann að sinni heldur þessar framkvæmdir í miðbænum.

Hér rétt utan við húsið er verið að byggja risastórt hótel, nánast upp að þinginu og er óskiljanlegt að þingið skuli láta þetta viðgangast. Á næsta horni er verið að byggja yfir minjar um landnámið, hugsanlega, einhvern elsta skála sem hefur fundist á Íslandi og á enn einu horninu hér bara í Kvosinni er verið að byggja gríðarleg ferlíki, stóra, svarta kassa, sem gera nú ósköp lítið til þess að bæta ásýnd miðbæjarins í Reykjavík.

Af þeim sökum er þeim mun mikilvægara að Alþingi reyni að nota þær leiðir sem þessi stofnun hefur þó til að sporna við og taki ekki þátt í þessari þróun. Því vil ég hvetja Alþingi, og treysti því að hæstv. forseti muni aðstoða mig við að koma þeim skilaboðum áleiðis, til að endurskoða áform um byggingu nokkurra stórra svartra kassa undir starfsemi þingsins, hér á horninu fyrir utan gluggann.

Hægt er að endurskoða þessi áform með þeim hætti að þau verði til þess fallin að bæta ásýnd Alþingis og miðbæjarins um leið.