149. löggjafarþing — 11. fundur
 26. september 2018.
breyting á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum, 1. umræða.
frv. HKF o.fl., 25. mál. — Þskj. 25.

[16:28]
Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum. Að því frumvarpi stendur sú sem hér stendur ásamt öðrum hv. þingmönnum Viðreisnar, þeim Jóni Steindóri Valdimarssyni, Þorgerði K. Gunnarsdóttur og Þorsteini Víglundssyni.

Ísland er í fararbroddi þegar kemur að málefnum sem varða jafnrétti kynjanna. Það er full ástæða fyrir okkur að vera stolt af þeirri stöðu. Um aldamótin voru t.d. sett framsækin lög um fæðingarorlof sem tryggðu báðum foreldrum rétt til slíks orlofs. Fyrir utan fyrirsjáanleg jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn eiga lögin stóran þátt í að tryggja ungbörnum mikilvægan tíma með báðum foreldrum.

Það skiptir máli að sækja alltaf lengra, vera gagnrýnin á þá stöðu sem við erum í hverju sinni og skoða hvað betur má fara. Markmið með frumvarpi því sem hér er lagt fram er annars vegar að tryggja rétt forsjárforeldra sem búa ekki saman til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barns síns í sameiningu og hins vegar að gæta réttar barna til að njóta fullrar þátttöku og íhlutunar beggja foreldra í daglegu lífi sínu.

Ljóst er að aðstöðumunur foreldra með sameiginlega forsjá er enn þó nokkur, þótt hlutir hafi færst til betri vegar á undanförnum árum. Í barnalögum, nr. 76/2003, er tekið fram eins og er að lögheimilisforeldri hafi, með leyfi forseta, „heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf“. Þrátt fyrir að foreldrar hafi sameiginlega forsjá og skuli leitast við að hafa samráð um þau mál er slíkur aðstöðumunur til þess fallinn að skapa ósátt og skerða rétt barns til fullrar íhlutunar beggja foreldra í lífi sínu. Enn fremur á lögheimilisforeldri rétt á margvíslegum fjárstuðningi umfram foreldri sem ekki deilir lögheimili með barni sínu þrátt fyrir að deila forsjá.

Þar sem ég mæli fyrir frumvarpi um tvöfalt lögheimili barna er rétt að fara yfir sögu þess máls á Alþingi. Fyrst aðeins um tölfræðina. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, frá 2015 reyndar, voru tæplega 13.000 fjölskyldur skráðar með einstætt foreldri, samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar, þ.e. svokallaðar kjarnafjölskyldur þar sem annaðhvort móðir eða faðir býr með börnum sínum en er ekki í sambúð. Það var árið 1992 sem sameiginleg forsjá var skilgreind í lögum og gafst þá foreldrum sem skildu möguleiki á því að fara með sameiginlega forsjá í fyrsta sinn. Ári síðar sömdu 10% foreldra um slíkt í skilnaðarferli. Árið 1996 voru það 35% og um aldamótin var hlutfallið orðið 50%. Árið 2011 var það komið upp í 90%, þá sömdu 90% fráskilinna foreldra eða foreldra í skilnaðarferli um sameiginlega forsjá. Í 91% þeirra tilfella sem foreldrar sömdu um sameiginlega forsjá árið 2011 var lögheimilið hjá móður.

En aftur að ferlinu. Það var vorið 2014 sem þingsályktunartillaga Bjartrar framtíðar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum var samþykkt á Alþingi. Samkvæmt tillögunni var innanríkisráðherra falið að skipa starfshóp sem skyldi skila tillögum um hvernig mætti útfæra jafnt búsetuform barna sem búa hjá báðum foreldrum til skiptis. Markmið starfshópsins átti að vera að finna leiðir til að eyða þeim mikla aðstöðumun sem er á milli lögheimilisforeldris og hins forsjárforeldrisins sé það svo á annað borð að foreldrar deili forræðinu. Hópurinn átti að taka afstöðu til þess hvort taka ætti upp kerfi sem heimilaði tvöfalt lögheimili eða eitthvert annað fyrirkomulag jafnrar búsetu sem gæti hentað betur af einhverjum ástæðum.

Eins og gengur og gerist breyttist tillaga Bjartrar framtíðar frá 1. umr. fram að endanlegri útgáfu. Upphaflega gekk tillagan út á að frumvarp um málið yrði lagt fyrir á haustþingi 2015 en það ákvæði var tekið út við vinnslu og samþykkt málsins í þinglegri meðferð og ekkert frumvarp er enn komið fram á þeim tíma sem liðinn er. En starfshópurinn var skipaður eins og tillagan kvað á um og skilaði viðamikilli skýrslu sem lögð var fyrir 145. þing, þ.e. fyrir þremur árum. Skýrslan fer vítt og breitt yfir svið þessa málaflokks og þar er margt mjög gott að finna.

Frumvarpið sem hér er lagt fram leggur til breytingar á barnalögum, lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um tekjuskatt, lögum um félagslega aðstoð, lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og loks lögum um grunnskóla. Ég ætla að fara stuttlega yfir þær breytingar og rökstuðning vegna þeirra.

Í I. kafla frumvarpsins er mælt fyrir breytingu á barnalögum. Þar er kveðið á um heimild foreldra sem ekki búa saman en fara með sameiginlega forsjá til að skrá lögheimili barnsins hjá báðum foreldrum og hafa þau jafna heimild til að taka þær afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins sem fyrr hafa verið nefndar, svo sem hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Kjósi foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá að skrá lögheimili barns aðeins hjá öðru þeirra hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka framangreindar ákvarðanir. En eins og er tiltekið í lögunum skulu foreldrar sem fara saman með forsjá barns þó í öllum tilvikum leitast við að hafa samráð áður en þeim málefnum barnsins er ráðið til lykta.

Þá er lagt til í frumvarpinu að kjósi foreldrar með sameiginlega forsjá að skrá lögheimili barns hjá báðum forsjárforeldrum falli niður greiðsla meðlags.

Herra forseti. Verði þetta frumvarp að lögum er ljóst að breytingar þarf á lögum um lögheimili en skilgreining lögheimilis er samkvæmt lögum staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu.

Þar segir jafnframt, aftur með leyfi forseta:

„Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.“

Herra forseti. Ef börn deila jafn miklum tíma á heimili hvors foreldris, eiga þar sitt herbergi og aðstöðu, leikföng, fatnað, dvelja þar helming mánaðar u.þ.b. og kalla heimili sitt, er erfitt að sjá að það falli ekki undir skilgreiningu lögheimilis. Það er heldur eiginlega ekki ásættanlegt að svara því til að breytingin sé kerfislega of flókin vegna þess að þegar samfélagið okkar hefur þróast þannig að foreldrar sem ekki búa saman velja í sífellt ríkari mæli að hafa sameiginlega forsjá því að þeir sjá og telja að það sé barninu fyrir bestu þá á kerfið að ráða við að bregðast við.

Því leggjum við til breytingar á lögum um lögheimili í II. kafla frumvarpsins þess efnis að börn geti við þær aðstæður sem lýst hefur verið átt lögheimili hjá báðum forsjárforeldrum.

Nýverið fékk ungur faðir bréf frá ríkisskattstjóra þar sem stóð, með leyfi forseta, að:

„… þeir teljist einstæðir foreldrar sem hafa börn sín hjá sér og annist einir framfærslu þess í lok tekjuárs. Sá sem greiðir meðlag er ekki framfærandi í þessu sambandi. Samkvæmt þjóðskrá býr barnið hjá móður sinni og telst hún því annast framfærslu þess. Þér verðið þannig ekki talinn einstætt foreldri og eigið þar með ekki rétt til barnabóta. Umrædd merking á framtali yðar í reitinn Einstætt foreldri er því ekki tekin til greina og nafn barns yðar hefur verið strikað út af skattframtali yðar.“

Þessi tiltekni faðir er líkur fjölmörgum öðrum forsjárforeldrum í því að skipta öllum útgjöldum með hinu forsjárforeldrinu. Barnið hans á tvö heimili, tvö herbergi og tvo foreldra en samkvæmt ríkinu er móðirin eini aðilinn sem sér um barnið og fær því barnabætur en ekki faðirinn. Þetta er skýrt dæmi um foreldra sem vilja að barnið fái að eyða jafn miklum tíma með báðum foreldrum og að báðir taki fjárhagslega ábyrgð og ábyrgð á uppeldinu.

Ef foreldrar skipta útgjöldum barnsins á milli sín eiga þeir rétt á því að skipta þeim bótum sem því fylgja á milli sín. Ef barnið býr á tveimur stöðum er rétt að skrá svo í þjóðskrá. Flutningsmenn leggja því til eftirfarandi breytingu í III. kafla frumvarpsins sem varðar breytingu á lögum um tekjuskatt, og viðbótin er tvíþætt, hún er annars vegar:

„Hafi barn tvöfalt lögheimili samkvæmt lögum um lögheimili og skipta heimilisfesti hjá báðum forsjárforeldrum yfir tekjuárið, þá teljast báðir forsjárforeldrar framfærendur barnsins og skal reikna helming barnabóta til hvors forsjárforeldris.“

Hin breytingin:

„Hafi barn tvöfalt lögheimili skulu tekjur annars forsjárforeldris ekki koma til skerðingar á þeim tekjutengdu barnabótum sem greiðast með barni til hins foreldrisins.“

IV. kafli frumvarpsins kveður á um breytingar á lögum um félagslega aðstoð. Þar segir í nýjum málslið:

„Hafi börn skráð lögheimili hjá báðum foreldrum, sem að öðru leyti uppfylla skilyrði laga þessara, er heimilt að greiða helming mæðra- og feðralauna til hvors þeirra.“

Og jafnframt önnur viðbót:

„Séu framfærendur barna tveir, hvor með sitt lögheimili, og lögheimili barna skráð hjá báðum, er heimilt að greiða helming umönnunargreiðslna til hvors þeirra.“

Í V. kafla frumvarpsins er talað um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem segir í nýrri málsgrein:

„Hafi barn skráð lögheimili hjá báðum foreldrum sem búa þó hvort í sínu sveitarfélagi skal það hafa rétt til þjónustu eða aðstoðar í báðum sveitarfélögum ef skilyrði laga þessara eru að öðru leyti uppfyllt.“

Loks í VI. kafla um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, í nýrri málsgrein:

„Skráning lögheimilis barns hjá báðum foreldrum sem búa þó hvort í sínu sveitarfélagi takmarkar ekki rétt þess til þjónustu á grundvelli laga þessara.“

Það er áhugavert að skoða þær umönnunargreiðslur sem greiðast samkvæmt reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna. Þar er Tryggingastofnun gefin heimild til að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlum barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Einnig er heimilt að veita aðstoð til framfærenda barns með alvarleg þroskafrávik og barna með hegðunarvandamál.

Hugtakið framfærandi er hins vegar ekki skilgreint í lögum né í reglugerðinni og því skilgreint sem lögheimilisforeldrið af Tryggingastofnun. Með breytingu á þeim lögum ætti að vera ljóst að ef um tvöfalt lögheimili er að ræða verði greiðslunum skipt í tvennt.

Að lokum leggja flutningsmenn til breytingar á lögum um grunnskóla, samanber VII. kafla frumvarpsins. Þar er lagt til að við bætist ný málsgrein svohljóðandi:

„Hafi barn skráð lögheimili hjá báðum foreldrum sem búa þó hvort í sínu sveitarfélagi skulu foreldrar taka ákvörðun um í hvoru sveitarfélagi barnið skuli njóta skólavistar og tilkynna það sveitarstjórnum beggja sveitarfélaga. Ákvörðun gildir þar til önnur slík ákvörðun hefur verið tekin af báðum foreldrum.“

Hér er þess einfaldlega getið að foreldrar verða að velja það sveitarfélag sem þau kjósa að barnið njóti skólavistar hjá og því er ekki um mikla breytingu að ræða, nema að það er ákvörðun sem er á hendi beggja foreldra en ekki aðeins á hendi annars þess.

Herra forseti. Á árunum 2006–2010 upplifðu árlega 550–600 börn lögskilnað foreldra sinna. Engar upplýsingar liggja fyrir um að þær tölur hafi lækkað. Þá áætlar Hagstofa Íslands að tæplega 36% hjónabanda endi með skilnaði. Sé litið til þess að sameiginleg forsjá sé meginregla að íslenskum lögum og að almennt sé leitast við að jafna rétt forsjárforeldra skýtur skökku við að öðru foreldri séu veitt talsverð réttindi umfram hitt á grundvelli skráningar lögheimilis barna. Að mati flutningsmanna er frumvarp þetta til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á fjölda barna sem eiga foreldra sem kjósa að búa ekki saman en ala börnin sín upp saman undir sameiginlegri forsjá.

Ég hef lokið yfirferð minni í bili og óska þess að málinu verði vísað til þinglegrar meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd að lokinni umræðu í þingsal.



[16:42]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka framsögumanni hennar mál. Ég held að við þekkjum öll sem erum hér í salnum — þótt ekki séum við mörg — dæmi um mál sem þetta frumvarp er sniðið að; dæmi þar sem kerfið stendur í vegi fyrir eðlilegum samskiptum foreldra eftir skilnað; dæmi þar sem vantar augljóslega einhvers konar sanngirni í því hvernig tekið er á málum, hvort sem það er úthlutun frístundakorts eða skráning í tómstundir eða úthlutun barnabóta eða hvað annað það er sem þeir sjö lagabálkar sem hér er fjallað um taka á.

Við fjölluðum um þetta í allsherjar- og menntamálanefnd í vor þegar til umfjöllunar var frumvarp til laga um lögheimili og aðsetur. Þar reyndum við sérstaklega að ná utan um þessa tvöföldu lögheimilisskráningu á öllum þessum sömu forsendum og hv. framsögumaður nefnir en náðum ekki til lands þar sem svitaperlur spruttu fram á fólki í ráðuneytunum vegna þess að verkefnið er flókið. Þau sögðu að þessi vinna væri í gangi á milli dómsmála- og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, ef ég man rétt. Þannig að ég velti fyrir mér hvort framsögumaður telji að sú vinna ætti kannski að fá að fara fram, hvort við getum verið áhyggjulaus með þetta sjö kafla þingmannamál eða hvort við ættum að, hvað eigum við að segja, gæta sérstakrar varúðar og bíða eftir því að ráðuneytin skili af sér sínu verki.



[16:44]
Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Þetta er náttúrlega alveg hárrétt. Þetta mál var í skoðun og töluverð vinna var lögð í það. Svo kom jóðsóttin og barnið sem fæddist var sú niðurstaða að breytingin yrði sú að hjónum yrði heimilt að skrá lögheimili hvort á sínum stað. Ég geri ekki lítið úr því að það er örugglega hentugt fyrir ýmsa aðila ef þannig ber undir, en það er alveg ljóst að hagsmunirnir eru töluvert meiri fyrir fleiri og vega þyngra í þessu máli. Þess vegna held ég að eftir þennan umgang sem málið fékk í ráðuneytinu, í kerfinu — og niðurstaðan varð þessi og þetta er flókið mál, ég er alveg klár á því. Ég held hins vegar að hvatinn til þess að bretta upp ermarnar og fara í þetta verði klárlega meiri ef löggjafinn er búinn að segja skýrt hvað hann vill í þessu máli.

Aftur ítreka ég það sem ég sagði áðan: Þetta hefur ekkert verið einföld þróun fyrir fólk sem skilur og það er með ólíkindum að horfa á þessar tölur, að 90% þeirra sem skilja kjósi að fara þessa leið, að reyna að ala börnin sín upp á þennan hátt og síðan stoppar kerfið þetta einhvern veginn af því að þar erum við búin að byggja veggi sem er að einhverju leyti erfitt og mögulega kostnaðarsamt að brjóta niður. Ég myndi hvetja til þess að við keyrum þetta mál áfram. Það getur vel verið að það komi einhverjar mjög góðar ábendingar frá þeim sem hafa unnið verkið, einhverjar breytingar. En ég tel enga ástæðu til að bíða með það að löggjafinn, ef við á annað borð náum saman um þetta mál, segi hvað honum finnist og verði þannig leiðarljós fyrir kerfið.



[16:46]
Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vill að löggjafinn segi skýrt hvað hann vill. Því get ég verið hjartanlega sammála. Það var nefnilega þannig að 7. júní þessa árs birtist nefndarálit með breytingartillögu um téð frumvarp til laga um lögheimili og aðsetur frá allsherjar- og menntamálanefnd, þar sem m.a. sat fulltrúi Viðreisnar. Þar fjölluðum við um tvöfalda lögheimilaskráningu barna.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að dómsmálaráðuneytið er með til skoðunar búsetu barna og fyrirhugað er að leggja fram frumvarp til breytinga á ýmsum lögum.“

Svo klykkjum við út í nefndinni með þeim orðum, með leyfi:

„Nefndin tekur undir mikilvægi þess að þetta fyrirkomulag sé til skoðunar og leggur áherslu á að ráðuneytið flýti þeirri vinnu eins og kostur er.“

Hér sagði löggjafinn nokkuð skýrt hvað hann vildi. Nú er liðið eitt sumarhlé og ég vil bara spyrja: Hversu mikið átti ráðuneytið að flýta vinnunni ef við erum strax á fyrstu vikum, eftir að fulltrúi Viðreisnar og við hin samþykktum þetta álit, farin að leggja fram sjálfstæð frumvörp um það sem við hvöttum ráðuneytið til að gera hér fyrir smástund?



[16:48]
Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Þetta er góð spurning og svarið er einfaldlega það: Mér finnst og okkur í Viðreisn, þegar við leggjum þetta frumvarp fram, að það sé ríkari ástæða og rík rök falli með því að hvatningin sé í formi þessa frumvarp sem samþykkt verði frekar en að það sé framkvæmdarvaldið og kerfið, embættismennirnir, sem skoði þetta annan ganginn til. Ég átta mig á því að þetta var niðurstaða þessarar nefndar í vor. Nú leggjum við þetta frumvarp fram vegna þess að við viljum hraða málinu. Til þess hníga öll rök. Það er alveg sjálfsagt og auðvitað gerist það með þetta mál eins og önnur þegar það fær sína þinglegu meðferð að það koma rök inn, þá hlustum við á þau. En þetta er málið. Við viljum ná þessu í gegn. Við viljum fá þetta inn í lög. Við fórum vel í gegnum skýrslu þess starfshóps sem ég nefndi áðan, við fórum gegnum þá vinnu sem innt var af hendi þessa mánuði áður en lögin voru samþykkt í júníbyrjun. Það liggja fyrir þær upplýsingar sem þarf. Þetta er bara spurning um að framkvæma málið.



[16:49]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá vil ég byrja á að óska Viðreisn til hamingju með að vera á undan dómsmálaráðuneytinu með að koma fram með þetta frumvarp. Ég heyrði sögu hv. þingmanns um unga manninn sem reyndi að vera með jöfn fjárframlög miðað við móður og fær þá ekki barnabætur; þessi helmingaskipting sem þau reyna að hafa ganga ekki út af því að kerfið segir nei. Ég hef mjög mikinn áhuga á því að greina kerfi og fikta í þeim og undirliggjandi breytum sem hafa áhrif á hvernig kerfið virkar. Eitthvað sem virðist ekki vera mjög augljóst, ef þú breytir því þá hefur það rosalega mikil áhrif á ýmsa aðra hluti sem mann hefði kannski ekki grunað að skiptu máli. Það að viðkomandi fái ekki barnabætur tengt því að viðkomandi sé að greiða meðlag umfram móður í mörgum dæmum — kannski akkúrat ekki þessu, en ýmsum öðrum þar sem meðlag fylgir oft ekki skiptingu á búsetu hjá börnum — hafi þá óbein áhrif á það hvernig laun, og sérstaklega laun kynjanna, hafa þróast. Þar sem, miðað við þessar tölur sem var fjallað um hér, karlmenn eru í minni hluta lögheimilisforeldra, sem þurfa þá að borga meðlag og eru á þann hátt, ef um jöfn laun væri að ræða, með lægri laun, hafi það þrýst launum þeirra (Forseti hringir.) hærra en eðlilegt væri, þ.e. ef þessi undirliggjandi kerfisgalli (Forseti hringir.) væri ekki til staðar. Þetta er mjög opin vangavelta. En mér finnst þetta áhugavert út frá því, þ.e. að svona lítil áhrif geta haft áhrif í stærra samhengi.



[16:51]
Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir og gott að vita að það er alltaf hægt að treysta á skemmtilega vinkla þegar maður ræðir mál hér í þingsal við hann. Aðeins varðandi hamingjuóskirnar og að tengja það við það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á áðan — það er kannski nákvæmlega það, það er ekkert fast í hendi með vinnu ráðuneytisins en við höfum það hér fast í hendi hvað við gerum. Í því liggur munurinn, grundvallarmunur.

Þessi hugleiðing um áhrif á launakjör kynjanna er svolítið skemmtileg — maður getur hugsað hvort þetta sé einn angi af því sem er hverfandi, en við þekkjum öll „hann hefur fyrir fjölskyldu að sjá“. — (Gripið fram í.) Akkúrat. Mjög áhugavert. Ég hef eiginlega ekki fleiri orð um þetta. Þetta er skemmtileg hugleiðing. Vonandi verður umræðan aðeins á þessum nótum í nefndavinnslunni. Þetta er skemmtilegt og kemur inn á mál sem okkur er öllum, held ég, mjög hugleikið.



[16:53]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna framkomnu frumvarpi og lýsa yfir stuðningi mínum við það með þeim örlitla fyrirvara að ég hef ekki gramsað í því alveg til enda, enda um frekar flókið mál að ræða eins og fram hefur komið í skýrslu sem rædd var áðan og í umræðum um málið almennt. Í sjálfu sér hef ég ekki mikið meira að segja um málið, enda lendir það í minni nefnd, allsherjar- og menntamálanefnd, þar sem við komum til með að skoða það ofan í kjölinn.

En mig langaði að vekja athygli á því, vegna þess að ég veit að ég verð spurður af öðrum, að ég sendi inn fyrirspurn á sínum tíma til félags- og jafnréttismálaráðherra í sambandi við niðurstöðu starfshóps í skýrslu sem var unnin fyrir innanríkisráðherra árið 2015 um sama efni. Ég fékk svar þaðan þar sem mér var reyndar bent á dómsmálaráðherra, en svarið kom og þar var niðurlagið að fyrirhugað væri að vinna við frumvarpið gæti hafist í febrúar, sem er febrúar á þessu ári.

Síðan kom 149. þing sem við erum á núna og þá sendi ég aftur inn fyrirspurn til dómsmálaráðherra um það hvort vinna væri hafin við frumvarpið og hvenær ráðherra teldi líklegt að það yrði tilbúið til framlagningar. Sömuleiðis spurði ég hvort einhver ný álitamál hefðu vaknað sem væru líkleg til að tefja gerð frumvarpsins og ef svo væri hvaða álitamál það væru. Svar við þeirri fyrirspurn hefur ekki borist en það má kannski búast við því að svarið verði að ráðherra ætli ekki að leggja fram frumvarp vegna þess að þingflokkur Viðreisnar hefur þegar gert það, sem ég fagna.

Ég hefði glaður viljað vera meðflutningsmaður á málinu, enda áhugamaður um efnið, en ég fagna því auðvitað alltaf þegar þingflokkar sýna það frumkvæði sem hér er sýnt. Mér finnst líka ágætt að við minnum okkur á við það tilefni að ráðherrar þurfa ekki endilega að gera allt. Ég íhugaði að skrifa svona frumvarp sjálfur. Það er annars vegar sú hugmynd að setja einfaldlega tvö lögheimili inn í þjóðskrá, sem hefur reynst ægilega flókið, og hins vegar að fara í allar þessar lagauppfærslur, sem ég skoðaði á sínum tíma og var reyndar búinn að opna textaritil og hugsaði þá með mér að kannski væri betra að bíða eftir ráðherra og fá hann til að gera þetta.

En nú hefur Viðreisn lagt fram frumvarp og mér finnst það alveg mega minna okkur á að við þurfum ekki alltaf að stóla á ráðherra til að gera hlutina. Það er mikilvægt að þingið sjálft og þingmenn í minnihlutaflokkum geti lagt fram frumvörp og þau séu tekin jafn alvarlega og ríkisstjórnarfrumvörp þegar þau fjalla um málefni eins og þetta.

Ég segi fyrir mitt leyti hvað varðar málsmeðferð málsins að ég ætlast til þess að það fái gott gengi í þinginu með hliðsjón af því að ráðherra hefur sagst ætla að leggja fram sambærilegt mál og með hliðsjón af því að sátt virðist um að þetta þurfi að gera. Ég býst því við því og ætlast til þess af hv. allsherjar- og menntamálanefnd að málið muni ekki líða fyrir það að vera lagt fram af öðrum en ráðherra.



[16:56]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Til að halda áfram með þessa umræðu um að dómsmálaráðuneytið sé líka að vinna í þessu máli, þá kemur þetta mál aldrei til með að tefja fyrir þeirri vinnu. Ef eitthvað er þá ætti það í raun bara að hjálpa til að þingið sé þegar byrjað á þessu og fái umsagnir um málið. Kannski stillist þetta af á þann hátt að það verður bara allt tilbúið til að þessar lagabreytingar geti tekið gildi þegar þingið er búið að klára málið og allt gengur sem best hvað það varðar.

Þá myndi ég vilja koma meira inn á það kerfislæga í málinu og tala aðeins um það út frá sjónarhorni gagna og gagnagrunna. Þetta er þegar allt kemur til alls gagnagrunnsmál, að skrá barn á tvo aðila í þjóðskrá, þ.e. að það komi fram á tveimur stöðum. Maður hefur heyrt að það sé það flókna við þetta, en það er nákvæmlega ekkert tæknilega flókið við það.

Það sem gerist hins vegar í kjölfarið er að þessi skráning hefur áhrif hjá Tryggingastofnun og víðar, á barnabætur og húsnæðisstuðning og ég veit ekki hvað og hvað, þar sem þessi breyting og skráning erfist. En tæknilega séð ætti skráningin ekki að taka langan tíma og ætti ekki að vera flókið verk ef maður vinnur út frá gagnaskipulagi til að byrja með. Ég hafna pínulítið kenningunum um að þetta sé flókið því að það er ekkert mjög erfitt að bæta við nýjum gögnum sem taka tillit til hlutfalls lögheimilisskráningar og það renni einfaldlega inn í þá útreikninga sem til eru. Þá þarf bara að gera útreikninga fyrir hvort foreldrið um sig og barnið tekið sem lögheimilishlutfall hjá því foreldri.

Frekar en að hafa áhyggjur af því að þetta valdi einhverjum sérstökum höfuðverk í kerfinu tel ég að höfuðverkurinn sé til að byrja með sá að við erum ekki að vinna á gagnadrifinn hátt. Við notum eldri kerfi eða eldra tengslanet gagna en tíðkast nú til dags. Þess vegna er þetta svona flókið.

Í kjölfarið og óháð þessu máli þá finnst mér að þingið ætti að taka mjög vel á móti öllum tillögum um að uppfæra upplýsingatæknimál Stjórnarráðsins. Það er sannarlega kominn tími til. Ef þau væru í lagi eins og þau voru til að byrja með, Ísland var mjög framarlega í innleiðingu á upplýsingatækni framan af en hefur fallið mjög mikið á síðastliðnum árum hvað það varðar, ef við værum á réttum stað með upplýsingatæknimál Stjórnarráðsins, ráðuneyta og stofnana, myndi ekki heyrast að það væri flókið að innleiða þessi lög inn í kerfið. Það er áhugaverður agnúi á því ferli sem býr til þennan þröskuld að svona augljóst réttindamál kemst ekki til framkvæmda af því að við höfum ekki eytt nægilega miklum tíma og sinnt því að byggja upp upplýsingatæknikerfi ríkisins.

Samfara því að ég vona að þetta frumvarp nái góðu flugi í gegnum þingið þá vona ég að við leggjum metnað í að koma upplýsingatæknimálunum, gagnagrunnsmálunum o.s.frv. á réttan stað, í gagnið. Það myndi t.d. hjálpa mjög mikið við allar fyrirspurnirnar sem ég sendi inn, það yrði miklu fljótlegra að svara öllum fyrirspurnum. Ég gæti meira að segja flett upp svörunum sjálfur miklu meira. Það myndi spara heilan helvítis helling líka, afsakið orðbragðið.



[17:01]
Sigríður María Egilsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Tímarnir hafa breyst og þeir eru að breytast. Staðlaðar ímyndir kynjahlutverka eru á hröðu undanhaldi og fólk fær sífellt meira frelsi til að ákveða fyrir sig sjálft hvers konar lífi það vill virkilega lifa. Breytt fjölskyldumynstur er eitt af því sem fylgir þessu.

Nú eru ekki mörg ár síðan konur byrjuðu að ryðja sér til rúms á vinnumarkaðnum. Það eru enn færri ár síðan karlmenn byrjuðu að krefjast þess að viðurkennt væri að þeir væru sömuleiðis mikilvægir og hæfir umönnunaraðilar og uppalendur. Í dag fjöllum við um einn ávinning þeirrar baráttu. Sífellt fleiri feður leyfa sér að njóta til hins ýtrasta að vera feður og uppalendur og sífellt fleiri mæður samþykkja í þeim tilvikum að faðirinn sé álíka mikilvægur hluti af lífi barnsins.

Fólk getur skilið hvenær sem er á lífsleiðinni en það færist í aukana að foreldrar komi sér saman um sameiginlega forsjá barna sinna. Í sameiginlegri forsjá felst að ábyrgðin á uppeldi barns er ekki aðeins á herðum annars foreldris heldur er henni deilt á milli aðilanna. Börn í dag búa mörg hver á tveimur heimilum. Þau eiga sitt rúm, sitt pláss, sitt herbergi, sinn fataskáp, á báðum stöðum. Annað heimilanna er því ekki bara aðsetur barnsins, það er líka heimili þess. Þegar svo ber við á stjórnsýslan ekki að hafna þeirri hugsjón á grundvelli þess að of sé flókið að breyta því, að gagnagrunnurinn sé of gamall til að taka við slíkri breytingu. Eins og hv. þingmaður fór yfir áðan er ekki einu sinni svo flókið að leysa úr því vandamáli og má leysa það með nokkuð auðveldum breytingum og tilfærslum.

Lögheimili barna hefur þýðingu fyrir rétt foreldra til opinbers stuðnings vegna barna sinna. Þegar foreldrar deila ábyrgð á börnum sínum eiga þeir báðir að eiga rétt til slíks stuðnings í samræmi við tekjur. Það sama á við um ákvarðanatöku varðandi barnið. Hver er sanngirnin í því að lögheimilisforeldri hafi aukið vald, og í sumum tilfellum algert vald, til að segja af eða á þegar barnið sjálft er jafnt á ábyrgð beggja foreldra alla jafna?

Þeir foreldrar sem eru þeirri stöðu að geta deilt forsjá og ábyrgð á barninu eiga að geta tekið ákvarðanir um barnið saman. Þetta er ekki einungis sanngirnismál heldur verðum við líka að líta til mannlega þáttarins. Það er erfitt að slíta samvistum, það er erfitt að binda endi á samband og halda síðan hvort í sína áttina og sjaldnast er það gert alveg í góðu. Það eitt að foreldrar séu í auknum mæli farnir að leggja eigin hagsmuni og tilfinningar til hliðar til þess að gæta hagsmuna barnsins síns og leyfa því að njóta eins góðs sambands og unnt er við hitt foreldri sitt er ekki aðeins jákvæð þróun heldur hreinlega frábær.

En sá þáttur að barn geti eingöngu verið með eitt lögheimili er ekki til þess fallinn að auðvelda foreldrum þá vegferð. Eins og ég sagði áðan hefur aðeins eitt foreldri rétt til opinbers stuðnings og getur krafið hinn aðilann um frekari stuðning og hefur síðan úrslitavald við ákvarðanatöku. Það eitt að slíkt valdaójafnvægi sé til staðar gerir annars eftirsóknavert fyrirkomulag ekki auðvelt, það eykur ekki líkurnar á að fyrirkomulagið haldist og hægir sömuleiðis á þróun sem við teljum annars mjög jákvæða.

Gleymum því heldur ekki að börn eru í fyrsta lagi mjög næm og í öðru lagi erum við almennt engir Óskarsverðlaunaleikarar. Það er erfitt að fela ósætti foreldra fyrir börnunum sínum. Þau finna fyrir því og það veldur þeim vanlíðan. Hlutverk stjórnsýslunnar er ekki að gera foreldrum erfiðara fyrir í samskiptum. Meðan við getum liðkað til eigum við að gera það, hvort sem það er með frumvarpi Viðreisnar eða frumvarpi sem kemur beina leið úr ráðuneytinu.

Þetta er réttlætismál og þetta er framtíðin, hv. þingmenn. Nú stendur löggjafinn frammi fyrir vali um það hvort við ætlum að halda áfram að vera steinvala í skóm þeirra sem eru að reyna að feta nýja slóð eða liðka fyrir nýjum áherslum og þjóðfélagslegum breytingum.

Að lokum vil ég segja að ég vona að þingheimur sjái hag sinn í því að koma þessu máli áfram og láti ekki pólitík standa í vegi fyrir því.



[17:06]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. flutningsmönnum fyrir að leggja fram þetta frumvarp svo að við höfum tækifæri til að tala um mikilvægi þess að börn njóti réttinda. Þá ætla ég, með leyfi forseta, að lesa hér setningu úr greinargerðinni þar sem segir að löggjafinn eigi ekki „að gefa öðru foreldrinu ríkari rétt en hinu til ákvarðanatöku um hagi barnsins. Löggjafinn á ekki að hamla því að foreldrar í þessari stöðu geti alið börnin sín upp með jafnmiklum lagalegum réttindum og foreldrar í sambúð eða hjónabandi.“

Þetta tek ég heils hugar undir. Ég hef reyndar stundum velt því fyrir mér að þegar löggjafinn tók ákvörðun um það á sínum tíma að það væri til eitthvað sem héti sameiginlegt forræði hvort fólk hafi séð fyrir sér hvernig það yrði hreinlega framkvæmt. Því að ég verð að viðurkenna að ég þekki til fólks sem er með sameiginlegt forræði og segir hreint út við mig, afsakið orðbragðið, forseti, að það sé bara prump, þetta sé bara bull. Þetta sé ekki neitt, því að það skiptir bara máli hvar barnið er skráð með lögheimili.

Það er örugglega töluvert til í þessu og þar af leiðandi er mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom ágætlega inn á að það var rætt nýverið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Það er skýrsla sem liggur fyrir þinginu í kjölfar þingsályktunartillögu sem tekur á þessu máli. Ég verð að viðurkenna að sú skýrsla var lögð fram áður en ég byrjaði hér þannig að ég hef ekki lesið hana í þaula en hef náð að renna yfir hana. Ég held að það sé ljóst að mikilvægt sé að bregðast við með einhverjum hætti.

Margir hér hafa líka komið inn á það að málið er flókið. Það hefur komið fram í öllum umsögnum og það sýnir sig kannski líka á þessu frumvarpi að hér er verið að leggja til breytingar á ansi mörgum lögum. Og ég óttast það jafnframt að breyting sem þessi geri kröfu um breytingar á jafnvel fleiri lögum. Reyndar held ég að þess sé getið með einhverjum hætti í greinargerðinni að það þurfi að yfirfara enn fleiri lög.

Ég hef líka velt því fyrir mér, kannski svipað og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom aðeins inn á varðandi gagnagrunna og tæknina, hvort bara það að þjóðskrá væri með fullkomnari gagnagrunn myndi leysa úr alla vega stórum hluta þeirra vandamála sem uppi eru á borðinu í dag. Ég hef til að mynda heyrt slíkt dæmi frá góðri vinkonu minni, en hún þurfti að fara til sýslumanns til að fá vottorð fyrir því að þetta væri nú örugglega hennar barn til að fara með barninu í banka til að stofna bankareikning fyrir unglinginn. Skiljanlega fannst þessari konu það þvílík niðurlæging að þurfa að fara til einhverrar opinberrar stofnunar til að fá vottorð fyrir því að þetta væri barnið hennar, fara svo með það í bankann. Maður sæi fyrir sér að þetta myndi leysast ef í þjóðskrá væri einhver reitur í tölvukerfinu þar sem þess er getið að það séu tveir foreldrar með forræði yfir viðkomandi barni óháð lögheimili.

Ég vildi velta þessu upp í umræðunni. Í einhverjum tilfellum held ég að vandamálið sé ekki endilega það að lagaramminn sé rangur heldur sé einhver kerfislæg villa úti í samfélaginu, eins og til að mynda hjá bönkunum sem gera kröfur um eitthvað slíkt og ekki sé hægt að kalla fram hverjir eru raunverulegir forsjáraðilar viðkomandi barns. Annað dæmi sem ég hef heyrt er t.d. tryggingafélög sem neita að setja barn inn í heimilistryggingu því að það er ekki skráð með lögheimili, þrátt fyrir að það liggi ljóst fyrir að forræðið sé sameiginlegt og barnið deili tveimur heimilum.

Það allra galnasta fannst mér nú þegar ég heyrði dæmi af því að ríkisskattstjóri, held ég að það hafi verið, sendi bréf inn á heimili sem var stílað á fósturforeldri barnsins, og barnið sjálft vegna þess að barnið var ekki orðið 18 ára, auðvitað, en ekki móður barnsins. Ástæðan fyrir því er sú að ríkisskattstjóri sendir alltaf bréf á þann aðila á lögheimilinu sem er eldri. Í þessu tilfelli var það ekki móðir viðkomandi barns sem fékk upplýsingar sem snertu barnið hennar heldur sambýlismaður. Sem er náttúrlega algerlega galið.

Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram en ég óttast að flækjustigið sé mjög mikið. Ég reiði mig líka á þá vinnu sem á sér stað í ráðuneytinu við nákvæmlega þetta mál því að mér heyrist á þeim ræðum sem hafa verið fluttar hér og það sem ég hef heyrt á þingmönnum að flestir séu sammála um að fyrst og fremst þurfi að bæta réttarstöðu barnanna, þetta snúist um það. Þá langar mig líka að geta þess að ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að vera talsmaður barna hér á þingi og minnist þess að hafa átt fundi með UNICEF og fleiri aðilum þar sem við fjölluðum um réttindi barna og hagsmuni. Þá var ein ábending sem þau komu með og sögðu: Það sem gerir allt flókið er þegar þið eruð að fjalla um réttindi barna og tengið það við fjárhagslega afkomu foreldra. Kannski er kerfið okkar bara þannig að það verði að vera svoleiðis, ég veit ekki, en við gerum það klárlega þegar við hugum að rétti til barnabóta og þess háttar. En ég hef oft velt þessu fyrir mér eftir að þau létu þessi orð falla hvort við getum með einhverjum hætti afmarkað réttindi barna, óháð einhverjum fjárhagstengingum inn í kerfið. Þetta ágæta fólk, og þarna voru líka fulltrúar frá sýslumanni sem höfðu reynslu af því að vera í sáttameðferðum og öðru, sagði fjármálin flækja öll svona mál.

En ég tek undir það sem aðrir hafa sagt, ég held að það verði gott að fjalla um þetta hér og gott að fá inn umsagnir. Ég bíð líka spennt eftir vinnu ráðuneytisins í þessum efnum. Ég verð líka að viðurkenna að sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður þá sé ég mjög mörg flækjustig fólgin í tvöfaldri lögheimilisskráningu. Ég óttast til að mynda eitt stórmálefnið eins og málefni fatlaðra. Getur orðið ágreiningur á milli sveitarfélaga um hvort sveitarfélagið eigi að þjónusta barn með fötlun ef það er skráð með lögheimili á tveimur stöðum? Við getum tekið íþrótta- og frístundastyrki, leikskólagöngu og annað. Ég held að það sé ýmis flækjustig í málinu. En það sem við þurfum fyrst og fremst að horfa á er réttur barnsins og að báðir foreldrar hafi rétt á að taka ákvarðanir um hagi barnsins, hvort sem farin er sú leið að skrá tvöfalt lögheimili eða breyta kerfinu einhvern veginn þannig að foreldrar sem eru með sameiginlega forsjá hafi raunverulega sameiginlega forsjá og sameiginlegan ákvörðunarrétt þegar kemur að hagsmunum barnsins.



[17:15]
Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Takk fyrir, forseti. Ég þakka kærlega þá umræðu sem hefur verið hér um þetta ágæta mál. Ég ætla að hafa þetta örstutt og ætla eiginlega að fara öfugu leiðina og bregðast fyrst við því sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir var með vangaveltur um varðandi flækjustigið, það er alveg hárrétt. Hv. þingmaður nefndi flækjustigið hjá sveitarfélögum þegar um er að ræða fatlað barn sem nýtur slíkrar þjónustu og kýs þá, ef þetta gengur í gegn og foreldrar geta skráð barnið með tvö lögheimili í tveimur sveitarfélögum. Mér finnst þetta ekki auka flækjustigið, mér finnst það eiginlega færa það frá foreldrum yfir á sveitarfélagið. Það er þannig sem mér finnst að það eigi að vera. Það að vera fráskilið foreldri, deila forsjá fatlaðs barns, þar sem lögheimilisforeldrið hefur réttindi og hitt ekki, það er raunverulegt flækjustig. Við erum að leysa það með þessu.

Ég er ekki að gera lítið úr að þetta er flækjustig fyrir kerfið, ég er alveg sammála því. Mér finnst að þar eigum við bara að leysa málin. Og ég trúi því og hlakka til að sjá umsagnir um nákvæmlega þessi mál.

Mig langar aðeins að bregðast betur við andsvörum frá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni því að hann vísaði í vinnuna frá því síðastliðið vor. Ég skoðaði þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, dómsmálaráðherra, þar sem nefnt er frumvarp til laga um breytingu á barnalögum og fleiri lögum (skipt búseta barna).

Þetta er eitthvað sem er ætlunin að leggja fram eftir áramót, í febrúar.

Um það segir:

„Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heimild foreldra til þess að semja um skipta búsetu barns og breytingar á ákvæðum er varða framfærslu barns og greiðslu meðlags.“

Þetta er tengt. Þetta er svipað að einhverju leyti. Þetta er langt frá því að vera það sama. Það er algerlega galið ef menn standa í þeirri trú að þingheimur sé ekki til þess fallinn að leggja fram frumvörp og fá um þau umræðu og helst að koma þeim í gegn af því að kannski, mögulega, ef svo ber undir, eigi að gera eitthvað svipað í ráðuneytunum. Takk.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.