149. löggjafarþing — 11. fundur
 26. september 2018.
skattleysi launatekna undir 300.000 kr., fyrri umræða.
þáltill. ÓÍ o.fl., 8. mál. — Þskj. 8.

[18:24]
Flm. (Ólafur Ísleifsson) (Flf):

Forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skattleysi launatekna undir 300.000 kr.

Flutningsmenn eru þingmenn Flokks fólksins í samræmi við þá stefnu sem flokkurinn kynnti fyrir alþingiskosningarnar fyrir tæpu ári. Auk þess er öflugur liðsauki úr Miðflokknum, hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir og Gunnar Bragi Sveinsson.

Tillagan er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að beita sér fyrir því að mánaðartekjur einstaklinga undir 300.000 kr. verði undanþegnar skattgreiðslum og gera með laga- og reglusetningu viðeigandi ráðstafanir í því efni fyrir árslok 2018.

Frú forseti. Tillaga þessi er endurflutt frá 148. löggjafarþingi, síðasta þingi, en með nokkrum breytingum að efni og með viðbótum við greinargerð sem reistar eru á skýrslu sem dr. Haukur Arnþórsson vann fyrir þingflokk Flokks fólksins og fylgir með þessari tillögu. Í skýrslu Hauks Arnþórssonar er fjallað um jöfnuð, en hún ber heitið Jöfnuður í skattkerfinu, og fjallar um jöfnuð, kosti í því efni og ávinning af þeim. Hér eru gerðar tillögur um skattbreytingar allviðamiklar sem gætu mætt óskum og kröfum forustumanna verkalýðshreyfingarinnar um auknar ráðstöfunartekjur þeirra sem lægstu launin bera úr býtum og þeirra sem almennt eru með lægri laun og aukinn jöfnuð í skattkerfinu.

Þingsályktunartillagan felur í sér að fjármála- og efnahagsráðherra er falið að gera tímasetta áætlun um að tekjur einstaklinga undir 300.000 kr. verði undanþegnar skatti. Þau skattfrelsismörk samsvara persónufrádrætti 106.387 kr. og er hér um tvöföldun skattleysismarka að ræða. Á hinn bóginn er lagt til grundvallar, og það eru forsendur útreikninga í skýrslu Hauks Arnþórssonar, að skattþrep séu óbreytt.

Markmið þessarar tillögu eru tvö, frú forseti, annars vegar að jafna skattbyrði milli tekjuhópa þannig að þátttaka ríkra og fátækra í rekstri samfélagsins verði líkari því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og hins vegar að hlífa þeim sem eru með tekjur undir framfærslumörkum við að greiða samfélaginu skatta af slíkum tekjum. Tillagan stuðlar að því að færa til fé innan skattkerfisins sem kemur fram í lægri skattheimtu hjá tekjulágu fólki og hærri hjá þeim sem hafa háar tekjur. Með tillögunni er undið ofan af langvarandi þróun þar sem skattbyrði hefur flust frá tekjuháum til tekjulágra.

Til að mæta kostnaði við þessa breytingu er lagt til að persónufrádráttur verði stiglækkandi eftir því sem tekjur eru hærri og falli hann alveg niður við tekjumörkin 970.000 kr. Tillagan gerir ráð fyrir að persónufrádrátturinn falli eftir sveigðum ferli sem hefur þau áhrif að áhrif á tekjuhærri hópa eru milduð en sýnir jafnframt að áherslan er eindregið á að hækka ráðstöfunartekjur láglaunafólks. Í tillögunni er miðað við að vendipunktur lækkaðra og hækkaðra skatta verði við 562.000 kr. mánaðarlaun. Fyrir mánaðarlaun hærri en nemur þeirri fjárhæð hækka skattar uns skattahækkunin nær 53.895 kr. á mánuði af 970.000 kr. Skattahækkun á hærri tekjur yrði sama krónutala. Aukinn tekjuskattur, sem þarna er gert ráð fyrir, af hærri tekjum verður nýttur til þess að lækka skattbyrði þeirra sem hafa lægri tekjur. Í því felst sú tilfærsla innan þess kerfis sem þessi tillaga gerir ráð fyrir.

Áhrif þessarar tillögu eru þau að hún mun auka ráðstöfunartekjur um 70% skattgreiðenda, sérstaklega þeirra sem eru á lágum launum á vinnumarkaði eða á lífeyri.

Kostnaður ríkissjóðs vegna breytinga á tekjuskatti yrði lítill, enda að mestu leyti um tilfærslur milli tekjuhópa að ræða. Hins vegar yrði kostnaðarauki sveitarfélaga nálægt 31,5 milljörðum kr.

Í skýrslu hagdeildar Alþýðusambandsins, Skattbyrði launafólks 1998–2016, sem út kom í ágúst 2017, kemur fram að enda þótt persónufrádráttur hafi hækkað frá aldamótum hefur þróunin verið sú að raunvirði hans dróst saman á árunum sem skýrslan tekur til, þ.e. 1998–2016. Skattleysismörkin hafa því lækkað að raungildi með árunum. Niðurstaðan af rannsókn hagdeildar Alþýðusambandsins er, og birt í þeirri skýrslu sem hér er vitnað til, að heildarskattbyrði launafólks, að teknu tilliti til persónufrádráttar, útsvars og persónufrádráttar auk barna-, vaxta- og húsnæðisbóta, hafi aukist hjá öllum tekjuhópum á þessu tímabili, þessu 18 ára tímabili, og að aukningin sé langmest hjá hinum tekjulægstu. Alþjóðleg talnagögn styðja niðurstöður Alþýðusambandsins og er þá átt við tölur Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD í París.

Í gögnum OECD er m.a. að finna upplýsingar um skattbyrði norrænna heimila. Í þessum gögnum OECD, þegar þau eru skoðuð og borin saman við heimilin hér, kemur fram að skattbyrði tekjulægri heimilanna er svipuð hér og þar, á bilinu 22–30%, nema í Danmörku þar sem hún er afar lág, en skattbyrði tekjuhærri heimila hér á landi er 8% lægri en þar. Ég ítreka: Skattbyrði tekjuhærri heimila er 8% lægri en almennt gerist á Norðurlöndum.

Á vefsíðu velferðarráðuneytisins kemur fram að framfærsluviðmið einstaklings á mánuði nam 223.046 kr. á árinu 2017 og er þá ekki tekið tillit til húsnæðiskostnaðar. Kostnaður við húsnæði er ekki inni í þessu neysluviðmiði, hvorki rekstur né leiga. Íbúðalánasjóður hefur hins vegar gefið út að húsnæðiskostnaður íslenskra fjölskyldna sé að jafnaði 16%, sem gæti þýtt nálægt 100.000 kr.

Að þessu sögðu má miða við að framfærslukostnaður einstaklings hafi að meðaltali verið 323.000 kr. eftir skatta á árinu 2017. Má telja þá fjárhæð síst of hátt metna miðað við þróun húsnæðiskostnaðar sem gera má ráð fyrir að öllum sé ljós. Þetta þýðir, frú forseti, að tekjur undir framfærsluviðmiði, opinberu framfærsluviðmiði stjórnvalda sjálfra, eru skattlagðar samkvæmt gildandi ákvæðum um tekjuskatt, enda þótt þær hrökkvi ekki fyrir lágmarksframfærslu. Hér er verið að skattleggja fátækt. Við því er leitast við að bregðast með þessari tillögu. Ekkert ríki sem vill kenna sig við velferð lætur standa sig að slíku. Þessi þingsályktunartillaga er því lögð fram með það að markmiði að fólki verði gert kleift að komast betur af og að enginn þurfi að sjá skatta dregna af tekjum sem nægja ekki fyrir nauðþurftum.

Við skoðun á tillögunni kemur í ljós að ráðstöfunartekjur skattgreiðenda allra undir 562.000 kr. hækka komi þessi tillaga til framkvæmda. Þetta á við um 70% skattgreiðenda á árinu 2017, eins og áður segir.

Með þessari tillögu, frú forseti, breytist aðstaða skattgreiðenda sem hér segir:

1. Þeir sem eru með laun frá gildandi skattleysismörkum, 151.978 kr., til nýrra skattleysismarka, 300.000 kr., fá launin sín óskert, skatthlutfall yrði 0%.

2. Þeir sem nýta skattleysismörkin best eru með 300.000 kr. mánaðarlaun. Þeirra ráðstöfunartekjur hækka um 21,6%, eða um 51.225 kr. Tekjuhópurinn 300.000–425.000 kr. fær auknar ráðstöfunartekjur frá því sem nú er; 51.000–25.000 kr., en þær eru fallandi með hækkandi tekjum. Skattbyrði yrði 0–16,5%.

3. Tekjuhópurinn 425.000–562.000 kr. fær 25.000–0 kr. í auknar ráðstöfunartekjur, sem væru lækkandi og skattbyrði hans yrði 16,5–26%.

4. Þeir sem eru með tekjur á bilinu 562.000–970.000 kr. verða með lægri ráðstöfunartekjur, 0–53.895 kr. og 26–36,8% skattbyrði.

5. Allir þeir sem hafa hærri tekjur en 970.000 kr. verða með lægri ráðstöfunartekjur sem nemur 53.895 kr. og skattbyrði 36,8%–46%, en skatthlutfall sveigist að hlutfalli hæsta skattþrepsins eftir því sem tekjur verða hærri.

Tillagan felur í sér að skattbyrði lægstu launa myndi lækka umtalsvert. Skattbyrði lægst launuðu fjölskyldugerðanna, samkvæmt skilgreiningu OECD, færi vel niður fyrir norræn meðaltöl og skattbyrði hærri launa, sem hækkaði, yrði þó enn töluvert lægri en meðaltal annarra skattgreiðenda á Norðurlöndum. Vek ég sérstaka athygli á þessu. Á heildina litið gætu skatthlutföll tekjuhópa innbyrðis færst í áttina til eða orðið svipuð og annars staðar gerist á Norðurlöndunum.

Hér er gerð tillaga um breytingar á hinu almenna skattkerfi, frú forseti, og því sett ný markmið. Réttur er af sá mismunur á skattbyrði tekjuhárra og tekjulágra sem er hér á landi samanborið við hlutföll milli sambærilegra hópa annars staðar á Norðurlöndum og jafnframt tekist á við að lyfta ráðstöfunartekjum lægstu launa yfir framfærslumörk.

Nái tillaga þessi fram að ganga myndi hún þjóna hagsmunum aldraðra, öryrkja og tekjulágra fjölskyldna vel.



[18:39]
Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Frú forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessari tillögu til þingsályktunar og er afskaplega ánægður með að hún sé komin fram. Tillagan er endurflutt frá fyrra þingi, en mikið hefur bæst við rökstuðninginn, þá aðallega með skýrslu dr. Hauks Arnþórssonar, Jöfnuður í skattkerfinu.

Þessi skýrsla og þessi tillaga okkar svona rökstudd er algjörlega nýtt innlegg í umræðuna um ómöguleikann sem svo mikið er rætt um, að hægt sé að færa launafólki og þeim sem eru undir 300.000 kr. skattleysi. Menn hafa talað eins og það sé ómögulegt að breyta þessu. Hér í þessari tillögu okkar og í skýrslu Hauks Arnþórssonar er kristaltært að það er enginn ómöguleiki á ferðinni.

Tillagan gerir ráð fyrir því, eins og mjög nákvæmlega er skýrt út í greinargerð, að verið sé að hækka skattleysismörkin 100%, þ.e. í 106.000 kr. rúmar eins og var hér þegar staðgreiðslan var tekin upp 1987. Gert er ráð fyrir að persónufrádrátturinn verði stiglækkandi og eyðist út við tekjur upp að 970.000 kr., að þeir sem eru þar fyrir ofan í tekjum hafi engan persónufrádrátt. Þannig er gert ráð fyrir að breytingarnar verði að hluta til fjármagnaðar með því að færa skattbyrðina frá lægstu tekjuhópunum, sérstaklega þeim sem eru undir 300.000 kr., yfir á tekjuhópa sem eru þar langt fyrir ofan og byrjar ekki að telja fyrr en í tekjum fyrir ofan rúmar 560.000 kr. Þarna er einungis verið að færa skattbyrði til á milli tekjuhópa. Gert er ráð fyrir að því að skattþrepin verði óbreytt frá því sem nú er.

Að langmestu leyti er einungis um að ræða tilfærslur innan skattkerfisins og mest tilflutningur milli tekjuhópa. Þó er samkvæmt þessari tillögu gert ráð fyrir því að eftir standi rúmir 30 milljarðar sem er þá kostnaðarauki sveitarfélaga í formi útsvarstekna. Tillaga okkar er ekki dýrari en það að tillaga í kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins, sem hljóðaði upp á að lækka skattprósentuna niður í 35% yfir línuna, er á svipuðum nótum og þessi tillaga. Þetta er nú ekki meiri ómöguleiki en það.

Ég vona að við náum að ræða þessa tillögu hér á þingi og í nefnd og úti í þjóðfélaginu þannig að það komi fram svart á hvítu hvernig þetta er og hvernig þetta er hægt.

Ef ég fer aðeins yfir skatthlutfall undanfarinna ára þá hefur skatthlutfall launa sem eru 2/3 af meðallaunum hækkað frá árinu 2000 til ársins 2017 um 270%. Skatthlutfall fólks, einhleypings, sem er með 2/3 af meðallaunum — hlutfallið árið 2000 var 5,9% skattur á þessi laun. Í dag er hann 22%. Þarna hefur þetta aukist næstum um 300% á mjög lág laun. Skatthlutfall einhleypings með meðallaun hefur aukist úr tæpum 29% í 33%, eða um 15%, þ.e. miklu minna. Ef við förum aðeins ofar — skatthlutfall einhleypings með tæplega tvöföld meðallaun, eða 167% af meðallaunum, hefur lækkað úr 39,6% í 38,3%; hann hefur lækkað um 3%. Þetta er það sem hefur verið að gerast síðustu 17 árin. Skattbyrði á lægri tekjuhópana hefur verið að hækka verulega en skattbyrði meðallauna og þar fyrir ofan hefur staðið í stað að mestu og lækkað á allra efstu launin. Þetta eru staðreyndirnar. Þetta er leiðrétting til baka fyrir þessa hópa, þessi þingsályktunartillaga sem við flytjum hér um að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að beita sér fyrir því að þetta verði leiðrétt eins og segir í þingsályktunartillögunni.

Það sem breytist aðallega varðandi aðstöðu skattgreiðenda er sem hér segir:

Þeir sem eru með laun frá gildandi skattleysismörkum, 151.978 kr., til nýrra skattleysismarka, 300.000 kr., fá launin sín óskert, skatthlutfall yrði 0%.

Þeir sem nýta skattleysismörkin best eru með 300.000 kr. mánaðarlaun. Þeirra ráðstöfunartekjur hækka um 21,6%, eða um 51.225 kr. Tekjuhópurinn 300.000–425.000 kr. fær auknar ráðstöfunartekjur frá því sem nú er; 51.000–25.000 kr., en þær eru fallandi með hækkandi tekjum. Skattbyrði yrði 0–16,5%.

Tekjuhópurinn 425.000–562.000 kr. fær 25.000–0 kr. í auknar ráðstöfunartekjur, sem væru lækkandi og skattbyrði hans yrði 16,5–26%.

Þeir sem eru með tekjur á bilinu 562.000–970.000 kr. verða með lægri ráðstöfunartekjur, 0–53.895 kr. og 26–36,8% skattbyrði. — Það yrði nú ekki meira en það.

Þeir sem eru hærra myndu fara ofar í skatthlutfallinu.

Ég vænti þess að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til nefndar.



[18:47]
Flm. (Ólafur Ísleifsson) (Flf):

Herra forseti. Örfá atriði rétt til áréttingar. Það er þannig að skattkerfið okkar er með þeim hætti að skipting persónufrádráttarins milli ríkissjóðs og sveitarfélaga gerir það að verkum að eingöngu er greitt útsvar á tekjubilinu 152.000–250.000 kr. Taki menn eftir því að útsvarsgreiðslur fólks á þessu tekjubili eru 13 milljarðar kr. á árinu 2017, 13 milljarðar af fólki sem hefur ekki fyrir framfærslu miðað við opinber viðmið í því efni. Á tekjubilinu 250.000–300.000 kr. taka sveitarfélögin aðra 13 milljarða á meðan ríkissjóður tekur 3,5 milljarða. Þannig að á tekjubilinu upp í 300.000 eru sveitarfélögin að taka 26 milljarða, ríkissjóður 3,5. Auðvitað myndi þessi tillaga lækka útsvarstekjur sveitarfélaga og best að segja það upphátt.

Þessar tölur, herra forseti, draga það fram hversu mjög fjármögnun sveitarfélagastigsins er háð skattlagningu á lágar tekjur, að ekki sé sagt lægstu tekjur, herra forseti. Þetta gæti auðvitað þurft að jafna, enda hefur ríkið fært kostnaðarsama þjónustu til sveitarfélaganna á síðustu árum. Þó skal minnt á það að sveitarfélögin flest hver, eða a.m.k. mörg hver, hafa innheimt miklu hærri fasteignagjöld af íbúðareigendum á síðustu árum en áður vegna hækkana á fasteignamati.

Herra forseti. Það er kannski rétt að nefna það, eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason vék að hér áðan í sinni ræðu, að í greinargerð og í skýrslu Hauks Arnþórssonar, sem fylgir þessari tillögu, er fjallað um fleiri tillögur um breytingar á skattkerfinu en þessa. Þar á meðal er fjallað um tillögu sem Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur fjármálaráðherra, beitti sér fyrir, eða a.m.k. talaði fyrir, fyrir síðustu kosningar. Það er um það að lækka lægra skattþrepið úr 36,94% í 35%, sem er ríflega 1,5 prósentustiga lækkun á þessu skattþrepi.

Það er reiknað út í skýrslu Hauks Arnþórssonar að kostnaðurinn af þessari tillögu yrði tæplega 24 milljarðar kr. Kostnaðurinn af þeirri tillögu sem hér er mælt fyrir er nokkru hærri, vissulega, liðlega 31 milljarður — og ég geri ekki lítið úr þessum mun á nokkurn hátt, þetta er umtalsvert fé — en það er ekki himinn og hauður þarna á milli. Það eru reyndar fleiri kostir sem eru reiknaðir út í þeirri skýrslu sem fylgir þessari tillögu.

Þannig að hér er, leyfi ég mér að segja, herra forseti, lögð fram markverð tillaga um það að breyta þessu fyrirkomulagi. Það er rakið í því efni sem við höfum hér lagt fram, í greinargerð og í skýrslu Hauks Arnþórssonar, að sú tillaga sem við berum hér fram, Flokkur fólksins með atbeina tveggja hv. þingmanna Miðflokksins, felur í sér há skattleysismörk og lækkandi persónufrádrátt. Þessi tillaga nær tilgangi sínum um jöfnun miklu betur en 35% leiðin sem ég gat um áðan, hún lækkar skatta upp allan tekjustigann. Hér er allt annað á ferð. Hér er verið að jafna innan kerfisins og nota peninga sem í einhverjum skilningi eru til inni í kerfinu í þágu þeirra sem lægstir eru og eru með lægri laun almennt talað.

Kostnaðarmunur þessara leiða er miklu minni, eins og ég hef hér rakið, en ætla mætti og skýrist, eins og ég áður gat um, af flutningi skattbyrðar á milli tekjuhópa.

Það er rakið í greinargerð og skýrslu að tekjur opinberra aðila hækka, ef að líkum lætur, um 40 milljarða kr. frá 2017–2019 vegna hækkaðra tekna skattgreiðenda. Þarna ræðir kannski um 32 milljarða kr. hjá ríkinu og 13 milljarða kr. hjá sveitarfélögunum. Þetta er nánar rakið. Það er náttúrlega ekki óeðlilegt, herra forseti, og eiginlega ekkert nema eðlilegt, að einhver hluti þessarar tekjuaukningar, sem sjá má fyrir, sé notaður til þess að jafna skattbyrði og rétta hlut þeirra sem lægstar hafa tekjurnar.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og viðskn.