149. löggjafarþing — 12. fundur
 27. september 2018.
fjöldi háskólamenntaðra.

[10:57]
Sigríður María Egilsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn minni er beint til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Nú er ljóst að fjöldi háskólamenntaðra á Íslandi hefur þrefaldast frá aldamótum en á sama tíma hefur fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar dvínað hratt. Í dag er hann með því allra minnsta í Evrópu. Háskólamenntuðum fjölgar en sérhæfðum störfum í takt við þá þróun fjölgar ekki og eru háskólamenntaðir nú næstfjölmennasti hópur atvinnulausra sé hann flokkaður eftir menntun.

Á sama tíma og við sjáum að í ákveðnum greinum er sýnilegur skortur á nemendum, svo sem í iðn- og raungreinum, virðist, og það er ekki mjög þægilegt fyrir mig persónulega að viðurkenna, umframframboð vera á útskrifuðum viðskipta- og lögfræðingum. Það er því ljóst að framboð háskólamenntaðra og eftirspurn atvinnulífsins er ekki í jafnvægi og þróunin bendir heldur ekki til þess að það muni lagast af sjálfu sér.

Spurning mín er því þessi: Sér ráðuneytið blikur á lofti í þessum efnum? Hefur ráðuneytið skoðað eða ætlar að skoða aðgerðir eða koma upp áætlun til að takast á við þessa þróun? Þurfum við ekki að huga að aðgerðum til að jafna betur framboð háskólamenntaðra og eftirspurn atvinnulífsins?



[10:58]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu fyrirspurn. Hún er mjög tímabær vegna þess að það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir, það er misræmi á milli þeirra sem eru útskrifaðir og þeirrar eftirspurnar sem er í atvinnulífinu.

Hún spyr um aðgerðir. Fyrst ber að nefna varðandi iðn-, verk- og starfsnámið að við erum að fara í umtalsverðar aðgerðir hvað það varðar. Við höfum verið að endurskoða reiknilíkanið fyrir framhaldsskólastigið og við þá endurskoðun er sérstök vigt á iðn-, verk- og starfsnámið. Við erum að bæta starfsaðstöðu í framhaldsskólum til þess að bæta öll skilyrði og vinna betur að þróun iðn-, verk- og starfsnáms.

Annað sem við erum líka að gera er til að mynda vegna þess að það er hreinlega skortur á kennurum inn í framtíðina, við erum að setja sérstaka fjármuni til þess að auka eftirspurn eftir því að fara í kennaranám. Við höfum sett sérstaklega 50 milljónir í það verkefni.

Það sem við höfum hins vegar séð, sem er mjög jákvætt og ég vil benda hv. þingmanni á, er aukning í innritun í ákveðnar greinar, t.d. rafiðn, 33% aukning núna í haust. Eins sjáum við líka aukningu varðandi kennaramenntunina þannig að nú þegar erum við farin að sjá einhvern ávinning af þeim aðgerðum sem við höfum farið í .



[11:00]
Sigríður María Egilsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir góð svör. Það er mjög gaman fyrir mig að heyra hvernig þessi þróun virðist vera að ganga og að ráðherra ætli að beita sér í þessum efnum.

Þá langar mig að bæta við spurninguna hvort hæstv. ráðherra ætli sér að leggja einhvers konar sérstaka áherslu á að kynjajafna tilteknar stéttir, svo sem að hjálpa stúlkum eða leggja áherslu á að stúlkum fjölgi í tilteknum greinum og sömuleiðis að karlmönnum fjölgi í öðrum þar sem þeir hópar hafa verið í minni hluta.



[11:01]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Mig langar líka aðeins að nefna og bæta við svarið áðan að til að mynda á morgun fundar Vísinda- og tækniráð og þar er sérstök áhersla á færniþörf og að tengja hana við vinnumarkaðinn. Eitt af því sem ég tel að við getum gert mun betur á Íslandi er að tengja saman menntastefnu og atvinnustefnu. Þá erum við einmitt komin inn á það sem hv. þingmaður var að nefna, að það sé gott samspil þarna á milli þannig að þeirri eftirspurn sem er í hagkerfinu sé mætt í menntun.

Ég vil líka nefna að við erum að skoða kynjahlutföllin. Ef við náum að fjölga þeim stúlkum sem innritast í verk-, iðn- og starfsnám náum við svipuðum hlutföllum og eru á Norðurlöndunum, í Evrópu, þannig að þetta er fyrst og síðast kynjahalli varðandi þessar greinar. Við erum að skoða það og erum meðvituð um það.