149. löggjafarþing — 12. fundur
 27. september 2018.
sérstök umræða.

húsnæðismál.

[11:02]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Húsnæði er ekki lúxus sem á að standa einungis vel stæðu fólki til boða heldur er þvert á móti ein af grunnþörfum allra. Það er ekki einungis til að skýla sér fyrir veðri og vindum, þótt það sé auðvitað nauðsynlegt, heldur er tryggt húsnæði staður sem skapar einstaklingum og fjölskyldum öryggi. Við köllum það heimili, herra forseti.

Samkvæmt nýlegum fréttum mun hæstv. ráðherra innan skamms verða félags- og barnaverndarráðherra. Í því ljósi er rétt að minna ráðherrann á að börn hafa sérstaka þörf fyrir gott og öruggt heimili eigi þau að fá bestu skilyrði til að þroskast og dafna. Og ég endurtek: Ég er ekki að tala um húsaskjól í þrengstu merkingu þess orðs heldur varanlegt heimili án þess að fólk hrekist um á erfiðum leigumarkaði og sé sífellt slitið upp frá vinum og skólum.

Þessi málaflokkur skiptir okkur gríðarlegu máli og það þýðir ekki að vona eða benda á að nú sé meira byggt og markaðurinn finni jafnvægi. Það er beinlínis nauðsynlegt að stjórnvöld komi að heilbrigðri þróun á kerfisbundinn hátt og komi í veg fyrir reglubundið ófremdarástand sem skapast í óstöðugu hagkerfi okkar. Stjórnvöld hafa hins vegar ekki sinnt því sl. ár og það er ömurlegt að upplifa metnaðarleysi núverandi ríkisstjórnar sem ver nánast engu í þetta mál umfram það sem löngu er búið að semja um.

Hæstv. ráðherra. Það verður að grípa til aðgerða sem fjölgar íbúðum fyrir tekjulágt fólk, félagslegu húsnæði, og byggja varanlega upp traustan og manneskjulegan leigumarkað. Á Íslandi er nefnilega stór hópur fólks með lágar tekjur sem teljast þó of háar fyrir fjárhagsaðstoð. Þetta fólk getur illa fótað sig á húsnæðismarkaðnum. Það hefur bókstaflega verið skilið eftir eftir að verkamannaíbúðakerfið var lagt niður. Hér búa líka efnaminni fjölskyldur sem eiga erfitt með að kaupa sér þak yfir höfuðið á sama tíma og mikill skortur er á leiguíbúðum, leiguverð allt of hátt og réttindi leigutaka allt of illa tryggð. Það er ekki einu sinni nægt framboð á hagkvæmum íbúðum fyrir einstaklinga og fjölskyldur með meðaltekjur.

Að lokum er rétt að minnast á unga fólkið sem hefur setið eftir í húsnæðismálum. Kaupmáttur þess hefur ekki aukist til jafns á við eldri kynslóðir. Á sama tíma hefur húsnæðisverð hækkað um 43% umfram almennt verðlag, töluvert meira en annars staðar á Norðurlöndum. Þeim hópum er svo fleygt í fangið á gróðaveitum á leigumarkaði þar sem ýmsir sjá hag sinn í að hagnast á neyð þeirra.

Hæstv. ráðherra ætti nú að renna blóðið til skyldunnar. Í ríkisstjórn sem flokkur hans átti aðild að var verkamannabústaðakerfið nefnilega lagt niður. Hefði það ekki verið gert væru um 14.000 fleiri íbúðir í landinu af þeim toga. Það þarf ekki mikla speki til að átta sig á því að aðstæður væru töluvert aðrar ef þetta hefði ekki verið gert.

Um 50.000 manns eru á dýrum leigumarkaði á Íslandi og margir hrekjast um. Miðsvæðis í Reykjavík kostar um 190.000 kr. á mánuði að leigja tveggja herbergja íbúð og hvergi í nokkurri höfuðborg á Norðurlöndum er jafn dýrt að leigja og hér, ekki í Kaupmannahöfn, ekki einu sinni í Ósló, herra forseti, og utan höfuðborganna er leiguverð einnig hæst á Íslandi.

Stjórnvöld verða einfaldlega að beita sér fyrir því að hlutur leiguhúsnæðis sem ekki er rekið með hagnaðarsjónarmiði verði miklu stærri en nú er. Fólk með lægri tekjur á í mestum vandræðum með að eignast húsnæði og býr þar af leiðandi við óöryggið sem ég nefndi áðan og um margt fjandsamlegan leigumarkað. Rannsóknir sýna að fólk á leigumarkaði hefur það verr fjárhagslega og börn á leigumarkaði eru líklegri til að líða skort en önnur börn. Því ætti þetta að verða sérstakt kappsmál nýs barnamálaráðherra.

Samfylkingin er í þessum töluðu orðum að leggja fram tillögur sem ég vona að ráðherra kynni sér og nýti. Þær eru í átta liðum og er ætlað að bæta húsnæðismarkaðinn. Ég geri mér grein fyrir því að þær munu ekki leysa allan okkar vanda en þær eru nauðsynleg fyrstu skref í öfuga átt við þau sem stjórnvöld hafa tekið síðustu ár, ýmist með skeytingarleysi eða beinlínis vondum aðgerðum. Fyrstu skref í þá átt er að tryggja öllum húsnæðisöryggi, sem er ein af forsendum þess að hér þrífist fjölskylduvænt samfélag sem stenst samanburð við þau ríki sem við berum okkur helst við, Norðurlöndin.

Mig langar að spyrja: Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir frekari stofnstyrkjum til uppbyggingar á hagkvæmum leiguíbúðum? Og í öðru lagi og ekki síður: Er ráðherra tilbúinn að leggja fram frumvarp sem eykur skyldu allra sveitarfélaga þegar kemur að félagslegu húsnæði þannig að nokkur sveitarfélög standi ekki uppi ein með verkefnið?



[11:08]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir þessa umræðu. Ég get tekið undir þær áherslur sem hann lagði í upphafsmáli sínu þar sem mátti skilja að húsnæðismál væru velferðarmál vegna þess að húsnæðismál eru velferðarmál. Það er þess vegna sem þau eiga heima í félagsmálaráðuneytinu og það er þess vegna sem við höfum líka verið að undanförnu að styrkja stoðir húsnæðismálanna innan stjórnsýslunnar og innan ráðuneytisins. Það var m.a. gert með mikilvægu frumvarpi sem var samþykkt á síðasta þingi sem kvað á um auknar skyldur Íbúðalánasjóðs til þess að breytast í svokallaða húsnæðisstofnun, með því að festa betur húsnæðisáætlanir í sessi, stefnumótun, greiningu og annað sem er gríðarlega mikilvægt í því skyni að húsnæðisstofnunin geti gegnt líku hlutverki og systurstofnanir annars staðar á Norðurlöndunum.

Við erum líka að stíga skref í þá átt að styrkja betur stjórnsýsluna innan húsnæðismálanna með því að um áramót, ef þingsályktunartillaga nær fram að ganga á Alþingi, færast reglur um Mannvirkjastofnun og regluverk í kringum byggingarmarkaðinn yfir til félagsmálaráðuneytisins. Þá verður þetta orðið sambærilegt því sem er á Norðurlöndunum en það er ekki þannig hjá neinni Norðurlandaþjóð nema okkur að húsnæðismálin og ábyrgðin á þeim málaflokki sé hjá einu ráðuneyti og svo byggingarmarkaðurinn hjá öðru ráðuneyti. Þetta er líka að gerast um áramótin. Með því fáum við aukinn slagkraft í þennan málaflokk sem sannarlega skiptir miklu máli.

Hv. þingmaður leggur mikla áherslu á leigumarkaðinn í sínu máli. Áður en ég kem að því langar mig að nefna eitt sem kom einnig fram í hans máli og snýr að aðgerðum fyrir fyrstu kaupendur. Við viljum auðvitað hafa öflugan leigumarkað og eigum að efla hann og styrkja, en það er gríðarlega mikilvægt að tryggja líka aðgerðir til þess að gera ungu fólki kleift að fara út á húsnæðismarkaðinn.

Ríkisstjórnin vinnur að tillögum í þá veruna, félagsmálaráðuneytið í samstarfi við Íbúðalánasjóð. Þar er horft til úrræða sem stjórnvöld í nágrannalöndum okkar hafa beitt, auk þess sem verið er að vinna og skoða tillögur sem byggja á ráðstöfun lífeyrissparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð, svokallaðri svissneskri leið. Það er að verða vakning í því að það sé skynsamlegt að nýta lífeyrissparnað með einhverjum hætti inn í fasteignamarkaðinn, það er líka umræða um slíkt meðal verkalýðshreyfingarinnar núna, aukin umræða um að lífeyriskerfið eigi að koma af meiri krafti inn í húsnæðismálin. Það verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verður sem lýtur að því á þingi ASÍ síðar í næsta mánuði.

Þegar kemur að leigumarkaðnum er í gangi talsvert mikil vinna í þeim efnum innan félagsmálaráðuneytisins. Í fyrsta lagi erum við í mjög góðu og þéttu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins um það hvaða breytingar þurfi að gera á almenna íbúðakerfinu, en við erum að auka í almenna íbúðakerfið um 800 milljónir á næsta ári nái fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2019 fram að ganga. Það þarf vissulega að gera miklar breytingar á þessu kerfi. Það voru mikil tímamót þegar við stigum þetta skref. Þá var Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra. En það eru breytingar sem þarf að gera. Við erum að fara yfir það með verkalýðshreyfingunni og Sambandi íslenskra sveitarfélaga með hvaða hætti við getum flýtt framkvæmdum þar, hvað við getum gert til að þetta gerist hraðar. Við erum líka að ræða við aðila vinnumarkaðarins um hvernig hægt sé að styrkja húsaleigulögin þegar kemur að leigjendum. Ég vænti þess að niðurstaða úr þessari vinni komi snemma á næsta ári.

Íbúðalánasjóður hefur líka verið að skoða leiðir til að efla leigumarkaðinn og er m.a. í skoðun þar og hefur verið í talsverðan tíma að stofna sérstakt óhagnaðardrifið leigufélag þar inni sem hafi einmitt það markmið sem hv. þingmaður talaði um, að reka leigufélag eftir óhagnaðardrifnum sjónarmiðum.

Ég er nýkominn frá Finnlandi þar sem við áttum góða fundi með systurstofnun Íbúðalánasjóðs og húsnæðismálaráðherra þar í landi. Þar er það nú bara svo, ágætu þingmenn, að ríkissjóður rekur þar leigufélag. Það er hægri stjórn í Finnlandi í dag. Á næsta ári — það hefur gengið svo vel, þeir eru að byggja 400–500 íbúðir á hverju ári — ætlar þetta ríkisrekna leigufélag og þessi hægri stjórn sem nú er þar við völd að auka eigið fé þessa félags um 50 milljónir evra. Ég vonast til þess að við munum horfa í auknum mæli til óhagnaðardrifinna leigufélaga, hvort sem þau eru á herðum ríkisins, sveitarfélaga eða í samvinnu við aðila vinnumarkaðar eða aðra aðila.

Hins vegar er eitt sem skiptir máli að koma líka inn á hérna og ég vil undirstrika að sá sem hér stendur er að beita sér í þeim málum sem hv. þingmaður spurði um, (Forseti hringir.) en það þarf fleiri lóðir. Það þarf fleiri lóðir vegna þess að ekkert af því sem var nefnt hér að framan gengur (Forseti hringir.) eftir ef við fáum ekki aukið framboð af lóðum og byggingarlandi til þess að byggja á.



[11:13]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir og sömuleiðis innkomu hæstv. ráðherra. Við sem sitjum í velferðarnefnd áttum þess kost að heimsækja Íbúðalánasjóð í vikunni. Það var mjög gagnleg heimsókn og góð. Þar er greinilega margt gott að gerast. Þegar við ræðum húsnæðisöryggi og stuðning við fyrstu kaup er lykilatriði að ríki og sveitarfélög vinni saman og tali saman. Mig langar aðeins að velta þessu hér upp.

Vissulega er hlutverk Íbúðalánasjóðs líka mikilvægt þegar um er að ræða framboð á félagslegu húsnæði — og nú ætla ég að leyfa mér að hugsa upphátt. Það er skortur á húsnæði, við vitum það, og mér sýnist að stuðningur ríkisins hafi undanfarið farið minnkandi og stuðningur sveitarfélaga í málaflokkinn þar með aukist. Annað: Félagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs á að halda áfram, sýnist mér á öllu, og þá er spurning hvort Íbúðalánasjóður þurfi ekki að lækka vexti á þeim lánum sem hann veitir. Vextirnir eru 4,2% meðan aðrir geta boðið lægri vexti. Á sama tíma hefur kannski sá hópur sem við viljum skilgreina á þann veg að hann þurfi félagslegt húsnæði ekki aðgang að þeim lánum. Breytingin á þessu vaxtafyrirkomulagi þarf að koma frá Alþingi. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvernig honum lítist á það.

Ég vil bara minnast á þetta atriði hér því að með breyttri löggjöf og þar með nýju hlutverki Íbúðalánasjóðs er sjóðurinn nú sú stofnun sem ber ábyrgð á framkvæmd húsnæðismála. Að þessu sögðu þakka ég umræðuna.



[11:15]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Stefna Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum á undanförnum árum hefur verið að 90% íbúa séu í byggð vestan Elliðavogs á lóðum sem helst eru í eigu einkaaðila og fjárfestingarfélaga. Áherslan í aðalskipulagi síðustu tíu ár hefur verið að þétta byggð á dýrum þéttbýlisreitum miðsvæðis sem hefur haft mikil áhrif á leigu- og húsnæðisverð. Sú stefna þeirra sem hafa stýrt borginni síðasta aldarfjórðunginn er einn af stóru þáttunum í þeirri slæmu stöðu sem upp er komin í stöðu húsnæðismála á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega í Reykjavík þar sem ekki er óalgengt að fermetraverðið í nýbyggingum sé 700.000–800.000 kr. Nýjustu dæmin um íbúðaverð eru fermetrar sem seldir eru á allt að 1.100.000 kr. fermetrinn í miðborg Reykjavíkur.

Langvarandi lóðaskortur í Reykjavík hefur verið undirliggjandi þáttur í því hversu slæm þróun húsnæðismálanna hefur verið um langt skeið. Ríkt hefur sannkallað ófremdarástand.

Á síðustu 20 árum, 1998–2018, hefur íbúum Reykjavíkur fjölgað um 18% en í nágrannabyggðum Reykjavíkur, þ.e. Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ, hefur íbúum fjölgað um 68% á sama tíma. Nágrannasveitarfélög Reykjavíkur hafa borið hitann af mannfjölguninni á höfuðborgarsvæðinu.

Lóðasveltistefna Reykjavíkurborgar undanfarinna 20 ára er stór áhrifavaldur í þeirri afleitu stöðu sem er uppi í dag á húsnæðismarkaðnum, stefna sem hefur átt stóran þátt í því að ýta upp húsnæðisverðinu í landinu sem hefur hækkað verðtryggð íbúðalán vítt og breitt um landið. Það er rétt að hafa í huga þegar við ræðum húsnæðismál og greinum orsök og afleiðingar þeirrar alvarlegu stöðu sem er uppi í þeim málum og reynum að átta okkur á orsakasamhenginu. Það á að fara í orsökina, ekki alltaf tala um afleiðingarnar.



[11:18]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langar að þakka málshefjanda fyrir að hafa frumkvæði að því að setja húsnæðismálin hér á dagskrá þingsins. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er mikill og það er nauðsynlegt að stjórnvöld ríkisins geri sitt til að vinna á honum. Húsnæðisöryggi er nokkuð sem ríkinu ber að tryggja almenningi enda er það grundvöllur fyrir því að fólk upplifi öryggi og góð lífsskilyrði. Við vinnslu fjárlagafrumvarpsins sem nú liggur fyrir þinginu hefur komið á daginn að núverandi ríkisstjórn ætlar að halda áfram á þeirri braut sem fyrri ríkisstjórnir hafa fetað. Þannig er helsti þunginn settur á að fólk geti keypt sér húsnæði. Hvaða afleiðingar hefur þessi stefna? Hún auðveldar það auðvitað fyrir hluta fólks að kaupa sér húsnæði, sérstaklega þeim sem geta með einhverjum hætti safnað þessum 5 milljónum sem þarf í útborgun, annaðhvort með því að búa lengi í foreldrahúsum og safna eða einfaldlega fá lán hjá vinum og vandamönnum. Við sjáum líka að fólk býr miklu lengur í foreldrahúsum á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Rétt um 15% af fólki á aldrinum 25–34 ára búa enn þá í foreldrahúsum, en þessi tala er rétt um 5% á hinum Norðurlöndunum.

Hvað með hina sem geta ekki útvegað sér þessar milljónir? Hvað með fólkið sem neyðist til að fara ungt á leigumarkað? Það er að miklum hluta fólk sem mun aldrei geta keypt sér eigið húsnæði. Leiguverð í Reykjavík og á Íslandi er líka hærra en á öllum Norðurlöndunum og ekki eru launin það miklu betri, sérstaklega ekki hjá láglaunahópum. Aðgerðir stjórnvalda til að auðvelda fólki að kaupa húsnæði eru ekki bara gagnslausar fyrir þetta fólk, þær gætu gert illt verra. Þegar farið er í aðgerðir til að auðvelda aðgengi að húsnæðiskaupum eykst eftirspurn eftir húsnæði til kaupa og verð hækkar og það þýðir að leiguverð hækkar.

Forseti. Ég legg til að við hugum betur að því fólki sem hefur verið skilið eftir á íslenskum húsnæðismarkaði, fólkinu sem er bara að reyna að láta mánaðarbókhaldið ganga upp og mun kannski seint eiga fyrir útborgun.



[11:20]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst hvorki ríki né sveitarfélög eða aðilar vinnumarkaðarins hafi staðið sig nægilega vel í því að tryggja öruggt húsnæði fyrir venjulegt launafólk undanfarin ár og áratugi. Ástandið á höfuðborgarsvæðinu er út úr kortinu, finnst mér, varðandi leiguverð og verð á húsnæði uppsprengt, sem gerir ungu fólki ókleift að kaupa nema með aðstoð foreldra. Og svo eru það þeir sem geta búið áfram í foreldrahúsum.

Staðan víða úti á landi er heldur ekki góð. Þar hefur verið húsnæðisskortur og hefur húsnæði kannski ekki verið byggt í marga áratugi. Þar hafa markaðslögmálin áhrif, byggingarverð er hærra en markaðsverðið. Eftir að lög um almennar leiguíbúðir voru samþykkt fór af stað uppbygging slíkra íbúða á þéttbýlisstöðum víða um land þar sem leiguverð á að vera viðráðanlegt. Það er gott. En við þurfum að standa okkur miklu betur og stórauka framboð á félagslegu húsnæði og stuðningi við fyrstu kaup ungs fólks.

Það vakti athygli mína og annarra þegar kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal reisti raðhús úr einingum frá Eistlandi á nokkrum vikum í sumar. Mér finnst að horfa þurfi til slíkra úrræða víða á landsbyggðinni og kannski líka hér á höfuðborgarsvæðinu.

Mér líst vel á margt af því sem ráðherra boðar í áætlunum sínum, t.d. aðgerðir til að styðja við fyrstu kaup og uppbyggingu á óhagnaðardrifnu leigufélagi með sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins. Kjarasamningar eru lausir í haust og áhersla verkalýðshreyfingarinnar á húsnæðisöryggi er mikil. Ég tek undir að ríkið eigi að koma þar að og tel að lífeyrissjóðirnir eigi að leggja sitt af mörkum í þeirri uppbyggingu.



[11:22]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir að vera með okkur hér í dag. Húsnæðisvandinn er sá vandi sem hefur verið hvað mest aðkallandi í samfélaginu í dag og við höfum svo sannarlega ekki farið varhluta af þeim hrópum sem að okkur hafa beinst. Ég ætla ekki að mæla bót þeirri lóðaskortsstefnu sem rekin er í boði t.d. Reykjavíkurborgar, lóðaskortsstefnu sem á sér eiginlega enga hliðstæðu vegna þess að það er enginn skortur á lóðum. Maður áttar sig ekki alveg á því hvers vegna ástandið er eins og raun ber vitni og hvað eiginlega liggur þar að baki.

Við megum kannski líta okkur pínulítið nær, hingað til löggjafarsamkundunnar, hingað til löggjafans sem heldur uppi okurvaxtastefnu, verðtryggingu á húsnæðislán og húsnæðisliðurinn sem er inni í húsnæðisláninu er í rauninni búinn að skapa heimilum landsins milljarða á milljarða ofan í álögur á lán þeirra. Hvers vegna byrjum við ekki bara á byrjuninni?

Virðulegi forseti. Markmið Íbúðalánasjóðs er að koma til móts við þá og honum er ætlað að koma til móts við þá sem þurfa aðstoð við að koma sér þaki yfir höfuðið. Hvað hefur hann svo gert? Hann hefur selt frá sér til ofurhagnaðardrifinna fyrirtækja hundruð íbúða í kippum í stað þess að setja þær út á markaðinn, okkar Íbúðalánasjóður, til hagnaðardrifinna fyrirtækja sem ekki nokkur einasti meðalmaður hefur efni á að leigja af öðruvísi en að fá hjálp annars staðar frá eða safna skuldum. Er ekki orðið tímabært að við lítum okkur pínulítið nær og Íbúðalánasjóður sem sennilega er með hæstu vaxtatöluna og það á þá sem minnst mega sín? Ég get lofað ykkur því að hið hagnaðardrifna okurleigufélag sem keypti íbúðirnar og fékk lán hjá Íbúðalánasjóði greiddi ekki 4,2% í vexti.



[11:24]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Hér er stórmál til umfjöllunar og ber að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að efna til þessarar umræðu. Þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum okkar allra. Líf án aðgangs að húsnæði er engum boðlegt. Sem betur fer búa flestir við slíkt öryggi en langt í frá allir. Okkur hefur ekki tekist sem skyldi að búa þannig um hnúta að þokkalegt jafnvægi sé á húsnæðismarkaði þar sem framboð og eftirspurn haldast betur í hendur. Markaðurinn hefur ekki ráðið við þetta verkefni með fullnægjandi hætti né hið opinbera. Þrátt fyrir að fullkomnu jafnvægi verði trúlega aldrei náð má gera miklu betur í þeim efnum. Slíkt jafnvægi er forsenda þess að þeir sem geta og vilja geti eignast eigið húsnæði.

Samt er það ekki nóg. Fasteignaverð, aðgangur að fjármagni og ekki síst vaxtakjör skipta hér höfuðmáli. Fyrirsjáanleiki er lítill fyrir þann sem skuldsetur sig um hver greiðslubyrði hans verður til framtíðar. Oft er íbúðakaupum líkt við fjárhættuspil þar sem allt er lagt undir. Það sem er yfirstíganlegt í dag verður það ekki að ári. Við þetta verður ekki búið. Sveiflur í þjóðarbúskapnum og kostnaðurinn við krónuna birtast hér af fullum þunga. Viðreisn telur að þessi vandi muni ávallt setja strik í reikning landsmanna þar til við leysum þann vanda sem fylgir krónunni og til þess er ein leið best, sem er að skipta um mynt. Það verður vissulega ekki gert á morgun en af því verður aldrei ef aldrei er lagt af stað í þá vegferð.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða hugmyndir hefur ráðherrann um að losa fasteignakaupendur undan þessu fjárhættuspili?



[11:27]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli málshefjanda mun Samfylkingin á næstu klukkustundum leggja fram þingsályktunartillögu um aðgerðir sem ætlað er að auðvelda fólki fyrstu kaup, tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna í vanda og auka framboð leiguhúsnæðis. Við leggjum til varanlegar leiðir út úr þeim ógöngum sem við höfum ratað í, varanlegar leiðir í átt til menningar og sóma. Þetta eru átta tillögur og ég mun hlaupa á þeim mjög stuttlega.

Við leggjum til að frumvarp til laga verði lagt fyrir Alþingi um startlán að norskri fyrirmynd með það að markmiði að auðvelda ungu fólki og barnafjölskyldum fyrstu kaup á húsnæði.

Þá fari íslensk stjórnvöld að koma sér að því að byggja upp í það minnsta 5.000 leiguíbúðir á næstu árum til að koma fótunum undir leigumarkað sem er rekinn án hagnaðarsjónarmiða.

Í þriðja lagi leggjum við til að skyldur verði settar á sveitarfélög þegar kemur að félagslegu húsnæði með það að markmiði að jafna byrðar sveitarfélaga.

Í fjórða lagi að húsnæðis- og vaxtabætur verði hækkaðar í samræmi við launaþróun og skerðingar minnkaðar með það að markmiði að minnka skattbyrði lág- og millitekjuhópa.

Í fimmta lagi að íslensk byggingarreglugerð verði einfölduð og samræmd við reglugerðir annars staðar á Norðurlöndum til að greiða fyrir möguleikum á að gera einingar og raðsmíði hagkvæmari kost.

Í sjötta lagi að frumvarp til laga verði lagt fyrir Alþingi sem undanskilji tekjur einstaklinga vegna útleigu einnar íbúðar fjármagnstekjuskatti.

Frumvarp verði lagt fyrir Alþingi um breytingu á húsaleigulögum til að tryggja húsnæðisöryggi og réttindi leigjenda og annað um breytingu á lögum um húsnæðisbætur með það að markmiði að ungt fólk og öryrkjar sem deila húsnæði öðlist rétt á húsnæðisbótum.

Virðulegur forseti. Þetta er boðskapur og baráttumál jafnaðarmanna. Við væntum þess að þeir hv. þingmenn sem í raun vilja greiða götu þess mikla velferðarmáls að gera öllum kleift að búa við húsnæðisöryggi leggist af fullum þunga (Forseti hringir.) á sveif með okkur. Málið er ekki flókið, við viljum að allir geti átt heimili, að fjölskyldur og barnafólk séu ekki á hrakhólum.



[11:29]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni mikilvæga umræðu um húsnæðismál með hæstv. ráðherra Ásmundi Einari Daðasyni. Eins og fram hefur komið í umræðunni svo glögglega er öruggt húsnæði lykilatriði og á meðal forgangsmála að fólk hafi tök á að koma sér þaki yfir höfuðið. Við lítum á það sem algjöra grunnþörf. Auðvitað eru húsnæðismál kjaramál, hluti af lífskjörum ólíkra hópa á ólíkum stað í lífshlaupi sínu.

Þrátt fyrir góðan sameiginlegan vilja og mælikvarða sem segja okkur að hér sé almenn velmegun og lífskjör með því besta sem gerist í alþjóðlegum samanburði, þrátt fyrir þá auknu og almennu velmegun er það staðreynd að fasteignaverð er hátt og vextir háir sem gerir til að mynda ungu fólki erfitt fyrir að kaupa sína fyrstu eign, gerir leigumarkað erfiðan og húsnæðiskostnaðinn við að halda heimili hlutfallslega háan, hvort heldur átt er eða leigt, og enn fremur gerir það mörgum erfitt að ná saman endum milli launadaga. Stjórnvöld hafa í gegnum tíðina beitt ýmsum aðferðum til að ná því markmiði að tryggja húsnæðisöryggi; aðgerðir til stuðnings fyrstu kaupum, niðurgreitt lán með vaxtabótum, reynt að tryggja framboð á félagslegu húsnæði. Allt er þetta til staðar í dag og við sjáum það í fjárlagafrumvarpi, samtals 13,5 milljarðar sem er 100 þús. kr. á hvert einasta heimili í landinu. Með jöfnuð í huga og ólíka hópa eigum við að geta ráðstafað þeim miklu fjármunum (Forseti hringir.) á einfaldari og skilvirkari hátt.



[11:31]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka upphafsmanni þessarar umræðu fyrir umræðuna og fyrir aldeilis prýðilega ræðu sem ég ráðlegg honum að senda borgarstjóranum í Reykjavík.

Þannig er mál með vexti að hér í Reykjavík ríkir neyðarástand á húsnæðismarkaði vegna langtímalóðaskorts af manna völdum og borgaryfirvöld í Reykjavík hafa séð sig knúin til að styðja sérstaklega við stórgróðafyrirtæki sem reisa íbúðir fyrir auðmenn. Þannig er hægt að fá í úrvali í Reykjavík íbúðir sem kosta 100–250 milljónir. Ég hugsa að þær falli nú ekki vel að fyrstu kaupum. Þessar íbúðir eru miðsvæðis í Reykjavík svo þessum auðmönnum reynist betur að komast um í Reykjavík á reiðhjólum sínum.

Auk þess er töluvert af íbúðum í skattaskjóli Airbnb sem sá sem hér stendur hefur barist hatrammlega fyrir í fimm ár að böndum verði komið á og það hillir undir það. Allt þetta leiðir af sér hátt húsnæðisverð og hátt leiguverð.

Á þessum tíma, akkúrat á þessum tíma, væri gott að eiga öflugan Íbúðalánasjóð. En Íbúðalánasjóður er nú orðinn að eins konar rannsóknarsetri og fyrir utan það er hann skurnin ein vegna þess að einhver vildarklúbbur Framsóknarmanna hefur gengið þar um eins og menn í kaupfélagi og afgreitt sig sjálfir og keypt íbúðir af Íbúðalánasjóði undanfarin 10 ár fyrir 57 milljarða kr. Þessar íbúðir hefðu betur verið komnar í leigu fyrir fólk sem hefur lágar tekjur.

Svo innvígður er þessi vildarklúbbur Framsóknarmanna að ekki er hægt að segja okkur þingmönnum hverjir skipa hann. Sá sem hér stendur lagði inn fyrirspurn í mars sl. um það hverjir það væru sem hefðu notið þessara kjara Íbúðalánasjóðs. Svar hefur ekki borist.

Undirstaðan að því að láglaunafólk og millitekjufólk geti keypt íbúðir í fyrsta sinn er lóðaframboð og mergur málsins er að lækka okurvextina og (Forseti hringir.) koma verðtryggingunni af. Þá fáum við kannski vit í þetta mál.



[11:34]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu brýna máli sem við höfum reyndar rætt alloft á síðustu misserum í þessum ágæta þingsal.

Nýverið kom út skýrsla frá Íbúðalánasjóði sem sagði okkur m.a. að íbúðaverð í höfuðborginni væri með því lægsta á Norðurlöndum, sem ég verð reyndar að viðurkenna að kom mér svolítið á óvart. Engu að síður er leiguverð það allra hæsta. Þetta skýtur svolítið skökku við í mínum huga. Ég held að það sé alveg ljóst, og tek undir það sem hæstv. ráðherra fór með hér áðan, að það þarf að fara yfir regluverkið þegar kemur að leiguíbúðum til að tryggja réttindi leigutaka.

Ég verð samt að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst stundum eins og við tölum hér eins og við getum bara sveiflað einhverjum töfrasprota og lagt fram þingsályktunartillögur um að fjölga íbúðum um þetta mörg þúsund og þá bara gerist það og allir fái þak yfir höfuðið. Ég hef ekki trú á því að það sé alveg svona einfalt.

Það hefur verið ójafnvægi á þessum markaði svo áratugum skiptir. Hann fer reglulega upp og svo niður. Ég held að hlutverk okkar hér sé frekar að horfa til þess hvernig við getum til lengri tíma náð einhverjum stöðugleika á mannvirkjamarkaðnum, hjá þeim sem eru að byggja þessar íbúðir. Og kannski, í ljósi þeirrar fyrirspurnar sem kom hérna áðan til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, gæti líka verið að hluti af vandamálinu lægi í því að við höfum ekki nægilega marga iðnaðarmenn hér á landi. Ég þekki það sjálf að vera að reyna að fá málara, það er býsna erfitt.

Ég tek undir margt af því sem fram hefur komið hérna, en held líka að við ættum stundum að tala ögn rólegar, við munum nefnilega ekki geta leyst hér málin með því að varpa fram einhverjum tölum um að byggja svona mikið eða hitt. Við eigum fyrst og fremst að hugsa um rammann sem lýtur að þessu.

Það er vissulega skortur á lóðum og hefur verið á höfuðborgarsvæðinu. En ég vil þó líka taka fram að sveitarfélögin í kringum Reykjavík hafa byggt umtalsverðan fjölda af íbúðum á síðustu árum. (Forseti hringir.) Þá vil ég bara nefna að í Mosfellsbæ voru byggðar 400 íbúðir á árinu 2017 í 10.000 manna samfélagi. (Forseti hringir.) Það er því líka margt um að vera á höfuðborgarsvæðinu og töluvert hefur verið byggt.



[11:36]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í skýrslu Íbúðalánasjóðs um samanburð á húsnæðismörkuðum Norðurlandanna og nágrannaþjóða kemur ýmislegt áhugavert fram. Íbúðaverð er lágt á Íslandi miðað við nágrannaþjóðir en leiguverð og vextir eru hæstir. Einnig kemur fram að íbúðaverð sé lágt miðað við tekjur, en í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Á Íslandi er þetta hlutfall það lægsta meðal þeirra 39 Evrópulanda sem gögnin ná til og það segir okkur að íbúðaverð hér á landi sé lágt miðað við tekjur.“

Þetta er mjög áhugavert. Bæði er íbúðaverð lágt á Íslandi og íbúðaverð lágt miðað við tekjur. Á sama tíma er leiguverð í hæstu hæðum. Þetta skýtur skökku við þar sem fólk sem leigir fyrir hæsta leiguverð samanburðarlandanna stenst ekki greiðslumat fyrir láni fyrir sömu íbúð. Við skulum staldra aðeins hérna við og spyrja okkur hvert vandamálið sé. Margir segja að vandamálið sé háir vextir og verðtryggingin. Það er vissulega vandamál út af fyrir sig, en hvaða áhrif myndi það hafa að lækka vextina og losna við verðtrygginguna? Ef eitthvað er að marka þennan samanburð og reynslu okkar af húsnæðismarkaði hér á landi á undanförnum áratugum mun íbúðaverð hækka um það sem nemur því sem vextir lækka. Þegar meira svigrúm er til að greiða af lánum, af því að íbúðaverð er lágt miðað við laun, notar markaðurinn einfaldlega það svigrúm.

Með því að lækka vexti mun fólk fara að taka hærri lán sem eru þá með hærri afborganir, en a.m.k. hættir okkur að svíða undan óréttlæti og ógagnsæi verðtryggingarinnar.

Sá kostnaður færist að lokum inn í húsnæðisverðið. Þannig hættum við að borga íbúðina margfalt, íbúðin mun einfaldlega hækka í verði um það sem munar þar á milli. En þetta skiptir mjög miklu máli í heildarsamhenginu því að húsnæðisverðið, húsnæðismarkaðurinn og séreignarstefnan er hinn hluti lífeyrissjóðakerfisins okkar. Ef við erum komin á lífeyri og eigum ekki húsnæði, okkar eigin eign, (Forseti hringir.) þá duga lífeyristekjurnar alls ekki. Og aðstoð við að hjálpa fólki við að kaupa íbúð hjálpar ekkert rosalega mikið, sérstaklega ekki í núverandi ástandi þegar það vantar íbúðir á annað borð, (Forseti hringir.) þannig að það verður líka, sérstaklega í núverandi ástandi, að byggja. Það er mjög einfalt.



[11:39]
Forseti (Jón Þór Ólafsson):

Forseti vill benda þingheimi á að tölvukerfið okkar er eitthvað í rugli þannig að þótt það blikki rautt er ég með klukkuna í vasanum.



[11:39]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu, eins og svo margir aðrir. Hún varpar dálítið góðu ljósi á það að okkur vantar heildarstefnu í húsnæðismálum. Ég þykist vita að ráðherra sé með slíka stefnu í vinnslu í samræmi við lagabreytingu sem við gerðum hér í vor og ég heyri líka á ráðherra að þar ætli hann að taka dálítið á stofnframlagakerfinu, almennu íbúðunum, sem er gríðarlega mikilvægt skref sem var stigið fyrir eigna- og tekjulága einstaklinga. En það þarf að laga þetta kerfi aðeins þannig að það nái að uppfylla þær væntingar sem við berum til þess.

Hér talaði upphafsmaður umræðunnar um þá tilfinningu að eiga varanlegt heimili, húsnæðisöryggi. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum að staldra dálítið við. Við sjáum í könnunum að það er himinn og haf á milli þess hvernig fólk upplifir húsnæðisöryggi sitt eftir því hvernig það býr. Fólk sem býr í eigin húsnæði upplifir sig 94% öruggt. Fólk sem býr í leiguhúsnæði rúmlega 50%. Þetta er að sjálfsögðu óásættanlegt. Við þurfum og við verðum að koma upp öflugum leigumarkaði sem er ekki hagnaðardrifinn til þess að leigumarkaður sé ekki bara félagslegt úrræði. Þó að það skipti mjög miklu máli að við náum utan um tekju- og eignalágu hópana og komum þeim inn í öruggt og varanlegt leiguhúsnæði skiptir líka svo miklu máli að við náum fólkinu í lægri millitekjuhópum og þaðan af hærri, veitum því fólki þann valkost að skuldsetja sig ekki upp í rjáfur í fjötrum séreignarstefnunnar.

Ég má til með, forseti, af því að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson var dálítið blúsaður í ræðustól áðan og ég myndi kannski ekki kveða jafn fast að orði og hann og tala um lóðasveltistefnu eða ófremdarástand, (Forseti hringir.) en hann getur huggað sig við það (Gripið fram í.) að þéttingarstefna Reykjavíkurborgar og höfuðborgarsvæðisins alls (Forseti hringir.) þjónar þeim tilgangi að hér verði lífvænlegt samfélag til framtíðar. (Gripið fram í.) Hér á besta stað í borginni eigum við yfirdrifið nóg af byggingarlandi (Forseti hringir.) sem nú um stundarsakir er lagt undir flugvöll, en hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson má vita að það stendur til bóta.



[11:41]
Forseti (Jón Þór Ólafsson):

Forseti má til með að minna ræðumenn á að halda ræðutíma. Í þetta skipti var farið 36 sekúndur fram yfir tveggja mínútna ræðu.



[11:42]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka fyrir umræðu málshefjanda og ráðherra og öðrum fyrir þátttöku í henni. Við skulum tala aðeins um húsnæðisöryggi. Það eru ekki margar vikur síðan að dómsmálaráðherra staðfesti í svari við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur að á tíunda þúsund fjölskyldur hafi verið hraktar af heimilum sínum undanfarin ár frá hruni. Það eru ekki undir 30.000 manns. Íslenskar fjölskyldur, feður, mæður og börn rekin út. Það er húsnæðisöryggið sem þetta fólk hefur búið við. Eigum við hér bara að yppa öxlum, eða hvað? Ætlum við ekkert að læra af þeirri reynslu? Ætlum við ekkert að gera? Ætlum við ekki að bregðast við?

Ætlum við að halda áfram verðtryggingarkerfinu og ofurvaxtafyrirkomulaginu? Ætlum við að búa við verðtryggingarkerfi sem sviptir fólk nánast fjárhagslegu sjálfstæði sínu?

Það er eins og að standa á dýjasandi fyrir fólk sem býr við þetta. Það getur sokkið án nokkurs fyrirvara, eins og reynslan sýnir. Ætlum við að hafa þennan húsnæðislið sem ræðst af ákvörðunum sem eru teknar á skrifstofum, ekki síst hérna við Tjörnina, eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson rakti svo ágætlega í ræðu? Ætlum við að innheimta áfram af bréfum þar sem lánastofnanir geta ekki sýnt frumrit? (Forseti hringir.) Hvað á þetta fyrirkomulag að standa lengi án þess að menn hafist að?

Ég leyfi mér, herra forseti, að vekja athygli á frumvarpi sem allir þingmenn Flokks fólksins (Forseti hringir.) og Miðflokksins standa að þar sem er verulega er tekið á þeim málum, verðtryggingunni, (Forseti hringir.) með fjölþættari og víðtækari hætti en áður hefur sést.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir enn þingmenn á að halda ræðutíma.)



[11:44]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Forseti. Það er rétt að rifja upp að undir forystu Viðreisnar á sínum tíma í ríkisstjórn tóku fjögur ráðuneyti og öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu höndum saman um aðgerðir til að reyna að leysa húsnæðisvandann með auknu lóðaframboði, lækkun byggingarkostnaðar og samræmingu á húsnæðisáætlunum sveitarfélaga að leiðarljósi.

Í þeirri ríkisstjórn var lögð fram 14 skrefa áætlun og því er rétt að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé örugglega verið að vinna að mestu leyti eftir þessari áætlun enn þá því að það er óþarfi að finna upp hjólið í hvert skipti sem nýr ráðherra sest í ráðuneytið. Í þeirri áætlun voru ýmsar punktar sem ég vona að ráðherra geti fullvissað þingheim um að enn sé verið að vinna eftir. Er verið að vinna húsnæðisstefnu stjórnvalda eins og fyrri ríkisstjórn stefndi að? Hún átti að byggja á því að húsnæðisáætlanir væru samræmdar á höfuðborgarsvæðinu og tækju mið af fólksfjölgun. Þar var jafnframt lögð til einföldun á regluverki í byggingarmálum þar sem gerðar væru breytingar á lögum mannvirkja og byggingarreglugerð sem miði að lækkun byggingarkostnaðar sem ætti að skila sér í lægra húsnæðisverði. Hvar eru þessar tillögur?

Mig langar að vitna í fyrrverandi hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra, Þorstein Víglundsson, sem sagði m.a. um þetta verkefni:

„Markmiðið með verkefninu er að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur og að flýta þeim tímapunkti að við náum jafnvægi á húsnæðismarkaðinn á nýjan leik. Við ætlum að með þessum aðgerðum getum við hraðað því að jafnvægi náist aftur á fasteignamarkaði þannig að við metum þetta svo að með þessum aðgerðum myndi jafnvægi nást í kringum árið 2019.“

Rétt er að spyrja hæstv. núverandi ráðherra: Hvenær næst jafnvægi að mati ráðherrans?



[11:47]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nei, hv. þm. Ólafur Ísleifsson, við ætlum ekki endalaust að ræða ofurvexti og verðtryggingu í því augnamiði að viðhalda því. En er kannski ekki kominn tími til þess að við förum þó aðeins að ræða um sjúkdóminn en ekki alltaf sjúkdómseinkennin? Þessir þingmenn geta endalaust komið hingað upp og talað um einhverja „kvikk“-lausn sem reddar öllu án þess að átta sig á afleiðingunum. Förum þá að taka undir með hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni og ræðum orsökina, ræðum krónuna, ræðum gjaldmiðilinn. Ég fer alveg óhræddur í þá umræðu.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, ég talaði einmitt um að við værum ekki að sveifla einhverjum töfrasprota. Hins vegar þurfum við að búa til varanlegan markað sem gerir það að verkum að ákveðinn hluti af íbúðamarkaðnum sé með þeim hætti að hér skapist ekki alltaf ófremdarástand þegar við lendum vegna óstöðugs gjaldmiðils niður í öldudal. Förum bara að ræða sjúkdóminn og hættum að ræða sjúkdómseinkennin.

Mér fannst bjartur tónn, herra forseti, í ræðu ráðherra en það vantar auðvitað áþreifanlegri aðgerðir. Það er áhugavert að hann nefni finnsku leiðina en ASÍ hefur margóskað eftir meira fjármagni í stofnframlög, án árangurs. Og hvað varðar svissnesku leiðina, um ráðstöfun lífeyrissparnaðar, hefur séreignarsparnaðurinn eingöngu nýst best stæða fólkinu og lífeyrissparnaður á ekki að vera vettvangur áhættufjárfestinga. ASÍ hefur lagst gegn þessari svissnesku leið. Ég held að við þurfum að ræða aðeins hvernig við náum stöðugra efnahagsumhverfi hér á landi áður en við förum að hvetja fólk til þess að eyða öllum lífeyrissparnaði sínum í hús. (Forseti hringir.)

Að lokum ítreka ég fyrri spurningu, sem hæstv. ráðherra svaraði ekki: Er hann tilbúinn að beita sér fyrir því (Forseti hringir.) að öll sveitarfélög í landinu þurfi að sinna (Forseti hringir.) skyldum sínum þegar kemur að uppbyggingu félagslegs húsnæðis eða ætlar hann að láta nokkur sveitarfélög í landinu bera það uppi?



[11:49]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Um leið og ég hrósa hv. þm. Loga Einarssyni fyrir ansi góða framsöguræðu í upphafi var dapurlegt að sjá hann detta í evruumræðuna hér í lokin vegna þess að ég held að evran sé ekki það sem leysi húsnæðisvandann á Íslandi.

Ég vil byrja á því að segja að mér hefur fundist þessi umræða vera gríðarlega góð. Ég held að í þessum sal sé miklu meiri samhljómur en kannski margir halda. Við verðum að ná því hér í gegn að við förum að vinna áætlanir til lengri tíma, draga úr sveiflum, það er verið að vinna að því, það eru mörg sveitarfélög þegar farin að vinna húsnæðisáætlanir. Í nýjum lögum sem samþykkt voru um Íbúðalánasjóð á síðasta þingi var einmitt samþykkt að sveitarfélög á sameiginlegum atvinnusvæðum myndu vinna sameiginlegar húsnæðisáætlanir. Við þurfum í auknum mæli að horfa til þess að höfuðborgarsvæðið fari að vinna meira saman í þessum málum. Ég held að það svari þá líklega spurningu hv. þingmanns (LE: Nei, nei.) um það að um leið og þau fara að vinna saman verða allir að leggja sitt af mörkum, í lóðum og öðru slíku.

En jafnvel þótt við myndum tryggja mikið framboð á lóðum, ekki bara í Reykjavík heldur í fleiri sveitarfélögum, hefur markaðurinn sýnt að hann hefur ekki getað leyst húsnæðisvandann sjálfur hér á landi. Þess vegna þurfum við miklu meiri félagslegar lausnir samhliða því. Við þurfum aðgerðir fyrir fyrstu kaupendur, verið er að vinna í þá veruna. Við þurfum líka miklu öflugri óhagnaðardrifinn leigumarkað og það er einnig verið að vinna í þá veru, bæði beint hjá ríkinu í gegnum Íbúðalánasjóð og eins í samtali við sveitarfélög og aðila vinnumarkaðar.

Þó að markaðurinn sé góður og þó að hann sé góður til ákveðinna hluta hefur hann ekki einn og sér getað leyst húsnæðisvandann á Íslandi. Þess vegna eiga stjórnvöld að grípa inn, vegna þess að húsnæðismál eru velferðarmál. Þau verða velferðarmál og við eigum að horfa á þau eins og þau séu velferðarmál. Það er sú nálgun sem þessi ríkisstjórn hefur á þennan málaflokk. Það er gríðarlega gott og jákvætt að taka umræðuna hér á þinginu sem oftast um þessi mál og ég fagna því í hvert skipti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða umræðu.