149. löggjafarþing — 13. fundur
 9. október 2018.
lögbann á Stundina.

[13:52]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Korteri fyrir alþingiskosningarnar 2016 setti sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lögbann á fréttaumfjöllun Stundarinnar sem þá fjallaði um fjármál þáverandi forsætisráðherra og núverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar, í samhengi við efnahagshrunið 2008.

Lögbannið var vitaskuld harðlega gagnrýnt á þeim tíma enda hneykslanlegt svo ekki sé meira sagt. Ákvörðunin um lögbann fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem dæmdi Stundinni í vil, en þá var áfrýjað til Landsréttar. Þann 5. október sl. staðfesti Landsréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Ljóst var þá, eins og reyndar fyrr, að umfjöllunin átti fullt erindi til almennings. Þessi niðurstaða hlýtur að segja sína sögu.

En talandi um sögu. Árið 2010 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu Birgittu Jónsdóttur, þáverandi hv. þingmanns, og fleiri um að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis í máli nr. 383 á 138. löggjafarþingi. Síðan þá hafa liðið átta ár. Enn eru frumvörpin sem ályktunin kvað á um ekki fram komin og er biðin löngu orðin mjög þreytandi. Frá því að ályktun Alþingis var samþykkt hefur Ísland hins vegar dregist aftur úr samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum um tjáningarfrelsi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem varað er við því í þessari pontu.

Aftur að dómi Landsréttar. Í kjölfar lögbannsins lagði þingflokkur Pírata fram frumvarp þar sem lagt er til að ekki sé hægt að setja lögbann á fjölmiðil nema með aðkomu dómstóla. Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra með hliðsjón af undangengnum dómum í áðurnefndu lögbannsmáli Glitnis HoldCo gegn Stundinni: Telur ráðherrann að breyta þurfi lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. til að koma í veg fyrir það að tjáningarfrelsið á Íslandi bíði aftur þvílíkan skaða og hnekki eins og fyrir téðar alþingiskosningar?



[13:54]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna um mikilvægt mál. Snemma á þessa árs skipaði ég starfshóp til að fjalla sérstaklega um þau mál sem tengjast m.a. þeirri ályktun, IMMI-ályktuninni í daglegu tali nefnd, sem hv. þingmaður vísaði til, þ.e. ályktun um vernd tjáningarfrelsis og ég man ekki nákvæmlega síðari hlutann á fullu heiti hennar á íslenskri tungu, en IMMI-ályktunina skulum við kalla hana. Sá hópur hefur verið að störfum og gaman er að segja hv. þingmanni frá því að hann mun skila af sér fimm frumvörpum í lok þessarar viku og kynna þau. Þau verða þá sett inn á samráðsgátt Stjórnarráðsins. Þar eru frumvörp sem m.a. tengjast ábyrgð hýsingaraðila, gagnageymd, ærumeiðingum, stjórnsýslulögum hvað varðar þagnarskyldu og tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna.

Í síðari hluta verkefnisins, sem var skilgreint strax þegar hópurinn var skipaður, er annars vegar endurskoðun upplýsingalaganna og hins vegar að skoða sérstaklega lögin um lögbann. Einhvern tímann höfum við hv. þingmaður áður rætt þetta mál í þingsal og það er mín skoðun að lögunum þurfi að breyta, að eðlilegt sé að lögbann fari beint til dómstóla, það sé hin eðlilega leið fremur en til sýslumanns og þaðan til dómstóla eins og við höfum séð gerast. Það hefur verið mín skoðun og mitt mat á þeim málum. Hins vegar hef ég óskað eftir því að hópurinn, undir forystu Eiríks Jónssonar, prófessors við Háskóla Íslands, skili frumvarpi. Þetta er samráðsnefnd nokkurra ráðuneyta; dómsmálaráðuneytis sem fer með þessi lög, menntamálaráðuneytis sem fer með málefni fjölmiðla og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis sem fer m.a. með málefni netöryggis. Ég á von á frumvarpsdrögum frá þeim hópi hvað varðar þau mál núna á vormisseri. Hin frumvörpin eru á þingmálaskrá miðuð við desember og þess vegna fagna ég því mjög ef þau fara núna í opið samráð um miðjan mánuðinn þannig að (Forseti hringir.) færi muni gefast á að hafa áhrif á efni þeirra.



[13:57]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrst verð ég að leiðrétta eitthvað sem ég skrifaði rangt í glósur mínar. Það voru auðvitað kosningarnar 2017 en ekki 2016.

Ég fagna svari hæstv. forsætisráðherra og þakka fyrir viðleitnina. Ég vil þó árétta að við höfum dregist aftur úr og hætt er við því að þegar vinnan tekur svona langan tíma og þegar mál af þessu tagi tefjast svona lengi — og nú er ég ekki að álasa neinum, ég veit að einhverjar ríkisstjórnir hafa setið síðan þetta var samþykkt — er hætt við að þegar við loksins tökum upp boltann sem við höfum misst drögumst við enn aftur úr vegna þess að það er orðið þó nokkuð síðan þessi tillaga var samþykkt.

Málefni er varða tjáningarfrelsi breytast, ekkert voðalega hratt en þau breytast með tímanum vegna upplýsingatækni og vegna þess að ný atriði koma stöðugt fram sem búa til nýjar áskoranir. Téð lögbann er t.d. nokkuð sem ég hefði haldið (Forseti hringir.) að væri óhugsandi áður en það átti sér stað. En það er nú þannig með margt að það er óhugsandi þar til það verður hugsanlegt og raungerist í kjölfarið.

Ég fagna svari hæstv. forsætisráðherra og hvet hann til dáða í málaflokknum.



[13:58]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Ég vil þó segja að ég lít á þetta sem töluvert meira en viðleitni, ég lít á það sem aðgerðir. Ég vil rifja upp, af því að hv. þingmaður rifjar upp ágæta tillögu fyrrverandi hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, að áhrifa hennar gætti um leið í því frumvarpi sem seinna varð að lögum um fjölmiðla árið 2011. Þar voru sett inn nokkur atriði sem áttu rætur að rekja beint í þá tillögu og vörðuðu m.a. sjálfstæða ritstjórnarstefnu og vernd blaðamanna þannig að þá þegar skilaði sú tillaga sér að einhverju leyti inn í lögin.

Það er hins vegar mikilvægt að fara á nýjan leik yfir fjölmiðlalögin á næstu misserum, m.a. út frá þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður lýsir.

Ég ítreka að þessi fimm mál verða kynnt og sett í opið samráð í október. Þau eru á þingmálaskrá í desember. Nefndin hefur staðist alla tímafresti og ég vonast því til þess að m.a. frumvarp um lögbann og endurskoðun upplýsingalaga og vernd uppljóstrara komi fram á vorþingi. Þá ættum við að sjá verulegar framfarir í öllum þeim málum er lúta að tjáningar- og upplýsingafrelsi sem er ekki síður áhugamál mitt en hv. þingmanns. (Forseti hringir.) Ég held að mjög mikilvægt sé að við náum góðri samstöðu á þinginu um að gera betur í þeim málum. Ég tek undir með hv. þingmanni að við höfum öll efni til að standa framarlega á því sviði.