149. löggjafarþing — 13. fundur
 9. október 2018.
brotastarfsemi á vinnumarkaði.

[14:07]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra en hún snýr að aðgerðum gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði.

Sú umfjöllun sem verið hefur í fjölmiðlum undanfarna daga sýnir hið grafalvarlega vandamál sem við er að etja. Þetta er ekki nýtt vandamál, þetta hefur verið þekkt um árabil hér á vinnumarkaði. Auðvitað er sú brotastarfsemi sem þarna var lýst ekkert annað en skipulögð brotastarfsemi. Því miður virðist sá vandi oft vera uppi að það er alveg sama til hvaða lagasetninga er gripið eða sektarheimilda því að um einbeittan brotavilja viðkomandi einstaklinga er að ræða. Þess vegna reiðum við okkur mjög á eftirlit með starfsemi þeirra sömu aðila.

Ráðherra hefur nú kynnt áform sín um stofnun starfshóps til að sporna gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði. Það er reyndar áhugavert að fylgjast með ríkisstjórninni því að hún virðist vera sérstakur áhugamaður um stofnun starfshópa um ótrúlegan fjölda málefna, stofnar jafnvel starfshópa til að skoða fyrri starfshópa.

Hér er aðgerða þörf. Ég held að við þurfum í sjálfu sér ekki að verja miklum tíma í að átta okkur á því að brýnna aðgerða er þörf og sér í lagi er snýr að því að samræma og styrkja eftirlit hins opinbera. Þar þarf kannski ekki langa skýrslugerð, ég held að þau álitaefni sem þar hafa verið uppi séu vel þekkt. Það var t.d. ákveðið í tíð síðustu ríkisstjórnar að auka fjármagn til Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar til að styrkja eftirlitsþáttinn og er ánægjulegt að heyra hæstv. ráðherra lýsa því að það hafi skilað sér í aukinni tíðni eftirlitsheimsókna sem er kjarni máls til að koma upp um þá brotastarfsemi sem hér er lýst.

Það er líka áhugavert að fylgjast með muninum. Við sáum fréttaflutning í dag þess efnis að níu starfsmenn hefðu verið grunaðir um svik með því að framvísa fölsuðum skilríkjum. Þeir voru handteknir „med det samme“, en á sama tíma líðum við skipulega brotastarfsemi atvinnurekenda gegn starfsfólki sínu (Forseti hringir.) án sýnilegra aðgerða.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað hyggst ráðherra gera nú þegar til að styrkja það eftirlit sem haft er með þessari starfsemi?



[14:10]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir og segja, eins og þingmaðurinn kom inn á, að við höfum við gripið til ýmissa aðgerða. Í júní voru samþykkt ný lög til að skerpa á öllu því sem snýr að starfsmannaleigum, keðjuábyrgð og öðru slíku. Þau lög hafa þegar tekið gildi og hluti af þeim tók raunar gildi á haustdögum þannig að menn eru að fóta sig inn í þá hugsun. Þar er hert mjög sektarákvæði sem Vinnumálastofnun getur m.a. lagt á fyrirtæki sem ekki eru samstarfsfús gagnvart stofnuninni í eftirlitsþáttum sínum.

Síðan er það svo að við höfum verið og erum að ræða að kalla alla aðila að borðinu í þeim efnum, sem er tillaga sem samþykkt var í ríkisstjórn fyrir þremur vikum, ekki aðeins eftirlitsstofnanir sem heyra undir félagsmálaráðuneytið heldur erum við líka með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og fjármálaráðuneytið, við erum með lögregluna og skattinn ásamt aðilum vinnumarkaðar, til þess að forma hvernig við ætlum að fara í samhentar aðgerðir í því, hvernig við ætlum í sameiningu að styrkja stoðina á milli stofnananna. Sú aðgerð er í gangi. Það var bara á föstudaginn sem síðustu tilnefningar áttu að berast í hópinn sem á að forma það. Það vantaði að vísu einhverjar tilnefningar og er verið að ýta á eftir þeim, en ég vona að hópurinn geti fundað sem fyrst þannig að hægt sé í fyrsta lagi að hleypa af stað samhentu átaki. Það er númer eitt. Í öðru lagi er að undirbúa og ræða hvort ekki sé ástæða til að setja harðari viðurlög gagnvart þeim sem gerast ítrekað brotlegir um alvarlega þætti, eins og við sáum í umræddum sjónvarpsþætti.

Ég segi eins og er: Við höfum gripið til aðgerða. Við erum að grípa til aðgerða. Við hv. þingmaður erum algjörlega sammála um að það verður að gerast. En lykilatriðið í því er að aðilar sem að því koma vinni saman vegna þess að annars er slagkrafturinn ekki nógu mikill.



[14:12]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég held að ekki þurfi að bíða eftir niðurstöðu starfshóps til þess að fela viðkomandi eftirlitsaðilum að fara sameiginlega í eftirlitsferðir. Það er það sem kallað hefur verið eftir árum saman en tregða hefur verið til þess innan opinbera kerfisins og þar held ég að sé þá bara samstarf hæstv. ráðherra við hæstv. fjármálaráðherra, sem dæmi, og hæstv. atvinnuvegaráðherra sömuleiðis, um að samræma þetta eftirlit. Það leiðir hugann kannski að annarri spurningu: Er gert ráð fyrir einhverju fjármagni í fjárlögum næsta árs til að herða eða efla slíkt eftirlit? Ég finn þess ekki alveg stað.

En það er líka annað sem ég myndi vilja heyra hæstv. ráðherra fara aðeins út í. Hér er lýst þessu mikla valdamisvægi sem er milli atvinnurekenda og starfsfólks af erlendum uppruna sem þekkir illa rétt sinn. Brothættasti hópurinn þar er einmitt fólk utan EES-svæðisins og reisir í raun og veru atvinnuréttindi sín á vinnuveitanda sínum, ekki sjálfstæðum rétti, og þar sakna ég mjög stefnu þessarar ríkisstjórnar. Fyrri ríkisstjórn lagði t.d. mikla áherslu á einfalda veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk (Forseti hringir.) utan Evrópska efnahagssvæðisins og líka að viðurkenna réttindi og þekkingu þessa fólks en ég finn ekki nein merki í stjórnarsáttmála um að núverandi ríkisstjórn hafi einhvern metnað í þessum efnum. Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra gæti aðeins frætt okkur um það.



[14:13]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Rétt eins og hv. þingmaður sagði hefur verið kallað eftir því árum saman að menn fari í samþættar aðgerðir. Kallað hefur verið eftir því alveg síðan hv. þingmaður var formaður SA og m.a. ráðherra þessa málaflokks (Gripið fram í.) — framkvæmdastjóri.

Þess vegna er ánægjulegt að við skulum vera að fara í þá vegferð að kalla alla að borðinu til að undirbúa það sem hv. þingmaður kallar eftir. Ég held að við ættum báðir að geta fagnað því að nákvæmlega það sé að gerast. Þetta er einmitt það sem fólst í tillögunni sem lögð var fyrir ríkisstjórnina fyrir þremur til fjórum vikum og var samþykkt þar samhljóða, en í henni sem sitja m.a. fjármálaráðherra, fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, ráðherrar, og félagsmálaráðherra og allir samþykktu tillöguna.

Tillagan felur í sér að fara í samþættar aðgerðir. Ef það að menn tali saman leiðir til þess að sett sé fjármagn í þetta á það að sjálfsögðu að geta fylgt. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Við eigum að taka á og það er alveg sama hvort einstaklingarnir eru innan eða utan EES, bregðast þarf eins við slíku.