149. löggjafarþing — 13. fundur
 9. október 2018.
laxeldi í sjókvíum.

[14:15]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti Við verðum að fara varlega í uppbyggingu á fiskeldi, atvinnugrein sem er rétt á barnsfótum núna. Þessi rödd heyrist víða í umræðunni um fiskeldi. Enn fremur heyrast raddir um að við eigum að vanda okkur, læra af reynslu annarra og fara að með gát, að náttúran eigi að njóta vafans. Allt eru þetta heilræði sem ég get tekið undir.

Ég þarf ekki að fjölyrða um þann darraðardans sem hófst þegar úrskurður barst frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála á dögunum og hvaða áhrif hann hefur haft á samfélögin fyrir vestan. Þar hafa væntingar staðið til upprisu samfélaganna og uppbyggingar á atvinnulífi. 200 manns á sunnanverðum Vestfjörðum starfa beint við fiskeldi og líklega 100 við afleidd störf. Þá erum við að tala um rúmlega 400 manns þegar við teljum hverja þetta snertir. Ég ætla að láta þingheimi eftir að sjá hvað þær langþráðu væntingar sem dofnað hafa við hvern hiksta í kerfinu undanfarna daga þýða fyrir samfélögin.

Það rekur tíðum þótt róið sé öllum árum. Þegar kerfi sem við stjórnmálamenn höfum skapað hættir að virka þarf að bregðast við. Því vil ég beina máli mínu til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi starfsleyfi tveggja fiskeldisfyrirtækja sem eru með laxeldi í sjókví á Vestfjörðum. Nú er það á valdi hæstv. umhverfisráðherra að gefa út starfsleyfi til bráðabirgða til að tryggja starfsemi á meðan þessi mál eru að komast í fastan farveg.

Hyggst hæstv. umhverfisráðherra vinna að því að starfsleyfi verði gefin út til bráðabirgða? Hvenær má vænta þeirra? Og í annan stað: Hver er afstaða hæstv. umhverfisráðherra til uppbyggingar laxeldis hér á landi og hvaða umgjörð sér ráðherrann fyrir sér um þá starfsemi?



[14:17]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Í umræddum málum sem þingmaðurinn kom inn á og fallið hafa úrskurðir um á síðustu vikum er í rauninni um að ræða tvenns konar löggjöf. Önnur snýr að því ráðuneyti sem ég stýri og hefur með starfsleyfin að gera líkt og fram kom.

Hvað varðar þá löggjöf sem heyrir undir mitt ráðuneyti, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, er þar kveðið á um að hægt sé að sækja um undanþágu frá starfsleyfi. Þetta er í rauninni úrræði sem m.a. úrskurðarnefndin benti á í úrskurði sínum sl. föstudag sem gæti mögulega komið til greina fyrir fyrirtækin að sækja um í þeirri stöðu sem upp er komin.

Ég vil gjarnan greina frá því að fundur var í gær hjá Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og Matvælastofnun með framkvæmdaraðilunum þar sem farið var yfir stöðu mála og það er í rauninni hlutverk Umhverfisstofnunar að leiðbeina fyrirtækjunum um það hver geti verið næstu skref, ræða við þau um hvaða valkostir eru uppi.

Ég hef ekki fengið inn á borð til mín, það var a.m.k. ekki komið áðan, umsókn um undanþágu. Það er því erfitt að svara því til og auðvitað get ég ekki svarað því hvernig slíkt færi en bent hefur verið á að tíminn sem svona tæki gæti verið tvær til þrjár vikur eða eitthvað slíkt. Ég held að ég verði að svara um afstöðu mína og umgjörðina í svari mínu á eftir til hv. þingmanns.



[14:19]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og hlakka til að heyra svarið við síðari spurningunni.

Það er orðið svolítið þröngt um þegar fyrirtæki í atvinnustarfsemi þurfa að hafa lífrænt leyfi í gangi sem vaknar þegar dómstólar stíga niður fæti. Þetta getur verið mjög erfitt eins og hefur verið komið inn á og ég hvet umhverfisráðherra til að vinna hratt að þessu.

Ég hlakka til að heyra seinna svarið.



[14:20]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vinnur sá ráðherra sem hér stendur eftir stjórnarsáttmálanum þar sem kveðið er á um, ef ég man þetta nokkurn veginn rétt, að það beri að vinna að uppbyggingu fiskeldis þannig að það samræmist sem mest umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum. Ég tel að við þurfum að þróa fiskeldið okkar meira með aðferðum sem hafa minni áhrif á umhverfið. Þar hef ég sérstaklega í huga villta laxastofna úti um allt land og tel að til framtíðar þurfum við að stefna að því að geta verið með fleiri aðferðir, þróa geldfiskeldi, þróa eldi á landi, þróa eldi sem mögulega er í lokuðum sjókvíum, en það tekur allt saman tíma. Þetta er langtímaþróun sem ég tel að við eigum að horfa meira til þannig að við getum raunverulega sagt með stolti að okkar fiskeldi sé að þróast í átt að því sjálfbærasta sem hægt er í okkar ágæta landi.