149. löggjafarþing — 18. fundur
 11. október 2018.
geðheilbrigðismál og réttindi fatlaðs fólks.

[10:33]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Yfirskrift alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins sem haldinn var í gær var: Geðheilsa ungs fólks á umbrotatímum. Þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar í geðheilbrigðismálum síðustu áratugi finnast brotalamir víða og of mörgu ungu fólki á Íslandi líður ekki vel.

Samkvæmt nýjustu rannsóknum embættis landlæknis hafa 7% drengja í framhaldsskólum og 12% stúlkna reynt sjálfsvíg — ekki íhugað það, hæstv. ráðherra, heldur gert tilraun til að enda líf sitt. Þetta eru sennilega í kringum 2.000 ungmenni. Um þriðjungur háskólanema mælist auk þess með þunglyndi og sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök karlmanna undir 25 ára aldri á Íslandi.

Öryrkjum með geðgreiningu sem aðalgreiningu fjölgar líka hratt og eru nú um 38% af öllum öryrkjum. Við þurfum að standa með þessu fólki. Unga fólkinu er sífellt sagt að leita sér hjálpar en þá þurfum við líka að tryggja að það sé auðvelt og aðgengilegt og að hjálpin sé sannarlega til staðar.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvaða áform eru uppi varðandi það að gera geðheilbrigðisþjónustu aðgengilegri og ódýrari, sérstaklega fyrir unga fólkið okkar? Ég spyr hvort það hafi verið rannsakað eða greint hvað það myndi spara samfélaginu að niðurgreiða sálfræðiþjónustu, sér í lagi með hliðsjón af hraðri fjölgun öryrkja með geðgreiningar. Að lokum langar mig að heyra hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði að veruleika eins og hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, hefur lagt fyrir þingið.



[10:35]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á þeim enda þar sem hv. þingmaður kláraði og þakka honum fyrir spurninguna. Varðandi lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks finnst mér mikilvægt í pólitík almennt að við séum þannig innstillt að einu gildi hvaðan góðar hugmyndir koma. Þar að auki er sérstaklega um það fjallað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að tryggja bæði lögfestingu og framkvæmd samningsins. Ég tel að frumkvæði hv. þingmanns sé gott og mikilvægt og mun leggja lóð mitt á þær vogarskálar að Alþingi klári málið í þessari lotu. Ég á ekki sæti í velferðarnefnd en er með opin tengsl þangað inn.

Virðulegi forseti. Varðandi geðheilbrigðismálin almennt kom ég heim í gærkvöldi af tveggja daga ráðstefnu sem haldin var í London að frumkvæði bresku ríkisstjórnarinnar en með aðkomu OECD og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar undir yfirskriftinni Jöfnuður í geðheilbrigðismálum á 21. öld. Þangað komu fulltrúar 60 ríkja og óhætt að segja að Ísland stendur vel í samanburði við ríki sem eru að vinna sig út úr þeirri stöðu að fólk með geðsjúkdóma sé tjóðrað eða lokað inni í búrum. Samt þurfum við að gera betur og við stefnum öll í þá átt að mannréttindi séu meira höfð að leiðarljósi í allri geðheilbrigðisþjónustu, það skiptir gríðarlega miklu máli, og að við færum geðheilbrigðisþjónustuna nær fólkinu, ef svo má segja, með því að auka teymisvinnu í heilsugæslunni og aðkomu sálfræðinga í heilsugæslu. Það gerum við núna í samræmi við geðheilbrigðisáætlun sem Alþingi hefur samþykkt með sérstakar 650 millj. kr. eyrnamerktar þeirri styrkingu heilsugæslunnar í tillögu til fjárlaga.



[10:38]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum var sagt að auka aðgengi sjúklinga að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu. 650 millj. kr. heildaraukning í málaflokkinn er einfaldlega ekki nóg til að stórbæta aðgengi, fjölga sálfræðingum á heilsugæslum, menntastofnunum og í fangelsum, eins og kallað hefur verið eftir, eða niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Mál sem eru eins alvarleg og geðheilbrigði ungs fólks mega ekki verða flokkspólitísk. Samfylkingin, og örugglega allir hinir flokkarnir hér inni, mun koma af fullum þunga að því að mæta þeirri þörf sem er raunverulega til staðar í samfélaginu. Við skulum a.m.k. sýna, eins og við gerðum fyrir tveimur, þremur dögum þegar við rusluðum í gegnum þingið umdeildu lagafrumvarpi, að við getum mætt einhverju alvarlegasta vandamáli sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir. Það mun ekki standa á okkur, hæstv. ráðherra. Ráðherra má alveg leggja til meiri peninga og við munum samþykkja þá. (IngS: Og við líka.)



[10:39]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Aðeins aftur að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það hlýtur að vera okkar sameiginlega markmið að framkvæmd samningsins sé tryggð og þær leiðir sem bestar eru til þess að tryggja það eru þær leiðir sem við viljum fara. Bara þannig að það sé sagt. Það eru auðvitað ýmsar pælingar, ef svo má að orði komast, í þeim efnum, en ég lít svo á að tillaga hv. þingmanns snúist fyrst og fremst um það að tryggja framkvæmd samningsins í samfélaginu öllu.

Hins vegar spyr hv. þingmaður um sjálfsvígsmálin. Nú var það að gerast í Bretlandi að verið var að setja sérstakan ráðherra sem átti bara að fjalla um sjálfsvígsmál vegna þess hversu alvarlegur sá hluti geðheilbrigðismálanna er. Á Íslandi höfum við sjálfsvígsáætlun, þ.e. við höfum fengið niðurstöðu frá mjög öflugum starfshópi sem vann þær tillögur til mín. Í stuttu máli sagt hef ég fallist á allar þær tillögur sem þar hafa komið fram (Forseti hringir.) og þær má finna á vef ráðuneytisins. Ég hef þegar reynt eins og ég get að gefa þeim tillögum vængi með fjármagni.