149. löggjafarþing — 18. fundur
 11. október 2018.
námskeið um uppeldi barna.

[10:41]
Una María Óskarsdóttir (M):

Herra forseti. Umræða um uppeldi barna mætti vera meiri. Uppeldishlutverkið er þó eitt erfiðasta hlutverk okkar í lífinu og ég veit að margir foreldrar hafa kallað á aukna fræðslu um góða uppeldishætti. Nýlega heyrði ég viðtal á RÚV við Baldvin Z., höfund myndarinnar Lof mér að falla, þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég ætla að standa mig vel sem pabbi.“

Það verður að segjast eins og er að uppeldi og samskipti foreldra og barna, sem og samskipti barna við aðrar fyrirmyndir, svo sem íþróttaþjálfara, flokksstjóra í vinnu o.s.frv., hefur því miður ekki borið mikið á góma þegar rætt hefur verið um vaxandi vanda vímuefnaneyslu unglinga, svo ekki sé talað um fjölmiðlun, tónlistarmyndbönd og áhrif vinahópsins. Þó fjallaði tímaritið Ármann á Alþingi árið 1829 um uppeldi þess tíma. Bóndi einn lýsir uppeldi barna sinna og segir, með leyfi forseta:

„Þegar þau hafa farið að stálpast og verða ódæl þá hef ég barið þau eins og fisk svo það er ekki mér að kenna að þau eru bæði þrá og stórlynd.“

Nú er sem betur fer öldin önnur, ég ætla að vona það, og hafa rannsakendur nútímans greint uppeldisaðferðir foreldra í þrjá flokka: Leiðandi foreldrar, skipandi og refsandi foreldrar, eftirlátir og afskiptalausir foreldrar. Í rannsóknum á uppeldisháttum foreldra hefur verið greint hvaða leiðir eru taldar skipta miklu máli til að draga úr líkum á vímuefnaneyslu, depurð, hegðunarvandkvæðum og hvaða liðir geti orðið til þess að styrkja jákvæða sjálfsmynd, auka samskiptahæfni, efla trú á eigin færni og þar með efla góða líðan og geðheilsu.

Hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er einmitt þess vegna sem ein af aðgerðum lýðheilsustefnu, sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, hóf vinnu við með stofnun ráðherranefndar um lýðheilsu og velferðarráðuneytið birti 2016, er um uppeldi, að öllum verðandi foreldrum og foreldrum barna sex ára og yngri gefist kostur á að sækja uppeldisnámskeið við alla ung- og smábarnavernd hringinn í kringum landið. Námskeiðunum skuli komið á fyrir árslok 2018.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ætlun sé að standa við þann þátt stefnunnar sem lýtur að uppeldisnámskeiðum fyrir foreldra.



[10:43]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég skrifaði niður eftir henni þessar þrjár tegundir af uppalendum, leiðandi, skipandi og eftirlátssamir. Ég held að þetta séu líka þrjár tegundir af stjórnvöldum ef út í það er farið, vegna þess að besta leiðin til þess að koma á breytingum, hvort sem það er í uppeldi eða pólitík, er að ganga á undan með góðu fordæmi og leiðandi hætti.

Það er ekki bara í lýðheilsustefnunni heldur líka í geðheilbrigðisáætlun sem fjallað er sérstaklega um uppeldi og menntun og aðkomu að því að gera ungt fólk læsara á tilfinningar sínar og líðan o.s.frv., en um leið að styðja foreldra og skóla — vegna þess að það þarf þorp til þess að ala upp barn — í að stuðla að því, eins og nokkurs er kostur, að börn séu læs á eigin líðan, geti tjáð hana o.s.frv. og foreldrar fái þann stuðning sem þarf í að halda utan um sitt fólk.

Hvað varðar nákvæmlega þessa aðgerð sem hv. þingmaður spyr um er það nokkuð sem ég þarf að skoða því að hún er væntanlega í samstarfi fleiri ráðuneyta. Þó að lýðheilsuáætlun sé á vettvangi embættis landlæknis, samkvæmt skilgreiningu, þá er þetta, eins og gefur að skilja, sameiginlegt verkefni. Að hluta til erum við að sjá um þessi mál í tengslum við mæðravernd. Nú er sérstakt áherslumál í formennskuáætlun ráðherranefndar Norðurlandaráðs, Fyrstu þúsund dagarnir í lífinu, þar sem lögð er áhersla á að halda utan um fyrstu þúsund daga barnsins, fyrstu þrjú árin í raun og veru, og uppeldisskilyrði og utanumhald þeirra, þar með áherslu á vettvangi Norðurlandanna undir forystu Íslands.



[10:45]
Una María Óskarsdóttir (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Námskeiðin sem um ræðir, og eru í lýðheilsustefnu, hafa verið við lýði innan heilsugæslunnar í 15–20 ár. Það eina sem þarf að gera er að koma þeim á úti um allt land. Uppeldi barna og ungmenna er áhyggjuefni. Við sjáum það næstum daglega á yfirlýsingum í blöðum og af fréttum sem draga upp sláandi mynd af mannlífi sem þarf að bæta. Sjá má fyrirsagnir af þessu tagi: Týndu börnin í verra ástandi en áður. Aldrei fleiri mál tengd heimilisofbeldi. Tugir gerenda leita til Heimilisfriðar. Vitnað er í geranda þar sem fram kemur að hann hefur kannski einu sinni beitt ofbeldi en vill ekki vera eins og mamma sín eða pabbi. Í gær sagði RÚV svo frá rannsókn sem benti til þess að ofbeldi, vanræksla og misnotkun gæti haft áhrif á sjúkdóma síðar á lífsleiðinni.

Þessar fréttir segja sína sögu um að bregðast þurfi við og koma í veg fyrir að börn og unglingar lendi í erfiðleikum á lífsleiðinni.

Það er margt sem getur haft áhrif á að börn og ungmenni leiðist ekki út í neyslu fíkniefna og fíknilyfja og rétt að undirstrika það. (Forseti hringir.) Það þurfa allir að koma saman og hjálpast að við að vinna að því verkefni. Vegna þess hef ég undirbúið málþing (Forseti hringir.) nk. mánudagskvöld í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar þar sem yfirskriftin er: Forðum ungmennum frá fíkniefnum. — Hvað getum við gert? Hvað getum við lært?

Verið velkomin.



[10:47]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar er vettvangur sem varð til nýlega og snýst í raun og veru um að tryggja að sameiginleg þekking og þróun heilsugæslunnar á landsvísu nái út í alla kima heilsugæslunnar, ekki síst úti um land. Ég treysti því að í þeim anda sem við höfum verið að vinna, og ég tek undir það sem hefur verið sagt áður um að auðvitað eigi slík vinna að vera þvert á alla pólitíska flokka, að bæta forvarnir og lýðheilsu og auk þess leggja aukið fjármagn í geðheilbrigðismálin almennt, verði það augljóslega partur af því sem þróunarmiðstöðin á að sjá til þess að verði gert, þ.e. tryggja að sú þekking og aðferðafræði sé við lýði úti um allt land. En ég hef ástæðu til að ætla að þau mál séu ekki aðeins unnin á höfuðborgarsvæðinu heldur sé verið að tryggja þau víðar um land. Mér finnst fyrirspurn hv. þingmanns gefa tilefni til að ég skoði það sérstaklega.