149. löggjafarþing — 18. fundur
 11. október 2018.
meðferð á erlendu vinnuafli.

[10:49]
Snæbjörn Brynjarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýverið sáum við sennilega öll fréttaþáttinn Kveik og fundum fyrir mikilli samúð með fórnarlömbum í þeim þætti sem hafa orðið fyrir svindli og þjófnaði. Auðvitað finnst okkur það öllum ólíðandi. Ég beini því þeirri spurningu minni til hæstv. félagsmálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, hvort við þurfum ekki að fara að gera eitthvað í því. Ég veit að hann hefur sett fram starfshóp en eins og formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, kom inn á í umræðum um störf þingsins í gær þarf meira til. Þess vegna velti ég því upp hvort við ættum ekki að setja í refsilöggjöfina harðari viðurlög þegar stolið er af fólki. Það er náttúrlega þjófnaður þegar kjarasamningar eru ekki virtir og fólk fær ekki þau laun sem við höfum samið um handa þeim. Þurfum við ekki að taka harðar á því? Verkalýðshreyfingin hefur m.a. kallað eftir því að við grípum inn í það á einhvern hátt, að hún hafi einhver tæki og tól önnur en að tuða í fólki um að greiða laun. Það verður svo oft eina niðurstaðan að fólk fær einhvern hluta af því sem það á inni og síðan ekkert meir.



[10:50]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og eins fyrir góðar umræður á sameiginlegum fundi velferðarnefndar og atvinnuveganefndar í gær.

Eins og komið hefur fram í málinu og kom fram í máli hjá hv. þingmanni erum við í samtali, m.a. við verkalýðshreyfinguna og við aðila vinnumarkaðar, báðum megin, um að gera breytingar í þessa veru. Í þeim tilgangi boðum við til formlegs samtals milli þessara aðila þar sem m.a. á að ráðast í samþættar aðgerðir til aukins eftirlits.

Þarna koma fleiri aðilar að; þarna kemur lögreglan að, þarna kemur atvinnuvegaráðuneytið, þarna kemur fjármálaráðuneytið og fleiri aðilar að. Hluti af þeirri vinnu er að ræða hvort ekki sé ástæða til þess að skerpa á löggjöf meira en gert hefur verið vegna þess að við samþykktum lög síðasta sumar sem sneru að starfsmannaleigum og keðjuábyrgð. Hluti af þessu er líka að ræða hvort ekki sé ástæða til þess að grípa til harðari viðurlaga við brotum sem þessum.

Hæstv. iðnaðar- og ferðamálaráðherra viðraði ákveðnar hugmyndir í Morgunblaðsgrein um síðustu helgi sem sneri m.a. að byggingarmarkaðnum. Verkalýðshreyfingin hefur ákveðnar hugmyndir og ég held að með samtali þarna á milli séum við að ræða til hvaða aðgerða eigi að grípa og með hvaða hætti. Ég finn það og fann það á umræðum bæði í velferðarnefnd og atvinnuveganefnd í gær og í þingsal og alls staðar úti í samfélaginu að það er vilji til þess að við gerum það. Þá eigum við að gera það og að því vinnur ríkisstjórnin en í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Við þurfum að vera meðvituð um með hvaða hætti við ætlum að gera það, hvaða aðgerðir við ætlum að ráðast í. Það er þess vegna sem þessi vinna var sett af stað fyrir nokkrum vikum. Meiningin er að út úr því komi tillögur sem leitt geta til breytinga á lögum.



[10:52]
Snæbjörn Brynjarsson (P):

Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Kannski er ég svolítið á persónulegum nótum hérna, en mig langar að vita hvað hans eigin réttlætiskennd segir honum, hvort ekki eigi að fylgja strangar og harðar refsingar þegar verið er að níðast á þeim sem hafa litlar varnir.

Svo er ég aftur á persónulegum nótum. Ég hef sjálfur reynslu af því að vinna sem farandverkamaður. Ég vann sem farandverkamaður í frönskum landbúnaði um skeið. Það var svolítið magnað að fylgjast með eftirlitinu þar því að vinnueftirlitið í Frakklandi er meira að segja með þyrlur. Spáum í hvernig það væri ef Vinnueftirlitið gæti flogið um á þyrlu í svona neyðartilvikum.

Hvað segir hans eigin réttlætiskennd? Þarf harðari refsingar?



[10:53]
félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að það þarf harðari viðurlög þegar menn gerast ítrekað brotlegir eins og við sáum í þessum sjónvarpsþætti. Það hef ég sagt eftir þennan þátt. Það er ástæðan m.a. fyrir því að ég lagði þessa tillögu fram í ríkisstjórn fyrir að verða fjórum vikum síðan. Við eigum að grípa inn í þegar svona er. Það er þess vegna sem þessi tillaga var lögð fram. Það er þess vegna sem við erum að ráðast í þessa vegferð. Þetta á ekki að líðast og það hef ég alls staðar sagt. Ég veit að ég og hv. þingmaður erum sammála um það.

Ég vonast til þess að út úr þessu geti komið haldbærar tillögur sem við getum síðan sameinast um hér á Alþingi að setja í lög þannig að við getum eytt þessum vanda. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og fyrir eftirfylgnina í þessu máli sem er bara af hinu góða og er gríðarlega mikilvæg.