149. löggjafarþing — 18. fundur
 11. október 2018.
um fundarstjórn.

nefndarfundur á þingfundartíma.

[16:25]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Hér hafa orðið undarlegir atburðir. Ég er varamaður í umhverfis- og samgöngunefnd og ég fékk fundarboð í dag um að mæta á fund nefndarinnar strax að loknum þingfundi. Ég svaraði því fundarboði og sagðist mundu mæta. Síðan virðist það hafa gerst að boðað hefur verið til annars fundar í nefndinni, um samgöngumálin, strax að lokinni umræðu hér. Ég fékk ekki fundarboð þess efnis þannig að ég leyfi mér að halda því fram að fundur nefndarinnar hafi verið ólögmætur og að engu hafandi.



[16:26]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Um sama mál: Klukkan 15.33 fæ ég tölvupóst sem áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, um að búið sé að breyta fundartíma fundar sem vera átti eftir þingfundinn, yfir á þingfundartíma. Varaformaður nefndarinnar óskar þess að halda fund á þingfundartíma. Sex mínútum síðar kemur fundarboðið um þann fundartíma. Það er mjög skýrt í þingskapalögum að það þarf bara einn til að segja: nei, ég vil ekki að það sé fundur á þingfundartíma. Ég hef ekkert um það að segja, ég er áheyrnarfulltrúi. En fundurinn var haldinn. Héðan ruku fimm út og á fundinn. Eftir því sem mér skilst var ekki einu sinni nefndarritari á þeim fundi, hann hvarf eitthvað í burtu. (Gripið fram í: Jú, jú, það var ritari.) Allt í lagi, hann var þar. Það er ágætt.

En það eru ákveðnar sögusagnir í gangi um hvað fór fram þarna og hverjir voru á þessum fundi. Það væri ágætt ef þeir þingmenn sem voru á þessum fundi myndu koma og upplýsa okkur aðeins meira um hvernig þessi fundur fór fram og af hverju ekki allir (Forseti hringir.) nefndarmenn fengu andmælarétt um hvort hafa ætti nefndarfund á þingfundartíma.



[16:27]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að taka undir með hv. þingmönnum. Það kom alveg skýrt fram og er hér fest á filmu að ekki var samþykki nefndarmanna fyrir því að halda þennan nefndarfund á þingfundartíma, hreint ekki. Í 20. gr. laga um þingsköp stendur að nefndarfundi skuli ekki halda þegar þingfundur stendur yfir.

„Frá þessu má þó víkja ef nefndarmenn samþykkja og forseti hreyfir ekki andmælum.“

Hér sátu nefndarmenn inni, m.a. úr stjórnarmeirihluta, og hlýddu á hæstv. samgönguráðherra kynna mál, eins og okkur ber að gera. Við erum hér í umhverfis- og samgöngunefnd og okkur ber að hlusta á þegar mál sem berast okkur eru kynnt. En því miður virðist svo vera sem fyrsta varaformanni, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, hafi legið svona óskaplega á að hann setti fund þrátt fyrir mótmæli fjölda nefndarmanna. Ég get ekki séð að þessi nefndarfundur, eða meinti nefndarfundur ætti maður kannski að segja, sé löglegur.



[16:29]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Fundarboðið sem ég þó fékk ber þess skýr merki að ætlunin var allan tímann að hafa fundinn að loknum þingfundi í dag. Það ber dagskrá fundarins einfaldlega með sér því að ekki hafði enn verið mælt fyrir þriðja málinu sem var á dagskrá þess fundar sem ég var boðaður til, hvað þá að því hafi verið vísað til nefndarinnar. Allt þetta mál er með þvílíkum ólíkindum að ég held að þingið og forseti verði að grípa hér í taumana.



[16:30]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að útskýra aðeins af hverju þetta er alvarlegt. Þetta virðist líta þannig út að hægt sé að boða nefndarfund á þingfundartíma, einhver meiri hluti í nefndinni geti bara mætt á hann, afgreitt mál og búið og basta. Við vitum ekkert hvaða ákvarðanir voru teknar þarna. Væntanlega voru teknar alveg fínar ákvarðanir samkvæmt dagskrá, en það er líka dagskrárliðurinn Önnur mál þar sem ýmislegt annað hefði getað komið upp á.

Almennt séð skiptir formið rosalega miklu máli. Ég vona að þingmenn átti sig á því hvers konar fordæmi þetta er í raun. Það á ekki að þurfa að segja mikið meira um það til þess að skilja hversu alvarlegt þetta er.



[16:31]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil upplýsa að ég hef setið tvo fundi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd í dag. Á nefndarfundinum í morgun tók enginn til máls, nema undir liðnum um önnur mál, og þar var aðeins rætt um það hvort nefndarmenn væru sammála því að koma saman í dag, að loknum þingfundi eða fyrr, til þess að samþykkja samgönguáætlun út til umsagnar svo að hún kæmist í lýðræðislegt umsagnarferli. Þá voru áhöld um hvort það mál sem hæstv. samgönguráðherra var að flytja nú rétt áðan færi til umhverfis- og samgöngunefndar eða atvinnuveganefndar. Það var samdóma álit nefndarmanna — í ljósi góðrar samvinnu, eins og gerist nú á mörgum vinnustöðum, en getur oft verið erfitt hér — að ef málið færi til hv. atvinnuveganefndar myndum við hafa fundinn fyrr. Þannig var umræðan, en enginn þeirra sem mættir voru á þann fund hefur tekið til máls hér. Fundur fór fram, tók eina mínútu og tími gefst þar til á morgun að bæta við umsagnaraðilum.



[16:32]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Svo að því sé haldið til haga var ég stödd á öðrum fundi fastanefndar Alþingis en sendi varamann í minn stað sem var viðstaddur þennan fund og óskaði eftir því að ekki yrði byrjað á fundinum, sem haldinn var í flýti eins og um væri að ræða þvílíkt flýtimeðferðarmál hér í þinginu að enginn tími mætti fara til spillis. Hann óskaði eftir því að það yrði beðið stundarkorn svo að nefndarmenn gætu hlýtt á hæstv. ráðherra kynna þau mál sem eru að koma inn í nefndina til meðferðar. (Gripið fram í.) Það eru hér tvö mál á dagskrá. Annað þeirra á að fara til umhverfis- og samgöngunefndar. Meira að segja er það þannig að í fundarboði, þar sem er talað um að funda eftir þingfund, stendur á dagskránni að við séum að fara að fjalla um það mál sem átti eftir að mæla fyrir eftir samgönguáætlun. (Forseti hringir.) Við getum alveg sleppt því að vera að æsa okkur hérna yfir því að það sé ekki góð samvinna. Við óskuðum (Forseti hringir.) eftir örstuttri bið svo að við gætum fengið að hlusta á það (Forseti hringir.) sem fram fer hér til að við gætum ástundað fagleg vinnubrögð og farið eftir þingskapalögum. Getum við beðið um smá virðingu fyrir þingskapalögum, hv. þingmaður?



[16:34]
Forseti (Bryndís Haraldsdóttir):

Virðulegur forseti vonar að við virðum þingskapalög í hvívetna og æskir þess að hv. umhverfis- og samgöngunefnd nái sátt um hvað gerðist raunverulega á þessum fundum.