149. löggjafarþing — 19. fundur
 15. október 2018.
dómur um innflutning á hráu kjöti.

[15:12]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. EFTA-dómstóllinn kvað upp dóm gegn Íslandi þann 14. nóvember 2017 þar sem ákvæði íslenskra laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og varnir gegn því að sýktar afurðir berist til landsins séu brot á tilskipun Evrópusambandsins. Mál þetta er gjarnan nefnt hráakjötsmálið og felst í stuttu máli í því að bann við innflutningi á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins.

Hingað til hefur verið óheimilt að flytja inn kjöt til landsins sem ekki hefur verið fryst. Bannið kom á óvart þar sem heimild er í 13. gr. samningsins til að vernda búfé og lýðheilsu þar sem hætta væri á að smit bærist til landsins með hráu kjöti.

Eftir EFTA-dóminn lögðu Bændasamtök Íslands áherslu á að viðræður yrðu teknar upp við Evrópusambandið til að leita leiða til að viðhalda frystiskyldunni.

Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað fór fram á fundum íslenskra embættismanna og ESB út af þessum EFTA-dómi? Hvaða viðræðum var leitað eftir? Hvert var markmið þeirra? Munu þær halda áfram?

Í síðustu viku dæmdi Hæstiréttur Íslands að íslenska ríkið hefði brotið gegn skuldbindingum sínum gagnvart EES-samningnum með því að viðhalda banni við innflutningi á hráu kjöti til landsins. Það sem vekur sérstaka athygli við dóminn er hversu stuttur hann er. Dómurinn víkur í engu að mikilvægri röksemdafærslu ríkisins, t.d. hvað varðar dýrasjúkdóma.

Ég vil því spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra: Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessum dómi? Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér með framhaldið? Mun ráðherra nú leggja fram frumvarp sem heimilar allan innflutning á hráum matvörum og öðrum dýraafurðum, innmat, gærum o.s.frv., og stefna þar með okkar hreina landbúnaði í hættu?



[15:14]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina sem var margþætt. Haldnir hafa verið tveir formlegir fundir með framkvæmdastjórum Evrópusambandsins vegna þessa máls. Þeir voru haldnir í apríl á þessu ári. Við ráðgerum að óska eftir frekari fundum þar.

Það er rétt að fyrir helgi féll dómur Hæstaréttar sem er tiltölulega stuttur og einfaldur. Hann staðfestir í raun héraðsdóminn sem áður hafði fallið og er sömuleiðis samhljóða niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Það er allt á einn veg.

Þjóðréttarleg skuldbinding liggur fyrir af hálfu Íslands. Um það var samið árið 2007 og afstaða Evrópusambandsins er tiltölulega skýr í þessum efnum og afstaða dómstóla sömuleiðis.

Hæstiréttur nefnir það t.d. í sínum dómi að ekki sé unnt að vísa til markmiðsins um vernd lífs og heilsu manna og dýra í viðskiptum innan EES eins og það birtist í 13. gr. EES-samningsins, sem hv. þingmaður nefndi áðan.

Þegar hv. þingmaður spyr hvað taki við, hvort ráðherrann muni leggja fram frumvarp um þessi efni, þá segi ég: Já, á þingmálaskrá minni er gert ráð fyrir frumvarpi í febrúar á næsta ári þar sem tekið er á niðurstöðu dómsmálanna. Ég get ekki svarað neinu til um það á þessari stundu hvernig það mun líta út, það er enn í smíðum.

Ýmsar aðgerðir hanga einnig við þetta mál, aðgerðir sem grípa þarf til hvort heldur dómurinn verður fullnustaður með einum eða öðrum hætti eða ekki. Ég skal reyna að koma að þeim atriðum í síðara svari mínu.



[15:17]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það má í raun segja að 13. gr. EES-samningsins, sem hér hefur verið nefnd, sem er ætluð til að vernda búfé og lýðheilsu, hafi í raun verið felld úr gildi með dómi Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins.

Auðvitað getur það ekki gerst með þeim hætti. Það verður að gerast við samningaborð. Það verður að gerast í samningum við Evrópusambandið. Þá spyr ég: Ætlar ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherra að taka málið upp? Ég held að mjög mikilvægt sé að gera það.

Ég vil líka víkja að öðru í þessu sambandi: Hvaða kröfur verða gerðar til innlendra framleiðenda ef niðurstaðan verður sú að hér mun flæða inn hrátt kjöt? Nú hef ég t.d. áreiðanlegar heimildir fyrir því að í Evrópusambandinu er einungis skimað fyrir tveimur tegundum af salmonellu í alifuglum en hér á landi er skimað fyrir öllum eða mun fleiri tegundum. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Verða gerðar meiri kröfur hvað varðar innlenda framleiðslu en erlendar afurðir?



[15:18]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég svara því strax að það er óeðlilegt að við séum að gera stífari kröfur á innlenda framleiðslu en erlenda. Það er engin skynsemi í slíku. Við eigum einfaldlega að gera sömu kröfur til okkar framleiðslu og við gerum til annarra. Það er mjög einfalt í mínum huga.

Ég bendi hv. þingmanni á það, þegar hann segir að 13. gr. hafi með þessum dómi verið felld úr gildi, að svo er ekki. Íslensk stjórnvöld sömdu með þeim hætti sem raun ber vitni og í samningunum 2006 var látið á það reyna til hins ýtrasta að fá að halda inni kröfunni frá Íslandi um bann við innflutningi á hráu kjöti. Evrópusambandið féllst ekki á það árið 2006. Þar af leiðandi var gerður samningur sem hljóðaði upp á annað. Það er í raun sú samningsskuldbinding sem við sætum hér nú, þ.e. hún er dæmd ólöglega innleidd af íslenskum löggjafa, að það samrýmist ekki þeim (Forseti hringir.) samningi sem íslensk stjórnvöld gerðu, og var leitt til niðurstöðu árið 2006/2007.